Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 339  —  294. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings á sviði refsiréttar um spillingu.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning á sviði refsiréttar um spillingu sem gerður var í Strassborg 27. janúar 1999.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning á sviði refsiréttar um spillingu sem gerður var í Strassborg 27. janúar 1999 (hér eftir nefndur spillingarsamningurinn). Spillingarsamningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Í formála spillingarsamningsins, sem gerður er á vegum Evrópuráðsins, er lögð áhersla á að spilling ógni réttarreglu, lýðræði og mannréttindum, grafi undan góðum stjórnarháttum, sanngirni og félagslegu réttlæti, raski samkeppni, hindri efnahagsþróun og ógni stöðugleika stofnana lýðræðisins. Spillingarsamningurinn er afrakstur áralangrar vinnu við að þróa alþjóðlegt kerfi til að berjast gegn spillingu. Alþjóðlegt átak þarf til þess að ná árangri í baráttunni gegn spillingu og er spillingarsamningurinn því opinn fyrir aðild ríkja jafnt innan sem utan Evrópuráðsins.
    Ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti aðgerðaáætlun gegn spillingu í nóvember 1996 í kjölfar tilmæla 19. ráðstefnu evrópskra dómsmálaráðherra sem haldin var í Valletta 1994. Meðal helstu liða aðgerðaáætlunarinnar var að leggja drög að einum eða fleiri alþjóðasamningum gegn spillingu og að koma á fót kerfi til þess að framfylgja þeim skuldbindingum sem slíkir samningar kveða á um. Á 21. ráðstefnu evrópskra dómsmálaráðherra, sem haldin var í Prag í júní 1997, var lagt til að framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar yrði hraðað. Jafnframt var hvatt til þess að lokið yrði sem fyrst við gerð alþjóðasamnings á sviði refsiréttar sem kvæði á um samræmdar sakargiftir í brotamálum varðandi spillingu, aukna samvinnu um saksókn vegna slíkra brota og skilvirka tilhögun við að fylgja málum eftir sem ríki, jafnt innan sem utan Evrópuráðsins, gætu tileinkað sér. Í október sama ár var haldinn leiðtogafundur aðildarríkja Evrópuráðsins í Strassborg. Á fundinum var meðal annars ákveðið að fela ráðherranefndinni að tryggja að lokið yrði sem fyrst við alþjóðasamninga í samræmi við aðgerðaáætlun gegn spillingu sem einnig var samþykkt á fundinum.
    Í kjölfar þessa samþykkti ráðherranefndin á 101. fundi sínum 6. nóvember 1997 ályktun 24/1997 um 20 viðmiðunarreglur í baráttu gegn spillingu þar sem lögð var áhersla á að ljúka sem fyrst vinnu við alþjóðasamninga í samræmi við aðgerðaáætlunina gegn spillingu.
    Á 102. fundi ráðherranefndarinnar 4. maí 1998 var samþykkt ályktun 7/1998 sem heimilar gerð útvíkkaðs hlutasamnings um að koma á fót ríkjahópi gegn spillingu (GRECO) með það að markmiði að auka getu þátttökuríkja hópsins til þess að berjast gegn spillingu með því að grípa til aðgerða sem gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar á þessu sviði. Ráðherranefndin samþykkti lokadrög hlutasamningsins með ályktun 5/1999. Ísland undirritaði hlutasamninginn 1. maí 1999.
    Eftir tveggja ára vinnu samþykkti ráðherranefndin lokadrög spillingarsamningsins til undirritunar á 103. fundi nefndarinnar sem haldinn var 4. nóvember 1998. Spillingarsamningurinn var lagður fram til undirritunar í Strassborg 27. janúar 1999, en Ísland undirritaði samninginn þann dag. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júlí 2002. Hinn 29. september 2003 höfðu 42 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað samninginn auk Mexíkó, Bandaríkjanna og Hvíta-Rússlands og 21 ríki hafði fullgilt hann.
    Með spillingarsamningnum er stefnt að því að samræma ýmsar efnis- og formreglur aðildarríkjanna er tengjast tilteknum tegundum spillingarbrota og bæta alþjóðlegt samstarf í því skyni að gera saksókn vegna þessara brota mögulega og auðvelda hana. Þótt ekki sé að finna almenna skilgreiningu á hugtakinu spilling í samningnum var við gerð hans gengið út frá því að í spillingu fælust mútur eða önnur háttsemi sem bryti gegn skyldum manna sem falin hefur verið ábyrgð af opinberum eða viðskiptalegum toga, hvort sem um væri að ræða opinbera starfsmenn, embættismenn, launþega eða sjálfstæða umboðsmenn, og sem hefði þann tilgang að ná fram ávinningi af einhverju tagi fyrir þá sjálfa eða aðra sem þeir eiga ekki tilkall til. Út frá þessum víðtæka skilningi voru skilgreindar tilteknar tegundir spillingar, þ.e. mútuboð (aktívar mútur) og mútuþágur (passívar mútur) til ýmissa opinberra aðila, innlendra sem og erlendra, mútuboð og mútuþágur til aðila í einkageiranum og áhrifakaup.
    Af framangreindu leiðir að spillingarsamningurinn hefur mun víðtækara gildissvið en fyrirliggjandi alþjóðasamningar á þessu sviði sem flestir hafa eingöngu snúið að afmörkuðum hópi manna og/eða að afmarkaðri tegund spillingar. Sem dæmi má nefna að samningur Evrópusambandsins um baráttu gegn spillingu starfsmanna bandalaganna og opinberra starfsmanna aðildarríkja sambandsins, sem gerður var 26. maí 1997, snýr einungis að afmörkuðum hópi manna. Samningur um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum frá 17. desember 1997, sem saminn var á vegum Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (hér eftir nefndur mútusamningurinn), leggur þá skuldbindingu á herðar aðildarríkjunum að lýsa refsiverðar mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna sem hafa það að markmiði að ná eða halda ótilhlýðilegum ávinningi í alþjóðaviðskiptum. Ísland fullgilti mútusamninginn 17. ágúst 1998 og öðlaðist hann gildi 15. febrúar 1999. Spillingarsamningurinn gengur lengra í baráttunni gegn spillingu en framangreindir samningar bæði hvað varðar þá háttsemi sem lýsa ber refsiverða og þá aðila sem fjallað er um.
    Spillingarsamningurinn samanstendur af fimm köflum og 42 greinum.
    Í I. kafla eru hugtökin „opinber embættismaður“, „dómari“ og „lögaðili“ skilgreind með víðtækum hætti. Skilgreining þessara hugtaka í samningnum er byggð á skilgreiningu þeirra í landsrétti aðildarríkjanna. Aðildarríkin þurfa því ekki að samræma eða breyta skilgreiningu sinni á þessum hugtökum. Þannig er við skilgreiningu hugtaksins „opinber embættismaður“ í a-lið 1. gr. vísað til skilgreiningar starfsheitanna „embættismaður“, „opinber starfsmaður“, „sveitarstjóri“, „ráðherra“ eða „dómari“ í lögum þess ríkis þar sem hlutaðeigandi gegnir viðkomandi starfi og eins og þau eru notuð í refsilöggjöf þess. Samkvæmt c-lið 1. gr. getur saksóknarríki þó einungis beitt skilgreiningu hugtaksins að því marki sem skilgreiningin samræmist lögum þess ríkis sé um málarekstur að ræða þar sem opinber embættismaður annars ríkis kemur við sögu. Hugtakið „dómari“ er túlkað með víðtækum hætti og nær það einnig til saksóknara og annarra sem gegna stöðum innan dómskerfisins, sbr. b-lið 1. gr. Hugtakið „lögaðili“ er skilgreint með vísan til laga viðkomandi ríkis. Hugtakið nær þó ekki til ríkis, opinberra aðila sem fara með ríkisvald eða alþjóðastofnana, sbr. d-lið 1. gr.
    Í II. kafla samningsins er fjallað um þær ráðstafanir sem aðildarríkjunum ber að gera innanlands. Þar er að finna verknaðarlýsingar þeirra tegunda spillingarbrota sem aðildarríkjunum ber að lýsa refsiverð í lögum sínum, auk annarra ákvæða.
    Í 2. gr., sem fjallar um mútuboð til innlendra opinberra embættismanna, er að finna verknaðarlýsingu svokallaðs mútuboðs (aktívar mútur). Samkvæmt greininni er um mútuboð að ræða þegar aðila, í þessu tilviki innlendum opinberum embættismanni, er lofað, boðinn eða veittur, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinningur, honum eða einhverjum öðrum til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín. Áskilið er að ásetningur sé fyrir hendi og verður ásetningurinn að taka til allra efnisþátta brotsins. Ekki er áskilið að háttsemi mútugjafans leiði til þess að sá aðili sem mútuboðinu er beint til aðhafist í samræmi við vonir mútugjafans. Ávinningurinn er yfirleitt fjárhagslegs eðlis en getur einnig verið af óefnislegum toga. Meginskilyrðið er að mútuþeginn eigi ekki tilkall til ávinningsins, þ.e. að hann sé óviðeigandi. Undanskildar eru því t.d. gjafir sem heimilaðar eru í starfsreglum sem og eðlilegar og ásættanlegar gjafir sem hafa mjög lítið verðgildi. Framangreind verknaðarlýsing er óháð því hver lofar, býður eða veitir múturnar. Hins vegar er það skilyrði samkvæmt greininni að mútuboðið beinist að innlendum opinberum embættismanni. Markmið ákvæðisins er að tryggja að starfsemi hins opinbera fari fram með gegnsæjum, réttmætum og hlutlægum hætti sem og að stuðla að nauðsynlegu trausti almennings til hins opinbera og hindra óeðlileg afskipti af störfum innlendra opinberra embættismanna.
    Samkvæmt 3. gr. er um mútuþágu innlends opinbers embættismanns að ræða þegar hann sækist eftir eða þiggur, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, eða þiggur boð um slíkan ávinning eða loforð um hann, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín. Ásetningur er einnig skilyrði fyrir saknæmi mútuþágu. Mútuboð og mútuþága eru tvö aðskilin brot þótt þau haldist oft í hendur.
    Vísað er til verknaðarlýsinga 2. og 3. gr. í þeim ákvæðum sem á eftir fylgja um mútur. Hins vegar fjalla ákvæðin um mismunandi aðila.
    Í 4. og 6. gr. er annars vegar fjallað um mútur til manna sem eiga sæti á opinberum þingum eða í opinberum stjórnum innanlands og hins vegar til manna sem eiga sæti á opinberum þingum eða í opinberum stjórnum erlendis. Markmið þessara ákvæða er að tryggja að starfsemi þessa stofnana fari fram með gegnsæjum, réttmætum og hlutlægum hætti.
    Í 5. gr. er fjallað um mútur til erlendra opinberra embættismanna. Ákvæði þetta var talið nauðsynlegt í ljósi aukinnar alþjóðavæðingar enda líklegt til að stuðla að gegnsæi og sanngirni í ákvarðanatöku hins opinbera í erlendum ríkjum og jafna samkeppnisskilyrði fyrirtækja sem starfa á alþjóðlegum markaði. Í mútusamningnum frá 1997 er einnig fjallað um mútur til erlendra opinberra starfsmanna en gildissvið spillingarsamningsins er mun víðtækara að því er þetta varðar. Í fyrsta lagi nær spillingarsamningurinn einnig til mútuþágu erlendra opinberra embættismanna og í öðru lagi er refsinæmi háttseminnar ekki háð því að markmið hennar sé að ná eða halda ótilhlýðilegum ávinningi í alþjóðaviðskiptum.
    Í 9. gr. er fjallað um mútur til embættismanna alþjóðastofnana, 10. gr. varðar mútur til manna sem eiga sæti á alþjóðaþingmannasamkomum og um mútur til dómara og embættismanna við alþjóðadómstóla er fjallað í 11. gr.
    Samkvæmt ákvæðum 7. og 8. gr. ber aðildarríkjum samningsins einnig að lýsa refsiverða þá háttsemi sem felst í mútum þegar þær eiga sér stað innan einkageirans. Talið var nauðsynlegt að takast á við skaðleg samfélagsleg og samkeppnisleg áhrif slíkrar háttsemi einkaaðila jafnt sem opinberra, meðal annars í ljósi einkavæðingar starfsemi hins opinbera á mikilvægum samfélagslegum sviðum. Slík brot sem framin eru innan einkageirans eru á margan hátt sambærileg því þegar þau eru framin í tengslum við starfsemi hins opinbera. Þó er nokkur munur á verknaðarlýsingu brotanna. Samkvæmt 7. og 8. gr. er það skilyrði að sú starfsemi sem um ræðir sé atvinnustarfsemi og að brotið hafi verið gegn starfsskyldum viðkomandi.
    Í 12. gr. samningsins er fjallað um svokölluð áhrifakaup. Af verknaðarlýsingu ákvæðisins má sjá að sú háttsemi sem felst í áhrifakaupum er nokkuð ólík mútum. Um er að ræða þríhliða samband þar sem maður, sem hefur raunveruleg eða ætluð áhrif á ákvarðanatöku þeirra aðila sem fjallað er um í 2., 4.–6. og 9.–11. gr., skiptir þeim áhrifum út fyrir óviðeigandi ávinning frá aðila sem vill hafa áhrif á ákvarðanatökuna. Ákvæði 12. gr. tekur bæði til háttsemi sem felst í því að lofa, bjóða eða veita manni óviðeigandi ávinning sem heldur því fram að hann geti haft óeðlileg áhrif á mann sem fer með ákvörðunarvald (aktív áhrifakaup) og háttsemi sem felst í því að maður, sem heldur slíku fram, fer fram á eða þiggur slíkan ávinning (passív áhrifakaup). Brotið er óháð því hvort sá aðili sem ákvörðunarvaldið hefur geri eitthvað eða láti eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans. Áskilið er að ásetningur standi til þess að hafa óeðlileg áhrif á þann sem fer með ákvörðunarvaldið. Hefðbundin og viðurkennd hagsmunagæsla fellur því utan ákvæðisins.
    Auk framangreindrar háttsemi er aðildarríkjunum gert að lýsa þvætti á ávinningi af spillingarbrotum og bókhaldsbrotum sem tengjast spillingarbrotum refsiverð í löggjöf sinni, sbr. 13. og 14. gr.
    Ákvæði um lögsögu eru í 17. gr. samningsins. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að afla sér lögsögu vegna afbrota, sem skv. 2.–14. gr. samningsins teljast til refsiverðrar háttsemi, þegar afbrotið er framið innan yfirráðasvæðis viðkomandi ríkis að einhverju eða öllu leyti, þegar brotamaður er ríkisborgari viðkomandi ríkis, opinber embættismaður þess eða á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn innanlands eða þegar brotið varðar opinberan embættismann viðkomandi ríkis, mann sem á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn innanlands eða mann sem fjallað er um í 9.–11. gr. samningsins og er ríkisborgari viðkomandi ríkis. Gera má fyrirvara við nokkrar framangreindra reglna að uppfylltum vissum skilyrðum. Með ákvæðum 17. gr. er leitast við að tryggja að unnt sé að sækja þá er fremja viðkomandi afbrot til saka.
    Samkvæmt 18. gr. ber aðildarríkjum að tryggja að gera megi lögaðila ábyrga fyrir afbrotum eins og mútuboði, áhrifakaupum og peningaþvætti sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningnum. Ekki skiptir máli hvort lögaðilinn sé gerður ábyrgur að refsirétti, stjórnsýslurétti eða einkarétti sé það á annað borð tryggt að viðurlögin séu skilvirk og hafi letjandi áhrif, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. Til þess að unnt sé að draga lögaðila til ábyrgðar þarf afbrotið að vera framið í þágu hans af einstaklingi sem aðhefst annaðhvort einn eða sem meðlimur í deild lögaðilans og hefur stöðu stjórnanda hjá lögaðilanum. Samkvæmt 2. mgr. ber aðildarríkjum einnig að tryggja að gera megi lögaðila ábyrga hafi orðið brestur í yfirumsjón eða eftirliti sem gerði hina refsiverðu háttsemi mögulega. Ábyrgð lögaðila kemur ekki í veg fyrir að sakamál sé rekið gagnvart einstaklingum fyrir viðkomandi afbrot.
    Samkvæmt 19. gr. ber aðildarríkjunum að tryggja að viðurlög við þeim afbrotum sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningnum séu skilvirk, hæfileg og letjandi.
    Í öðrum greinum II. kafla samningsins er síðan kveðið á um hlutdeild, friðhelgi, sérhæfð stjórnvöld, samvinnu stjórnvalda, vernd þeirra sem vinna með réttvísinni og vitnavernd, og öflun sönnunargagna og upptöku ávinnings.
    Í III. kafla spillingarsamningsins er kveðið á um að eftirlit með framkvæmd samningsins skuli falið svonefndum ríkjahópi gegn spillingu (GRECO) sem fjallað er um hér að framan. Þau aðildarríki samningsins sem ekki eru aðilar að ríkjahópnum gegn spillingu verða sjálfkrafa aðilar að honum þegar samningurinn öðlast gildi gagnvart þeim, sbr. 3. og 4. mgr. 32. gr. og 2. mgr. 33. gr.
    Í IV. kafla samningsins eru ákvæði um alþjóðasamvinnu. Í 25. gr. eru tilgreindar nokkrar meginreglur og ráðstafanir á sviði alþjóðasamvinnu sem aðildarríkjunum ber að virða. Ákvæði 26. gr. fjalla um skyldu aðildarríkja til að veita hvort öðru gagnkvæma aðstoð, nánar til tekið réttaraðstoð. Um framsal er fjallað í 27. gr. en ákvæði þeirrar greinar stefna að því að auðvelda framsal vegna þeirra afbrota sem teljast til refsiverðrar háttsemi samkvæmt samningnum. Markmið 27. gr. er hið sama og 17. gr., þ.e. að tryggja eftir bestu getu að unnt sé að koma lögum yfir þá aðila sem fremja framangreind afbrot. Í samræmi við þetta er meðal annars kveðið á um að í tengslum við þessi afbrot sé unnt að líta svo á að spillingarsamningurinn sjálfur sé lagalegur grundvöllur fyrir framsali. Jafnframt er kveðið á um að sé synjað um framsal vegna brots sem telst refsiverð háttsemi samkvæmt samningnum, einungis á grundvelli ríkisfangs þess sem framsals er beiðst á eða vegna þess að sá sem beiðninni er beint til telur sig eiga lögsögu að því er varðar brotið, skal sá aðili sem beiðninni er beint til leggja málið fyrir viðeigandi yfirvöld sín til saksóknar nema um annað sé samið við þann aðila sem beiðnina leggur fram.
    Í öðrum greinum IV. kafla er fjallað um upplýsingagjöf af sjálfsdáðum, miðstjórnarvöld sem aðilunum ber að tilnefna, bein samskipti og upplýsingagjöf .
    Í V. kafla er að finna lokaákvæði samningsins. Í 32. og 33. gr. er fjallað um undirritun, gildistöku og aðild að samningnum. Ákvæði 34. gr. kveða á um svæðisbundið gildissvið samningsins. Í 35. gr. er fjallað um afstöðu spillingarsamningsins gagnvart öðrum samningum. Í 36. og 37. gr. eru ákvæði er varða þær yfirlýsingar og fyrirvara sem samningsaðilar geta gert varðandi tiltekin ákvæði samningsins og í 38. gr. eru ákvæði um gildistíma og endurskoðun framangreindra yfirlýsinga og fyrirvara. Í 39. gr. eru ákvæði um breytingar á samningnum, 40. gr. fjallar um lausn deilumála, í 41. gr. eru ákvæði um uppsögn og um tilkynningar til og frá vörsluaðila er fjallað í 42. gr.
    Gera þarf breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, og á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, nr. 144/1998, sbr. lög nr. 92/2002, til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem spillingarsamningurinn leggur aðildarríkjunum á herðar. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka.



Fylgiskjal.

SAMNINGUR
á sviði refsiréttar um spillingu.


Formálsorð.

Aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki sem undirrita samning þennan,

sem hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu meðal aðildarríkjanna,

sem viðurkenna gildi þess að stuðla að samvinnu við hin ríkin sem hafa undirritað samning þennan,

sem álíta það forgangsatriði að fylgja sameiginlegri stefnu á sviði refsiréttar, er miði að því að vernda þjóðfélagið gegn spillingu, meðal annars að setja viðeigandi lög og gera viðeigandi fyrirbyggjandi ráðstafanir,

sem leggja áherslu á að spilling ógnar réttarreglu, lýðræði og mannréttindum, grefur undan góðum stjórnarháttum, sanngirni og félagslegu réttlæti, raskar samkeppni, hindrar efnahagsþróun og ógnar stöðugleika stofnana lýðræðisins og skekur þann siðferðilega grunn sem þjóðfélagið er reist á,

sem telja að aukin, hraðvirk og árangursrík alþjóðleg samvinna á sviði sakamála sé forsenda þess að baráttan gegn spillingu skili tilætluðum árangri,

sem fagna þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarið og eykur enn frekar skilning á og samvinnu þjóða í milli í baráttunni gegn spillingu; nefna má, í þessu sambandi, aðgerðir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Samtaka Ameríkuríkja, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) og Evrópusambandsins,

sem hafa hliðsjón af aðgerðaáætlun gegn spillingu sem ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti í nóvember 1996 í kjölfar tilmæla 19. ráðstefnu evrópskra dómsmálaráðherra (í Valletta 1994),


sem minnast í þessu sambandi mikilvægis þess að ríki, sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu, taki þátt í aðgerðum Evrópuráðsins gegn spillingu og fagna mikilvægu framlagi þeirra til framkvæmdar aðgerðaáætluninni gegn spillingu,

sem minnast þess einnig að í ályktun nr. 1, sem evrópskir dómsmálaráðherrar samþykktu á 21. ráðstefnu sinni (í Prag 1997), var mælst til þess að aðgerðaáætluninni gegn spillingu yrði hrint í framkvæmd með skjótum hætti og hvatt til þess sérstaklega að samningur á sviði refsiréttar yrði samþykktur sem fyrst, þar sem kveðið yrði á um samræmdar sakargiftir í brotamálum er varða spillingu, aukna samvinnu um saksókn vegna slíkra afbrota og skilvirka tilhögun þess að fylgja málum eftir sem aðildarríkjum Evrópuráðsins, jafnt og þeim ríkjum sem utan þess standa, yrði frjálst að tileinka sér,

sem hafa í huga að þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnaleiðtogar Evrópuráðsríkjanna ákváðu, í tilefni af öðrum leiðtogafundi sínum í Strassborg 10. og 11. október 1997, að leita sameiginlegra lausna á krefjandi viðfangsefnum, er tengjast vaxandi spillingu, og samþykktu aðgerðaáætlun, í því augnamiði að koma á samstarfi um baráttuna gegn spillingu, m.a. tengslum spillingar við skipulagða glæpastarfsemi og peningaþvætti, þar sem ráðherranefndinni var meðal annars falið að tryggja að lokið yrði sem fyrst við lagagerninga á sviði þjóðaréttar í samræmi við aðgerðaáætlunina gegn spillingu,

sem hafa enn fremur í huga að í ályktun 24/1997 um 20 viðmiðunarreglur í baráttunni gegn spillingu, sem ráðherranefndin samþykkti á 101. fundi sínum 6. nóvember 1997, er lögð áhersla á nauðsyn þess að ljúka sem fyrst vinnu við lagagerninga á sviði þjóðaréttar í samræmi við aðgerðaáætlunina gegn spillingu,

sem líta til þess að ráðherranefndin samþykkti á 102. fundi sínum 4. maí 1998 ályktun 7/1998 sem heimilar gerð útvíkkaðs hlutasamnings um að koma á fót ríkjahópi gegn spillingu (GRECO) þar sem markmiðið er að auka getu þátttökuríkja hópsins til þess að berjast gegn spillingu með því að grípa til aðgerða sem gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar á þessu sviði,

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. kafli.
Notkun hugtaka.

1. gr.
Notkun hugtaka.

    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)    „opinber embættismaður“, að því er varðar merkingu þessa hugtaks er vísað til skilgreiningar starfsheitanna „embættismaður“, „opinber starfsmaður“, „sveitarstjóri“, „ráðherra“ eða „dómari“ í landslögum þess ríkis þar sem hlutaðeigandi einstaklingur gegnir viðkomandi starfi og eins og þau eru notuð í refsilöggjöf þess;
b)    hugtakið „dómari“, sem um getur í a-lið hér að framan, skal einnig taka til saksóknara og manna sem gegna stöðum innan dómskerfisins;
c)    sé um málarekstur að ræða, þar sem opinber embættismaður annars ríkis kemur við sögu, getur saksóknarríkið aðeins beitt skilgreiningu hugtaksins „opinber embættismaður“ að því marki sem hún samræmist eigin landslögum;
d)    „lögaðili“ merkir hvern þann aðila, sem hefur þá stöðu samkvæmt gildandi landslögum, að frátöldum ríkjum eða öðrum opinberum aðilum sem fara með ríkisvald og opinberum alþjóðastofnunum.

II. kafli.
Ráðstafanir sem ber að gera innanlands.

2. gr.
Mútuboð til innlendra opinberra embættismanna.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, þegar um ásetningsbrot er að ræða, að lofa, bjóða eða veita, með beinum eða óbeinum hætti, opinberum embættismanni hans óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín.

3. gr.
Mútuþága innlendra opinberra embættismanna.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, þegar um ásetningsbrot er að ræða, að opinber embættismaður hans sækist eftir eða þiggi, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, eða þiggi boð um slíkan ávinning eða loforð um hann, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert í tengslum við skyldustörf sín.

4. gr.
Mútur til manna sem eiga sæti á opinberum þingum eða í opinberum stjórnum innanlands.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún einstakling sem á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn innanlands sem fer með löggjafar- eða framkvæmdarvald.


5. gr.
Mútur til erlendra opinberra embættismanna.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún opinberan embættismann annars ríkis.

6. gr.
Mútur til manna sem eiga sæti á opinberum þingum eða í opinberum stjórnum erlendis.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún einstakling sem á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn sem fer með löggjafar- eða framkvæmdarvald í öðru ríki.


7. gr.
Mútuboð innan einkageirans.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, þegar um ásetningsbrot er að ræða samfara atvinnustarfsemi, að lofa, bjóða eða veita, með beinum eða óbeinum hætti, einstaklingi, sem stýrir fyrirtæki innan einkageirans eða gegnir hvaða stöðu sem er innan þess, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert, hvort tveggja í bága við skyldustörf sín.

8. gr.
Mútuþága innan einkageirans.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, þegar um ásetningsbrot er að ræða samfara atvinnustarfsemi, að einstaklingur, sem stýrir fyrirtæki innan einkageirans eða gegnir hvaða stöðu sem er innan þess, sækist eftir eða þiggi, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, eða þiggi boð um slíkan ávinning eða loforð um hann, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert, hvort tveggja í bága við skyldustörf sín.

9. gr.
Mútur til embættismanna alþjóðastofnana.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún embættismann eða annan samningsbundinn starfsmann, í skilningi starfsmannareglna, opinberrar og alþjóðlegrar eða yfirþjóðlegrar stofnunar, sem aðilinn á aðild að, og einstakling, sem gegnir samsvarandi störfum og fyrrnefndir embættismenn eða fulltrúar, hvort sem hann er færður til tímabundið til að gegna þeim eða ekki.

10. gr.
Mútur til manna sem eiga sæti á alþjóðaþingmannasamkomum.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 4. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún menn sem eiga sæti á þingmannasamkomum alþjóðlegra eða yfirþjóðlegra stofnana sem aðilinn á aðild að.


11. gr.
Mútur til dómara og embættismanna
við alþjóðadómstóla.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 2. og 3. gr., teljist refsiverð samkvæmt landslögum varði hún menn, sem gegna stöðum innan dómskerfisins, eða embættismenn við alþjóðadómstóla og viðkomandi aðili viðurkenni lögsögu slíkra dómstóla.

12. gr.
Áhrifakaup.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, þegar um ásetningsbrot er að ræða, að lofa, veita eða bjóða, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinning hverjum þeim sem fullyrðir eða staðfestir að hann eða hún geti haft ótilhlýðileg áhrif á ákvörðunartöku þeirra einstaklinga, sem um getur í 2. gr., 4.–6. gr. og 9.–11. gr., fyrir endurgjald, hvort sem hinn óviðeigandi ávinningur er honum, henni eða einhverjum öðrum til handa, enn fremur að sækjast eftir, taka við eða þiggja boð eða loforð um slíkan ávinning til endurgjalds fyrir fyrrnefnd áhrif, hvort sem þeim er beitt eður ei eða hvort sem álitin áhrif leiða til þeirrar niðurstöðu sem stefnt er að eður ei.

13. gr.
Peningaþvætti í tengslum við ágóða
af spillingarbrotum.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að háttsemi, sem um getur í 1. og 2. mgr. 6. gr. samnings Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum (SES nr. 141), samkvæmt þeim skilyrðum sem þar eru tilgreind, teljist refsiverð samkvæmt landslögum feli frumbrotið í sér einhverja þá háttsemi sem telst refsiverð skv. 2.–12. gr. samnings þessa, að því marki sem viðkomandi aðili hefur ekki gert fyrirvara eða sent frá sér yfirlýsingu hvað fyrrnefnd afbrot varðar eða telur slík afbrot ekki alvarlegs eðlis með hliðsjón af löggjöf sinni um peningaþvætti.


14. gr.
Bókhaldsbrot.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg og kveða á um viðurlög á sviði refsiréttar eða önnur viðurlög samkvæmt landslögum við eftirtalinni háttsemi eða vanrækslu, þegar um ásetningsbrot er að ræða, sem er uppi höfð í því skyni að fremja, fela eða dylja afbrot, sem um getur í 2.–12. gr., að því marki sem viðkomandi aðili hefur ekki gert fyrirvara eða sent frá sér yfirlýsingu þeim viðvíkjandi:
a)    að útbúa eða nota reikning eða annað bókhaldsskjal eða -gagn sem inniheldur rangar eða ófullkomnar upplýsingar;
b)    að vanrækja með ólöglegum hætti að bókfæra greiðslu.

15. gr.
Hlutdeild.

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum að eiga hlutdeild í einhverri þeirri háttsemi sem telst refsiverð samkvæmt samningi þessum.

16. gr.
Friðhelgi.

    Ákvæði samnings þessa eru með fyrirvara um ákvæði samninga, bókana eða laga, og texta sem fjalla um framkvæmd þeirra, er varða afturköllun friðhelgi.

17. gr.
Lögsaga.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að afla lögsögu vegna afbrots, sem telst refsiverð háttsemi skv. 2.–14. gr. samnings þessa, þegar:

a)    afbrotið er framið á landsvæðis hans að einhverju eða öllu leyti;
b)    brotamaður er ríkisborgari hans, opinber embættismaður eða á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn innanlands;
c)    afbrotið varðar opinberan embættismann hans eða mann sem á sæti á opinberu þingi eða í opinberri stjórn innanlands eða einstakling sem um getur í 9.–11. gr. og einnig er ríkisborgari hans.
    2. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að opinbera, með yfirlýsingu sem er beint til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, að það áskilji sér rétt til þess að beita ekki, eða að beita aðeins í tilgreindum tilvikum eða við tilteknar aðstæður, lögsögureglunum, sem mælt er fyrir um í b- og c-lið 1. mgr. þessarar greinar, eða einhverjum hluta þeirra.
    3. Hafi aðili nýtt sér þann kost að gera fyrirvara, sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar, skal hann gera ráðstafanir, sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla lögsögu vegna afbrots sem telst refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, ef meintur brotamaður er á landsvæði viðkomandi aðila og hann framselur hann ekki til annars aðila, einvörðungu á grundvelli ríkisfangs hans, eftir að beiðni um framsal hefur verið lögð fram.
    4. Samningur þessi útilokar ekki hverja þá refsiréttarlögsögu sem aðili hefur í samræmi við landslög sín.

18. gr.
Ábyrgð lögaðila.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að tryggja að gera megi lögaðila ábyrga fyrir afbrotum eins og mútuboði, áhrifakaupum og peningaþvætti, sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, sé afbrotið framið í þágu lögaðilans af einstaklingi sem aðhefst annaðhvort einn eða sem meðlimur í deild lögaðilans og hefur stöðu stjórnanda hjá lögaðilanum sem er reist á:
–    heimild til að koma fram fyrir hönd lögaðilans;
–    umboði til að taka ákvarðanir fyrir hönd lögaðilans; eða
–    umboði til að segja fyrir verkum hjá lögaðilanum;
og ábyrga fyrir aðild fyrrnefnds einstaklings sem vitorðs- eða hvatamanns þess að fyrrnefnd afbrot séu framin.
    2. Auk þeirra tilvika, sem þegar er kveðið á um í 1. mgr., skal hver aðili gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að draga megi lögaðila til ábyrgðar þegar brestur í yfirumsjón eða eftirliti af hálfu einstaklings, sem um getur í 1. mgr., hefur gert einstaklingi, sem starfar í umboði lögaðilans, kleift að hafa uppi þá refsiverðu háttsemi, sem getið er í 1. mgr., í þágu lögaðilans.
    3. Ábyrgð lögaðila skv. 1. og 2. mgr. kemur ekki í veg fyrir að sakamál sé rekið gegn einstaklingum sem framið hafa þau afbrot, sem getið er í 1. mgr., eða eru vitorðs- eða hvatamenn þess að þau séu framin.

19. gr.
Viðurlög og ráðstafanir.

    1. Hver aðili skal, með hliðsjón af því hversu alvarlegs eðlis þau afbrot eru sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum og að því er varðar þau afbrot sem teljast refsiverð háttsemi skv. 2.–14. gr., kveða á um skilvirk, hæfileg og letjandi viðurlög og ráðstafanir, meðal annars, þegar einstaklingar fremja fyrrnefnd afbrot, refsingu sem felur í sér frelsissviptingu og leitt getur til framsals.

    2. Hver aðili skal sjá til þess að lögaðilar, sem eru dregnir til ábyrgðar í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 18. gr., séu beittir virkum, hæfilegum og letjandi viðurlögum á sviði refsiréttar eða annars konar viðurlögum fyrir afbrot sín, þar á meðal fésektum.
    3. Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að gera honum kleift að gera upptæk eða svipta viðkomandi með öðrum hætti tækjum til að fremja afbrot og ágóða af þeim, þegar um ræðir háttsemi sem telst refsiverð samkvæmt samningi þessum, eða eign sem að verðmæti jafngildir slíkum ágóða.

20. gr.
Sérhæfð yfirvöld.

    Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að tryggja að einstaklingar og stofnanir séu sérhæfð í baráttu gegn spillingu. Nauðsynlegt er að sjálfstæði slíkra einstaklinga og stofnana sé tryggt, í samræmi við grundvallarreglur réttarkerfis hans, að því marki sem geri þeim kleift að gegna hlutverki sínu með árangursríkum hætti og án alls óviðeigandi þrýstings. Skal aðilinn tryggja að starfslið slíkra stofnana hafi hlotið fullnægjandi starfsþjálfun og hafi nauðsynlegt fjármagn til að sinna verkefnum sínum.

21. gr.
Samstarf við landsyfirvöld og
milli landsyfirvalda.

    Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að tryggja að opinber yfirvöld og opinberir embættismenn eigi samstarf, samkvæmt landslögum, við þau yfirvöld hans sem falin er rannsókn og saksókn vegna refsiverðrar háttsemi:
a)    með því að tilkynna hinum síðargreindu yfirvöldum, að eigin frumkvæði, ef upp kemur rökstuddur grunur um að framin hafi verið einhver þau afbrot sem teljast refsiverð háttsemi skv. 2.–14. gr.; eða
b)    með því að veita hinum síðargreindu yfirvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt beiðni.

22. gr.
Vernd þeirra sem vinna með réttvísinni
og vitnavernd.

    Hver aðili skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að veita skilvirka og tilhlýðilega vernd:
a)    þeim sem tilkynna um afbrot, sem teljast refsiverð háttsemi skv. 2.–14. gr., eða vinna með öðrum hætti með rannsóknaraðilum eða handhöfum ákæruvalds;
b)    þeim sem gefa vitnisburð um þau afbrot.


23. gr.
Ráðstafanir til að auðvelda öflun sönnunargagna og upptöku ágóða.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir, meðal annars sem heimila sérstök rannsóknarúrræði í samræmi við landslög, sem kunna að vera nauðsynleg til að gera sér auðveldar um vik að afla sönnunargagna um afbrot, sem teljast refsiverð háttsemi skv. 2.–14. gr. samnings þessa, og að bera kennsl á, rekja, kyrrsetja og leggja hald á tæki til að fremja spillingarbrot og ágóða af slíkum afbrotum, eða eignir sem að verðmæti jafngilda slíkum ágóða, sem er unnt að gera ráðstafanir vegna sem settar eru fram skv. 3. mgr. 19. gr. samnings þessa.

    2. Hver aðili skal setja lagaákvæði og gera aðrar ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynleg til að heimila dómstólum sínum eða öðrum til þess bærum yfirvöldum að fyrirskipa að banka-, fjármála- og viðskiptagögn verði afhent eða hald á þau lagt til að unnt sé að grípa til þeirra aðgerða sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
    3. Bankaleynd skal ekki koma í veg fyrir þær ráðstafanir sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. þessarar greinar.

III. kafli.
Fylgst með framkvæmd samningsins.

24. gr.
Eftirlit.

    Ríkjahópur gegn spillingu (GRECO) skal fylgjast með framkvæmd aðila á samningi þessum.


IV. kafli.
Alþjóðleg samvinna.

25. gr.
Meginreglur og ráðstafanir á sviði
alþjóðlegrar samvinnu.

    1. Aðilar skulu vinna saman, í samræmi við ákvæði viðeigandi alþjóðlegra gerninga um samvinnu þjóða á milli á sviði sakamála eða samkvæmt fyrirkomulagi sem sátt er um og reist er á grundvelli samræmdrar eða gagnvirkrar löggjafar, í samræmi við landslög sín og að því leyti sem frekast er unnt, í þágu rannsóknar og saksóknar vegna afbrota sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum.
    2. Ákvæði 26.–31. gr. þessa kafla gilda séu engir gerningar á sviði þjóðaréttar eða ekkert samkomulag, sem um getur í 1. mgr., í gildi milli aðila.
    3. Ákvæði 26.–31. gr. þessa kafla gilda einnig gangi þau lengra en ákvæði gerninga á sviði þjóðaréttar eða samkomulag sem um getur í 1. mgr.


26. gr.
Gagnkvæm aðstoð.

    1. Aðilar skulu aðstoða hverjir aðra eftir föngum með því að afgreiða tafarlaust beiðnir frá yfirvöldum sem samkvæmt landslögum þeirra hafa heimild til að rannsaka afbrot, sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, eða leggja fram ákæru vegna þeirra.
    2. Synja má um gagnkvæma réttaraðstoð í skilningi 1. mgr. þessarar greinar telji aðilinn, er við beiðni tekur, að verði hann við beiðninni yrði grafið undan grundvallarhagsmunum hans, þ.e. fullveldi, þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.
    3. Aðilum er óheimilt að bera fyrir sig bankaleynd sem ástæðu þess að synja um samvinnu samkvæmt þessum kafla. Aðili kann að gera kröfu um, mæli landslög hans fyrir þar um, að annaðhvort dómari eða annað dómsmálayfirvald, þar með taldir opinberir ákærendur, sem starfar á sviði afbrotamála, samþykki beiðni um samvinnu sem fælist í því að aflétta bankaleynd.

27. gr.
Framsal.

    1. Líta ber svo á að afbrot, sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, teljist til framsalsafbrota í hverjum þeim framsalssamningi sem í gildi er milli eða meðal aðilanna. Aðilar skuldbinda sig til að telja fyrrnefnd afbrot meðal framsalsafbrota í hverjum þeim framsalssamningi sem gerður kann að verða meðal þeirra eða á milli þeirra.
    2. Taki aðili, sem gerir það að skilyrði fyrir framsali að í gildi sé samningur þar um, við framsalsbeiðni frá öðrum aðila, sem hann hefur ekki framsalssamning við, getur hann litið á samning þennan sem lagalegan grundvöll að framsali með tilliti til afbrots sem telst refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum.
    3. Aðilar, sem gera það ekki að skilyrði fyrir framsali að í gildi sé samningur þar um, skulu samþykkja með gagnkvæmum hætti að afbrot, sem teljast refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, séu framsalsafbrot.
    4. Framsal skal háð þeim skilyrðum sem lög þess aðila, er við framsalsbeiðni tekur, eða gildandi framsalssamningar kveða á um, meðal annars þeim forsendum sem liggja að baki þess að aðilinn, er við framsalsbeiðninni tekur, kann að synja um framsal.
    5. Sé synjað um framsal vegna afbrots, sem telst refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, einungis á grundvelli ríkisfangs þess sem óskast framseldur eða vegna þess að aðilinn, er við framsalsbeiðninni tekur, telur sig hafa lögsögu að því er afbrotið varðar, skal aðilinn, er við framsalsbeiðninni tekur, leggja málið fyrir til þess bær yfirvöld sín til saksóknar, nema um annað sé samið við aðilann er lagði beiðnina fram, og skal hann tilkynna aðilanum, er lagði beiðnina fram, um endanlega niðurstöðu málsins þegar þar að kemur.

28. gr.
Upplýsingagjöf af sjálfsdáðum.

    Aðili getur, óumbeðið og án þess að það hafi áhrif á hans eigin rannsókn eða málarekstur, sent öðrum aðila upplýsingar um tilfelli álíti hann að þær geti gagnast viðtakanda við að hefja eða framkvæma rannsókn eða reka mál vegna afbrots, sem telst refsiverð háttsemi samkvæmt samningi þessum, eða geti leitt til þess að sá aðili leggi fram beiðni samkvæmt ákvæðum þessa kafla.


29. gr.
Miðstjórnarvald.

    1. Aðilar tilnefni miðstjórnarvald, eða fleiri en eitt miðstjórnarvald ef það á við, sem annist um sendingu beiðna, sem lagðar eru fram samkvæmt ákvæðum þessa kafla, og um svör við þeim, afgreiðslu slíkra beiðna eða framsendingu þeirra til yfirvalda sem eru til þess bær að afgreiða þær.
    2. Hver aðili skal, við undirritun eða þegar hann afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins nöfn og heimilisföng yfirvaldanna sem tilnefnd eru í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.

30. gr.
Bein samskipti.

    1. Miðstjórnarvöldin skulu eiga bein samskipti sín á milli.
    2. Í bráðatilvikum geta dómsmálayfirvöld þess aðila er leggur fram beiðni, þar með taldir opinberir ákærendur, sent beiðnir um gagnkvæma aðstoð eða orðsendingar þar að lútandi milliliðalaust til sambærilegra yfirvalda þess aðila er við beiðni tekur. Í slíkum tilvikum skal jafnframt senda miðstjórnarvaldi aðilans, er við beiðni tekur, afrit fyrir milligöngu miðstjórnarvalds aðilans er leggur fram beiðni.
    3. Heimilt er að senda beiðnir og orðsendingar skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar fyrir milligöngu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (Interpol).

    4. Sé beiðni lögð fram skv. 2. mgr. þessarar greinar og sé viðtökuyfirvaldið ekki til þess bært að fjalla um hana skal það framsenda beiðnina þar til bæru innlendu yfirvaldi og tilkynna það aðilanum, er lagði beiðnina fram, milliliðalaust.
    5. Til þess bær yfirvöld aðilans, er leggur fram beiðni, geta sent aðilanum, er við beiðni tekur, milliliðalaust beiðnir og orðsendingar skv. 2. mgr. þessarar greinar sem hafa ekki í för með sér þvingunaraðgerðir.
    6. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, að upplýsa aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að í þágu skilvirkni beri að beina beiðnum samkvæmt þessum kafla til miðstjórnarvalds þess.

31. gr.
Upplýsingagjöf.

    Aðilinn, er tekur við beiðni, skal án tafar upplýsa aðilann, er leggur fram beiðni, um aðgerð vegna framkominnar beiðni samkvæmt þessum kafla og um lyktir aðgerðarinnar. Aðilinn, er tekur við beiðni, skal einnig án tafar upplýsa aðilann, er leggur fram beiðni, um þær aðstæður sem koma í veg fyrir að unnt sé að framkvæma umbeðna aðgerð eða eru líklegar til að tefja hana verulega.

V. kafli.
Lokaákvæði.

32. gr.
Undirritun og gildistaka.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins og ríki sem eru ekki aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð hans. Slík ríki geta lýst sig samþykk því að vera bundin af samningi þessum með:
a)    undirritun án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki; eða
b)    undirritun með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki og eftirfarandi fullgildingu, staðfestingu eða samþykki.
    2. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.
    3. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fjórtán ríki hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af honum í samræmi við ákvæði 1. mgr. Hvert slíkt ríki, sem ekki er aðili að ríkjahópi gegn spillingu (GRECO) við fullgildingu samningsins, verður sjálfkrafa aðili að hópnum þann dag er samningurinn öðlast gildi.


    4. Samningur þessi öðlast gildi gagnvart hverju undirritunarríki, sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af honum, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er það lýsir sig samþykkt því að vera bundið af samningnum í samræmi við ákvæði 1. mgr. Hvert undirritunarríki, sem ekki er aðili að ríkjahópi gegn spillingu (GRECO) við fullgildingu samningsins, verður sjálfkrafa aðili að hópnum þann dag er samningurinn öðlast gildi gagnvart því.



33. gr.
Aðild að samningnum.

    1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins, að höfðu samráði við samningsríkin, boðið Evrópubandalaginu og hverju því ríki, sem ekki á aðild að Evrópuráðinu og ekki hefur tekið þátt í gerð hans, að gerast aðili að samningi þessum með ákvörðun sem er tekin með þeim meirihluta sem er tilskilinn í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða atkvæðum fulltrúa þeirra samningsríkja sem eiga rétt til setu í ráðherranefndinni.

    2. Samningur þessi öðlast gildi gagnvart Evrópubandalaginu og hverju því ríki, sem gerist aðili að honum skv. 1. mgr., fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er skjal þess um aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu. Evrópubandalagið og hvert það ríki, sem gerist aðili að samningnum, verður sjálfkrafa aðili að GRECO þann dag er samningurinn öðlast gildi gagnvart því, sé það ekki þegar aðili að hópnum við aðild.


34. gr.
Landsvæði þar sem samningurinn gildir.

    1. Sérhverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar það afhendir skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, að tilgreina það eða þau landsvæði þar sem samningur þessi skal gilda.
    2. Hver aðili getur hvenær sem er síðar útvíkkað, með yfirlýsingu sem er send aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, gildissvið samnings þessa til þess að það megi ná til hvers annars landsvæðis sem er tilgreint í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi, að því er slíkt landsvæði varðar, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.

    3. Heimilt er að afturkalla hverja þá yfirlýsingu, sem er gefin samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum og varðar hvert það landsvæði sem þar er tilgreint, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.

35. gr.
Afstaða til annarra samninga.

    1. Samningur þessi hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur sem leiðir af alþjóðasamningum um sérstök málefni.
    2. Aðilar að samningi þessum geta gert með sér tvíhliða eða marghliða samninga um þau málefni sem samningur þessi fjallar um í því skyni að auka við eða treysta ákvæði hans eða auðvelda framkvæmd meginreglna hans.

    3. Hafi tveir eða fleiri aðilar þegar gert með sér samning um viðfangsefni, sem fjallað er um í samningi þessum, eða hafi þeir skipað samskiptum sínum viðvíkjandi því viðfangsefni með öðrum hætti ber þeim réttur til að framkvæma samninginn, eða að koma skipulagi á fyrrnefnd samskipti þess vegna, í stað samnings þessa, sé það samvinnu þjóða í milli til framdráttar.

36. gr.
Yfirlýsingar.

    Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að lýsa því yfir að það muni líta svo á að mútuboð til og mútuþága erlendra opinberra embættismanna skv. 5. gr., embættismanna alþjóðastofnana skv. 9. gr. eða dómara og embættismanna við alþjóðadómstóla skv. 11. gr. teljist því aðeins refsiverð háttsemi að viðkomandi opinber embættismaður eða dómari hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert, hvort tveggja í bága við skyldustörf sín.

37. gr.
Fyrirvarar.

    1. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að áskilja sér rétt til að líta svo á að sú háttsemi, sem um getur í 4. gr., 6.–8. gr. og 10. og 12. gr., eða mútuþágubrot, sem er lýst í 5. gr., teljist ekki refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum, að einhverju eða öllu leyti.
    2. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að lýsa því yfir að það nýti sér þann fyrirvara sem kveðið er á um í 2. mgr. 17. gr.
    3. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að lýsa því yfir að það kunni að synja um gagnkvæma réttaraðstoð skv. 1. mgr. 26. gr. varði beiðni þar um afbrot sem aðilinn, er við beiðninni tekur, telur stjórnmálalegs eðlis.
    4. Engu ríki er heimilt, með því að beita ákvæðum 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar, að gera fyrirvara við fleiri en fimm þeirra ákvæða sem þar eru tilgreind. Óheimilt er að gera aðra fyrirvara. Fyrirvara sama eðlis við 4., 6. og 10. gr. skal líta á sem einn fyrirvara.

38. gr.
Gildistími og endurskoðun yfirlýsinga
og fyrirvara.

    1. Yfirlýsingar, sem um getur í 36. gr., og fyrirvarar, sem um getur í 37. gr., gilda í þrjú ár frá þeim degi er samningur þessi öðlast gildi gagnvart viðkomandi ríki. Þó er heimilt að endurnýja fyrrnefndar yfirlýsingar og fyrirvara í jafnlangan tíma í einu.

    2. Tólf mánuðum áður en yfirlýsing eða fyrirvari fellur úr gildi skal aðalskrifstofa Evrópuráðsins tilkynna það viðkomandi ríki. Eigi síðar en þremur mánuðum áður en yfirlýsing eða fyrirvari fellur úr gildi skal ríkið tilkynna aðalframkvæmdastjóranum að það staðfesti yfirlýsinguna eða fyrirvarann, geri þar breytingu á eða afturkalli. Sendi viðkomandi ríki ekki tilkynningu skal aðalskrifstofan tilkynna því að litið sé svo á að yfirlýsing þess eða fyrirvari hafi verið framlengdur sjálfkrafa um sex mánuði. Yfirlýsing eða fyrirvari fellur úr gildi tilkynni viðkomandi ríki ekki, áður en fyrrnefndur frestur er útrunninn, að það hyggist staðfesta eða breyta yfirlýsingu sinni eða fyrirvara.

    3. Gefi aðili út yfirlýsingu eða geri fyrirvara samkvæmt ákvæðum 36. og 37. gr. skal hann, áður en endurnýjun fer fram eða samkvæmt beiðni, skýra fyrir GRECO þær ástæður sem réttlæta áframhaldandi gildi þeirra.

39. gr.
Breytingar.

    1. Hver aðili getur lagt fram tillögur til breytinga á samningi þessum og skal aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins senda þær aðildarríkjum Evrópuráðsins og öllum ríkjum sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa gerst aðilar að samningi þessum eða verið boðin aðild samkvæmt ákvæðum 33. gr.

    2. Breytingartillögur aðila skulu sendar Evrópunefnd um afbrotamálefni (CDPC) og skal hún leggja fyrir ráðherranefndina álit sitt á þeirri breytingu sem lögð er til.

    3. Ráðherranefndin skal fjalla um breytingartillöguna og álit það sem Evrópunefnd um afbrotamálefni hefur lagt fram og getur ráðherranefndin samþykkt breytinguna að höfðu samráði við þau aðildarríki samnings þessa sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu.
    4. Texti hverrar breytingar, sem ráðherranefndin samþykkir skv. 3. mgr. þessarar greinar, skal framsendur aðilum til staðfestingar.

    5. Hver sú breyting, sem samþykkt er skv. 3. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að allir aðilar hafa skýrt aðalframkvæmdastjóranum frá því að þeir staðfesti hana.

40. gr.
Lausn deilumála.

    1. Skýra ber Evrópunefnd um afbrotamálefni, sem starfar á vegum Evrópuráðsins, reglulega frá því með hvaða hætti samningur þessi er túlkaður og kemur til framkvæmda.
    2. Komi upp deila milli aðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa skulu þeir leitast við að leysa hana með samningaviðræðum eða öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali, til dæmis með því að leggja deiluna fyrir Evrópunefnd um afbrotamálefni, leggja hana í gerð, en ákvörðun gerðardóms skal vera bindandi fyrir aðila, eða fyrir Alþjóðadómstólinn, eftir því sem hlutaðeigandi aðilar verða ásáttir um.

41. gr.
Uppsögn.

    1. Hver aðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    2. Uppsögnin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóranum berst tilkynningin í hendur.

42. gr.
Tilkynningar.

    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins og hverju því ríki, sem hefur gerst aðili að samningi þessum, um:

a)    hverja undirritun;
b)    afhendingu hvers skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild;
c)    hvern gildistökudag samnings þessa skv. 32. og 33. gr.;
d)    hverja yfirlýsingu eða fyrirvara skv. 36. eða 37. gr.;
e)    hvern annan gerning, tilkynningu eða orðsendingu er varðar samning þennan.

Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Strassborg 27. janúar 1999 í einu eintaki á ensku og einu eintaki á frönsku, sem verða afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textarnir jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda hverju aðildarríki Evrópuráðsins, hverju ríki, sem er ekki aðili að Evrópuráðinu en hefur tekið þátt í gerð samnings þessa, og hverju ríki, sem boðið er að gerast aðili að honum, staðfest endurrit.

CRIMINAL LAW CONVENTION
on Corruption


Premble

The member States of the Council of Europe and the other States signatory hereto,

Considering that the aim of the Council of Europe is to achieve a greater unity between its members;

Recognising the value of fostering co-operation with the other States signatories to this Convention;

Convinced of the need to pursue, as a matter of priority, a common criminal policy aimed at the protection of society against corruption, including the adoption of appropriate legislation and preventive measures;

Emphasising that corruption threatens the rule of law, democracy and human rights, undermines good governance, fairness and social justice, distorts competition, hinders economic development and endangers the stability of democratic institutions and the moral foundations of society;

Believing that an effective fight against corruption requires increased, rapid and well-functioning international co-operation in criminal matters;

Welcoming recent developments which further advance international understanding and co- operation in combating corruption, including actions of the United Nations, the World Bank, the International Monetary Fund, the World Trade Organisation, the Organisation of American States, the OECD and the European Union;


Having regard to the Programme of Action against Corruption adopted by the Committee of Ministers of the Council of Europe in November 1996 following the recommendations of the 19th Conference of European Ministers of Justice (Valletta, 1994);

Recalling in this respect the importance of the participation of non-member States in the Council of Europe's activities against corruption and welcoming their valuable contribution to the implementation of the Programme of Action against Corruption;

Further recalling that Resolution No. 1 adopted by the European Ministers of Justice at their 21st Conference (Prague, 1997) recommended the speedy implementation of the Programme of Action against Corruption, and called, in particular, for the early adoption of a criminal law convention providing for the co-ordinated incrimination of corruption offences, enhanced co-operation for the prosecution of such offences as well as an effective follow-up mechanism open to member States and non-member States on an equal footing;


Bearing in mind that the Heads of State and Government of the Council of Europe decided, on the occasion of their Second Summit held in Strasbourg on 10 and 11 October 1997, to seek common responses to the challenges posed by the growth in corruption and adopted an Action Plan which, in order to promote co-operation in the fight against corruption, including its links with organised crime and money laundering, instructed the Committee of Ministers, inter alia, to secure the rapid completion of international legal instruments pursuant to the Programme of Action against Corruption;

Considering moreover that Resolution (97) 24 on the 20 Guiding Principles for the Fight against Corruption, adopted on 6 November 1997 by the Committee of Ministers at its 101st Session, stresses the need rapidly to complete the elaboration of international legal instruments pursuant to the Programme of Action against Corruption;

In view of the adoption by the Committee of Ministers, at its 102nd Session on 4 May 1998, of Resolution (98) 7 authorising the partial and enlarged agreement establishing the “Group of States against Corruption – GRECO”, which aims at improving the capacity of its members to fight corruption by following up compliance with their undertakings in this field,

Have agreed as follows:

Chapter I
Use of terms

Article 1
Use of terms

    For the purposes of this Convention:

a)    “public official” shall be understood by reference to the definition of “official”, “public officer”, “mayor”, “minister” or “judge” in the national law of the State in which the person in question performs that function and as applied in its criminal law;

b)    the term “judge” referred to in sub-paragraph a above shall include prosecutors and holders of judicial offices;
c)    in the case of proceedings involving a public official of another State, the prosecuting State may apply the definition of public official only insofar as that definition is compatible with its national law;
d)    “legal person” shall mean any entity having such status under the applicable national law, except for States or other public bodies in the exercise of State authority and for public international organisations.

Chapter II
Measures to be taken at national level

Article 2
Active bribery of domestic public officials

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law, when committed intentionally, the promising, offering or giving by any person, directly or indirectly, of any undue advantage to any of its public officials, for himself or herself or for anyone else, for him or her to act or refrain from acting in the exercise of his or her functions.

Article 3
Passive bribery of domestic public officials

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law, when committed intentionally, the request or receipt by any of its public officials, directly or indirectly, of any undue advantage, for himself or herself or for anyone else, or the acceptance of an offer or a promise of such an advantage, to act or refrain from acting in the exercise of his or her functions.


Article 4
Bribery of members of domestic
public assemblies

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Articles 2 and 3, when involving any person who is a member of any domestic public assembly exercising legislative or administrative powers.

Article 5
Bribery of foreign public officials

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Articles 2 and 3, when involving a public official of any other State.

Article 6
Bribery of members of foreign
public assemblies

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Articles 2 and 3, when involving any person who is a member of any public assembly exercising legislative or administrative powers in any other State.

Article 7
Active bribery in the private sector

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law, when committed intentionally in the course of business activity, the promising, offering or giving, directly or indirectly, of any undue advantage to any persons who direct or work for, in any capacity, private sector entities, for themselves or for anyone else, for them to act, or refrain from acting, in breach of their duties.


Article 8
Passive bribery in the private sector

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law, when committed intentionally, in the course of business activity, the request or receipt, directly or indirectly, by any persons who direct or work for, in any capacity, private sector entities, of any undue advantage or the promise thereof for themselves or for anyone else, or the acceptance of an offer or a promise of such an advantage, to act or refrain from acting in breach of their duties.


Article 9
Bribery of officials of international organisations

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Articles 2 and 3, when involving any official or other contracted employee, within the meaning of the staff regulations, of any public international or supranational organisation or body of which the Party is a member, and any person, whether seconded or not, carrying out functions corresponding to those performed by such officials or agents.

Article 10
Bribery of members of international
parliamentary assemblies

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Article 4 when involving any members of parliamentary assemblies of international or supranational organisations of which the Party is a member.

Article 11
Bribery of judges and officials of
international courts

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in Articles 2 and 3 involving any holders of judicial office or officials of any international court whose jurisdiction is accepted by the Party.


Article 12
Trading in influence

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law, when committed intentionally, the promising, giving or offering, directly or indirectly, of any undue advantage to anyone who asserts or confirms that he or she is able to exert an improper influence over the decision-making of any person referred to in Articles 2, 4 to 6 and 9 to 11 in consideration thereof, whether the undue advantage is for himself or herself or for anyone else, as well as the request, receipt or the acceptance of the offer or the promise of such an advantage, in consideration of that influence, whether or not the influence is exerted or whether or not the supposed influence leads to the intended result.

Article 13
Money laundering of proceeds from
corruption offences

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law the conduct referred to in the Council of Europe Convention on Laundering, Search, Seizure and Confiscation of the Products from Crime (ETS No. 141), Article 6, paragraphs 1 and 2, under the conditions referred to therein, when the predicate offence consists of any of the criminal offences established in accordance with Articles 2 to 12 of this Convention, to the extent that the Party has not made a reservation or a declaration with respect to these offences or does not consider such offences as serious ones for the purpose of their money laundering legislation.

Article 14
Account offences

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as offences liable to criminal or other sanctions under its domestic law the following acts or omissions, when committed intentionally, in order to commit, conceal or disguise the offences referred to in Articles 2 to 12, to the extent the Party has not made a reservation or a declaration:

a)    creating or using an invoice or any other accounting document or record containing false or incomplete information;
b)    unlawfully omitting to make a record of a payment.

Article 15
Participatory acts

    Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish as criminal offences under its domestic law aiding or abetting the commission of any of the criminal offences established in accordance with this Convention.

Article 16
Immunity

    The provisions of this Convention shall be without prejudice to the provisions of any Treaty, Protocol or Statute, as well as their implementing texts, as regards the withdrawal of immunity.

Article 17
Jurisdiction

    1. Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to establish jurisdiction over a criminal offence established in accordance with Articles 2 to 14 of this Convention where:
a)    the offence is committed in whole or in part in its territory;
b)    the offender is one of its nationals, one of its public officials, or a member of one of its domestic public assemblies;
c)    the offence involves one of its public officials or members of its domestic public assemblies or any person referred to in Articles 9 to 11 who is at the same time one of its nationals.
    2. Each State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, declare that it reserves the right not to apply or to apply only in specific cases or conditions the jurisdiction rules laid down in paragraphs 1 b and c of this article or any part thereof.

    3. If a Party has made use of the reservation possibility provided for in paragraph 2 of this article, it shall adopt such measures as may be necessary to establish jurisdiction over a criminal offence established in accordance with this Convention, in cases where an alleged offender is present in its territory and it does not extradite him to another Party, solely on the basis of his nationality, after a request for extradition.
    4. This Convention does not exclude any criminal jurisdiction exercised by a Party in accordance with national law.

Article 18
Corporate liability

    1. Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to ensure that legal persons can be held liable for the criminal offences of active bribery, trading in influence and money laundering established in accordance with this Convention, committed for their benefit by any natural person, acting either individually or as part of an organ of the legal person, who has a leading position within the legal person, based on:
–    a power of representation of the legal person; or
–    an authority to take decisions on behalf of the legal person; or
–    an authority to exercise control within the legal person;
as well as for involvement of such a natural person as accessory or instigator in the above-mentioned offences.
    2. Apart from the cases already provided for in paragraph 1, each Party shall take the necessary measures to ensure that a legal person can be held liable where the lack of supervision or control by a natural person referred to in paragraph 1 has made possible the commission of the criminal offences mentioned in paragraph 1 for the benefit of that legal person by a natural person under its authority.
    3. Liability of a legal person under paragraphs 1 and 2 shall not exclude criminal proceedings against natural persons who are perpetrators, instigators of, or accessories to, the criminal offences mentioned in paragraph 1.

Article 19
Sanctions and measures

    1. Having regard to the serious nature of the criminal offences established in accordance with this Convention, each Party shall provide, in respect of those criminal offences established in accordance with Articles 2 to 14, effective, proportionate and dissuasive sanctions and measures, including, when committed by natural persons, penalties involving deprivation of liberty which can give rise to extradition.
    2. Each Party shall ensure that legal persons held liable in accordance with Article 18, paragraphs 1 and 2, shall be subject to effective, proportionate and dissuasive criminal or non-criminal sanctions, including monetary sanctions.
    3. Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to enable it to confiscate or otherwise deprive the instrumentalities and proceeds of criminal offences established in accordance with this Convention, or property the value of which corresponds to such proceeds.


Article 20
Specialised authorities

    Each Party shall adopt such measures as may be necessary to ensure that persons or entities are specialised in the fight against corruption. They shall have the necessary independence in accordance with the fundamental principles of the legal system of the Party, in order for them to be able to carry out their functions effectively and free from any undue pressure. The Party shall ensure that the staff of such entities has adequate training and financial resources for their tasks.


Article 21
Co-operation with and between
national authorities

    Each Party shall adopt such measures as may be necessary to ensure that public authorities, as well as any public official, co-operate, in accordance with national law, with those of its authorities responsible for investigating and prosecuting criminal offences:
a)    by informing the latter authorities, on their own initiative, where there are reasonable grounds to believe that any of the criminal offences established in accordance with Articles 2 to 14 has been committed, or
b)    by providing, upon request, to the latter authorities all necessary information.


Article 22
Protection of collaborators of justice
and witnesses

    Each Party shall adopt such measures as may be necessary to provide effective and appropriate protection for:
a)    those who report the criminal offences established in accordance with Articles 2 to 14 or otherwise co-operate with the investigating or prosecuting authorities;
b)    witnesses who give testimony concerning these offences.

Article 23
Measures to facilitate the gathering of evidence and the confiscation of proceeds

    1. Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary, including those permitting the use of special investigative techniques, in accordance with national law, to enable it to facilitate the gathering of evidence related to criminal offences established in accordance with Article 2 to 14 of this Convention and to identify, trace, freeze and seize instrumentalities and proceeds of corruption, or property the value of which corresponds to such proceeds, liable to measures set out in accordance with paragraph 3 of Article 19 of this Convention.
    2. Each Party shall adopt such legislative and other measures as may be necessary to empower its courts or other competent authorities to order that bank, financial or commercial records be made available or be seized in order to carry out the actions referred to in paragraph 1 of this article.

    3. Bank secrecy shall not be an obstacle to measures provided for in paragraphs 1 and 2 of this article.

Chapter III
Monitoring of implementation

Article 24
Monitoring

    The Group of States against Corruption (GRECO) shall monitor the implementation of this Convention by the Parties.

Chapter IV
International co-operation

Article 25
General principles and measures for
international co-operation

    1. The Parties shall co-operate with each other, in accordance with the provisions of relevant international instruments on international co- operation in criminal matters, or arrangements agreed on the basis of uniform or reciprocal legislation, and in accordance with their national law, to the widest extent possible for the purposes of investigations and proceedings concerning criminal offences established in accordance with this Convention.
    2. Where no international instrument or arrangement referred to in paragraph 1 is in force between Parties, Articles 26 to 31 of this chapter shall apply.
    3. Articles 26 to 31 of this chapter shall also apply where they are more favourable than those of the international instruments or arrangements referred to in paragraph 1.

Article 26
Mutual assistance

    1. The Parties shall afford one another the widest measure of mutual assistance by promptly processing requests from authorities that, in conformity with their domestic laws, have the power to investigate or prosecute criminal offences established in accordance with this Convention.
    2. Mutual legal assistance under paragraph 1 of this article may be refused if the requested Party believes that compliance with the request would undermine its fundamental interests, national sovereignty, national security or ordre public.
    3. Parties shall not invoke bank secrecy as a ground to refuse any co-operation under this chapter. Where its domestic law so requires, a Party may require that a request for co-operation which would involve the lifting of bank secrecy be authorised by either a judge or another judicial authority, including public prosecutors, any of these authorities acting in relation to criminal offences.

Article 27
Extradition

    1. The criminal offences established in accordance with this Convention shall be deemed to be included as extraditable offences in any extradition treaty existing between or among the Parties. The Parties undertake to include such offences as extraditable offences in any extradition treaty to be concluded between or among them.
    2. If a Party that makes extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for extradition from another Party with which it does not have an extradition treaty, it may consider this Convention as the legal basis for extradition with respect to any criminal offence established in accordance with this Convention.
    3. Parties that do not make extradition conditional on the existence of a treaty shall recognise criminal offences established in accordance with this Convention as extraditable offences between themselves.
    4. Extradition shall be subject to the conditions provided for by the law of the requested Party or by applicable extradition treaties, including the grounds on which the requested Party may refuse extradition.

    5. If extradition for a criminal offence established in accordance with this Convention is refused solely on the basis of the nationality of the person sought, or because the requested Party deems that it has jurisdiction over the offence, the requested Party shall submit the case to its competent authorities for the purpose of prosecution unless otherwise agreed with the requesting Party, and shall report the final outcome to the requesting Party in due course.



Article 28
Spontaneous information

    Without prejudice to its own investigations or proceedings, a Party may without prior request forward to another Party information on facts when it considers that the disclosure of such information might assist the receiving Party in initiating or carrying out investigations or proceedings concerning criminal offences established in accordance with this Convention or might lead to a request by that Party under this chapter.

Article 29
Central authority

    1. The Parties shall designate a central authority or, if appropriate, several central authorities, which shall be responsible for sending and answering requests made under this chapter, the execution of such requests or the transmission of them to the authorities competent for their execution.
    2. Each Party shall, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, communicate to the Secretary General of the Council of Europe the names and addresses of the authorities designated in pursuance of paragraph 1 of this article.

Article 30
Direct communication

    1. The central authorities shall communicate directly with one another.
    2. In the event of urgency, requests for mutual assistance or communications related thereto may be sent directly by the judicial authorities, including public prosecutors, of the requesting Party to such authorities of the requested Party. In such cases a copy shall be sent at the same time to the central authority of the requested Party through the central authority of the requesting Party.

    3. Any request or communication under paragraphs 1 and 2 of this article may be made through the International Criminal Police Organisation (Interpol).
    4. Where a request is made pursuant to paragraph 2 of this article and the authority is not competent to deal with the request, it shall refer the request to the competent national authority and inform directly the requesting Party that it has done so.
    5. Requests or communications under paragraph 2 of this article, which do not involve coercive action, may be directly transmitted by the competent authorities of the requesting Party to the competent authorities of the requested Party.
    6. Each State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, inform the Secretary General of the Council of Europe that, for reasons of efficiency, requests made under this chapter are to be addressed to its central authority.

Article 31
Information

    The requested Party shall promptly inform the requesting Party of the action taken on a request under this chapter and the final result of that action. The requested Party shall also promptly inform the requesting Party of any circumstances which render impossible the carrying out of the action sought or are likely to delay it significantly.


Chapter V
Final provisions

Article 32
Signature and entry into force

    1. This Convention shall be open for signature by the member States of the Council of Europe and by non-member States which have participated in its elaboration. Such States may express their consent to be bound by:
a)    signature without reservation as to ratification, acceptance or approval; or
b)    signature subject to ratification, acceptance or approval, followed by ratification, acceptance or approval.
    2. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary General of the Council of Europe.
    3. This Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date on which fourteenth States have expressed their consent to be bound by the Convention in accordance with the provisions of paragraph 1. Any such State, which is not a member of the Group of States against Corruption (GRECO) at the time of ratification, shall automatically become a member on the date the Convention enters into force.
    4. In respect of any signatory State which subsequently expresses its consent to be bound by it, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of the expression of their consent to be bound by the Convention in accordance with the provisions of paragraph 1. Any signatory State, which is not a member of the Group of States against Corruption (GRECO) at the time of ratification, shall automatically become a member on the date the Convention enters into force in its respect.

Article 33
Accession to the Convention

    1. After the entry into force of this Convention, the Committee of Ministers of the Council of Europe, after consulting the Contracting States to the Convention, may invite the European Community as well as any State not a member of the Council and not having participated in its elaboration to accede to this Convention, by a decision taken by the majority provided for in Article 20d of the Statute of the Council of Europe and by the unanimous vote of the representatives of the Contracting States entitled to sit on the Committee of Ministers.
    2. In respect of the European Community and any State acceding to it under paragraph 1 above, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of deposit of the instrument of accession with the Secretary General of the Council of Europe. The European Community and any State acceding to this Convention shall automatically become a member of GRECO, if it is not already a member at the time of accession, on the date the Convention enters into force in its respect.

Article 34
Territorial application

    1. Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, specify the territory or territories to which this Convention shall apply.

    2. Any Party may, at any later date, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, extend the application of this Convention to any other territory specified in the declaration. In respect of such territory the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of such declaration by the Secretary General.
    3. Any declaration made under the two preceding paragraphs may, in respect of any territory specified in such declaration, be withdrawn by a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe. The withdrawal shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of such notification by the Secretary General.

Article 35
Relationship to other conventions and agreements

    1. This Convention does not affect the rights and undertakings derived from international multilateral conventions concerning special matters.
    2. The Parties to the Convention may conclude bilateral or multilateral agreements with one another on the matters dealt with in this Convention, for purposes of supplementing or strengthening its provisions or facilitating the application of the principles embodied in it.
    3. If two or more Parties have already concluded an agreement or treaty in respect of a subject which is dealt with in this Convention or otherwise have established their relations in respect of that subject, they shall be entitled to apply that agreement or treaty or to regulate those relations accordingly, in lieu of the present Convention, if it facilitates international co-operation.

Article 36
Declarations

    Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, declare that it will establish as criminal offences the active and passive bribery of foreign public officials under Article 5, of officials of international organisations under Article 9 or of judges and officials of international courts under Article 11, only to the extent that the public official or judge acts or refrains from acting in breach of his duties.


Article 37
Reservations

    1. Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, reserve its right not to establish as a criminal offence under its domestic law, in part or in whole, the conduct referred to in Articles 4, 6 to 8, 10 and 12 or the passive bribery offences defined in Article 5.
    2. Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession declare that it avails itself of the reservation provided for in Article 17, paragraph 2.
    3. Any State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession declare that it may refuse mutual legal assistance under Article 26, paragraph 1, if the request concerns an offence which the requested Party considers a political offence.
    4. No State may, by application of paragraphs 1, 2 and 3 of this article, enter reservations to more than five of the provisions mentioned thereon. No other reservation may be made. Reservations of the same nature with respect to Articles 4, 6 and 10 shall be considered as one reservation.

Article 38
Validity and review of declarations
and reservations

    1. Declarations referred to in Article 36 and reservations referred to in Article 37 shall be valid for a period of three years from the day of the entry into force of this Convention in respect of the State concerned. However, such declarations and reservations may be renewed for periods of the same duration.
    2. Twelve months before the date of expiry of the declaration or reservation, the Secretariat General of the Council of Europe shall give notice of that expiry to the State concerned. No later than three months before the expiry, the State shall notify the Secretary General that it is upholding, amending or withdrawing its declaration or reservation. In the absence of a notification by the State concerned, the Secretariat General shall inform that State that its declaration or reservation is considered to have been extended automatically for a period of six months. Failure by the State concerned to notify its intention to uphold or modify its declaration or reservation before the expiry of that period shall cause the declaration or reservation to lapse.
    3. If a Party makes a declaration or a reservation in conformity with Articles 36 and 37, it shall provide, before its renewal or upon request, an explanation to GRECO, on the grounds justifying its continuance.

Article 39
Amendments

    1. Amendments to this Convention may be proposed by any Party, and shall be communicated by the Secretary General of the Council of Europe to the member States of the Council of Europe and to every non-member State which has acceded to, or has been invited to accede to, this Convention in accordance with the provisions of Article 33.
    2. Any amendment proposed by a Party shall be communicated to the European Committee on Crime Problems (CDPC), which shall submit to the Committee of Ministers its opinion on that proposed amendment.
    3. The Committee of Ministers shall consider the proposed amendment and the opinion submitted by the CDPC and, following consultation of the non- member States Parties to this Convention, may adopt the amendment.

    4. The text of any amendment adopted by the Committee of Ministers in accordance with paragraph 3 of this article shall be forwarded to the Parties for acceptance.
    5. Any amendment adopted in accordance with paragraph 3 of this article shall come into force on the thirtieth day after all Parties have informed the Secretary General of their acceptance thereof.

Article 40
Settlement of disputes

    1. The European Committee on Crime Problems of the Council of Europe shall be kept informed regarding the interpretation and application of this Convention.
    2. In case of a dispute between Parties as to the interpretation or application of this Convention, they shall seek a settlement of the dispute through negotiation or any other peaceful means of their choice, including submission of the dispute to the European Committee on Crime Problems, to an arbitral tribunal whose decisions shall be binding upon the Parties, or to the International Court of Justice, as agreed upon by the Parties concerned.

Article 41
Denunciation

    1. Any Party may, at any time, denounce this Convention by means of a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe.
    2. Such denunciation shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of the notification by the Secretary General.

Article 42
Notification

    The Secretary General of the Council of Europe shall notify the member States of the Council of Europe and any State which has acceded to this Convention of:
a)    any signature;
b)    the deposit of any instrument of ratification, acceptance, approval or accession;
c)    any date of entry into force of this Convention in accordance with Articles 32 and 33;
d)    any declaration or reservation made under Article 36 or Article 37;
e)    any other act, notification or communication relating to this Convention.

In witness whereof the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Convention.

Done at Strasbourg, this 27th day of January 1999, in English and in French, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Council of Europe. The Secretary General of the Council of Europe shall transmit certified copies to each member State of the Council of Europe, to the non-member States which have participated in the elaboration of this Convention, and to any State invited to accede to it.