Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1214, 128. löggjafarþing 353. mál: almenn hegningarlög (brot í opinberu starfi).
Lög nr. 54 20. mars 2003.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (brot í opinberu starfi).


1. gr.

     Á eftir orðinu „gjöldum“ í 1. málsl. 129. gr. laganna kemur: þar á meðal þjónustugjöldum.

2. gr.

     Í stað orðsins „rannsókn“ í 131. gr. laganna kemur: leit.

3. gr.

     132. gr. laganna orðast svo:
     Ef opinber starfsmaður, sem í 130. gr. eða 131. gr. getur, gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.

4. gr.

     133. gr. laganna orðast svo:
     Ef opinber starfsmaður, sem á að gæta fanga, þ.m.t. sakbornings sem sviptur hefur verið frelsi sínu, eða annast framkvæmd refsidóma, lætur fanga eða sakborning komast undan, tálmar framkvæmd dóms, hlífir manni við að taka út hegningu eða kemur því til leiðar að refsing er framkvæmd með öðru og vægara móti en mælt er, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef brot er smáfellt.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 137. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „póst- eða símamálefni“ kemur: póst- eða fjarskiptaþjónustu.
  2. Við greinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um starfsmann lögaðila sem fengið hefur opinbert leyfi til póstþjónustu eða til að annast fjarskipti á grundvelli slíks leyfis eða verktaka sem sinnir póst- eða fjarskiptaþjónustu á ábyrgð lögaðila.


6. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 141. gr. a, svohljóðandi:
     Opinber starfsmaður skv. 128., 129., 134., 135., 138., 139., 140. og 141. gr. þessara laga telst sá sem vegna stöðu sinnar eða heimildar í lögum getur tekið eða haft áhrif á ákvarðanir um réttindi og skyldur einstaklinga eða lögaðila eða ráðstafað eða haft áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.