Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1124  —  567. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot gegn börnum og mansal).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Benedikt Bogason frá refsiréttarnefnd. Þá bárust umsagnir frá ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Fangelsismálastofnun ríkisins, lögreglustjóranum í Reykjavík, dómstólaráði og samtökunum Barnaheill.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum, einkum XXII. kafla sem fjallar um kynferðisbrot, m.a. með það í huga að auka refsivernd barna. Í fyrsta lagi er lögð til hækkun á refsimörkum vegna nánar tilgreindra kynferðisbrota sem beinast gegn börnum. Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði sem leggi refsingu við svonefndu mansali og loks er lögð til minni háttar breyting á skipan ákvæða í málsgreinar.
    Helstu ástæður þess að lögð er til þynging hámarksrefsingar fyrir tiltekin kynferðisbrot gegn börnum eru að umrædd ákvæði taka til brota þar sem venjulega er mikill aldursmunur á milli barns og geranda, sem jafnframt brýtur gróflega gegn trúnaði sínum við barnið. Þau brot sem hér um ræðir eru mjög alvarleg og sífellt hefur orðið betur ljóst hve miklum skaða börn geta orðið fyrir þegar þau eru misnotuð kynferðislega.
    Nefndin telur rétt að vekja athygli á því að með því að leggja hér til hækkun á refisramma færast umrædd ákvæði í svokallaðan hærri brotaflokk sem þýðir að fyrningartími brotanna lengist. Fyrningarfrestur brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. almennra hegningarlaga reiknast frá þeim degi sem brotaþoli nær 14 ára aldri.
    Í svonefndu mansali felst hagnýting á einstaklingi, oft í kynferðislegum tilgangi. Þótt háttsemin sem lýst er í frumvarpinu sé í flestu tilliti þegar refsinæm samkvæmt ákvæðum hegningarlaga er með frumvarpinu lögð sérstök áhersla á þessi brot þar sem þau þykja mjög alvarleg.
    15. nóvember 2000 var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samningur gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi, svonefndur Palermó-samningur. Einnig voru samþykktar bókanir við samninginn, þar á meðal bókun til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Samningurinn og bókunin voru undirrituð af Íslands hálfu 13. desember 2000 en hafa ekki enn verið fullgilt. Mansalsákvæðið á rætur sínar að rekja til þessa alþjóðasamnings og bókana við hann. Nefndin ræddi sérstaklega tilurð ákvæðisins og bendir á að fram hefur komið að við verknaðarlýsingu mansalsákvæðisins í frumvarpinu hafi verið höfð hliðsjón af 3. gr. bókunarinnar við Palermó-samninginn. Nefndin telur rétt að taka fram að það er ætlun löggjafans að efnislegt innihald hins nýja mansalsákvæðis í almennum hegningarlögum verði túlkað í samræmi við ákvæði í fyrrnefndum Palermó-samningi. Þá telur nefndin mikilvægt að hugað verði áfram að því að veita fórnarlömbum mansals nauðsynlega vernd, svo sem vitnavernd.
    Nefndin ræddi sérstaklega kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins en þar kemur fram að ekki sé ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo að nokkru nemi. Skiptar skoðanir eru um það hvort hækkun refsinga leiði til lengri fangelsisvistar með tilheyrandi útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Á móti vega sjónarmið um varnaðaráhrif refsinga. Það er því mat nefndarinnar að engan veginn sé í raun hægt að meta hvort frumvarpið komi til með að hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
     Að lokum leggur nefndin áherslu á að samningur gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi, Palermó-samningurinn, sem þegar hefur verið undirritaður, verði fullgiltur við fyrsta tækifæri.
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingu við 5. gr. til frekari skýringar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir orðunum „villu viðkomandi“ í 1. tölul. 1. efnismgr. 5. gr. komi: um aðstæður.

    Jónína Bjartmarz og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk afgreiðslu þess.

Alþingi, 7. mars 2003.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.



Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Ólafur Örn Haraldsson.