Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1156  —  469. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, Sigurberg Björnsson og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá samgönguráðuneytinu, Helga Hallgrímsson og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni, Hermann Guðjónsson, Gísla Viggósson og Kristján Vigfússon frá Siglingastofnun Íslands, Þorgeir Pálsson frá Flugmálastjórn Íslands, Emil Sigurðarson og Þorstein Steinsson frá sveitarstjórn Vopnafjarðar og Árna Þór Sigurðsson og Ólaf M. Kristinsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga.
    Umsagnir um málið bárust frá Garðabæ, Siglingastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands, Umferðarstofu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, flugráði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vegagerðinni, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Byggðastofnun, Leið ehf., Bolungarvík, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Flugmálastjórn, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vélskóla Íslands og Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.
    Með lögum um samræmda samgönguáætlun, nr. 71/2002, sem samþykkt voru á seinasta þingi var samgönguráðherra falið að leggja fram á Alþingi á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun sem tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. hafnamála og sjóvarna, og rekstrar stofnana. Jafnframt skal í áætluninni skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna í landinu, gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngumálum og marka stefnu fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Samhliða tólf ára áætlun ber samgönguráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun sem nánari sundurliðun. Fjögurra ára áætlun kemur í stað flugmálaáætlunar, siglingamálaáætlunar og vegáætlunar.
    Samkvæmt framansögðu er hlutverk þessara tveggja áætlana nokkuð ólíkt. Tólf ára áætlunin felur fyrst og fremst í sér stefnumótun. Í fyrirliggjandi áætlun er markmiðið sett á greiðari samgöngur með auknum flytjanleika í samgöngukerfinu sem taki bæði til fólks og vöru með það að markmiði að skapa skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan við 3 1/ 2klst. Þá er markið sett á meiri hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, að samgöngur verði umhverfislega sjálfbærar og öryggi aukist. Loks er skilgreint grunnnet samgangna sem tekur allt í senn til flugvalla, hafna og vega. Grunnnetið nær til allra byggðakjarna með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Fjögurra ára áætlunin er eins og áður segir nánari sundurliðun þar sem gerð er grein fyrir fjáröflun og útgjöldum, skipt eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi fyrir hvert ár.
    Meiri hlutinn telur hina breyttu framsetningu veg-, flugmála- og siglingamálaáætlunar mjög til bóta sem og hina tólf ára stefnumótandi langtímaætlun, enda fæst nú í fyrsta sinn heildstæð yfirsýn samgöngumála í landinu. Þá telur meiri hlutinn að ávinningurinn felist ekki síst í því nána samstarfi sem skapast á milli Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar Íslands og Flugmálastjórnar Íslands í gegnum samgönguráð. Jafnframt telur meiri hlutinn ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um samgönguáætlun afar þýðingarmikið, en samkvæmt því skal samgönguráð minnst einu sinni á hverjum fjórum árum standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að vera til ráðgjafar og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar en til þess ber að bjóða öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála. Með þessu er skapaður grundvöllur fyrir virk skoðanaskipti um samgöngumál.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á fyrsta tímabili tillögunnar. Breytingarnar leiðir af þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006 og er til nánari glöggvunar vísað til skýringa í nefndarálit meiri hlutans í því máli. Þá mælist meiri hlutinn jafnframt til þess að flokkun vega í grunnneti verði athuguð sérstaklega við næstu endurskoðun samgönguáætlunar og þá einkum með tilliti til safnvega og tengivega.
    Að lokum telur meiri hlutinn eðlilegt að umferðaröryggisáætlun 2001–2012 sem Alþingi hefur samþykkt verði hluti samgönguáætlunar í framtíðinni. Meiri hlutinn telur sérstaklega að hraða þurfi úrbótum á stöðum þar sem liggja fyrir gögn um að umferðaröryggi sé ábótavant á þjóðvegi eitt.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. mars 2003.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.