Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1581  —  464. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneyti, Þorleif Þór Jónsson frá Samtökum atvinnulífsins, Baldvin Sigurpálsson og Ómar Jóhannsson frá Landssambandi sendibifreiðastjóra, Stein Sigurðsson frá Félagi hópferðaleyfishafa, Óla H. Þórðarson frá umferðarráði, Fjólu Gunnarsdóttur frá Löggildingarstofu, Herdísi L. Storgaard frá Árvekni, Jón Rögnvaldsson og Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni, Grétar Jónasson frá Landssambandi lögreglumanna, Þorgrím Sigurðsson frá lögreglunni í Reykjavík og Erlend Baldursson frá Fangelsismálastofnun.
    Málið er fyrsta umferðarlagamálið sem samgöngunefnd afgreiðir frá því að málaflokkurinn færðist frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis og þar með á milli fagnefnda þingsins. Nefndin tók málið til allítarlegrar skoðunar og í umræðum með gestum og í skriflegum umsögnum komu fram mjög mikilvægar upplýsingar sem sumar hverjar urðu grundvöllur að tillögum nefndarinnar um breytingar á frumvarpinu. Þá komu einnig fram athugasemdir sem nefndin vill að teknar verði til skoðunar þó svo að hún geri ekki tillögur um lagabreytingar vegna þeirra á þessu stigi.
    Þar ber fyrst að nefna að nefndin hefur farið fram á við samgönguráðuneyti að ákvæði reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins verði tekin til athugunar og skoðað hvort ekki sé rúm til að taka tillit til þess þegar ökumenn lenda í vanda við flutninga vegna veðurs. Við umræður í nefndinni kom fram að til stendur að taka til endurskoðunar þær reglur sem gilda um þetta á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin leggur áherslu á að reynt verði að finna leiðir til að taka tillit til þess þegar landflutningar tefjast um margar klukkustundir vegna skyndilegra veðurbreytinga eða ófærðar.
    Við umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins bentu umsagnaraðilar á að tilefni sé til að taka til skoðunar reglur um barnabílstóla. Í máli gesta kom fram að alloft séu leiðbeiningar sem fólk fær við kaup á bílum og öryggisbúnaði fyrir börn ófullnægjandi. Þá kemur fyrir að fólk noti barnabílstóla sem passa ekki í viðkomandi bíla en eftirlit og leiðbeiningar um slíkt skortir. Nokkur vilji var í nefndinni til að taka tillit til þessara ábendinga með breytingartillögum en eftir nánari umfjöllun var ákveðið að skoða þetta frekar í samvinnu við ráðuneyti og fleiri aðila enda er mikilvægt að vandað verði til verka og allar breytingar á þessu sviði verði kynntar vel.
    Þá kom fram á meðan nefndin hafði málið til athugunar að Reykjavíkurborg hefur ekki talið sér heimilt fyrr en nú að sekta bifreiðar sem lagt er ólöglega í stæði merkt fötluðum á einkalóðum. Nefndin telur að athuga verði réttarreglur hvað þetta varðar svo að öllum vafa verði eytt enda er alvarlegt ef fólk leggur í slík stæði í trausti þess að það verði ekki sektað og beinir nefndin því til ráðherra að taka málið til skoðunar.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu.
     1.      Að orðinu „farartæki“ í c-lið a-liðar 1. gr. verði breytt í „ökutæki“ til samræmis við annan texta í lögunum. Einnig eru hraðamörk vegna hlaupahjóla sett 8–15 km á klst., m.a. vegna athugasemda Löggildingarstofu sem taldi að tæki sem gerð væru fyrir akstur undir 8 km ættu að falla undir leikfangastaðla og reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar, nr. 408/1994. Þá er vert að geta þess að tilskipun Evrópusambandsins 2002/24/EB, um tegundarviðurkenningar fyrir tveggja eða þriggja hjóla ökutæki sem ætluð eru til aksturs á vegum, nær ekki til þessara hlaupahjóla þar sem sérstaklega er tekið fram í c-lið a-liðar 1. gr. frumvarpsins að slíkum farartækjum megi ekki aka á akbrautum.
     2.      Að í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ komi „ráðherra“ enda hefur framkvæmd umferðarlaga nú verið færð frá dómsmálaráðherra til samgönguráðherra.
     3.      Að notað verði orðið „öryggispúði“ í stað „loftpúði“. Orðið loftpúði er í reglugerð um gerð og búnað ökutækja notað um tiltekinn hluta fjaðrabúnaðar í stórum bifreiðum og því getur valdið ruglingi að nota það einnig um uppblásanlega púða inni í bifreiðum.
     4.      Að orðið „viðurkenndan“ komi fyrir framan orðið „hlífðarhjálm“ í 6. gr. og þannig lögð áhersla á að þeir hlífðarhjálmar sem notaðir eru uppfylli lágmarksstaðla og kröfur sem gerðar eru til slíkra persónuhlífa samkvæmt reglugerðum sem um þær gilda.
     5.      Að lokamálsliður b-liðar 8. gr. falli brott. Í nefndinni spannst töluverð umræða um 8. gr. frumvarpsins og áhrif hennar. Eftir þá umræðu telur nefndin að mikilvægt sé að taka til heildarendurskoðunnar refsingar við ölvunarakstri og m.a. hvort ekki megi fjölga eða breyta úrræðum í einhverjum tilfellum. Nefndin mun ræða þetta frekar við samgönguráðuneyti.
     6.      Að gerðar verði breytingar á 106. gr. laganna sem færi endurveitingu ökuréttar til þeirra sem hafa verið sviptir honum í lengri tíma en þrjú ár frá ráðuneyti til ríkislögreglustjóra sem aftur getur falið lögreglustjórum framkvæmdina. Samkvæmt gildandi 106. gr. umferðarlaga er ráðherra heimilt að veita manni, sem sviptur hefur verið ökurétti um lengri tíma en þrjú ár, ökuréttinn að nýju. Ef viðkomandi hefur verið sviptur ökurétti ævilangt getur endurveiting þó ekki átt sér stað fyrr en að fimm árum liðnum. Þá er kveðið á um það í lögunum að einungis skuli heimila endurveitingu að sérstakar ástæður mæli með því, en áður skal leitað umsagnar viðkomandi lögreglustjóra.
             Í reynd hefur framkvæmdin verið með þeim hætti að þegar svipting hefur staðið í tilgreindan tíma hefur endurveiting verið heimiluð nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákveðnar reglur hafa skapast við framkvæmd endurveitinga, t.d. ef umsækjandi hefur brotið af sér á sviptingartímanum og ekið án réttinda hefur sviptingartíminn lengst við hvert brot um þrjá mánuði, þó ekki lengur en eitt ár. Einnig hefur verið skoðuð sakaskrá og eftir atvikum málaskrá lögreglu auk þess sem leitað hefur verið umsagnar lögreglustjóra í umdæminu þar sem viðkomandi býr. Afgreiðsla þessara mála felst helst í að afla sakarvottorðs og leita umsagna hjá lögreglustjóra. Flest málanna snúast eingöngu um tímasetningar. Í undantekningartilvikum reynir á álitamál eins og brotaferil varðandi brot erlendis og mat á endurveitingu vegna þess.
             Þar sem stærstur hluti þessara mála er hrein afgreiðslumál þykir eðlilegra að með þau sé farið eins og aðra afgreiðslu hjá lögreglu, t.d. útgáfu ökuskírteina. Ríkislögreglustjóri heldur málaskrá og hefur upplýsingar um ökuferil viðkomandi umsækjanda frá sviptingu. Þrátt fyrir að framkvæmd endurveitinga færist til ríkislögreglustjóra er gert ráð fyrir að úrvinnsla málanna fari fram hjá lögreglustjórum með svipuðum hætti og gert er við veitingu ökuskírteina. Með þessu fyrirkomulagi verður stjórnsýsla þessara mála mun skilvirkari
             Þá er gert ráð fyrir að umsækjandi um endurveitingu geti kært synjun lögreglustjóra til ráðuneytisins telji hann gengið á rétt sinn. Með þessu verða til tvö stjórnsýslustig við meðferð þessara mála sem eykur réttaröryggi borgaranna. Að lokum er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem kveðið verði nánar á um nýja málsmeðferð.
     7.      Að ný grein bætist við frumvarpið þar sem fram komi að með lögunum séu innleiddar tvær EB-tilskipanir, tilskipun ráðsins 2002/24/EB, IV. viðauki, og tilskipun 2003/20/EB.
     8.      Að sú grein sem nefndin gerir tillögu um að bætist við frumvarpið varðandi endurveitingu ökuréttar taki gildi 1. september 2004 þó svo að önnur ákvæði öðlist þegar gildi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Kristinn H. Gunnarsson og Birkir J. Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þuríður Backman sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu en áskilur sér rétt til að koma fram með og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 29. apríl 2004.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.Einar Már Sigurðarson,
með fyrirvara.