Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 854  —  299. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um starfslokasamninga sl. 10 ár.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir á ári undanfarin 10 ár við yfirmenn stofnana á vegum hins opinbera og starfsmenn í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera, sundurliðað eftir kynjum?
     2.      Hversu mikið kostuðu þessir starfslokasamningar hver og einn?
     3.      Hversu mikið hafa þeir kostað undanfarin 10 ár, sundurliðað eftir árum og kynjum?


    Upplýsingar varðandi framangreinda fyrirspurn um starfslokasamninga eru ekki aðgengilegar. Þær er ekki hægt að nálgast miðlægt, hvorki úr launavinnslukerfi ríkisins né með öðrum rafrænum hætti. Auk þess veldur það vandkvæðum að hugtakið starfslokasamningur er ekki skýrt. Það er oft notað um samninga sem gerðir eru í tengslum við niðurlagningu starfa án þess að endilega sé samið um greiðslur umfram réttindi viðkomandi einstaklings samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (biðlaunarétt). Þá er nokkuð um að samið sé um starfslok í tilteknu starfi samhliða því sem gerður er tímabundinn samningur við viðkomandi um tiltekið verkefni eða ráðgjöf. Það er umdeilanlegt hvort slíkir samningar teljast til eiginlegra starfslokasamninga eða ekki.
    Við undirbúning á svari þessu var leitað til allra ráðuneyta um upplýsingar varðandi starfslokasamninga sem þau og undirstofnanir þeirra hafa gert. Í því sambandi tók fjármálaráðuneytið eftirfarandi fram:
     1.      Eðlilegt er að takmarka samantektina við samninga sem fela í sér greiðslur umfram það sem kveðið er á um í lögum um starfsmenn ríkisins eða í kjarasamningum, enda á samningsformið ekki við þegar um lögbundin eða samningsbundin réttindi er að ræða. Þannig bæri t.d. að sleppa samningi vegna niðurlagningar á starfi sem kvæði á um biðlaunagreiðslur sem viðkomandi ætti rétt á samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     2.      Rétt þykir að miða við tímabilið frá og með 1. janúar 1994 til og með vinnsludegi.
     3.      Litið er svo á að til stofnana á vegum hins opinbera teljist ráðuneyti og undirstofnanir þeirra en ekki hlutafélög og annars konar félög, einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins.
     4.      Telja verður eðlilegt að kostnaður sé tilgreindur með sama hætti og gert var í svari forsætisráðherra við c-lið 1. liðar í fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um starfslokasamninga á 127. löggjafarþingi 2001–2002, þskj. 832, 396. mál.

Svar við 1. lið fyrirspurnarinnar um fjölda starfslokasamninga.
    Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytunum er samanlagður fjöldi slíkra samninga sem gerðir hafa verið við yfirmenn og starfsmenn í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera á ári undanfarin 10 ár (miðað við upphafsdag/gildistöku samnings), sundurliðað eftir kynjum, eins og greinir í töflu þessari:

Ár Karlar Konur
1994 1
1995 2
1996 1
1997 2 2
1998 3 1
1999 4 1
2000 9 1
2001 8 1
2002 6
2003 3 1
Samtals 39 7


Svar við 2. lið fyrirspurnarinnar um kostnað ásamt fleiri upplýsingum.

    Svör ráðuneytanna voru sett fram með nokkuð mismunandi hætti, einkum varðandi kostnað, en upplýsingar um hann verða ekki með góðu móti sóttar í launavinnslukerfið eða með öðrum rafrænum hætti. Þá virðast samningar um starfslok sjaldnast kveða nákvæmlega á um tiltekna fjárhæð heldur er yfirleitt kveðið á um greiðslur/laun í tiltekinn tíma. Vegna þessa eru svör ráðuneytanna birt hér í heild sinni ásamt frekari upplýsingum þegar það á við, svo sem um kyn og gildistíma samninga. Slíkar viðbótarupplýsingar eru jafnan hafðar innan sviga. Athugasemdir fjármálaráðuneytis eru hafðar innan hornklofa.

Forsætisráðuneytið.
    Forsætisráðuneytið hefur á umræddu tímabili gert einn starfslokasamning. Árið 1996 var gerður samningur við forstöðumann stofnunar við niðurlagningu hennar. Samkvæmt samningnum skyldi viðkomandi einstaklingur fá greidd biðlaun í 12 mánuði frá 1. janúar 1997, lögum samkvæmt, auk þess sem greidd skyldi tiltekin fjárhæð mánaðarlega fyrir ráðgjafarstörf (15 stundir per mánuð) frá því að biðlaunagreiðslum lauk og fram til 5. júlí 2002 [svarar til 100% starfs í 4,7 mánuði].
    Viðkomandi forstöðumaður var karlkyns. Kostnaður vegna framangreinds samnings nam samtals 2.543.347 kr. yfir tímabilið 1. janúar 1998–5. júlí 2002 á verðlagi ársins 2002 án launatengdra gjalda.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
    Ráðuneytið hefur gert einn slíkan samning. Voru málavextir þeir að yfirmaður undirstofnunar (karlmaður) með langan starfsaldur hafði misst heilsuna og var útlit fyrir að hann yrði lengi frá störfum, en veikindaréttur hans var eitt ár. Samið var við hann um að hann léti af störfum svo unnt yrði að skipa nýjan mann í hans stað en ella yrði líklegast að reka stofnunina um margra mánaða skeið með staðgengli. Yfirmaður tók hins vegar að sér sérstakt verkefni fyrir ráðuneytið í eitt ár (2002) og þáði fyrir það laun sem miðuð voru við sjúkralaun embættismanna. Að loknu því tímabili fór hann á eftirlaun.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um gerð starfslokasamninga við yfirmenn hjá undirstofnunum þess á því tímabili sem til umræðu er.

Félagsmálaráðuneytið.
    Stofnanir félagsmálaráðuneytis hafa enga slíka samninga gert síðan 1. janúar 1994. Félagsmálaráðuneytið hefur gert tvo starfslokasamninga og eru þeir báðir við konur. Annar samningurinn var gerður í árslok 1996 við konu sem hafði verið í viðkomandi starfi í u.þ.b. 15 ár. Kvað samningurinn á um sem svaraði tólf mánaða launum og var kostnaður vegna samningsins 2.803.050 kr. á verðlagi 1997. Hinn samningurinn var gerður á þessu ári (2003) við konu sem hafði verið í viðkomandi starfi í u.þ.b. þrjú ár. Kvað samningurinn á um sem svaraði sex mánaða launum og var kostnaður vegna samningsins 3.650.288 kr.

Fjármálaráðuneytið.
    Fjármálaráðuneytið gerði samninga við tvo karla á umræddu tímabili:
     1.      Við starfslok yfirmanns/forstöðumanns undirstofnunar ráðuneytisins í árslok 2000 var viðkomandi einstaklingi falið að sinna ráðgjöf og verkefnum samkvæmt nánari ákvörðun ráðuneytisstjóra til septemberloka 2001, eða í 9 mánuði.
     2.      Við starfslok aðstoðarforstjóra í undirstofnun ráðuneytisins var í ágúst 2000 gerður samningur sem kvað á um að honum skyldu greidd laun í tólf mánuði samkvæmt þeim starfskjörum sem um stöðuna giltu.
    Ein af undirstofnunum ráðuneytisins gerði starfslokasamninga við þrjá stjórnendur (karla). Árið 1998 var gerður einn samningur vegna aldurs til 6,5 mánaða. Árið 2001 voru gerðir tveir samningar vegna langvarandi veikinda, annar til 21 mánaða og hinn til 20 mánaða.

Hagstofa Íslands.
    Hagstofa Íslands hefur ekki gert neina starfslokasamninga undanfarin 10 ár við starfsmenn í stjórnunarstöðum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
    Á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og stofnana þess hafa á umræddu tímabili verið gerðir tólf starfslokasamningar sem fallið geta undir þá skilgreiningu sem fram kemur í 1. tölul. í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 21. nóvember 2003, sbr. og 1. lið í fyrirspurninni. Kostnaður er tilgreindur með sama hætti og gert var í svari forsætisráðherra við c-lið 1. liðar í fyrirspurn um starfslokasamninga á 127. löggjafarþingi 2001–2002, sbr. 4. tölul. í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 21. nóvember sl.
    Eftirtaldir níu samningar hafa verið gerðir við karlmenn:
     1.      Framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar voru greidd föst laun í þrjá mánuði eftir að tímabundinni ráðningu lauk (2002). Orlof er meðtalið.
     2.      Við niðurlagningu stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar var gert samkomulag um að viðkomandi einstaklingi skyldu greidd föst laun í níu mánuði eftir að tímabundinni ráðningu lauk (2000).
     3.      Við niðurlagningu stöðu yfirlæknis sjúkrahúss var gert samkomulag um að viðkomandi skyldu greidd laun í þrjá mánuði og 20 daga umfram biðlaunarétt, eða þar til 67 ára aldri væri náð (1997). Orlof og ótekin leyfi eru meðtalin.
     4.      Við niðurlagningu stöðu yfirlæknis sjúkrahúss var gert samkomulag um að viðkomandi skyldu greidd laun í ellefu mánuði eftir starfslok (1998), þar til eftirlaunaaldri var náð. Orlof og ótekin leyfi meðtalin.
     5.      Forstjóra voru greidd föst laun í átta mánuði eftir starfslok (2001). Orlof er meðtalið.
     6.      Framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar voru greidd laun í 24 mánuði eftir starfslok (2002). Orlof innifalið.
     7.      Framkvæmdastjóra sjúkrahúss voru greidd 78,65% mánaðarlaun í 18 mánuði eftir að veikindaleyfi lauk og þar til eftirlaunaaldri var náð (1995). [Svarar til 100% launa í 14,2 mánuði.]
     8.      Framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvar greidd laun í þrjá mánuði (2002).
     9.      Heilsugæslulækni greidd laun í 13 mánuði (2001).
    Eftirtaldir þrír samningar hafa verið gerðir við konur:
     1.      Við niðurlagningu starfs hjúkrunarforstjóra var gert samkomulag um að viðkomandi einstaklingi skyldu greidd laun í tólf mánuði (2001).
     2.      Framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvar, er starfað hafði í 50% starfi, voru greidd laun í tólf mánuði eftir starfslok (1999). Orlof er meðtalið. [Svarar til 100% launa í sex mánuði.]
     3.      Yfirmanni í eldhúsi voru greidd tólf mánaða laun þar til eftirlaunaaldri var náð (2000).

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
    Árið 1996. Við niðurlagningu undirstofnunar iðnaðarráðuneytisins var gert samkomulag við forstöðumann hennar um að hann skyldi njóta launa í tólf mánuði frá starfslokum, í stað biðlauna, og að hann mundi veita ráðuneytinu ráðgjöf að því tímabili loknu. Fyrir vinnuframlag hans komu greiðslur.
    Árið 1999. Við starfslok stjórnanda í iðnaðarráðuneytinu varð að samkomulagi að hann nyti launa, samkvæmt ákvörðun kjaranefndar um starfið, í 18 mánuði frá starfslokum.
    Árið 2000. Við flutning undirstofnunar iðnaðarráðuneytisins var gert samkomulag við fyrrverandi forstjóra hennar um að hann sinnti verkefnum í tengslum við flutning stofnunarinnar um tólf mánaða skeið og að hann nyti óskertra launa á meðan.
    Árið 2002. Við starfslok forstjóra undirstofnunar iðnaðarráðuneytis varð að samkomulagi að hann nyti launa samkvæmt ákvörðun kjaranefndar um starfið í 24 mánuði.
    Árið 2003. Við starfslok forstöðumanns undirstofnunar iðnaðarráðuneytis varð að samkomulagi að hann nyti óskertra launa í 12 mánuði, gegn vinnuframlagi er stofnunin óskaði eftir.
    Umræddir aðilar eru allir karlmenn.

Landbúnaðarráðuneytið.
    Hjá landbúnaðarráðuneytinu hefur einungis verið gerður einn starfslokasamningur á umræddu tímabili. Samningurinn var við fyrrverandi stjórnanda (karlmann) á aðalskrifstofu ráðuneytisins og fól í sér sérverkefni (ca. 20% starfshlutfall) sem viðkomandi tók að sér eftir starfslok. Samningurinn gilti frá 1. september 2000 til ársloka 2001 [svarar til 100% starfs í 3,2 mánuði]. Samkvæmt samningi þessum voru greiddar 2.010.651 kr. Launatengd gjöld voru á umræddu tímabili 358.641 kr.
    Þá var gerður samningur um áframhaldandi störf fyrir ráðuneytið við fyrrverandi stjórnanda á aðalskrifstofu ráðuneytisins. Sá samningur gilti frá 1. febrúar 1995 til loka september 1997 [32 mánuðir]. Samkvæmt samningnum voru greiddar 10.552.292 kr. Launatengd gjöld voru 894.304 kr.

Menntamálaráðuneytið.
    Menntamálaráðuneytið hefur gert þrjá starfslokasamninga við yfirmenn stofnana og starfsmenn í stjórnunarstöðum á því tímabili sem spurt er um.
    Gert var samkomulag um starfslok við forstöðumann undirstofnunar (konu). Forstöðumaðurinn fékk leyfi frá starfi frá 1. nóvember 1997–31. ágúst 1998 á embættislaunum að orlofi meðtöldu [tíu mánuðir]. Staðan var formlega lögð niður 1. september 1998 og fékk viðkomandi greidd biðlaun frá þeim tíma í tólf mánuði.
    Gert var samkomulag við forstöðumann undirstofnunar (karl) er hann lét af störfum. Samkvæmt því skyldi viðkomandi njóta launagreiðslna í tvö ár, gegn vinnuframlagi tengdu þeirri stofnun sem hann áður veitti forstöðu. Gildistími samningsins var frá 1. apríl 2000–31. mars 2002.
    Gert var samkomulag við forstöðumann undirstofnunar (karl) um að hann nyti óskertra launa í 19 mánuði eftir að hann lét af starfi sínu og kom til starfa á ný eftir veikindi. Á móti kom vinnuframlag við ráðgjöf er tengist starfsreynslu viðkomandi einstaklings. Gildistími samningsins var frá 1. júní 2001–31. desember 2002.

Samgönguráðuneytið.
1.    Starfslokasamningar á vegum ráðuneytisins:
    Á umræddu tímabili hefur ráðuneytið gert þrjá starfslokasamninga við starfsmenn í stjórnunarstöðum. Gerðir voru samningar við eftirtalda starfsmenn:
     a.      Stjórnanda í samgönguráðuneytinu: Samkomulagið var um að stjórnandinn fyrrverandi (karlmaður) tæki að sér ákveðið verk fyrir ráðuneytið og héldi fullum launum fyrir, ásamt greiðslum fyrir afnot af eigin bifreið sem nam 4.000 km á ári. Fastagjald fyrir afnot af síma var einnig greitt. Samningurinn tók gildi 1. september 1994 og skyldi lokið eigi síðar en 31. desember 1998. Viðkomandi lést í september 1997 [37 mánuðir].
     b.      Yfirmann undirstofnunar: Samkomulagið tók gildi 1. september 2001 og gilti til og með 31. mars 2002 [7 mánuðir]. Greidd voru föst mánaðarlaun með vinnuskyldu. Um karlmann er að ræða.
     c.      Stjórnanda í undirstofnun: Í september 2001 var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi stjórnanda (karlmann) undirstofnunar með gildistöku frá 1. janúar 2001–30. september 2004 [45 mánuðir]. Launagreiðslur með vinnuskyldu eru mánaðarlaun auk fastrar yfirvinnu (37 klst.).
2.    Starfslokasamningar á vegum stofnana ráðuneytisins.
    Undirstofnun. Umrætt tímabil voru gerðir sjö starfslokasamningar við starfsmenn í stjórnunarstöðum umfram lögbundinn biðlaunarétt hjá einni stofnun, í öllum tilvikum er um karla að ræða sem unnu um áratuga skeið hjá stofnuninni en hættu störfum vegna aldurs eða skipulagsbreytinga. Samningarnir voru háðir því skilyrði að ef viðkomandi starfsmaður gerðist launþegi hjá öðrum vinnuveitanda féllu greiðslur samkvæmt þeim niður eða lækkuðu sem næmi launum í hinu nýja starfi. Fimm starfslokasamningar fólu í sér að greidd voru laun í sex mánuði án vinnuskyldu af hálfu starfsmanna en tveir voru gerðir við fyrrverandi yfirmenn þjónustusvæða vegna skipulagsbreytinga. Þessir tveir síðarnefndu fólu í sér greiðslur umfram lögbundinn biðlaunarétt vegna niðurlagningar starfs. Annars vegar er um að ræða samning þar sem starfsmaður fékk greidd full laun í eitt ár og dagvinnulaun í eitt ár og átta mánuði og hins vegar samning sem fól í sér full laun í eitt ár og dagvinnulaun í eitt ár. Samningarnir dreifðust á umrætt árabil með eftirfarandi hætti:
          Ár 1997: Einn samningur um full laun í eitt ár og dagvinnulaun í eitt ár og átta mánuði [32 mánuðir].
          Ár 1999: Tveir samningar til sex mánaða hvor [2 x 6 mánuðir].
          Ár 2000: Tveir samningar, annar þar sem starfsmaður fékk greidd full laun í eitt ár og dagvinnulaun í eitt ár og hinn fól í sér greiðslur til sex mánaða [24 mánuðir & 6 mánuðir].
          Ár 2002: Einn samningur til sex mánaða.
          Ár 2003: Einn samningur til sex mánaða.

Sjávarútvegsráðuneytið.
    Stjórn einnar undirstofnunar sjávarútvegsráðuneytisins hefur með vitund og samþykki ráðuneytisins gert samkomulag við stjórnanda. Fól það í sér að viðkomandi skyldi sinna sérverkefnum í 15 mánuði gegn greiðslu fastra mánaðarlauna og launatengdra gjalda en að greiðslur féllu niður ef viðkomandi tæki sér annað launað aðalstarf. Samningurinn gildir til 31. desember 2002.
    Á tímabilinu frá 1. janúar 1994 til þessa dags er ekki vitað um aðra starfslokasamninga á vegum sjávarútvegsráðuneytisins sem fyrirspurn fjármálaráðuneytisins nær til, sbr. 1. tölul. í bréfi þess frá 21. nóvember 2003.

Umhverfisráðuneytið.
    Á umræddu tímabili, þ.e. frá og með 1. janúar 1994–31. desember 2003 gerði aðalskrifstofa umhverfisráðuneytisins einn samning við einn stjórnanda en stofnanir ráðuneytisins gerðu tvo samninga við yfirmenn.
    Samningur aðalskrifstofu var gerður á árinu 1998 við konu í stjórnunarstöðu að upphæð 1.300.000 kr. (svarar til launa í u.þ.b. 5,5 mánuði).
    Ein stofnun umhverfisráðuneytisins gerði einn starfslokasamning við yfirmann, karlmann, frá 1. janúar 2000–31. desember 2003 [48 mánuðir]. Kostnaður vegna starfslokasamnings er um 250.000 kr. á mánuði og heildarkostnaður stofnunarinnar um 9.000.000 kr.
    Önnur stofnun umhverfisráðuneytisins gerði einn starfslokasamning við yfirmann, karlmann, frá 20. júní 2003–31. mars 2004 [9,3 mánuðir]. Kostnaður vegna starfslokasamnings er að meðaltali alls um 600.000 kr. á mánuði með launatengdum gjöldum. Heildarkostnaður stofnunarinnar fyrir gildistíma starfslokasamningsins er því um 5.400.000 kr.

Utanríkisráðuneytið.
    Engir starfslokasamningar hafa verið gerðir við starfsmenn í stjórnunarstöðum í ráðuneytinu á umræddu tímabili. Hins vegar hafa í tveimur tilvikum verið gerðar sérstakar ráðstafanir við starfslok yfirmanna undirstofnana ráðuneytisins sem hættu fyrir sjötugt. Það er lagt í mat fjármálaráðuneytisins hvort umræddir samningar teljist vera eiginlegir starfslokasamningar.
    [Önnur ráðstöfunin tengdist hlutafélagi og á því ekki við í svari þessu, sbr. athugasemd fjármálaráðuneytisins til ráðuneytanna um að litið væri svo á að til stofnana á vegum hins opinbera teldust ráðuneyti og undirstofnanir þeirra en ekki hlutafélög og annars konar félög, einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þó séu að öllu leyti í eigu ríkisins.]
    Hin ráðstöfunin fólst í því að yfirmanni undirstofnunar sem var veitt lausn frá störfum árið 1999 voru greidd laun í fimm mánuði til viðbótar sem ráðgjafa um rekstur stofnunarinnar.

Svar við 3. lið fyrirspurnarinnar um kostnað, sundurliðað eftir árum og kynjum.
    Eins og áður hefur komið fram er heildarkostnaður sjaldnast tilgreindur í starfslokasamningum. Upplýsingar um kostnað slíkra samninga liggja heldur ekki fyrir miðlægt. Þær er ekki hægt að nálgast í launavinnslu- eða bókhaldskerfi ríkisins eða með öðrum rafrænum hætti. Það hefði kostað mikla vinnu að afla allra þeirra gagna sem nauðsynleg hefðu verið til þess að reikna út hvað þeir kostuðu hver og einn fyrir sig og hversu mikið þeir hafa kostað undanfarin 10 ár sundurliðað eftir árum og kynjum. Þá hefðu útreikningar úr þessum gögnum einnig kallað á mikla nákvæmnisvinnu. Að þessu virtu var ákveðið að taka saman fjölda þeirra mánaða sem um ræðir, enda virðast starfslokasamningar jafnan kveða á um greiðslur/ laun í tiltekinn tíma. Samkvæmt framangreindum upplýsingum frá ráðuneytunum er fjöldi mánaða sem greitt hefur verið fyrir samtals og að meðaltali sundurliðað eftir árum og kynjum eins og greinir í töflu þessari:

Ár Karlar
mánuðir samtals
Karlar
meðaltal mánaða
Konur
mánuðir samtals
Konur
meðaltal mánaða
1994 37 37
1995 46,2 23,1
1996 12 12
1997 35,7 17,9 22 11
1998 22,2 7,4 5,5 5,5
1999 35 8,75 6 6
2000 153,2     17 12 12
2001 142 17,8 12 12
2002 72 12
2003 27,3 9,1 6 6