Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1447, 128. löggjafarþing 716. mál: lax- og silungsveiði (yfirstjórn fisksjúkdómamála).
Lög nr. 63 26. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

1. gr.

     1. mgr. 78. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn fisksjúkdómamála. Honum til aðstoðar er fisksjúkdómanefnd, en í henni eiga sæti yfirdýralæknir, sem er formaður nefndarinnar, veiðimálastjóri, fiskistofustjóri og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Ef atkvæði verða jöfn í nefndinni skal atkvæði formanns ráða úrslitum. Fisksjúkdómanefnd skal hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í kafla þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra skal setja sérstaka reglugerð um innflutning og útflutning sjávardýra í samráði við sjávarútvegsráðherra.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2003.