Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 716  —  477. mál.
Tillaga til þingsályktunarum náttúruverndaráætlun 2004–2008.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)    Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu til að stuðla að traustari vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Jafnframt verði á tímabilinu unnið áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Náttúruverndaráætlunin taki til eftirfarandi svæða:

I. Fuglasvæði.
    Búsvæði fugla á eftirtöldum svæðum:
     a.      Álftanes – Akrar – Löngufjörur,
     b.      Álftanes – Skerjafjörður,
     c.      Austara-Eylendið,
     d.      Guðlaugstungur – Ásgeirstungur (Álfgeirstungur),
     e.      Látrabjarg – Rauðasandur,
     f.      Vestmannaeyjar,
     g.      Öxarfjörður.

II. Stækkun þjóðgarða.
     a.      Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verði stækkaður um allt að 78 km² þannig að hann myndi samfellda heild um gljúfrin. Stækkunin nái einkum til lands austan við núverandi þjóðgarðsmörk þannig að Meiðavallaskógur, nærliggjandi svæði við norðvesturmörk hans og landræma sunnan núverandi marka verði innan þjóðgarðs.
     b.      Þjóðgarðurinn í Skaftafelli verði stækkaður um nálægt 730 km² svo að hann nái yfir allan Skeiðarársand til sjávar.

III. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Unnið verði áfram að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæða sem munu tengjast honum á grundvelli ályktunar Alþingis frá 10. mars 1999 svo og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2000.

IV. Plöntusvæði, gróðurfar og jarðfræði.
    Sjaldgæfar plöntutegundir, gróðurfar og jarðfræðiminjar á eftirtöldum svæðum:
     a.      Sjaldgæfar plöntutegundir:
             i.        Látraströnd – Náttfaravíkur,
             ii.    Njarðvík – Loðmundarfjörður.
     b.      Sérstætt gróðurfar: Vatnshornsskógur í Skorradal.
     c.      Jarðfræðiminjar:
             i.        Geysir í Haukadal,
             ii.    Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg.Fylgiskjal.


Lýsing á svæðum í náttúruverndaráætlun 2004–2008.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.Inngangur.
    Þingsályktunin hefur verið unnin á grundvelli 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, sem kveður á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. Um efni náttúruverndaráætlunar fer skv. 66. gr. náttúruverndarlaga.
    Í athugasemdum þessum er fjallað um gerð náttúruverndaráætlunar, tillögur um verndun fjórtán svæða og forsendur fyrir vali þeirra. Í viðauka eru ítarlegar lýsingar á svæðunum fjórtán.
    Með gerð náttúruverndaráætlunar til fimm ára er brotið blað í sögu náttúruverndar á Íslandi. Með henni er lagður grundvöllur að markvissari verndun náttúru Íslands en áður hefur tíðkast. Náttúruverndaráætlun 2004–2008 markar fyrsta skrefið í þá átt að koma á fót skipulögðu neti verndarsvæða hér á landi sem byggist annars vegar á vísindalegum gagnagrunnum um náttúru Íslands og hins vegar á faglegu mati á verndargildi þeirra.
    Áætlunin var unnin í tveimur áföngum. Fyrst var unnin ítarleg tillaga að náttúruverndaráætlun á vegum Umhverfisstofnunar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og aðrar fagstofnanir þar sem gerð var tillaga um friðlýsingu 77 svæða sem ætti að tryggja verndun þeirra tegunda fugla og plantna sem helst eru verndarþurfi á landinu, verndun helstu flokka jarðminja, mikilvægustu birkiskóga landsins og mikilvægra vatnakerfa. Í endanlegri tillögu Umhverfisstofnunar til umhverfisráðherra, sem ber heitið Náttúruverndaráætlun, aðferðafræði – Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar, er lagt til að 75 svæði verði vernduð, en þar er hins vegar ekki að finna forgangsröðun á friðlýsingu svæðanna eða tímasetta framkvæmdaröð. Tillaga Umhverfisstofnunar gefur á hinn bóginn heildarmynd af stöðu mála og hvaða svæði stofnunin telur að skoða beri þegar til lengri tíma er litið. Tillögum Umhverfisstofnunar hefur verið dreift til þingmanna á Alþingi.
    Síðari áfangi verksins fólst í ítarlegri yfirferð tillagna Umhverfisstofnunar og með því mótun náttúruverndaráætlunar til næstu fimm ára fyrir tímabilið 2004–2008. Umhverfisráðherra kom á og kynnti sér nær öll svæðin 75, sem er að finna í tillögum Umhverfisstofnunar, og fundaði með heimamönnum um mögulega verndun þeirra. Í kjölfar þess voru drög að náttúruverndaráætlun 2004–2008 unnin í umhverfisráðuneytinu og lögð fram til kynningar og umræðu á 3. umhverfisþingi sem haldið var 14. og 15. október 2003.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lagt til að unnið verði að verndun 14 svæða, þar sem tekið er tillit til mikilvægis þeirra fyrir náttúruvernd, aðsteðjandi ógna og óska heimamanna, en þó einnig með það að leiðarljósi að festa í sessi tiltekna aðferðafræði við svæðisbundna náttúruvernd sem uppfyllir skyldur Íslands á alþjóðavettvangi. Friðlýsing krefst töluverðrar undirbúningsvinnu ef tryggja á að hún skili árangri, hana þarf að vinna í sem mestri sátt við heimamenn og hún þarf að falla sem best að áætlunum um aðra landnotkun. Friðlýst svæði skiptast í fimm mismunandi flokka eftir eðli, tilgangi og markmiði friðlýsingar skv. 50. gr. náttúruverndarlaga:
     a.      þjóðgarðar,
     b.      friðlönd,
     c.      náttúruvætti,
     d.      tegundir lífvera og búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi og
     e.      fólkvangar.
    Í einstökum friðlýsingum eru settar reglur um landnotkun eftir því hvaða áhrif hún hefur á hið friðlýsta svæði. Friðlýsing svæðis vegna einstakra lífvera og líffræðilegrar fjölbreytni þarf þannig að fullnægja þörfum viðkomandi tegunda til vaxtar og viðkomu en um leið er hægt að stunda aðra landnotkun sem ekki fer gegn markmiðum friðlýsingarinnar. Stofnun þjóðgarðs er í eðli sínu þannig að strangar reglur gilda um aðra landnotkun þar sem meginmarkið með stofnun þjóðgarða er að veita fólki aðgang að svæðum þar sem náttúra landsins fær að þróast eftir eigin lögmálum án verulegrar íhlutunar mannsins. Á öðrum svæðum þarf friðlýsing ekki að koma í veg fyrir aðra landnotkun ef hún gengur ekki í berhögg við tilgang og markmið friðunar. Einnig er rétt að leggja áherslu á að það þarf nauðsynlegt fjármagn til að treysta framkvæmd friðlýsingar og eftirlit með að skilyrði hennar séu uppfyllt og að friðuð svæði verði ekki fyrir skemmdum eða áníðslu, eftir atvikum á hverju svæði.
    Einn helsti ávinningur af gerð náttúruverndaráætlunar er að lögð er fram skýrari stefnumörkun (forgangsröðun) við náttúruvernd en áður á grundvelli faglegra sjónarmiða. Annar ávinningur er efling lýðræðislegrar umræðu um náttúruvernd og framkvæmd hennar. Með því að gefa sveitarfélögum, stofnunum og hagsmunaaðilum kost á að senda inn umsagnir um tillögur Umhverfisstofnunar fékkst betri mynd af vilja heimamanna á hverju svæði og annarra til náttúruverndar. Auk þess voru umræður um náttúruverndaráætlun 2004–2008 á Umhverfisþingi til þess fallnar að efla umræðu um náttúruvernd og þátttöku sem flestra í stefnumörkun á því sviði.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lagt til að stærri skref í friðlýsingu svæða verði stigin næstu fimm árin en gert hefur verið áður. Þrjú verkefni ber hæst í náttúruvernd á þessu tímabili: Komið verði á heildstæðu neti verndaðra fuglasvæða með alþjóðlegt verndargildi, unnið verði að stækkun tveggja núverandi þjóðgarða og undirbúin verði stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndun svæða sem tengjast honum, en ákvörðun um Vatnajökulsþjóðgarð hefur þegar verið tekin af ríkisstjórn á grundvelli þingsályktunar. Að auki verður unnið að friðlýsingu nokkurra svæða þar sem er að finna sjaldgæfar plöntutegundir, náttúrulegan birkiskóg og sérstæðar jarðmyndanir. Nánari útlistun á þessum verkefnum og þeim forsendum sem liggja að baki þeim er að finna hér á eftir.

Framkvæmd náttúruverndar til þessa.
    Á Íslandi er um 90 ára hefð fyrir friðun einstakra náttúruminja, en íslenski hafarnarstofninn var friðlýstur með lögum um fuglafriðun í ársbyrjun 1914. Ef frá eru tekin landgræðslu- og skógræktarsvæði má rekja upphaf svæðisbundinnar náttúruverndar til 1928 þegar Þingvellir voru friðlýstir með sérlögum sem helgistaður allrar þjóðarinnar. Friðlýst svæði voru fá fram undir 1970 en fjölgaði mjög á áttunda áratugnum í kjölfar breytinga á lögum um náttúruvernd og eru nú 91 talsins.
    Miklar breytingar hafa orðið á stjórnsýslu náttúruverndarmála síðastliðin 13 ár. Stofnun umhverfisráðuneytisins árið 1990 markaði tímamót, en nokkur tími leið áður en stjórnsýslu náttúruverndarmála var breytt frá fyrra horfi. Með lögum nr. 93/1996, um náttúruvernd, var Náttúruverndarráð lagt niður og Náttúruvernd ríkisins stofnuð. Með lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, var stjórn Náttúruverndar ríkisins lögð niður. Náttúruvernd ríkisins var svo sameinuð fleiri stofnunum á sviði umhverfismála í eina stofnun, Umhverfisstofnun, sem tók til starfa í ársbyrjun 2003.
    Friðlýsingar hafa verið framkvæmdar ýmist samkvæmt ákvæðum gildandi laga um náttúruvernd eða á grundvelli sérlaga, en ekki hefur verið gerð heildstæð áætlun um svæðisbundna náttúruvernd fyrr en nú. Friðlýsingar hafa oftast verið gerðar á grundvelli augljósra verndarhagsmuna, byggðar á tiltækri þekkingu hvers tíma á náttúru landsins, en huglægir þættir eins og fegurðarsjónarmið hafa verið hafðir til hliðsjónar. Þessu til viðbótar hafa yfirvöld náttúruverndarmála látið gera náttúruminjaskrá sem hefur að geyma upplýsingar um friðlýstar náttúruminjar og aðrar náttúruminjar sem hafa sérstakt gildi og ástæða er til að vernda. Núgildandi náttúruminjaskrá var gefin út árið 1996 (7. útgáfa) samkvæmt náttúruverndarlögum frá 1971. Í henni eru skráð 324 svæði sem ástæða þykir til að vernda, þar af eru sjö svæði sem hafa verið friðlýst að hluta eða í heild á síðustu árum. Heildarflatarmál þessara 324 svæða er 17.145 km² eða 16,6% af flatarmáli landsins. Ný náttúruminjaskrá verður unnin í kjölfar umfjöllunar Alþingis um náttúruverndaráætlun þar sem meðal annars verða hafðar til hliðsjónar fyrrnefndar tillögur Umhverfisstofnunar sem liggja til grundvallar náttúruverndaráætlun 2004–2008.

Alþjóðlegar skuldbindingar.
    Hugmyndafræði náttúruverndar nú á tímum kristallast í nokkrum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, ekki síst í Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu frá 1993 og alþjóðasamningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 1992. Þessir samningar leggja sérstaka áherslu á skráningu, vernd og uppbyggingu náttúrulegra vistkerfa, tegunda og búsvæða. Hverju aðildarríki ber að koma á fót neti verndarsvæða sem til samans tryggja lágmarksvernd líffræðilegrar fjölbreytni þess ríkis. Traustar upplýsingar um náttúrufar og náttúruminjar skulu liggja til grundvallar vali á hverju svæði og netið skal byggt upp skipulega þannig að hvert nýtt svæði sem bætist við netið auki heildarfjölbreytni náttúruminja sem njóta verndar.
    Aðrir samningar eru einnig hluti af þeim alþjóðlega grunni sem náttúruvernd byggist á, svo sem Ramsarsamningurinn um votlendi frá 1971, en hann og hugmyndafræðin sem hann byggist á hefur verið veigamikill þáttur í íslenskri náttúruvernd. Markmið samningsins er að vernda votlendissvæði heimsins, sérstaklega sem lífsvæði fyrir votlendisfugla. Hverju aðildarríki ber að tilnefna a.m.k. eitt alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði, friðlýsa það og sjá um að það njóti fullnægjandi verndar. Á Íslandi hafa þrjú svæði verið tilnefnd sem Ramsarsvæði og eru þau öll friðlýst: Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður. Einnig ber að nefna samninginn um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins frá 1972, en hlutverk hans er fyrst og fremst að tryggja að verðmætum menningar- og náttúruminjum verði ekki spillt og það verði sameiginleg ábyrgð þjóða heims að vernda þær. Sérstaða samningsins er sú að hann setur menningar- og náttúruminjar undir einn hatt. Samkvæmt honum skal semja heimsminjaskrá um einstæð mannvirki, sögustaði og náttúruminjar sem telja má hluta af sameiginlegum arfi mannkyns. Ísland hefur tilnefnt eitt menningarminjasvæði á skrána, Þingvelli, auk þess sem undirbúningur er hafinn að tilnefningu þjóðgarðsins í Skaftafelli sem náttúruminja- og menningarsvæðis. Að auki byggist náttúruvernd á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum og verndarviðmiðum sem m.a. Alþjóðanáttúruverndarsamtökin (IUCN) og Alþjóðafuglaverndarsamtökin (BirdLife International) hafa skilgreint.
    Breytt hugmyndafræði hefur getið af sér nýjar vinnuaðferðir við svæðisbundna náttúruvernd. Þessar vinnuaðferðir eru meðal annars skilgreindar í Natura 2000, verkefni Búsvæðatilskipunar Evrópusambandsins, og í Emerald Network, verkefni Bernarsamningsins, sem nær til allra Evrópulanda og Ísland er aðili að. Í stuttu máli felast þessar vinnuaðferðir í því að byrja á að skilgreina og skrásetja náttúruminjar sem þarfnast verndar og síðan tryggja tiltekna lágmarksvernd þeirra með neti friðlýstra svæða. Náttúruminjar sem notaðar eru til grundvallar eru einkum vistgerðir og tegundir sem þarfnast verndar. Í Bernarsamningnum og búsvæðatilskipun Evrópusambandsins eru viðaukar sem tilgreina þær náttúruminjar (tegundir og vistgerðir) sem ástæða þykir til að vernda sérstaklega.
    Alþjóðlegt samstarf um vernd jarðfræðiminja og landslags er skemmra á veg komið en það sem lýtur að vernd lífríkisins. Evrópuráðið hefur þó nýlega samþykkt sérstakan landslagssáttmála sem staðfestur hefur verið af 26 aðildarríkjum. Jafnframt er unnið á vegum Evrópuráðsins, að frumkvæði Íslands, að því að skilgreina jarðmyndanir sem þarfnast verndar. Mikil umræða fer nú fram í Evrópu og á alþjóðavettvangi um vernd strand- og hafsvæða og má búast við að alþjóðleg náttúruverndarumræða um málefni hafsins eflist á komandi árum.

Undirbúningur náttúruverndaráætlunar.
    Undirbúningur náttúruverndaráætlunar hófst árið 2000 á vegum Náttúruverndar ríkisins, en árið 2001 var myndaður vinnuhópur skipaður fulltrúum Náttúruverndar ríkisins [Umhverfisstofnunar], Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfisráðuneytisins í því skyni að leggja grunn að aðferðafræði sem notuð skyldi við gerð áætlunarinnar með það að leiðarljósi að uppfylla sem best ákvæði laga um náttúruvernd og alþjóðlegar skyldur Íslands á sviði náttúruverndar. Í kjölfarið hóf Náttúrufræðistofnun Íslands skipulega greiningu á tiltækum upplýsingum til þess að leggja mat á hvaða tegundir eru í hættu og hverjar sé mikilvægt að vernda. Samhliða því hófu Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins skipulega vinnu við að flokka jarðminjar á Íslandi og meta verndarstöðu þeirra. Niðurstaða þessarar vinnu og tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands liggja fyrir í tveimur skýrslum sem lagðar voru til grundvallar tillögum Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun. Skýrslur Náttúrufræðistofnunar Íslands eru annars vegar Verndun tegunda og svæða sem tekur til lífríkis og vistgerða og hins vegar Verndun jarðminja á Íslandi. Auk þess var leitað eftir tillögum og ábendingum frá öðrum stofnunum sem stunda rannsóknir á náttúru Íslands og menningarminjum og einnig frá sveitarfélögum. Skógrækt ríkisins lagði áherslu á verndun sérstæðra náttúrlegra birkiskóga. Veiðimálastofnun lagði áherslu á verndun vatnakerfa frá sjónarhóli lífauðgi og stöðu fisktegunda. Nokkur sveitarfélög komu einnig með tillögur að friðlýsingu svæða.
    Samtals bárust þannig 119 tillögur eða ábendingar um svæði sem ástæða þótti til að fjalla um í náttúruverndaráætlun. Út frá þeim vann Umhverfisstofnun, í samvinnu við Náttúrufræðistofnun, ítarleg drög að náttúruverndaráætlun og sendi þau til umsagnar í maí 2003 til allra sveitarfélaga, fagstofnana á sviði náttúruvísinda og félagasamtaka. Ákveðið var að birta drögin á heimasíðu Umhverfisstofnunar og gat þá hver sem er gert athugasemdir. Viðbrögð við drögum að náttúruverndaráætlun urðu mikil og fjöldi athugasemda barst. Umhverfisstofnun hefur farið yfir allar athugasemdir og tekið tillit til þeirra eins og kostur var en endanleg tillaga stofnunarinnar ber heitið Náttúruverndaráætlun, aðferðafræði – Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar.
    Í tillögum Umhverfisstofnunar er fjallað um 75 svæði sem ástæða þykir til að vernda. Friðlýsing svæðanna ásamt friðlýsingu sjaldgæfra tegunda plantna mun að mati stofnunarinnar marka fyrsta skrefið í þá átt að koma upp neti verndarsvæða á Íslandi og um leið tryggja vernd nokkurra þeirra tegunda fugla og plantna sem helst eru verndarþurfi, vernd helstu flokka íslenskra jarðminja, mikilvægustu náttúrlegu birkiskóga landsins og mikilvægra vatnakerfa. Tillögur um svæðisbundna friðun eru fæstar nýjar því að 66 svæðanna (88%) eru að hluta til eða í heild sinni á náttúruminjaskrá og sum jafnframt nefnd í öðrum heimildum.
    Svæðistillögurnar 75 skiptast á sjö landshluta á eftirfarandi hátt: Suðvesturland, níu svæði; Vesturland, sjö svæði; Vestfirðir, þrjú svæði; Norðurland vestra, átta svæði; Norðurland eystra, tólf svæði; Austfirðir, átján svæði og Suðurland, sextán svæði. Að auki er eitt svæði sem tilheyrir bæði Suður- og Vesturlandi og annað sem tilheyrir bæði Suður- og Suðvesturlandi.

Meðferð tillagnanna í umhverfisráðuneytinu.
    Náttúruverndaráætlun 2004–2008 er byggð á sama grunni og aðferðafræði og tillögur Umhverfisstofnunar þó að áætlunin nái aðeins til hluta þeirra svæða sem fjallað er um í tillögum Umhverfisstofnunar. Friðlýsing er hins vegar vandasamt ferli sem krefst samkomulags við eigendur og notendur lands og viðkomandi sveitarfélög. Náttúruverndaráætlun til fimm ára þarf að taka tillit til þessa og forgangsraða svæðum út frá þeim forsendum sem yfirvöld umhverfismála telja brýnastar og tilgreindar eru í næsta kafla. Tillögur Umhverfisstofnunar eru því fyrst og fremst stefnumörkun um svæði, sem helst ættu að njóta verndar vegna sérstæðs náttúrufars, sem liggur til grundvallar þessari áætlun og náttúruverndaráætlunum í framtíðinni.
    Umhverfisráðherra hefur ásamt starfsmönnum umhverfisráðuneytisins og starfsmönnum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands komið á nær öll svæðin 75 sem er að finna í tillögu Umhverfisstofnunar og hefur haldið fundi með heimamönnum í öllum landshlutum í því skyni að kynna tillögurnar og fá viðbrögð við þeim og ábendingar um framkvæmd friðlýsinga í kjölfar þeirra. Slíkar ábendingar hafa ásamt formlegum umsögnum um drög að tillögu Umhverfisstofnunar gagnast vel við gerð náttúruverndaráætlunar 2004–2008 og aukið umræðu um náttúruvernd á umræddum landsvæðum.

Meðferð tillagnanna á umhverfisþingi.
    Drög umhverfisráðuneytisins að náttúruverndaráætlun 2004–2008 voru lögð fram á 3. umhverfisþingi sem haldið var dagana 14. og 15. október 2003. Drög að náttúruverndaráætlun voru kynnt og þær forsendur sem lágu að baki henni. Markmiðið með þessari kynningu var að skapa umræðu um áætlunina sjálfa og um náttúruvernd á Íslandi, sem og að gefa þátttakendum á umhverfisþingi tækifæri til að hafa áhrif á gerð náttúruverndaráætlunar 2004–2008. Miklar umræður urðu um áætlunina en helsta gagnrýnin sem fram kom var sú að erfitt væri að taka afstöðu til friðlýsingar tiltekinna svæða fyrr en afmörkun þeirra og friðlýsingarskilmálar lægju fyrir. Slík útfærsla á svæðunum fellur undir framkvæmd sjálfrar áætlunarinnar og er hluti af viðræðum sem munu eiga sér stað við viðkomandi landeigendur, sveitarfélög og aðra sem eiga hagsmuna að gæta.

Náttúruverndaráætlun 2004–2008: Friðlýsing 14 svæða og forsendur hennar.
    Náttúruverndaráætlun 2004–2008 er byggð á faglegri úttekt Umhverfisstofnunar. Í áætluninni er lagt til að friðlýsa 14 svæði á tímabilinu 2004–2008, en í því er meðtalin stækkun á þjóðgörðunum í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli. Þau svæði sem lagt er til að friðlýst verði eru:

Austara-Eylendið, Látraströnd – Náttfaravíkur,
Álftanes – Akrar – Löngufjörur, Njarðvík – Loðmundarfjörður,
Álftanes – Skerjafjörður, Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg,
Geysir í Haukadal, Skeiðarársandur,
Guðlaugstungur – Ásgeirstungur, Vatnshornsskógur í Skorradal,
Jökulsárgljúfur, Vestmannaeyjar,
Látrabjarg – Rauðasandur, Öxarfjörður.

    Auk þessa verður á tímabilinu unnið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsingu svæða sem tengjast honum, í samræmi við þingsályktunartillögu sem samþykkt var 10. mars 1999 á 123. löggjafarþingi og ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá árinu 2000 í þá veru.
    Mismunandi forsendur liggja að baki þess að ástæða er talin til þess að friðlýsa viðkomandi svæði og stundum er um að ræða samspil margra þátta. Lögð voru tiltekin viðföng (líffræðileg fjölbreytni, jarðfræðileg fjölbreytni, landslag, menningarminjar o.fl.) til grundvallar og þau metin út frá verndarviðmiðum, svo sem hvort sjaldgæfar tegundir lífvera finnist á svæðinu, hvort svæðið sé óvenjutegundaríkt eða viðkvæmt fyrir röskun, hvort það sé nauðsynlegt til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda eða mikilvægt fyrir viðhald náttúrulegra þróunarferla, hvort það hafi alþjóðlegt verndargildi eða sé einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta.
    Ákveðið var að vinna að þremur stórum verkefnum í náttúruvernd á tímabilinu 2004–2008 þótt í þessari áætlun sé einnig að finna tillögur að friðlýsingum sem ekki tengjast þessum meginverkefnum. Þessi verkefni eru:
     1.      Að koma upp heildstæðu neti friðaðra fuglasvæða sem hafa verndargildi á alþjóðavísu.
     2.      Stækkun tveggja þjóðgarða.
     3.      Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsing svæða sem munu tengjast honum.
    Hér verður gerð grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og því lýst hvernig verndun einstakra svæða fellur að viðkomandi verkefni og hvaða forsendur liggja til grundvallar við val á þeim.

Friðlýsing fuglasvæða.
    Í þingsályktunartillögu þessari um náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lögð áhersla á að festa í sessi nýja aðferðafræði við svæðisbundna náttúruvernd sem á rætur að rekja til breyttrar hugmyndafræði í málaflokknum. Í stuttu máli felst hún í því að skilgreina og skrásetja náttúruminjar sem þarfnast verndar og tryggja lágmarksvernd þeirra í neti friðlýstra svæða. Þetta er gert í áætluninni annars vegar með verndun tveggja af stærstu bjargfuglabyggðum landsins en hins vegar með því að koma á fót neti friðaðra svæða sem tekur til búsvæða fimm fuglategunda sem Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á samkvæmt viðmiðum sem finna má í Bernarsamningnum og fleiri alþjóðlegum samþykktum. Um er að ræða tvær tegundir sjaldgæfra fuglategunda, flórgoða og haförn, og tvær tegundir fargesta, margæs og rauðbrysting, auk heiðagæsar.
    Flórgoði er á válista og áætlað er að í íslenska varpstofninum séu rúmlega fimm hundruð varppör. Rúmlega helmingur (53%) verpir á friðlýstum svæðum. Í náttúruverndaráætlun er lagt til að vernda tvö svæði sem eru mikilvæg búsvæði fyrir flórgoða, Öxarfjörð og Austara- Eylendið. Með friðlýsingu svæðanna á um 80% flórgoðastofnsins að eiga öruggt varpsvæði til frambúðar.
    Haförn er sjaldgæfur varpfugl hér á landi og er á válista. Varpstofninn nemur um 50 pörum og verpa þau öll á vestanverðu landinu. Um 76% stofnsins verpir á friðlýstum svæðum og í náttúruverndaráætlun er lagt til að friðlýsa einnig svæðið Álftanes – Akrar – Löngufjörur. Með friðlýsingu þess munu 90% hafarna verpa á friðlýstum svæðum.
    Margæs og rauðbrystingur eru fargestir sem hafa viðdvöl hér á landi á leið sinni til og frá norðlægum varpstöðvum og eru viðkomustaðirnir afar mikilvægir til þess að þeir nái að byggja upp forða fyrir varp og hið langa farflug. Nánast allar margæsir af Íslands- Kanadastofni og margæsir af deilitegundinni Branta bernicla hrota, sem hefur vetursetu í Evrópu, koma við hér á landi og tæplega 80% rauðbrystingsstofnsins af deilitegundinni Calidris canutus islandica. Áætlað er að um 47% margæsa og 64% rauðbrystinga sem hafa viðdvöl hér á landi komi við á svæðum sem þegar njóta einhvers konar friðunar og í náttúruverndaráætlun eru gerðar tillögur um verndun tveggja svæða til viðbótar sem tegundirnar nýta sér. Þessi svæði eru: Álftanes – Skerjafjörður og Álftanes – Akrar – Löngufjörur. Friðlýsing þessara svæða mun tryggja örugg búsvæði fyrir 65–73% margæsa og 71% rauðbrystinga sem hafa viðdvöl hér á landi.
    Heiðagæs er algengur varpfugl á hálendi Íslands og mjög stór hluti stofnsins á heimsvísu verpir eða hefur viðkomu hér á landi, eða um 90%. Um 35.000 pör verpa hér á landi, en heiðagæsin verpir hvergi nema hér á landi og á Grænlandi og Svalbarða. Í Guðlaugstungum – Ásgeirstungum verpa allt að 2.000 pör, eða um 4% af heiðagæsastofninum í Evrópu. Svæðið telst því alþjóðlega mikilvægt varpland heiðagæsar. Í Guðlaugstungum – Ásgeirstungum eru víðfeðm votlendi og þar er þéttara fuglavarp en áður hefur mælst á hálendinu. Með friðlýsingu svæðisins munu um 25% af íslenska heiðagæsastofninum verpa innan friðlýstra svæða.
    Að auki er lagt til í náttúruverndaráætlun að vernda tvær af stærstu sjófuglabyggðum landsins, Látrabjarg – Rauðasand og Vestmannaeyjar. Í fyrirhuguðu verndarsvæði á Látrabjargi og Rauðasandi verpa um 60% af álkustofninum hér við land, um 30% af langvíu og 20% af stuttnefju. Í Látrabjargi er stærsta álkubyggð í heimi og fuglabjörgin innan fyrirhugaðs verndarsvæðis eru hin mestu við Norður-Atlantshaf. Látrabjarg er vestasta fuglabjarg í Evrópu. Í Hafnarvaðli og Rauðasandi eru einnig leirur og skeljasandsfjörur með fjölbreyttu fuglalífi. Í Vestmannaeyjum verpa um 40% íslenska lundastofnsins, 35% súlustofnsins og þar verpa einnig tegundir sjófugla sem vart finnast annars staðar á landinu, þ.e. skrofa, sjósvala og stormsvala. Lagt er til að fuglabjörg og eyjar verði friðlýst sem búsvæði fugla, en innan verndarsvæðisins verpa yfir milljón pör sjófugla og í Vestmannaeyjum er stærsta sjósvölubyggð í Evrópu.
    Með friðun þessara sjö svæða, auk þeirra svæða sem áður hafa verið friðlýst, hefur að stærstum hluta náðst að vernda búsvæði nokkurra fuglategunda sem Ísland ber sérstaka ábyrgð á að viðhalda samkvæmt alþjóðasamningum og viðmiðum alþjóðlegra náttúruverndarsamtaka. Nákvæmari upplýsingar um verndargildi einstakra svæða út frá þessum forsendum er að finna í viðauka við áætlunina.

Stækkun þjóðgarða í Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli.
    Þjóðgarðarnir skipa sérstakan sess í náttúruvernd á Íslandi. Til þeirra hefur verið stofnað þar sem ástæða þykir að vernda landslag eða lífríki sem skipar sérstakan sess, jafnvel á alþjóðavísu, eða þá að á svæðinu hvíli söguleg helgi. Þeir gegna meðal annars því hlutverki að auðvelda almenningi aðgang að náttúru landsins, með stígagerð og öðrum aðgerðum sem stuðla að bættu aðgengi og með skipulögðu fræðslustarfi. Nú eru þrír þjóðgarðar á Íslandi friðlýstir á grundvelli náttúruverndarlaga: þjóðgarðurinn í Skaftafelli, þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Fjórði þjóðgarðurinn og sá elsti, Þingvellir, er friðlýstur sem helgistaður þjóðarinnar samkvæmt sérlögum.
    Í náttúruverndaráætlun er gert ráð fyrir að stækka tvo þjóðgarða, í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Gert er ráð fyrir að þjóðgarðurinn í Skaftafelli verði stækkaður svo hann nái yfir allan Skeiðarársand til sjávar, en með því stækkar hann um nálægt 730 km². Skeiðarársandur er mesti sandur hérlendis sem myndaður er af framburði jökuláa, en sandflæmi þannig mynduð eru fágæt á jörðinni utan Íslands. Með Skeiðarársandi mun þjóðgarðurinn í Skaftafelli mynda samfellda heild frá jökli til sjávar sem segja má að sé einstök á heimsvísu. Fulltrúar heimsminjaskrár UNESCO hafa m.a. bent á að æskilegt sé að Skeiðarársandur sé hluti af þjóðgarðinum þegar óskað verður eftir tilnefningu Skaftafells á heimsminjaskrána. Í viðbót við þessi meginrök hefur Skeiðarársandur verndargildi sem eitt helsta látur landsels og útsels og sem eitt stærsta skúmsvarp á landinu. Þar verpir einnig mikill hluti þórshanastofnsins sem telur aðeins um 30 varppör á landinu.
    Lagt er til að þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verði stækkaður um 78 km² þannig að hann myndi samfellda heild um gljúfrin. Núverandi mörk þjóðgarðsins í austri liggja um miðja Jökulsá á Fjöllum. Stækkunin nær einkum til lands austan við núverandi þjóðgarðsmörk. Einnig er lagt til að Meiðavallaskógur, nærliggjandi svæði við norðvesturmörk hans og landræma sunnan núverandi marka verði innan þjóðgarðs. Með stækkun þjóðgarðsins verða innan hans fornir hlaupfarvegir Jökulsár, fjölbreytilegar jarðmyndanir og ríkulegur gróður. Nákvæmari upplýsingar um verndargildi einstakra svæða út frá þessum forsendum er að finna í viðauka við áætlunina.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndun svæða sem tengjast honum.
    Á grundvelli þingsályktunartillögu sem samþykkt var 10. mars 1999 á 123. löggjafarþingi ákvað ríkisstjórnin árið 2000 að stofna Vatnajökulsþjóðgarð sem í fyrstu næði eingöngu til jökulhettunnar. Í umhverfisráðuneytinu hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning þessa máls þar sem lögð hefur verið áhersla á kynningu í nærliggjandi sveitum og samráð við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila.
    Vinna skal áfram að stofnun þjóðgarðsins og á tímabilinu verður unnið að verndun svæða sem munu tengjast þjóðgarðinum eða jafnvel verða hluti af honum.
    Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er eitt stærsta skref í náttúruvernd sem stigið verður á Íslandi og verður hann stærsti þjóðgarður Evrópu. Sú heild sem myndast með þjóðgarðinum og öðrum friðuðum svæðum við jaðra hans verður einstakt svæði á heimsvísu. Þar hvílir stærsti jökull Evrópu ofan á einu öflugasta eldvirknissvæði jarðar. Samspil elds og íss hefur skapað fjölbreyttar jarðminjar og virkni landmótunarafla er sýnilegri og aðgengilegri en á flestum eða öllum öðrum stöðum í heiminum.
    Umhverfisráðherra skipaði í febrúar árið 2003 nefnd um undirbúning Vatnajökulsþjóðgarðs sem á að vera ráðuneytinu og Umhverfisstofnun til ráðgjafar. Í þeirri nefnd eiga sæti, undir formennsku fulltrúa Umhverfisstofnunar, fulltrúar umhverfisverndarsamtaka, Ásahrepps, Fljótsdalshrepps, Norður-Héraðs, Skaftárhrepps, Skútustaðahrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Þingeyjarsveitar, ferðamálasamtaka Austurlands, ferðamálasamtaka Norðurlands eystra og ferðamálasamtaka Suðurlands. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum og drögum að reglugerð fyrir þjóðgarðinn fyrir árslok 2003.
    Umhverfisráðherra skipaði í október árið 2002 nefnd undir formennsku ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, sem í eiga sæti fjórir fulltrúar þingflokka, sem á að gera tillögur um verndarsvæði norðan Vatnajökuls. Þessi verndarsvæði munu tengjast náið væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði eða verða hluti hans. Er þess að vænta að nefndin skili tillögum á árinu 2004.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er gert ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði stofnaður á tímabilinu, en ekki er fjallað nánar um stofnun hans eða hugsanlega friðlýsingu svæða sem tengjast honum þar sem þau verkefni eru í skýrum farvegi í starfi framangreindra nefnda. Það er þó ljóst að tillögur Umhverfisstofnunar sem liggja að baki náttúruverndaráætlun munu verða nefndunum tveimur gagnlegt leiðarljós í vinnu þeirra.
    Þau svæði sem er að finna í tillögu Umhverfisstofnunar og tengjast Vatnajökli eru: Kverkfjöll – Krepputunga, Eyjabakkar – Vesturöræfi, Austurskógar í Lóni, Fjalllendi við Hoffellsjökul, Steinadalur, Breiðamerkursandur – Kvíármýrarkambur og Skaftáreldahraun. Líklegt má teljast að einhver þessara svæða verði friðlýst á tímabilinu 2004–2008 eða fljótlega eftir það, en ekki er fjallað um það nánar í þessari áætlun af framangreindum ástæðum.

Plöntusvæði, gróðurfar og jarðfræði.
    Auk þessa eru nokkur svæði sem ekki falla undir fyrrgreindar skilgreiningar en ástæða er talin til að friðlýsa á næstu fimm árum samkvæmt þessari áætlun. Þessi svæði eru: Geysir í Haukadal, Látraströnd – Náttfaravíkur, Njarðvík – Loðmundarfjörður, Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg og Vatnshornsskógur.
    Lagt er til að Látrastönd – Náttfaravíkur og Njarðvík – Loðmundarfjörður verði friðlýst fyrst og fremst vegna gildis þeirra fyrir verndun sjaldgæfra plöntutegunda. Þetta eru þau tvö svæði á landinu þar sem flestar tegundir sjaldgæfra plöntutegunda er að finna. Í væntanlegu verndarsvæði í Njarðvík – Loðmundarfirði er að finna 32 tegundir háplantna sem eru sjaldgæfar á Íslandi. Átta þeirra teljast verndarþurfi, þar af eru fimm tegundir á válista og fimm eru alfriðaðar. Þá eru á svæðinu fimm sjaldgæfar fléttutegundir sem allar þarfnast verndar, þar af eru fjórar á válista. Svæðið einkennist af fjölbreyttum og sums staðar sérstæðum gróðri, litríkum bergmyndunum og svipmiklu landslagi. Í væntanlegu verndarsvæði Látraströnd – Náttfaravíkur er að finna 30 tegundir háplantna sem eru sjaldgæfar og þarfnast 12 þeirra verndar. Af þeim eru fimm á válista og fjórar friðlýstar. Á svæðinu eru einnig allmargar aðrar sjaldgæfar plöntutegundir. Gróðurfar er gróskumikið og landslag fjölbreytt. Bæði þessi svæði hafa notið vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði með mikilfenglegu landslagi og menningarminjum.
    Að auki er lagt til að eitt svæði til viðbótar verði friðlýst vegna gróðurfars, en það er Vatnshornsskógur í Skorradal. Skógurinn er lítt snortinn gamall birkiskógur þar sem birki er óvenjuhávaxið samanborið við annað birki á Vesturlandi. Friðlýsing skógarins er til marks um mikilvægi þess að vernda og endurheimta náttúrulega birkiskóga og vilja yfirvalda náttúruverndarmála til að vinna að því verkefni. Það mun verða gert í samvinnu við Skógrækt ríkisins sem hefur verndað og girt af marga skóga og kjarrlendi samkvæmt reglum um skógvernd.
    Lagt er til að Geysir í Haukadal og Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg verði friðlýst fyrst og fremst vegna jarðfræðilegs verndargildis þeirra. Ekki er jafn auðvelt að beita tölulegum viðmiðum til að forgangsraða svæðum út frá jarðfræðilegum verndargildum og svæðum sem eru friðlýst einkum vegna þess að þau eru mikilvæg fyrir sjaldgæfar tegundir lífvera. Forgangsröðun er því nokkuð huglægari, en þó er ljóst að margvísleg jarðfræðileg fyrirbæri á Íslandi eru sjaldgæf á heimsvísu, jafnvel afar sjaldgæf, og því hlýtur friðlýsing svæða á þessum forsendum að beinast sterklega að slíkum fyrirbærum. Geysir er eitt þekktasta kennileiti landsins og nafntogaðasti goshver heims. Brýnt er að koma friðlýsingu hans í örugga höfn sem fyrst og tryggja vernd hverasvæðisins og aðgang ferðamanna í samræmi við umgengnisreglur. Reykjanes er einstakt svæði á heimsvísu því að þar má sjá framhald úthafshryggjar á þurru landi þar sem tvær jarðskorpuplötur gliðna í sundur. Ummerki um gliðnun jarðskorpunnar eru greinileg á svæðinu og þar eru fjölbreytt eldvörp og jarðhitasvæði. Nákvæmari upplýsingar um verndargildi einstakra svæða út frá þessum forsendum er að finna í viðauka við áætlunina.

Umfang friðlýsinga samkvæmt náttúruverndaráætlun 2004–2008.
    Heildarfjöldi friðlýstra svæða á landinu er nú 91 og heildarflatarmál þeirra, ef miðað er við þurrlendi, er 10.207 km² eða tæplega 10% af heildarflatarmáli landsins. Miðað við áætlun þessa og stærð þeirra svæða sem um ræðir munu friðlýst svæði ná yfir um það bil 21% af heildarflatarmáli landsins í árslok 2008. Í þessum útreikningum er gert ráð fyrir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs en ekki hugsanlegri verndun svæða norðan Vatnajökuls eða annars staðar við jaðar hans sem stefnt er að á tímabilinu.

Tillögur Umhverfisstofnunar og náttúruminjaskrá.
    Ljóst er að öll þau 75 svæði sem nefnd eru í tillögu Umhverfisstofnunar þurfa sérstakrar aðgátar við hvað varðar hvers konar rask og ógnir, eins þau sem eru ekki á náttúruverndaráætlun 2004–2008 og verða ekki friðlýst á næstunni. Þau verða höfð til hliðsjónar við endurskoðun náttúruminjaskrár en skrásetning náttúruminja á náttúruminjaskrá hefur ákveðið lagagildi. Þegar hætta er á að framkvæmdir geti spillt friðlýstum náttúruminjum þarf leyfi Umhverfisstofnunar, en ef um er að ræða aðrar náttúruminjar á náttúruminjaskrá skal tilkynna og leita umsagnar stofnunarinnar um þær.
    Samkvæmt náttúruverndarlögum skulu í náttúruminjaskrá vera sem gleggstar upplýsingar um:
     a.      friðlýstar náttúruminjar,
     b.      náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun og
     c.      aðrar náttúruminjar, þ.e. landsvæði, náttúrumyndanir og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem rétt þykir að vernda.
    Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er skráning svæðis á náttúruminjaskrá eitt af þeim viðmiðum sem hafa þarf sérstaklega í huga við mat á því hvort framkvæmd sé matsskyld eða ekki. Þá ber á skipulagsuppdráttum að gera grein fyrir svæðum á náttúruminjaskrá, svo og öðrum náttúruverndarsvæðum.

Framkvæmd náttúruverndaráætlunar.
    Vinna við undirbúning friðlýsingar er í höndum Umhverfisstofnunar sem ber að gera drög að friðlýsingu og leggja fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 58. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999. Með drögum að friðlýsingu er átt við að afmörkun svæðanna er nánar útfærð en gert er í náttúruverndaráætlun og skilmálar friðlýsingarinnar eru settir fram. Umhverfisstofnun mun áður en drög að friðlýsingu verða lögð fram óska eftir athugasemdum og eiga viðræður við landeigendur og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á. Á grunni athugasemda og viðræðna verða mótuð drög að friðlýsingu. Drögin verða síðan kynnt fyrir landeigendum, sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir. Ef samkomulag næst um friðlýsingu svæðis við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta er málinu vísað til umhverfisráðherra til frekari ákvörðunar. Ef samkomulag næst ekki um friðlýsingu skal skv. 1. mgr. 59. gr. náttúruverndarlaga vísa málinu til meðferðar umhverfisráðherra sem ber að gæta þeirrar málsmeðferðar sem lýst er í 59. gr. laganna.
    Vinna við friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlun 2004–2008 mun krefjast mikillar og náinnar samvinnu og samráðs við hagsmunaaðila. Við framkvæmd náttúruverndaráætlunar verður lögð áhersla á að kynning og samráð fari fram eins snemma í ferlinum og hægt er og að þeir aðilar sem teljast hafa sérstakra hagsmuna að gæta verði skilgreindir eins fljótt og auðið er. Þessari aðferðafræði er ætlað að stuðla að aðkomu hagsmunaaðila snemma í friðlýsingarferlinu og með því auka líkur á að sátt náist um friðlýsingu sem er grunnurinn að því að friðlýsingin nái þeim markmiðum sem að er stefnt.
    Metinn hefur verið lauslega kostnaður við framkvæmd náttúruverndaráætlunar fyrir þau 14 svæði sem áætlunin tekur til. Heildarstofnkostnaður er áætlaður um 148 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 32 millj. kr. þegar friðlýsingu allra 14 svæðanna lýkur. Í fjárlagagrunni Umhverfisstofnunar eru nú þegar um 73 millj. kr. til að standa undir framangreindum stofnkostnaði þannig að viðbótarfjárframlög til að standa undir heildarstofnkostnaði munu því nema um 75 millj. kr.
    Ekki er gert ráð fyrir að neitt svæði verði friðlýst á árinu 2004 en gengið er út frá því að svæðin verði friðlýst á árunum 2005–2008. Viðbótarfjárframlög til stofnkostnaðar, alls að upphæð 75 millj. kr., kæmu því til greiðslu á þeim árum. Ef miðað er við jafna dreifingu framkvæmda á framangreind ár þá mun stofnkostnaður verða um 18–20 millj. kr. á ári. Kostnaðaráætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarkostnaður aukist um 7–9 millj. kr. á ári fyrir framangreint tímabil.
    Kostnaðaráætlunin tekur ekki til kostnaðar vegna framkvæmda við Vatnajökulsþjóðgarð og tengd svæði, en áætlanir um kostnað liggja ekki fyrir. Í kostnaðaráætluninni er heldur ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna kaupa á landi sem nauðsynlegt kanna að reynast að ráðast í til að ljúka friðlýsingu einstakra svæða.

Endurskoðun náttúruverndaráætlunar.
    Samkvæmt náttúruverndarlögum skal umhverfisráðherra leggja náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Náttúruverndaráætlun mun verða í stöðugri þróun hjá Umhverfisstofnun, m.a. vegna friðlýsinga einstakra svæða, tillagna sveitarfélaga og fagstofnana um ný svæði, í ljósi nýrra rannsókna og skuldbindinga vegna hugsanlegra staðfestinga á alþjóðasamningum sem Ísland kann að gerast aðili að. Umhverfisráðherra mun leggja næst fram náttúruverndaráætlun í síðasta lagi árið 2008 fyrir tímabilið 2009–2013.


VIÐAUKI


I. Friðlýsing fuglasvæða.

    Megináherslan í náttúruverndaráætlun er að tryggja nægjanlega verndun ákveðinna tegunda fugla en það eru fjórar íslenskar varptegundir, þ.e. haförn, flórgoði, grágæs og heiðagæs, og tvær tegundir fargesta, þ.e. margæs og rauðbrystingur, auk helstu tegunda sjófugla hér við land. Því eru sjö af 14 svæðum í áætluninni fuglasvæði. Í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir stofnstærðum þessara varpfugla á Íslandi, í Evrópu og á Norðurlöndunum. Augljóst er að verulegir hlutar stofna grágæsa og heiðagæsa í Evrópu byggja tilveru sína að miklu leyti á Íslandi. Stofnar hafarna og flórgoða hér á landi eru hins vegar hlutfallslega litlir miðað við stofna þeirra í Evrópu.

Tegund Áætlaður varpstofn
á Íslandi
Áætlaður varpstofn
í Evrópu
Hlutfall á
Íslandi (%)
Áætlaður varpstofn á
Norðurlöndum
Hlutfall á
Íslandi (%)
Flórgoði 500–700 16.000–110.000 1,9–0,3 5.500–9.100 5,5–3,3
Heiðagæs 40.000 54.500–60.000 66,7–73,4 45.500–50.000 66,7–73,4
Grágæs 25.000 67.000–84.000 37,3–29,8 41.000–46.000 61,0–54,3
Haförn 50 4.000–4.700 1,1–0,9 2.000–2.200 2,2–2,0

    Með verndun þessara sjö fuglasvæða er tryggð verndun búsvæða flestra tegunda sjófugla landsins auk varp-, fæðu- og viðkomusvæða fyrrgreindra tegunda. Þau svæði sem þegar eru friðlýst veita þessum tegundum þegar töluverða vernd en með tilkomu þessara sjö svæða eykst hún umtalsvert þannig að á bilinu 20–90% búsvæða þessara tegunda njóta verndar nema búsvæða heiðagæsar en um 6% þeirra verða vernduð, sbr. eftirfarandi töflu sem byggist á skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Tegund Innan friðaðra svæða (F) % Innan nýrra svæða (T) % Samtals F+T %
Flórgoði 264 pör 53 120 pör 21 384 pör 74
Heiðagæs 8.100 pör 20 1.500 pör 4 9.600 pör 24
Margæs 11.840 fuglar 47 4.400 fuglar 22 16.240 fuglar 69
Haförn 38 pör 76 8 pör 16 46 pör 90
Rauðbrystingur 172.800 fuglar 64 23.500 fuglar 7 176.300 fuglar 71
Fellifuglar
Heiðagæs 4.600 fuglar 2 4.600 fuglar 2
Grágæs ..4.000 fuglar 5 ..... fuglar 5 ...00 fuglar 10

a.     Álftanes – Akrar – Löngufjörur.
    Svæðið sem lagt er til að vernda er um 460 km² að stærð og er innan sveitarfélaganna Borgarbyggðar, Kolbeinsstaðahrepps og Eyja- og Miklaholtshrepps. Hlutar svæðisins hafa verið á náttúruminjaskrá, þ.e. Hjörsey og Straumfjörður og Löngufjörur (svæði 213 og 214), vegna mikilvægis þeirra fyrir fugla. Talið er mikilvægt að vernda svæðið sem friðland fyrir fugla og að sérstaka áherslu beri að leggja á verndun búsvæða margæsar, rauðbrystings og hafarnar.
     Mörk: Svæðið sem lagt er til að verði verndað nær frá Fiskiskeri utan Álftaness í Grænhólma og í land í punkt sem er einum kílómetra austan við Sauratjörn. Allar eyjar og sker eru innan svæðisins. Frá Sauratjörn liggja mörkin í Norðlingavað að bænum í Skógarnesi, með þjóðvegi í norðaustur að Hömluholti. Þaðan í austurátt að Eldborgarhrauni og Kaldá og með ströndinni suður fyrir Hítarnes. Þá að Kálfalæk í Bergsteinsvatn í Steinatjörn. Þaðan í Hamraendakletta austur í Álftá og yfir í Krossanes. Síðan eftir þjóðvegi suðaustur í Grunnavatn og Fiskisker.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Svæðislýsing: Strandsvæði sem einkennist af víðáttumiklum leirum, sjávarfitjum, sandfjöru, grunnsævi, eyjum og skerjum auk mýrlendis. Gróðurfar einkennist af blautum brokflóum og vex fölvastör í miklu magni í flóa norðan Hólmavatns. Sandmaðkur er áberandi og mikill kræklingur er í ósum. Útselur kæpir í Hvalseyjum og Tjaldeyjum og landselir halda sig að staðaldri við Löngufjörur. Grunnsvæðið er mjög mikilvægt fyrir æðarfugl og mjög mikill fjöldi vaðfugla (svo sem rauðbrystingur, sanderla, stelkur, lóuþræll o.fl.) fer um svæðið vor og haust. Sex af átta varpstöðum dílaskarfs við Faxaflóa eru innan svæðisins. Þórshani hefur fundist á tveimur stöðum. Mikið fuglalíf er á vetrum (svo sem æðarfugl, straumönd, hávella, tjaldur og sendlingur).
    Á Melabakka, sem er tangi fram undan Eldborgarhrauni, eru sjávarfitjar með ógrynni tjarna. Merkar sjávarfitjar.
     Eignarhald: Fjölmargir eigendur eru að svæðinu bæði einstaklingar og sveitarfélög.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, beit, æðarrækt, fiskveiðar, selveiðar, fjöruþörungatekja, útivist og ferðaþjónusta (hestaferðir).
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Svæðið býr yfir mjög fjölbreyttu fuglalífi og er mikilvægur viðkomustaður farfugla vor og haust. Mikilvægi svæðisins byggist fyrst og fremst á víðáttumiklum leirum og fjölbreyttum og lífríkum fjörum. Svæðið er talið hafa alþjóðlegt náttúruverndargildi, sérstaklega vegna fjölda margæsa og rauðbrystings, en einnig er verndargildi þess mikið vegna fjölda hafarna á svæðinu. Auk þess er svæðið þýðingarmikið fyrir aðrar tegundir fugla, svo sem lóm, um 200 varppör, álftir í fjaðrafelli allt að 1.300 fugla, sendlinga að vetri og tildrur, lágmark um 400. Þá er lundi algengur varpfugl í eyjum. Mikið af sanderlum hefur þar einnig viðkomu, t.d. sáust um 7.000 í Akranesi í maí 1990. Þórshani finnst einnig á svæðinu, 3–6 pör.
    Lykiltegundir fyrir mikilvægi friðunar svæðisins eru fyrst og fremst haförn, margæs og rauðbrystingur. Að hausti er talið að allt að 10.000 margæsir hafi viðkomu á svæðinu eða um 50% margæsa sem um landið fara árlega. Um 20.000 rauðbrystingar fara um svæðið eða um 6% af evrópskum stofni tegundarinnar. Þá nýtir umtalsvert hlutfall lóms og þórshana svæðið, eða um 10–20% íslenskra stofna þessara tegunda, sem og dílaskarfs en um 11–16% stofnsins er á svæðinu.

Lykiltegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Haförn 8 varppör 16 <1
Margæs 2.660 fuglar að vori 13 4
Rauðbrystingur 20.500 fuglar 6 6
Lómur 200 varppör 10–20 <1

    Sjávarfitjagróður er m.a. að finna við Stakkhamar, Hausthús og Skógarnes. Burknastóð, þar á meðal skollakambur, ásamt jarðhitagróðri finnst í Þjófhellisrjóðri í Eldborgarhrauni. Innan svæðisins vaxa fimm tegundir háplantna sem allar hafa takmarkaða útbreiðslu og finnast aðeins á nokkrum stöðum á landinu en það eru fölvastör, lónajurt, marhálmur, sandlæðingur og skollakambur. Sandlæðingur er talinn sjaldgæfur og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Fölvastör Carex livida Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Einn af nokkrum
fundarstöðum
Lónajurt Ruppia maritima Háplanta ? Einn af nokkrum
fundarstöðum
Marhálmur Zostera marina Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Takmörkuð
útbreiðsla
Sandlæðingur Glaux maritima Háplanta Sjaldgæf VU Einn af nokkrum
fundarstöðum
Skollakambur Blechnum spicant Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Einn af nokkrum
fundarstöðum

b.     Álftanes – Skerjafjörður.
    Lagt er til að fjara og grunnsævi við Álftanes og Skerjafjörð, alls um 37 km², verði verndað. Svæðið er innan marka Garðabæjar, Bessastaðahrepps, Kópavogs, Reykjavíkur og Seltjarnarness. Hluti svæðisins hefur verið á náttúruminjaskrá sem tvö aðskilin svæði (117 og 122), sérstaklega vegna mikilvægis grunnsævis, fjörunnar og tjarna fyrir fugla. Talin er ástæða til þess að friða svæðið sem búsvæði með sérstakri áherslu á farfugla og vaðfugla.
     Mörk: Svæðið nær yfir fjöru og grunnsævi frá Bala að Álftanesi yfir Skerjafjörð og norður fyrir Gróttu í land við Bygggarð. Innan svæðisins eru allar fjörur innan þessara marka og land neðan byggðar, ásamt Bessastaðanesi og Gálgahrauni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
    Fjögur friðlýst svæði eru innan marka svæðisins en það eru Hlið sem er fólkvangur, Kasthúsatjörn og fjaran sem er að hluta friðland og að hluta fólkvangur, Fossvogsbakkar sem friðlýstir eru sem náttúruvætti og Grótta sem er friðland. Auk þess er friðlandið Bakkatjörn á mörkum svæðisins.
     Svæðislýsing: Strand- og sjávarsvæði í þéttbýli. Fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Þangfjörur. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með sérkennilegum hraunmyndunum sem runnið hefur frá Búrfelli. Vinsælt útivistarsvæði. Fjörumór með óvenjulegu smádýralífi í Seltjörn og Bakkavík ber vitni um lægri sjávarstöðu fyrr á öldum. Steingervingalög finnast í Fossvogi. Í Gálgahrauni eru sjávarfitjar og vart hefur orðið jarðhita í sjó utan við Hlið.
    Grunnsævi með miklu botndýralífi. Fjölbreytt fuglalíf allt árið, mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfar fuglategundir. Viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildrur sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla á fartíma.
    Á svæðinu eru sjaldgæfar plöntur, þar er eini fundarstaður fléttunnar gálgaskeggs og þar vex marhálmur sem hefur takmarkaða útbreiðslu.
     Eignarhald: Eigendur eru fjölmargir einstaklingar, sveitarfélög og ríkið.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, æðarrækt, útivist, fiskveiðar, þaratekja, siglingar og hafnir.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Svæðið er mikilvægur viðkomustaður fugla allan ársins hring, þar er fjölbreytt fuglalíf og lífríkar fjörur og leirur og hentar svæðið sérstaklega vel til fuglaskoðunar. Alþjóðlegt náttúruverndargildi svæðisins er mikið og þar finnast nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir.
    Lykiltegundir fugla eru margæs og rauðbrystingur. Á bilinu 5–13% margæsa sem um landið fara nýtir svæðið og um 1% rauðbrystinga. Báðar þessar tegundir ná alþjóðlegu verndarviðmiði auk eftirfarandi tegunda: æðarfugl með um 3.200 varppör, um 1.000 sendlingar hafa vetursetu á svæðinu og um 200 tildrur koma þar á fartíma auk hundraða tjalda, stelka og lóuþræla. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir.

Tegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Margæs 1.000–2.500 5–12 4–10
Rauðbrystingur 3.000 1 1

    Lykiltegundir plantna eru gálgaskegg sem telst vera mjög sjaldgæft og hefur ekki fundist annars staðar á landinu og marhálmur sem hefur takmarkaða útbreiðslu.

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Gálgaskegg Bryoria pseudofuscescens Flétta Mjög sjaldgæf VU Eini fundarstaðurinn
Marhálmur Zostera marina Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Fleiri en fimm
fundarstaðir þekktir

c. Austara-Eylendið.
    Lagt er til að um 47 km² svæði við ósa Héraðsvatna sem kallast Austara-Eylendið og tilheyrir sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi verði verndað. Svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá (svæði 418) vegna lífríkis og mikilvægis þess fyrir fuglalíf. Talið er rétt að leggja til friðun svæðisins vegna mikilvægis þess fyrir fugla og fjölbreytni fuglalífs, sérstaklega vegna ákveðinna tegunda, svo sem flórgoða og gæsategunda. Lagt er til að svæðið verði friðland.
     Mörk: Austara-Eylendið og votlendi með Austari-Héraðsvötnum frá þjóðvegi norðan við Garð og suður í Grundarnes, ásamt vötnum á Hegranesi: Ásvatni, Svanavatni og Hendilkotsvatni, einnig Garðsvatni og mýrlendi umhverfis þau.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Votlendi, tjarnir og vötn á láglendi. Svæðið er hluti af víðfeðmustu flæðilöndum á landinu. Þar sem landið er blautast eru víðáttumikil gulstararflóð. Mikill botngróður er í Ásvatni. Mikið og fjölbreytt fuglalíf, mikið er af öndum, grágæs, óðinshana, stelk og jaðrakan, einnig sjaldgæfar tegundir. Varpstaður vað- og andfugla og viðkomustaður helsingja sem er algengur fargestur að vori. Ábyrgðartegundin jaðrakan er mjög algeng og nær fjöldi hennar líklega alþjóðlegum verndarviðmiðum. Flórgoði er á svæðinu en samkvæmt Bernarsamningnum ber að vernda búsvæði hans.
     Eignarhald: Fjölmargir eigendur. Líklega mest í einkaeign.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, aðallega beit og veiði.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Forsendur fyrir verndun svæðisins eru mikilvægi þess fyrir nokkrar lykiltegundir, sjaldgæfar tegundir og fjölda votlendisfugla sem finnast á svæðinu. Stofnstærðir nokkurra fuglategunda á svæðinu ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Lykiltegundir eru flórgoði, helsingi, grágæs og heiðagæs. Um 20 pör flórgoða verpa á svæðinu eða u.þ.b. 3–4% af íslenska stofninum, um 1.700 helsingjar nýta svæðið að vorlagi en það er um 5% stofnsins, grágæs verpir þar í hundraðatali og minnst 80 varppör heiðagæsar finnast á svæðinu, sem og jaðrakan en fjöldi þeirra nær líklega alþjóðlegum verndarviðmiðum. Auk þess verpir fjöldi andfugla og vaðfugla á svæðinu.

Tegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Flórgoði Lágmark 20 varppör 3–4 0,02–0,1
Helsingi > 1.700 fuglar að vori 5 5
Grágæs Hundruð varppara - -
Heiðagæs Lágmark 80 varppör 0,2 0,2

d.     Guðlaugstungur – Ásgeirstungur.

    Svæðið sem lagt er til að verði verndað í Guðlaugstungum og Ásgeirstungum er um 192 km² að stærð og tilheyrir Bólstaðarhlíðarhreppi. Talið er rétt að vernda svæðið vegna mikilvægis þess sem beitar- og varpsvæðis heiðagæsar og jafnframt þýðingarmikils votlendis- og rústasvæðis á hálendinu. Talið er rétt að vernda svæðið sem friðland með sérstaka áherslu á heiðagæs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mörk: Frá Dúfunesfelli norðan Hveravalla í háaustur að Blöndu. Þaðan sjónhending í Sauðhól og Hraungarðshaus og þaðan með Lambamannalæk og Haugakvísl í Blöndu. Frá ármótum Haugakvíslar til suðurs með Blöndu að Seyðisá og Þegjanda í Dúfunesfell.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Víðáttumikil heiðalönd með votlendi, mólendi, ám og vötnum. Mikilvæg varp- og beitilönd heiðagæsar. Gróskumikið votlendi á hálendi. Víðfeðm votlendi, ein stærstu og fjölbreyttustu rústasvæði utan Þjórsárvera.
     Eignarhald: Svæðið er afréttur.
     Núverandi landnotkun: Svæðið er notað sem beitiland og einnig til útivistar.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Ítarleg náttúrufarsúttekt hefur farið fram í Guðlaugstungum undanfarin tvö ár og svæðið m.a. kortlagt með tilliti til vistgerða. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt sem varp- og beitiland heiðagæsa og er algerlega óraskað hálendissvæði með fjölbreyttum rústamýrum.
    Lykiltegundir fyrir svæðið eru heiðagæs og fjallkrækill. Um 2–5% af íslenska heiðagæsastofninum nýtir svæðið að jafnaði. Fjallkrækill er sjaldgæfur og finnst á allmörgum fundarstöðum

Tegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Heiðagæs 1.000–2.000 3–5 2–4

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Fjallkrækill Sagina caespitosa Háplanta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Leciophysma finmarckicum Flétta Sjaldgæf LR Einn af fimm fundarstöðum

e.     Látrabjarg – Rauðasandur.
    Svæðið sem hér er lagt til að verði verndað er um 486 km² að stærð og tilheyrir sveitarfélaginu Vesturbyggð. Hlutar svæðisins hafa verið á náttúruminjaskrá (svæði 306, 307 og 308) um nokkurt skeið vegna lífríkis. Talið er mikilvægt að svæðið verði verndað fyrst og fremst vegna fjölbreytts og mikils fuglalífs í fuglabjörgunum en jafnframt vegna landslags. Áhugi er hjá sveitarstjórn Vesturbyggðar fyrir því að svæðið verði verndað sem þjóðgarður, m.a. vegna útivistar. Talið er mikilvægt að svæðið verði verndað sem friðland eða þjóðgarður með sérstakri áherslu á sjófuglabyggðir og fjörusvæði.
     Mörk: Allt land vestan þjóðvegar um Kleifaheiði er innan svæðisins. Almennt liggja mörk þess við ströndina 100 m í sjó fram miðað við stórstraumsfjöruborð nema framan við Látrabjarg þar sem mörkin liggja 2 km á sjó út.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Vestast á Látrabjargi eru Bjargtangar sem jafnframt er vestasti tangi landsins og Evrópu. Bæjarvaðall og Rauðasandur eru víðáttumiklar, rauðleitar skeljasandsfjörur og árlón með fjölbreyttu dýralífi. Hafnarvaðall í Örlygshöfn býr jafnframt yfir miklum skeljasandsfjörum og fjölskrúðugu fuglalífi. Innan svæðisins eru stórkostleg fuglabjörg, hin mestu við Norður-Atlantshaf. Vel grónar bjargbrúnir og heiðar.
    Í Látrabjargi er stærsta álkubyggð í heimi og þar nær lundi líklega alþjóðlegum verndarviðmiðum. Miklar og tegundaauðugar leirur eru í Bæjarvaðli. Á svæðinu hafa orpið yfir 45 tegundir fugla, þar á meðal sex tegundir á válista: himbrimi, grágæs, straumönd, fálki, svartbakur og hrafn.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjöldi þjóðminja finnst á svæðinu sem eykur verndargildi þess. Þar eru minjar um búskap við sjó og sjósókn fyrri tíma. Söguminjar í Sauðlauksdal eru m.a. garðurinn Ranglátur sem hlaðinn var til þess að hefta sandfok á 18. öld og þar finnast jafnframt sérkennilegir sandhólar. Hluti af svæðinu er enn í byggð.
     Eignarhald: Fjölmargir eigendur eru að svæðinu, bæði einstaklingar og ríkið.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður er minni en áður og byggð dreifðari. Rekin hefur verið ferðaþjónusta í Breiðuvík yfir sumartímann en svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sérstaklega vegna þess hversu aðgengilegt bjargið er. Nokkur eggjataka hefur verið stunduð í bjarginu og fiskveiðar með ströndinni.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Mikilfenglegt og fjölbreytt landslag. Alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð. Stærsta álkubyggð í heimi.
    Látrabjarg hefur afgerandi þýðingu fyrir þrjár tegundir bjargfugla sem eru álka, langvía og stuttnefja en þar þrífast 20–60% af íslenskum stofnum þessara tegunda. Álkubyggðin í Látrabjargi er talin stærsta álkubyggð í heimi. Svæðið hefur mikla þýðingu fyrir fýl og ritu en þar finnst um 7–8% af íslenskum stofnum þessara tegunda. Mikið er af lunda í Látrabjargi. Alþjóðlegt mikilvægi svæðisins er mikið þar sem um 40% evrópska álkustofnsins heldur sig í bjarginu og um 15% af langvíustofninum.

Tegund Fjöldi fugla (pör) Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Álka 230.000 60 40–42
Langvía 298.000 30 13–14
Stuttnefja 118.000 20 4–4
Fýll 120.000 8 3–5
Rita 46.600 7 1–2

    Sjaldgæf fléttutegund, bjargstrý ( Ramalina siliquosa), sem þrífst á svæðinu hefur aðeins fundist á tveimur öðrum stöðum á landinu. Aðrar sjaldgæfar plöntutegundir eru ferlaufungur ( Paris quadrifolia), sem er friðlýstur, sóldögg ( Drosera rotundifolia), blöðrujurt ( Utricularia minor), mýraertur ( Lathyrus palustris), fuglaertur ( Lathyrus pratensis), fölvastör ( Carex livida) og þrenningarmaðra ( Galium trifidum).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Ferlaufungur Paris quadrifolia Háplanta Sjaldgæf LR Fleiri en fimm fundarstaðir
Bjargstrý Ramalina siliquosa Flétta Sjaldgæf VU Einn af þremur fundarstöðum

f.     Vestmannaeyjar.
    Lagt er til að Vestmannaeyjar verði verndaðar í heild ásamt tveggja kílómetra svæði umhverfis eyjarnar, nema Heimaey en þar er lagt til að verndunin nái eingöngu til Ystakletts og Heimakletts. Svæðið er alls um 20 km² að stærð og tilheyrir sveitarfélaginu Vestmannaeyjar. Hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá (svæði 721, 722, 724 og 725) og Surtsey er þegar friðlýst. Talin er ástæða til þess að vernda svæðið vegna mikilvægis þess fyrir sjófugla og alþjóðlegs mikilvægis þess. Talið er eðlilegt að svæðið verði verndað sem búsvæði sjófugla.      Mörk: Innan svæðisins eru Ystiklettur og Heimaklettur á Heimaey, Álsey, Bjarnarey, Brandur, Elliðaey, Litli- og Stóri-Geldungur, Hellisey, Suðureyjar og Súlnasker. Verndun nær til tveggja kílómetra breiðs beltis umhverfis eyjarnar.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Á Heimaey er stórfenglegt landslag og fræðandi um myndun og mótun lands. Eyjar og sjávarbjörg með fjölskrúðugt fuglalíf. Í Vestmannaeyjum er stærsta sjósvölubyggð í Evrópu, einu varpstöðvar skrofu og yfir þriðjungur íslenska lundastofnsins verpir þar. Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa í Vestmannaeyjum, m.a. í Herjólfsdal.
     Núverandi landnotkun: Fiskveiðar, fuglaveiðar, eggjataka, útivist og ferðaþjónusta.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Vestmannaeyjar eru alþjóðlega mikilvægar vegna sjófuglabyggða með yfir milljón pör sjófugla. Stærsta sjósvölubyggð í Evrópu er í eyjunum og þar er eini varpstaður skrofu á Íslandi. Nær allar íslenskar stormsvölur eru á svæðinu og yfir þriðjungur lundastofnsins verpir þar.
    Lykiltegundir fugla eru skrofa, stormsvala, sjósvala, súla, rita, langvía og lundi. Um og yfir 90% sjósvala, stormsvala og skrofa finnast í Vestmannaeyjum og um 35–40% af súlu og lunda. Í fjölda ná þessar tegundir allar viðmiðum fyrir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði.

Tegund Fjöldi fugla (varppör) Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Sjósvala 80–150.000 >95 75–88
Lundi 1.000.000 40 16–20
Stormsvala 50–100.000 >95 13–29
Súla 9.000 35 3,2–3,3
Skrofa 7–10.000 100 2,5–2,9
Langvía 57.000 6 2,6–2,7
Rita 32.000 4–5 1,1–1,4
Fýll 65.000 3–7 1,7–2,7

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Álka
5.600 1,5 1

    Fléttan bjargstrý ( Ramalina siliquosa) hefur fundist í Vestmannaeyjum. Í Herjólfsdal vaxa nokkrar sjaldgæfar plöntur, þar á meðal knjápuntur ( Danthonia decumbens) og giljaflækja ( Vicia sepium). Hnúfmosi ( Molendoa warburgii) hefur fundist í Hánni á Heimaey og aðrar sjaldgæfir mosar eins og götusnúður ( Tortula modica) og garðasnúður ( Tortula truncata), sem er eini fundarstaður þessara þriggja mosategunda.

g.     Öxarfjörður.
    Svæðið sem lagt er til að verði verndað er um 220 km² að stærð og tilheyrir sveitarfélögunum Kelduneshreppi og Öxarfjarðarhreppi. Nyrsti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá (svæði 532) vegna fjölbreytileika votlendis og auðugs fuglalífs. Talið er mikilvægt að vernda svæðið vegna fjölbreytni og fjölda fugla, alþjóðlegs mikilvægis svæðisins og vegna þess að þar finnast sjaldgæfar tegundir fugla og plantna. Talið er mikilvægt að vernda svæðið með sérstakri áherslu á flórgoða og að svæðið verði gert að friðlandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mörk: Svæðið afmarkast af Lóni í vestri og fylgir þaðan þjóðvegi, og þar sem við á þjóðgarðsmörkum, austur fyrir Jökulsá á Fjöllum og áfram með þjóðvegi til sjávar við ósa Sandár.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Svæðið er sandur, myndaður af framburði Jökulsár á Fjöllum og er mikilvægur hluti af hamfarahlaups- og flóðasögu árinnar. Afar fjölbreytt votlendi, ár, lækir, sjávarlón og gróðurmikil grunn vötn. Strandengjar, keldur, graslendi, ræktað land og þornaðir árfarvegir. Sjávarfitjagróður við Árnanes og jarðhitaáhrif á vatnagróður. Fágætar plöntur og fremur sjaldgæfar plöntutegundir. Fjölbreytt fuglalíf og sjaldgæfar fuglategundir, þar á meðal flórgoði. Meðal tegunda með alþjóðlegt verndargildi eru grágæs, álft, skúmur og flórgoði. Við Víkingavatn er stærsta flórgoðavarp landsins utan Mývatns og þar verpir einnig hrafnsönd sem er sjaldséð utan Mývatns.
    Við Bakkahlaup er háhitasvæði og benda viðnámsmælingar til þess að stærð þess á 1.000 m dýpi sé allt að 15 km² að flatarmáli.
     Eignarhald: Kelduneshreppur, einstaklingar og ríkið.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, beit, fiskeldi, stangveiði, fiskveiðar, útivist, fuglaveiði, æðarvarp, eggjataka og rekaviður.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Fjölbreytni fuglalífs er mikil og óvenjumikið er af flórgoða. Nokkrar sjaldgæfar tegundir finnast á svæðinu og þar er mikið votlendi, þar á meðal sjávarfitjar. Lykiltegundir fugla eru flórgoði og grágæs. 14–20% íslenska flórgoðastofnsins nýtir svæðið og um 5% grágæsastofnsins er þar á fellitíma auk þess sem mikið grágæsavarp er á svæðinu. Skúmur er algengur en um 3–4% íslenska stofnsins nýtir svæði. Álft verpir á svæðinu og nýtir það umtalsvert á fellitíma. Þessar tegundir gefa svæðinu allar alþjóðlegt verndargildi auk þess sem fjöldi annarra tegunda fugla finnst á svæðinu, svo sem endur og lómur.

Tegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Flórgoði um 100 pör 14–20 <1
Grágæs 4.000 fuglar á fellitíma 5 5
Grágæs Hundruð para - -
Skúmur 210–240 pör 3–4 2
Álft 80–200 fuglar á fellitíma - -

    Af plöntutegundum eru ferlaufungur, rauðkollur og lónajurt lykiltegundir á svæðinu. Rauðkollur hefur aðeins fundist á fáeinum stöðum á landinu. Auk þess finnast aðrar fremur sjaldgæfar tegundir plantna svo sem lensutungljurt ( Botrychium lanceolatum), aronsvöndur (Erysimum hieraciifolium), þrenningarmaðra ( Galium trifidum), mýraertur ( Lathyrus palustris), haustbrúða ( Callitriche autumnalis), hnotsörvi ( Zannichellia palustris) og langnykra ( Potamogeton praelongus).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Ferlaufungur Paris quadrifolia Háplanta Sjaldgæf LR Tveir af >5 fundarstöðum
Lónajurt Ruppia maritima Háplanta Einn af nokkrum fundarstöðum
Rauðkollur Knautia arvensis Háplanta Sjaldgæf VU Fáeinir fundarstaðir

II. Stækkun þjóðgarða.

a.     Jökulsárgljúfur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Lagt er til að þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verði stækkaður um rúmlega 200 km² fyrst og fremst með því að bæta svæði austan Jökulsár á Fjöllum við þjóðgarðinn ásamt Meiðavallaskógi. Svæðið tilheyrir Kelduneshreppi, Öxarfjarðarhreppi og Skútustaðahreppi. Hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá (svæði 535 og að hluta til 536). Mikilvægt er að stækka þjóðgarðinn þannig að hann verði heildstæðari og taki til svæða beggja megin Jökulsár.
     Mörk: Mörk þjóðgarðsins eru útfærð þannig að Meiðavallaskógur, jörðin Ásbyrgi, syðsti hluti Ássands, land austan Jökulsár á Fjöllum og svæði sunnan þjóðgarðs sem afmarkast af beinni línu sem er dregin frá Selfossi í topp Eilífs verði innan þjóðgarðsins. Náttúruvættið Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss eru innan marka svæðisins.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Fornir hlaupfarvegir Jökulsár á Fjöllum eru vestan Ásbyrgis og austan Jökulsár. Í Meiðavallaskógi eru fornar tóftir eyðibýla. Svæðið austan Jökulsár á Fjöllum er fjölbreytilegt að gerð og þar er víða ríkulegur gróður, sambærilegt landi þjóðgarðsins.
     Eignarhald: Einkaeign að mestu og ríkiseign.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, beit og útivist.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Tillagan miðar að því að ná fram samfelldri og heildstæðri landslagsheild utan um gljúfrin með stækkun þjóðgarðsins. Á svæðinu er birkiskógur, fornminjar og land með mikið útivistargildi. Meiðavallaskógur er náttúrulegur birkiskógur þar sem finnst fjöldi minja um smábýli fyrri alda og fornar götur auk þess sem í þjóðgarðinn bætast nútímagosmyndanir, hraun og gígar og minjar um hopun jökla í lok ísaldar, fornir jökulgarðar og ummerki hamfarahlaups fyrir 2.500 árum. Einstæð fossaröð, Selfoss, Dettifoss og Hafragilsfoss, er þegar friðlýst.

b.     Skeiðarársandur.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Talið er mikilvægt að bæta Skeiðarársandi, alls um 728 km² að stærð, við þjóðgarðinn í Skaftafelli til þess að þjóðgarðurinn myndi jarð- og landfræðilega heild sem nær til jökulsins, eldvirku svæða jökulsins, jökulsána og jökulsandinn allt til sjávar. Svæðið tilheyrir sveitarfélaginu Hornafirði.

     Mörk: Að vestan liggja mörk með landamerkjum Skaftafells og Núpsstaðar allt að mörkum þjóðgarðsins í Skaftafelli. Að norðanverðu með þjóðgarðsmörkum og að austan fylgja mörkin núverandi þjóðvegi til sjávar. Friðlandið í Ingólfshöfða er innan svæðisins.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Skeiðarársandur er mikið sandflæmi myndað af framburði ánna undan Skeiðarárjökli. Sandurinn er mestur sinnar gerðar á Íslandi. Á alþjóðlegu jarðfræðimáli kallast ársléttur jökuláa „sandur plain“. Á sandinum sést samfella landmótunar jökulhreyfinga, setmyndunar jökuláa og sjávarrofs. Þar eru og ummerki mikilla jökulhlaupa, svo sem eftir gosið í Gjálp.
    Skeiðará, Núpsvötn og Súla voru áður fyrr miklir farartálmar á sandinum.
    Næst jökli er Skeiðarársandur afar grýttur, jafnvel stórgrýti, en er fjær dregur aur og möl og næst sjó sandur og leir. Takmarkaður gróður er á Skeiðarársandi en sums staðar nær að myndast samfellt gróðurlendi og skapast þar með nokkurt haglendi fyrir sauðfé.
    Selur kæpir á ströndinni, bæði landselur og útselur.
     Eignarhald: Að mestu í einkaeign.
     Núverandi landnotkun: Beitiland og ferðaþjónusta, svo sem hestaferðir.
     Forsendur fyrir verndun: Á Skeiðarársandi er eitt stærsta varp skúms á landinu og er hann auk þess talinn meðal mikilvægra selalátra á landinu. Fyrsta skipbrotsmannaskýli hérlendis var byggt á Skeiðarársandi árið 1904. Eitt þekktasta skipsstrandið á sandinum var árið 1667 þegar Het Wapen van Amsterdam strandaði þar.
    Samkvæmt ábendingu frá fulltrúum heimsminjaskrár UNESCO er talið æskilegt að Skeiðarársandur allur verði með þegar óskað verður eftir tilnefningu Skaftafells á heimsminjaskrána.

III. Plöntusvæði, gróðurfar og jarðfræði.

a.     Sjaldgæfar plöntutegundir.
i.     Látraströnd – Náttfaravíkur.
    Svæðið sem hér er lagt til að verði verndað er um 604 km² að stærð og tilheyrir Grýtubakkahreppi og Þingeyjarsveit. Svæðið er á náttúruminjaskrá (svæði 512) fyrir fjölbreytilegt landslag og ríkulegan gróður og fyrir útivistargildi þess. Talið er mikilvægt að vernda svæðið sem friðland á grundvelli gróðurfars, en þar finnst fjöldi sjaldgæfra tegunda háplantna sem hafa takmarkaða útbreiðslu, jafnframt vegna gildis svæðisins fyrir útivist og ferðaþjónustu.
     Mörk: Frá sjó við Hjalla norðan Grenivíkur, í Grenivíkurfjall og beint austur í Þjófadal. Um Grjótskálarhnjúk suður í Skessuhrygg og þaðan í austur í Austurfjall og þá norðaustur í Skessuskálarfjall og til sjávar í Hellisvík.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Mjög fjölbreytilegt landslag með fjalllendi, láglendi og strandsvæðum. Nokkrar eyðijarðir eru á Látraströnd, í Fjörðum og á Flateyjardal. Kjörið útivistarsvæði til gönguferða og náttúruskoðunar. Fjölbreytt búsvæði með ríkulegum gróðri, svo sem gras- og votlendi við sjó og upp í fjallseggjar í meira en 1.000 m hæð. Þarna er sérstætt og óvenjufjölbreytt gróðurfar og margar sjaldgæfar og fremur sjaldgæfar háplöntutegundir. Gömul megineldstöð er á svæðinu með rhýólítmyndunum og tilheyrandi jarðhitaummyndun. Við ströndina norðaustan til gætir áhrifa frá Húsavíkur – Flateyjar-þverbrotabeltinu. Fornminjar og eyðijarðir tengdar sögnum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Eignarhald: Eyðibyggð, mikið í einkaeign.
     Núverandi landnotkun: Beit, útivist og ferðaþjónusta.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Svæðið hefur mikið verndargildi sakir sérstæðs og óvenjufjölbreytts gróðurfars. Þar er mikilfenglegt landslag með mikið útivistar- og fræðslugildi, sérstaklega vegna náttúrufars og sögu svæðisins.
    Óvenjumargar sjaldgæfar tegundir finnst á svæðinu en það eru: eggtvíblaðka, finnungsstör, fjallabláklukka, fjallkrækill, fölvastör, hjartafífill, mánajurt, skollaber, skollakambur, skógfjóla og trjónustör.

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Eggtvíblaðka Listera ovata Háplanta Sjaldgæf LR Fjórir af allmörgum fundarstöðum
Finnungsstör Carex nardina Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Einn af >5 fundarstöðum
Fjallbláklukka Campanula uniflora Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Þrír af >5 fundarstöðum
Fjallkrækill Sagina caespitosa Háplanta Sjaldgæf LR Tveir af >5 fundarstöðum
Fölvastör Carex livida Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Einn af nokkrum fundarstöðum
Hjartafífill Crepis paludosa Háplanta Sjaldgæf LR Fimm af allmörgum fundarstöðum
Mánajurt Botrychium boreale Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Tveir af fjórtán fundarstöðum
Skollaber Cornus suecica Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Tíu af allmörgum fundarstöðum
Skollakambur Blechnum spicant Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Einn af nokkrum fundarstöðum
Skógfjóla Viola riviniana Háplanta Sjaldgæf Vex víða um land, afmörkuð svæði
Trjónustör Carex flava Háplanta Sjaldgæf EN Fjórir af fimm fundarstöðum

    Fjölmargar aðrar fremur sjaldgæfar plöntur eru á svæðinu eins og blöðrujurt ( Utricularia minor), fjallalójurt ( Antennaria alpina), grájurt ( Omalotheca sylvatica), sóldögg ( Drosera rotundifolia), mýraberjalyng ( Vaccinium microcarpus), grænlilja ( Orthilia secunda), bláklukkulyng ( Phyllodoce coerulea), fjallabrúða ( Diapensia lapponica), þrenningarmaðra ( Galium trifidum), lensutungljurt ( Botrychium lanceolatum), skrautpuntur, kollstör ( Carex macloviana), línstör ( Carex brunnescens), dúnhulstrastör ( Carex pilulifera), sifjarsóley ( Ranunculus auricomus), álftalaukur ( Isoëtes echinospora), bjöllulilja ( Pyrola grandiflora), keldustör ( Carex magellanica) og þúsundblaðarós ( Athyrium distentifolium).
    Eggtvíblaðka, skógfjóla, trjónustör og línarfi eru friðlýstar plöntutegundir samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978.

ii.     Njarðvík – Loðmundarfjörður.
    Hér er lagt til að allur Borgarfjarðarhreppur, alls um 468 km², verði verndaður. Hluti svæðisins hefur verið á náttúruminjaskrá um nokkurt skeið (svæði 606 og 607) vegna stórbrotins og sérstæðs landslags, bergmyndana og fjölskrúðugs og sérstæðs gróðurfars. Talið er mikilvægt að vernda svæðið á grundvelli gróðurfars, fjölda sjaldgæfra tegunda plantna, en jafnframt vegna jarðfræði svæðisins og gildis þess fyrir útivist og ferðaþjónustu. Lagt er til að svæðið verði verndað sem friðland.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mörk: Svæðið nær frá Brimnesi í norðaustri í Tóarfjall og þaðan eftir fjallsbrúnum á hreppamörkum suður í 1.070 m tind á Botnsdalsfjalli um Súlur, Tindfell, Beinageitarfjall, Jónsfjall, Norðdalshnjúk, Herfell og Skýhnjúk. Þaðan eftir hæstu brúnum í sjó fram hjá Brimnesfjalli. Njarðvík, Borgarfjörður, Brunavík, Breiðavík og Loðmundarfjörður eru innan svæðisins en annars staðar miðast mörkin við sjó við 100 m línu frá landi.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Víðlent og fjölbreytt svæði, litríkar bergmyndanir, svo sem rhýólít, sérstæður gróður og grösug dalverpi. Á svæðinu er forn megineldstöð með fjölbreyttum bergtegundum. Borgarfjörður er stuttur og breiður fjörður og inn af fjarðarbotninum gengur grösugur dalur, en innst í honum er mikið berjaland. Í Partafjalli er skógur: birki, víðir og einir. Allt svæðið er með afar fjölbreyttum gróðri, en vesturhlíð Njarðvíkur og Landsendi við Loðmundarfjörð skera sig úr. Óvenjumikið er um sjaldgæfar plöntutegundir. Mikið varpland er í Hafnarhólma. Dyrfjöll eru áberandi kennileiti og einkennandi fyrir svæðið. Hvítserkur er óvenjulitauðugt og sérkennilegt fjall þar sem svartir berggangar liggja á víð og dreif um marglitt rhýólít. Stórurð, stórbrotið framhlaup er innan svæðisins. Í Loðmundarfirði eru malarhjallar í hlíðum sem eru merki um hærri stöðu sjávarborðs, og í kirkjugarðinum á Klyppsstöðum er að finna skeljabrot. Merkar jarðmyndanir, steinrunnir trjábolir og einnig er mikið um steindir og steina, svo sem bikstein, perlustein, baggalúta, jaspis og bergkristalla. Í Loðmundarfirði er sjávarlón með opinn ós til sjávar og miklar leirur.
    Meðal menningarminja á svæðinu er Borgarfjarðarleið, forn þjóðleið, og eyðibyggðir, svo sem í Loðmundarfirði þar sem Loðmundur hinn gamli nam land. Fjölbreytt landslag hentugt til útivistar og gönguferða.
     Eignarhald: Fjölmargir eigendur, einstaklingar, sveitarfélög og ríkið.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, ferðaþjónusta, fiskveiðar og útivist.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Sérstætt og fjölbreytt gróðurfar og óvenjumargar sjaldgæfar plöntutegundir gefa svæðinu mikið verndargildi. Allt svæðið er með afar fjölbreyttum gróðri, en vesturhlíð Njarðvíkur og Landsendi við Loðmundarfjörð skera sig þó úr. Þar er jafnframt stórbrotið landslag. Þá er svæðið vinsælt útivistarsvæði og hentugt til gönguferða. Eyðibyggðir og minjar um búsetu finnast víða og búsetulandslag áberandi á láglendi.
    Fjöldi sjaldgæfra tegunda eru á svæðinu og lykiltegundir eru óvenjumargar eða alls 13: grábleðla, klettakræða, seltulauf, svarðskjóða, Euopsis pulvinata, ferlaufungur, lyngbúi, skollakambur, súrsmæra, stinnasef, eggtvíblaðka, ljósalyng og skógfjóla.

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Eggtvíblaðka Listera ovata Háplanta Takmörkuð útbreiðsla LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Ferlaufungur Paris quadrifolia Háplanta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Grábleðla Lobothallia alphoplaca Flétta Sjaldgæf VU Einn af sjö fundarstöðum
Klettakræða Cornicularia normoerica Flétta Sjaldgæf LR Fimm af 13 fundarstöðum
Ljósalyng Andromeda polifolia Háplanta Sjaldgæf LR Þrír af fjórum fundarstöðum
Lyngbúi Ajuga pyramidalis Háplanta Sjaldgæf VU Tíu af 12–13 fundarstöðum
Seltulauf Cladonia strepsilis Flétta Mjög sjaldgæf EN Einn af fjórum fundarstöðum
Skollakambur Blechnum spicant Háplanta Takmörkuð útbreiðsla Fjórir af allmörgum fundarstöðum
Skógfjóla Viola riviniana Háplanta Sjaldgæf Vex víða um land, takmarkað svæði
Stinnasef Juncus squarrosus Háplanta Sjaldgæf Tveir af örfáum fundarstöðum
Súrsmæra Oxalis acetosella Háplanta Sjaldgæf VU Þrír af nokkrum fundarstöðum
Svarðskjóða Thrombium epigeum Flétta Sjaldgæf EN Einn af sex fundarstöðum
Euopsis pulvinata Flétta Sjaldgæf Einn af 14 fundarstöðum

    Aðrar sjaldgæfar háplöntutegundir eru: línstör ( Carex brunnecens), bjöllulilja ( Pyrola grandiflora), sifjarsóley ( Ranunculus auricomus), bergsteinbrjótur ( Saxifraga paniculata), bláklukkulyng ( Phyllodoce coerulea), lensutungljurt ( Botrychium lanceolatum), mýrarberjalyng ( Vaccinium microcarpus), hagastör ( Carex pulicaris), hjallasveifgras ( Poa jemtlandica), álftalaukur ( Isoëtes echinospora), blöðrujurt ( Utricularia minor), broddkrækill ( Sagina subulata), dúnhulstrastör ( Carex pilulifera), fjallavorblóm ( Draba alpina), grájurt ( Omalotheca sylvatica), grástör ( Carex flacca), grænlilja ( Orthilia secunda), gullkollur ( Anthyllis vulneraria), keldustör ( Carex magellanica), kollstör (C arex macloviana), laugamaðra ( Galium uliginosum), stóriburkni ( Dryopteris filix-mas), trjónubrúsi ( Sparganium angustifolium) og þúsundblaðarós ( Athyrium distentifolium).
    Á svæðinu finnast einnig ferlaufungur, lyngbúi, súrsmæra, eggtvíblaðka og skógfjóla sem eru friðlýstar plöntutegundir samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978.

b.     Sérstætt gróðurfar.
i.     Vatnshornsskógur.
    Lagt er til að Klausturskógur í Vatnshornshlíð í Skorradal, alls um 2 km² að stærð, verði verndaður. Svæðið er í Skorradalshreppi og er á náttúruminjaskrá (svæði 238) vegna lítt snortins birkiskógar með hávöxnum trjám og gróskumiklum botngróðri. Talið er mikilvægt að vernda þessar leifar birkiskógarins á Vesturlandi sem búsvæði birkis.
     Mörk: Mörk svæðisins fylgja vatnsborði Skorradalsvatns frá jarðamörkum Haga og Vatnshorns að Vatnshorni sem og þaðan upp Vatnshornshlíð upp fyrir skógarmörk og þaðan með skógarmörkum til baka að landi Haga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Gamall, lítt snortinn skógur. Óvenjuhávaxið birki samanborið við annað birki á Vesturlandi. Gróskumikill botngróður. Skógurinn er friðaður fyrir beit.
    Fjölbreytt fuglalíf er við ós Fitjaár.
     Eignarhald: Skógrækt ríkisins og Skorradalshreppur.
     Núverandi landnotkun: Skógurinn er notaður til útivistar.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Klausturskógur er náttúrlegur og hávaxinn birkiskógur sem ekki hefur verið raskað og er einn af fáum slíkum skógarleifum á Vesturlandi. Verndargildi skógarins er mikið vegna grósku hans og lítillar röskunar. Ekki liggja fyrir rannsóknir á gróðurfari eða dýralífi svæðisins.

c.     Jarðfræðiminjar.
i.     Geysir í Haukadal.
    Lagt er til að svæðið umhverfis Geysi, alls um 2,2 km² að stærð, verði verndað. Svæðið er í Bláskógabyggð og hefur verið á náttúruminjaskrá um langt skeið (svæði 737) vegna jarðhitans og hveranna, sérstaklega Geysis. Talið er nauðsynlegt að vernda svæðið vegna gildis þess fyrir þjóðina og vegna alþjóðlegs verndargildis. Lagt er til að svæðið verði verndað sem náttúruvætti á grundvellli jarðhitans og hveravirkni.
     Mörk: Geysissvæðið í Haukadal, ásamt 5 km jaðarsvæði umhverfis.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Geysissvæðið í Haukadal er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar. Allt fram á 19. öld voru goshverir óþekkt fyrirbæri utan Íslands. Svæðið á sér langa rannsóknasögu og eru elstu ritaðar heimildir frá 1294 en þá breyttist svæðið mikið í kjölfar jarðskjálfta. Geysissvæðisins er getið í ferðabókum og ferðahandbókum allt frá 17. öld. Geysir gefur erlendum hverum nafn, „geyser“, og hverahrúður er á erlendum málum oft kallað „geyserite“. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þekktastir. Marteinslaug er friðlýst sem fornminjar en þar var reist torfsundlaug og var þar sundkennsla fyrir börn í sveitinni. Árið 1894 keypti breskur maður hluta hverasvæðisins og rukkaði hann þá fyrir aðgang að því. Síðar gaf hann vini sínum svæðið. Árið 1935 keypti Sigurður Jónasson landið aftur og gaf það íslensku þjóðinni. Eftir að Geysissvæðið var girt af náði gróðurinn sér og eru þar þekktar yfir 125 tegundir háplantna og yfir 20 mosategundir.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu til lengri tíma, m.a. á goshegðun Geysis og Strokks.
    Svæðið er fjölsóttur ferðamannastaður.
     Eignarhald: Einstaklingar og ríkið.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður, beit, orlofshús, ferðaþjónusta og útivist.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Helstu ástæður þess að talið er mikilvægt að verndar svæðið eru jarðhitinn og goshverirnir, fyrst og fremst Geysir, og verður að telja svæðið þjóðargersemi. Á svæðinu finnst fjöldi sjaldgæfra háplantna og nokkrar sem eru á válista.

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Laugadepla Veronica anagallis-aquatica Háplanta Sjaldgæf VU Einn af >5 fundarstöðum
Vatnsnafli Hydrocotyle vulgaris Háplanta Sjaldgæf VU Einn af >5 fundarstöðum
Flóajurt Persicaria maculosa Háplanta Sjaldgæf VU Einn af >5 fundarstöðum
Ferlaufungur Paris quadrifolia Háplanta Sjaldgæf LR Einn af >5 fundarstöðum
Naðurtunga Ophioglossum azoricum Háplanta Sjaldgæf LR Einn af >5 fundarstöðum
Grámygla Filaginella uliginosa Háplanta Takmörkuð útbreiðsla
Fuglaertur Lathyrus pratensis Háplanta Takmörkuð útbreiðsla
Brönugrös Dactylorhiza maculata Háplanta Algeng Íslensk ábyrgðartegund
Friggjargras Platanthera hyperborea Háplanta Algeng Íslensk ábyrgðartegund

ii.     Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg.
    Það svæði sem lagt er til að vernda yst á Reykjanesskaga er um 113 km² að stærð og er innan marka sveitarfélaganna Grindavíkur og Reykjanesbæjar. Svæðið hefur verið á náttúruminjaskrá nokkuð lengi (svæði 106) vegna jarðfræðilegs mikilvægis þess en einnig vegna lífríkis. Mjög mikilvægt er talið að vernda svæðið á grundvelli jarðfræði og eldvirkni, m.a. vegna Atlantshafshryggjarins. Lagt er til að svæðið verði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis.
     Mörk: Mörk liggja úr Mölvík, um 2 km austan við Háleyjarbungu, í Þorbjarnarfell og um Lágar og Vörðugjá í Stapafell. Þaðan bein lína í vestur að eyðibýlinu Eyrarbæ við norðurenda Hafnabergs. Karlinn og aðrir stapar fyrir ströndu eru innan svæðisins. Iðnaðarsvæðið á Reykjanesi telst ekki til fyrirhugaðs verndarsvæðis.
    Mörk svæðisins eru sett fram með fyrirvara og líta ber á þau sem tillögur að mörkum sem nánar verður fjallað um við undirbúning friðlýsingar.
     Svæðislýsing: Reykjaneshryggurinn, nyrsti hluti Mið-Atlantshafshryggjarins, sem klýfur Atlantshafið í tvær úthafsplötur kemur á land á Reykjanesi. Ísland er eini staðurinn á jörðinni þar sem skoða má virkan úthafshrygg ofansjávar og hvergi er tengingin skýrari en á Reykjanesi. Aðrir hlutar hryggjarins (rekbeltanna) á Íslandi eru undir meiri áhrifum frá heita reitnum undir Íslandi og að því leyti ólíkari venjulegum úthafshryggjum. Á Reykjanesi sjást glögglega merki gliðnunar í sprungubeltum og sigdölum. Þar eru fallegar gígaraðir (t.d. Eldvörp og Stampar) og dyngjur (Skálafell, Háleyjarbunga og Sandfellshæð). Háleyjarbunga er úr pikríti sem er sjaldgæf bergtegund. Þar er öflugt og sérstætt jarðhitasvæði með fjölskrúðugum hveragróðri og volg sjávartjörn. Reykjanes er einstakt svæði til jarðfræðirannsókna og hefur mikið fræðslugildi. Í Hafnabergi er fjölskrúðug bjargfuglabyggð með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Hafnaberg er aðgengilegt til fuglaskoðunar og því tilvalið til fræðslu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Eignarhald: Einkaeign og ríkiseign.
     Núverandi landnotkun: Orkuframleiðsla, útivist, ferðaþjónusta og saltverksmiðja.
     Lykiltegundir og forsendur fyrir verndun: Alþjóðlegt verndargildi svæðisins er mikið, einkum sakir þess að þetta er eini staðurinn í heiminum sem úthafshryggurinn kemur á land og er sýnilegur. Svæðið er einstakt til jarðfræðirannsókna og fræðslugildi þess er mikið. Þá eykur það gildi svæðisins að um 2–4% af kríustofninum verpir þar og að fjöldi sjaldgæfra jarðhitaplantna er mikill.

Tegund Fjöldi fugla Hlutfall af íslenskum stofni Hlutfall af evrópskum stofni
Kría 8.200–10.500 pör 2–4 1–2
Rita 2300 fuglar <1 <1
Langvía 600 fuglar <1 <1
Stuttnefja 80 fuglar <1 <1
Álka 380 fuglar <1 <1
Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsenda verndar
Dvergtungljurt Botrychium simplex var. Háplanta Sjaldgæf DD Einn af fáum fundarstöðum
Flóajurt Persicaria maculosa Háplanta Sjaldgæf VU Fleiri en fimm fundarstaðir, vegna jarðhita
Giljaflækja Vicia sepium Háplanta Sjaldgæf LR Fleiri en fimm fundarstaðir
Hveraburst Campylopus flexuosus Mosi LR Fundist á þremur svæðum, jarðhitategund
Hæruburst Campylopus introflexus Mosi Fremur algeng VU Þarf að fara af válista
Laugaseti Entosthodon attenuatus Mosi LR Fjórir fundarstaðir, jarðhitategund
Naðurtunga Ophioglossum azoricum Háplanta Sjaldgæf LR Fleiri en 5 fundarstaðir, vegna jarðhita
Cladonia humilis Flétta Sjaldgæf
Bryum subapiculatum Mosi Fimm fundarstaðir, jarðhitategund
Campylopus pyriformis Mosi Fjórir fundarstaðir, jarðhitategund
Riccia beyrichiana Mosi Fundist á ellefu stöðum, jarðhitategund
Didymodon tophaceus Mosi Fundist á sjö stöðum, jarðhitategund
Marsupella funckii Mosi Tveir fundarstaðir, jarðhitategund
Riccia cavernosa Mosi Tveir fundarstaðir, jarðhitategund