Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:20:53 (3903)

2004-02-05 11:20:53# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umræða gefa dálítið tilefni til þess að velta nokkuð fyrir sér þeirri þróun sem orðið hefur í störfum þingsins varðandi fyrirspurnir og skýrslubeiðnir af hálfu hv. þm.

Ég er einn þeirra sem hef lagt fyrir hæstv. ráðherra allmargar fyrirspurnir og hef lagt skýrslubeiðnir fyrir ráðherra. Þetta er auðvitað hluti af því þinglega starfi sem við erum öllsömul að rækja og mjög þýðingarmikill þáttur þess. En það fer ekkert á milli mála þegar maður skoðar þetta, án þess að fara neitt vísindalega ofan í það, að fjöldi fyrirspurna hefur aukist mjög mikið. Ýmsar þeirra fyrirspurna sem við sjáum hérna eru gríðarlega viðurhlutamiklar og kalla á mikla vinnu í okkar annars litlu stjórnsýslu.

Það vill þannig til að ég þekki dálítið til varðandi þetta mál sem hérna er sérstaklega verið að ræða og alveg ljóst að sú vinna sem skýrslubeiðnin kallar á er gífurlega mikil og umfangsmikil að öllu leyti og langt umfram getu stjórnsýslunnar sjálfrar. Þar yrðum við að leita eftir aðstoð utan stjórnsýslunnar með því að kalla til sérfræðinga í þessu skyni.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þingið, forsetadæmi þingsins og formenn þingflokka að við veltum þessu aðeins fyrir okkur og gerum okkur grein fyrir því hvaða þróun er að verða. Ég held að umræðan hérna, sem er prýðileg umræða, gefi mér sem formanni þingflokks Sjálfstfl. tilefni til þess að óska eftir því af hálfu þingsins að við fáum eitthvert yfirlit yfir þessa þróun. Ég er ekkert að dæma þróunina, ég er fyrst og fremst að vekja athygli á henni.

Í þessu sambandi vil ég m.a. vekja athygli á því að eftir þeim upplýsingum sem ég fékk í gær er t.d. 50 munnlegum fyrirspurnum ósvarað í þinginu sem er dæmi um það að þetta er að breytast. Vinnuálagið á stjórnsýsluna af okkar hálfu er að aukast og við þurfum einfaldlega að átta okkur á því. Það er alveg ljóst mál að við þurfum t.d. að gera okkur grein fyrir því við afgreiðslu á skýrslubeiðnum og fyrirspurnum til hvers þær muni leiða, hvort það sé yfir höfuð hægt að ljúka vinnu við þær innan tilsetts tíma.