Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 478  —  359. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003 frá 14. mars 2003, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003 frá 14. mars 2003, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
    Ákvörðun þessi kallar á að þessi reglugerð verði færð í lög orðrétt og var ákvörðunin tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES- samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES- samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES- nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Reglugerð nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
    Með reglugerð nr. 1606/2002 er stefnt að því að taka upp alþjóðlega staðla á sviði reikningsskila hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins með það fyrir augum að samræma fjárhagslegt uppgjör og upplýsingar um fjárhagslega stöðu fyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Er hér um að ræða reikningsskilastaðla sem gefnir hafa verið út af Alþjóðareikningsskilanefndinni (International Accounting Standards Committee – IASC) og framkvæmdastjórnin hefur samþykkt að innleiða og framtíðarreikningsskilastaðla sem Alþjóðareikningsskilaráðaráðið (International Accounting Standards Board – IASB) mun gefa út og framkvæmdastjórnin samþykkja.
    Margvíslegur ávinningur er að því að fylgja alþjóðlegum stöðlum við reikningsskil. Samræmd reikningsskil stuðla að auknu gagnsæi og auðvelda samanburð á milli ársreikninga fyrirtækja í ólíkum löndum. Þannig geta alþjóðlegir reikningsskilastaðlar aukið traust á fjármagnsmörkuðum og verndað fjárfesta. Allt stuðlar þetta að greiðari flutningum fjármagns, en frjálsir fjármagnsflutningar eru á meðal meginmarkmiða innri markaðar Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.
    Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1606/2002 skal framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvarða notkun alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna innan Evrópusambandsins. Skal við ákvörðun um hvaða staðla skuli taka upp innan ESB gæta þess að slíkir staðlar samræmist ákvæðum tilskipana Evrópusambandsins á þessu sviði, tilskipunar 78/660/EBE og tilskipunar 83/349/EBE. Þá skulu viðkomandi staðlar uppfylla skilyrði um skiljanleika, mikilvægi, áreiðanleika og samanburðarhæfni svo að leggja megi mat á fjárhagsstöðu og frammistöðu stjórnanda viðkomandi fyrirtækis. Reglugerð nr. 1606/2002 heimilar því framkvæmdastjórninni að taka ákvörðun um hvaða reikningsskilastaðlar sem Alþjóðareikningsskilaráðið mun gefa út í framtíðinni skuli innleiddir innan Evrópusambandsins.
    Þau fyrirtæki sem skulu beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í ársreikningi sínum eiga að beita þeim frá og með því reikningsári sem hefst 1. janúar 2005. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1606/2002 skal þetta gilda um samstæðureikninga þeirra félaga sem eru með verðbréf sín skráð á opinberum markaði á uppgjörsdegi. Þá er aðildarríkjum Evrópusambandsins heimilt að leyfa eða krefjast þess að alþjóðlegir reikningsskilastaðlar skuli einnig gilda um ársreikninga félaga innan samstæðunnar, sem og um samstæðureikninga og/eða ársreikninga annarra félaga skv. 5. gr. reglugerðarinnar.
    Á vegum fjármálaráðuneytisins og þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er hafinn undirbúningur að þýðingu þeirra alþjóðlegu reikningsskilastaðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tekið ákvörðun um að skuli innleiða við gildistöku reglugerðarinnar hinn 1. janúar 2005. Ljóst er að hér er um að ræða mjög umfangsmikið verkefni, enda eru reikningsskilastaðlar þessir miklir að vöxtum og þýðing þeirra mikil nákvæmnisvinna. Fjármálaráðuneytið vinnur nú að gerð frumvarps vegna innleiðingar reglugerðarinnar og er stefnt að því að leggja frumvarpið fram á haustþingi árið 2004. Skal þýðingu þessara reikningsskilastaðla vera lokið fyrir þann tíma.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 37/2003

frá 14. mars 2003

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2002 frá 25. júní 2002 ( 1 ).

2)        Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 10a (reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001) í XXII. viðauka við samninginn:

„10b.          32002 R 1606: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 (Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1).“

2. gr.

Texti reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 15. mars 2003, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

Gjört í Brussel 14. mars 2003.

    Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

     P. Westerlund
    formaður.



Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 1606/2002

frá 19. júlí 2002

um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 lagði leiðtogaráðið áherslu á að brýnt væri að hraða því að innri markaði fyrir fjármálaþjónustu verði komið á og ákvað að veita frest til 2005 til að koma í framkvæmd aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar í fjármálaþjónustu og hvatti til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að auka samanburðarhæfi reikningsskila félaga sem eru skráð í kauphöllum.
     2)      Til þess að bæta starfsemi innri markaðarins skal þess krafist að félög, sem eru skráð í kauphöllum, beiti einu safni afar vandaðra alþjóðlegra reikningsskilastaðla þegar þau semja samstæðureikningsskil sín. Enn fremur er mikilvægt að reikningsskilastaðlar sem félög í bandalaginu, sem eru aðilar að fjármálamörkuðum, fara eftir séu alþjóðlega viðurkenndir og eigi við alls staðar í heiminum. Þetta felur í sér aukna samræmingu reikningsskilastaðla, sem eru nú í notkun á alþjóðavettvangi, og lokatakmarkið er að setja fram eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
     3)      Tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 4 ), tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 5 ), tilskipun ráðsins 86/635/EBE frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 6 ) og tilskipun ráðsins 91/674/EBE frá 19. desember 1991 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 7 ) beinast einnig að félögum innan bandalagsins sem eru skráð í kauphöllum. Kröfur um upplýsingar í reikningsskilum, sem settar eru fram í þessum tilskipunum, geta ekki tryggt mikið gagnsæi og samanburðarhæfi fjárhagsskýrslna frá öllum félögum í bandalaginu, sem skráð eru í kauphöllum, en það er nauðsynlegt skilyrði fyrir uppbyggingu óskipts fjármagnsmarkaðar sem er árangursríkur, hnökralaus og skilvirkur. Því er nauðsynlegt að bæta við lagarammann um félög sem skráð eru í kauphöllum.
     4)      Markmiðið með þessari reglugerð er að stuðla að því að fjármagnsmarkaðurinn sé skilvirkur og kostnaðarhagkvæmur. Annar mikilvægur þáttur með tilkomu innri markaðarins á þessu sviði er að vernda fjárfesta og viðhalda trausti á fjármagnsmörkuðum. Með þessari reglugerð er stuðlað að frjálsum flutningi fjármagns á innri markaðnum og því að félög í bandalaginu standi jafnt að vígi í samkeppni að því er varðar fjármagn á fjármagnsmörkuðum í bandalaginu og einnig á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
     5)      Til þess að fjármagnsmarkaðir í bandalaginu séu samkeppnishæfir er mikilvægt að samræma staðlana, sem notaðir eru í Evrópu til að semja reikningsskil, alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem nota má um heim allan í viðskiptum yfir landamæri eða við skráningu á alþjóðlegum verðbréfamarkaði.
     6)      Framkvæmdastjórnin birti, 13. júní 2000, orðsendingu sína um „Stefna ESB í fjárhagsskýrslugerð: leiðin fram á við“ en í henni er lagt til að öll félög í bandalaginu, sem eru skráð í kauphöllum, gangi frá samstæðureikningsskilum sínum í samræmi við eitt safn reikningsskilastaðla, þ.e.a.s. alþjóðlegu reikningsskilastaðlana (IAS- staðlana), í síðasta lagi 2005.
     7)      IAS-staðlarnir eru þróaðir af Alþjóðareikningsskilanefndinni (IASC) en tilgangur hennar er að þróa eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Í framhaldi af endurskipulagningu Alþjóðareikningsskilanefndarinnar var ein af fyrstu ákvörðunum nýja ráðsins 1. apríl 2001 að breyta nafni þess í Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) og að því er varðar ókomna alþjóðlega reikningsskilastaðla að auðkenna þá sem IFRS-staðla í stað IAS- staðla. Notkun þessara staðla skal, alls staðar þar sem því verður við komið og að því gefnu að þeir tryggi mikið gagnsæi og samanburðarhæfi fjárhagsskýrslna í bandalaginu, vera skyldubundin hjá öllum félögum í bandalaginu sem skráð eru í kauphöllum.
     8)      Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari reglugerð í framkvæmd í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 8 ) og taka skal tilhlýðilegt tillit til yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu.
     9)      Við samþykki á notkun á alþjóðlegum reikningsskilastaðli í bandalaginu er í fyrsta lagi nauðsynlegt að hann uppfylli grunnskilyrði í framangreindum tilskipunum ráðsins, þ.e.a.s. að notkun hans gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstri fyrirtækja, og skal þá skoða þessa meginreglu í ljósi téðra tilskipana ráðsins án þess þó að gera ráð fyrir að farið sé að fullu og öllu að öllum ákvæðum þeirra. Í öðru lagi að hann þjóni hagsmunum almennings í Evrópu í samræmi við niðurstöður ráðsins 17. júlí 2000 og að síðustu að hann uppfylli grundvallarskilyrði um gæði upplýsinga sem nauðsynleg eru til þess að reikningsskil komi notendum að gagni.
     10)      Tækninefnd um reikningsskil skal veita framkvæmdastjórninni stuðning og sérfræðiálit þegar alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru metnir.
     11)      Það ferli sem leiðir til samþykktar á alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum skal gera kleift að bregðast skjótt við nýjum stöðlum, sem fyrirhugaðir eru, og einnig að helstu aðilar, sem hlut eiga að máli, fái rætt, hugleitt og skipst á upplýsingum um alþjóðlega reikningsskilastaðla, einkum innlendar stofnanir sem ákveða reikningsskilastaðla, eftirlitsyfirvöld á sviði verðbréfa, banka og trygginga, seðlabankar, m.a. Seðlabanki Evrópu, fagfólk á sviði endurskoðunar og reikningsskila og þeir sem nota og semja reikninga. Með ferlinu er stuðlað að því að skilningur, að því er varðar samþykkta alþjóðlega reikningsskilastaðla, sé á einn og sama veg í bandalaginu.
     12)      Í samræmi við meðalhófsregluna eru ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð og þar sem sett eru fram skilyrði um að eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla sé notað fyrir félög skráð í kauphöllum, nauðsynlegar til þess að ná því markmiði að skapa skilvirka og kostnaðarhagkvæma fjármagnsmarkaði í bandalaginu og stuðla þannig að tilkomu innri markaðarins.
     13)      Í samræmi við sömu meginreglu er nauðsynlegt, að því er varðar ársreikninga, að aðildarríkin hafi það val að heimila eða krefjast þess af félögum skráðum í kauphöllum að þau semji reikningana í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem samþykktir eru í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð. Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða og einnig að rýmka þessa heimild eða leyfi og láta hana/það ná til annarra félaga að því er varðar samningu samstæðureikninga og/eða ársreikninga.
     14)      Í því skyni að auðvelda skoðanaskipti og gera aðildarríkjunum kleift að samræma stöðu sína skal framkvæmdastjórnin tilkynna stýrinefndinni um reikningsskil reglulega um verkefni sem unnið er að, umræðuskjöl, sérstakar skýrslur og drög að stöðlum sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út og um tæknivinnu sem fylgir í kjölfarið og er í höndum tækninefndar um reikningsskil. Einnig er brýnt að stýrinefndinni um reikningsskil sé snemma tilkynnt um það ef framkvæmdastjórnin hyggst ekki leggja til að alþjóðlegur reikningsskilastaðall verði samþykktur.
     15)      Í umfjöllun sinni um, og í nánari skýringum á, afstöðu sem taka skal varðandi hvers kyns skjöl sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út í tengslum við þróun alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna (IFRS og SIC-IFRIC) skal framkvæmdastjórnin taka tillit til þess að mikilvægt er að forðast samkeppni sem er evrópskum félögum, sem starfa á heimsmarkaðnum, í óhag og, að svo miklu leyti sem unnt er, til sjónarmiða fulltrúa í stýrinefndinni um reikningsskil. Framkvæmdastjórnin mun eiga fulltrúa í þeim nefndum sem heyra undir Alþjóðareikningsskilaráðið.
     16)      Forsenda fyrir því að styrkja traust fjárfesta á fjármálamörkuðum er að koma á viðeigandi og ströngu kerfi til að framfylgja gildandi reglum. Aðildarríkjum er skylt, skv. 10. gr. sáttmálans, að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Framkvæmdastjórnin hyggst vinna með aðildarríkjunum, einkum á vettvangi samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (CESR), að þróun sameiginlegrar stefnu við að framfylgja þessum stöðlum.
     17)      Auk þess er nauðsynlegt að gefa aðildarríkjunum færi á að slá beitingu tiltekinna ákvæða á frest til 2007 í tilviki félaga, sem eru skráð í kauphöllum bæði í bandalaginu og á skipulegum mörkuðum í þriðju löndum, sem þegar nota annað safn alþjóðlega viðurkenndra staðla sem grunn fyrir samstæðureikninga sína og einnig fyrir þau félög sem hafa einungis aflað fjár á almennum skuldabréfamarkaði. Engu að síður hefur það úrslitaþýðingu að í síðasta lagi 2007 muni eitt safn alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IAS- staðla, gilda um öll félög í bandalaginu sem eru skráð á skipulegum markaði í bandalaginu.
     18)      Í því skyni að gera aðildarríkjunum og félögum kleift að koma í framkvæmd nauðsynlegum aðlögunum vegna notkunar alþjóðlegra reikningsstaðla er nauðsynlegt að beita vissum ákvæðum aðeins á árinu 2005. Setja skal viðeigandi ákvæði um það þegar félög beita IAS-stöðlunum í fyrsta sinn eftir gildistöku þessarar reglugerðar. Slík ákvæði skulu samin á alþjóðlegum vettvangi til að tryggja alþjóðlega viðurkenningu á þeim lausnum sem teknar eru upp.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Markmið

Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð merkir „alþjóðlegir reikningsskilastaðlar“ IAS-staðla, IFRS-staðla og túlkanir sem tengjast þeim (SIC-IFRIC-túlkanir), síðari breytingar á þessum stöðlum og túlkanir sem tengjast þeim, ókomna staðla og túlkanir sem tengjast þeim og gefnar eru út eða samþykktar af Alþjóðareikningsskilaráðinu.

3. gr.
Samþykki á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og notkun þeirra

1.     Í samræmi við málsmeðferðina, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr., skal framkvæmdastjórnin ákveða notkun alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna í bandalaginu.
2.     Einungis er unnt að samþykkja alþjóðlegu reikningsskilastaðlana ef þeir:
—    ganga ekki þvert á meginregluna, sem sett er fram í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 78/660/EBE og í 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 83/349/EBE, og þeir þjóna hagsmunum almennings í Evrópu,
—    uppfylla skilyrðin um skiljanleika, mikilvægi, áreiðanleika og samanburðarhæfi sem nauðsynlegt er að sé til staðar í þeim fjárhagsupplýsingum sem þarf til að taka ákvarðanir varðandi efnahag og til að meta hvernig stjórnendum félags tekst til með stjórnun.
3.     Framkvæmdastjórnin skal ákveða, eigi síðar en 31. desember 2002, í samræmi við málsmeðferðina, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr., að hve miklu leyti unnt er að nota þá alþjóðlegu reikningsskilastaðla í bandalaginu sem til staðar eru við gildistöku þessarar reglugerðar.
4.     Samþykktir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar skulu birtir í heild sinni í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna sem reglugerð framkvæmdastjórnarinnar á öllum opinberum tungumálum bandalagsins.

4. gr.
Samstæðureikningar félaga sem eru skráð í kauphöllum

Fyrir hvert fjárhagsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar skulu félög, sem lúta lögum aðildarríkis, semja samstæðureikninga sína í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana sem samþykktir eru í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr., ef heimilt er, á uppgjörsdegi þeirra, að eiga viðskipti með verðbréf þeirra á skipulögðum markaði í öllum aðildarríkjum, í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 9 ).

5. gr.
Val í tengslum við ársreikninga og félög sem ekki eru skráð í kauphöllum

Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess:
a)      að félögin, sem um getur í 4. gr., semji ársreikninga sína,
b)      að önnur félög en þau sem um getur í 4. gr. semji samstæðureikninga sína og/eða ársreikninga sína,
í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana sem samþykktir voru í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr.

6. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar stýrinefndar um reikningsskil sem nefnist hér á eftir „nefndin“.
2.     Ef vísað er til þessarar málsgreinar skulu 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar. Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. í ákvörðun 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

7. gr.
Skýrslur og samræming

1.     Framkvæmdastjórnin skal, með reglulegu millibili, hafa samráð við nefndina um stöðu verkefna Alþjóðareikningsskilaráðsins sem unnið er að og öll skjöl tengd þeim, sem gefin eru út af Alþjóðareikningsskilaráðinu um reikningsskil, í því skyni að samræma afstöðuna til og auðvelda umræður varðandi samþykkt staðla sem gætu átt sér stað í kjölfar þessara verkefna og skjala.
2.     Framkvæmdastjórnin skal skila skýrslu til nefndarinnar tímanlega ef hún hyggst ekki leggja til að staðallinn verði samþykktur.

8. gr.
Tilkynning

Þegar aðildarríki gera ráðstafanir skv. 5. gr. skulu þau tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum um það.

9. gr.
Bráðabirgðaákvæði

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um að skilyrði 4. gr. gildi einungis um þau fjárhagsár sem hefjast í janúar 2007 eða síðar gagnvart félögum:
a)      ef skuldabréf þeirra eru eingöngu á skipulegum markaði í hvaða aðildarríki sem er í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE, eða
b)      ef verðbréf þeirra eru boðin almenningi í löndum utan bandalagsins og þau hafa, í þeim tilgangi, notað alþjóðlega viðurkennda staðla allt frá fjárhagsári sem hófst áður en þessi reglugerð var birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

10. gr.
Upplýsingar og endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal endurskoða hvernig beitingu þessarar reglugerðar miðar og skila skýrslu um það til Evrópuþingsins og ráðsins fyrir 1. júlí 2007.

11. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 19. júlí 2002.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX T. PEDERSEN
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 266, 3.10.2002, bls. 69 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 49, 3.10.2002, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 154 E, 29.5.2001, bls. 285.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 260, 17.9.2001, bls. 86.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 12. mars 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 7. júní 2002.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).