Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 611. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 919  —  611. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003 frá 7. nóvember 2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    
Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003 frá 7. nóvember 2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum.
    Í reglugerðinni er kveðið á um að kostnaður við greiðslur á milli landa í evrum skuli vera hinn sami og kostnaður við greiðslur í evrum innan lands. Jafnframt skulu upplýsingar um kostnað við greiðslur milli landa vera aðgengilegur. Reglugerðin gildir um greiðslur allt að 12.500 evrum fram til ársins 2006 en þá hækkar fjárhæðin í 50.000 evrur.
    Tvær gerðir hafa verið settar um færslu fjármuna á milli landa á síðustu árum. Aðdragandinn að setningu þeirra er sá að eftir opnun innri markaðarins 1992 var gerð athugun á kostnaði við að færa fé á milli aðildarríkja ESB. Í ljós kom að gjöld bankanna við flutninginn voru stór hluti heildarfærslunnar og því stærri hluti sem færslan var lægri. Framkvæmdastjórn ESB leit svo á að þessi kostnaður hamlaði skilvirkni innri markaðarins og skoraði á bankakerfið að gera bragarbót á, ellegar gripi ESB til viðeigandi úrræða.
    Árið 1997 var síðan sett tilskipun um færslu fjármuna á milli landa (Cross-border credit transfer no. 97/5/EC). Sú tilskipun lýtur ekki að kostnaði við millifærslur heldur gagnsæi skilyrða fyrir færslu fjármuna á milli landa, upplýsingar sem bankar þurfa að veita áður en færsla er afgreidd, skuldbindingum um að afgreiða færslur fyrir tiltekinn tíma og endurgreiðslukvöð á banka ef færsla er ekki afgreidd. Þessi tilskipun hefur verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt með breytingum á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992.
    Fyrir upptöku evrunnar gerði framkvæmdastjórnin aðra athugun á færslukostnaði á milli landa. Niðurstaðan var mjög áþekk hinni fyrri. Þar eð ekkert hafði áunnist á tíu árum í þessum efnum greip ESB til aðgerða. Sett var reglugerð um greiðslur yfir landamæri í evrum í árslok 2001 (cross-border payments in euros no. 2560/2001/EC). Í reglugerðinni er kveðið á um að gjöld banka fyrir miðlun evra yfir landamæri, upp að ákveðnu hámarki, skuli vera þau sömu og gjöld banka vegna sams konar miðlunar innan aðildarríkisins.
    Evrópskir bankar voru andvígir setningu reglugerðarinnar. Þeir töldu að hún væri inngrip í frjálsa verðlagningu og mundi leiða til stórfelldrar hækkunar á innanlandsgjöldum. Eftir að reglugerðin var sett hefur starf bankanna miðað að því að samhæfa hin ólíku greiðslumiðlunarkerfi innan ESB.
    Upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn seinkaði vegna þess að Ísland og Noregur óskuðu samhliða eftir aðild að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Evrópu, TARGET. Þeirri ósk hefur verið hafnað af Seðlabanka Evrópu. Með upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn fylgir hins vegar yfirlýsing um að EFTA-ríkjunum verði ekki mismunað við samhæfingu evrópskra greiðslukerfa.
    Unnið er nú að innleiðingu reglugerðarinnar í viðskiptaráðuneytinu.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 154/2003

frá 7. nóvember 2003

um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 48/2003 frá 16. maí 2003 ( 1 ).


2)         Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir 2. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/EB) í XII. viðauka við samninginn:

„3.          32001 R 2560: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum (Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 13).

            Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

            Viðurkenndar lánastofnanir í Liechtenstein skulu njóta undanþágu frá ákvæðum 3. gr. reglugerðarinnar til 1. júlí 2005.“

2. gr.

Texti reglugerðar (EB) nr. 2560/2001 á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 8. nóvember 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 7. nóvember 2003.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður
    Prins Nikulás af Liechtenstein

    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 2560/2001
frá 19. desember 2001
um greiðslur yfir landamæri í evrum


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB frá 27. janúar 1997 um færslu fjármuna milli landa( 5 ) var leitast við að bæta þjónustu við færslu fjármuna yfir landamæri, einkum skilvirkni hennar. Markmiðið var einkum að gera neytendum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að færa fjármuni á skjótan, áreiðanlegan og ódýran hátt frá einum hluta bandalagsins til annars. Slíkar færslur fjármuna og greiðslur yfir landamæri almennt eru enn þá afar dýrar, miðað við greiðslur innanlands. Athugun, sem framkvæmdastjórnin lét gera og birti 20. september 2001, leiddi í ljós að neytendur fá ófullnægjandi eða engar upplýsingar um kostnað við færslu fjármuna og að meðalkostnaður við greiðslur yfir landamæri hefur vart breyst frá árinu 1993 þegar sambærileg athugun var gerð.
     2)      Orðsending framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og ráðsins frá 31. janúar 2000 um smásölugreiðslur á innri markaðnum ásamt ályktunum Evrópuþingsins frá 26. október 2000 um orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar og frá 4. júlí 2001 um leiðir til að aðstoða rekstraraðila við að breyta yfir í evru, svo og skýrslur Seðlabanka Evrópu frá september 1999 og september 2000 um að bæta þjónustu í tengslum við greiðslur yfir landamæri, hafa allar lagt áherslu á brýna nauðsyn skilvirkra umbóta á þessu sviði.
     3)      Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins, ráðsins, efnahags- og félagsmálanefndarinnar, svæðanefndarinnar og Seðlabanka Evrópu frá 3. apríl 2001 um undirbúning vegna innleiðingar evruseðla og -myntar er tilkynnt að framkvæmdastjórnin muni íhuga að nota öll tæki sem henni eru tiltæk og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að kostnaður við færslu fjármuna yfir landamæri verði færður til samræmis við kostnað við færslu fjármuna innanlands og þar með að gera hugmyndina um evrusvæðið sem „innlent greiðslusvæði“ áþreifanlega og skýra í hugum borgaranna.
     4)      Ef miðað er við markmiðið sem var áréttað þegar evran var tekin upp sem reikningsgjaldmiðill, nánar tiltekið að ná fram ef ekki samræmdri, þá a.m.k. svipaðri gjaldtökustefnu varðandi evruna, hefur ekki orðið neinn marktækur árangur að því er varðar lækkun kostnaðar vegna greiðslna yfir landamæri, miðað við greiðslur innanlands.
     5)      Magn greiðslna yfir landamæri eykst stöðugt eftir því sem innri markaðurinn nær betri fótfestu. Á þessu landamæralausa svæði hefur tilkoma evrunnar gert greiðslur auðveldari.
     6)      Sú staðreynd að gjöld fyrir greiðslur yfir landamæri eru áfram hærri en gjöld fyrir innlendar greiðslur hamlar viðskiptum yfir landamæri og hindrar því eðlilega starfsemi innri markaðarins. Einnig er líklegt að þetta hafi áhrif á tiltrú á notkun evrunnar. Í því skyni að greiða fyrir starfsemi innri markaðarins er því nauðsynlegt að tryggja að gjöld fyrir greiðslur yfir landamæri í evrum séu þær sömu og gjöld fyrir greiðslur í evrum innan aðildarríkis en það mun einnig efla tiltrú á evrunni.
     7)      Að því er varðar rafræna greiðslumiðlun yfir landamæri í evrum skal meginreglan um sömu gjöld gilda frá og með 1. júlí 2002, að teknu tilliti til aðlögunartímabila og þess aukna vinnuálags sem breytingin yfir í evrur hefur í för með sér. Til að mögulegt sé að koma á nauðsynlegu grunnvirki og skilyrðum skal til 1. júlí 2003 vera í gildi aðlögunartímabil að því er varðar færslu fjármuna yfir landamæri.
     8)      Eins og sakir standa er ekki ráðlegt að beita meginreglunni um samræmdar gjaldfærslur þegar um er að ræða pappírsávísanir þar sem þær eru þess eðlis að ekki er hægt að meðhöndla þær á jafn skilvirkan hátt og annan greiðslumáta, einkum rafrænar greiðslur. Þó skal meginreglan um gagnsæi gjaldfærslu einnig gilda um ávísanir.
     9)      Í því skyni að gera viðskiptavini kleift að meta kostnað við greiðslu yfir landamæri er nauðsynlegt að hann fái upplýsingar um þau gjöld sem í gildi eru og allar breytingar á þeim. Það sama á við þegar greiðsla yfir landamæri í evrum tekur einnig til annars gjaldmiðils en evrunnar.
     10)      Þessi reglugerð hefur engin áhrif á möguleika stofnana til að bjóða eitt heildargjald fyrir mismunandi greiðsluþjónustu, að því tilskildu að ekki sé gerður greinarmunur á greiðslum yfir landamæri og innanlands.
     11)      Einnig er mikilvægt að auðvelda greiðslustofnunum að annast greiðslur yfir landamæri. Í tengslum við þetta skal stuðla að stöðlun, einkum að því er varðar notkun alþjóðlegs bankareikningsnúmers (IBAN) ( 6 ) og bankanúmers (BIC) ( 7 ) sem nauðsynleg eru við rafræna vinnslu á færslu fjármuna yfir landamæri. Sem víðtækust notkun þessara númera er talin afar mikilvæg. Þar að auki skulu aðrar aðgerðir, sem fela í sér aukakostnað, aflagðar í því skyni að lækka gjaldtöku af viðskiptavinum í tengslum við greiðslur yfir landamæri.
     12)      Til að létta byrði stofnana sem annast greiðslur yfir landamæri er nauðsynlegt að afnema í áföngum skyldur um reglubundna, innlenda skýrslugjöf að því er varðar hagskýrslur um greiðslujöfnuð.
     13)      Til að tryggja að farið sé að þessari reglugerð skulu aðildarríkin sjá til þess að til séu fullnægjandi og skilvirkar verklagsreglur um kvartanir eða málsskot til að jafna deilur milli sendanda og stofnunar hans eða milli viðtakanda og stofnunar hans, og nota verklagsreglur sem fyrir eru þegar við á.
     14)      Æskilegt væri að framkvæmdastjórnin legði fram skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar eigi síðar en 1. júlí 2004.
     15)      Setja skal ákvæði um verklag sem gerir kleift að beita þessari reglugerð einnig á greiðslur yfir landamæri sem gerðar eru í gjaldmiðli annars aðildarríkis þegar það aðildarríki ákveður svo.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Inntak og gildissvið

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur um greiðslur í evrum yfir landamæri í því skyni að tryggja að gjöld fyrir þessar greiðslur séu þau sömu og fyrir greiðslur í evrum innan aðildarríkis.
Hún skal gilda um greiðslur í evrum yfir landamæri sem nema innan bandalagsins allt að 50 000 evrum.
Þessi reglugerð skal ekki gilda um greiðslur yfir landamæri sem færðar eru milli stofnana fyrir eigin reikning.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)      „greiðslur yfir landamæri“:
       i)          „færsla fjármuna yfir landamæri“: viðskipti, sem fara fram að frumkvæði sendanda, um stofnun eða útibú stofnunar í aðildarríki í þeim tilgangi að hafa ákveðna fjárhæð til reiðu fyrir viðtakanda í stofnun eða útibúi stofnunar í öðru aðildarríki; sendandi og viðtakandi geta verið einn og sami aðili,
       ii)      „rafræn greiðslumiðlun yfir landamæri“:
            —    færsla fjármagns með rafrænum greiðslumiðli, nema stofnun mæli fyrir um færsluna og framkvæmi,
            —    úttekt reiðufjár með rafrænum greiðslumiðli og hleðsla (og afhleðsla) rafræns seðils með búnaði á borð við hraðbanka og seðlavélar og hjá útgefanda eða stofnun sem er bundin af samningi um að taka við greiðslumiðlinum,
       iii)      „ávísanir yfir landamæri“: þær ávísanir sem skilgreindar eru í Genfarsamningnum þar sem kveðið er á um samræmd lög um ávísanir frá 19. mars 1931, og gefnar eru út á stofnun sem staðsett er í bandalaginu og notaðar við færslu fjármuna yfir landamæri í bandalaginu;
b)      „rafrænn greiðslumiðill“: fjargreiðslumiðill og rafeyrir sem gerir handhafa kleift að framkvæma rafræna greiðslumiðlun einu sinni eða oftar;
c)      „fjargreiðslumiðill“: miðill sem gerir handhafa kleift að taka út fjármuni af reikningi sínum í stofnun og að inna af hendi greiðslu til viðtakanda og alla jafna krefst persónulegs auðkennisnúmers og/eða annarrar ámóta sönnunar. Til fjargreiðslumiðla teljast einkum greiðslukort (kreditkort, debetkort, debetkort með greiðslufresti eða kreditkort án hámarks) og síma- og heimabankaþjónusta. Færsla fjármuna yfir landamæri fellur ekki undir þessa skilgreiningu.
d)      „rafeyrir“: hlaðanlegur greiðslumiðill, hvort sem um er að ræða reiðufjárkort eða tölvuminni sem greiðslueiningar eru geymdar á með rafrænum hætti;
e)      „stofnun“: einstaklingur eða lögaðili sem annast færslur fjármuna yfir landamæri;
f)      „gjaldfærslur“: allar gjaldfærslur stofnunar sem tengjast beint greiðslumiðlun í evrum yfir landamæri.

3. gr.

Gjöld fyrir rafræna greiðslumiðlun og færslu fjármuna yfir landamæri

1.     Frá og með 1. júlí 2002 skulu gjöld stofnunar fyrir rafræna greiðslumiðlun í evrum yfir landamæri, sem nema allt að 12 500 evrum, vera þau sömu og gjaldfærslur sömu stofnunar vegna samskonar greiðslumiðlunar í evrum innan aðildarríkisins þar sem stofnunin, sem annast rafrænu greiðslumiðlunina yfir landamæri, hefur starfsstöð sína.
2.     Í síðasta lagi frá og með 1. júlí 2003 skulu gjöld stofnunar fyrir færslu fjármuna í evrum yfir landamæri, sem nema allt að 12 500 evrum, vera þau sömu og gjöld sömu stofnunar vegna samskonar færslu fjármuna í evrum innan aðildarríkisins þar sem stofnunin, sem annast færslu fjármuna yfir landamæri, hefur starfsstöð sína.
3.     Frá og með 1. janúar 2006 skal fjárhæðin 12 500 evrur hækkuð í 50 000 evrur.

4. gr.

Gagnsæi gjaldtöku

1.     Stofnun skal koma á framfæri við viðskiptavini sína skriflega og, ef við á samkvæmt innlendum reglum, með rafrænum hætti, á eðlilegu og skiljanlegu máli fyrirfram- upplýsingum um gjaldtöku í tengslum við greiðslur yfir landamæri og greiðslur innan aðildarríkisins þar sem stofnunin hefur starfsstöð sína. Aðildarríkjum er heimilt að mæla fyrir um að á ávísanaheftum skuli vera yfirlýsing þar sem neytendur eru varaðir við því að gjald er tekið fyrir notkun ávísana yfir landamæri.
2.     Allar breytingar á gjaldtöku skulu tilkynntar á sama hátt og segir í 1. mgr. áður en þær taka gildi.
3.     Þegar stofnanir taka þóknun fyrir að skipta gjaldeyri yfir í og úr evrum skulu þær veita viðskiptavinum sínum:
a)      fyrirframupplýsingar um þær þóknanir sem þær hyggjast taka fyrir skiptin; og
b)      sérstakar upplýsingar um þær þóknanir sem þær hafa fengið fyrir skiptin.

5. gr.

Ráðstafanir til að auðvelda færslu fjármuna yfir landamæri

1.     Stofnun skal, þegar það á við, tilkynna hverjum viðskiptavini, óski þeir þess, um alþjóðlegt bankareikningsnúmer (IBAN) sitt og bankanúmer (BIC) stofnunarinnar.
2.     Viðskiptavinurinn skal, sé þess óskað, tilkynna stofnuninni, sem annast færsluna, um alþjóðlegt bankareikningsnúmer (IBAN) viðtakanda og bankanúmer (BIC) stofnunar sem viðtakandi skiptir við. Veiti viðskiptavinurinn ekki framangreindar upplýsingar er stofnuninni heimilt að taka aukaþóknun. Í slíku tilviki skal stofnunin, í samræmi við 4. gr., veita viðskiptavinum upplýsingar um aukaþóknunina.
3.     Frá og með 1. júlí 2003 skulu stofnanir láta alþjóðlegt bankareikningsnúmer (IBAN) og bankanúmer (BIC) stofnunarinnar koma fram á reikningsyfirlitum allra viðskiptavina eða í viðauka við þau.
4.     Birgir sem tekur við greiðslu með færslu fjármuna, skal við gerð vörureikninga fyrir vörur og þjónustu yfir landamæri í bandalaginu tilkynna viðskiptavinum sínum alþjóðlegt bankareikningsnúmer (IBAN) sitt og bankanúmer (BIC) stofnunarinnar sem hann skiptir við.

6. gr.

Skyldur aðildarríkjanna

1.     Aðildarríkin skulu afnema í síðasta lagi frá og með 1. júlí 2002 allar skyldur varðandi innlenda skýrslugjöf vegna hagskýrslna um greiðslujöfnuð um greiðslur yfir landamæri sem nema allt að 12 500 evrum.
2.     Aðildarríkin skulu afnema í síðasta lagi frá og með 1. júlí 2002 allar innlendar skyldur varðandi lágmarksupplýsingar sem veita skal um viðtakanda sem koma í veg fyrir að greiðslan fari fram á sjálfvirkan hátt.

7. gr.

Beiting þessarar reglugerðar

Beiting þessarar reglugerðar skal tryggð með viðurlögum sem eru árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og hafa letjandi áhrif.

8. gr.

Endurskoðunarákvæði

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. júlí 2004, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar reglugerðar, einkum að því er varðar:
—    þróun grunnvirkja greiðslukerfa yfir landamæri,
—    réttmæti þess að bæta þjónustu við neytendur með því að styrkja samkeppnisskilyrði við veitingu greiðsluþjónustu yfir landamæri,
—    áhrif beitingar þessarar reglugerðar á gjöld fyrir greiðslur innan aðildarríkis,
—    réttmæti þess að hækka upphæðina, sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr., í 50 000 evrur frá og með 1. janúar 2006, með tilliti til afleiðinga þess fyrir fyrirtæki.
Skýrslunni skulu fylgja tillögur að breytingum eftir því sem við á.

9. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.
Þessi reglugerð gildir einnig um greiðslur yfir landamæri sem gerðar eru í gjaldmiðli annars aðildarríkis þegar það aðildarríki tilkynnir framkvæmdastjórninni um þá ákvörðun sína að rýmka beitingu reglugerðarinnar þannig að hún gildi um gjaldmiðil þess. Framkvæmdastjórnin skal birta tilkynninguna í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna. Rýmkunin öðlast gildi 14 dögum eftir téða birtingu.

Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 19. desember 2001.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE A. NEYTS- UYTTEBROECK
forseti. forseti.

    
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 193, 31.7.2003, bls. 20 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 39, 31.7.2003, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 270 E, 25.9.2001, bls. 270.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Áliti var skilað 10. desember 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 308, 1.11.2001, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. nóvember 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 7. desember 2001 (Stjtíð. EB C 363, 19.12.2001, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 13. desember 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 43, 14.2.1997, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    ISO-staðall nr. 13613.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    ISO-staðall nr. 9362.