Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1073  —  33. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, Impru – nýsköpunarmiðstöð, Handverki og hönnun, Félagi kvenna í atvinnurekstri, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum. Tillagan er endurflutt frá 128. löggjafarþingi og bárust þá umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Iðntæknistofnun og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.
    Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að vinna að framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Nefndin er meðvituð um að í útfærslu framkvæmdaáætlunarinnar verði nauðsynlegt að taka mið af séríslenskum aðstæðum varðandi stærðarviðmið fyrirtækja án þess að skekkja samkeppnisstöðu þeirra því að samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins eru allflest íslensk fyrirtæki smá eða meðalstór á alþjóðlegan mælikvarða.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

    BREYTINGU:


    Í stað orðanna „haustið 2004“ í 2. mgr. tillögugreinarinnar komi: haustið 2005.
    
    Steingrímur J. Sigfússon sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Einar Oddur Kristjánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. mars 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.



Sigurjón Þórðarson.


Guðmundur Hallvarðsson.