Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1094  —  481. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Þóru Hjaltested frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.
    Tilskipunin mælir fyrir um rétt vátrygginga- og endurtryggingamiðlara til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli skráningar í heimaríki en eitt helsta markmiðið er að afnema hindranir í störfum vátryggingamiðlara. Að auki er gert ráð fyrir að gerðar verði strangari kröfur til vátryggingamiðlara varðandi neytendavernd, m.a. með strangari ákvæðum um starfsábyrgðartryggingu og auknum kröfum um upplýsingagjöf.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og þurfa þær að hafa tekið gildi fyrir 15. janúar 2005. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur vinnuhópur verið skipaður til að gera tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum. Gert er ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fyrir Alþingi á hausti komanda.
    Magnús Stefánsson og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 10. mars 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Jónína Bjartmarz.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Össur Skarphéðinsson.