Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 869. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1327  —  869. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003 frá 5. desember 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003 frá 5. desember 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.
    Með tilskipun 2003/51/EB eru gerðar breytingar á fjórum tilskipunum sem fjalla um reikningsskil félaga með takmarkaða ábyrgð félagsaðila. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja að samræmi sé milli tilskipana Evrópusambandsins um reikningsskil og alþjóðlega reikningsskilastaðla, svo og gerð og framsetningu á skýrslu stjórnar og skýrslu endurskoðenda.
    Samkvæmt reglugerð (EB) 1606/2002 er tilteknum félögum skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í reikningsskilum sínum. Reglugerð 1606/2002 var felld inn í EES- samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2003. Tilskipun 2003/51/ EB gerir hins vegar ráð fyrir því að öðrum félögum skuli vera gert kleift að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðum í reikningsskilum sínum. Er því sá munur á þessari tilskipun og reglugerð 1606/2002 að á meðan reglugerðin felur í sér að tiltekin félög eru beinlínis skylduð til að haga ársreikningum sínum í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða þá er tilskipuninni ætlað að tryggja að öðrum félögum sé heimilt að semja reikningsskil sín í samræmi við slíka staðla, kjósi þau það á annað borð, ásamt þeim reikningsskilareglum sem kveðið er á um í lögum um ársreikninga.
    Tilskipun 2003/51/EB mælir fyrir um strangari kröfur til þess að skýrsla stjórnar félags eða samstæðu sé í samræmi við bestu viðteknu stafsvenjur. Til að skýrslan gefi glöggt yfirlit yfir þróun í rekstri og stöðu félags eða samstæðu í samræmi við umfang reksturs er gert ráð fyrir að upplýsingar takmarkist ekki aðeins við fjárhagslega þætti heldur nái þær einnig til greiningar á umhverfis- og félagslegum þáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja þróun, árangur og stöðu félags. Þá er aukið samræmi í gerð og framsetningu á endurskoðunarskýrslum með breytingum á kröfum sem gerðar eru til forms og efni þeirra. Er það gert til að gera þessa mikilvægu þætt í reikningsskilum aðgengilegri og auðvelda jafnframt samanburð við önnur félög.
    Unnið er að undirbúningi lagafrumvarps í fjármálaráðuneytinu en innleiða skal tilskipunina fyrir 1. janúar 2005.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 176/2003

frá 5. desember 2003

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003 ( 1 ).

2)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2003 frá 7. nóvember 2003 ( 2 ).

3)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

1.        IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

        a)        Eftirfarandi bætist við í lið 12b (tilskipun ráðsins 91/674/EBE):

                    „ , eins og henni var breytt með:

                    -         32003L0051: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).“

        b)         Eftirfarandi undirliður bætist við í 21. lið (tilskipun ráðsins 86/635/EBE):

                    „-     32003L0051: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).“

2.        XXII. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

        a)        Eftirfarandi undirliður bætist við í 4. lið (tilskipun ráðsins 78/660/EBE) og 6. lið (tilskipun ráðsins 83/349/EBE):

                    „-     32003L0051: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).“

        b)        Eftirfarandi bætist við í öðrum undirlið (tilskipun ráðsins 83/349/EBE) 4. liðar (tilskipun ráðsins 78/660/EBE):

                    „ , eins og henni var breytt með:

                    -          32003L0051: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).“

2. gr.

Texti tilskipunar 2003/51/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 6. desember 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 5. desember 2003.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður


    Prins Nikulás af Liechtenstein    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar


    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/51/EB
frá 18. júní 2003
um breytingu á tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra     fjármálastofnana og vátryggingafélaga
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 lagði leiðtogaráðið áherslu á að brýnt væri að hraða því að innri markaði fyrir fjármálaþjónustu verði komið á og ákvað að veita frest til ársins 2005 til að koma í framkvæmd aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar í fjármálaþjónustu og hvatti til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að gera reikningsskil félaga í Bandalaginu samanburðarhæfari ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegum markaði (hér á eftir nefnd skráð félög).
     2)      Hinn 13. júní 2000 birti framkvæmdastjórnin orðsendingu sína „Stefna ESB í fjárhagsskýrslugerð: leiðin fram á við“ en í henni er lagt til að öll skráð félög gangi frá samstæðureikningsskilum [


:c samstæðureikningum] sínum í samræmi við eitt safn reikningsskilastaðla, þ.e. alþjóðlegu reikningsskilastaðlana (IAS-staðlana), í síðasta lagi 2005.
     3)      Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 4 ) (hér á eftir nefnd IAS-reglugerðin) voru settar kröfur um að frá og með árinu 2005 skyldu öll skráð félög semja samstæðureikningsskil sín í samræmi við samþykkta IAS-staðla í Bandalaginu. Með henni var aðildarríkjunum einnig gefinn kostur á að leyfa eða krefjast þess að samþykktir IAS-staðlar verði notaðir við samningu árlegra reikningsskila [


:c ársreikninga] og að leyfa eða krefjast þess að óskráð félög noti samþykkta IAS-staðla.
     4)      Í IAS-reglugerðinni er kveðið á um að þegar samþykkt er að nota alþjóðlegan reikningsskilastaðal í Bandalaginu sé nauðsynlegt að hann uppfylli grunnkröfur fjórðu tilskipunar ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 5 ) og sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 6 ), þ.e. að notkun hans gefi glögga mynd af efnahag og árangri félaga, og skal þá skoða þessa meginreglu í ljósi téðra tilskipana ráðsins án þess þó að gera ráð fyrir að farið sé að fullu og öllu að öllum ákvæðum þeirra.
     5)      Þar eð árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga, sem falla undir tilskipanir 78/660/EBE og 83/349/EBE og eru ekki samin í samræmi við IAS-reglugerðina, munu áfram hafa þessar tilskipanir sem helstu heimild sína um reikningsskilakröfur Bandalagsins er mikilvægt að sömu skilyrði séu fyrir félög Bandalagsins sem nota IAS-staðlana og þau sem nota þá ekki.
     6)      Að því er varðar samþykkt IAS-staðlanna og beitingu tilskipana 78/660/EBE og 83/349/ EBE er æskilegt að þessar tilskipanir endurspegli þróun alþjóðlegra reikningsskila. Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar „Bókhaldsleg samhæfing, ný áætlun í átt til alþjóðasamhæfingar“ er, í þessu sambandi, leitað eftir því við Evrópusambandið að það vinni að því að viðhalda samræmi milli tilskipana Bandalagsins um reikningsskil og þróunar í setningu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, einkum innan alþjóðareikningsskilanefndarinnar (International Accounting Standards Committee (IASC)).
     7)      Aðildarríkin skulu geta breytt framsetningu rekstarreiknings og efnahagsreiknings í samræmi við alþjóðlega þróun sem fram kemur í stöðlum sem Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) gefur út.
     8)      Aðildarríkin skulu geta heimilað eða krafist þess að endurmati og mati á gangvirði sé beitt í samræmi við alþjóðlega þróun sem fram kemur í stöðlum sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út.
     9)      Skýrsla stjórnar og skýrsla stjórnar samstæðu eru mikilvægir liðir í reikningsskilum [


:c fjárhagsskýrslugerð]. Nauðsynlegt er að bæta núverandi kröfur, í samræmi við bestu viðteknu starfsvenjur, til að skýrslurnar gefi glöggt yfirlit yfir þróun í rekstri og stöðu félagsins, í samræmi við umfang rekstursins og það hversu flókinn hann er, til að auka samræmi og veita frekari leiðbeiningar að því er varðar þær upplýsingar sem gert er ráð fyrir að „glöggt yfirlit“ innihaldi. Upplýsingarnar skulu ekki vera takmarkaðar við fjárhagslega þætti í rekstri félagsins. Búist er við, eftir því sem við á, að þetta leiði til greiningar á umhverfisþáttum og félagslegum þáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja þróun, árangur og stöðu félagsins. Þetta er einnig í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2001/453/EB frá 30. maí 2001 um það hvernig skuli skrá, meta og gefa upplýsingar um umhverfismál í árlegum reikningsskilum og ársskýrslum félaga ( 1 ). Þó geta aðildarríkin valið, með tilliti til þess að þetta svið innan reikningsskila þróast og með hliðsjón af þeirri byrði sem kann að verða lögð á félög undir vissri stærð, að aflétta þeirri skyldu að þau veiti upplýsingar, sem ekki eru fjárhagslegar, í skýrslu stjórnar þess háttar félaga.
     10)      Mismunandi gerð og framsetning endurskoðunarskýrslu dregur úr samanburðarhæfi og skilningi notandans á þessum mikilvæga þætti reikningsskila. Auka skal samræmi með breytingum á sérstökum kröfum um form og efni endurskoðunarskýrslu í samræmi við núverandi bestu viðteknu, alþjóðlegu starfsvenjur Grundvallarkrafan um að í áritun endurskoðanda komi fram hvort árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil gefi glögga mynd samkvæmt viðeigandi reikningsskilareglum felur ekki í sér takmarkanir á umfangi áritunarinnar heldur skýrir í hvaða samhengi það er gefið.
     11)      Breyta ber tilskipunum 78/660/EBE og 83/349/EBE til samræmis við þetta. Enn fremur er nauðsynlegt að breyta tilskipun ráðsins 83/635/EBE frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 2 ).
     12)      Alþjóðareikningsskilaráðið vinnur að því að þróa og bæta reikningsskilastaðla fyrir vátryggingastarfsemi.
     13)      Vátryggingafélögum skal einnig vera heimilt að nota gangvirðisreikningsskil eins og þau eru sett fram í viðeigandi stöðlum sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út.
     14)      Breyta ber tilskipun ráðsins 91/674/EBE frá 19. desember 1991 um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 3 ) til samræmis við þetta.
     15)      Þessar breytingar munu eyða öllu ósamræmi milli tilskipana 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE annars vegar og IAS-staðlanna, sem lágu fyrir 1. maí 2002, hins vegar.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 78/660/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Eftirfarandi undirgrein bætist við í 1. mgr. 2. gr.:
    „Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess að önnur yfirlit séu talin með í árlegum reikningsskilum auk þeirra gagna sem um getur í fyrstu undirgrein.“
2.    Eftirfarandi bætist við 4. gr.:
    „6. Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess að við framsetningu á fjárhæðum í liðum rekstrarreiknings og efnahagsreiknings sé tekið tillit til efnis færslnanna eða fyrirkomulagsins sem um er að ræða. Slíkt leyfi eða krafa getur verið takmarkað við tiltekna flokka félaga og/eða samstæðureikningsskil eins og skilgreint er í sjöundu tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( *).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).“
3.    Eftirfarandi bætist við í 8. gr.:
    „Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess að félög samþykki þá framsetningu efnahagsreiknings sem kveðið er á um í a-lið 10. gr. í stað annarrar framsetningar sem er leyfð eða mælt fyrir um.“
4.    Í B-lið 9. gr., undir liðnum „Skuldir“, komi fyrirsögnin „Sjóðir lagðir til hliðar“ í stað fyrirsagnarinnar „Sjóðir lagðir til hliðar vegna skuldbindinga“.
5.    Í J-lið 10. gr komi í stað fyrirsagnarinnar „Sjóðir lagðir til hliðar vegna skuldbindinga“ fyrirsögnin „Sjóðir lagðir til hliðar“.
6.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „10. gr. a
    Í stað framsetningar á liðum efnahagsreiknings í samræmi við 9. og 10. gr, er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að félög eða tilteknir flokkar félaga setji þessa liði fram á grundvelli þess að greina á milli skammtíma- og langtímaefnahagsliða, að því tilskildu að þær upplýsingar, sem fram koma, séu jafngildar þeim sem annars er krafist í 9. og 10. gr.“
7.    Ákvæðum 20. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Sjóðum, sem lagðir eru til hliðar, er ætlað að mæta skuldbindingum sem eru skýrt skilgreindar að gerð og sem við dagsetningu efnahagsreiknings [


:c á uppgjörsdegi] er annaðhvort sennilegt eða öruggt að séu áfallnar þótt óvíst sé um fjárhæð þeirra eða gjalddaga.“,
    b)    í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3. Sjóði, sem lagðir eru til hliðar, má ekki nota til verðbreytingar á eignum.“
8.    Eftirfarandi málsgrein bætist við 22. gr.:
    „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að öll félög eða flokkar félaga leggi fram greinargerð um árangur í stað rekstrarreiknings í samræmi við 23. og 26. gr, að því tilskildu að þær upplýsingar, sem fram koma, séu jafngildar þeim sem annars er krafist í þessum greinum.“
9.    Ákvæðum 31. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað bb-liðar í c-lið 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „bb)    taka til greina allar skuldir sem myndast kunna á fjárhagsárinu [


:c reikningsárinu] eða í tengslum við fyrra fjárhagsár, jafnvel þótt skuldirnar komi aðeins í ljós milli dagsetningar efnahagsreiknings og þess dags þegar efnahagsreikningur er saminn,“
    b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „1a) Auk þeirra fjárhæða sem skráðar eru í samræmi við bb-lið í c-lið 1. mgr. er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að teknar séu til greina allar fyrirsjáanlegar skuldir og allt tap sem myndast kann á fjárhagsárinu eða í tengslum við fyrra fjárhagsár, jafnvel þótt skuldirnar eða tapið komi aðeins í ljós milli dagsetningar efnahagsreiknings og þess dags þegar efnahagsreikningur er saminn.“
10.    Í stað c-liðar í 1. mgr. 33. gr. komi eftirfarandi:
    „c)    að fastafjármunir séu endurmetnir“.
11.    Í stað fyrstu málsgreinar 42. gr. komi eftirfarandi:
    „Sjóðir, sem lagðir eru til hliðar, mega ekki vera hærri en nauðsyn krefur.“
12.    Eftirfarandi greinar bætist við:
     „42 gr. e
    Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að öll félög, eða flokkar félaga, meti tilteknar tegundir eigna, aðrar en fjármálagerninga, í fjárhæðum sem ákvarðast með tilliti til gangvirðis.
    Takmarka má slíkt leyfi eða kröfu við samstæðureikningsskil eins og skilgreint er í tilskipun 83/349/EBE.
     42. gr. f
    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. 31. gr. er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast, að því er varðar öll félög eða flokka félaga, að þegar eign er metin í samræmi við e-lið 42. gr. sé breyting á virði tilgreind í rekstrarreikningi.“
13.    Í 6. lið 1. mgr. 43. gr. komi tilvísun í „9., 10. og 10. gr. a“ í stað tilvísunar í „9. og 10. gr.“
14.    Ákvæðum 46. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1.    a)    Skýrsla stjórnar skal í það minnsta hafa að geyma glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins og stöðu þess ásamt lýsingu á megináhættu og óvissuþáttum sem það stendur frammi fyrir.
                Yfirlitið skal vera heildstæð og ítarleg greining á þróun og árangri í rekstri félagsins og stöðu þess í samræmi við umfang rekstursins og hversu margbrotinn hann er.
            b)    Að svo miklu leyti, sem nauðsynlegt er til að skilja þróun, árangur og stöðu félagsins, skal greiningin fela í sér lykilvísbendingar um árangur sem eru bæði fjárhagslegar og, eftir því sem við á, ófjárhagslegar og varða tiltekið félag þ.m.t. upplýsingar í tengslum við umhverfis- og starfsmannamál.
            c)    Sem greiningartæki skal skýrsla stjórnar, ef við á, hafa að geyma tilvísanir til og frekari skýringar á fjárhæðum sem settar eru fram í árlegum reikningsskilum.“
    b)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4. Aðildarríkin geta valið að undanþiggja félög, sem 27. gr. tekur til, skyldunni skv. b- lið 1. mgr. hér að framan að svo miklu leyti sem hún tengist upplýsingum sem eru ófjárhagslegar.“
15.    Þriðji málsliður í 48. gr. falli niður.
16.    Eftirfarandi komi í stað þriðja málsliðar 49. gr.:
    „Skýrsla endurskoðanda eða endurskoðenda árlegra reikningsskila (hér á eftir nefndir endurskoðendur) skal ekki fylgja útgáfu þessari en koma skal fram hvort áritunin var með eða án fyrirvara eða neikvæð eða hvort endurskoðendur gátu ekki gefið áritun. Einnig skal koma fram hvort skýrsla endurskoðendanna hafi að geyma tilvísun til mála sem endurskoðendurnir vekja sérstaka athygli á án þess að gefa áritun með fyrirvara.“
17.    Í stað 1. mgr. 51. gr. komi eftirfarandi:
    „1. Einn eða fleiri endurskoðendur, sem aðildarríkin hafa löggilt til endurskoðunarstarfa á grundvelli áttundu tilskipunar ráðsins 84/253/ EBE frá 10. apríl 1984 um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast lögmælta endurskoðun bókhaldsgagna ( *), skulu endurskoða árleg reikningsskil félaga.
    Endurskoðendur skulu einnig skila áliti á því hvort skýrsla stjórnar samræmist árlegum reikningsskilum fyrir sama fjárhagsár eða ekki.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 126, 12.5.1984, bls. 20.“
18.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „51. gr. a
    1.     Skýrsla endurskoðenda skal hafa að geyma:
    a)    inngang, þar sem fram kemur a.m.k. hvaða árlegu reikningsskil falla undir lögboðna endurskoðun ásamt þeim reikningsskilaramma sem fylgt er við samningu þeirra,
    b)    lýsingu á umfangi lögboðinnar endurskoðunar, þar sem fram koma a.m.k. þeir endurskoðunarstaðlar sem notaðir voru við lögboðna endurskoðun,
    c)    áritun endurskoðanda, þar sem kemur skýrt fram álit endurskoðenda um hvort árlegu reikningsskilin gefi glögga mynd samkvæmt viðeigandi reikningsskilareglum og, eftir því sem við á, hvort árlegu reikningsskilin uppfylli lögboðnar kröfur; áritun endurskoðanda skal vera með fyrirvara, án fyrirvara, neikvæð eða án álits ef endurskoðendur geta ekki gefið áritun,
    d)    tilvísun til mála sem endurskoðendurnir vekja sérstaka athygli á án þess að gefa áritun með fyrirvara,
    e)    álit um hvort skýrsla stjórnar samræmist eða ekki árlegum reikningsskilum fyrir sama fjárhagsár.
    2.     Endurskoðendur skulu skrifa undir og dagsetja skýrsluna.“
19.    Ákvæði 1. mgr. 53. gr. falli brott.
20.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „53. gr. a
    Aðildarríkin skulu ekki láta undanþágurnar, sem settar eru fram í 11., 27., 46., 47. og 51. gr., gilda um félög ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegum markaði í einhverju aðildarríki í skilningi 13. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( *).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB (Stjtíð. EB L 35, 11.2.2003, bls. 1).“
21.     1. mgr. 56. gr. komi tilvísun í „9., 10. og 10. gr. a“ í stað tilvísunar í „9. og 10. gr.“
22.    Í fyrstu málsgrein 60. gr. komi orðin „á grundvelli gangvirðis þeirra“ í stað „á grundvelli markaðsverðs þeirra“.
23.    Í 61. gr. a komi tilvísun í „42. gr. a til f“ í stað tilvísunar í „42. gr. a til d“.

2. gr.

Tilskipun 83/349/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „2. Að frátöldum þeim tilvikum, sem nefnd eru í 1. mgr., er aðildarríkjunum heimilt að krefjast þess að öll félög, sem lúta landslögum þeirra, semji samstæðureikningsskil og samstæðuársskýrslu ef:
    a)    félagið (móðurfélag) hefur rétt til að hafa eða hefur í raun yfirráð yfir eða stjórnar öðru félagi (dótturfélagi), eða
    b)    félagið (móðurfélagið) og annað félag (dótturfélag) eru undir sameiginlegri stjórn móðurfélagsins.“
2.    Í 1. mgr. 3. gr. komi tilvísun í „13. og 15. gr.“ í stað tilvísunar í „13., 14. og 15. gr.“
3.    Ákvæðum 6. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 4. mgr. komi eftirfarandi:
        „4. Þessi grein gildir ekki þegar verðbréf félags, sem er eitt félaganna sem fella á undir samstæðuna, eru skráð á skipulegum markaði í hvaða aðildarríki sem er í skilningi 13. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( *).
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB (Stjtíð. EB L 35, 11.2.2003, bls. 1).“
    b)    Ákvæði 5. mgr. falli brott.
4.    Ákvæðum 7. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    annar málsliður í b-lið 1. mgr. falli niður,
    b)    í a-lið 2. mgr. komi tilvísun í „13. og 15. gr.“ í stað tilvísunar í „13., 14. og 15. gr.“,
    c)    í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3. Þessi grein gildir ekki um félög ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegum markaði í hvaða aðildarríki sem er í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE.“
5.    Í a-lið 1. mgr. 11. gr. komi tilvísun í „13. og 15. gr.“ í stað tilvísunar í „13., 14. og 15. gr.“
6.    Ákvæði 14. gr. falli brott.
7.    Í 1. mgr. 16. gr. bætist eftirfarandi undirgrein við:
    „Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa eða krefjast þess að önnur yfirlit séu talin með í samstæðureikningsskilum auk þeirra gagna sem um getur í fyrstu undirgrein.“
8.    Í 1. mgr. 17. gr. komi tilvísun í „3. til 10. gr. a“ í stað tilvísunar í „3. til 10. gr.“
9.    Ákvæðum 34. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í b-lið 2. mgr. komi „13. gr. og“ í stað „13. og 14. gr. ásamt, með fyrirvara um 3. mgr. 14. gr.“,
    b)    í 5-lið falli orðin „og þau sem haldið er utan við hana samkvæmt 14. gr.“ brott.
10.    Ákvæðum 36. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 1 mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Skýrsla stjórnar samstæðu skal í það minnsta hafa að geyma glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félaganna og stöðu þeirra í samstæðunni í heild ásamt lýsingu á megináhættu og óvissuþáttum sem þau standa frammi fyrir.
        Yfirlitið skal vera heildstæð og ítarleg greining á þróun og árangri í rekstri og stöðu félaganna í samstæðunni í heild í samræmi við umfang rekstursins og hversu margbrotinn hann er. Að svo miklu leyti, sem nauðsynlegt er til að skilja slíka þróun, árangur og stöðu, skal greiningin fela í sér lykilvísbendingar um árangur sem eru bæði fjárhagslegar og, eftir því sem við á, ófjárhagslegar og varða tiltekið félag, þ.m.t. upplýsingar í tengslum við umhverfis- og starfsmannamál.
        Sem greiningartæki skal skýrsla stjórnar samstæðu vísa til og veita frekari skýringar á fjárhæðum sem settar eru fram í samstæðureikningsskilum.“
    b)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „3. Þegar krafist er samstæðuársskýrslu auk skýrslu stjórnar er hægt að leggja fram báðar skýrslurnar í einni skýrslu. Þegar sameiginleg skýrsla er samin getur verið viðeigandi að leggja aukna áherslu á þau mál sem eru mikilvæg félögunum í samstæðunni í heild.“
11.    Í stað 37. gr. komi eftirfarandi:
     „37. gr.
    1. Árleg reikningsskil félaga skulu endurskoðuð af einum eða fleiri endurskoðendum sem aðildarríkið, sem setur þau landslög sem gilda um móðurfélagið, hefur löggilt til endurskoðunar á grundvelli áttundu tilskipunar ráðsins 84/253/ EBE frá 10. apríl 1984 um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast lögmælta endurskoðun bókhaldsgagna ( *).
    Endurskoðandi eða endurskoðendur samstæðureikningsskila (hér á eftir nefndir endurskoðendur) skulu einnig skila áliti á því hvort skýrsla stjórnar samstæðu samræmist samstæðureikningsskilum fyrir sama fjárhagsár eða ekki.
    2. Skýrsla endurskoðenda skal hafa að geyma:
    a)    inngang, þar sem fram kemur a.m.k. hvaða samstæðureikningsskil falla undir lögboðna endurskoðun ásamt þeim reikningsskilaramma sem fylgt er við samningu þeirra,
    b)    lýsingu á umfangi lögboðinnar endurskoðunar, þar sem fram koma a.m.k. þeir endurskoðunarstaðlar sem notaðir voru við lögboðna endurskoðun,
    c)    áritun endurskoðanda, þar sem kemur skýrt fram álit endurskoðenda um hvort samstæðureikningsskilin gefi glögga mynd samkvæmt viðeigandi reikningsskilareglum og, eftir því sem við á, hvort samstæðureikningsskilin uppfylli lögboðnar kröfur; áritun endurskoðanda skal vera með fyrirvara, án fyrirvara, neikvæð eða án álits, ef endurskoðendur geta ekki gefið áritun,
    d)    tilvísun til mála sem endurskoðendurnir vekja sérstaka athygli á án þess að gefa áritun með fyrirvara,
    e)    álit á því hvort skýrsla stjórnar samstæðu samræmist samstæðureikningsskilum fyrir sama fjárhagsár eða ekki.
    3. Endurskoðendur skulu skrifa undir og dagsetja skýrsluna.
    4. Þegar árleg reikningsskil móðurfélags fylgja samstæðureikningsskilunum er hægt að sameina skýrslu endurskoðenda, sem krafist er í þessari grein, hvaða skýrslu endurskoðenda sem er um árleg reikningsskil móðurfélagsins sem krafist er í 51. gr. tilskipunar 78/660/EBE.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 126, 12.5.1984, bls. 20.“
12.    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 38. gr.:
    „7. Ákvæði 2. og 3. mgr. gilda ekki um félög ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegum markaði í hvaða aðildarríki sem er í skilningi 13. mgr. 1. gr. í tilskipun 93/22/EBE.“

3. gr.

Tilskipun 86/635/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað 1. og 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „1. Beita skal 2. gr., 3. gr., 4. gr. (1. og 3.–6. mgr.), 6. gr., 7. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr. (3. og 4. mgr.), 16.–21. gr., 29.–35. gr., 37.–41. gr., 42. gr. (fyrsta málslið), 42. gr. a–f, 45. gr. (1. mgr.), 46. gr. (1. og 2. mgr.), 48.– 50. gr., 50. gr. a, 51. gr. (1. mgr.), 51. gr. a, 56.–59. gr., 61. gr. og 61. gr. a í tilskipun 78/660/EBE að því er varðar stofnanir sem getið er um í 2. gr. þessarar tilskipunar nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun. Ekki skal þó beita 35. gr. (3. mgr.), 36. gr., 37. gr. og 39. gr. (1.–4. mgr.) þessarar tilskipunar þegar um er að ræða eignir og skuldir sem eru metnar í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE.
    2. Í tilskipunum 78/660/EBE og 83/349/EBE skulu tilvísanir til 9., 10. og 10. gr. a (efnahagsreiknings) eða til 22. til 26. gr. (rekstrarreiknings) í tilskipun 78/660 /EBE skoðast sem tilvísanir í 4. gr. og 4. gr. a (efnahagsreikning) eða í 26., 27. og 28. gr. (rekstrarreikning) þessarar tilskipunar.“
2.    Ákvæðum 4. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað fyrsta málsliðar komi eftirfarandi:
        „Aðildarríkin skulu mæla fyrir um eftirfarandi uppsetningu fyrir efnahagsreikning. Aðildarríkjunum er annars heimilt að leyfa eða krefjast að lánastofnanir setji fram efnahagsreikning eins og lýst er í a-lið 4. gr.“
    b)    Í 6. lið undir liðnum „Skuldir“ komi í stað fyrirsagnarinnar „Sjóðir lagðir til hliðar vegna skuldbindinga“ fyrirsögnin „Sjóðir, lagðir til hliðar“.
3.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „4. gr. a
    Í stað framsetningar á liðum efnahagsreiknings í samræmi við 4. gr. er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að lánastofnanir eða sérstakir flokkar lánastofnana setji fram þessa liði eftir eðli þeirra og raði þeim eftir hlutfallslegri lausafjárstöðu þeirra, að því tilskildu að þær upplýsingar, sem fram koma, séu a.m.k. jafngildar þeim sem annars er krafist í 4. gr.“
4.    Eftirfarandi málsgrein bætist við 26. gr.:
    „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 78/660/EBE er aðildarríkjunum heimilt að leyfa eða krefjast þess að allar lánastofnanir eða flokkar lánastofnana leggi fram greinargerð um árangur í stað rekstrarreiknings í samræmi við 27. og 28. gr, að því tilskildu að þær upplýsingar, sem fram koma, séu jafngildar þeim sem annars er krafist í þessum greinum.“
5.    Ákvæði f-liðar 2. mgr. 43. gr. falli brott.

4. gr.

Tilskipun 91/674/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað 1. og 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „1. Beita skal 2. gr., 3. gr., 4. gr. (1. og 3.–6. mgr.), 6. gr., 7. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr. (3. og 4. mgr.), 16.–21. gr., 29.–35. gr., 37.–41. gr., 42. gr., 42. gr. a–f, 43. gr. (1.–7. og 9.–14 liður 1. mgr.), 45. gr. (1. mgr.), 46. gr. (1. og 2. mgr.), 48.– 50. gr., 50. gr. a, 51. gr. (1. mgr.), 51. gr. a, 56.–59. gr., 61. gr. og 61. gr. a í tilskipun 78/660/EBE að því er varðar félög sem getið er um í 2. gr. þessarar tilskipunar nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun. Ekki skal þó beita 46., 47., 48., 51. og 53. gr. þessarar tilskipunar þegar um er að ræða eignir og skuldir sem eru metnar í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE.
    2. Í tilskipunum 78/660/EBE og 83/349/EBE skulu tilvísanir til 9., 10., og 10. gr. a (efnahagsreiknings) eða til 22. og 26. gr. (rekstrarreiknings) tilskipunar 78/660 /EBE skoðast sem tilvísanir í 6. gr. (efnahagsreikning) eða í 34. gr. (rekstrarreikning) þessarar tilskipunar eftir því sem við á.“
2.    Í stað 4. gr. komi eftirfarandi:
     „4. gr.
    1. Þessi tilskipun gildir um samtök vátryggjenda sem þekktir eru sem Lloyd's. Í þessari tilskipun teljast bæði Lloyd's og samtök Lloyd's vera vátryggingafélög.
    2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 65. gr. skal Lloyd's semja samanlögð reikningskil í stað samstæðureikningsskila sem krafist er í tilskipun 83/349/ EBE. Samanlögð reikningsskil skal semja með uppsöfnun á öllum reikningsskilum samtakanna.“
3.    Í E-lið 6. gr. undir liðnum „Skuldir“ komi í stað fyrirsagnarinnar „Sjóðir lagðir til hliðar vegna skuldbindinga“ fyrirsögnin „Sjóðir, lagðir til hliðar“.
4.    Ákvæðum 46. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi málsliður bætist við 5. mgr.:
        „Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa undanþágur frá þessari kröfu.“
    b)    Í stað 6. mgr. komi eftirfarandi:
        „6. Tilgreina skal hvaða aðferð er notuð við hvern lið fjárfestinga í skýringum með reikningsskilum ásamt þeim fjárhæðum sem ákvarðaðar eru með þeim hætti.“
5.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „46. gr. a
    1. Þegar eignir og skuldir eru metnar í samræmi við 7. þátt a í tilskipun 78/660/EBE skal beita 2.–6. mgr. þessarar greinar.
    2. Fjárfestingar, sem eru tilgreindar sem eignir í D-lið, skal tilgreina á gangvirði.
    3. Þegar fjárfestingar eru tilgreindar á kaupverði skal gefa upp gangvirði þeirra í skýringum með reikningsskilunum.
    4. Þegar fjárfestingar eru tilgreindar á gangvirði skal gefa upp kaupverð þeirra í skýringum í reikningsskilunum.
    5. Beita skal sömu matsaðferð í tengslum við allar fjárfestingar sem falla undir þá liði sem eru merktir með arabískum tölustöfum eða eru í I. lið í eignalið C. Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa undanþágur frá þessari kröfu.
    6. Tilgreina skal hvaða aðferð er notuð við hvern lið fjárfestinga í skýringum með reikningsskilum ásamt þeim fjárhæðum sem ákvarðaðar eru með þeim hætti.“
6.    Viðaukinn falli brott.

5. gr.

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. janúar 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

6. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

7. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 18. júní 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. DRYS
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L …
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L …
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 336.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB C 85, 8.4.2003, bls. 140.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 14. janúar 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB), og ákvörðun ráðsins frá 6. maí 2003.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 156, 13.6.2001, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2001/65/EB.
Neðanmálsgrein: 13
(3)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7.