Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:39:02 (6607)

2004-04-23 11:39:02# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að í sjálfu sér sé ekki neinn ágreiningur milli okkar hv. þingmanns í þessu máli. Hvort við ættum að einbeita okkur að einni hugmynd frekar en að vera að setja of mörg járn í eldinn, um það vil ég segja að maður getur nú alltaf á sig blómum bætt. Ég held að það skipti verulegu máli að þeir sem koma að jafnréttismálum í samfélaginu setji upp á borðið allar hugmyndir sem eru til staðar.

Í þessari tillögu eru tvær hugmyndir útfærðar, annars vegar hugmyndin um sjóðinn og hins vegar um hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Þessar hugmyndir eru auðvitað núna uppi á borðinu og eru þar af leiðandi í umfjölluninni og í umfjöllun þeirra sem eiga að fjalla um jafnréttisáætlunina og vinna eftir jafnréttisáætlun stjórnvalda. Maður skyldi því ætla að þetta væri veganesti fyrir það fólk sem er að vinna í málaflokknum.

Auðvitað treysti ég því að ef þessi þáltill. nær ekki gegnum þingið í því eðlilega ferli sem þáltill. fara hér í gegn komist hún inn annars staðar. Í öllu falli skiptir máli að hugmyndin er útfærð, hugmyndin er á borðinu og hugmyndin er til umfjöllunar í þeirri viðleitni okkar meðal allra þeirra sem eru að starfa af fullum áhuga og ákefð í því að koma á jafnrétti og jafna stöðu karla og kvenna í þessu samfélagi.

Ég held að hér skipti mestu máli að við erum öll að fjalla um þetta sameiginlega áhugamál okkar og það skiptir máli að allar hugmyndirnar séu til staðar þannig að við getum skoðað þær vel.