Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 313  —  277. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun sædýrasafns á höfuðborgarsvæðinu.

Flm.: Lára Margrét Ragnarsdóttir, Gunnar Birgisson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið.
    Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi og eignarhaldi fyrir 1. september 2004.

Greinargerð.


    Hafið umlykur Ísland og Íslendingar eiga allt sitt undir gæðum þess. Við lifum á sjósókn og sambýlið við hafið hefur mótað líf okkar og athafnir. Þrátt fyrir það er ekki að finna hér á landi, ef frá eru talin sædýrasöfnin í Vestmannaeyjum og í Sandgerði, safn sem gerir skil þessum meginþætti í tilveru þjóðarinnar og því ævintýri sem lífið í hafinu umhverfis Ísland er. Löngu tímabært er að koma á fót myndarlegu sædýrasafni í Reykjavík eða nágrenni til gagns og gamans fyrir almenning, æskuna í skólum landsins og þá fjölmörgu ferðamenn sem hingað koma.
    Lifandi sædýrasöfn eru vinsæl um allan heim og höfða til breiðs hóps. Slíkt safn hér yrði í senn safn lifandi fiska og fróðleiksnáma fyrir unga og aldna um lífríki Norður- Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna, mengun og umgengni um hafið. Þar mætti fræðast um ástand fiskistofna, umhverfismál og fleira sem snertir Ísland og hafið á lifandi og áhrifaríkan hátt, sögu fiskverndar, fiskifræði og hafrannsóknir. Sædýrasafn af þessum toga yrði og ætti að vera óður okkar Íslendinga til hafsins.
    Þegar bjóða á vandaða afþreyingu fyrir ferðamenn og heimafólk fer ævinlega best á því að byggja hana á raunverulegum gildum og traustum grunni, svo að saman fari fróðleikur og skemmtun. Væri íslenskt sædýrasafn grundvallað á þennan hátt á fræðilegum grunni, og vandað til þess með einstöku staðarvali, byggingarlist á heimsmælikvarða og sýningum af bestu gerð, mætti vel gera ráð fyrir að þangað kæmu a.m.k. 250.000 gestir á ári, eða svipaður fjöldi og nú sækir Bláa lónið ár hvert. Þá má benda á að gert er ráð fyrir allt að 10% fjölgun ferðamanna á ári næstu árin. Tekjur af aðgangseyri, minjagripum og veitingum gætu því numið 200–350 millj. kr. á ári.
    Sædýrasöfn eru sérhæfð og dýr mannvirki, bæði í uppbyggingu og rekstri, þurfa flókinn búnað til að tryggja lífsskilyrði „íbúanna“ og mikla nákvæmni og alúð í daglegum rekstri. Því er rétt að gera ráð fyrir að uppbygging sædýrasafns gæti kostað 800–1.000 millj. kr. og rekstur á ári 80–100 millj. kr. Allt fer þetta þó eftir því hve hátt menn setja markið í mannvirkjum og annarri aðstöðu.
    Sædýrasafn, eins og hér er fjallað um, þarf að vera við fjöruborð, með annan fótinn á landi og hinn í sjó, ef svo má að orði komast, svo að gestir geti virt fyrir sér lífið í sjónum, og helst með aðstöðu fyrir báta til að flytja gesti. Slíka staði er eflaust að finna t.d. í Laugarnesi, á Seltjarnarnesi, Álftanesi, Keilisnesi, við Hvassahraun og víðar. Eigi safn af þessari stærð að bera sig er nauðsynlegt að það verði á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan gerir því ráð fyrir að athugun beinist eingöngu að því svæði.
    Mörg áhugaverð sædýrasöfn eru í nágrannalöndunum sem hafa mætti sem fyrirmynd að einhverju marki, ekki síst í Danmörku, og má benda á þrjú þar sem áhersla er lögð m.a. á skólastarf, þ.e. Nordsømuseet á Skagen, Kattegatcentret í Grenaa og Øresundsakvariet á Helsingjaeyri. Einnig má benda á áhugaverð söfn í Boston og Baltimore á austurströnd Bandaríkjanna.
    Tillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin láti vinna kostnaðarútreikninga vegna safnsins og meti mögulegar leiðir varðandi fjármögnun, eignarhald og rekstrarform. Stefnt skal að því að þáttur ríkisins í fjármögnun og rekstri safnsins verði í lágmarki.