Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 569. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1487  —  569. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um siglingavernd.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneyti, Gísla Gíslason, Jón Þorvaldsson og Má Sveinbjörnsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Sigurð Ás Grétarsson, Helga Jóhannesson og Ara Guðmundsson frá Siglingastofnun, Steinar Adolfsson, Guðmund Ó. Þráinsson og Jón Bjartmarz frá ríkislögreglustjóra, Hafstein Hafsteinsson og Dagmar Sigurðardóttur frá Landhelgisgæslu, Snorra Olsen og Sigurð Skúla Bergsson frá tollstjóranum í Reykjavík, Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Gest Guðjónsson frá Olíudreifingu, Svavar Ottósson og Eyþór H. Ólafsson frá Eimskip, Ólaf J. Briem frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Einar Ragnarsson frá Hönnun hf. og Svavar G. Svavarsson frá Admon ehf. Þá barst nefndinni fjöldi skriflegra umsagna sem hún studdist við í umfjöllun um málið.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar um siglingavernd en kröfur á þessu sviði hafa aukist hratt frá 11. september 2001. Frumvarpið er samið á grundvelli alþjóðasamþykktar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) með breytingum sem samþykktar voru vegna siglingaverndar í desember 2002 auk viðauka við samþykktina sem nefndur er alþjóðakóði um skipa- og hafnavernd (ISPS Code). Aðildarríkjum SOLAS-samþykktarinnar hefur verið gefinn stuttur tími til að setja reglur um siglingavernd en reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um þetta efni koma til framkvæmda 1. júlí 2004. Í maí 2003 setti samgönguráðherra saman stýrihóp sem fékk það hlutverk að vinna að innleiðingu siglingaverndar hér á landi og er frumvarpið samið í samgönguráðuneyti í samvinnu við stýrihópinn.
    Þess má vænta að aukin siglingavernd muni leiða til töluverðra breytinga á starfsemi hafna á næstu árum enda verður ekki annað séð en að kröfur á þessu sviði haldi áfram að aukast hratt. Samgöngunefnd telur mikilvægt að settar verði í lög skýrar en einfaldar reglur um siglingavernd sem allra fyrst svo að Ísland dragist ekki aftur úr á þessu sviði. Ekkert ríki og þá allra síst eyríki eins og Ísland hefur efni á að líta fram hjá auknum öryggiskröfum í siglingum.
    Í umfjöllun sinni um málið varð nefndin ekki vör við annað en að þeir sem það snertir helst séu reiðubúnir að taka á sig þær skyldur sem á þá verða lagðar. Að nokkru leyti er frumvarpinu ætlað að lögfesta reglur sem þegar er farið eftir til að tryggja öryggi í höfnum og skipum. Hvað hafnir þurfa að ráðast í miklar framkvæmdir til að geta fallið undir reglur frumvarpsins er breytilegt. Hafnir, skipafélög og aðrir sem siglingaverndin tekur til þurfa að huga að mannvirkjum, setja eða yfirfara verndaráætlanir, æfa mannskap o.fl.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að bætt verði við tveimur skilgreiningum, þ.e. á orðunum vástig og verndaryfirlýsing. Orðin koma fyrir í frumvarpinu en eru ekki skilgreind og þykir rétt að bæta úr því.
                  a.      Vástig 1 er þegar viðhlítandi lágmarksverndarráðstöfunum er beitt öllum stundum, þ.e. eðlilegt ástand. Á þessu stigi grípur verndarfulltrúi til ráðstafana samkvæmt verndaráætlun, sbr. 6. gr. frumvarpsins, og tilkynnir ríkislögreglustjóra ef hætta steðjar að.
                  b.      Vástig 2 er þegar aukin hætta er talin vera á ferð og beita á tímabundið viðhlítandi ráðstöfunum á grundvelli viðeigandi verndaráætlunar eða verndaryfirlýsingar.
                  c.      Vástig 3 er þegar grípa skal tímabundið til sértækra verndar- og öryggisráðstafana af því að líkur eru taldar á váatviki eða ákveðin ógn er yfirvofandi, óháð því hvað nákvæmlega er í hættu.
             Verndaryfirlýsing skal staðfest af skipstjóra eða verndarfulltrúa skips og verndarfulltrúa hafnar eða öðrum til þess bærum aðila sem Siglingastofnun Íslands hefur staðfest. Í yfirlýsingunni skal koma fram með hvaða hætti vernd skips og hafnar er tryggð og kveðið á um ábyrgð hvors aðila um sig. Verndaryfirlýsingar væri þörf m.a. þegar lög um siglingavernd ættu við en skip uppfyllir ekki ákvæði skipaverndar, höfn uppfyllir ekki kröfur hafnaverndar, hvorki skip né höfn uppfylla kröfur um siglingavernd eða ef sérstakar ástæður krefjast verndaryfirlýsingar.
     2.      Að Landhelgisgæslu verði bætt inn í upptalningu 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins á því hverjir fara með sérstakt hlutverk samkvæmt lögunum og að bætt verði við greinina nýrri málsgrein þar sem Siglingastofnun er veitt heimild til að fela öðrum hæfum aðilum að annast einstaka þætti skipaverndar, t.d. að annast eftirlit og úttektir er varða skip eða hafnir. Hér gæti t.d. verið um að ræða flokkunarfélög sem viðurkennd eru á EES-svæðinu.
     3.      Lagt er til að orðalag 4. mgr. 4. gr. um ríkislögreglustjóra breytist í þá veru að honum verði falin ákvörðun um hvort hann tekur við stjórn þegar aukin hætta getur verið á ferð. Þannig mun stjórnin ekki færast til hans nema hann ákveði svo. Orðalag greinarinnar eins og það er í frumvarpinu þykir of fortakslaust. Því er lagt til að breyta því þannig að það sé metið í hverju tilfelli hvort þörf sé á að ríkislögreglustjóri taki við stjórn aðgerða.
     4.      Lagt er til að bætt verði nýjum málsgreinum við 5. og 6. gr. frumvarpsins svo fjallað verði um það í lögunum hvernig bregðast eigi við í þeim tilvikum þegar t.d. skip sem fellur undir lögin leggur að höfn sem ekki uppfyllir kröfur siglingaverndar eða skip sem ekki uppfyllir kröfur um siglingavernd leggst að hafnaraðstöðu sem fellur undir lögin. Þær aðstæður má leysa með útgáfu verndaryfirlýsingar sem gildir þann tíma sem ástandið varir.
     5.      Lagt er til breytt orðalag 8. gr. sem felur í sér nokkra efnisbreytingu. Ábyrgð og framkvæmd öryggisleitar samkvæmt þessari grein á einungis við á vástigi 1, þ.e. þegar engin ógn er yfirvofandi eða merki um hana. Um leið og ástand um borð í skipi eða á hafnaraðstöðu breytist eða grunur vaknar um að ógn eða að einhvers konar ólögmætt athæfi eigi sér stað skal kalla til lögreglu og/eða tollayfirvöld. Það leiðir af eðli máls og lögum að þau yfirvöld taka þá við stjórn og framkvæmd aðgerða á grundvelli lögreglulaga, nr. 90/1996, og tollalaga, nr. 55/1987.
     6.      Lagt er til að orðalagi 9. gr. verði breytt í þá veru að höfnum verði gert skylt að innheimta gjöld fyrir þá þjónustu sem þær veita undir hafnaverndinni. Gert er ráð fyrir að hafnir geti ekki notað aðrar tekjur, svo sem tekjur af vörugjöldum eða skipagjöldum, til þess að greiða niður kostnað við siglingavernd í samkeppnisskyni. Því er sett inn í gjaldtökugreinina að hafnir „skuli“ innheimta gjöld vegna siglingaverndar. Áhersla er lögð á að miðað er við kostnaðarrétta gjaldskrá sem uppfyllir formkröfur til þjónustugjalda opinberra fyrirtækja. Verði hafnir ekki fyrir kostnaði við siglingavernd mega þær ekki innheimta siglingaverndargjöld.
             Lítils háttar aðrar lagfæringar hafa verið gerðar á gjaldtökuákvæðinu svo að það valdi ekki misskilningi. Gjaldtökuheimildirnar til hafna sem hér eru veittar eru vegna eigin starfsemi eingöngu. Miðað er við að hafnirnar beri ábyrgð á hafnavernd og sjái um að tilkynna hana til Siglingastofnunar fyrir alla hafnaraðstöðu sem ætlað er að uppfylla kröfur siglingaverndar, hvort sem hún er í rekstri hafnanna eða annarra rekstraraðila. Ef hafnaraðstaða nær til svæða á forræði annarra aðila með leigusamningi eða öðrum gjörningi er miðað við að viðkomandi sæki um siglingavernd til hafnarinnar. Það er svo rekstraraðilanna að uppfylla kröfur siglingaverndar á yfirráðasvæði sínu. Til einföldunar ber því stjórn hafnarinnar ábyrgð á hafnavernd á skilgreindu hafnarsvæði, sbr. hafnarreglugerð, og er eins konar regnhlíf fyrir siglingavernd allrar hafnaraðstöðu, hvort sem hún er í rekstri hafnarinnar, annarra aðila á hafnarsvæðinu eða blönduðum rekstri. Hver ber kostnað af siglingavernd fyrir sitt yfirráðasvæði. Hér gildir reglan að þeim sem veita þjónustuna er ætlað að afla tekna til þess að standa undir kostnaði hennar og sækja til þeirra sem njóta þjónustunnar. Kostnaðaraðhald ætti svo að koma frá þeim sem njóta þjónustunnar, t.d. útflytjendum. Miðað er við að framkvæmd siglingaverndar verði eins hagkvæm og unnt er. Margs konar fletir eru fyrir samvinnu til þess að draga úr kostnaði. Þess er vænst að framangreint fyrirkomulag hvetji hlutaðeigandi til að leita hagkvæmustu lausna.
     7.      Lagt er til að við 3. mgr. 11. gr. verði bætt „útgáfu skírteina fyrir hafnaraðstöðu“ til frekari fyllingar á hvað fellur undir hafnavernd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þuríður Backman sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. apríl 2004.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Birkir J. Jónsson.Arnbjörg Sveinsdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson.
Ásta R. Jóhannesdóttir.


Einar Már Sigurðarson.