Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1551  —  277. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um stofnun sædýrasafns á höfuðborgarsvæðinu.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust um það frá Ferðamálasamtökum Íslands, Verslunarráði Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Hafrannsóknastofnuninni.
    Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að kanna kosti og hagkvæmni þess að byggt verði upp veglegt sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin telur að möguleg staðsetning eigi að vera einn þeirra þátta sem skoðaðir eru þegar kannaðir eru kostir og gallar þess að byggja veglegt sædýrasafn sem þjónað geti bæði leikum og lærðum. Því telur nefndin ekki rétt að takmarka könnunina við höfuðborgarsvæðið og einnig telur nefndin rétt að veittur sé lengri tími til könnunarinnar en gert er ráð fyrir í tillögunni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður- Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið.
                  Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi, eignarhaldi og staðsetningu fyrir 1. mars 2005.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um stofnun sædýrasafns.

    Þuríður Backman sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
    Kristinn H. Gunnarsson og Birkir J. Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. apríl 2004.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Guðjón Hjörleifsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Einar Már Sigurðarson.


Jóhann Ársælsson.



Guðjón A. Kristjánsson.