Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 432, 117. löggjafarþing 83. mál: almannatryggingar (heildarlög).
Lög nr. 117 20. desember 1993.

Lög um almannatryggingar.


I. KAFLI
Skipulag og stjórn.

1. gr.

     Almannatryggingar teljast samkvæmt lögum þessum:
 1. Lífeyristryggingar.
 2. Slysatryggingar.
 3. Sjúkratryggingar.

2. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins annast lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur umsjón með allri starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins.
     Hver grein trygginganna, sbr. 1. gr., er sjálfstæð deild í Tryggingastofnuninni og hefur þar sérstakan fjárhag. Engin deildanna ber ábyrgð á skuldbindingum annarrar. Að öðru leyti er forstjóra heimilt, að fengnu samþykki tryggingaráðs og ráðherra, að skipa starfsemi stofnunarinnar í deildir eftir því sem henta þykir.
     Tryggingastofnun ríkisins hefur heimili og varnarþing í Reykjavík.

3. gr.

     Ráðherra skipar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins að fengnum tillögum tryggingaráðs.
     Ráðherra skipar og skrifstofustjóra, tryggingafræðing, tryggingayfirlækni, aðalgjaldkera og deildarstjóra, að fengnum tillögum forstjóra og tryggingaráðs, og tryggingalækni, að fengnum tillögum forstjóra, tryggingaráðs og tryggingayfirlæknis.
     Um ákvörðun launa fastra starfsmanna samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

4. gr.

     Forstjóri annast stjórn stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru. Hann ræður alla starfsmenn stofnunarinnar sem ekki eru skipaðir af ráðherra.
     Deildarstjórar annast venjulega afgreiðslu mála, hver fyrir sína deild. Hvers konar nýbreytni og afbrigði frá venju skal bera undir forstjóra.
     Heimilt er að ráða tannlækni eða semja við aðila utan stofnunarinnar til að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara er lúta að tannlækningum.

5. gr.

     Alþingi kýs á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm menn í tryggingaráð og aðra fimm til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann tryggingaráðs úr hópi hinna kjörnu aðalmanna.
     Ráðherra ákveður þóknun tryggingaráðsmanna.

6. gr.

     Tryggingaráð skal hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Skal endurskoðunardeild starfa við stofnunina undir eftirliti þess.
     Leita skal samþykkis tryggingaráðs á:
 1. hinni árlegu fjárhagsáætlun stofnunarinnar,
 2. ársreikningum stofnunarinnar,
 3. ákvörðunum um iðgjaldaupphæðir,
 4. öllum heimildarsamningum við heilbrigðisstéttir og heilbrigðisstofnanir,
 5. meginreglum um notkun heimildarákvæða,
 6. öllum lánveitingum og verðbréfakaupum og -sölum,
 7. öðrum þeim atriðum sem lög þessi ákveða.
     Önnur mál skulu borin undir tryggingaráð ef ráðið óskar þess eða forstjóra finnst ástæða til.

7. gr.

     Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Máli skal skjóta til úrskurðar tryggingaráðs eigi síðar en þremur mánuðum eftir að ákvörðun lá fyrir í málinu. Tryggingaráði er þó heimilt, ef sérstaklega stendur á, að víkja frá þriggja mánaða frestinum.
     Komi ágreiningur fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.

8. gr.

     Aðalskrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins eru í Reykjavík.
     Utan Reykjavíkur skal Tryggingastofnunin hafa umboðsskrifstofur og fer um staðarval, fyrirkomulag og rekstur eftir ákvörðun tryggingaráðs.
     Í hverju sveitarfélagi, þar sem ekki er umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins, skal sveitarstjórn heimilt í samráði við tryggingaráð að tilnefna sérstakan trúnaðarmann Tryggingastofnunarinnar sem annast upplýsingastörf og tengsl íbúa sveitarfélags við umboðsskrifstofu. Tryggingastofnunin ákveður og greiðir þóknun til trúnaðarmanna.

9. gr.

     Reikningar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir sl. ár skulu jafnan fullgerðir eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar annarra ríkisstofnana.
     Að lokinni endurskoðun og afgreiðslu tryggingaráðs skulu reikningarnir sendir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem síðan lætur birta þá í B-deild Stjórnartíðinda.
     Tryggingastofnunin skal með reglubundnum hætti birta glöggar upplýsingar um alla starfsemi stofnunarinnar.
     Tryggingastofnunin skal kynna almenningi rétt sinn til bóta með upplýsingastarfsemi.

II. KAFLI
Lífeyristryggingar.
A. Almenn ákvæði.

10. gr.

     Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrkja, barnalífeyris og bóta í fæðingarorlofi.

B. Bætur.

11. gr.

Ellilífeyrir.
     Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur árlegur ellilífeyrir, 147.948 kr., greiðist þeim einstaklingum sem átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við lögheimilistímann.
     Ellilífeyri skal skerða ef árstekjur einstaklinga eða hjóna hvors um sig eru hærri en 853.397 kr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða ellilífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður. Til tekna í þessu sambandi teljast hvorki bætur almannatrygginga né tekjur úr lífeyrissjóðum. Skerðing samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992.
     Lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skal nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja við lögheimilistíma þess sem á lengri réttindatíma, sbr. síðasta málslið 2. mgr. Þá er og heimilt að úrskurða hvoru hjónanna um sig einstaklingslífeyri ef þau eru eigi samvistum af heilsufarsástæðum eða öðrum ástæðum er tryggingaráð metur jafngildar.
     Hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.
     Nú hefur sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi meðan á henni stóð.

12. gr.

Örorkulífeyrir.
     Rétt til örorkulífeyris eiga þeir menn sem lögheimili eiga á Íslandi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, eru á aldrinum 16–67 ára og:
 1. hafa átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér lögheimili,
 2. eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.
     Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur.
     Fullur árlegur örorkulífeyrir skal vera 147.948 kr. og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 4. mgr. Við ákvörðun lögheimilistíma, sbr. 1. mgr. 11. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
     Örorkulífeyri skal skerða ef árstekjur örorkulífeyrisþega eða hjóna, hvors um sig, sem bæði eru örorkulífeyrisþegar, eru hærri en 871.373 kr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða örorkulífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður. Til tekna í þessu sambandi teljast hvorki bætur almannatrygginga né tekjur úr lífeyrissjóðum.

13. gr.

Örorkustyrkur.
     Heimilt er Tryggingastofnuninni að veita örorkustyrk þeim sem skortir að minnsta kosti helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði 1. mgr. 12. gr. að öðru leyti en því er örorkustig varðar. Örorkustyrkþegi, sem náð hefur 62 ára aldri, skal njóta örorkustyrks sem jafnan svarar til fulls örorkulífeyris (grunnlífeyris án bóta tengdra honum). Örorkustyrk má enn fremur veita þeim sem stundar fullt starf en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Tryggingaráð setur reglur um örorkustyrki og skulu þær staðfestar af ráðherra.

14. gr.

Barnalífeyrir.
     Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 11. gr. né 4. mgr. 12. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.
     Sömu réttarstöðu hafa kjörbörn og stjúpbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi. Eigi skal heldur greiða barnalífeyri vegna fráfalls eða örorku ættleiðanda, nema barnið hafi verið á framfæri hans a.m.k. tvö síðustu árin áður en lífeyrisréttur gat stofnast. Heimilt er tryggingaráði að stytta þennan frest ef sýnt þykir að ættleiðingin standi ekki í sambandi við væntanlegan bótarétt.
     Tryggingaráð getur ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sætir gæslu- eða refsivist, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
     Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.
     Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu.
     Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 123.600 kr. Ekki skal greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris.

15. gr.

Fæðingarstyrkur.
     Fæðingarstyrkur skal vera 25.090 kr. á mánuði í sex mánuði við hverja fæðingu til móður sem á lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna, sbr. þó 2. mgr. Hefja má greiðslu fæðingarstyrks allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Upphæð fæðingarstyrks skal hækka með sama hætti og aðrar bætur lífeyristrygginga.
     Ákvæði greinar þessarar taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma er óskert laun eru greidd.
     Greiða skal fæðingarstyrk í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 28 vikna meðgöngutíma. Sé um að ræða fósturlát eftir 20 vikna meðgöngu greiðist fæðingarstyrkur í tvo mánuði.
     Greiðslur fæðingarstyrks falla niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnun. Þegar um er að ræða tilvik samkvæmt þessari málsgrein skal fæðingarstyrkur þó aldrei greiddur skemur en í tvo mánuði eftir fæðingu.
     Framlengja skal greiðslu fæðingarstyrks um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt ef fleiri fæðast í einu. Framlengja skal og greiðslu fæðingarstyrks um einn mánuð ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Slík þörf skal rökstudd með vottorði læknis og staðfest af tryggingaráði.
     Fæðingarstyrkur skal og greiddur ættleiðandi foreldri, uppeldis- eða fósturforeldri vegna töku barns yngra en fimm ára í fimm mánuði frá því er fyrir liggur staðfesting barnaverndarnefndar eða sveitarfélags um fósturráðstöfun eða leyfi til ættleiðingar eftir því sem við á.
     Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma barns skal hún eiga rétt til fæðingarstyrks þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum hennar eða tilfærslu í starfi. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort þörf er fyrir hendi samkvæmt ákvæði þessu.

16. gr.

Fæðingardagpeningar.
 1. Foreldrar í fæðingarorlofi, sem átt hafa lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.
 2. Fæðingardagpeningar skulu vera tvöfaldir sjúkradagpeningar einstaklings eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma.
 3. Fæðingardagpeningar skulu greiddir í sex mánuði.
 4. Fullra fæðingardagpeninga njóta þeir sem unnið hafa 1.032–2.064 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs. Hálfra fæðingardagpeninga njóta þeir sem unnið hafa 516–1.031 dagvinnustund á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs. Launuð vinna í grein þessari merkir öll vinna að tekjuöflun, jafnt atvinnurekenda sem launþega. Um mat á atvinnuþátttöku foreldris skal setja ákvæði í reglugerð.
 5. Heimilt er konu að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði og miðast greiðsla fæðingardagpeninga við þann tíma. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs miðast greiðslur fæðingardagpeninga við fæðingardag.
 6. Nú hefur móðir fengið fæðingardagpeninga í a.m.k. einn mánuð eftir fæðingu og á þá faðir rétt á greiðslu fæðingardagpeninga í stað móður ef hún óskar þess, enda leggi hann niður launaða vinnu á meðan. Foreldrar geta og skipt með sér fæðingarorlofi, t.d. verið bæði í orlofi á sama tíma að fullu eða hluta, þó þannig að greiðslur til þeirra sameiginlega nemi ekki meira en sex mánaða fæðingardagpeningum, sbr. c-lið.
 7. Taki foreldrar samanlagt ekki allt það fæðingarorlof, sem þeir eiga rétt á, falla niður fæðingardagpeningagreiðslur fyrir þann tíma sem ekki er nýttur.
 8. Fæðingarorlof og greiðslur fæðingardagpeninga framlengjast um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt ef fæðast fleiri í einu.
 9. Framlengja skal og greiðslu fæðingardagpeninga um einn mánuð ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Slík þörf skal rökstudd með læknisvottorði og staðfest af tryggingaráði. Hvort foreldri sem er getur að ósk móður dvalið hjá barni þann mánuð.
 10. Þegar sérstaklega stendur á vegna heilsufars barns er heimilt að fengnu vottorði læknis sem annast hefur barnið að foreldri taki hluta af fæðingarorlofi án þess að því sé gert skylt að ljúka því í einu lagi. Hvert tímabil má þó ekki vera skemmra en mánuður.
 11. Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að hætta störfum meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma barns skal hún eiga rétt til greiðslu fæðingardagpeninga þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga, enda verði ekki komið við breytingum á starfsháttum hennar eða tilfærslu í starfi. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði.
 12. Greiðslur fæðingardagpeninga falla niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnun. Þegar um er að ræða tilvik samkvæmt þessari málsgrein skulu fæðingardagpeningar þó aldrei greiddir skemur en tvo mánuði eftir fæðingu. Greiða skal fæðingardagpeninga í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 28 vikna meðgöngutíma. Sé um að ræða fósturlát eftir 20 vikna meðgöngu greiðast fæðingardagpeningar í tvo mánuði.
 13. Ættleiðandi foreldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar eiga rétt til greiðslu fæðingardagpeninga í fæðingarorlofi vegna töku barns yngra en fimm ára.
 14. Fæðingardagpeningar greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð.
 15. Útgjöld lífeyristrygginga vegna fæðingardagpeninga skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga.
 16. Enginn getur samtímis notið fæðingardagpeninga og sjúkradagpeninga.

17. gr.

Tekjutrygging.
     Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 210.989 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 272.208 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 210.989 kr. á ári skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Sama gildir um hjónalífeyri eftir því sem við á.
     Ef aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 210.989 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 279.840 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 210.989 kr. skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Sama gildir um hjónalífeyri eftir því sem við á.

18. gr.

     Við ákvörðun um hækkanir bóta skv. 17. gr. skulu umsóknir rökstuddar t.d. með skattframtölum og skýrum upplýsingum um hagi bótaþega. Hliðsjón skal höfð af því hvort eignum bótaþega hefur verið ráðstafað með þeim hætti að það valdi synjun hækkunar.
     Með reglugerð skal fjárhæðum 17. gr. breytt 1. júlí árlega til samræmis við almennar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að aðrar tekjufjárhæðir skv. 17. gr. gildi um lífeyristekjur en aðrar tekjur.

C. Tekjur.

19. gr.

     Kostnaður vegna lífeyristrygginga almannatrygginga greiðist úr ríkissjóði, m.a. af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi.

20. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins skal ár hvert haga áætlanagerð sinni vegna útgjalda lífeyristrygginga fyrir næsta almanaksár í samræmi við reglur fjárlagagerðar og senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til frekari meðferðar. Auk áætlaðra útgjalda má gera ráð fyrir tillagi til varasjóðs, allt að 2% af áætluðum útgjöldum, skv. II. og III. kafla laga þessara.
     Árleg heildarútgjöld lífeyristrygginga skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.

21. gr.

     Framlag ríkissjóðs til lífeyristrygginganna skv. 19. og 20. gr. skal greitt Tryggingastofnuninni með jöfnum greiðslum í byrjun hvers mánaðar.

III. KAFLI
Slysatryggingar.
A. Almenn ákvæði.

22. gr.

     Slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 24. eða 25. gr.
     Maður telst vera við vinnu:
 1. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.
 2. Í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
     Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar.
     Til slysa teljast sjúkdómar er stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar.
     Ákveða skal með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir samkvæmt þessum kafla.

23. gr.

     Þegar að höndum ber slys, sem ætla má bótaskylt samkvæmt þessum kafla, skal atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi, sem Tryggingastofnunin skipar fyrir um, til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans (í Reykjavík til Tryggingastofnunarinnar). Lögreglustjóri sendir tilkynninguna til Tryggingastofnunarinnar ásamt nauðsynlegum upplýsingum. Hinum slasaða eða þeim öðrum, sem gera vilja kröfu til bóta vegna slyssins, ber að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt og geta þessir aðilar leitað aðstoðar lögreglustjóra ef atvinnurekandi vanrækir tilkynninguna. Ef atvik að slysinu eru óljós eða mál ekki nægilega upplýst eða ástæða til að ætla að slysið hafi orðið af hirðuleysi eða lélegum útbúnaði, svo og ef Tryggingastofnunin eða annar hvor aðila, atvinnurekandi eða hinn slasaði eða fyrirsvarsmaður hans óskar þess, skal lögreglustjóri rannsaka málið.
     Ef sá sem átti að tilkynna slys hefur vanrækt það skal það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það er gert áður en ár er liðið frá því að slysið bar að höndum. Tryggingaráð getur þó ákveðið að greiða bætur þó að lengri tími líði ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta.

24. gr.

     Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru:
 1. Launþegar sem starfa hér á landi, að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.
 2. Nemendur við iðnnám samkvæmt iðnfræðslulögum.
 3. Útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar.
 4. Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.
 5. Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og orðið er 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.
 6. Sjúklingar sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan er vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem starfar á þessum stofnunum.
     Tryggingaráð getur veitt undanþágu frá slysatryggingu skv. a-lið 1. mgr. ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf. Þá er tryggingaráði heimilt að verða við beiðni íslensks fyrirtækis um slysatryggingu starfsmanna þess sem erlendis starfa.
     Launþegi telst hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um er að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.
     Undanskilin slysatryggingu samkvæmt þessari grein er lausavinna sem ekki er í sambandi við atvinnurekstur né hefur í för með sér sérstaka áhættu. Með reglugerð skal ákveða nánar hvað telja skuli lausavinnu í þessu sambandi.
     Maki atvinnurekanda og börn hans, yngri en 16 ára, teljast ekki launþegar samkvæmt þessari grein.

25. gr.

     Eftirtöldum mönnum skulu tryggðar slysabætur samkvæmt lögum þessum, nema tekið sé fram í skattframtali í byrjun árs að tryggingar sé ekki óskað:
 1. Atvinnurekendum í landbúnaði, sem vinna landbúnaðarstörf, mökum þeirra og börnum á aldrinum 12–16 ára.
 2. Atvinnurekendum sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum.
 3. Launþegum sem að staðaldri vinna störf sem falla undir ákvæði 4. mgr. 24. gr.
     Þeir sem heimilisstörf stunda geta tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Á sama hátt geta atvinnurekendur skv. b-lið tryggt mökum sínum og börnum innan 16 ára, sem með þeim starfa að atvinnurekstrinum, rétt til slysabóta. Sama gildir um börn atvinnurekenda í landbúnaði innan 12 ára aldurs.

B. Bætur.

26. gr.

     Bætur slysatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.

27. gr.

     Nú veldur bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni í minnst 10 daga og skal þá greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum svo sem hér segir:
 1. Að fullu skal greiða:
  1. Læknishjálp samkvæmt samningum sjúkratrygginga.
  2. Sjúkrahúsvist, svo lengi sem afleiðingar slyssins gera hana nauðsynlega. Greiðsla sjúkrahúsvistar færist þó yfir á sjúkratryggingarnar þegar hinn slasaði er orðinn 70 ára, enda séu þá full tvö ár frá slysdegi.
  3. Lyf og umbúðir.
  4. Viðgerð vegna brots eða löskunar á heilbrigðum tönnum eða vel viðgerðum. Greiðslu fyrir sams konar viðgerðir á lélegri tönnum má takmarka við kostnað sem ætla má að orðið hefði ef þær hefðu verið heilbrigðar.
  5. Gervilimi eða svipað hjálpartæki, svo og viðgerð á þeim eða endurnýjun ef viðgerð telst ekki fullnægjandi. Sama gildir um gervitennur.
  6. Sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl fyrst eftir slys eða þegar ella verður nauðsynlegt að senda sjúkling með slíkum farartækjum til meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi, þó ekki fyrir einstakar ferðir þegar um stundun er að ræða. Sama gildir um flutning með skipi þegar öðrum farartækjum verður ekki við komið.
  7. Sjúkraþjálfun og orkulækningar.
 2. Að hluta skal greiða:
  1. Að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni. Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venslamanna hins slasaða.
  2. 3/4 kostnað við sams konar ferðir með áætlunarbíl eða -skipi, enda sé um meira en 15 km vegalengd að ræða. Geti sjúklingur ekki ferðast með áætlunarbíl skal greiða ferð með áætlunarflugvél að 3/4.
 3. Heimilt er að greiða:
  1. Hjúkrun í heimahúsum, veitta af vandalausum.
  2. Styrk upp í kostnað vegna löskunar á tönnum þegar framkvæmdar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir á þeim sem ónýst hafa við slysið.
  3. Ferðakostnað að 3/4 hlutum með áætlunarbíl eða strætisvagni eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagningar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.
     Að svo miklu leyti sem sérstakir samningar sjúkratrygginga ná ekki yfir sjúkrahjálp samkvæmt framansögðu getur tryggingaráð ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti.
     Nú veldur slys ekki óvinnufærni í 10 daga, en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í grein þessari og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.

28. gr.

     Dagpeningar greiðast frá og með 8. degi eftir að slysið varð, enda hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst 10 daga. Dagpeningar greiðast þangað til hinn slasaði verður vinnufær, úrskurður er felldur um varanlega örorku hans eða hann deyr, þó ekki lengur en 52 vikur.
     Tryggingaráði er heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur, einkum ef ekki er lokið lækningatilraunum og óvíst er hvort um varanlega örorku verður að ræða og líkur eru til að afstýra megi eða draga úr örorku með lengri bótagreiðslu.
     Dagpeningar eru 665,70 kr. á dag fyrir hvern einstakling og 142,80 kr. fyrir hvert barn á framfæri, þar með talin börn utan heimilis sem hinn slasaði sannanlega greiðir með samkvæmt úrskurði stjórnvalds, staðfestu samkomulagi eða skilnaðarleyfisbréfi.
     Greiðslur samkvæmt grein þessari mega ekki fara fram úr 3/ 4 af vinnutekjum bótaþega við þá atvinnu er hann stundaði er slysið varð og mega ekki ásamt vinnutekjum nema meira en upphæð dagpeninga að viðbættum þriðjungi. Í reglugerð skal ákveðið hvernig meta skuli í þessu sambandi vinnutekjur maka og barna atvinnurekenda sem tryggð eru skv. a-lið 1. mgr. eða 2. mgr. 25. gr.
     Nú greiðir vinnuveitandi hinum slasaða laun í slysaforföllum og renna þá dagpeningagreiðslur samkvæmt þessari grein til vinnuveitandans þann tíma, þó aldrei hærri greiðsla en sem nemur 3/ 4 hlutum launanna.

29. gr.

     Ef slys veldur varanlegri örorku skal greiða þeim er fyrir því varð örorkulífeyri eftir reglum 3. mgr. 12. gr. eða örorkubætur í einu lagi.
     Ef örorkan er 50% eða meiri greiðist hálfur örorkulífeyrir fyrir 50% örorku, hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig sem við bætist uns örorkan nemur 75%, þá greiðist fullur lífeyrir. Skerðingarákvæði 4. mgr. 12. gr. skulu ekki taka til örorkulífeyris samkvæmt þessari grein.
     Nú er örorkan metin meiri en 50% og skal þá auk örorkulífeyris greiða lífeyri vegna maka og barna yngri en 18 ára, sem voru á framfæri bótaþega þegar slys bar að höndum, eftir reglum b- og c-liða 1. mgr. 30. gr.
     Ef örorkan er 75% eða meiri skal greiða fullar bætur og gildir það bæði vegna barna sem voru á framfæri bótaþega þegar slys átti sér stað, svo og þeirra sem hann framfærir síðar. Sé orkutapið minna en 75% lækka bæturnar um 4% fyrir hvert 1% sem vantar á 75% örorku.
     Ef orkutap er minna en 50% er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilda lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglum er ráðuneytið setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Ella greiðist lífeyrir í hlutfalli við örorkuna.
     Örorkubætur greiðast ekki ef orkutapið er metið minna en 10%. Þó skal heimilt að greiða bætur vegna f-liðar 1. mgr. 24. gr. í þessum tilvikum í samræmi við nánari reglur sem ráðherra setur.

30. gr.

     Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því er það bar að höndum skal greiða dánarbætur sem hér segir:
 1. Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hlýtur bætur, 15.448 kr. á mánuði í 8 ár frá dánardægri hins látna. Bætur samkvæmt þessum staflið falla ekki niður þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar á ný. Nú andast ekkja eða ekkill sem bóta hefur notið samkvæmt ákvæðum þessarar greinar áður en bætur hafa verið greiddar að fullu og skulu eftirstöðvar bótanna greiddar að jöfnu börnum hinna látnu eftir sömu reglum til loka tímabilsins ef á lífi eru, ella til dánarbús hans.
 2. Barnalífeyri, 123.600 kr. á ári fyrir hvert barn, sbr. að öðru leyti 14. gr.
 3. Barn eldra en 16 ára, sem var á framfæri hins látna vegna örorku þegar slysið bar að höndum, fær bætur, eigi minni en 193.055 kr. og allt að 579.165 kr., eftir því að hve miklu leyti það naut stuðnings hins látna við fráfall hans. Þó greiðast ekki bætur ef örorka er minni en 33%.
     Bætur skv. a- og c-liðum skulu eigi vera lægri en 270.281 kr. fyrir hvert slys. Nú lætur hinn látni ekki eftir sig aðstandendur sem rétt eiga til bóta samkvæmt þessum stafliðum og skal þá bæta slysið með 270.281 kr. sem skiptist að jöfnu milli barna hins látna ef á lífi eru, en ella til dánarbús hans.
     Um fósturbörn og fósturforeldra gildir sama og um börn og foreldra.
     Frá dánarbótum, sem greiddar eru vandamönnum, ber að draga þær örorkubætur er greiddar hafa verið í einu lagi skv. 4. mgr. 29. gr. vegna sama slyss.

C. Tekjur.

31. gr.

     Útgjöld slysatrygginga skulu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi. Launþegar skv. c-lið 25. gr. skulu standa skil á iðgjöldum sínum. Þá skal árlega ákveða í fjárlögum framlag til að standast kostnað af bótum vegna þeirra sem um getur í e- og f-liðum 24. gr.
     Tryggingastofnunin skal ár hvert gera áætlun um bótagreiðslur og rekstrarkostnað slysatrygginga næsta almanaksár að meðtöldu tillagi til varasjóðs, allt að 5% af útgjöldum.
     Með reglugerð skal ákveða fast ársiðgjald af trillubátum og meiri háttar heimilisaflvélum.
     Iðgjöld til slysatrygginga, önnur en þau sem nefnd eru í 1. og 3. mgr., skulu ákveðin sem hundraðshluti af hæfilega áætlaðri stofnfjárhæð vegna hvers einstaklings.

IV. KAFLI
Sjúkratryggingar.
A. Almenn ákvæði.

32. gr.

     Sá sem átt hefur lögheimili í landinu í sex mánuði, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, og 1. mgr. 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingu, telst sjúkratryggður, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum þótt biðtíminn sé ekki liðinn.
     Börn og unglingar, 16 ára og yngri, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.
     Sjúkratryggingadeild eða hlutaðeigandi umboðsskrifstofa gefur út réttindaskírteini til hvers þess sem sjúkratryggður er.
     Ráðherra getur að fengnum tillögum tryggingaráðs sett ákvæði í reglugerð um undanþágur frá sex mánaða lögheimilisskilyrði, um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga og um starfsemi sjúkratryggingadeildar.

B. Bætur.

33. gr.

     Hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er það hlutverk sjúkratryggingadeildar:
 1. Að veita styrk til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
 2. Að veita styrk til æfingameðferðar eða þjálfunar vegna afleiðinga alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa.
 3. Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs.
 4. Að greiða kostnað við yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar á sjúkratryggingamálum.
 5. Að greiða ferðastyrk til sjúklinga sem af nauðsyn leita læknishjálpar erlendis, svo og til fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á. Tryggingaráð setur reglur um úthlutun styrkja samkvæmt þessum staflið.
 6. Að greiða kostnað samkvæmt nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.
     Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skipulag slíkra ferða auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geta notið slíkrar fyrirgreiðslu.
     Tryggingaráð setur reglur um greiðslu styrkja samkvæmt a- og b-liðum. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnuninni fyrir fram. Tryggingayfirlæknir getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis eða þjálfunar.
     Ráðherra getur ákveðið að sjúkratryggingadeild greiði:
 1. Gjald fyrir rannsóknir og læknishjálp sem Tryggingastofnunin semur um við opinberar heilbrigðisstofnanir.
 2. Kostnað samkvæmt milliríkjasamningum af sjúkrahjálp við erlenda ríkisborgara sem dveljast hér um stundarsakir.

34. gr.

     Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 32. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum, sbr. þó 35. og 39. gr. eða ákvæði sérlaga. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.

35. gr.

     Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á að vistast í erlendu sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi og greiðir þá sjúkratryggingadeild kostnað við sjúkrahúsvistina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis að lokinni sjúkrahúsvistinni þar. Ráðherra skipar nefnd sem úrskurðar um hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi, svo og hvar sjúkratryggður skuli vistaður erlendis. Nú er sjúkratryggður vistaður á öðrum og dýrari stað erlendis en nefndin hefur ákveðið og greiðir þá sjúkratryggingadeild aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað. Í nefndina skal skipa tvo yfirlækna við Landspítalann, yfirlækni á Borgarspítalanum og yfirlækni við St. Jósefsspítalann Landakoti. Tryggingayfirlæknir á sæti í nefnd þessari og skal hann vera formaður hennar. Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd málsins.

36. gr.

     Til viðbótar þeim réttindum, sem þegar eru upptalin, skulu sjúkratryggingar veita þá hjálp sem hér segir:
 1. Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnunin hefur gert samning við. Með reglugerð má ákveða gjald sem hinn sjúkratryggði greiði fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta.
 2. Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum eða stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Ráðherra hefur heimild til þess að ákveða að skilyrði fyrir greiðslu sjúkratrygginga skuli háð tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Fyrir hverja komu til sérfræðings samkvæmt tilvísun greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Með reglugerð skal sömuleiðis setja nánari reglur um notkun tilvísana, þar á meðal í hvaða tilvikum og með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins geti tekið þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum þótt sjúklingur hafi ekki tilvísun.
 3. Lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það. Eftir að lyf hefur verið skráð hér á landi skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákveða hvort sjúkratryggingar taki þátt í greiðslu viðkomandi lyfs.
 4. Röntgengreining og geislameðferð samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 900 kr. fyrir hverja röntgengreiningu.
 5. Sjúkradagpeningar skv. 38. gr.
 6. Kostnað vegna aðstoðar ljósmóður við fæðingu í heimahúsum, ákveðinn með þeim hætti sem um ræðir í 39. gr., og að auki dagpeninga, jafnháa sjúkradagpeningum, í 10 daga frá því fæðing hefst.
 7. Tannlækningar skv. 37. gr.
 8. Óhjákvæmilegan ferðakostnað læknis til þeirra sjúkratryggðu sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 100 kr. fyrir hverja ferð.
 9. Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands að 7/8 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkratryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþega- og flutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður aldrei meira en 2.400 kr. Sjúkraflutningur innan bæjar greiðist þó ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km. Sömu reglur skulu gilda um flutning sjúks manns frá sjúkrahúsi til heimilis eða dvalarstaðar, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Sé fylgd nauðsynleg greiðist 7/8 af fargjaldi fylgdarmanns, jafnvel þó að um áætlunarferð sé að ræða. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið að hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.
 10. Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar.
 11. Hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum sem Tryggingastofnun ríkisins gerir og reglum sem tryggingaráð setur.
     Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísunum. Ráðherra er með reglugerð heimilt að ákveða að gjald skv. a-, b-, c- og d-liðum skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða. Þá er ráðherra og heimilt með reglugerð að ákveða greiðsluþátttöku sjúkratryggðra fyrir sérhæfða göngudeildarþjónustu skv. b-lið.
     Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða víðtækari hjálp vegna veikinda en mælt er fyrir um í þessari grein, þar á meðal að láta réttindi til greiðslu kostnaðar við tannlækningar ná til fleiri hópa en segir í 37. gr. og ákveða með hliðsjón af ákvæðum þeirrar greinar hvernig þátttöku skuli haga í tannlækniskostnaði viðbótarhópa.

37. gr.

     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra. Í stað gjaldskrár ráðherra er Tryggingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi um tannlæknaþjónustu, alla eða að hluta, aðra en tannréttingar.
     Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:
 1. Fyrir tannlækningar barna og unglinga, 15 ára og yngri, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 75%.
 2. Fyrir tannlækningar 16 ára unglinga, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 50%.
 3. Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð hjá börnum og unglingum, 16 ára og yngri, samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
 4. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta fullrar tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en 50% kostnaðar sé tekjutrygging skert, þó er ekki greitt fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.
     Reikningi fyrir tannlæknaþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 2. mgr. skulu börn og unglingar, 15 ára og yngri, eiga kost á einni skoðun á ári hjá tannlækni sér að kostnaðarlausu.

38. gr.

     Sjúkratryggingar greiða sjúkradagpeninga ef sjúkratryggður, sem orðinn er 16 ára og nýtur ekki elli- og örorkulífeyris, verður algerlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.
     Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Þó er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur ef ljóst er að sjúklingurinn verður innan skamms annaðhvort vinnufær eða að unnt verður að ákveða örorku hans, tímabundið eða til bráðabirgða. Dagpeningar, sem nema minna en fullum sjúkradagpeningum, sbr. 4. og 5. mgr., skulu að jafnaði ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
     Sjúkratryggðir njóta sjúkradagpeninga frá og með 15. veikindadegi séu þeir óvinnufærir a.m.k. í 21 dag. Upphaf biðtímans miðast við þann dag er óvinnufærni er staðfest af lækni.
     Fullir dagpeningar skulu nema 526,20 kr. fyrir einstakling og 142,80 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 18 ára, þar með talin börn utan heimilis sem umsækjandi sannanlega greiðir með samkvæmt úrskurði stjórnvalds, staðfestu samkomulagi eða skilnaðarleyfisbréfi.
     Fullra dagpeninga njóta þeir sem fella niður heils dags launaða vinnu. Hálfra dagpeninga njóta þeir sem fella niður launaða vinnu sem nemur minna en heils dags vinnu en a.m.k. hálfs dags starfi. Sé felld niður launuð vinna sem nemur minna en hálfs dags starfi greiðast dagpeningar er nema 3/ 4 misstra launatekna, allt að hálfum dagpeningum. Launuð vinna merkir í grein þessari alla vinnu að beinni tekjuöflun, jafnt atvinnurekenda sem launþega.
     Dagpeningar vegna starfa við eigið heimili, sem falla að fullu niður vegna veikinda, skulu nema helmingi fullra dagpeninga, að viðbættum 1/ 2 hluta sannaðrar greiðslu fyrir heimilishjálp til fólks utan heimilis umfram heimilishjálp 1/ 2 dag í viku, allt að fullum dagpeningum. Slík útgjöld skulu sönnuð með skýrum kvittuðum reikningum er tilgreini vinnutíma, greidd laun og kennitölu viðtakanda. Útgjöld umfram dagvinnukaup samkvæmt taxta hlutaðeigandi stéttarfélags teljast ekki með. Umsækjandi, sem nýtur dagpeninga vegna niðurfelldrar launavinnu, fær ekki helming dagpeninga vegna niðurfalls heimilisstarfa en aftur á móti viðbót vegna útgjalda samkvæmt framanskráðu.
     Það skal ekki tálma greiðslu hálfra eða fullra dagpeninga vegna niðurfalls launaðrar vinnu skv. 5. mgr. þótt umsækjandi geti sinnt léttu heimilisstarfi.
     Nú tekur sjúklingur, sem unnið hefur heils dags launavinnu, upp allt að hálfs dags launað starf í afturbata og er þá heimilt að greiða honum hálfa dagpeninga meðan svo stendur, þó ekki lengur en í þrjá mánuði.
     Við ákvörðun dagpeninga skal að jafnaði við það miða hvernig störfum umsækjanda hefur verið háttað síðustu tvo mánuðina áður en hann varð óvinnufær. Námsfólk á ekki rétt til dagpeninga vegna forfalla frá námi, nema að því leyti sem forföllin valda töfum á að námsáfangi náist.
     Nú greiðir vinnuveitandi laun í veikindaforföllum og renna þá dagpeningagreiðslur til hans þann tíma, að undanskilinni barnaviðbót sem fellur niður, þó aldrei hærri greiðsla en nemur 3/ 4 hlutum launanna.
     Dagpeningar eru ekki greiddir þeim sem í verkfalli á, nema hann hafi átt rétt til dagpeninga áður en verkfall hófst.

39. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins gerir samninga um greiðslur samkvæmt þessum kafla. Náist ekki samningar skal gerðardómur ákveða samningskjörin. Tilnefna samningsaðilar einn gerðarmann hvor, en Hæstiréttur skipar oddamann. Verði dómurinn ekki fullskipaður þannig tilnefnir Hæstiréttur þá sem vanta kann.
     Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, svo og gjaldskrár fyrir slysa- og röntgendeildir, skulu ákveðin af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að höfðu nánu samráði við viðkomandi stofnanir. Daggjöld og gjaldskrár skulu ákveðin þannig að samanlagðar tekjur stofnunar standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að stofnunin veiti.
     Sé um sjálfseignarstofnun eða einkaaðila að ræða jafngildir það samningi ef hlítt er ákvörðun ráðherra um daggjöld er vera skulu í einu lagi fyrir vist og þjónustu. Að öðrum kosti getur Tryggingastofnunin ákveðið, þrátt fyrir ákvæði 34. gr., að sjúklingum skuli greidd tiltekin upphæð fyrir hvern legudag upp í kostnaðinn.

40. gr.

     Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því eins og um læknishjálp innan lands væri að ræða. Þetta nær þó ekki til þeirra sem samkvæmt milliríkjasamningum öðlast rétt til sjúkrahjálpar í öðru landi vegna dvalar þar að því er varðar þá sjúkrahjálp sem samningarnir fjalla um.
     Nú verður sjúkratryggður maður fyrir verulegum kostnaði vegna veikinda eða slyss erlendis og fær hann ekki endurgreiddan nema að litlu leyti frá sjúkratryggingum og er þá tryggingaráði heimilt að ákveða að sjúkratryggingadeild taki meiri þátt í slíkum kostnaði.
     Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis í aðildarríki EES-samningsins og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því samkvæmt reglum EES-samningsins á sviði almannatrygginga.

41. gr.

     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum. Slíkan samning má gera í framhaldi af útboði. Í þeim tilvikum ákveður sjúkratryggingadeild hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur sjúkratryggingadeild ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.

C. Tekjur.

42. gr.

     Kostnaður sjúkratrygginga greiðist að fullu úr ríkissjóði. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skulu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs.
     Framlag ríkissjóðs til sjúkratrygginganna greiðist Tryggingastofnun ríkisins með reglulegum greiðslum í hverjum mánuði.

V. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.
A. Bætur.

43. gr.

     Bætur samkvæmt lögum þessum teljast bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt.
     Enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum. Saman mega þó fara:
 1. Bætur til ekkju eða ekkils skv. a-lið 30. gr. og allar aðrar bætur.
 2. Barnalífeyrir og dagpeningar.
 3. Slysadagpeningar og ellilífeyrir.
 4. Örorkulífeyrir/slysalífeyrir og bætur skv. f-lið 1. mgr. 24. gr.
 5. Aðrar bætur ef svo er fyrir mælt í lögunum.
     Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni sem ekki geta farið saman má hann taka hærri eða hæstu bæturnar. Nú nýtur umsækjandi um dagpeninga annarra lægri bóta sem veittar eru til langs tíma og skulu þá dagpeningar nema mismuninum.
     Sjúkrakostnað slysatrygginga vegna manns, sem einnig er sjúkratryggður, greiða sjúkratryggingar gegn endurgreiðslu frá slysatryggingum.
     Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili sem er á föstum fjárlögum eða þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann fellur lífeyrir hans niður ef vistin hefur verið lengri en fjórir mánuðir undanfarna 24 mánuði. Tryggingaráði er þó heimilt að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á. Sé dvölin ekki greidd að fullu er heimilt að greiða lífeyri allt að því sem á vantar. Hafi hlutaðeigandi innan við 3.000 kr. í tekjur á mánuði er heimilt að greiða honum 10.170 kr. á mánuði í vasapeninga. Tekjur umfram 3.000 kr. skerða vasapeninga um 65% þeirra tekna sem umfram eru. Vasapeningar falla þó alveg niður við árstekjur sem nema 223.754 kr. Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu eða föndur er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana. Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en tvöfaldir sjúkradagpeningar hverju sinni.

44. gr.

     Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.
     Slíkt sambúðarfólk öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðaraðila slysabætur.
     Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

45. gr.

     Tryggingastofnunin getur greitt öðrum en bótaþega eða framfærslumanni bætur ef ástæða er til að ætla að bæturnar séu notaðar á þann hátt að eigi samrýmist tilgangi laganna. Slíkar ráðstafanir skulu þó að jafnaði bornar undir hlutaðeigandi sveitarstjórn eða barnaverndarnefnd ef um er að ræða barnalífeyri.

46. gr.

     Bætur, sem ætlaðar eru bótaþegum sjálfum, greiðast ekki ef hlutaðeigandi vanrækir að fara að læknisráðum eða neitar að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

47. gr.

     Umsóknir um bætur skulu ritaðar á eyðublöð er Tryggingastofnunin lætur gera. Skulu eyðublöð þessi fást í skrifstofum stofnunarinnar, hjá umboðsmönnum hennar og annars staðar, eftir því sem hentugt þykir.
     Umsækjendum er skylt að svara öllum spurningum og gefa allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að úrskurða bætur eða endurskoða bótarétt.
     Ekki verður krafist umsókna um sjúkrabætur að undanteknum sjúkradagpeningum.
     Starfsfólk Tryggingastofnunarinnar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum og starfsreglum stofnunarinnar.

48. gr.

     Allar umsóknir skulu úrskurðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna. Bætur skv. II. kafla, aðrar en lífeyrir skv. III. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.
     Bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár. Sjúkradagpeningar skulu að jafnaði eigi úrskurðaðir lengra aftur í tímann en tvo mánuði, en heimilt er Tryggingastofnun ríkisins að lengja þetta tímabil í allt að sex mánuði í tilvikum þar sem bótaréttur er að öðru leyti ótvíræður.
     Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa.

49. gr.

     Bætur skal greiða þriðja virkan dag hvers mánaðar. Þó má greiða sjúkrabætur og dagpeninga fyrir styttri tíma. Enn fremur má greiða bætur eftir á fyrir lengri tíma en einn mánuð þar sem samgöngur eru erfiðar.
     Úrskurðaðar bætur falla niður ef þær eru ekki sóttar innan 12 mánaða, en úrskurða má bætur á ný ef rökstudd umsókn berst.

50. gr.

     Nú hafa bótaþega verið greiddar hærri bætur en vera bar samkvæmt lögum þessum og á þá Tryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur honum eftir almennum reglum. Má og draga upphæðina frá bótum sem bótaþegi síðar kynni að öðlast rétt til.
     Ef greiðsla skv. 1. mgr. stafar af sviksamlegu atferli bótaþega getur Tryggingastofnunin látið hann endurgreiða allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem ofgreidd var. Hefur þetta engin áhrif á þá refsingu sem bótaþegi að öðru leyti kann að hafa bakað sér.

51. gr.

     Ef bótaþegi er dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á einhverri stofnun skulu falla niður allar bætur til hans meðan hann dvelst þar, sbr. þó síðustu málsgrein 43. gr.
     Tryggingastofnunin getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta af þeim, maka hans og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni.

52. gr.

     Óheimilt er að framselja eða veðsetja bótakröfur samkvæmt lögum þessum og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám né halda bótafé til greiðslu opinberra gjalda, annarra en iðgjalda samkvæmt lögum þessum.

53. gr.

     Nú telur Tryggingastofnun ríkisins vafa leika á um lögheimili bótaþega eða umsækjanda um bætur, sbr. lög nr. 21/1990, og er henni þá rétt að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili hans skuli vera skv. 11. gr. nefndra laga. Sjúkratryggingar hafa einnig sama rétt til að höfða mál til viðurkenningar á hvar lögheimili hans skuli vera skv. 11. gr. nefndra laga.

54. gr.

     Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 64. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.

B. Um iðgjöld, innheimtu o.fl.

55. gr.

     Iðgjöld skv. 31. gr. skal skattstjóri leggja á með tekjuskatti og eignarskatti og færa þau á skattskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, og skulu ákvæði 99. gr. þeirra laga og ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, gilda um iðgjöld eftir því sem við á.
     Í reglugerð skv. 4. mgr. 31. gr. skal kveða á um álagningu og innheimtu ársiðgjalda vegna tækja þeirra er þar greinir.
     Gjalddagar iðgjalda skulu ákveðnir í reglugerð.

56. gr.

     Iðgjöld til slysatrygginga skulu innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarsjóða eða sérstökum innheimtustofnunum. Ákvæði laga nr. 75/1981, þar á meðal um dráttarvexti og fjárnámsrétt, gilda um innheimtu iðgjalda.

57. gr.

     Iðgjöld skv. 31. gr. vegna sjómanna og iðgjöld af aflvélum samkvæmt sömu grein skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og aflvélum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.

C. Önnur ákvæði.

58. gr.

     Tekjur varasjóðs lífeyristrygginga eru vextir af höfuðstólnum og tillag skv. 1. mgr. 20. gr. Tekjur varasjóðs slysatrygginga eru vextir af höfuðstólnum ásamt tillagi skv. 2. mgr. 31. gr. Fé, sem ekki þarf að nota til dagslegs rekstrar trygginganna, skal að öðru leyti ávaxta í ríkisskuldabréfum, bankavaxtabréfum eða í lánum sem tryggð eru með ríkisábyrgð eða annarri öruggri tryggingu.

59. gr.

     Foreldri, sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með börnum sínum eða um sérstök framlög skv. 15. gr. barnalaga, nr. 20/1992, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið greiðslur samkvæmt úrskurði innan þeirra marka er 14. gr. þessara laga setur um fjárhæð meðlags og aldur barna. Sama skal gilda um foreldri sem leggur fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. III. kafla barnalaga, nr. 20/1992.
     Á sama hátt skal barnsmóðir fá samkvæmt stjórnvaldsúrskurði eða staðfestu samkomulagi greitt hjá Tryggingastofnun ríkisins:
 1. Framfærslulífeyri í allt að þrjá mánuði skv. 1. mgr. 21. gr. barnalaga, nr. 20/1992.
 2. Hjúkrunar- og framfærslustyrk í allt að níu mánuði skv. 2. mgr. 21. gr. barnalaga, nr. 20/1992.
 3. Kostnað vegna meðgöngu og fæðingar skv. 1. mgr. 22. gr. barnalaga, nr. 20/1992.
     Þegar eftir að sýslumaður hefur veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður getur hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 14. gr. þessara laga setur.
     Tryggingastofnuninni er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 14. gr. ekki við.
     Þeir sem annast framfærslu barns að foreldri látnu eða af öðrum lögmætum ástæðum, þar með talin sveitarstjórn í framfærslusveit barnsins hafi hún greitt fé til framfærslu þess, eiga sama rétt og foreldri eftir því sem við getur átt.
     Með reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, má ákveða hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.

60. gr.

     Tryggingastofnunin skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga innan eins mánaðar tilkynningu um fyrstu greiðslu skv. 59. gr. Tilkynningunni skal fylgja afrit af yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi.
     Innheimtustofnun sveitarfélaga endurgreiðir Tryggingastofnuninni greiðslur skv. 1.–3. mgr. 59. gr. mánaðarlega eftir því sem innheimtist. Um skil vegna óinnheimtra skulda fer eftir ákvæðum laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
     Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins meðlög vegna barnsfeðra sem framfærslurétt eiga erlendis, svo og meðlög greidd skv. 4. mgr. 59. gr. þar til meðlagsúrskurður liggur fyrir.

61. gr.

     Tryggingastofnunin getur tekið að sér að annast reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir einstaka lífeyrissjóði.

62. gr.

     Heimilt er Tryggingastofnuninni að taka að sér frjálsar slysatryggingar. Skal þá jafnan gefa út vátryggingarskírteini. Enn fremur getur stofnunin með samþykki ráðherra tekið að sér ábyrgðartryggingar.
     Ráðherra ákveður með reglugerð nánari tilhögun á tryggingum samkvæmt þessari grein, þar á meðal að hve miklu leyti skuli endurtryggja þá áhættu sem Tryggingastofnunin tekur á sig.

63. gr.

     Ráðherra getur ákveðið að útgerðarmönnum skuli skylt að tryggja áhættu þá vegna bótaskyldra slysa og veikinda sem þeir bera skv. 36. gr. laga nr. 35/1985, þannig að Tryggingastofnunin greiði hinum tryggða fullt kaup eða aflahlut jafnlangan tíma og sjómannalög ákveða hverju sinni.
     Halda skal tryggingum samkvæmt þessari grein reikningslega aðskildum frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Dagpeningar skv. 28. og 38. gr. skulu renna til Tryggingastofnunarinnar þann tíma sem greiðsla kaups eða aflahlutar á sér stað og skulu iðgjöld útgerðarmanna fyrir aukatryggingu þessa ákveðin með það fyrir augum að þau ásamt dagpeningunum nægi fyrir útgjöldum.

64. gr.

     Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að lögheimilistímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda lögheimilistíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 11. gr., 54. gr. og 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða.

65. gr.

     Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum og greiðslum samkvæmt 59. gr. í samræmi við það. Heimilt skal að fjárhæðir skv. 17. gr. taki sömu hlutfallsbreytingum og kveðið er á um í 1. málsl. þessarar greinar um upphæðir bóta og greiðslur skv. 59. gr. Heimilt er að breyta fjárhæðum skv. 2. mgr. 11. gr., svo og 4. mgr. 12. gr., þó þannig að aldrei komi til skerðingar lífeyris samkvæmt þessum málsgreinum hjá þeim sem rétt eiga á tekjutryggingu, skertri eða óskertri, samkvæmt ákvæðum 17. gr.

66. gr.

     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.

67. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Jafnframt eru úr gildi numin lög nr. 67/1971, með síðari breytingum. Þó skulu ákvæði laga nr. 67/1971, með síðari breytingum, um slysatryggingu ökumanna gilda til 31. desember 1993.

Ákvæði til bráðabirgða.
 1. Bætur, sem úrskurðaðar hafa verið fyrir gildistöku laga nr. 67/1971, skulu ekki skerðast vegna ákvæða II. kafla um bótagreiðslur í hlutfalli við þann tíma sem bótaþegi hefur átt lögheimili á Íslandi, sbr. þó 2. mgr.
 2.      Nú á ellilífeyrisþegi eða umsækjandi um ellilífeyri ekki lögheimili á Íslandi og skal þá einungis reikna til réttindatíma skv. 12. gr. þann tíma sem hlutaðeigandi hefur átt lögheimili á Íslandi eftir árslok 1946. Heimilt er tryggingaráði að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.
 3. Ráðherra er heimilt að fela Tryggingastofnun ríkisins að semja við atvinnufyrirtæki um að þau taki í vinnu öryrkja sem fá greiddan örorkulífeyri, örorkustyrk, endurhæfingarlífeyri eða slysaörorkubætur undir 50% og hafa vinnugetu sem ekki hefur nýst á vinnumarkaði og ekki verulegar aðrar tekjur til lífsviðurværis en bætur almannatrygginga. Skerðing bóta á starfstímabilinu fer eftir almennum skerðingarreglum á hverjum tíma. Í reglugerð skal kveða nánar á um öryrkjavinnu þessa.
 4. Á meðan vextir, verðbætur og gengishagnaður eru frádráttarbærar tekjur við ákvörðun tekjuskattsstofns skulu þessar tekjur hvorki hafa áhrif á tekjur til skerðingar elli- og örorkulífeyris, sbr. 11. og 12. gr., né tekjutryggingar, sbr. 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar.
 5. Þeir sem ákveðið hafa frestun ellilífeyris fyrir 1. janúar 1992, sbr. 11. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, skulu halda rétti sínum. Tryggingastofnun ríkisins skal breyta fjárhæðum vegna frestunarinnar til samræmis við breytingar sem verða á fjárhæðum almannatrygginga hverju sinni. Nú andast maður, sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur, fyrir 1. janúar 1992 og lætur eftir sig maka á lífi og skal þá hinn eftirlifandi maki til viðbótar eigin lífeyri eiga rétt á þeirri hækkun sem hinn látni átti rétt á vegna frestunar.
 6. Hafi tannrétting sannanlega hafist fyrir 1. nóvember 1989 skal henni lokið samkvæmt ákvæðum sem giltu fyrir 1. janúar 1990, sbr. og lokamálsgrein þessa töluliðar.
 7.      Þrátt fyrir ákvæði 37. gr. laganna skulu þeir sem njóta áttu endurgreiðslna fyrir tannréttingar á árinu 1991 samkvæmt reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar njóta þess réttar áfram, enda hafi þeir sent umsóknir sínar hér að lútandi fyrir 15. mars 1992 á þar til gerðum eyðublöðum Tryggingastofnunarinnar í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.
       Greiðslum skv. 5. tölul. skal ljúka 31. desember 1993.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 1993.