Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 862  —  572. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukið samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna.

Flm.: Birgir Ármannsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,


Einar Oddur Kristjánsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2003, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla enn frekar samstarf landanna um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum og stuðla að samningum sem tryggi áfram sjálfbæra nýtingu þeirra.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2003 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 14.–16. ágúst 2003. Ályktunin var efnislega á þessa leið:
    Vestnorræna ráðið ályktar að fela ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að auka samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna.
    Góður efnahagur Vestur-Norðurlanda, Færeyja, Grænlands og Íslands, er að langmestu leyti kominn undir skynsamlegri nýtingu auðæfa sjávar og af þeim sökum er brýnt að löndin hafi áfram með sér gott samstarf um sjálfbæra nýtingu sameiginlegra fiskstofna.
    Auðlindir hafsins eru ekki óþrjótandi. Arðbær nýting á sameiginlegum fiskstofnum er háð því að Vestur-Norðurlönd standi saman um ábyrga stefnu. Með því móti fá komandi kynslóðir einnig notið þess arðs sem sjávarútvegur aflar íbúum landanna. Afar mikilvægt er að vestnorrænu löndin hafi með sér nána samvinnu um ábyrga fiskveiðistjórn á Norður-Atlantshafi svo að auðlindin nýtist þeim öllum til hagsbóta.
    Enginn vafi er á því að Vestur-Norðurlöndum hefur tekist betur en mörgum öðrum að fullnægja grundvallarkröfum um nýtingu fiskstofna. Löndin eru aðilar að alþjóðasamningum um fiskveiðar og milli landanna eru í gildi tvíhliða samningar sem öll löndin hafa hag af.
    Ávallt er þó hægt að bæta um betur og þess vegna er mikilvægt að með tvíhliða samningum um fiskveiðar og á fjölþjóðlegum vettvangi, eins og í Norðaustur- Atlantshafsfiskveiðiráðinu (NEAFC), vinni vestnorrænu löndin áfram í sameiningu að eðlilegri þróun sjávarútvegs.
    Hingað til hafa Vestur-Norðurlönd getað leyst í sameiningu vandamál varðandi sameiginlega fiskstofna og er tillögu þessari ætlað að stuðla að því að svo verði áfram.
    Vestnorræna ráðið beinir því þeim tilmælum til ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda að samþykkja ályktun um þetta efni.