Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 635  —  447. mál.
Frumvarp til lagaum eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz,


Þuríður Backman, Sigurjón Þórðarson.I. KAFLI
Eftirlaunaréttur, lífeyrisiðgjald og greiðsla eftirlauna.
1. gr.

    Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar eiga rétt til eftirlauna úr ríkissjóði þegar þeir láta af störfum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum þessum. Þeir skulu meðan þeir gegna störfum greiða í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins iðgjald sem nemi 5% af heildarlaunum eins og þau eru á hverjum tíma. Skal upphæðin dragast frá launum mánaðarlega og greiðast sjóðnum ásamt mótframlagi úr ríkissjóði sem sé jafnhátt hlutfall og fyrir almenna sjóðfélaga, sbr. 13. gr. laga um sjóðinn.
    Iðgjaldagreiðslur skv. 1. mgr. skapa rétt til lífeyris úr A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins samkvæmt reglum um hana. Ellilífeyrir, makalífeyrir og örorkulífeyrir úr A-deild, sem byggist á þeim iðgjaldagreiðslum, kemur til frádráttar greiðslum ríkissjóðs samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Forseti Íslands.
2. gr.

    Fyrrverandi forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum þeim sex mánuðum sem hann nýtur biðlauna, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1990.
    Eftirlaunin nema 60% af launum forseta Íslands eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi hverju sinni. Ef forseti hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil eru eftirlaunin 70%, en 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.

3. gr.

    Nú andast forseti og skal þá greiða eftirlifandi maka hans full laun í sex mánuði. Að þeim tíma liðnum skal greiða makanum helming þeirra eftirlauna sem hinn látni forseti hefði átt rétt á.
    Um rétt maka forseta er látið hefur af störfum fer eftir 16. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr.
    


Prentað upp.

III. KAFLI
Ráðherrar.
4. gr.

    Fyrrverandi ráðherra á rétt á eftirlaunum úr ríkissjóði þegar svo stendur á að:
     1.      Hann er 65 ára eða eldri.
     2.      Hann lætur af ráðherrastörfum og er fullra 60 ára að aldri.
     3.      Hann hefur gegnt ráðherrastörfum í sex ár samtals eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. l. tölul. um fimm ár og síðan til viðbótar um þann tíma sem hann er í embætti umfram sex ár. Aldursmarkið getur þó ekki lækkað um meira en tíu ár samkvæmt þessum tölulið.

5. gr.

    Eftirlaunahlutfall fyrrverandi ráðherra er 6% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári.
    Eftirlaunin fylgja ráðherralaunum eins og þau eru á hverjum tíma og eru sá hundraðshluti þeirra sem eftirlaunaréttur skv. 1. mgr. segir til um.
    Eftirlaunaréttur samkvæmt þessari grein verður þó aldrei meiri en 70%.
    

6. gr.

    Fyrrverandi forsætisráðherra, sem hefur gegnt embætti í a.m.k. eitt ár, á rétt til eftirlauna samkvæmt lögum þessum með sama hlutfalli eftirlauna og forseti Íslands, sbr. 2. gr. Kjörtímabil samkvæmt þessari grein skal talið vera hver fjögur ár samtals í embætti. Sé embættistími ekki samfelldur má miða við samanlagðan tíma í árum talið og deila í hann með fjórum. Hafi fyrrverandi forsætisráðherra einnig gegnt ráðherrastörfum í ráðuneyti annarra má telja þriðjung þess embættistíma með til réttinda samkvæmt þessari grein.
    Eftirlaunin fylgja heildarlaunum forsætisráðherra eins og þau eru á hverjum tíma, þ.e. ráðherralaunum og þingfararkaupi, og eru sá hundraðshluti þeirra sem eftirlaunaréttur skv. 1. mgr. segir til um.
    Ákvæði 4. gr. gilda um rétt fyrrverandi forsætisráðherra samkvæmt þessari grein. Réttur eftir þessari grein kemur þá í stað annarra réttinda skv. III. og IV. kafla.

7. gr.

    Fyrrverandi ráðherra, sem jafnframt hefur gegnt þingstörfum og uppfyllir skilyrði 4. gr. til að fá eftirlaun fyrir ráðherrastörf, öðlast, þrátt fyrir ákvæði 8. gr., jafnframt rétt til eftirlauna fyrir þingmennsku sína.

IV. KAFLI
Alþingismenn.
8. gr.

    Fyrrverandi alþingismaður á rétt á eftirlaunum úr ríkissjóði þegar svo stendur á að:
     1.      Hann er 65 ára eða eldri.
     2.      Hann lætur af þingmennsku og er fullra 60 ára að aldri.
     3.      Hann hefur átt sæti á Alþingi í samtals 16 ár eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. l. tölul. um fimm ár og síðan til viðbótar um sem svarar helmingi þingsetutíma hans sem er umfram 16 ár. Aldursmarkið getur þó ekki lækkað um meira en tíu ár samkvæmt þessum tölulið.

9. gr.

    Eftirlaunahlutfall fyrrverandi alþingismanns er 3% fyrir hvert heilt ár þingsetu og samsvarandi fyrir hluta úr ári.
    Eftirlaunin fylgja þingfararkaupi eins og það er á hverjum tíma og eru sá hundraðshluti þess sem eftirlaunarétturinn skv. 1. mgr. segir til um.
    Eftirlaunaréttur verður aldrei meiri en 70%.
    Álagsgreiðslur skv. 3. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað mynda viðbótarrétt til eftirlauna samkvæmt hlutfalli sínu fyrir þann tíma sem þær eru greiddar.

10. gr.

    Ljúki þingsetu fyrir 40 ára aldur eða standi hún skemur en þrjú ár fellur niður réttur til greiðslna úr ríkissjóði samkvæmt þessum lögum. Veita þá iðgjaldagreiðslur skv. 1. gr. almennan rétt í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum um sjóðinn.

11. gr.

    Forseti Alþingis öðlast sama rétt til eftirlaunagreiðslna og ráðherra fyrir þann tíma sem hann gegnir forsetaembættinu.

12. gr.

    Ráðherra, sem er ekki jafnframt alþingismaður, öðlast, auk réttinda skv. III. kafla, sama rétt til eftirlauna og alþingismenn fyrir þann tíma sem hann gegnir ráðherrastörfum.

13. gr.

    Fyrrverandi alþingismaður, sem jafnframt hefur gegnt ráðherrastörfum og uppfyllir skilyrði 8. gr. til að fá eftirlaun fyrir þingmennsku, öðlast einnig, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., rétt til eftirlauna fyrir ráðherrastörf sín.

14. gr.

    Með „alþingismaður“ er í lögum þessum átt við þann sem hefur tekið fast sæti á Alþingi. Varaþingmaður greiðir af þingfararkaupi sínu til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og á rétt til lífeyris úr þeim sjóði eftir almennum reglum hans í samræmi við iðgjaldagreiðslur sínar.
    Þegar réttindi alþingismanna samkvæmt lögum þessum eru reiknuð út er talinn með sá tími þegar þeir sátu á Alþingi sem varaþingmenn.

V. KAFLI
Hæstaréttardómarar.
15. gr.

    Fyrrverandi hæstaréttardómari á rétt á eftirlaunum úr ríkissjóði þegar svo stendur á að:
     1.      Hann er 65 ára eða eldri.
     2.      Hann hefur gegnt dómarastörfum í Hæstarétti tólf ár eða lengur og lækkar þá aldursmark skv. l. tölul. um fimm ár og síðan til viðbótar sem svarar embættistíma hans sem er umfram tólf ár, þó ekki meira en tíu ár.
    Eftirlaunahlutfallið er 6% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári.
    Eftirlaunin fylgja föstum hæstaréttardómaralaunum eins og þau eru á hverjum tíma og eru sá hundraðshluti þeirra sem eftirlaunarétturinn skv. 2. mgr. segir til um.
    Eftirlaunaréttur verður aldrei meiri en 80%.
    Réttur til eftirlauna og makalífeyris samkvæmt þessari grein á ekki við um þá dómara sem fá lausn skv. 61. gr. stjórnarskrárinnar.

VI. KAFLI
Maka- og örorkulífeyrir, biðlaun, skerðing greiðslna o.fl.
16. gr.

    Nú andast sá sem lög þessi taka til og á þá maki hans rétt á lífeyri úr ríkissjóði er nemur helmingi þeirrar fjárhæðar sem hinn látni hefði haft í eftirlaun, þó að frádregnum greiðslum skv. 2. mgr. 1. gr.
    Þegar greiðslum makalífeyris úr A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins lýkur eftir reglum hans skerðast makalífeyrisgreiðslur úr ríkissjóði ef makinn hefur aðrar launatekjur og nemur skerðingin þriðjungi þess sem þau laun eru umfram fjárhæð makalífeyrisins.
    Nú á sá sem lög þessi taka til rétt til örorkulífeyris skv. 16. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og skal honum þá greiddur lífeyrir úr ríkissjóði sem nemur þeim réttindum til eftirlauna, sem hann hefur aflað sér, hlutfallslega eftir orkutapi, þó að frádregnum greiðslum skv. 2. mgr. 1. gr.

17. gr.

    Réttindaávinnsla samkvæmt lögum þessum helst meðan biðlaun eru greidd, enda séu þau helmingur fullra launa eða meira og iðgjöld greidd af þeim.

18. gr.

    Enginn á rétt til eftirlauna samkvæmt lögum þessum meðan hann gegnir starfi sem lögin taka til eða fær biðlaun fyrir það. Sama gildir þótt eftirlaunin séu greidd samkvæmt eldri lögum, sbr. 1. mgr. 22. gr.

19. gr.

    Nú tekur sá sem nýtur eftirlauna samkvæmt lögum þessum við nýju starfi og skerðast þá eftirlaunagreiðslur til hans fram að 65 ára aldri um sem nemur 0,5% af áunnum rétti fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem vantar á 65 ára aldur frá því að við starfi er tekið. Sama skerðing verður á eftirlaunum þess sem er í starfi er hann öðlast rétt til eftirlauna samkvæmt lögum þessum. Skerðing greiðslna samkvæmt þessari grein fellur þó niður þegar látið er af starfi.

20. gr.

    Sá sem hefur öðlast rétt til eftirlauna samkvæmt lögum þessum skal leita eftir útreikningi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á réttindahlutfalli sínu. Sjóðurinn sendir fjármálaráðuneyti niðurstöðuna. Verði ágreiningur má skjóta honum til þriggja manna nefndar. Forseti Alþingis, fjármálaráðherra og forseti Hæstaréttar tilnefna einn mann hver í nefndina.
    Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laganna og fyrirkomulag greiðslna úr ríkissjóði og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    

VII. KAFLI
Gildistaka, brottfall laga, lagaskil o.fl.
21. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Jafnframt falla úr gildi eftirfarandi lög og lagaákvæði:
     a.      Lög um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965, með síðari breytingum.
     b.      Lög um eftirlaun ráðherra, nr. 47/1965, með síðari breytingum.
     c.      5. og 6. gr. laga um laun forseta Íslands, nr. 10/1990.
     d.      9. og 10. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
     e.      Lög nr. 92/1955, um laun starfsmanna ríkisins.

22. gr.

    Lög þessi taka til þeirra er rétt eiga í alþingismanna- og ráðherradeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eigi hafa þegar hafið töku lífeyris við gildistöku laganna. Nú hefur maður þegar öðlast betri rétt samkvæmt eldri lögum og getur hann þá tekið eftirlaun eða makalífeyri samkvæmt þeim. Eldri lög geta þó eigi gilt um þá alþingismenn sem voru kosnir til Alþingis í fyrsta sinn 10. maí 2003.
    Eftirlaun alþingismanna og ráðherra, sem ákvörðuð hafa verið samkvæmt eldri lögum eða verða ákvörðuð síðar samkvæmt þeim lögum, skulu greidd úr ríkissjóði frá gildistöku þessara laga. Sama gildir um makalífeyri, örorkulífeyri og barnalífeyri sem byggður er á eldri lögum. Eignir alþingismanna- og ráðherradeildar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins renna í ríkissjóð.
    Hæstaréttardómurum, sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við gildistöku laga þessara, er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr., að greiða iðgjald til þeirrar deildar meðan þeir eru í starfi, enda fer þá um réttindi þeirra, maka þeirra og barna samkvæmt reglum deildarinnar.

23. gr.
Breyting á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna
og þingfararkostnað, með síðari breytingum.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, með síðari breytingum:
     a.      3. gr. laganna orðast svo:
                  Varaforsetar Alþingis fá greitt 20% álag á þingfararkaup.
                  Þeir alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, fá greitt 50% álag á þingfararkaup.
                  Formenn þingnefnda, sbr. 13. gr. þingskapa, og formenn þingflokka fá greitt 20% álag á þingfararkaup. Enn fremur er heimilt að greiða formanni sérnefndar, sbr. 32. gr. þingskapa, svo og varaformanni fastanefndar, sambærilegt álag eða hluta þess ef sérstök ástæða er til. Enginn getur fengið nema eina álagsgreiðslu samkvæmt þessari málsgrein.
     b.      5. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra á rétt til greiðslna samkvæmt lögum þessum nema skv. 7. gr. og 1. mgr. 9. gr.
                  Ráðherra á rétt á biðlaunum úr ríkissjóði er hann lætur af embætti. Biðlaun jafnhá ráðherralaunum eru þá greidd í þrjá mánuði. Eftir ráðherrastörf í samfellt eitt ár eða lengur eru greidd biðlaun í sex mánuði. Ákvæði 2. mgr. 13. gr. gilda um biðlaunagreiðslur samkvæmt þessari grein.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er steypt saman í einn bálk lagaákvæðum um eftirlaun æðstu handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Jafnframt er gerð sú grundvallarbreyting að eftirlaunagreiðslur fyrir þessi æðstu störf í þjóðfélaginu komi beint úr ríkissjóði í stað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins og verið hefur. Samhliða eru svo gerðar nokkrar lagfæringar og sett nýmæli um þessi réttindi, auk þess sem iðgjaldahlutfallið er hækkað.
    Um eftirlaun forseta Íslands eru ákvæði í lögum frá 1990, lögum um laun forseta Íslands. Sérstök lög gilda nú um eftirlaun alþingismanna og ráðherra, að stofni til frá 1965, en þeim var breytt allnokkuð 1982. Engin sérstök lagaákvæði eru um eftirlaun hæstaréttardómara, en þó er að þeim vikið í 31. gr. dómstólalaga, nr. 15/1998.
    Þegar gerðar voru breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna með lögum nr. 141/ 1996 (endurútgefin sem lög nr. 1/1997) komu fram hugmyndir um að breyta ætti jafnframt lífeyrisréttindum alþingismanna og ráðherra. Töldu þá margir að rétt væri að gera samsvarandi breytingar á eftirlaunarétti alþingismanna og ráðherra og er að finna í nýrri A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Ljóst er að alþingismanna- og ráðherradeildir innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins standa ekki undir þeim skuldbindingum sem þær bera með núverandi iðgjaldafyrirkomulagi. Virðist ekki gerlegt að gera þar breytingu á nema með miklu framlagi ríkissjóðs og stórhækkuðu iðgjaldahlutfalli. Raunar er vafasamt að tala um „deildirnar“ sem sérstaka lífeyris- eða eftirlaunasjóði heldur er hér í raun og veru um hreint gegnumstreymi úr ríkissjóði að ræða. Því hefur það sjónarmið verið lagt til grundvallar í frumvarpi þessu að falla frá sjóðmyndun um eftirlaunaskuldbindingar fyrir alþingismenn og ráðherra, svo og aðra sem lög þessi taka til, en taka þess í stað upp gegnumstreymiskerfi. Slíkt kerfi gildir nú um forseta Íslands og einnig hæstaréttardómara. Því þykir fara vel á því að fella saman í einn lagabálk eftirlaunakerfi fyrir þessa æðstu handhafa ríkisvalds, forseta, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara.
    Breytingin byggist á því að árlegar greiðslur eftirlauna komi úr ríkissjóði í stað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Eftirlaunadeildir alþingismanna og ráðherra innan LSR verði lagðar niður og árlegar greiðslur til fyrrverandi alþingismanna og ráðherra, sem komið hafa úr þeim sjóði, færðar yfir á ríkissjóð. Forseti Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómarar greiði af launum sínum eins og aðrir launþegar í A-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og myndi þar almennan lífeyrisrétt samkvæmt lögum um sjóðinn og koma greiðslur samkvæmt þeim lögum til frádráttar greiðslum ríkissjóðs.
    Í ljósi þess að réttur samkvæmt frumvarpinu til lífeyrisgreiðslna er nokkru betri en almennt tíðkast er iðgjaldahlutfallið hækkað frá því sem nú er, úr 4% af föstum launum í 5% af heildarlaunum.
    Samhliða þessari skipulagsbreytingu á greiðslu eftirlauna eru gerðar nokkrar lagfæringar á eftirlaunaréttindum, m.a. til einföldunar. Slíkar efnisbreytingar er þessar helstar:
     a.      Réttindaávinnsla alþingismanna verður jöfn á hverju þingári, 3%, en ekki breytileg frá 1,7% upp í 5% eins og nú er. Hámark, 70%, er óbreytt.
     b.      Réttindaávinnsla ráðherra er óbreytt, 6% á hverju ári í embætti, en hámark er fært til samræmis við rétt þingmanna, þ.e. í 70%, í stað 50% eins og nú er.
     c.      Almennur lífeyrisaldur fyrir alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara er óbreyttur, 65 ár. Sérregla hefur gilt um alþingismenn sem eru að hætta á þingi, þ.e. 61 árs aldur. Það aldursmark er lækkað um eitt ár og látið gilda líka um ráðherra sem þá láta af störfum.
     d.      Hin svokallaða „95-ára-regla“ fyrir alþingismenn er afnumin enda hefur hún lítið gildi eftir þær breytingar sem frumvarpið kveður á um.
     e.      Myndaður er sérstakur réttur fyrir alþingismenn og ráðherra, sem gegnt hafa forustuhlutverki í stjórnmálum um langan tíma, til að hverfa af vettvangi þjóðmála og fara á eftirlaun fyrr en annars er heimilt í stað þess að leita sér starfs á vinnumarkaði. Eru mörkin sett við alþingismenn sem setið hafa 16 ár hið minnsta á Alþingi og ráðherra sem gegnt hafa embætti í a.m.k. sex ár. Ljóst er að um tiltölulega fáa einstaklinga er að ræða miðað við þann fjölda sem nýtur lífeyrisgreiðslna. Jafnframt eru sett ákvæði sem skerða þessar greiðslur fram að 65 ára aldri ef sá sem þeirra nýtur tekur við öðru starfi. Er m.a. haft í huga að þessi skipan mála geti auðveldað eðlilega endurnýjun í stjórnmálum og dregið úr þeirri tilhneigingu að fyrrverandi forustumenn á þeim vettvangi sæki í embætti í stjórnkerfinu til þess að ljúka starfsferli á viðunandi hátt.
     f.      Sett eru sérákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Réttindaávinnsla og hlutfall verður hið sama og hjá forseta Íslands en fyrirkomulag eftirlaunaréttarins verður að öðru leyti svipað og hjá öðrum ráðherrum.
     g.      Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995, í því skyni að jafna aðstöðu formanna stjórnmálaflokkanna þannig að þeir formenn, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, hafi álag á þingfararkaup, 50%. Ráðherralaun, sem leggjast við þingfararkaup, eru tæp 80% af þingfararkaupinu. Formenn þingflokka, varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda fá nú samkvæmt gildandi lögum 15% álag á þingfararkaupið, en samkvæmt frumvarpinu hækkar það í 20%.
     h.      Sett eru almenn ákvæði um eftirlaunarétt hæstaréttardómara. Þau fela m.a. í sér rétt fyrir dómara, sem gegnt hafa störfum í Hæstarétti í a.m.k. tólf ár, til að komast á eftirlaun nokkru fyrr en áður hefur verið tíðkað. Flestir dómarar Hæstaréttar hafa fram að þessu setið í dómnum fram yfir 65 ára aldur og hafa þá fengið lausn frá störfum „án óskar“ eins og það er orðað í dómstólalögum og haldið fullum embættislaunum til æviloka samkvæmt túlkun á 61. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu frumvarpi er ekki hróflað við þeirri framkvæmd heldur tekur það til þeirra dómara sem ekki njóta hennar.
    Eftirlaunaréttur þeirra sem lög þessi taka til, forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, er nú rýmri en almennt tíðkast. Á það sér þá skýringu að þetta eru æðstu opinber embætti og störf í þjóðfélaginu og vandasöm eftir því. Forseti Íslands og alþingismenn þiggja umboð sitt til starfa beint frá þjóðinni í almennum kosningum og sækja endurnýjun þess á a.m.k. fjögurra ára fresti. Sama gildir í raun og veru um ráðherra. Það er því lýðræðisleg nauðsyn að svo sé búið að þessum embættum og störfum að það hvetji til þátttöku í stjórnmálum og að þeir sem verja meginhluta starfsævi sinnar til stjórnmálastarfa á opinberum vettvangi og gegna þar trúnaðar- og forustustörfum geti dregið sig í hlé og vikið fyrir yngra fólki án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni. Það er líka mikilsvert í lýðræðisþjóðfélagi að ungt efnisfólk gefi kost á sér til stjórnmálastarfa og þurfi ekki að tefla hag sínum í tvísýnu með því þótt um tíma bjóðist betur launuð störf á vinnumarkaði. Á þessum sjónarmiðum er það fyrirkomulag lífeyrisréttinda stjórnmálamanna byggt sem nú er í gildi. Svo virðist sem starfstími manna í stjórnmálum sé að styttast eftir því sem samfélagið verður opnara og margþættara og fjölmiðlun meiri og skarpari. Við því er eðlilegt að bregðast, m.a. með því gera þeim sem lengi hafa verið í forustustörfum í stjórnmálum kleift að hverfa af vettvangi með sæmilega örugga afkomu og án þess að þeir þurfi að leita nýrra starfa seint á starfsævinni.
    Frumvarp þetta er að nokkru leyti byggt á því fyrirkomulagi sem viðhaft er í nágrannalöndum, þeim ríkjum sem næst okkur standa að stjórnmálahefðum og stjórnskipan. Á það einkum við um möguleika stjórnmálamanna til að hverfa af þingi eða úr ríkisstjórn eftir langan feril. Skipan eftirlaunamála stjórnmálamanna er þó mismunandi í þessum löndum. Í Svíþjóð og Noregi ná þingmenn t.d. fullum réttindum eftir tólf ára þingsetu (þrjú kjörtímabil), ráðherrar eftir sex ár. Aðallega er þó höfð hliðsjón af því skipulagi sem gildir í Þýskalandi. Almennt aldursmark eftirlauna þingmanna þar er 65 ár en lækkar um þann tíma sem þingseta er umfram átta ár en verður þó aldrei lægra en 55 ár. Ráðherrar, sem setið hafa a.m.k. þrjú ár, geta lækkað útgreiðsluár eftirlauna niður í 55 ár.
    Samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds og LSR voru eftirlaunagreiðslur til þeirra sem falla undir ákvæði þessa frumvarps um 300 millj. kr. á árinu 2002. Skiptust þær þannig að til fyrrverandi forseta og maka forseta voru greiddar 21,6 millj. kr., til fyrrverandi ráðherra 30 millj. kr., til fyrrverandi alþingismanna 196 millj. kr. og til fyrrverandi hæstaréttardómara 52,4 millj. kr. Greiðslum til fyrrverandi ráðherra og alþingismanna úr LSR var mætt með jafnháu framlagi úr ríkissjóði en iðgjöld voru notuð til eignamyndunar. Ljóst er því að engin breyting verður á greiðslum úr ríkissjóði við þá breytingu sem frumvarpið felur í sér. Framlag ríkissjóðs til LSR lækkar sem nemur þeim greiðslum sem nú munu falla beint á ríkissjóð. Breytingar sem í frumvarpinu felast munu því koma fram á löngum tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og fram kemur í almennum inngangi greinargerðarinnar verða „deildir“ fyrir alþingismenn og ráðherra í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins lagðar niður með frumvarpi þessu en eftirlaunagreiðslur til þeirra, auk forseta Íslands og hæstaréttardómara, framvegis greiddar beint úr ríkissjóði. Eðlilegt þykir að þeir sem njóta réttar samkvæmt lögum þessum greiði hærra iðgjald til lífeyrissjóðsins en aðrir launþegar því að réttur þeirra er betri. Er iðgjaldahlutfallið ákveðið 5% en meginregla í LSR er 4%. Mótframlag ríkissjóðs er hins vegar hið sama og gildir almennt um A-deild LSR, nú 11,5%. Með iðgjaldagreiðslum þessum stofnast réttindi í A-deildinni og þegar til lífeyrisgreiðslna kemur koma þær greiðslur til frádráttar eftirlaunum úr ríkissjóði. Þar sem iðgjald launþega (sjóðfélaga) verður hærra en ákveðið er í 2. mgr. 13. gr. laga um LSR, þ.e. 5% í stað hins almenna iðgjalds sem er 4%, þyrfti að breyta samþykktum A-deildar LSR, sbr. heimild til þess í 6. mgr. 13. gr. laga um sjóðinn, svo að viðbótariðgjaldið nýtist til ávinnslu réttinda samkvæmt reglum sjóðsins.
    Iðgjöld eru miðuð við heildarlaun eins og meginregla er í A-deild LSR. Það felur í sér einingar og álag á föst laun og aðrar greiðslur, sem teljast til launa, verða stofn iðgjaldagreiðslu.
    Iðgjaldagreiðslur ríkissjóðs (mótframlag) til LSR samkvæmt þessu frumvarpi verða nokkru hærri en er í lögum um eftirlaun ráðherra og alþingismanna, þ.e. 11,5% (eins og þær eru nú) í stað 6%. Ekki verður þó raunbreyting því að ríkið hefur, a.m.k. fyrir alþingismenn og ráðherra, greitt sama mótframlag til LSR fyrir B-deildarmenn og þá sem eru í A-deild, þ.e. 11,5%.
    Forseti Íslands hefur ekki greitt í lífeyrissjóð, og ekki hefur verið greitt mótframlag fyrir hann, en breyting verður þar á samkvæmt frumvarpinu. Sú skipan kemst þó ekki á fyrr en með nýju kjörtímabili forseta, sbr. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrár.
    Hæstaréttardómarar, sem nú eru í embætti, greiða ýmist í A- eða B-deild LSR. Í 3. mgr. 22. gr. frumvarpsins er ákvæði um að þeir dómarar sem nú greiða í B-deild LSR geti greitt iðgjald þangað áfram meðan þeir eru í starfi.
    Eins og getið er um í almennum inngangi greinargerðarinnar skapa iðgjaldagreiðslur samkvæmt frumvarpi þessu almennan rétt í A-deild LSR, þ.e. til ellilífeyris, makalífeyris og örorkulífeyris. Það er meginstefna frumvarpsins að tryggja æðstu handhöfum hinna þriggja greina ríkisvaldsins viss lágmarksréttindi til eftirlauna en sú trygging kemur aðeins til viðbótar þeim réttindum sem ávinnast með iðgjaldagreiðslum samkvæmt frumvarpinu. Því gildir sú regla, eins og kveðið er á um í síðari málslið 2. mgr. greinarinnar, að lífeyrir úr A-deild LSR kemur til frádráttar þeim greiðslum sem ella falla á ríkissjóð. Það eru þó aðeins þær greiðslur úr A-deild sem byggjast á iðgjaldagreiðslu og réttindaávinnslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins sem koma til frádráttar en ekki aðrar lífeyrisgreiðslur sem menn kunna að eiga rétt á úr A-deildinni fyrir önnur störf.

Um 2. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 5. gr. laga um laun forseta Íslands, nr. 10/ 1990, með smávægilegum orðalagsbreytingum, en í gildistökuákvæði þessa frumvarps er jafnframt lagt til að sú grein þeirra laga falli brott. Í 3. mgr. 5. gr. gildandi laga um laun forseta Íslands er ákvæði um skerðingu eftirlaunagreiðslna ef fyrrverandi forseti tekur við annarri stöðu í þjónustu ríkisins. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði enn og þykir raunar ósennilegt að svo verði. Í því falli ættu þá við ákvæði 19. gr. frumvarpsins sem skerða eftirlaunagreiðslur við vissar aðstæður.
    Rétt er að vekja athygli á að eftirlaunaréttur fyrrverandi forseta Íslands og maka fyrrverandi forseta er talsvert hagstæðari eftir breytingar sem urðu á skattameðferð launa hans og nýrri launaákvörðun Kjaradóms fyrir forseta í framhaldi af því, sbr. lög nr. 84/2000, um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands. Miðast eftirlaun nú við talsvert hærri laun en áður var.

Um 3. gr.


    1. mgr. greinarinnar er efnislega samhljóða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/1990, um laun forseta Íslands, með þeirri breytingu þó að hún á aðeins við um maka forseta sem er í starfi er hann fellur frá. Um rétt maka fyrrverandi forseta, sem fær eftirlaun samkvæmt þessum lögum, er fjallað í 2. mgr. greinarinnar. Rétturinn fer þá eftir almennu ákvæði í 16. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr., þ.e. makinn fær helming eftirlauna, að frádregnum makalífeyri úr A-deild LSR meðan hann er greiddur. Það er ekki efnisbreyting frá gildandi ákvæðum.
    Í greininni er sérákvæði um þann rétt maka forseta Íslands sem fellur frá í starfi að njóta óskertra launa hans í sex mánuði, og er það óbreytt frá gildandi lögum.
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um laun forseta Íslands, sem fjallar um skerðingu greiðslna til maka fyrrverandi forseta ef hann tekur við nýju starfi, er fellt brott og eiga þá ákvæði 18. og 19. gr. frumvarpsins við ef svo er.

Um 4. gr.


    Eftir gildandi lögum (2. og 3. gr. laga nr. 47/1965) eiga ráðherrar fyrst rétt til eftirlauna er þeir verða 65 ára, enda hafi þeir gegnt embætti í a.m.k. eitt ár. Samkvæmt frumvarpinu er réttur fyrrverandi ráðherra til eftirlauna rýmkaður nokkuð. Sem fyrr er haldið því almenna skilyrði að fyrrverandi ráðherra verði að vera 65 ára þegar hann tekur eftirlaun, sbr. 1. tölul. greinarinnar. Í 2. tölul. er þetta aldursmark hins vegar lækkað fyrir þá sem hverfa beint úr ráðherraembætti af vettvangi stjórnmála. Er það til samræmis við þá reglu sem gildir um alþingismenn, sbr. 8. gr.
    Loks er í 3. tölul. sérstakt ákvæði um þá fyrrverandi ráðherra sem hafa gegnt embætti í hálft annað kjörtímabil eða samtals í sex ár. Er það í samræmi við þá meginstefnu frumvarpsins að gera forustumönnum í þjóðmálum, eins og ráðherrar eru tvímælalaust, kleift að hverfa úr stjórnmálum eftir langan feril í forustusveit og stuðla þannig að eðlilegri endurnýjun. Hér er, eðli máls samkvæmt, aðeins um fáa forustumenn að tefla. Með ákvæðinu er opnuð leið fyrir slíka menn til að hætta stjórnmálaþátttöku nokkru fyrr en nú er, að lágmarki 55 ára, hafi þeir gegnt ráðherrastörfum í a.m.k. ellefu ár. Ráðherra sem gegnt hefur embætti í átta ár á þá slíkan rétt við 58 ára aldur. Þess er jafnframt að geta að fullum réttindum til eftirlauna nær ráðherra á tólfta embættisári samkvæmt frumvarpinu. Þegar réttur skv. 3. tölul. stofnast, þ.e. eftir sex ár í ráðherraembætti, verður hann að lágmarki fimm ár og aldursmarkið 60 ár. Með hliðsjón af 2. tölul. greinarinnar, þ.e. því ákvæði að ráðherra, sem lætur af embætti og er fullra 60 ára að aldri, á rétt til eftirlauna samkvæmt frumvarpinu, nýtist réttur eftir 3. tölul. einvörðungu ráðherra, sem vill hverfa beint úr embætti og taka eftirlaun fyrir sextugsaldur, hafi hann setið í embætti meira en sex ár.
    Réttindi skv. 3. tölul. eru ekki háð því að fyrrverandi ráðherra hverfi beint úr ráðherrastól á eftirlaun (eða biðlaun og eftirlaun) eins og skv. 2. tölul. Þannig getur fyrrverandi ráðherra, sem gegnt hefur embætti samtals í sex ár, t.d. átt sæti á Alþingi nokkurn tíma eftir að ráðherradómi hans lýkur þar til réttur hans til eftirlauna samkvæmt þessum tölulið verður virkur eða hann kýs að nýta sér þennan rétt.

Um 5. gr.


    Í greininni eru almenn ákvæði um réttindaávinnslu ráðherra. Er hún hin sama og í gildandi lögum, þ.e. 6% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári. Í gildandi lögum eru hins vegar tvenns konar skilyrði og er þeim báðum breytt í frumvarpinu. Hið fyrra er að ráðherra þarf nú að hafa setið í eitt ár í embætti til þess að öðlast rétt til eftirlauna, en það ákvæði þykir óeðlilegt. Hið síðara er að nú er hámark eftirlauna 50%, þ.e. annað og talsvert lægra en fyrir önnur störf. Þykir því eðlilegra að hámarkið verði hið sama og fyrir þingsetu, þ.e. 70%. Núverandi hámarki ná ráðherrar eftir átta ára embættistíma (sé biðlaunatími talinn með), en samkvæmt frumvarpinu yrði það rúm ellefu ár, þ.e. nærri því þrjú kjörtímabil. Þess eru ýmis dæmi að ráðherrar greiði í lífeyrissjóð, jafnvel um árabil, samkvæmt núgildandi lögum án þess að auka réttindi sín.
    Þess er rétt að geta að ráðherralaun eru talsvert lægri en þingfararkaup og eru aðeins um 45% af heildarlaunum ráðherra, en hann nýtur í starfi sínu jafnframt þingfararkaups.
    Óbreytt er frá gildandi lögum að eftirlaunaréttur verður ekki virkur fyrr en að loknum þeim tíma sem fyrrverandi ráðherra nýtur biðlauna, nú skv. 29. gr. laga nr. 92/1955, um laun starfsmanna ríkisins, eða þingfararkaups og biðlauna fyrir þingsetu samkvæmt lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Fyrrverandi ráðherra sem situr sem þingmaður eftir að hann lætur af ráðherrastörfum á því ekki rétt til eftirlauna fyrr en störfum hans á þingi lýkur.

Um 6. gr.


    Í greininni er sérregla um fyrrverandi forsætisráðherra. Samkvæmt henni njóta þeir réttinda í sama hlutfalli og gildir um réttindaávinnslu forseta Íslands, sbr. 2. gr. Forsætisráðherra er á hverjum tíma hinn pólitíski leiðtogi þjóðarinnar og fer með valdamesta embætti landsins. Því þykir eðlilegt að um hann gildi sérregla sem sé nokkru hagstæðari en fyrir aðra ráðherra. Eftirlaun verða 60% af heildarlaunum forsætisráðherra, þ.e. ráðherralaunum og þingfararkaupi, eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi hverju sinni. Ef fyrrverandi forsætisráðherra hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil, þ.e. lengur en fjögur ár, verða eftirlaunin 70% og 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil (lengur en átta ár). Er það hámark eftirlaunaréttar samkvæmt þessari grein.
    Það er þó skilyrði réttar samkvæmt greininni að forsætisráðherra hafi setið í embætti í a.m.k. eitt ár. Ekki þykir ástæða til að maður, sem aðeins hefur gegnt embættinu í stuttan tíma, e.t.v. frá afsögn ríkisstjórnar fram yfir kosningar eins og dæmi eru um, öðlist rétt til þeirra eftirlauna sem felast í greininni.
    Stjórnmálamenn geta á ferli sínum orðið forsætisráðherrar oftar en einu sinni og því þykir eðlilegt að heimila þeim að leggja saman starfstíma sinn í embætti, enda sé þá deilt í þann tíma, talinn í árum, með fjórum þannig að fá megi út kjörtímabil. Kjörtímabil í þingkosningum eru óreglulegri en þegar kosið er til forsetaembættisins, auk þess sem stjórnarskipti geta orðið á kjörtímabili, og því þykir hagkvæmast að miða rétt samkvæmt þessari grein við samtals fjögur ár í embætti.
    Svo getur átt við um fyrrverandi forsætisráðherra að hann hafi auk þess að veita ríkisstjórn forustu setið sem ráðherra í ríkisstjórnum annarra. Þykir eðlilegt að þeir sem annars eiga rétt samkvæmt þessari grein geti notið þeirra ráðherrastarfa að einhverju leyti kjósi þeir að fá eftirlaun sem fyrrverandi forsætisráðherrar. Er hér miðað við að í samanlagðan ráðherratíma í árum talinn, annan en sem forsætisráðherra, megi deila með þremur og bæta útkomunni við þann tíma sem hann hefur gegnt forsætisráðherraembætti. Hafi fyrrverandi forsætisráðherra, svo dæmi sé tekið, gegnt embætti tvívegis, í fyrra sinn í þrjú ár og hið síðara í tvö ár, en auk þess gegnt öðrum ráðherrastörfum í sex ár, þ.e. samtals verið ráðherra í ellefu ár, á hann rétt til eftirlauna samkvæmt þessari grein fyrir sjö ár (meira en eitt fjögurra ára kjörtímabil en minna en tvö) eða til 70% eftirlauna.
    Í lokamálsgrein segir að ákvæði 4. gr. gildi um rétt fyrrverandi forsætisráðherra samkvæmt greininni, en í því felst að hann getur nýtt sér ákvæði þeirrar greinar til að taka eftirlaun fyrir 65 ára aldur. Í því dæmi sem tekið var hér að framan gætu réttindi orðið virk við 55 ára aldur (ellefu ára ráðherrastörf, þ.e. tíu ára lækkun frá 65 ára aldursmarkinu). Enn fremur er í málsgreininni ákvæði til áréttingar um að réttur fyrrverandi forsætisráðherra samkvæmt þessari grein komi í stað þess réttar sem hann kann að eiga fyrir ráðherrastörf, sbr. 5. gr., eða fyrir þingmennsku, sbr. IV. kafla.

Um 7. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli. Í því felst að hafi fyrrverandi ráðherra öðlast rétt til eftirlauna skv. III. kafla laganna, og hyggist hann hverfa af vettvangi stjórnmála, á hann jafnframt rétt til þess að gera virk réttindi sín til eftirlauna fyrir þingmennsku. Á þetta hefur ekki reynt áður því að fyrrverandi ráðherrar hafa ekki átt rétt til eftirlauna fyrir 65 ára aldur, en þá var jafnframt öllum aldursskilyrðum fullnægt til að fá jafnframt eftirlaun sem þingmaður. Hafi ráðherra, svo að dæmi sé tekið, gegnt embætti í átta ár, þingmennsku í tólf ár og sé jafnframt 58 ára að aldri á hann rétt til eftirlauna sem ráðherra en ekki sjálfstæðan rétt til eftirlauna sem þingmaður skv. 8. gr. hyggist hann hverfa úr stjórnmálum. Hann gæti þurft að bíða þeirra eftirlauna í sjö ár, fram til 65 ára aldurs. Með þessari grein fær stjórnmálamaðurinn, sem þannig vill hverfa af vettvangi, hins vegar rétt til að nýta jafnframt réttindi sín til eftirlauna sem þingmaður og þar með þau réttindi sem hann hefur aflað sér á stjórnmálaferli sínum á Alþingi. Þykir eðlilegt að þetta geti farið saman. Sambærilegt ákvæði er í 13. gr. frumvarpsins um þá sem eiga almennan rétt til eftirlauna sem þingmenn en ekki sem ráðherrar.

Um 8. gr.


    Grein þessi er nokkuð breytt frá 2. gr. gildandi laga um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965. Áfram er þó byggt á þeirri meginreglu að það sé almennt skilyrði að eftirlaunaréttur stofnist við 65 ára aldur. Í gildandi lögum er svo ákvæði um að alþingismaður, sem er a.m.k. 61 árs gamall, eigi rétt til eftirlauna þegar hann lætur af þingmennsku, „enda verði hann 65 ára innan 4 ára frá því þingmennsku hans lýkur“. Þessu ákvæði er haldið efnislega í frumvarpinu, þó þannig að aldursmarkið er lækkað um eitt ár, niður í 60 ár. Jafnframt er afnumin hin svokallaða „95-ára-regla“. Í henni felst að fyrrverandi þingmaður, sem orðinn er 60 ára, á rétt á eftirlaunum ef samanlagður aldur hans og tvöfaldur sá tími sem hann hefur setið samtals á þingi nær 95 árum. Þetta merkir í raun að fyrrverandi þingmaður öðlast eftirlaunarétt við 60 ára aldur hafi hann setið í a.m.k. 17½ ár á þingi. Við lækkun aldursmarks skv. 2. tölul. 8. gr. frumvarpsins, svo og vegna nýrra ákvæða í 3. tölul., þykir þessi regla ekki hafa raunhæft gildi lengur.
    Í 3. tölul. eru nýmæli um þingmenn, hliðstæð þeim sem eru í 3. tölul. 4. gr. og gilda um ráðherra. Þar er þeim fyrrverandi alþingismönnum sem setið hafa á Alþingi samtals 16 ár eða lengur, fjögur kjörtímabil eða lengur, gefinn kostur á að hverfa af vettvangi stjórnmála án þess að leita sér nýrra starfa og fá greidd eftirlaun nokkru fyrr en áður hefur tíðkast. Meginröksemdin að baki þessu ákvæði er að stuðlað verði að hóflegri endurnýjun í stjórnmálum þannig að þeir sem varið hafa drjúgum hluta ævi sinnar til stjórnmálastarfa geti horfið af vettvangi og búið við fjárhagslegt öryggi að einhverju marki, en þurfi ekki að lengja þingsetu sína fram yfir það aldursmark sem nú dugar til eftirlaunaréttinda. Þá má nefna að það er reynsla sumra þingmanna sem hætta á Alþingi eftir langa setu þar og slík áberandi störf í þjóðfélaginu að erfitt getur verið fyrir þá að fá vinnu á almennum vinnumarkaði, m.a. vegna þess að þeir séu ekki taldir „heppilegir“ starfsmenn. Jafnframt hafa fyrrverandi alþingismenn, sem fengið hafa góð störf að lokinni þingmennsku, oft sætt ámæli og verið talið að þeir nytu stjórnmálastarfa sinna á óeðlilegan hátt.
    Ákvæðið tekur aðeins til þeirra sem setið hafa samtals 16 ár á þingi. Þingseta þarf ekki að vera samfelld. Þá má lækka hið almenna aldursmark eftirlauna, þ.e. 65 ára markið, um fimm ár og síðan til viðbótar um sem svarar einu ári fyrir hver tvö ár á þingi umfram 16 ár og samsvarandi fyrir hluta úr ári. Lækkunin verður aldrei meiri en tíu ár og aldursmarkið því aldrei lægra en 55 ár. Hafi alþingismaður t.d. setið á þingi í 18 ár á hann samkvæmt frumvarpinu rétt á því, láti hann af þingmennsku, að taka eftirlaun sé hann a.m.k. 59 ára að aldri. Þegar réttur samkvæmt þessum tölulið stofnast, þ.e. eftir 16 ára þingmennsku, verður hann að lágmarki fimm ár og aldursmarkið 60 ár. Með hliðsjón af 2. tölul. greinarinnar, þ.e. því ákvæði að alþingismaður, sem lætur af þingmennsku og er fullra 60 ára að aldri, á rétt til eftirlauna samkvæmt frumvarpinu, nýtist réttur eftir 3. tölul. þeim alþingismanni, sem vill hverfa beint af þingi og taka eftirlaun, fyrst eftir meira en 16 ára þingsetu. Hámarksréttur samkvæmt þessum tölulið fæst eftir 26 ára þingsetu, rúmum tveimur árum eftir að hæsta eftirlaunahlutfalli, 70%, er náð. Gæti það því nýst þeim þingmönnum til fulls sem sætu samfellt á þingi frá 29 ára aldri. Þeir eru hins vegar sárafáir í sögu Alþingis til þessa. Ákvæði þessa töluliðar mun því aðeins taka til fárra alþingismanna, þeirra sem lengst hafa átt sæti á Alþingi og að jafnaði valist til forustustarfa. Nú sem stendur hafa aðeins níu þingmenn átt sæti á Alþingi í 16 ár eða lengur. Af þeim alþingismönnum sem hafa verið kosnir nýir til Alþingis síðustu 50 ár (frá kosningunum 1953) hafa 57 setið samtals lengur en 16 ár á þingi, en aðeins hluti þeirra, 17, hefur hætt þingmennsku fyrir sextugsaldur. Af þeim 17 hafa níu horfið þegar til annarra og hárra embætta (sendiherrar, forstjórar o.fl.).

Um 9. gr.


    Í greininni er réttindaávinnsla fyrrverandi þingmanna til eftirlauna samkvæmt lögunum ákveðin 3%, jöfn allan þingtímann. Er það breyting frá því sem er í gildandi lögum en þar er ávinnslan misjöfn, minnst fyrst, eykst mikið eftir fimm ár fram að níu ára þingsetu en minnkar svo aftur, fyrst fram að 15 ára þingsetu og enn meira fram að 21 árs þingsetu en hækkar þá aftur. Í eftirfarandi töflu er samanburður á gildandi lögum og 9. gr. frumvarpsins:

Gildandi lög Samtals Frumvarpið Samtals
1.–5. ár: 2,0% 10% 1.–5. ár: 3% 15%
6.–9. ár: 5,0% 30% 6.–9. ár: 3% 27%
10.–12. ár: 3,3% 40% 10.–12. ár: 3% 36%
13.–15. ár: 3,3% 50% 13.–15. ár: 3% 45%
16.–18. ár: 1,7% 55% 16.–18. ár: 3% 54%
19.–21. ár: 1,7% 60% 19.–21. ár: 3% 63%
22.–26. ár: 2,0% 70% 22.–24. ár: 3% 70%

    Réttindaávinnsla samkvæmt frumvarpinu er í samræmi við það sem almennt tíðkast nú í lífeyriskerfinu, þ.e. jöfn allan tímann. Prósentan er hærri en hjá LSR sem helgast af sérstöðu hinna þjóðkjörnu fulltrúa. Líklegt er að réttindaávinnsla samkvæmt gildandi lögum taki mark af því hvernig umhorfs var í lífeyriskerfinu á þeim tíma sem lögin voru sett, þ.e. 1965, og við endurskoðun þeirra 1982. Á þeim tíma voru aðrir en opinberir starfsmenn með veika lífeyrisstöðu, t.d. sjálfstæðir atvinnurekendur, bændur og konur. Vera má að það sjónarmið hafi legið til grundvallar að lyfta þyrfti þeim sem komu inn á Alþingi yfir miðjan aldur og áttu þar sæti tvö eða þrjú kjörtímabil. Skipulag lífeyriskerfisins er nú gerbreytt og öllum á vinnumarkaði er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði. Því er sá vandi sem menn vildu leysa með gildandi ávinnslukerfi að mestu úr sögunni. Nú öðlast allir réttindi til lífeyris um leið og þeir hefja störf á vinnumarkaði og halda áfram að bæta við sig réttindum þar til starfsævi lýkur.
    Ávinnsla samkvæmt frumvarpinu er betri fyrstu árin en nokkru lakari eftir u.þ.b. tvö full kjörtímabil, átta ár. Mestu munar eftir 15 ár, 5%, en síðan minnkar munurinn og jafnast eftir 18 ár. Eftir það er ávinnslan hagstæðari samkvæmt frumvarpinu.
    Eins og fram kemur í 3. mgr. er hámark eftirlaunaréttar 70% og er það óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 4. mgr. er ákvæði um að álagsgreiðslur þær sem þingmenn fá skv. 3. gr. laga um þingfararkaup og þingfararkostnað myndi viðbótarrétt fyrir þann tíma sem þær eru greiddar. Varaforsetar Alþingis, formenn þingflokka og formenn fastanefnda fá nú 15% álag á þingfararkaup samkvæmt þeim lögum, og varaformenn fjárlaga- og utanríkismálanefndar fá 10% álag samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar. Skv. a-lið 23. gr. frumvarpsins hækkar það álag í 20%. Eðlilegt þykir að þessar viðbótarlaunagreiðslur myndi rétt til eftirlauna, enda eru þær ætlaðar þeim þingmönnum sem gegna þýðingarmestu störfum Alþingis hverju sinni. Þannig eykst eftirlaunahlutfall þingmanns, sem gegnt hefur t.d. formennsku í nefnd í eitt kjörtímabil eða fjögur ár, um 0,6% fyrir hvert ár (þ.e. 20% af 3%) eða 2,4% fyrir kjörtímabilið.

Um 10. gr.


    Það er meginsjónarmið að baki réttindum til eftirlauna skv. III. og IV. kafla að styrkja beri rétt þeirra stjórnmálamanna sem verja drjúgum hluta starfsævi sinnar til þjóðmálastarfa. Ekki er talin þörf á því að veita þeim sem sest hafa á Alþingi um skamman tíma eða hafa setið þar einungis snemma á starfsævi sinni sérstök réttindi samkvæmt frumvarpinu. Þeir sem ljúka þingsetu fyrir fertugsaldur hljóta að fara á almennan vinnumarkað á ný og þá leggjast réttindi sem þeir hafa aflað sér meðan þeir sátu á Alþingi og greiddu iðgjald í A-deild LSR við önnur réttindi sem þeir eiga í lífeyrissjóðum við starfslok. Réttur til greiðslna úr ríkissjóði fellur niður gagnvart þeim sem svo er ástatt um og gildir það um ellilífeyri, makalífeyri og örorkulífeyri.

Um 11. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða lokamálsgrein 3. gr. gildandi laga um eftirlaun alþingismanna. Hún tryggir forseta Alþingis sömu eftirlaunakjör og ráðherrum eru búin skv. III. kafla laganna fyrir þann tíma sem hann gegnir embætti. Um eftirlaunarétt samkvæmt þessari grein fer því að öllu leyti eins og kveðið er á um í III. kafla. Þannig reiknast embættistími forseta með ráðherratíma hans þegar réttur hans, t.d. skv. 3. tölul. 4. gr. og 6. gr., er metinn.

Um 12. gr.


    Með greininni er utanþingsráðherra, þ.e. ráðherra sem ekki er jafnframt kjörinn alþingismaður, veittur réttur til eftirlauna eins og þingmenn almennt hafa fyrir þann tíma sem hann hefur setið í embætti sem slíkur. Þess eru raunar fá dæmi hér á landi að ráðherrar séu ekki einnig kjörnir alþingismenn — aðeins eru þrjú dæmi frá síðustu 50 árum um að skipaður hafi verið ráðherra sem ekki var jafnframt alþingismaður — gagnstætt því sem tíðkast t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Ekkert er því þó til fyrirstöðu hér samkvæmt stjórnskipaninni. Þvert á móti er ráð fyrir því gert í 51. gr. stjórnarskrárinnar að ráðherrar séu ekki allir jafnframt alþingismenn. Utanþingsráðherrar eiga auk ráðherralauna jafnframt rétt á þingfararkaupi, sbr. 5. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup og þingfararkostnað, svo sem eðlilegt er þar sem þeir hafa sömu skyldu til þingsóknar og aðrir ráðherrar og þingmenn. Laun ráðherra eru samsett, þ.e. sjálf ráðherralaunin og þingfararkaupið, og með þessari grein eru utanþingsráðherrum tryggð eftirlaun af öllum föstum launum sínum fyrir ráðherrastarfið.

Um 13. gr.


    Greinin er hliðstæð 7. gr. en snýr að rétti þingmanna, sem hverfa af þingi, til að gera samtímis virk réttindi sín til eftirlauna fyrir þingmennsku og ráðherrastörf ef um þau er líka að tefla. Allmörg dæmi eru um að alþingismenn, sem láta af þingmennsku og fara á eftirlaun, þurfi að bíða nokkur ár, allt að fjögur til fimm ár, eftir því að fá jafnframt eftirlaun sem ráðherrar, en réttur til þeirra hefur verið bundinn við 65 ár. Það þykir óeðlilegt þar sem þessi störf eru samtvinnuð og laun fyrir þau líka. Vilji stjórnmálamaður hætta og hverfa af þingi, og eigi hann rétt til eftirlauna sem alþingismaður, þykir eðlilegt að hann njóti allra þeirra réttinda sem hann hefur aflað sér á stjórnmálaferli sínum. Hafi þingmaður t.d. setið á Alþingi í 20 ár, verið ráðherra í fjögur ár og sé jafnframt 58 ára að aldri á hann samkvæmt þessari grein rétt til eftirlauna fyrir hvort tveggja, þingmennsku og ráðherrastörf. Ella yrði hann að bíða í sjö ár eftir að fá full eftirlaun fyrir stjórnmálastörf sín, þ.e. til 65 ára aldurs þegar ráðherraréttindin yrðu annars virk.

Um 14. gr.


    Greininni er ætlað að afmarka hugtakið „alþingismaður“ eins og það er notað í þessum lögum og er samhljóða fyrri málslið 2. mgr. 1. gr. gildandi laga um eftirlaun alþingismanna. Sú skilgreining var sett í lögin árið 1996 en þá hafði legið fyrir um nokkurt skeið að varaþingmenn, sem tóku sæti á Alþingi um stuttan tíma, hálfan mánuð eða svo, gátu með því skapað maka sínum 20% lífeyri eftir sinn dag, eða eins og réttindi alþingismanns sem setið hafði á Alþingi á sjöunda ár. Þetta var missmíði á lögunum hafi túlkun þessa ákvæðis verið rétt. Með breytingunni 1996 var girt fyrir þetta og nú er ljóst að með orðinu „alþingismaður“ (og „þingmaður“ eftir atvikum) er átt við þann sem tekið hefur fast sæti á Alþingi, verið kosinn þangað eða tekið þar fast sæti við afsögn aðalmanns eða andlát hans. Varaþingmenn teljast þá ekki alþingismenn í skilningi laganna, jafnvel þótt þingseta þeirra kunni að verða nokkuð löng.
    Í greininni segir að varaþingmenn skuli greiða af þingfararkaupi sínu í A-deild LSR og skapa sér þannig almennan rétt til lífeyris þar. Hins vegar er sú regla sett í 2. mgr. greinarinnar að verði varaþingmaður síðar aðalmaður geti hann bætt við réttindi sín þeim tíma sem hann sat á Alþingi sem varamaður. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur á undanförnum árum.

Um 15. gr.


    Í greininni eru sett hliðstæð ákvæði um hæstaréttardómara og eru í III. og IV. kafla frumvarpsins um ráðherra og alþingismenn. Aldursmark fyrir eftirlaun hæstaréttardómara er 65 ár en dómara, sem hefur verið við réttinn í a.m.k. tólf ár, er veitt heimild til að hverfa úr starfi 60 ára að aldri og fá þannig eftirlaun fyrr en almennt aldursmark segir, allt að tíu árum. Er þá miðað við embættisár umfram tólf ár. Fullur réttur að þessu leyti skapast því eftir 17 ára setu í Hæstarétti. Svo að dæmi sé tekið getur dómari, sem setið hefur í réttinum í 15 ár, hætt störfum og farið á eftirlaun enda sé hann 57 ára. Fullum réttindum næði því aðeins sá dómari sem skipaður hefði verið í réttinn 38 ára gamall eða yngri.
    Í greininni er réttindaávinnsla 6% fyrir hvert ár og hámark eftirlauna 80%. Það mark næst því á 14. embættisári. Eftirlaunin eru miðuð við „föst“ laun dómara eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi en ekki heildarlaun, þ.e. föst laun og aukagreiðslur. Er það til samræmis við sams konar ákvæði um alþingismenn og ráðherra.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hafa flestir dómarar við Hæstarétt setið þar fram yfir 65 ára aldur, en fengið þá lausn á grundvelli 61. gr. stjórnarskrárinnar og haldið fullum embættislaunum til æviloka. Í þeirri grein segir að „dómendum ... [verði] ekki vikið úr embætti nema með dómi“. Þó megi „veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar [skuli] eigi missa neins í af launum sínum“. Líklegt er, meðan þetta ákvæði er óbreytt, svo og túlkun þess og framkvæmd, að fáir dómarar nýti sér þann rétt sem þeim er veittur með þessari grein en um það verður þó ekkert fullyrt. Að baki greininni býr sú hugsun að starf hæstaréttardómara sé hliðstætt störfum ráðherra og alþingismanna að þjóðfélagslegu mikilvægi og því sé rétt að þeir njóti sömu réttinda og stjórnmálamenn að þessu leyti. Jafnframt sé mikilvægt að hófleg endurnýjun verði í réttinum. Þá geti skipt máli að reyndir dómarar geti helgað sig vísindum og fræðum í grein sinni áður en starfskraftar taka að dvína.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er tekið fram að þeir dómarar, sem fá lausn 65 ára eða eldri á grundvelli 61. gr. stjórnarskrárinnar, fái ekki eftirlaun úr ríkissjóði samkvæmt þessu frumvarpi, né heldur stofnist þá réttur til makalífeyris. Er það í samræmi við ákvæði í 8. mgr. 24. gr. laga um LSR, B-deild, en þar segir að þeir sem fá greidd óskert laun er þeir láta af störfum fái ekki jafnframt lífeyrisgreiðslur frá B-deildinni. Ákvæði þetta er að stofni til frá 1973. Sambærilegt ákvæði er þó ekki um A-deild LSR.

Um 16. gr.


    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins eiga eftirlifandi makar rétt til lífeyris, makalífeyris, við andlát þeirra sem lög þessi taka til eða eftirlaunaþega samkvæmt þeim. Fer þá um þær greiðslur eins og segir í 17. gr. laga um LSR (A-deild). Meginreglan er sú að maki nýtur fulls makalífeyris í þrjú ár og hálfs (50%) í tvö ár en þá fellur makalífeyrir niður nema við viss skilyrði (t.d. örorku, ef börn eru innan 22 ára aldurs o.s.frv.). Er þetta talsvert annað fyrirkomulag en nú gildir um alþingismenn og ráðherra og raunar aðra þá sem eiga aðild að B-deild LSR. Þar er makalífeyrisrétturinn helmingur af réttindum hins látna ævilangt og auk þess 20% hafi hinn látni verið í fullu starfi við starfslok.
    Sú þróun hefur orðið á makalífeyri að réttur til hans hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Eru hin nýju ákvæði í A-deild LSR (fyrir nýja sjóðfélaga) glöggt dæmi um það. Þessi þróun á sér skýringar í aukinni atvinnuþátttöku, einkum kvenna, samhliða þeirri skyldu manna að eiga aðild að lífeyrissjóði. Þannig hafa langflestir skapað sér sjálfstæðan lífeyrisrétt en eru ekki einvörðungu háðir tekjum maka eins og oft var áður fyrr. Á hitt ber að líta að makar stjórnmálamanna hafa nokkra sérstöðu. Þeir þurfa óhjákvæmilega að verja tíma til að taka þátt í opinberu lífi án þess að þiggja laun fyrir. Eins eru þess mörg dæmi að makar stjórnmálamanna, einkum ráðherra, dragi úr atvinnu til að sinna opinberum skyldum.
    Við þá breytingu að makalífeyrir byggist framvegis á réttindum samkvæmt A-deild LSR mun það taka allnokkurn tíma þangað til eðlilegur réttur myndast þar fyrir þá sem lög þessi taka til. Þannig mun alþingismaður, sem átt hefur sæti á Alþingi t.d. í tíu eða tólf ár við gildistöku frumvarpsins, varla ná að mynda eðlilegan makalífeyrisrétt í A-deildinni, a.m.k. miðað við það sem nú er samkvæmt gildandi lögum, þegar hann lætur af þingmennsku. Öðru máli gegnir um þá sem eru að hefja þingmannsferil sinn um þessar mundir. Með hliðsjón af þessari kerfisbreytingu er í frumvarpi þessu farin sú millileið milli ákvæða gildandi laga og reglna A-deildar LSR að makalífeyrir, 50% af eftirlaunum hins látna, er tryggður ótímabundið, þ.e. umfram þann tíma sem reglur 17. gr. laga um LSR mæla fyrir um. Meðan greiðslna nýtur úr LSR — venjulega í fimm ár — bætir ríkissjóður það upp sem kann að vanta á að makalífeyrir nemi 50% af eftirlaunum hins látna, en eftir það greiðist makalífeyririnn allur úr ríkissjóði eins og eftirlaun, þó þannig að hann skerðist ef makinn hefur aðrar launatekjur. Er miðað við að makinn geti haft aðrar tekjur er séu jafnháar makalífeyrinum en makalífeyrir úr ríkissjóði skerðist um þriðjung þess sem umfram er. Þetta þýðir að hafi makinn laun sem eru þreföld upphæð þess makalífeyris er hann ætti rétt á fellur makalífeyrisgreiðsla samkvæmt þessari grein niður. Séu önnur laun hins vegar lægri er skerðingin minni; sé makalífeyrir t.d. 100 þús. kr. en önnur laun 250 þús. kr. eru laun umfram makalífeyri 150 þús. kr. og skerðing þriðjungur þess eða 50 þús. kr. Að baki liggur sú hugmynd að réttur eins og þessi, sem er umfram það sem almennt tíðkast og byggist á greiðslum úr ríkissjóði til þeirra sem sérstaklega stendur á um, sæti hóflegri skerðingu ef önnur laun eru umtalsverð þannig að ekki sé greiddur lífeyrir ofan á há laun.
    Til álita hlýtur svo að koma síðar að endurskoða tryggingu ríkissjóðs fyrir makalífeyri eftir þessari grein þegar kerfisbreyting samkvæmt frumvarpinu er gengin yfir.
    Í 3. mgr. eru almenn ákvæði um örorkulífeyri. Meginreglan er sú að sá sem verður öryrki á frá þeim tíma rétt til örorkulífeyris sem nemur eftirlaunum eins og réttindastaða hans þá er. Verði t.d. fyrrverandi alþingismaður, sem sat á þingi í 12 ár, öryrki á hann rétt til örorkulífeyris sem nemur 36% þingfararkaups (þ.e. eftirlaunahlutfall hans) ef örorkan er 100%, en 18% sé örorkan 50%. Til frádráttar kemur örorkulífeyrir sem A-deild LSR greiðir eins og mælt er fyrir um í niðurlagi 1. gr. frumvarpsins. Líklegt er að örorkulífeyrir úr A-deild LSR geti oft verið hærri en þau réttindi sem felast í þessu frumvarpi og fellur þá greiðsla úr ríkissjóði niður. Stafar þetta af uppreikningsreglu örorkulífeyris í 5. mgr. 16. gr. laga um LSR en þar segir að við útreikning örorkulífeyris komi til viðbótar áunnum lífeyrisrétti réttur sem sjóðfélagi hefði áunnið sér til 65 ára aldurs, með vissum skilyrðum þó.

Um 17. gr.


    Með greininni er lögfest sú túlkun og framkvæmd sem hefur fest sig í sessi undanfarin ár að réttindaávinnsla helst meðan biðlaun eru greidd. Í því felst að við embættis- eða starfstíma bætist sá tími sem biðlaun eru greidd. Þó er sett það skilyrði hér að biðlaunin séu a.m.k. helmingur fullra launa, en samkvæmt biðlaunareglum skerðast þau ef menn hafa tekjur í nýju starfi á biðlaunatímanum, sbr. t.d. 13. gr. þingfararkaupslaga. Í samræmi við þetta hafa iðgjöld verið greidd af biðlaunum.

Um 18. gr.


    Í greininni er sett sú regla að enginn geti notið eftirlaunagreiðslu samkvæmt lögunum meðan hann er í starfi sem lögin taka til eða meðan hann nýtur biðlauna fyrir starf samkvæmt þeim. Þannig getur alþingismaður t.d. ekki þegið eftirlaun fyrir þingmennsku meðan hann situr enn á þingi, né heldur fyrir ráðherrastörf, þótt hann eigi annars rétt til þeirra. Eins gæti fyrrverandi alþingismaður, svo að annað dæmi sé tekið, ekki notið eftirlauna samkvæmt lögunum ef hann væri orðinn hæstaréttardómari eða forseti Íslands þegar réttur til eftirlauna annars stofnast.
    Enn fremur er í greininni girt fyrir að fyrrverandi alþingismenn eða ráðherrar, sem nýta sér fremur rétt sinn samkvæmt eldri lögum, eins og heimilt verður skv. 1. mgr. 22. gr., geti fengið eftirlaun meðan þeir eru á þingi. Þannig mundu eftirlaunagreiðslur til fyrrverandi alþingismanns falla niður ef hann er kosinn á ný til Alþingis, eins og dæmi eru um.

Um 19. gr.


    Í samræmi við þær hugmyndir sem reifaðar eru í almennum athugasemdum við frumvarp þetta, svo og í skýringum við 4., 8. og 15. gr., er alþingismönnum, ráðherrum og hæstaréttardómurum sem gegnt hafa störfum lengi og verið í forustusveit í samfélaginu veittur rýmri réttur en áður til að hverfa af sviði og draga sig í hlé. Með því er stuðlað að hæfilegri endurnýjun í þjóðmálum og þeim sem varið hafa meginhluta starfsævi sinnar á þessum sviðum tryggður fjárhagslegur grundvöllur til að svo geti orðið. Með þetta í huga og hliðsjón af því að þessi réttindi eru betri en almennt tíðkast er jafnframt eðlilegt að setja skorður við því að þessar breytingar veiti mönnum frekar færi á að auka tekjur sínar með því að hverfa úr starfi sem lög þessi taka til þegar réttindi eru orðin góð og fara á annan starfsvettvang. Þess vegna eru í 18. og 19. gr. sett ákvæði sem skerða greiðslur eftir hinum nýju reglum frumvarpsins um eftirlaunarétt fyrir 65 ára aldur. Eins og fram kemur í 18. gr. má sá er eftirlauna mun njóta samkvæmt þessu frumvarpi ekki hafa með höndum störf sem frumvarpið tekur til. Eins verður sá sem nýtur eftirlauna en tekur við nýju starfi að sæta skerðingu þeirra. Er farin sama leið og gildir um þá sem aðild eiga að A-deild LSR og hefja töku lífeyris fyrir 65 ára aldur. Er skerðingin 0,5% fyrir hvern mánuð eða 6% á ári. Taki t.d. fyrrverandi ráðherra, sem ætti rétt til eftirlauna eftir tólf ára setu í embætti, þ.e. við 55 ára aldur, þegar við nýju starfi verður skerðingin 60% fram að 65 ára aldri. Sama á við ef réttur til eftirlauna stofnast meðan maður er í starfi. Hafi t.d. fyrrverandi alþingismaður horfið af þingi eftir 16 ára setu þar og tekið við nýju starfi skerðast eftirlaun hans er réttur til þeirra verður virkur, þ.e. við 60 ára aldur. Skerðingin nemur þá 30% fram að 65 ára aldri. Skerðing samkvæmt ákvæðum þessarar greinar fellur þó niður ef sá sem eftirlauna nýtur hverfur úr starfi fyrir 65 ára aldur.
    Rétt er að vekja athygli á að í greininni er talað um „starf“ en samkvæmt almennri merkingu er það aðalstarf sem jöfn mánaðarlaun koma fyrir. Er með orðunum „tekur ... við nýju starfi“ höfð hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, þótt skerðingin sé að öðru leyti ólík. Ekki er gerður greinarmunur á hvort starfið er opinbert eða á einkamarkaði. Þannig felst ekki í greininni að tilfallandi störf, þótt fyrir þau komi tekjur, valdi skerðingu eftirlauna. Nefna má tekjur af setu í stjórnum, nefndum og ráðum, af tilfallandi kennslu eða fyrirlestrum, af ritstörfum eða annarri listrænni starfsemi og öðru þess háttar.

Um 20. gr.


    Þar sem iðgjaldagreiðslur samkvæmt frumvarpinu ganga til LSR og sá sjóður mun því hafa yfirlit yfir réttindaávinnslu og stöðu sérhvers þeirra sem lög þessi taka til þykir eðlilegt að hann annist afgreiðslu umsókna um greiðslur samkvæmt þeim. Þannig á sá sem rétt á til eftirlauna að leggja inn beiðni hjá LSR sem svo reiknar út réttindahlutfallið. Þar sem greiðslur koma frá ríkissjóði ber LSR að tilkynna fjármálaráðuneytinu um niðurstöðu sína þegar hún liggur fyrir. Sama gildir um makalífeyri skv. 16. gr. Í greininni er jafnframt gert ráð fyrir að þriggja manna nefnd úrskurði ef til ágreinings kemur. Ekki þykir rétt að stjórn LSR komi að því máli.
    Um afgreiðslu annarra réttinda sem leiða til greiðslna úr LSR fer eftir almennum reglum laga um LSR, svo sem barnalífeyris, örorkulífeyris og réttinda skv. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins.
    Rétt þykir að fjármálaráðherra setji nánari reglur um greiðslur samkvæmt lögunum og fyrirkomulag þeirra. Þar sem greiðslur verða oftast tvíþættar, þ.e. greiðslur úr A-deild í samræmi við áunnin réttindi og greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt réttindum frumvarpsins, þarf samvinnu ríkissjóðs og LSR um útborgun lífeyris svo að til þæginda verði fyrir þá sem greiðslna njóta, þ.e. um einn launaseðil og eina greiðslufærslu í banka. Er horft til þess að LSR annist greiðslurnar en hlutur ríkissjóðs í þeim sé greiddur LSR í einu lagi mánaðarlega.

Um 21. gr.


    Í a- og b-lið greinarinnar er kveðið á um brottfall laganna um eftirlaun alþingismanna og ráðherra og í c-lið um brottfall þeirra ákvæða laga um laun forseta Íslands sem felld eru efnislega inn í þetta frumvarp. Í d-lið eru felldar brott tvær málsgreinar í 24. gr. laga um LSR en þær fela í sér að ekki er unnt að greiða alþingismanni eða ráðherra lífeyri úr B-deild meðan hann nýtur þingfararkaups eða biðlauna. Í þessum málsgreinum eru tilvísanir í þau lög sem ætlað er með frumvarpinu að fella brott. Girt er fyrir greiðslur eftirlauna meðan ráðherra eða alþingismaður er í starfi með ákvæði 18. gr. frumvarpsins og öðru ákvæði í 22. gr. þar sem veittur er réttur til að fá eftirlaun samkvæmt eldri lögum. Breytingin felur hins vegar í sér að alþingismaður eða ráðherra gæti fengið lífeyrisgreiðslur fyrir önnur störf ef réttur til þeirra er fyrir hendi meðan þeir eru í stjórnmálum.
    Í e-lið greinarinnar er lagt til að það sem enn er eftir af lögum nr. 92/1955, um laun starfsmanna ríkisins, falli brott. Eru það 14., 25., 26. og 29. gr. þeirra. Þessi liður greinarinnar tengist breytingum á þingfararkaupslögunum í 23. gr. frumvarpsins. Eru þetta ýmist óvirk eða úrelt ákvæði, önnur en þau sem fjalla um biðlaun ráðherra (29. gr.). Í 14. gr. eru ákvæði um endurgreiðslu launa kennara og skólastjórnenda, en sveitarfélögin hafa tekið við starfsemi grunnskólanna af ríkinu. Í 1. mgr. 25. gr. er heimild fyrir endurgreiðslu útlagðs kostnaðar eftir reikningi sem ráðherra samþykkir og í 2. mgr. 25. gr. er ákvæði um laun samkvæmt reglugerð til innheimtumanna ríkissjóðs fyrir innheimtu ríkissjóðstekna og annarra gjalda. Þessi ákvæði hafa ekki þýðingu lengur. Laun fyrir innheimtu ríkissjóðstekna hafa eingöngu runnið til embættismanna en þeir heyra undir ákvörðunarvald kjaranefndar að því er laun og önnur kjör varðar, sbr. lög nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, sem m.a. ákveður hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega, sbr. 1. mgr. 11. gr. þeirra laga. Í 26. gr. er kveðið á um greiðslur fyrir embættisverk dýralækna og presta samkvæmt gjaldskrá sem hlutaðeigandi ráðherra setur. Í 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kemur fram í 4. tölul. að prestar þjóðkirkjunnar teljast til embættismanna, svo og í 12. lið yfirdýralæknir, héraðsdýralæknar og dýralæknir fisksjúkdóma. Engin gjaldskrá um greiðslur til dýralækna er í gildi. Ein gjaldskrá er hins vegar í gildi um greiðslur til presta, en hún er sett samkvæmt lögum nr. 36/1931, um embættiskostnað og aukaverk presta.

Um 22. gr.


    Þegar frumvarp þetta verður að lögum falla eldri lög og lagaákvæði um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna úr gildi, sbr. 21. gr. Eigi að síður er þeim sem öðlast hafa betri rétt samkvæmt þeim lögum tryggt að þeir geti notið hans ef þeir svo kjósa. Ljóst er að eldri réttur alþingismanna sem setið hafa á þingi tvö til fjögur kjörtímabil er hagstæðari en samkvæmt þessu frumvarpi, svo og réttur til makalífeyris að nokkru leyti. Ekkert er því til fyrirstöðu að maki leiti réttar samkvæmt eldri lögum þó að eftirlaunagreiðslur hafi farið eftir ákvæðum þessa frumvarps ef hann á við. Hins vegar er girt fyrir að þeir sem þegar hafa hafið töku eftirlauna geti leitað réttar samkvæmt þessu frumvarpi ef hann er hagstæðari. Er eðlilegast að um það séu skýrar reglur.
    Miðað er við að þeir alþingismenn, sem kosnir voru í fyrsta sinn 10. maí sl., falli einvörðungu undir ákvæði frumvarpsins, svo stutt sem um er liðið frá kosningunum, en geti ekki leitað betri réttar samkvæmt eldri lögum.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um að lífeyrisgreiðslur samkvæmt eldri lögum skuli felldar niður hjá LSR og verður farið með þær eins og greiðslur samkvæmt þessum lögum, þ.e. þær koma beint úr ríkissjóði. Eru það eftirlaun samkvæmt lögum um fyrrverandi ráðherra og alþingismenn, svo og makalífeyrir, örorkulífeyrir og barnalífeyrir samkvæmt þeim lögum. Jafnframt falla niður skuldbindingar af þeim hjá LSR. Lífeyrisskuldbindingar skv. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. falla á A-deild LSR. Með þessu móti má segja að eldra lífeyriskerfi sé lokað og greiðslur og skuldbindingar alþingismanna- og ráðherradeildar LSR færðar til ríkissjóðs.
    Loks er í lokamálsgrein sérstakt ákvæði um þá hæstaréttardómara sem fram að þessu hafa greitt iðgjöld af launum sínum í B-deild LSR. Rétt þykir að þeir geti haldið því áfram en verði ekki þvingaðir til þess að greiða iðgjöld sín í A-deildina þau ár sem eftir eru af starfsævi þeirra. Fer þá um rétt þeirra samkvæmt reglum B-deildar. Með því móti gætu þeir skapað hagstæðari makalífeyrisrétt en annars. Hæstaréttardómarar sem eru í B-deild LSR og fá lausn skv. 61. gr. stjórnarskrárinnar, og þar með full laun ævilangt, fá ekki lífeyrisgreiðslur, sbr. 8. mgr. 24. gr. laga um LSR.

Um 23. gr.


    Í a-lið greinarinnar eru gerðar breytingar á 3. gr. laga um þingfararkaup og þingfararkostnað. Meginbreytingin er sú að þeir alþingismenn, sem jafnframt eru formenn stjórnmálaflokka sem hafa fengið a.m.k. þrjá þingmenn kosna á Alþingi, eigi rétt til álags á þingfararkaup, 50%. Eins og fram kemur í almennum inngangi greinargerðarinnar er með þessari breytingu verið að jafna aðstöðu forustumanna í stjórnmálum. Breytingin mun í raun þýða að formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi fá verulega hærri greiðslur en alþingismenn almennt. Ráðherrar hafa nú um 80% álag á þingfararkaup og forsætisráðherra nær tvöfalt þingfararkaup, og því þykir þessi breyting hófleg. Það tíðkast sums staðar erlendis að forustumenn stjórnarandstöðu fái sömu eða svipuð laun og leiðtogar stjórnarflokks. Þá er þess að geta að dæmi eru um hérlendis að formenn stjórnarflokka séu ekki í ríkisstjórn og mundi þá ákvæði greinarinnar gilda um þá.
    Í greininni er miðað við að stjórnmálaflokkurinn hafi hlotið a.m.k. þrjá þingmenn kosna og er þá höfð hliðsjón af því lágmarki sem stjórnarskrá ákveður um rétt flokka til að fá jöfnunarsæti. Flokkur sem fær a.m.k. 5% í alþingiskosningum má búast við að fá þrjá þingmenn eða fleiri.
    Þá er í 2. efnismgr. ráðgert að hækka álag, sem formenn þingflokka, formenn nefnda og varaformenn tveggja nefnda, fjárlaganefndar og utanríkismálanefndar, hafa, úr 15% eins og það var ákveðið 1995 í 20%.
    Að öðru leyti eru smávægilegar orðalagsbreytingar á greininni.
    Í b-lið greinarinnar um fjallað um greiðslur til ráðherra. Í 12. gr. frumvarpsins segir að ráðherra sem ekki er jafnframt alþingismaður eigi rétt til eftirlauna fyrir þingsetu sína en skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar eiga ráðherrar setu á Alþingi samkvæmt embættisstöðu sinni, hvort sem þeir eru kjörnir þangað eða ekki. Í 5. gr. laga um þingfararkaup og þingfararkostnað er því ákvæði um að greiða skuli ráðherra, sem ekki er jafnframt þingmaður, þingfararkaup. Í greininni eru hins vegar engin önnur fyrirmæli um greiðslur til ráðherra fyrir þingstörf, hvort sem þeir eru kosnir til Alþingis eða ekki. Um það hafa þó skapast venjur og er ráðherrum nú greiddur húsnæðiskostnaður skv. 6. gr. og starfskostnaður skv. 2. mgr. 9. gr. laganna. Hins vegar er þeim hvorki greiddur ferðakostnaður eins og öðrum alþingismönnum né símakostnaður. Hann er greiddur af því ráðuneyti sem ráðherrann fer með. Lagt er til í greininni að þessar venjur um greiðslur til ráðherra verði lögfestar. Eins og orðalag greinarinnar verður er óþarft að taka fram sérstaklega að utanþingsráðherra eigi rétt til þingfararkaups. Það gildir um alla ráðherra.
    Um biðlaun ráðherra gildir nú 29. gr. laga nr. 92/1955:
    „Nú hefur maður gegnt ráðherraembætti í 2 ár samfleytt eða lengur, og á hann þá rétt á biðlaunum, er hann lætur af því starfi.
    Biðlaun skal greiða í sex mánuði, talið frá 1. degi næsta mánaðar eftir að hlutaðeiganda var veitt lausn frá ráðherraembætti. Biðlaun skulu vera 70% af launum ráðherra, eins og þau eru á biðlaunatímanum. Nú tekur sá, er biðlauna nýtur, stöðu í þjónustu ríkisins, og fellur þá niður greiðsla biðlauna, ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka 6 mánaða tímans.“
    Svo sem sjá má er biðlaunaréttur ráðherra miklu þrengri en biðlaunaréttur alþingismanna. Er hvort tveggja að hann fylgir ekki föstum ráðherralaunum og að til hans stofnast ekki fyrr en eftir tvö ár í embætti. Þar sem í frumvarpi þessu er fjallað um hluta af starfskjörum stjórnmálamanna þykir eðlilegt að jafnframt sé gerð leiðrétting á þessu atriði. Er þá miðað við að biðlaunaréttur skapist þegar er ráðherra tekur við embætti, líkt og gildir um þá sem taka fast sæti á Alþingi, og eins að biðlaunarétturinn sé þá miðaður við full föst laun. Jafnframt er reglunum breytt þannig að biðlaunaréttur skapast í sex mánuði hafi ráðherrann setið samfellt eitt ár í embætti eða lengur en ella í þrjá mánuði. Um biðlaunagreiðslur þessar gilda svo ákvæði 13. gr. þingfararkaupslaganna um sams konar skerðingu þeirra ef sá sem þeirra nýtur tekur við launuðu starfi.


Fylgiskjal.

Um eftirlaunasjóði alþingismanna og ráðherra.
(Skrifstofa LSR tók saman.)

     Eftirlaun alþingismanna: Um eftirlaun alþingismanna gilda nú lög nr. 46/1965, með síðari breytingum. Verulegar breytingar voru gerðar á lögunum árið 1982 (breytingalög nr. 73/ 1982). Þá var m.a. breytt ákvæðum um ávinnslu lífeyrisréttinda. Aftur var gerð breyting með lögum nr. 108/1996. Tóku þær fyrst og fremst til lífeyrisréttinda varaþingmanna (maka þeirra) og réttinda forseta Alþingis.
    Samkvæmt lögunum skulu alþingismenn vera í sérstakri deild í LSR sem er með sérstakt reikningshald. Þá segir í lögunum að halli, sem verður á sjóðnum ef iðgjöld alþingismanna duga ekki fyrir greiðslu eftirlauna til fyrrverandi alþingismanna, eða lífeyris til maka þeirra, greiðist af alþingiskostnaði. Framkvæmdin hefur þó raunar orðið önnur, þ.e. sú að ríkissjóður hefur greitt mismuninn.
    Alþingismenn greiða iðgjald til alþingismannadeildar LSR af þingfararkaupi eins og það er á hverjum tíma. Á árinu 2002 greiddu 87 alþingismenn eða varamenn þeirra iðgjöld til alþingismannadeildar LSR, samtals að fjárhæð 26,9 millj. kr.
    Í árslok 2002 var áfallin skuldbinding metin vera 4.185 millj. kr. Alls átti þá 491 einstaklingur réttindi hjá alþingismannadeild, 63 starfandi þingmenn, 174 lífeyrisþegar og 254 fyrrverandi alþingismenn eða varaþingmenn sem ekki voru byrjaðir að fá lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum.
    Fyrrverandi alþingismaður á samkvæmt gildandi lögum rétt á eftirlaunum úr sjóðnum þegar svo stendur á að:
     1.      Hann verður 65 ára.
     2.      Hann lætur af þingmennsku, enda verði hann 65 ára innan fjögurra ára frá því þingmennsku hans lýkur.
     3.      Samanlagður aldur hans og tvöfaldur sá tími, sem hann hefur setið á þingi, nær 95 árum, enda hafi hann náð 60 ára aldri.
    Áunninn réttur til lífeyris fer eftir því hversu lengi viðkomandi hefur setið á þingi. Fyrir fyrstu 5 ár á þingi ávinnur þingmaður sér rétt sem nemur 2% af þingfararkaupi fyrir hvert ár. Fyrir næstu 4 ár ávinnur hann sér 5% rétt fyrir hvert ár. Fyrir árin frá 9 til 15 ára þingsetu ávinnur þingmaður sér rétt sem nemur 3,33% fyrir hvert ár. Frá 15 til 21 árs þingsetu er ávinningurinn 1,67% fyrir árið. Frá þeim tíma er þingmaður hefur setið á þingi í 21 ár öðlast hann 2% réttindi fyrir árið, en lífeyrisréttur verður þó aldrei hærri en 70% af þingfararkaupi.
    Á árinu 2002 fengu samtals 183 einstaklingar greiðslur frá sjóðnum, samtals að fjárhæð 196 millj. kr. Í nóvember 2003 fengu 175 einstaklingar greiðslur frá sjóðnum, samtals rúmlega 20 millj. kr. Greiðslurnar skiptust þannig á einstakar lífeyristegundir að 103 fengu greidd eftirlaun, 69 fengu makalífeyri og 3 örorkulífeyri.
    Eignir alþingismannadeildar til greiðslu lífeyris eru óverulegar. Í árslok 2002 átti deildin 170 millj. kr. upp í skuldbindingar sem eins og að framan greinir voru þá metnar 4.185 millj. kr. Deildin hefur nánast verið hreinn gegnumstreymissjóður þar sem ríkissjóður hefur greitt það sem á vantar á hverjum tíma til greiðslu lífeyris.
     Eftirlaun ráðherra: Um eftirlaun ráðherra gilda lög nr. 47/1965, með síðari breytingum. Verulegar breytingar voru gerðar á lögunum með breytingalögum nr. 73/1982. Þá var m.a. breytt ákvæðum um ávinnslu lífeyrisréttinda.
    Samkvæmt lögunum skulu ráðherrar vera í sérstakri deild í LSR sem er með sérstakt reikningshald. Þá segir í lögunum að halli, sem verður á sjóðnum ef iðgjöld ráðherra duga ekki fyrir greiðslu eftirlauna til fyrrverandi ráðherra eða lífeyris til maka þeirra, skuli greiðast úr ríkissjóði.
    Ráðherrar greiða mánaðarlega iðgjald til ráðherradeildar LSR af þeim launum sem þeir fá fyrir störf ráðherra og greidd eru til viðbótar þingfararkaupi. Á árinu 2002 greiddu 13 ráðherrar iðgjöld til ráðherradeildar LSR, samtals að fjárhæð 4,2 millj. kr.
    Í árslok 2002 var áfallin skuldbinding metin vera 883 milljónir kr. Alls átti þá 61 einstaklingur réttindi hjá ráðherradeild, tólf starfandi ráðherrar, 27 lífeyrisþegar og 22 fyrrverandi ráðherrar sem ekki eru byrjaðir að fá lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum.
    Fyrrverandi ráðherra á rétt á lífeyri frá sjóðnum frá 65 ára aldri. Hann fær þó ekki greiðslur á meðan hann fær greitt þingfararkaup. Fyrir hvert ár í ráðherraembætti ávinnur ráðherra sér rétt til 6% af þeim hluta ráðherralauna sem greidd eru til viðbótar þingfararkaupi, en þó aldrei meira en 50%.
    Á árinu 2002 fengu samtals 28 einstaklingar greiðslur frá sjóðnum, samtals að fjárhæð 30 millj. kr. Í nóvember 2003 fengu 28 einstaklingar greiðslur frá sjóðnum, samtals 3,2 millj. kr. Greiðslurnar skiptust þannig á einstakar lífeyristegundir að 19 fengu greidd eftirlaun og 9 fengu makalífeyri.
    Eignir ráðherradeildar til greiðslu lífeyris eru óverulegar. Í árslok 2002 átti deildin 30,7 millj. kr. upp í skuldbindingar sem eins og að framan greinir voru þá metnar 883 millj. kr. Deildin hefur nánast verið hreinn gegnumstreymissjóður þar sem ríkissjóður hefur lagt fram það sem á vantar á hverjum tíma til greiðslu lífeyris.