Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 35  —  35. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu félagslegs forvarnastarfs.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna rammaáætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna, þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks.
    Áætlunin feli í sér úttekt á félagsstarfi í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu sem til greina kemur í þessu sambandi, svo sem starfi á vegum félagsmiðstöðva, ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, skáta, tómstundafélaga og trúfélaga. Einnig verði gerðar tillögur um hvernig vænlegast sé að efla slíkt starf þannig að árangur náist.
    Til átaksins verði varið allt að 10 millj. kr. á árinu 2003 til að undirbúa framkvæmd þess og síðan allt að 180 millj. kr. árlega í fimm ár eða þar til ákvarðanir verða teknar um frekara framhald þess. Tekna verði aflað með hækkun á hlutfalli áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð, sbr. 7. gr. laga nr. 96/1995. Áfengis- og vímuvarnaráð geri tillögur til Lýðheilsustöðvar og heilbrigðisráðherra um ráðstöfun þess fjár sem við bætist í Forvarnasjóð og sérstaklega er ætlað til eflingar félagslegu forvarnastarfi, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 18/2003. Heilbrigðisráðherra setji, að höfðu samráði við menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra, nánari ákvæði í reglugerð, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 18/2003, um þetta efni, þ.m.t. hvernig háttað skal samráði og samstarfi einstakra aðila sem málið varðar.
    Ríkisstjórnin skili Alþingi árlega skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar þar sem árangur átaksins er metinn.

Greinargerð.


    Tillaga þessi hefur tvívegis áður verið lögð fyrir Alþingi, þ.e. á 127. og 128. löggjafarþingi. Hún er nú endurflutt með nokkrum breytingum sem gerðar voru frá upphaflegri útgáfu. Er þar m.a. tekið mið af atriðum sem fram komu í umsögnum sem bárust á 127. löggjafarþingi. Meginbreytingin er sú að mælt er fyrir um að tekna skuli aflað með hækkun á þeim hluta áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð. Verði hluti Forvarnasjóðs hækkaður úr 1% í 2% af áfengisgjaldi strax 1. nóvember nk. gæti það gefið nálægt 10 millj. kr. í viðbótartekjur til að hefja undirbúning að framkvæmd átaksins. Hækkun þess hluta áfengisgjalds sem rennur í Forvarnasjóð í 4% um næstu áramót mundi svo skila nálægt 180 millj. kr. á ári í viðbótartekjur til að standa straum af kostnaði við átakið. Samhliða tillögu þessari verður flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki þar sem lagt verður til að hlutur Forvarnasjóðs hækki eins og áður sagði. Í samræmi við þetta er einnig valin sú leið að mæla fyrir um að áfengis- og vímuvarnaráð hafi með höndum tillögugerð til ráðherra um ráðstöfun fjárins. Af hálfu flutningsmanna var að sjálfsögðu alltaf ætlunin að átak til eflingar félagslegu forvarnastarfi yrði hrein viðbót og til styrktar almennu forvarnastarfi sem fyrir er og unnið í góðu samráði allra málsaðila. Tillagan í eldri útgáfu sinni fól hins vegar ekki í sér nein fyrirmæli um hvernig staðið yrði að framkvæmd átaksins eða hver annaðist fjárvörslu og tillögugerð um ráðstöfun. Augljóst er að eigi tillagan að ná tilgangi sínum þarf að takast mjög gott samstarf milli allra sem sinna áfengis- og vímuvarnamálum og þeirra fjölmörgu sem halda úti félagastarfsemi sem efla má í forvarnaskyni, sbr. eftirfarandi greinargerð. Einnig er mikilvægt að virkja aðila eins og sveitarfélögin og samtök þeirra til liðs við baráttuna. Sérstök ástæða er til að beina fjárstuðningi til verkefna í fámennum og fjárhagslega veikburða sveitarfélögum þar sem ástæða er til að ætla að starfsemi af því tagi sem um ræðir standi höllum fæti. Ráðherra er því falið að setja nánari ákvæði í reglugerð um þetta atriði sérstaklega, þ.e. hvernig samráði og samstarfi einstakra aðila skuli háttað. Að öðru leyti stendur eldri greinargerð tillögunnar óbreytt fyrir sínu
    „Ljóst er að neysla fíkniefna er alvarlegt samfélagsvandamál á Íslandi. Allir stjórnmálaflokkar hafa lýst vilja til að bregðast við þessum vanda og í umræðu um þessi efni er jafnan lögð mikil áhersla á forvarnir. Sú tillaga sem hér er flutt er hugsuð sem innlegg í baráttuna gegn neyslu ávana- og fíkniefna og snýr að félagslegum forvörnum. Um leið er ætlunin að stuðla að þroskandi þátttöku ungs fólks, bæði félagslega, andlega og líkamlega, í uppbyggilegu félagsstarfi.
    Það er ekki markmið forvarnastarfs í sjálfu sér að hafa úrslitaáhrif á það hvernig einstaklingar haga lífi sínu eftir að þeir eru komnir á fullorðinsár. Segja má að forvarnir snúist um að stuðla að því að fólk láti vera að nota vímuefni eða hefji a.m.k. ekki notkun þeirra fyrr en það getur tekið yfirvegaða ákvörðun um það og neyti þeirra þá ekki í óhófi. Það er samdóma álit þeirra sem vinna að forvörnum að það eitt að seinka notkun vímuefna hjá ungu fólki sé alltaf til bóta, enda hljóti það að vera betur í stakk búið til að umgangast vímugjafa eftir því sem það öðlast meiri þroska og þekkingu á þeim efnum sem um er að ræða.
    Félagslegar forvarnir hafa þann mikla kost að í raun eru þátttakendurnir sjálfir að sinna eigin forvörnum með því að taka þátt í þroskandi og uppbyggjandi félagsstarfi og sniðganga vímuefnin í senn. Slíkt félagsstarf eykur alla jafna samskiptahæfni fólks, eflir sjálfstraust þess og virðingu fyrir öðrum. Hvað félagslegar forvarnir snertir er höfuðatriði að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Eðlilegt er að líta til nemendafélaga, tómstundafélaga, skáta, félagsmiðstöðva, trúfélaga og síðast en ekki síst íþróttahreyfingarinnar.
    Íþróttahreyfingin vinnur sem kunnugt er geysilega mikilvægt starf á þessu sviði. Kannanir sýna að íþróttir gegna stóru hlutverki í félagslegum forvörnum gegn ávana- og fíkniefnum. Þar kemur ekki aðeins til hið mikla félagslíf sem íþróttaiðkun fylgir. Unglingar sem stunda íþróttir velja sér einnig frekar fyrirmyndir úr hópi íþróttafólks og það hvetur þá á sinn hátt til að hlúa enn frekar að heilsunni og láta vímuefni ósnert.
    Þótt margvíslegt íþrótta- og tómstundastarf sé í boði á vegum fjölmargra félagasamtaka er fjöldi unglinga sem ekki finnur þar neitt við sitt hæfi. Jafnframt er brottfall úr íþróttum mikið meðal unglinga. Félagsmiðstöðvar gegna því afar mikilvægu hlutverki í lífi nútímaunglinga og skipta þá stöðugt meira máli. Í félagsmiðstöðvum er boðið upp á vímulaust, verndað umhverfi sem foreldrar geta treyst. Þar er yfirleitt að finna starfsfólk með fjölbreytta menntun og reynslu og þar eru forvarnir útgangspunktur.
    Starf félagsmiðstöðvanna er afar fjölbreytt og í sem stystu máli mætti segja að hlutverk þeirra sé að aðstoða unglinga við að gera það sem þeir hafa áhuga á, hvort sem það snýst um tónlist, leiklist, kvikmyndagerð, námskeið og fræðslufundi, skáldskap, íþróttir eða annað tómstundastarf. Fyrirlestrar af ýmsu tagi eru mikilvægur þáttur í starfi félagsmiðstöðvanna enda miða þeir að því að uppfræða unglinga og eyða fordómum, svo sem gagnvart tilteknum sjúkdómum og minnihlutahópum. Tilgangur starfsins er þó ekki síst að styrkja sjálfsímynd unglinga og gefa þeim raunverulegt val um hvernig þeir verja frítíma sínum. Oft þarf í raun og veru ekki annað en að útvega unglingum aðstöðu til að vinna að áhugamálum sínum. Á það ekki síst við um alls kyns íþróttir sem ekki hafa náð mikilli útbreiðslu, eða svokallaðar „jaðaríþróttir“, sem gjarnan ná fyrst og fremst hylli unglinga og geta átt eftir að festa rætur í íþróttalífi landsmanna síðar meir. Sem dæmi má nefna að meðal unglinga er snjóbrettaiðkun nú orðin útbreiddari en skíðaiðkun.
    Nú eru meira en 70 félagsmiðstöðvar starfræktar víðs vegar um landið. Þar er unnið mikilvægt starf en fjárveitingar eru af skornum skammti. Staðreyndin er sú að á bilinu 92–97% af rekstrarfé félagsmiðstöðvanna fara í launagreiðslur. Þá er bersýnilega lítið sem ekkert eftir til viðhalds og efnis- og tækjakaupa, hvað þá til að greiða utanaðkomandi fyrirlesurum þóknun. Ófært er að ætlast til þess að félagsmiðstöðvar afli sértekna af einhverju tagi. Það gefur augaleið að þá sem þangað sækja má ekki krefja um aðgangseyri eða þátttökugjöld. Ljóst er að aðstæður unglinganna eru afar misjafnar og gjaldtaka gæti leitt til þess að þeir heltust úr lestinni sem síst mega við því.
    Samkvæmt mælingum á vegum Gallup taka nú á bilinu 50–65% unglinga þátt í félagsstarfi á vegum félagsmiðstöðvanna og er það heldur meiri þátttaka en í íþróttaiðkun á vegum íþróttahreyfingarinnar. Einnig ber að hafa í huga að félagsmiðstöðvar, einkum í Reykjavík, gegna í vaxandi mæli því hlutverki að vera eins konar hverfamiðstöðvar fyrir alla aldurshópa. Dæmi eru um að 6–9 ára börnum sé sinnt allan ársins hring með frístundaheimili og leikjanámskeiðum. Því er óhætt að segja að félagsmiðstöðvar sinni stöðugt fleiri verkefnum á sviði æskulýðsmála í landinu. Allur kostnaður við rekstur þeirra er greiddur af sveitarfélögum og styrktaraðilum. Mun það vera einsdæmi innan Evrópusamtaka félagsmiðstöðva (ECYC) að landssamtök félagsmiðstöðva, í okkar tilviki Samfés sem allar félagsmiðstöðvar landsins eru í, byggist alfarið á félagsgjöldum og kostun.
    Ljóst er að stórefla má félagslegt forvarnastarf með tiltölulega litlum viðbótarfjármunum. Félagsmiðstöðvarnar eru fyrst og síðast byggðar upp á fólkinu sem þar starfar þannig að þær þarfnast aðallega svigrúms til að kosta viðhald, efni og annað slíkt. Þó ber að hafa í huga að áríðandi er að félagsmiðstöðvarnar geti aukið starfsemi sína verulega á næstunni. Þar kemur ekki síst til þörf fyrir að þjóna aldurshópnum 16–18 ára sem virðist í auknum mæli leita í öryggi og afþreyingu miðstöðvanna. Sýnilegt er að nýleg hækkun á sjálfræðisaldri íslenskra unglinga kallar á sérstaka skoðun á málefnum þessa aldurshóps.
    Í tillögunni er lagt til að gerð verði yfirgripsmikil úttekt á þeirri starfsemi sem fallið getur undir félagslegar forvarnir. Enn fremur að gerð verði áætlun um að efla slíkar forvarnir og veita til þess umtalsverða fjármuni. Til að meta árangurinn af slíku átaki skal ríkisstjórnin árlega skila skýrslu til Alþingis um framkvæmd áætlunarinnar.“