Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 13:50:46 (3992)

2004-02-10 13:50:46# 130. lþ. 61.91 fundur 311#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan er hæstv. fjmrh. ekki til staðar til að ræða um svarið sem hefur verið til umræðu. Þar með getum við ekki komist að neinni efnislegri niðurstöðu um málið.

Þó verð ég að vekja athygli á því sem mér finnst vera kjarni málsins þegar maður les í gegnum svarið sem ég hef verið að gera undir umræðunni. Það sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra er að það gilda mjög skýrar reglur um skattskyldu þeirra starfsmanna sem vinna við Kárahnjúka. Það eru mjög skýrar reglur, hinar íslensku reglur sem við þekkjum. Ef menn skila ekki þessum sköttum er hægt að beita við því viðurlögum. Það er það sem hæstv. ráðherra hefur greinilega verið að vísa til annars staðar í svarinu þegar hann segir að ekki séu uppi álitamál. Það er auðvitað ekkert álitamál að um þetta gilda íslensk lög. Það eru mjög hörð úrræði sem gripið er til. Það er ekki tilviljun að þetta er stundum í daglegu tali kallað ,,rimlagjöldin``, ef menn ekki skila staðgreiðslugjöldunum, og ríkið hefur öll þau úrræði sem það vill beita til að tryggja að þessir peningar skili sér. Það er augljóslega þetta sem svarið kveður á um. Í fyrsta lagi að vekja athygli á þeim skýru íslensku reglum sem gilda og að fara skuli með þetta eins og um íslenskt fyrirtæki væri að ræða sem starfar á íslenskum markaði, og að það er ekkert vandamál því samfara að fjmrn. getur með sama hætti og það innheimtir gjöld af íslenskum fyrirtækjum innheimt gjöld af þessu erlenda fyrirtæki.