Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 611. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1093  —  611. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Þóru Hjaltested frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Hallgrím Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
     Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 154/2003 frá 7. nóvember 2003, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum.
    Í reglugerðinni er kveðið á um að kostnaður við greiðslur milli landa í evrum skuli vera hinn sami og kostnaður við greiðslur í evrum innan lands en verðlagning á þjónustunni er að öðru leyti frjáls. Ákvæði þessi gilda um greiðslur allt að 12.500 evrum fram til ársins 2006 en þá hækkar fjárhæðin í 50 þús. evrur. Jafnframt er gert skylt að hafa upplýsingar um kostnað við greiðslur milli landa aðgengilegar.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verður lagafrumvarp væntanlega lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi.
    Magnús Stefánsson og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 10. mars 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Jónína Bjartmarz.



Drífa Hjartardóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Össur Skarphéðinsson.