Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 687, 130. löggjafarþing 418. mál: almannatryggingar (aldurstengd örorkuuppbót).
Lög nr. 130 19. desember 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir orðinu „örorkulífeyris“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: aldurstengdrar örorkuuppbótar.

2. gr.

     15. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Aldurstengd örorkuuppbót.
     Aldurstengd örorkuuppbót greiðist þeim sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr. eða fullan örorkulífeyri skv. 29. gr. Aldurstengd örorkuuppbót greiðist einnig þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 2. málsl. 4. mgr., 12. gr. um búsetutíma og örorkumat og 5. mgr. 12. gr. um skerðingu vegna tekna að öðru leyti en því að skerðing aldurstengdrar örorkuuppbótar hefst ef tekjur eru hærri en 2.514.788 kr. á ári. Fjárhæð uppbótar, sbr. 2. mgr., miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. og 29. gr. eða uppfyllir skilyrði 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.
     Fjárhæð mánaðarlegrar aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 1. mgr., skal vera hlutfall af óskertum mánaðarlegum örorkulífeyri skv. 12. gr. og miðast við fæðingardag, sbr. eftirfarandi:
     
18 og 19 ára 100%
20 og 21 árs 95%
22 og 23 ára 90%
24 og 25 ára 85%
26 og 27 ára 80%
28 og 29 ára 70%
30 og 31 árs 60%
32 og 33 ára 50%
34 og 35 ára 40%
36 og 37 ára 30%
38 og 39 ára 20%
40 til og með 43 ára 10%
44 til og með 48 ára 5%
49 til og með 59 ára 2,5%
60 til og með 66 ára 1,5%

     Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004 og gilda um umsóknir eftir þann tíma.
     Þeir sem fá greiddan örorkulífeyri skv. 12. gr., fullan örorkulífeyri skv. 29. gr. og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð við gildistöku laganna eiga rétt á aldurstengdri örorkuuppbót án sérstakrar umsóknar og að öðrum skilyrðum uppfylltum. Miðast fjárhæð uppbótar við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. og 29. gr. eða uppfyllir skilyrði 8. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2003.