Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:36:22 (8064)

2004-05-12 23:36:22# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:36]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Til hæstv. fyrrverandi umhvrh.: Ég tel eðlilegt að staldra örlítið við og endurtaka úr 1. umr. þessa máls það sem ég sagði þar, þar sem ég er með skírskotun til orða Samf. frá því fyrir nokkrum missirum. Hvers vegna? Vegna þess að mér finnst ekkert hafa komið fram í hinni löngu umræðu um það hvað Samf. vill gera. Vill hún sætta sig við það að á hinum frjálsa almenna markaði séu einstakir risar með í kringum 50% markaðshlutdeild á fjölmiðlamarkaði, matvælamarkaði og öðrum sviðum?

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var þeirrar skoðunar að það ætti strax að ganga í þessar blokkir. Það er þess vegna sem ég vísa til ræðu hans. (Gripið fram í: ... Norðurljósum ...) Hefur hv. þm. skipt um skoðun? Telur hann ekki ástæðu til að grípa til aðgerða í dag?