Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1221  —  469. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Minni hlutinn er fylgjandi þeirri stefnu að samgöngumál séu skipulögð sem samstæð heild í stað þeirrar tilhögunar sem áður var að líta á hvern hinna þriggja þátta samgangna sem afmarkaðar stærðir, skipulagslega og hagrænt. Þá er og fagnaðarefni að auknu fjármagni sé varið til þessa málaflokks á næstu 18 mánuðum og sérstaklega til vegaframkvæmda á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Það ætti að vera forgangsverkefni að góður vegur með bundnu slitlagi komi um allar byggðir landsins.
    Minni hlutinn tekur undir flestar áherslur og breytingartillögur meiri hlutans og vísar til nefndarálits meiri hlutans hvað varðar tölur og sundurgreiningu fjármagns á einstök verk og verkþætti.
    Í þingsályktunartillögunum fyrir fjögurra ára og 12 ára samgönguáætlun er fjallað um „markmið um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna“ og „meðal aðgerða til að ná þessu markmiði verði“:
     a.      Leitað leiða til þess að nýta kosti markaðsaflanna við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins.
     b.      Rekstur samgangna í lofti, á sjó og á landi, sem ríkið kemur að, boðinn út til að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi.
     c.      Stefnt að sanngjarnri og skilvirkri gjaldtöku fyrir afnot af samgöngukerfinu.
    Í umsögn Byggðastofnunar um þessi atriði segir svo: „Byggðastofnun leggur áherslu á að umrædd gjaldtaka vinni ekki gegn áðurnefndum byggðamarkmiðum, en stuðli að jafnræði óháðu búsetu. Þótt stefnt sé að markaðslausnum er ekki þar með sagt að beinar fjárhagslegar forsendur eigi þar að vera eini mælikvarðinn. Þar getur bæði þurft að taka til greina það sem á hagfræðimáli er nefnt almannahagsmunir (public interest) og ómælanlegir hagsmunir (intangibles), en báðir þessir þættir liggja til grundvallar áðurnefndum byggðamarkmiðum og byggjast á góðu og notendavænu samgöngukerfi. Þessa þætti er erfitt að verðleggja eða reikna ávinning af þeim í peningum, og það er einungis á færi hins opinbera að gæta þessara hagsmuna. Mikilvægt er því að huga að þeim við hagkvæmnimat og gjaldtöku samgöngukerfisins.“ Tekið er heilshugar undir þessi varnaðarorð.
    Grunnnet samgöngukerfisins skal ná til allra byggðakjarna með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri og til þeirra staða sem eru mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku og flutninga til og frá landinu. Nokkur byggðahverfi eru þó ekki tengd grunnneti samgangna, svo sem flugvellirnir á Gjögri og Vopnafirði en þangað er reglubundið áætlunarflug. Enn fremur er vegurinn norður Strandir í Árneshrepp ekki hluti grunnnetsins.

Umferðaröryggismál.
    Varðandi fjármagn til einstakra framkvæmdaþátta telur minni hlutinn að verja hefði átt hærri hlut til öryggismála, svo sem breikkun einbreiðra brúa, og til að lagfæra sérstaka slysastaði eða svokallaða svarta bletti í vegakerfinu. Í því sambandi skal bent á að Alþingi hefur samþykkt sérstaka umferðaröryggisáætlun og gert ráð fyrir að sérstakur fjárlagaliður verði merktur henni. Umferðaröryggisáætluninni er hvergi gerð skil í fjármögnun samgönguáætlunarinnar.

Sjálfbær þróun og Staðardagskrá 21.
    Íslendingar hafa skuldbundið sig til að fylgja sjálfbærri þróun í samgöngum og hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum og takmörkun á mengun frá samgöngum. Að mati minni hlutans skortir mikið á að þeim markmiðum sé fylgt. Má þar benda á áherslur sem settar eru í Staðradagskrá 21. Þar er m.a hvatt til aukinna almenningssamgangna og bætt skilyrði fyrir umferð reiðhjóla og gangandi fólks. Þessa sést hvergi stað í samgönguáætluninni.

Safn- og tengivegir.
    Framlög til safn- og tengivega, svokallaðra sveitavega, svo og styrkvega og ferðamannaleiða njóta ekki þess átaks sem annars er gert í vegmálum. Er það miður því að þörfin fyrir þessar vegabætur er afar brýn fyrir atvinnulíf og búsetu um hinar dreifðu byggðir.

Almenningssamgöngur.
    Hlutur almenningssamgangna er afar rýr. Ekki er gerð grein fyrir því hvernig á að ná því markmiði að reglubundnar almenningssamgöngur skulu ná til allra þéttbýlisstaða með 200 íbúa eða fleiri. Í markmiðunum er tekið fram að ferðatími skuli ekki vera meiri en um 3½ klukkustund með bíl eða flugi til höfuðborgarsvæðisins, en ekkert er kveðið á um tíðni ferða sem hlýtur þó að skipta öllu máli fyrir þjónustustigið.
    Tekið er undir umsögn Reykjavíkurborgar þar sem segir: „Mörkuð er stefna um að ríkið styðji frekar við almenningssamgöngur í þéttbýli en nú er og lagt til að teknar verði upp viðræður ríkis og sveitarfélaga í þessu sambandi. Þessari stefnumörkun er fagnað og er Reykjavíkurborg reiðubúin að hefja viðræður um þessa hluti. Í umfjöllun um almenningssamgöngur er þó ekki fjallað um annað en ferjur og flóabáta, áætlunarflug og sérleyfi á landi. Er löngu tímabært að ríkisvaldið komi myndarlega að uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að stórauka hlut þeirra og ráðstafi jafnframt fjármagni til þeirra í stað þess að beina því nær undantekningarlaust að hefðbundnum gatnagerðarframkvæmdum.“
    Engin stefnumörkun liggur fyrir í almenningssamgöngum innan einstakra bæjarfélaga og byggðahverfa í landinu.

Skiptar skoðanir.
    Skiptar skoðanir eru um réttlæti í úthlutun fjár til einstakra bæjarfélaga og landshluta. Vakin er athygli á athugasemd frá Akureyrarbæ um að ekki sé „gert ráð fyrir neinum fjármunum í lagningu og/eða endurbætur umferðarmannvirkja (þjóðvegir og tengd mannvirki) á Akureyri næstu 12 ár. Til samanburðar þá er gert ráð fyrir í fyrirliggjandi áætlun að 21 milljarður kr. fari til sambærilegra verkefna á höfuðborgarsvæðinu.“

Samgöngur á sjó.
    Hvað varðar hlut hafnanna í samgönguáætluninni er gert ráð fyrir lækkun á framlagi ríkisins til hafnamála á síðari hluta tímabilsins. Hafnasamband sveitarfélaga bendir á að „sú mikla lækkun sem gert er ráð fyrir milli fyrsta fjögurra ára tímabilsins annars vegar og þriðja tímabilsins hins vegar sé órökstudd og mundi hafa í för með sér afar alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmargar hafnir og byggðarlög vítt og breitt um landið.“
    Siglingar meðfram ströndum landsins verða alveg útundan í samgönguáætlun, sbr. umsögn Félags íslenskra skipstjórnarmanna.
    Fyrir þinginu liggur tillaga um strandsiglingar sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja og kveður á um að gerð verði „úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land séu öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og öðru sem máli skiptir.“ Brýnt er að sú tillaga nái fram að ganga á þessu þingi.

Lokaorð.
    Afar lítill tími gafst til þess innan samgöngunefndar að fjalla um tillöguna, stefnumörkun hennar og áherslur, forgangsröðun og fjárveitingar til einstakra þátta samgangna. Góðar samgöngur eru forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og búsetu vítt og breitt um landið.
    Minni hlutinn getur stutt flest verkefni áætlunarinnar og fjárveitingar sem lagðar eru til þeirra en hefði viljað sjá aðrar áherslur í samræmi við það sem rakið er hér að framan í nefndarálitinu.

Alþingi, 11. mars 2003.Jón Bjarnason.


Fylgiskjal I.


Umsögn Hafnasambands sveitarfélaga um tillögur til þingsályktunar
um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014 og
um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006.

(Reykjavík 25. febrúar 2003.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn Félags íslenskra skipstjórnarmanna um tillögur til þingsályktunar
um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014 og
um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006.

(Reykjavík 20. febrúar 2003.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst
f.h. Félags íslenskra skipstjórnarmanna

Guðjón Petersen.