Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1080  —  664. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
    Í tilskipun 2001/24/EB er fjallað um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Með endurskipulagningu í tilskipuninni er átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóla og er ætlað að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu lánastofnunar, svo sem greiðslustöðvun eða nauðasamninga, en með slitum lánastofnunar er átt við sameiginlega aðgerð þar sem eignum stofnunarinnar er komið í verð og verðmætum hennar dreift á milli lánardrottna, hluthafa eða eigenda, hvort sem er af frjálsum vilja eða þvingað, svo sem gjaldþrotaskipti.
    Tilskipunin felur í sér að úrskurður dómstóls um heimild lánastofnunar, sem rekur útibú á Evrópska efnahagssvæðinu, til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða um slit hennar hefur áhrif á öllu svæðinu, þ.e. tekur bæði til lánastofnunarinnar og útibúa hennar. Jafnframt er gert ráð fyrir að löggjöf heimaríkis gildi um endurskipulagninguna eða slitin, þ.e. löggjöf þess ríkis þar sem aðalstöðvar lánastofnunarinnar eru og þar sem starfsleyfi hennar er gefið út. Tilskipuninni er þannig ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar annars vegar og útibúa hennar hins vegar.
    Megintilgangur tilskipunarinnar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu varðandi endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana og vissa lágmarkssamræmingu landsregla um þessi atriði. Ekki er þó búist við að gera þurfi verulegar breytingar á íslenskri löggjöf vegna þessa. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til nauðsynlegra lagabreytinga á 130. löggjafarþingi, en undirbúningur að innleiðingu tilskipunarinnar er nýlega hafinn.
    Samkvæmt efni tilskipunarinnar er henni ætlað að koma til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 5. maí 2004.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 167/2002

frá 6. desember 2002

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002 frá 12. júlí 2002 ( 1 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi komi aftan við lið 16b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB) í IX. viðauka við samninginn:

„16c.         32001 L 0024: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana (Stjtíð. EB L 125, 5.5.2001, bls. 15).“


2. gr.

Texti tilskipunar 2001/24/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 7. desember 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 6. desember 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/24/EB

frá 4. apríl 2001

um endurskipulagningu og slit lánastofnana


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti Peningamálastofnunar Evrópu ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í samræmi við markmið sáttmálans er rétt að stuðla að samræmdri þróun og jafnvægi í atvinnulífi alls staðar í bandalaginu með því að afnema allar hömlur á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu í bandalaginu.

     2)      Um leið og þessar hömlur eru afnumdar skal tekið tillit til þeirrar stöðu sem kynni að koma upp ef lánastofnun lendir í erfiðleikum, einkum ef viðkomandi lánastofnun hefur útibú í öðrum aðildarríkjum.

     3)      Þessi tilskipun er hluti af lagaramma bandalagsins sem sniðinn var með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20 mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 5 ). Af þessu leiðir að á meðan þau eru í rekstri mynda lánastofnun og útibú hennar eina stofnun sem er háð eftirliti lögbærra yfirvalda þess ríkis þar sem starfsleyfi, sem gildir alls staðar í bandalaginu, var gefið út.

     4)      Það væri afar óæskilegt að hafna slíkri einingu stofnunar og útibúa hennar þegar nauðsynlegt er að gera endurskipulagningarráðstafanir eða slíta starfseminni.

     5)      Samþykkt tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi ( 6 ), þar sem innleidd er meginreglan um skylduaðild lánastofnana að lánatryggingakerfi í heimaaðildarríki sínu gerir enn ljósari en áður þörfina fyrir gagnkvæma viðurkenningu á endurskipulagningarráðstöfunum og slitameðferð.

     6)      Stjórnvöld og dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis skulu ein hafa vald til þess að ákveða og framkvæma endurskipulagningarráðstafanir sem kveðið er á um í gildandi lögum og venjum í því aðildarríki. Vegna erfiðleikanna samfara því að samræma lög og venjur aðildarríkjanna er nauðsynlegt að koma á gagnkvæmri viðurkenningu aðildarríkjanna á ráðstöfunum sem þau gera hvert og eitt til að koma lánastofnunum, sem það hefur veitt starfsleyfi, aftur í starfshæft ástand.

     7)      Nauðsynlegt er að ábyrgjast að endurskipulagningarráðstafanirnar, sem stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis samþykkja, og ráðstafanir samþykktar af aðilum eða stofnunum sem þessi yfirvöld tilnefna til að annast framkvæmd þessara endurskipulagningarráðstafana, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér möguleika á greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum og hverjar aðrar ráðstafanir sem gætu haft áhrif á gildandi réttindi þriðju aðila, séu í gildi í öllum aðildarríkjum.

     8)      Ekki er nauðsynlegt að þessi tilskipun fjalli um tilteknar ráðstafanir, einkum þær er hafa áhrif á starfsemi innra skipulags lánastofnana eða á réttindi stjórnenda eða hluthafa, til að þær öðlist gildi í aðildarríkjunum að svo miklu leyti sem gildandi lög eru lög heimaríkisins samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar.

     9)      Tilteknar ráðstafanir, einkum þær sem tengjast áframhaldandi uppfyllingu skilyrða fyrir starfsleyfum, eru nú þegar háðar gagnkvæmri viðurkenningu samkvæmt tilskipun 2000/12/EB að svo miklu leyti sem þær hafa ekki áhrif á réttindi þriðju aðila sem voru fyrir hendi áður en þær voru samþykktar.

     10)      Aðilar, sem taka þátt í rekstri innra skipulags lánastofnana sem og stjórnendur og hluthafar í slíkum stofnunum, í þeirri stöðu sem þeir gegna sem slíkri, teljast ekki vera þriðju aðilar hvað þessa tilskipun varðar.

     11)      Nauðsynlegt er að tilkynna þriðju aðilum um framkvæmd endurskipulagningarráðstafana í aðildarríkjum þar sem útibú eru staðsett þegar slíkar ráðstafanir gætu komið í veg fyrir að þeir neyti einhverra réttinda sinna.

     12)      Meginreglan um jafna meðferð lánardrottna að því er varðar möguleika þeirra á að grípa til aðgerða krefst þess að stjórnvöld og dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis samþykki þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að lánardrottnar í gistiaðildarríkinu geti neytt réttinda sinna og gripið til aðgerða innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um.

     13)      Ákveðið samræmi verður að vera á milli hlutverks stjórnvalda og dómsmálayfirvalda að því er varðar endurskipulagningarráðstafanir og slit útibúa lánastofnana með aðalskrifstofur utan bandalagsins og aðsetur í mismunandi aðildarríkjum.

     14)      Séu endurskipulagningarráðstafanir ekki gerðar eða ef þær reynast ófullnægjandi skal lánastofnuninni slitið. Í slíkum tilvikum skal setja ákvæði um gagnkvæma viðurkenningu slitameðferðar og viðurkenningu á réttaráhrifum hennar í bandalaginu.

     15)      Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis gegna mikilvægu hlutverki áður en slitameðferð hefst og geta haldið því áfram á meðan á slitunum stendur þannig að málsmeðferð geti farið fram með réttum hætti.

     16)      Jöfn meðferð allra lánardrottna krefst þess að lánastofnun sé slitið í samræmi við meginreglurnar um einingu (principle of unity) og algildi (principle of universality), en þess er krafist samkvæmt þeim að stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis hafi einkalögsögu og að ákvarðanir þeirra séu virtar og geti haft þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa samkvæmt lögum heimaðildarríkis, án formsatriða nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.

     17)      Undanþágan er varðar áhrif endurskipulagningarráðstafana og slitameðferðar á tiltekna samninga og réttindi takmarkast við þau áhrif og tekur ekki til annarra atriða varðandi endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð, t.d. kröfulýsingar, sannprófunar, skráningar og forgangsröðunar krafna vegna þessara samninga og réttinda, og reglna sem gilda um skiptingu afraksturs af sölu eigna, sem fellur undir lög heimaaðildarríkisins.

     18)      Slit, af frjálsum vilja, geta farið fram þegar lánastofnun er gjaldhæf. Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis geta þó, þegar það á við, tekið ákvörðun um endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferð, jafnvel eftir að slit af frjálsum vilja eru hafin.

     19)      Afturköllun starfsleyfis til að stunda bankaþjónustu er ein þeirra afleiðinga sem slit lánastofnunar hefur nauðsynlega í för með sér. Afturköllun á þó ekki að hindra að tiltekin starfsemi stofnunarinnar geti haldið áfram að því marki sem það er nauðsynlegt eða viðeigandi að því er varðar slitin. Þó er heimaaðildarríki heimilt að gera áframhald starfsemi af þessu tagi háða samþykki og eftirliti lögbærra yfirvalda sinna.

     20)      Upplýsingamiðlun til þekktra lánardrottna, hvers þeirra um sig, er jafnmikilvæg og birting til að gera þeim kleift, þegar það á við, að lýsa kröfum eða gera athugasemdir varðandi kröfur sínar innan tilskilinna tímamarka. Þetta ætti að fara fram án mismununar gagnvart lánardrottnum með lögheimili í aðildarríki öðru en heimaðildarríkinu, eftir því hvar þeir hafa búsetu eða hvers eðlis kröfur þeirra eru. Lánardrottnum skulu reglulega, og á viðeigandi hátt, gefnar upplýsingar á meðan á slitameðferð stendur.

     21)      Í þeim tilgangi einum að beita ákvæðum þessarar reglugerðar að því er varðar endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð á útibúi lánastofnana í bandalaginu, sem hafa höfuðstöðvar í þriðja landi, skulu skilgreiningar á hugtökunum „heimaaðildarríki,“ „lögbær yfirvöld“ og „stjórnvald eða dómsmálayfirvald“ vera skilgreiningar aðildarríkisins þar sem útibúið er.

     22)      Þegar lánastofnun sem er með aðalskrifstofu utan bandalagsins hefur útibú í fleiri en einu aðildarríki skal hvert útibú njóta sérstakrar meðferðar að því er varðar beitingu þessarar tilskipunar. Í því tilviki skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld og lögbær yfirvöld, ásamt stjórnendum og skiptastjórum, leitast við að samræma aðgerðir sínar.

     23)      Þó að mikilvægt sé að fylgja meginreglunni um að lög heimaaðildarríkis gildi um endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferð, bæði hvað varðar málsmeðferð og efnislega, er einnig nauðsynlegt að hafa í huga að þetta getur verið ósamrýmanlegt þeim reglum sem almennt gilda varðandi efnahagslega og fjárhagslega starfsemi lánastofnunarinnar sem um ræðir og útibúa hennar í öðrum aðildarríkjum. Í sumum tilvikum er tilvísun í lög annars aðildarríkis óhjákvæmilegt frávik frá þeirri meginreglu að lög heimaaðildarríkis skuli gilda.

     24)      Þessi forsenda er einkum nauðsynleg til verndar starfsmönnum með ráðningarsamning við lánastofnunina, til að tryggja öryggi viðskipta að því er varðar tilteknar tegundir eigna og vernda heilleika markaða, sem falla undir opinbert eftirlit og starfa í samræmi við lög aðildarríkis, þar sem viðskipti eru með fjármálaskjöl.

     25)      Viðskipti, sem fara fram sem liður í greiðsluuppgjörskerfi, falla undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf ( 7 ).

     26)      Samþykkt þessarar tilskipunar hefur ekki áhrif á ákvæði tilskipunar 98/26/EB en samkvæmt þeim skulu gjaldþrotaskipti ekki hafa nein áhrif á framfylgd ákvarðana sem færðar hafa verið á fullnægjandi hátt í kerfi, eða á tryggingu sem veitt er fyrir kerfi.

     27)      Sumar endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferðir fela í sér tilnefningu aðila til að sjá um rekstur þeirra. Því er mjög mikilvægt, að því er varðar framkvæmd ákvarðana sem teknar eru í heimaaðildarríkinu, að öll önnur aðildarríki viðurkenni tilnefningu þessa aðila og valdsvið hans. Þó skal skilgreina þau mörk sem valdi hans eru sett utan heimaaðildarríkisins.

     28)      Lánardrottnar, sem hafa gert samninga við lánastofnun áður en endurskipulagningarráðstafanir voru samþykktar eða slitameðferð hófst, skulu njóta verndar gagnvart ákvæðum er varða ógildingu, ógildanleika eða skort á réttarvernd, sem mælt er fyrir um í lögum heimaaðildarríkis, ef sá sem hefur hag af viðskiptunum færir rök fyrir því að engin leið sé til andæfa þeirri aðgerð sem um ræðir í viðkomandi máli.

     29)      Viðhalda skal tiltrú utanaðkomandi kaupenda á innihaldi skráa eða reikninga yfir tilteknar eignir, sem færðar eru í þessar skrár eða reikninga, og einnig kaupenda fasteigna, jafnvel eftir að slitameðferð er hafin eða endurskipulagningarráðstöfun samþykkt. Eina leiðin til að viðhalda þessari tiltrú er að lög þess staðar, þar sem fasteignin er, eða ríkisins þar sem skráin eða reikningurinn er haldinn, skeri úr um hvort kaupin séu gild.

     30)      Áhrif endurskipulagningarráðstafana eða slitameðferðar á yfirstandandi málaferli ráðast af lögum aðildarríkisins þar sem málaferlin fara fram, en það er undantekning frá beitingu lex concursus. Áhrif slíkra ráðstafana og málsmeðferðar á einstakar aðfararaðgerðir, sem af slíkum málaferlum leiða, ráðast af löggjöf heimaaðildarríkisins í samræmi við þá almennu reglu sem komið er á með þessari tilskipun.

     31)      Setja skal ákvæði um að stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis tilkynni þegar í stað lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis um samþykkt endurskipulagningarráðstöfunar eða að slitameðferð sé hafin, áður en ráðstöfun er samþykkt eða meðferðin hafin, ef unnt er, eða, ef það bregst, strax að því loknu.

     32)      Þagnarskylda, eins og hún er skilgreind í 30. gr. tilskipunar 2000/12/EB, er mjög mikilvægur þáttur í allri tilhögun upplýsingaskipta og samráðs. Af þeirri ástæðu skal hún virt af öllum stjórnvöldum sem þátt eiga í slíkri málsmeðferð en hinsvegar eru dómsmálayfirvöld, í þessu tilliti, háð viðkomandi ákvæðum landslaga sem um þau gilda.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. BÁLKUR

GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR

1. gr.

Gildissvið

1.     Þessi tilskipun skal gilda um lánastofnanir og útibú þeirra sem stofnuð eru í aðildarríkjum öðrum en þeim þar sem aðalskrifstofa þeirra er, samkvæmt skilgreiningum í 1. og 3. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, með fyrirvara um þau skilyrði og undanþágur sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 2. gr. þeirrar tilskipunar.

2.     Ákvæði þessarar tilskipunar um útibú lánastofnunar með aðalskrifstofur utan bandalagsins skulu einungis gilda þegar viðkomandi stofnun hefur útibú í a.m.k. tveimur aðildarríkjum bandalagsins.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

—    „heimaaðildarríki“: upprunaaðildarríki í merkingu 6. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB;

—    „gistiaðildarríki“: gistiaðildarríki í merkingu 7. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB;

—    „útibú“: útibú í merkingu 3. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB;

—    „lögbær yfirvöld“: lögbær yfirvöld í merkingu 4. tölul. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB;

—    „stjórnandi“: hver sá einstaklingur eða aðili, tilnefndur af stjórnvaldi eða dómsmálayfirvaldi, sem stjórnar endurskipulagningarráðstöfunum;

—    „stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld“: þau stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld í aðildarríkjunum sem eru til þess bær að sjá um endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferð;

—    „endurskipulagningarráðstafanir“: ráðstafanir sem ætlað er að viðhalda fjárhagslegri stöðu lánastofnunar eða koma henni í eðlilegt horf og gætu haft áhrif á áður fengin réttindi þriðja aðila, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum;

—    „skiptastjóri“: hver sá einstaklingur eða aðili, sem er tilnefndur af stjórnvaldi eða dómsmálayfirvaldi til að hafa umsjón með slitameðferð;

—    „slitameðferð“: sameiginleg málsmeðferð sem stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld aðildarríkis hefja og hafa eftirlit með og sem hefur það markmiði að selja eignir undir eftirliti þessara yfirvaldi, þ.m.t. þegar málsmeðferðin er stöðvuð með nauðungarsamningum eða annarri viðlíka ráðstöfun;

—    „markaður undir opinberu eftirliti“: markaður undir opinberu eftirliti í merkingu 13. tölul. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE;

—    „skjöl“: öll skjöl sem getið er í B-þætti í viðauka við tilskipun 93/22/EBE.

II. BÁLKUR

ENDURSKIPULAGNINGARRÁÐSTAFANIR

A. Lánastofnanir með aðalskrifstofu í bandalaginu

3. gr.

Samþykkt endurskipulagningarráðstafana — gildandi lög

1.     Stjórnvöld og dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis skulu ein hafa vald til þess að ákveða framkvæmd einnar eða fleiri endurskipulagningarráðstafana í lánastofnun, þ.m.t. útibú með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.

2.     Endurskipulagningarráðstöfunum skal beitt í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi eru í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.

Þær skulu hafa fullt gildi, án frekari formsatriða, í öllu bandalaginu í samræmi við löggjöf þess aðildarríkis, þ.m.t. gagnvart þriðju aðilum í öðrum aðildarríkjum og einnig þegar reglur gistiaðildarríkja, sem um þær gilda, kveða ekki á um slíkar ráðstafanir eða gera framkvæmd þeirra háða skilyrðum sem ekki eru uppfyllt.

Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu gilda alls staðar í bandalaginu þegar þær taka gildi í aðildarríkinu þar sem þær hafa verið gerðar.

4. gr.

Upplýsingar til lögbærra yfirvalda gistiaðildarríkisins

Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis skulu, án tafar og með öllum tiltækum ráðum, gera lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis kunnugt um þá ákvörðun sína að samþykkja endurskipulagningarráðstöfun, þ.m.t. um bein áhrif sem slík ráðstöfun getur haft, áður en ráðstöfunin er samþykkt, ef unnt er, en að öðrum kosti strax að því loknu. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu senda slíkar upplýsingar.

5. gr.

Upplýsingar til eftirlitsstofnana heimaaðildarríkisins

Þegar stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld gistiaðildarríkis telja þörf á framkvæmd einnar eða fleiri endurskipulagningarráðstafana innan yfirráðasvæðis síns skulu þau tilkynna það lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu senda slíkar upplýsingar.

6. gr.

Birting

1.     Þegar framkvæmd endurskipulagningarráðstafana, sem ákveðnar eru skv. 1. og 2. mgr. 3. gr., gæti haft áhrif á réttindi þriðju aðila í gistiaðildarríki og þegar málskot er hugsanlegt í heimaaðildarríki vegna ákvörðunarinnar, sem ráðstöfunin er byggð á, skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkisins, stjórnandi eða hver sá aðila, sem til þess hefur heimild, í heimaaðildarríkinu birta útdrátt úr ákvörðuninni í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og í tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiaðildarríki, einkum til þess að hægt sé að nýta málskotsréttinn í tíma.

2.     Útdrátturinn úr ákvörðuninni, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal við fyrsta tækifæri og eftir viðeigandi leiðum framsendur skrifstofu opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna og tveggja innlendra dagblaða í hverju gistiaðildarríki.

3.     Skrifstofa opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna skal birta útdráttinn í síðasta lagi tólf dögum eftir sendingu hans.

4.     Í útdrættinum úr ákvörðuninni, sem á að birta, skal koma fram, á opinberu tungumáli eða tungumálum hlutaðeigandi aðildarríkja, einkum tilgangur og lagagrundvöllur ákvörðunarinnar sem tekin hefur verið, hver málskotsfresturinn er, einkum skal vera auðskiljanlegt hvernær sá frestur rennur út, og fullt heimilisfang stjórnvalda eða dómsmálayfirvalda sem eru til þess bær að taka málið upp.

5.     Endurskipulagningarráðstafanirnar skulu koma til framkvæmda þrátt fyrir ráðstafanirnar sem mælt er fyrir um í 1.–3. mgr. og skulu gilda að fullu gagnvart lánardrottnum, nema stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis eða lög þess ríkis, er varða slíkar ráðstafanir, kveði á um annað.

7. gr.

Skyldan til að veita þekktum lánardrottnum upplýsingar og rétturinn til að lýsa kröfum

1.     Þegar krafist er samkvæmt löggjöf heimaaðildarríkis að kröfum sé lýst eigi að taka þær gildar eða kveðið er á um að lögboðið sé að tilkynna lánardrottnum, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu sína í því ríki, um ráðstöfunina skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkisins eða stjórnandi einnig tilkynna það þekktum lánardrottnum, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu sína í öðrum aðildarríkjum, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 14. gr. og 1. mgr. 17. gr.

2.     Þegar löggjöf heimaaðildarríkis kveður á um réttindi lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu sína í því ríki, til að lýsa kröfum sínum eða leggja fram athugasemdir varðandi þær skulu lánardrottnar, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu sína í öðrum aðildarríkjum, einnig hafa þann rétt í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 16. gr. og 2. mgr. 17. gr.

B. Lánastofnanir með aðalskrifstofu utan bandalagsins

8. gr.

Útibú lánastofnana í þriðju löndum

1.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld gistiaðildarríkis, þar sem útibú lánastofnunar með aðalskrifstofu utan bandalagsins er, skal tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum tilkynna lögbærum yfirvöldum annarra gistiaðildarríkja, þar sem stofnunin hefur útibú sem talin eru upp í skránni, sem getið er í 11. gr. tilskipunar 2000/12/EB og birt ár hvert í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna, um þá ákvörðun sína að samþykkja endurskipulagningarráðstöfun, þ.m.t. um bein áhrif sem slíkar ráðstafanir geta haft, ef unnt er áður en hún er samþykkt en að öðrum kosti strax að því loknu. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins, þar sem stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld ákveða að beita ráðstöfuninni, skulu senda slíkar upplýsingar.

2.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld, sem um getur í 1. mgr., skulu leitast við að samræma aðgerðir sínar.

III. BÁLKUR

SLITAMEÐFERÐ

A. Lánastofnanir með aðalskrifstofu í bandalaginu

9. gr.

Upphaf slitameðferðar — upplýsingar til annarra lögbærra yfirvalda

1.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis, sem bera ábyrgð á slitum, skulu ein hafa vald til þess að ákveða að slitameðferð lánastofnunar skuli hefjast, þ.m.t. fyrir útibú með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.

Ákvörðun um að hefja slitameðferð, sem tekin er af stjórnvöldum eða dómsmálayfirvöldum heimaaðildarríkis, skal viðurkennd, án frekari formsatriða, á yfirráðasvæði allra annarra aðildarríkja og gilda þar á meðan ákvörðunin gildir í aðildarríkinu þar sem málsmeðferðin hefst.

2.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis skulu, tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum, gera lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis kunnugt um þá ákvörðun sína að hefja slitameðferð, þ.m.t. um bein áhrif sem slík málsmeðferð getur haft, ef unnt er áður en hún hefst en að öðrum kosti strax að því loknu. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu senda slíkar upplýsingar.

10. gr.

Gildandi lög

1.     Lánastofnun skal slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi er í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.

2.     Lög heimaaðildarríkis skulu einkum ákvarða:

a)      hvaða eignir tilheyra búinu og meðferð eigna sem lánastofnunin hefur aflað eftir að slitameðferð hefst;

b)      heimild lánastofnunar og skiptastjóra hvors um sig;

c)      þær aðstæður þar sem beita má skuldajöfnun;

d)      áhrif slitameðferðar á gildandi samninga sem lánastofnunin er aðili að;

e)      áhrif slitameðferðar á málsmeðferð sem einstakir lánardrottnar hefja, að undanskildum yfirstandandi málaferlum, eins og kveðið er á um í 32. gr.;

f)      kröfur á hendur lánastofnuninni og meðferð þeirra krafna sem lýst er eftir að slitameðferð hefst;

g)      reglur sem gilda um kröfulýsingu, sannprófun og skráningu krafna;

h)      reglur sem gilda um skiptingu afraksturs af sölu eigna, forgangsröðun fjárkrafna og réttindi lánardrottna sem hafa fengið skuldakröfum sínum fullnægt að hluta eftir að gjaldþrotaskipti hófust, með skírskotun til hlutaréttinda eða með skuldajöfnun;

i)      skilyrði og áhrif þess að gjaldþrotaskiptum sé lokið, einkum með nauðungarsamningum;

j)      réttindi lánardrottna eftir að slitameðferð er lokið;

k)      hver skuli bera kostnað og útgjöld sem til falla við slitameðferð;

l)      reglur er varða það hvort lögmætar aðgerðir, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegar, séu ógildar, ógildanlegar eða skorti réttarvernd.

11. gr.

Samráð við lögbær yfirvöld á undan slitum af frjálsum vilja

1.     Samráð skal haft við lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis áður en stjórn lánastofnunar ákveður að hefja slit af frjálsum vilja.

2.     Slit lánastofnunar af frjálsum vilja skulu ekki koma í veg fyrir samþykkt endurskipulagningarráðstöfunar eða að slitameðferð hefjist.

12. gr.

Afturköllun á starfsleyfi lánastofnunar

1.     Ef tekin er ákvörðun um að hefja slitameðferð lánastofnunar án þess að gripið hafi verið til endurskipulagningarráðstafana eða ef þær hafa mistekist skal starfsleyfi stofnunarinnar afturkallað í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 9. mgr. 22. gr. tilskipunar 2000/12/EB.

2.     Afturköllun starfsleyfis, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal ekki hindra einn eða fleiri aðila, sem bera ábyrgð á framkvæmd slitanna, í því að halda áfram starfsemi lánastofnunarinnar að hluta til, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt eða viðeigandi fyrir markmið slitanna.

Heimaaðildarríki getur kveðið á um að slík starfsemi sé stunduð með samþykki og undir eftirliti lögbærra yfirvalda þess aðildarríkis.

13. gr.

Birting

Skiptastjórar eða stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld skulu tilkynna um þá ákvörðun að hefja slitameðferð með birtingu útdráttar úr slitaákvörðuninni í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna og í a.m.k. tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiaðildarríki.

14. gr.

Tilhögun upplýsingamiðlunar til þekktra lánardrottna

1.     Þegar slitameðferð hefst skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaðildarríkisins eða skiptastjórinn upplýsa án tafar alla lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðrum aðildarríkjum, um það nema í tilvikum þegar í löggjöf heimaaðildarríkis þess er ekki krafist að kröfunni sé lýst til að hún fáist viðurkennd.

2.     Þessar upplýsingar skulu gefnar í formi auglýsingar þar sem fram koma tímamörk og viðurlög ef þau eru ekki virt, hvaða aðili hefur vald til að taka við kröfum sem lýst er eða athugasemdum sem eru lagðar fram varðandi kröfur og aðrar ráðstafanir sem mælt er fyrir um. Í auglýsingunni skal einnig koma fram hvort þeir sem eiga forgangskröfur eða kröfur sem eru tryggðar samkvæmt hlutarétti þurfi að lýsa þeim.

15. gr.

Efndir skuldbindinga

Þegar skuldbinding hefur verið efnd gangvart lánastofnun, sem er ekki lögaðili og sem gengst undir slitameðferð í öðru aðildarríki, sem hefði átt að efna gagnvart skiptastjóranum telst sá aðili, sem efndi skuldbindinguna, hreinsaður af ákæru hafi honum verið ókunnugt um að málsmeðferðin væri hafin. Þegar slík skuldbinding er efnd áður en birtingin, sem kveðið er á um í 13. gr., hefur farið fram skal litið svo á, ef ekki eru sannanir um annað, að aðilanum sem efndi skuldbindinguna hafi verið ókunnugt um að slitameðferð væri hafin. Þegar slík skuldbinding er efnd eftir að birtingin, sem kveðið er á um í 13. gr., hefur farið fram skal litið svo á, ef ekki eru sannanir um annað, að aðilanum, sem efndi skuldbindinguna, hafi verið kunnugt um að slitameðferð væri hafin.

16. gr.

Réttur til að lýsa kröfum

1.     Allir lánardrottnar með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í aðildarríki öðru en heimaaðildarríkinu, þ.m.t. opinber yfirvöld aðildarríkja, skulu hafa rétt til þess að lýsa kröfum eða leggja fram athugasemdir er þær varðar.

2.     Kröfur lánardrottna með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofur í aðildarríkjum öðrum en heimaaðildarríkinu skal meðhöndla og forgangsraða á sama hátt og sams konar kröfur sem lýst er af lánardrottnum með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í heimaaðildarríkinu.

3.     Í tilvikum öðrum en þeim þegar lög heimaaðildarríkis kveða á um að lagðar séu fram athugasemdir varðandi kröfur skulu lánardrottnar senda afrit af fylgiskjölum, ef til eru, geta um eðli kröfunnar, hvenær hún varð til og fjárhæð hennar, auk upplýsinga um hvort skírskotað er til forgangs, hlutaréttinda eða eignarréttarfyrirvara að því er varðar kröfuna og hvaða eignir falla undir trygginguna.

17. gr.

Tungumál

1.     Upplýsingarnar, sem kveðið er á um í 13. og 14. gr., skulu vera á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkisins. Nota skal eyðublað sem á er letruð, á öllum opinberum tungumálum Evrópusambandsins, fyrirsögnin „Innköllun krafna; tímamörk sem skulu virt“ eða, ef lög heimaaðildarríkisins kveða á um að athugasemdir varðandi kröfuna séu lagðar fram, fyrirsögnin „Boð um að leggja fram athugasemdir varðandi kröfu; tímamörk sem skulu virt“.

2.     Allir lánardrottnar með lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í aðildarríki öðru en heimaaðildarríkinu geta lýst kröfu eða lagt fram athugasemdir varðandi kröfuna á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess ríkis. Ef svo ber undir skal krafan sem hann lýsir eða athugasemdirnar sem hann leggur fram varðandi kröfuna bera fyrirsögnina „Kröfulýsing“ eða „Afhending athugasemda er varða kröfu“ á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum heimaaðildarríkis. Þar að auki er heimilt að krefja lánardrottna um þýðingu yfir á það tungumál sem er á kröfu sem er lýst eða athugasemdum sem eru lagðar fram varðandi kröfur.

18. gr.

Reglubundin miðlun upplýsinga til lánardrottna

Skiptastjórar skulu miðla upplýsingum reglulega og á viðeigandi hátt til lánardrottna, einkum um framvindu slitanna.

B. Lánastofnanir með aðalskrifstofu utan bandalagsins

19. gr.

Útibú lánastofnana þriðju landa

1.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld gistiaðildarríkis þar sem útibú lánastofnunar með aðalskrifstofu utan bandalagsins er skal, tafarlaust og með öllum tiltækum ráðum, tilkynna lögbærum yfirvöldum annarra gistiaðildarríkja þar sem stofnunin hefur útibú, sem talin eru upp í skránni sem getið er í 11. gr. tilskipunar 2000/12/EB og birt ár hvert í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna, um þá ákvörðun sína að hefja slitameðferð, þ.m.t. um bein áhrif sem slík málsmeðferð getur haft, ef unnt er áður en málsmeðferðin hefst en að öðrum kosti strax að því loknu. Lögbær yfirvöld fyrsta framangreinda heimaaðildarríkis skulu senda slíkar upplýsingar.

2.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld sem ákveða að hefja málsmeðferð til að slíta útibúi lánastofnunar með aðalskrifstofu utan bandalagsins skulu tilkynna lögbærum yfirvöldum hins aðildarríkisins að slitameðferð sé hafin og starfsleyfi afturkallað.

Lögbær yfirvöld þess gistiaðildarríkis, sem hefur ákveðið að hefja málsmeðferðina, skulu senda upplýsingarnar.

3.     Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld, sem um getur í 1. mgr., skulu leitast við að samræma aðgerðir sínar.

Skiptastjórar skulu einnig leitast við að samræma aðgerðir sínar.

IV. BÁLKUR

ÁKVÆÐI SEM ERU SAMEIGINLEG ENDURSKIPULAGNINGARRÁÐSTÖFUNUM OG SLITAMEÐFERÐ

20. gr.

Áhrif á tiltekna samninga og réttindi

Áhrif endurskipulagningarráðstöfunar, eða þess að slitameðferð hefst, á:

a)      ráðningarsamninga og -sambönd skulu falla einvörðungu undir þau lög aðildarríkisins sem gilda um ráðningarsamninginn;

b)      samning, sem veitir réttindi til að nýta eða eignast fasteign skulu falla einvörðungu undir lög þess aðildarríkis þar sem fasteignin er; Þau lög skulu ákvarða hvort eignin teljist lausafé eða fasteign;

c)      réttindi er varða fasteignir, skip eða loftfar háð skráningu í opinbera skrá skulu falla einvörðungu undir lög þess aðildarríkis þar sem skráin er færð.

21. gr.

Hlutaréttindi þriðju aðila

1.     Samþykkt endurskipulagningarráðstafana eða það að slitameðferð hefjist skal ekki hafa áhrif á hlutaréttindi (rights in re) lánardrottna eða þriðju aðila að því er varðar efnislegar eða óefnislegar eignir, lausafé eða fasteignir — bæði sérstakar eignir og söfn ótiltekinna eigna sem heildar, og sem breytast öðru hvoru — sem tilheyra lánastofnuninni sem er á yfirráðasvæði annars aðildarríkis þegar slíkar ráðstafanir eru samþykktar eða slitameðferð hafin.

2.     Réttindin, sem um getur í 1. mgr., eru einkum:

a)      rétturinn til að selja eða láta selja eignir og njóta góðs af afrakstrinum eða af tekjunum af þessum eignum, einkum með veði eða fasteignaveði;

b)      einkaréttur á því að fallist sé á kröfu, einkum réttur sem tryggður er með veði í kröfunni eða með framsali kröfunnar með ábyrgð;

c)      rétturinn til að krefjast eignanna frá og/eða til að krefjast skila frá hverjum þeim sem hefur yfirráð yfir þeim eða not af þeim í trássi við óskir aðilans sem til þess hefur rétt;

d)      hlutaréttindi til að njóta afraksturs af eignunum.

3.     Rétturinn, sem eru skráður í opinbera skrá og nýtur réttarverndar gagnvart þriðja aðila, og sem á þann hátt veita hlutaréttindi í skilningi 1. mgr., skulu teljast hlutaréttindi.

4.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á réttarvernd sem mælt er fyrir um í l-lið 2. mgr. 10. gr.

22. gr.

Eignarréttarfyrirvari

1.     Samþykkt endurskipulagningarráðstafana eða það að slitameðferð er hafin gagnvart lánastofnun sem kaupir eignir skal ekki hafa áhrif á réttindi seljandans sem eru byggð á eignarréttarfyrirvara í þeim tilvikum ef eignin er á yfirráðasvæði aðildarríkis annars en aðildarríkisins þar sem ráðstafanirnar voru samþykktar eða málsmeðferðin hófst, þegar slíkar ráðstafanir voru samþykktar eða slík málsmeðferð hófst.

2.     Samþykkt endurskipulagningarráðstafana eða að slitameðferð er hafin gagnvart lánastofnun, sem selur eign eftir að afhending eignarinnar hefur farið fram, skal ekki vera ástæða riftunar eða ógildingar sölunnar eða hindra kaupandann í að öðlast eignarrétt í þeim tilvikum þegar eignin, sem seld er, er staðsett á yfirráðasvæði aðildarríkis annars en aðildarríkisins þar sem ráðstafanirnar voru samþykktar eða málsmeðferðin hófst á þeim tíma þegar slíkar ráðstafanir voru samþykktar eða málsmeðferð hófst.

3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á réttarvernd sem mælt er fyrir um í l-lið 2. mgr. 10. gr.

23. gr.

Skuldajöfnun

1.     Samþykkt endurskipulagningarráðstafana eða það að slitameðferð hefur hafist skal ekki hafa áhrif á rétt lánardrottna til að krefjast skuldajöfnunar krafna sinna gegn kröfum lánastofnunarinnar þegar slík skuldajöfnun er heimiluð í lögum sem gilda um kröfu lánastofnunarinnar.

2.     Ákvæði 1. mgr. skal ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á réttarvernd sem mælt er fyrir um í l-lið 2. mgr. 10. gr.

24. gr.

Lex rei sitae

Fullnusta eignarréttar yfir gerningum eða annarra réttinda yfir slíkum gerningum sem þarf að færa í skrá, reikning eða verðbréfamiðstöð til að þeir öðlist gildi eða hægt sé að yfirfæra þá skal háð lögum aðildarríkisins þar sem skráin, reikningurinn eða verðbréfamiðstöðin, sem þessi réttindi eru skráð í, er fært eða staðsett.

25. gr.

Greiðslujöfnunarsamningar

Greiðslujöfnunarsamningar skulu falla einvörðungu undir lög sem gilda um slíka samninga.

26. gr.

Endurkaupasamningar

Með fyrirvara um 24. gr. skulu endurkaupasamningar falla einvörðungu undir lög sem gilda um slíka samninga.

27. gr.

Markaðir undir opinberu eftirliti

Með fyrirvara um 24. gr. skulu viðskipti á markaði, sem er undir opinberu eftirliti, stjórnast einvörðungu af lögum um samninginn sem gildir um slík viðskipti.

28. gr.

Sönnun um tilnefningu skiptastjóra

1.     Færa skal sönnur á tilnefningu stjórnanda eða skiptastjóra með staðfestu endurriti af upprunalegri ákvörðun um tilnefningu hans eða með annarri staðfestingu sem gefin er út af stjórnvaldi eða dómsmálayfirvaldi heimaaðildarríkisins.

Heimilt er að krefjast þýðingar yfir á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum þess aðildarríkis þar sem stjórnandinn eða skiptastjórinn hyggst starfa. Ekki er krafist löggildingar eða annarra slíkra formsatriða.

2. Stjórnendum og skiptastjórum er heimilt að beita því valdi, sem þeim er heimilt að beita á yfirráðasvæði heimaaðildarríkisins, á yfirráðasvæði allra aðildarríkja. Þeir mega einnig tilnefna aðila sér til aðstoðar eða, þegar það á við, vera með fulltrúa sína á meðan á endurskipulagningarráðstöfun eða slitameðferð stendur, einkum í gistiaðildarríkjum og sérstaklega í því skyni að aðstoða lánardrottna við að yfirstíga erfiðleika sem þeir verða fyrir í gistiaðildarríkinu.

3. Við beitingu valds síns skal stjórnandi eða skiptastjóri fara að lögum þess aðildarríkis þar sem hann hyggst starfa, einkum að því er varðar verklagsreglur um sölu eigna og upplýsingamiðlun til starfsmanna. Þetta vald má ekki fela í sér þvingunaraðgerðir eða rétt til að úrskurða í málarekstri eða deilumálum.

29. gr.

Skráning í opinbera skrá

1.     Stjórnandi, skiptastjóri eða stjórnvald eða dómsmálayfirvald heimaaðildarríkis getur óskað eftir því að endurskipulagningarráðstöfun eða ákvörðun um að hefja slitameðferð sé skráð í þinglýsingarbók, verslunarskrá og hverja aðra opinbera skrá sem færð er í öðrum aðildarríkjum.

Aðildarríki getur þó mælt fyrir um lögboðna skráningu. Í því tilviki skal aðilinn eða yfirvaldið, sem um getur í framangreindri undirgrein, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja slíka skráningu.

2.     Líta ber á kostnaðinn við skráninguna sem kostnað og útgjöld í tengslum við málsmeðferðina.

30. gr.

Aðgerðir sem eru skaðlegar lánardrottnum

1.     Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort lögmætar aðgerðir, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegar, séu ógildar, ógildanlegar eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af þessum aðgerðum leggur fram sannanir um að:

—    aðgerðin, sem er skaðleg öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkisins, og

—    lögin bjóða engin úrræði til að véfengja aðgerðina sem um ræðir.

2.     Ef endurskipulagningarráðstöfun, sem dómsmálayfirvöld taka ákvörðun um, gerir ráð fyrir reglum um ógildingu, ógildanleika eða skort á réttarvernd aðgerða, sem eru skaðlegar öllum lánardrottnum og voru gerðar áður en ráðstöfunin var samþykkt, skulu ákvæði 2. mgr. 3. gr. ekki gilda í þeim tilvikum sem getið er í 1. mgr. þessarar greinar.

31. gr.

Vernd þriðju aðila

Ef lánastofnun ráðstafar gegn endurgjaldi, með aðgerð sem er gerð eftir samþykkt endurskipulagningarráðstöfunar eða eftir að slitameðferð hófst:

—    fasteign,

—    skipi eða loftfari sem háð er opinberri skráningu, eða

—    fjármálaskjölum eða réttindum er varða slík skjöl, en forsenda þess að þau séu til eða hægt að framselja þau er að þau séu færð í skrá, reikning eða verðbréfamiðstöð sem er fært eða staðsett í aðildarríki,

skal lögmæti aðgerðarinnar ráðast af lögum aðildarríkisins þar sem fasteignin er staðsett eða þar sem skráin eða reikningurinn er færður eða skráð er í verðbréfamiðstöð.

32. gr.


Yfirstandandi málaferli

Áhrif endurskipulagningarráðstafana eða slitameðferðar á yfirstandandi málaferli er varða eignir eða réttindi sem lánastofnunin hefur látið af hendi skulu falla einvörðungu undir lög aðildarríkisins þar sem málaferlin fara fram.

33. gr.

Þagnarskylda

Allir aðilar sem þurfa að taka við eða skýra frá upplýsingum í sambandi við reglur um upplýsingamiðlun og samráð, sem mælt er fyrir um í 4., 5., 8., 9., 11., og 19. gr., skulu bundnir þagnarskyldu í samræmi við reglurnar og skilyrðin sem mælt er fyrir um í 30. gr. tilskipunar 2000/12/EB, að undanskildum þeim dómsmálayfirvöldum sem innlend ákvæði gilda um.

V. BÁLKUR

LOKAÁKVÆÐI

34. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari 5. maí 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Ákvæði landslaga sem samþykkt eru til beitingar þessari tilskipun skulu fyrst einungis gilda um endurskipulagningarráðstafanir og slitameðferð sem samþykktar eru eða hefjast eftir daginn sem um getur í fyrstu undirgrein. Samþykktar ráðstafanir eða málsmeðferð sem hefst fyrir þann dag skulu áfram falla undir þau lög sem giltu um þær þegar þær voru samþykktar eða hófust.

2.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

3.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

35. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi við birtingu hennar.

36. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 4. apríl 2001.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE B. ROSENGREN
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 198, 31.10.2002, bls. 19 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 54, 31.10.2002, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 125, 5.5.2001, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 356, 31.12.1985, bls. 55 og Stjtíð. EB C 36, 8.2.1988, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 263, 20.10.1986, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 332, 30.10.1998, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 13. mars 1987 (Stjtíð. EB C 99, 13.4.1987, bls. 211), staðfest 2. desember 1993 (Stjtíð. EB C 342, 20.12.1993, bls. 30), sameiginleg afstaða ráðsins frá 17. júlí 2000 (Stjtíð. EB C 300, 20.10.2000, bls. 13) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 16. janúar 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 12. mars 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 135, 31.5.1994, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 45.