Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 857  —  517. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um reynslulausn.

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jónína Bjartmarz,


Guðrún Ögmundsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar skv. 40.–42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Kannað verði m.a. hversu algengt er að beita því úrræði, hvernig háttað er eftirliti með því að skilyrði reynslulausnar séu haldin og hversu mörg brot eru framin af einstaklingum á reynslulausn. Jafnframt verði sérstaklega kannað hvort ástæða sé til þess að breyta framkvæmd reynslulausnar á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus til reynslu í stað Fangelsismálastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga.

Greinargerð.


    Reynslulausn er stjórnsýsluákvörðun sem fólgin er í því að fangi er látinn laus til reynslu þegar hann hefur afplánað tiltekinn hluta dæmds refsitíma. Samkvæmt heimild í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga getur Fangelsismálastofnun ríkisins þannig ákveðið að fangi skuli látinn laus til reynslu þegar hann hefur afplánað 2/ 3hluta refsitímans. Reynslan hefur verið sú að nær allir fangar fá reynslulausn ef þeir uppfylla skilyrði 40. gr. almennra hegningarlaga og eiga ekki mál í refsivörslukerfinu, þ.e. eiga ekki ódæmt í málum sem eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum á þeim tíma þegar umsóknir þeirra um reynslulausn koma til afgreiðslu.
    Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er hér á landi byggt á þrískiptingu ríkisvaldsins. Þannig fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið og dómendur fara með dómsvaldið. Hugsunin á bak við þrígreiningu ríkisvaldsins er sú að hver aðili fari með sína grein þess. Með 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga á sér hins vegar stað framsal valds frá dómsvaldi til framkvæmdarvalds. Þar er stjórnsýsluaðila falið að endurskoða ákvörðun dóms og breyta dómsorði sem upp hefur verið kveðið hjá innlendum dómstóli.
    Framsal valds á milli þriggja þátta ríkisvaldsins er í ósamræmi við það sem stjórnskipan landsins byggist á. Í framkvæmd hefur verið reynt að sporna við slíku framsali eftir fremsta megni þó svo að hægt sé að réttlæta slíkt í einhverjum tilvikum. Er hér sérstaklega átt við skýrt afmarkaðar og lögákveðnar reglugerðarheimildir ráðherra, þar sem erfitt er í framkvæmd að breyta lögum í hvert sinn sem útfæra þarf nánar tilgreindar reglur í gildandi löggjöf.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að kannað verði gaumgæfilega hvort rétt sé að takmarka það framsal valds sem á sér stað í 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga. Þannig má færa sterk rök fyrir því að óeðlilegt sé í ljósi þess sem að framan greinir að framkvæmdarvaldshafi geti breytt uppkveðnum dómi.
    Jafnframt telja flutningsmenn nauðsynlegt að fram fari nákvæm könnun á reynslulausn í heild sinni sem refsigæsluúrræði og sérstaklega verði þá hugað að þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd, ekki síst í ljósi þeirra ofbeldisbrota sem framin hafa verið undanfarið.