Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:43:58 (2925)

2003-12-06 14:43:58# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Það er staðið við það að tvöfalda grunnlífeyri yngstu öryrkjanna. Það er nákvæmlega samkvæmt því samkomulagi sem öryrkjar gengu út frá. En það er þessi línulaga tafla, þ.e. hvernig draga á úr þessari tvöföldun á grunnlífeyri þeirra sem verða yngstir öryrkjar þar til öryrkjar eru orðnir 67 ára, sem við tökumst á um. (Gripið fram í.) Þar vantar þennan hálfa milljarð.

Hvað er rúmur milljarður? Hvað er rúmur milljarður? (BJJ: Ekki 1,5 milljarðar kr.) Er það 1,1 milljarður kr.? Er það 1,2 milljarðar kr.? Hvað er rúmur milljarður þegar hv. þingmenn Framsfl. vissu að útreikningar Tryggingastofnunar ríkisins voru upp á 1,5 milljarða kr.? Það var sú niðurstaða sem Tryggingastofnun ríkisins hafði fengið með því að reikna 16 og 17 ára unglinga með í dæmið. Ég spyr því: Hvað er rúmur milljarður?

Ég heyrði hv. þingmenn og frambjóðendur Framsfl. aldrei segja 1,5 milljarða kr. Ég heyrði það aldrei. En hvað er rúmur milljarður? Þýddi það ekki að það var ekki alveg búið að ganga frá útreikningum eða töldu þeir sig vera óbundna af þessu? Þessar tölur lágu a.m.k. fyrir. Þeir höfðu kannski ekki kynnt sér það en eins og ég sagði áðan verður farið yfir tímasetningar og það hvenær hv. frambjóðendur vissu af réttum tölum.