Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Nr. 10/130.

Þskj. 1135  —  33. mál.


Þingsályktun

um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:
          kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
          aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
          kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
          aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
          kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
          kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
          skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
          stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
          stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
          stöðu frumkvöðla,
          stöðu uppfinningamanna.
    Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2005 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2004.