Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 323  —  296. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

Flm.: Sigríður Ingvarsdóttir, Ásta Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Drífa Hjartardóttir, Hilmar Gunnlaugsson,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Kolbrún Halldórsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til þess að kynna íslenska list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að móta stefnu til þess að koma íslenskri list og hönnun í víðasta skilningi á framfæri í sendiskrifstofum Íslands. Eitt af hlutverkum þeirra er að sinna menningarmálum og er markviss kynning á íslenskri list og hönnun kjörinn vettvangur til þess. Með því væri sérstöðu og sérkennum íslenskrar hönnunar og listar komið á framfæri og jafnframt ímynd lands og þjóðar.
    Mikilvægi hönnunar og lista er að aukast í alþjóðavæðingu nútímans og er skörun milli listasviða orðin meiri. Aukin framlög til Listaháskóla Íslands hafa styrkt stoðir lista og er mikil gróska í þeim sem nauðsynlegt er að hlúa vel að með því að kynna þær og koma á framfæri sem víðast. Kynning á alþjóðavettvangi gæti haft í för með sér aukna eftirspurn og möguleika á markaðssetningu og útflutningi og er nauðsynlegt að nýta sem flestar leiðir til að koma hönnun og list á framfæri þar sem markaðir eru stærri og eru sendiskrifstofurnar vel til þess fallnar. Þannig mætti nýta leiðir sem sendiráðin nota við kynningu á starfsemi sinni, t.d. á netinu, til að kynna íslenska list, hönnun, bókmenntir, tónlist o.fl. með tengingu á heimasíður samtaka hönnuða, listamanna og safna og auðvelda þannig aðgengi að upplýsingum. Þá gætu sendiherrar, viðskiptafulltrúar og aðrir starfsmenn sendiskrifstofa unnið að því með söfnum, samtökum og samböndum innlendra listamanna og nýstofnaðri Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar að nýta húsnæði sendiráða til sýninga og kynninga á list þeirra. Einnig væri unnt að nýta þau sambönd sem starfsmenn sendiráða og jafnvel ræðismenn hafa við einstaklinga, samtök, stofnanir og fyrirtæki og ná þannig miklum árangri samhliða hagkvæmni og sparnaði.
    Hönnun er eitt af fyrstu skrefum í framleiðslu og er hún því hentug fyrir einyrkja og minni fyrirtæki en íslensk fyrirtæki eru flest smá á alþjóðlegum mælikvarða og eiga því erfitt með að koma vöru sinni og list á framfæri erlendis. Þá er hönnun mikilvæg forsenda nýsköpunar í atvinnulífi og hvatning til vandaðrar hönnunar við vöruþróun og markaðssetningu eflir samkeppnishæfni í íslensku atvinnulífi og verðmætasköpun og ber árangur annarra þjóða vott um að hönnun og list eru verðmætar útflutningsvörur.


Prentað upp.

    Markmið með tillögu þessari er að íslensk list og hönnun verði í hávegum höfð í sendiskrifstofum Íslands erlendis í því skyni að auka vegsemd hennar og koma menningu þjóðarinnar á framfæri sem víðast. Með því yrðu stoðir atvinnulífs og nýsköpunar í landinu einnig styrktar.