Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 689. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1121  —  689. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skógrækt 2004–2008.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að á árunum 2004–2008 skuli fjármagn veitt til skógræktar á Íslandi samkvæmt þeirri sundurliðun sem kemur fram í eftirfarandi töflum. Fjárhæðir miðast við verðlag í byrjun árs 2003 og skulu þær taka breytingum í samræmi við þróun verðlags á tímabilinu.
    Fjármagni til landshlutabundinna skógræktarverkefna verði varið í samræmi við lög nr. 32/1991, um Héraðsskóga, lög nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og lög nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni.
    Skógrækt ríkisins verji fjármagninu til yfirstjórnar, stjórnsýslu, rannsókna og umsjónar þjóðskóganna.
    Áætlunina skal endurskoða að þremur árum liðnum.
    Áætlun þessi tekur ekki til skógræktar á vegum skógræktarfélaga og almennings.

I. Landshlutabundin skógræktarverkefni.
Fjárhæðir í millj. kr. 2004 2005 2006 2007 2008
Héraðsskógar 103 108 108 108 108
Austurlandsskógar 34 44 54 64 74
Suðurlandsskógar 102 121 139 156 174
Vesturlandsskógar 59 65 72 80 87
Skjólskógar 44 49 55 61 67
Norðurlandsskógar 98 110 122 134 146
Samtals 440 497 550 603 656


II. Skógrækt ríkisins.
Fjárhæðir í millj. kr. 2004 2005 2006 2007 2008
Yfirstjórn 36 36 36 36 36
Stjórnsýsla 37 37 37 42 47
Rannsóknir 71 74 77 80 83
Þjóðskógarnir 78 80 82 84 86
Samtals 222 227 232 242 252

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


I.     Landshlutabundin skógræktarverkefni.

    Með lögum nr. 32/1991 samþykkti Alþingi stofnun Héraðsskóga á Austurlandi. Mikill áhugi var þegar fyrir verkefninu og árangur gróðursetningar framar öllum vonum. Héraðsskógar hafa síðan vaxið og dafnað og teljast nú veigamikill þáttur í atvinnu- og búsetumálum á Héraði. Í framhaldi af góðum árangri og ánægju þátttakenda var kallað eftir skógræktarverkefni með svipuðu sniði á Suðurlandi og með samþykkt laga frá Alþingi nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, voru Suðurlandsskógar stofnaðir. Þá þegar var kominn mikill þrýstingur frá öðrum landshlutum um skógræktarverkefni og í stað þess að setja ný lög fyrir hvern og einn landshluta samþykkti Alþingi lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, sem eru því sem næst samhljóða Suðurlandsskógalögunum. Á grundvelli þeirra laga setti landbúnaðarráðherra af stað verkefnin Norðurlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum og Vesturlandsskóga árið 2000. Árið 2001 var síðasta verkefnið, Austurlandsskógar, sett á laggirnar og þar með voru landshlutabundin skógræktarverkefni í öllum landshlutum orðin staðreynd.

Áætlanir og markmið.
    Í 3. gr. laga um Héraðsskóga segir: „Gera skal sérstaka áætlun, Héraðsskógaáætlun, um nýtingu þess lands á Fljótsdalshéraði sem er vel fallið til skógræktar. Áætlunin skal ná yfir 40 ár, skipt í 10 ára tímabil, og taka til allt að 15.000 ha. lands.“
    Í 3. gr. laga um Suðurlandsskóga segir: „Gera skal sérstaka áætlun, Suðurlandsskógaáætlun, um nýtingu þess lands sem er fallið til skógræktar. Áætlunin skal vera til 40 ára og skiptast í fjögur tíu ára tímabil og taka til a.m.k. 15.000 ha lands til timburskógræktar, 10.000 km af skjólbeltum, miðað við einfalda plönturöð, og 20.000 ha lands til landbótaskógræktar.“
    Í 4. gr. laga um landshlutabundin skógræktarverkefni segir: „Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal vera til a.m.k. 40 ára og skiptast í tíu ára tímabil. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis.“

Fyrri kostnaðaráætlanir.
    Í samræmi við þessar lagagreinar voru gerðar áætlanir fyrir hvert og eitt skógræktarverkefni. Þar sem Héraðsskógaverkefnið er um áratug eldra en önnur hefur það verkefni verið haft að leiðarljósi. Alþingi hefur staðið myndarlega að fjárveitingum til þess verkefnis og eru þær nú að nálgast þá hámarksupphæð, 110 millj. kr., sem þörf verður árlega á í framtíðinni. Þær áætlanir sem gerðar voru um hin verkefnin eru mjög samhljóða enda markmiðin nánast ein og hin sömu. Þeim fylgdi skýr áætlun um fjárþörf sem tók mið af því að ná þeim ræktunarmarkmiðum sem lögin kveða á um. Áætlanirnar voru lagðar fyrir ráðherra og síðan ríkisstjórn.
    Á grundvelli þessara áætlana hafa verkefnin starfað, gengið frá samningum við skógræktendur, útbúið skógræktaráætlanir fyrir hvert skógarbýli og staðið að jarðvinnslu og plöntukaupum. Þá hefur Alþingi staðið að fjárveitingum í samræmi við framangreindar áætlanir, að undanskildu árinu 2002, en þá var um litla sem enga hækkun að ræða frá árinu áður. Þá kom betur í ljós en áður hve nauðsynlegt það er fyrir verkefnin að fyrir liggi ákvarðanir um fjárveitingar fram í tímann. Því er þessi þingsályktunartillaga um fjárveitingar til næstu fimm ára lögð fram.

Langtímaáætlanir.
    Eðli verkefnanna og framkvæmdir í skógrækt kalla á langtímaáætlanir um fjárveitingar. Þær tryggja trúverðugleika og markvissara og skilvirkara starf. Við gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlana þarf að nota aðrar vinnuaðferðir en við áætlanagerð fyrir mörg önnur verkefni/stofnanir á vegum ríkisins. Ferlið frá því að landeigandi sækir um þátttöku í skógræktarverkefni þangað til að gróðursetning hefst getur verið allt að tvö ár.
    Sem dæmi má nefna að landeigandi sendir inn umsókn haustið 2003. Skógfræðingur heimsækir landeiganda og metur skógræktarskilyrði á fyrirhuguðu skógræktarsvæði vorið 2004. Umsögn skógfræðings er jákvæð og landið er flokkað og kortlagt sumarið 2004. Veturinn 2004–2005 er á grundvelli upplýsinga unnin nákvæm skógræktaráætlun fyrir svæðið. Vorið 2005 er skógræktaráætlunin tilbúin og landeigandi getur hafið framkvæmdir tveimur árum eftir að umsókn var send inn.
    Einn af undirstöðuþáttum í skógræktarstarfinu er fræöflun og framleiðsla skógarplantna. Þessi ferill getur tekið allt að fjögur ár eftir því hvaða tegund plantna er verið að rækta. Á vegum verkefnanna eru aðallega notaðar eins til tveggja ára gamlar skógarplöntur. Þetta þýðir að plantan hefur verið í ræktun í gróðrarstöð í eitt til tvö ár. Verkefnin bjóða út framleiðslu skógarplantna og það verður að gera með góðum fyrirvara þannig að gróðrarstöðin hafi öll aðföng til reiðu þegar að sáningu kemur.
    Annað dæmi skal tekið sem sýnir ferli frá útboði skógarplantna þar til plönturnar verða gróðursettar. Skógarbóndi ætlar að gróðursetja lerki (eins árs framleiðsla) árið 2006 og sitkagreni (tveggja ára framleiðsla) árið 2007. Haustið 2003 er ákveðið hvað þarf að bjóða út mikið af skógarplöntum. Í janúar 2004 eru skógarplöntur boðnar út. Í mars er ákveðið hvaða gróðrarstöð fær útboðið. Gróðrarstöðin aflar sér aðfanga, svo sem fræs, moldar og fjölpottabakka. Í mars 2005 fer sáning fræs til skógarplantna fram sem verða tilbúnar til afhendingar í maí 2006. Ári seinna eða 2007 er tveggja ára ræktunin tilbúin til afhendingar.
Á þessu má sjá að haustið 2003 þurfa verkefnin að vita hvaða fjármagn þau hafa til ráðstöfunar árið 2007, sem er fjögur ár fram í tímann.

Gildi verkefnanna.
    Margsinnis hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna verkefnanna, þátttakenda og annarra sem til þekkja, hve starf þeirra hefur haft mikil áhrif. Þótt aðalmarkmið verkefnanna sé að rækta skóg hafa þau einnig önnur markmið, svo sem eflingu byggða og atvinnulífs, auðlindasköpun og bindingu kolefnis. Þá hafa í kjölfar verkefnanna gefist færi á störfum á landsbyggðinni fyrir háskólamenntað fólk, vísindamenn og skógfræðinga.
    Benda má á verkefni á Austurlandi sem hefur sérhæft sig í smíði gagnagrunns sem heldur utan um framkvæmdir í skógrækt. Að því hafa unnið kerfisfræðingar og forritarar og fleiri tölvufræðingar. Skógræktin hefur styrkt ferðaþjónustuaðila, jafnt gistihús sem veitingarekstur. Í þessari upptalningu er tæpt á ýmsum störfum sem liggja utan hefðbundins landbúnaðar en að sjálfsögðu hafa bændur svo verulega afkomu af vinnu við framkvæmdina sjálfa og skólakrakkar af sumarvinnu.
    Vart verður bent á önnur sambærileg verkefni sem treysta frekar búsetu á landsbyggðinni, sem stendur um þessar mundir of víða höllum fótum. Skógræktarverkefnin styrkja ekki aðeins bændur á bújörðum, heldur kalla þau á nýja ábúendur, ekki hvað síst úr þéttbýlinu sem finna sér þar samastað, flytja lögheimili sín og gerast skattgreiðendur í nýju umhverfi. Með þeim koma nýir straumar, ný viðhorf, aukin þjónusta og mannlífið allt verður fjölbreyttara.
    Með eflingu skógræktar er verið að skapa nýja auðlind á Íslandi. Skógurinn er auðlind Finna og Svía, Norðmanna og annarra nágranna. Meðal annarra þjóða er ekki litið á þá auðlind sem eign einhvers einstaklings heldur auðlind viðkomandi lands. Þannig verður það einnig hér á landi þegar fram líða stundir.
    Hér skal ekki tíundað frekar gildi verkefnanna enda Alþingi vel kunnugt um mikilvægi þeirra. Hefur skilningur og áhugi alþingismanna margoft komið fram á fundum, í heimsóknum til verkefnanna og í umræðum og afgreiðslu Alþingis á fjármagni til þeirra.

II. Skógrækt ríkisins.
    Uppbygging landshlutabundnu skógræktarverkefnanna kallar á aðlögun innan þess hluta skógræktargeirans sem fyrir var, einkum hjá Skógrækt ríkisins. Þar kemur fyrst og fremst til að rannsóknir og miðlun rannsóknaniðurstaðna og annarrar þekkingar er algjör forsenda fyrir því að árangur landshlutaverkefnanna verði sem skyldi og að fjármunir sem til þeirra renna nýtist sem best. Þá eru kröfur um eftirlit, upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun sífellt að aukast bæði innan lands og á alþjóðavettvangi, ekki síst í tengslum við loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Sumir kynnu að ætla að með uppbyggingu landshlutabundnu skógræktarverkefnanna mætti draga úr starfsemi Skógræktar ríkisins þar sem nýskógrækt félli nú niður sem eitt af hlutverkum hennar. Staðreyndin er hins vegar sú að fjárveiting til verkefnisins ,,Nytjaskógrækt á bújörðum“, sem var undanfari landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og heyrði undir Skógrækt ríkisins, nam aldrei hærri upphæð en 15 millj. kr. á ári. Sú upphæð og meira til fer nú í að fjármagna þjónustu skógræktarráðunauta Skógræktar ríkisins í hverjum landsfjórðungi er gegna lykilhlutverki í þjónustu við skógarbændur.
    Nú eru 14 ár liðin síðan gróðursetning af hálfu Skógræktar ríkisins var síðast verulegur hluti af nýskógrækt í landinu. Síðastliðinn áratug hefur gróðursetning Skógræktar ríkisins að stórum hluta tengst rekstri gróðrarstöðva, þ.e. afgangsplöntur úr gróðrarstöðvum voru gróðursettar í lönd stofnunarinnar. Með lokun gróðrarstöðvanna er sú gróðursetning að mestu úr sögunni auk þess sem möguleikar til sértekjuöflunar minnka. Sú vinna sem áður tengdist nýskógrækt hjá Skógrækt ríkisins hefur æ meira flust yfir í að sinna grisjun og umhirðu í þjóðskógunum og móttöku ferðafólks, ,,að opna skógana“ sem svo hefur verið nefnt.
    Sú verkaskipting að landshlutabundnu skógræktarverkefnin hafi umsjón með mestum hluta nýskógræktar og Skógrækt ríkisins sinni flestöllum öðrum verkefnum er tengjast skógrækt hefur verið að þróast undanfarin 13 ár og er nú orðin nokkuð fastmótuð. Fjárframlög verða því ekki flutt frá Skógrækt ríkisins til landshlutaverkefnanna án þess að það komi niður á annarri starfsemi, svo sem rannsóknum, ráðgjöf eða umsjón með þjóðskógunum. Þvert á móti kallar aukin nýskógrækt á auknar rannsóknir, aukna ráðgjöf og aukið eftirlit. Þjóðskógarnir eru auk þess nauðsynlegar fyrirmyndir, en þar er að finna sýnishorn af því sem stefna ber að, því sem vænta má og ,,víti til varnaðar“. Þá eru þjóðskógarnir mjög mikilvægur vettvangur rannsókna og þjálfunar skógareigenda, t.d. í grisjun, og mikilvægasta erfðalind fyrir íslenska skógrækt, en stór hluti þess trjáfræs sem notað er kemur nú úr þjóðskógunum.

Rekstraráætlun Skógræktar ríkisins.
    Í sundurliðun um fjárveitingar til Skógræktar ríkisins er starfseminni skipt upp í fjóra flokka; yfirstjórn, stjórnsýslu, rannsóknir og þjóðskóga. Þessi skipting endurspeglar verkefni stofnunarinnar að hluta til eins og þau eru nú en einkum eins og ætla má að þau verði eftir 5–10 ár. Gert er ráð fyrir áframhaldandi þróun á starfsemi stofnunarinnar þar sem áhersla á bæði stjórnsýslu (þ.m.t. upplýsingaöflun, eftirlit, árangursmat og fræðslu) og rannsóknir eykst hlutfallslega samanborið við yfirstjórn og rekstur þjóðskóganna.

Yfirstjórn.
    Í þessum málaflokki er fastur kostnaður við rekstur Skógræktar ríkisins, svo sem laun skógræktarstjóra og kostnaður við fjármál, bókhald, tölvuþjónustu o.þ.h. Ekki er gert ráð fyrir raunaukningu á þessum rekstrarþætti og lækkar hann úr 16% niður í 14% af ríkisframlaginu til stofnunarinnar á tímabilinu.

Stjórnsýsla.
    Þessi málaflokkur mun taka mestum breytingum á næstu 5–10 árum og er heitið,,stjórnsýsla“ til marks um væntanlegar breytingar. Eðlilegra nafn málaflokksins núna væri,,fræðsla, ráðgjöf og áætlanagerð“ eða það sem nefnt hefur verið ,,skógarþjónusta“. Landshlutaverkefnin kalla nú þegar á aukið faglegt eftirlit með framkvæmdum sínum, einkum svo að þau geti metið árangur sinn í því skyni að bæta hann, en einnig til að þau geti staðið skil á upplýsingum til yfirvalda og almennings. Eðlilegt þykir að slíkt eftirlit eða árangursmat sé unnið af fjárhagslega óháðum aðila og er Skógrækt ríkisins eina stofnunin með faglega færni til að sinna því. Með þessu fyrirkomulagi fæst einnig aðskilnaður milli stjórnsýslu og stærsta hluta framkvæmda í skógrækt.
    Fyrir liggur að verulega aukinnar upplýsingaöflunar verður krafist í tengslum við Kyoto- bókun loftslagssamningsins. Þar mun þurfa að staðsetja á korti og staðfesta með mælingum þá koltvísýringsbindingu sem á sér stað í allri íslenskri skógrækt síðan 1990. Einnig er sennilegt að auknar kröfur verði gerðar um upplýsingaöflun vegna samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegra fjölbreytni. Þá mun ný tilskipun frá ESB um mat á umhverfisáhrifum áætlana, sem taka þarf upp hérlendis árið 2005, hafa aukna vinnu við upplýsingaöflun og eftirlit í för með sér.
    Áætlunin gerir ráð fyrir að framlög til stjórnsýslumálaflokksins verði aukin um því sem nemur þremur stöðugildum, um 15 millj. kr. og að sú uppbygging eigi sér stað á árunum 2007–2009 þegar fyrsta viðmiðunartímabil Kyoto-samningsins gengur í garð. Ríkisframlag til þessa málaflokks samsvarar 10% af framlögum til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna árið 2003. Þrátt fyrir þessa hækkun verður samsvarandi hlutfall í lok áætlunartímabilsins aðeins 7%.

Rannsóknir.
    Reynsla síðustu ára sýnir að með auknum umsvifum í skógrækt vakna sífellt fleiri og flóknari spurningar, sem ekki verður svarað nema með rannsóknum. Meðal verkefnasviða sem vega mjög þungt á næstu tíu árum eru rannsóknir á kolefnisbúskap mismunandi skóga vegna loftslagssamningsins og rannsóknir á áhrifum skógræktar á lífríkið, jarðveg, vatn og aðra umhverfisþætti, ekki síst vegna krafna um mat á umhverfisáhrifum. Um leið eykst mikilvægi og hagnýtt gildi rannsókna á sviði ræktunartækni, á skaðvöldum í skógrækt og skógerfðafræði, svo sem kvæma- og klónaval, kynbætur og grunnrannsóknir á erfðalindum.
    Undir lok áætlunartímabilsins verður komið að fyrstu grisjun í lerkiskógum á vegum Héraðsskóga og þá mun magn grisjunarviðar sem til fellur margfaldast frá því sem nú er. Tímabært er að leggja aukna áherslu á rannsóknir og þróun viðarnytja í því skyni að finna verðmætaaukandi notkunarmöguleika fyrir grisjunarvið.
    Ríkisframlagið til skógræktarrannsókna samsvarar 19% af framlaginu til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna árið 2003. Ekki er talin ástæða til að halda þessu hlutfalli, enda hlýtur rannsóknaþörfin, sem önnur þjónusta, að verða hlutfallslega hagkvæmari með aukinni stærð landshlutaverkefnanna. Sú hækkun sem lögð er til nemur 5–7% af árlegri hækkun til landshlutaverkefnanna, sem er nálægt því að vera það hlutfall af framlaginu til Héraðsskóga og Suðurlandsskóga sem nýtt hefur verið til rannsókna í þeirra þágu á undanförnum árum. Hér er sem sagt lagt til að samsvarandi upphæð renni beint til Skógræktar ríkisins til að þjóna rannsóknaþörf vegna landshlutaverkefnanna svo að fjármunir þeirra nýtist skógarbændum fyrst og fremst. Rætt hefur verið um að endurvekja fagráð í skógræktarrannsóknum með þátttöku landshlutaverkefnanna og skógarbænda til að tryggja þeim áhrif í ákvörðunum um verkefnaval. Þá er gert ráð fyrir að þessir fjármunir verði nýttir til kaupa á rannsóknum frá þriðja aðila eða til að styrkja rannsóknaverkefni framhaldsnema ekki síður en til að auka faglega færni innan Skógræktar ríkisins með mannaráðningum. Í lok tímabilsins er gert ráð fyrir að framlag til rannsókna samsvari 12% af framlaginu til landshlutaverkefnanna.

Þjóðskógarnir.
    Frá upphafi hefur Skógrækt ríkisins haft það hlutverk að vernda náttúrlega skóga og í því skyni eignaðist hún á sínum tíma einhver helstu og merkilegustu skóglendi landsins. Auk Hallormsstaðaskógar og Vaglaskógar má þar nefna Ásbyrgi, Þórsmörk og minna þekkta en ekki síður merkilega skóga, svo sem einhvern hávaxnasta birkiskóg landsins, Skuggabjargarskóg í mynni Fnjóskadals, stórvaxnasta birkiskóg á Vesturlandi, Vatnshornsskóg í Skorradal og marga fleiri.
    Á árunum 1950–1990 lagði Skógrækt ríkisins höfuðkapp á gróðursetningu og urðu allstórir skógar til á þennan hátt. Nefna má Tumastaði, Þjórsárdal, Haukadal, Stálpastaði og fleiri svæði í Skorradal, Jafnaskarð við Hreðavatn, Reykjarhól við Varmahlíð, Vagli á Þelamörk og Hafursá/Mjóanes á Héraði. Á síðustu 15 árum hefur Skógrækt ríkisins eignast lönd sem einkum eru nýtt sem rannsóknasvæði og má þar nefna Mosfell í Grímsnesi og Höfða á Austur-Héraði. Auk þess hafa gömlu skóglendin öðlast nýtt gildi sem rannsóknasvæði og má segja að Hallormsstaðaskógur sé mesti rannsóknaskógur landsins.
    Skóglendi í eigu og umsjón Skógræktar ríkisins kallast til samans þjóðskógarnir. Þjóðskógarnir eru sannir fjölnytjaskógar þar sem saman fara verndarsjónarmið, útivist fyrir almenning, rannsóknir og þróun og lítils háttar viðarframleiðsla.
    Í uppbyggingu skógræktar að undanförnu hafa þjóðskógarnir orðið útundan. Lagt hefur verið kapp á stofnun og uppbyggingu landshlutaverkefnanna og innan Skógræktar ríkisins hefur uppbygging þjónustu við þau notið forgangs. Um leið hafa þjóðskógarnir tapað sinni helstu tekjulind, gróðrarstöðvarekstri, og hefur starfsemin dregist mjög mikið saman frá því sem áður var. Einkum vegna þeirrar þýðingar sem þjóðskógarnir hafa sem útivistarsvæði, rannsóknasvæði og sem fyrirmyndir fyrir aðra skógrækt verður ekki gengið lengra í þá átt að draga saman í rekstri þeirra án þess að skaði hljótist af. Þess vegna er lögð til hægfara aukning í framlögum til þess málaflokks og er þeirri aukningu einkum ætlað að koma til móts við þörf á umhirðu og kröfur almennings um bætta aðstöðu til útivistar. Hér er einnig gert ráð fyrir að hlutfall verktakavinnu aukist á komandi árum frekar en að auka starfsmannahald.