Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:45:48 (389)

2003-10-09 13:45:48# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Enginn skyldi efast um að forustumönnum bænda, sem stóðu fyrir síðasta sauðfjársamningi, hafi af einlægni gengið það til að styrkja sauðfjárræktina og standa að henni þannig að hún gæti blómgast. Margir í þinginu hjálpuðu til við að þessi samningur gæti gengið fram og studdum við hann og styrktum eins og við gátum. Forsenda samningsins var hins vegar sú von að verðlag á innlendum jafnt sem útflutningsmarkaði mundi standast miklu betur en raunin hefur verið. Það hefur alls ekki staðist á nokkurn hátt sem við settum til grundvallar þessum samningi, hvorki innan lands né erlendis. Þessar grunnforsendur eru ekki til staðar. Við sem stóðum fyrir þessu og styrktum þetta berum ábyrgðina á þessum samningi og það þýðir ekki annað fyrir okkur en að horfast í augu við staðreyndirnar. Þær eru þannig að afkoma bænda er slæm.

Í fjárlagafrumvarpinu á bls. 112, lið 04-805, er stuðningur við sauðfjárræktina með niðurstöðutölu 2.610 millj. kr. Þar af eru til beingreiðsluhafa 1.602 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég get ekki metið stöðuna öðruvísi. Það er kaldranalegt að þurfa að segja það en að mínu mati höfum við enga aðra möguleika en að taka allar þessar greiðslur, allar 2.610 milljónirnar og færa inn til beingreiðsluhafanna. Það eru þau atvinnuréttindi sem við erum að verja. Við verðum að verja það sem hægt er að verja í stað þess að láta atvinnugreinina alla fara fyrir borð, sjá hana leysast upp í fátækt og verða að engu. Með því að styrkja beingreiðsluhafana erum við að tryggja að sauðfjárræktin eigin sér framtíð.