Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 401  —  335. mál.
Tillaga til þingsályktunarum úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála með það að markmiði að auðvelda og hraða björgunaraðgerðum þegar slys hafa orðið.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 127. og 128. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er nú lögð fram óbreytt.
    Á Íslandi er samstaða um að allt skuli gert sem mögulegt er til að tryggja öryggi sjófarenda. Björgunarsveitir og stjórnvöld þurfa þess vegna að vera stöðugt á varðbergi til að nýta nýjustu tækni og nýja möguleika til að auka öryggi á sjó og flýta björgunaraðgerðum þegar slys hafa orðið. Flutningsmenn telja rétt að stjórnvöld fari vandlega yfir skyldur sínar hvað þessi mál varðar í samráði við aðra sem annast framkvæmd þeirra í því skyni að bæta enn frekar það öryggiskerfi sem fyrir er. Minna má á að ýmsar breytingar hafa orðið á skipulagi björgunarmála á undanförnum árum og af þeim ástæðum er nauðsynlegt að stjórnvöld skoði hvort hlutverkum sé þar skipt með skilvirkum og öruggum hætti eða hvort gera þurfi breytingar á lögum í því skyni.
    Sjóslys geta orðið hvar sem er á miðunum umhverfis landið og við ströndina en þó hefur reynslan sýnt að sumir staðir við strendur landsins eru mun hættulegri en aðrir. Sem dæmi má nefna Snæfellsnes og Reykjanes. Á sumum þessara staða er afar erfitt að koma við björgun frá landi og um algerar vegleysur að fara. Þó að notkun þyrlna hafi mjög aukið möguleika til björgunar úr lofti mun aðstoðar frá landi alltaf verða þörf.
    Á suma af þessum stöðum mætti gera akfæra slóða sem mundu nýtast björgunarmönnum þegar slys yrðu. Gerð slíkra slóða, glögg merking þeirra og annarra slóða sem nýta má til að nálgast slysstað og við leit með ströndum fram getur flýtt fyrir því að hjálp berist. Einnig ber að skoða hvort staðsetning einhvers konar búnaðar eða aðstöðu á þessum sérstöku hættustöðum væri skynsamleg. Fyrrnefndar aðgerðir geta nýst björgunar- og leitarmönnum og einnig aukið öryggi þeirra sjálfra við mjög erfiðar aðstæður sem víða eru á þessum hættulegu strandsvæðum. Flutningsmenn leggja til að skoðað verði hvar þörf er framkvæmda af þessu tagi og að stjórnvöld tryggi fjármuni til slíkra verkefna strax og aðgerðaáætlun liggur fyrir á einstökum svæðum.
    Þó að betri skip og margs konar öryggisbúnaður þeirra hafi aukið öryggi á sjó eru sjóslys enn algeng við strendur landsins.
    Ný tækni við staðsetningu skipa og björgun hefur gert kleift að koma til hjálpar í neyðartilvikum miklu oftar og fyrr en áður var hægt. Kosti þeirrar tækni sem til er hefur þó ekki tekist að nýta til fulls. Búnaður til staðsetningar skipa gerir til dæmis mögulegt að hefja björgunaraðgerðir fáeinum mínútum eftir að skip lendir í nauðum þótt ekki hafi borist frá því neyðarkall. Öryggi boðsendinga frá þessum tækjum hefur þó ekki verið nægilegt og þessi tækni hefur því ekki nýst sem skyldi. Úrbóta er þörf bæði hvað varðar boðsendingar frá staðsetningartækjum og móttöku þeirra. Bæta þarf búnað í skipum og tryggja með endurvarpsstöðvum öryggi sendinga frá þeim. Reglur um tilkynningarskyldu þarf að endurskoða eigi að tryggja að boð um slys berist strax þó að ekki berist neyðarkall frá skipi. Flutningsmönnum er ljóst að þeir sem annast björgunarmál eru að endurskoða þessi málefni og er þessari tillögu ekki ætlað að trufla þá endurskoðun. Stjórnvöld bera hins vegar ábyrgð á því skipulagi sem ríkir og því að fjármunir fáist til nauðsynlegra úrbóta.