Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 733  —  479. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga, sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað er við til greiðslu lífeyris. Viðmiðunarlaun skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

2. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 2004, skulu eiga rétt til aðildar að sjóðnum á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun. Sama á við um hjúkrunarfræðinga sem starfa við hjúkrun á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni og rekin er sem sjálfseignarstofnun eða alfarið á vegum styrktar- eða líknarfélaga.
    Aðrir launagreiðendur en um er getið í 1. mgr., sem fengið höfðu heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, hafa heimild til að greiða fyrir þá starfsmenn sína sem þeir greiddu fyrir í árslok 2004 og þá hjúkrunarfræðinga sem heimild hafa til aðildar að sjóðnum og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og greitt hafa samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004.
    Stjórn sjóðsins getur samþykkt aðild að sjóðnum fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem aðild áttu að sjóðnum í árslok 2004 og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og höfðu greitt samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004, enda starfi þeir hjá heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni. Heimilt er að skilyrða aðild samkvæmt þessari málsgrein við að lífeyrisskuldbindingar séu gerðar upp skv. 3.–5. mgr. 20. gr.

3. gr.

    Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi, sbr. 1. mgr., og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr., skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af. Viðmiðunarlaun skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær efnisbreytingar á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
    Í fyrsta lagi er lagt til að stjórn lífeyrissjóðsins geti ákveðið þau viðmiðunarlaun, sem iðgjöld sjóðfélaga eru greidd af, ef sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Í öðru lagi er lagt til að ákvæðum um skilyrði til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga verði breytt. Þær breytingar eru að hluta til samhljóða breytingum í frumvarpi frá síðasta þingi. Þær tillögur náðu náðu hins vegar ekki fram að ganga, en í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kom fram að heildstæða skoðun þyrfti að gera á aðildarskilyrðum sjóðsins áður en gerðar yrðu breytingar á þeim. Slík skoðun hefur nú farið fram af hálfu fjármálaráðuneytisins í samvinnu við hagsmunaaðila.
    Lagt er til í frumvarpi þessu að stjórn sjóðsins verði eftirleiðis gert að ákveða þau viðmiðunarlaun, sem iðgjöld sjóðfélaga eru greidd af, ef sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Viðmiðunarlaunin skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í einhverjum tilvikum hafa launagreiðendur, sem fengið hafa heimild til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína, greitt þeim laun sem ekki eru í samræmi við laun í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Þessir launagreiðendur hafa nánast haft sjálfdæmi um það hvaða viðmiðunarlaun það eru sem iðgjald er greitt af, svo fremi þau séu kölluð dagvinnulaun. Með þessu hefur skapast ákveðið misræmi milli starfsmanna hjá þessum launagreiðendum og almennra sjóðfélaga. Jafnframt getur með þessu skapast mikið misræmi milli innborgaðra iðgjalda hjá tilteknum sjóðfélaga og þess lífeyrisréttar sem hann ávinnur sér þar sem lífeyrisgreiðslur eru eingöngu miðaðar við síðasta starf viðkomandi. Í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er að finna sambærileg ákvæði.
    Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. geta sjóðfélagar í þar tilgreindum tilvikum valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 5. mgr. 7. gr. og 1. eða 2. mgr. 13. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 8. gr. laganna. Þegar sjóðfélagi nýtir sér val samkvæmt þessari reglu og lífeyrir hans á samkvæmt því að taka breytingum sem verða á launum sem greidd eru fyrir viðmiðunarstarfið er nýja ákvæðinu ætlað að taka af tvímæli um að ekki er heimilt að sækja lífeyrisviðmið til starfs sem launað er með þeim hætti að stjórninni bæri að ákveða viðmiðunarlaun sem iðgjöld til sjóðsins væru greidd af fyrir starfið skv. 5. mgr. 7. gr.
    Samkvæmt gildandi lögum skulu allir hjúkrunarfræðingar, sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996 og vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir sem eru viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, eiga rétt til aðildar að sjóðnum. Þá hafa enn fremur aðrir hjúkrunarfræðingar, sem áttu aðild að sjóðnum við árslok 1996, heimild til aðildar á meðan þeir starfa að hjúkrun, svo og þeir hjúkrunarfræðingar er starfa að félagsmálum á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
    Framangreind ákvæði um aðild að sjóðnum hafa hins vegar ekki þótt nægilega skýr. Þannig hefur komið upp ágreiningur um hvort aðrir en þeir sem starfa á vegum ríkis eða sveitarfélaga eigi rétt á aðild að sjóðnum. Hefur einkum verið litið til ákvæða um bakábyrgð ríkisins á ábyrgðarskuldbindingu launagreiðenda í því sambandi.
    Til að taka af öll tvímæli um skilyrði til aðildar að sjóðnum er með frumvarpi þessu lögð til breyting á 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna. Samkvæmt frumvarpinu skulu hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 2004, eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun. Þá skal sama eiga við um hjúkrunarfræðinga, sem starfa við hjúkrun á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni, sem rekin er sem sjálfseignarstofnun eða alfarið á vegum styrktar- eða líknarfélaga. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að aðrir launagreiðendur en um er getið í 1. mgr, og sem fengið hafa heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, hafi heimild til að greiða áfram fyrir þá starfsmenn sína sem þeir greiddu fyrir í árslok 2004, en einnig nýja hjúkrunarfræðinga sem greiddu í sjóðinn í árslok 2004, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um aldur og ávinnslutíma. Þannig þurfa nýir hjúkrunarfræðingar að vera fæddir á árinu 1950 eða fyrr og hafa greitt iðgjald í sjóðinn í samtals 21 ár.
    Þá er í 3. mgr. greinarinnar lagt til að stjórn sjóðsins geti samþykkt aðild að sjóðnum fyrir þá hjúkrunarfræðinga, sem aðild áttu að sjóðnum í árslok 2004 og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og höfðu greitt a.m.k. samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004, enda starfi þeir hjá heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni.
    Samkvæmt 18. gr. laganna ábyrgjast ríkissjóður og aðrir aðilar, sem tryggja hjúkrunarfræðinga í sjóðnum, hver fyrir sinn hóp, greiðslur úr sjóðnum. Samkvæmt sömu grein er ríkissjóður hins vegar bakábyrgur reynist sá aðili sem tryggt hefur hjúkrunarfræðinga í sjóðnum ekki fær um að standa við ábyrgðarskuldbindingu sína. Skv. 1. mgr. 20. gr. laganna skal ríkissjóður og aðrir launagreiðendur, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, endurgreiða sjóðnum hækkun á lífeyrisgreiðslum vegna almennra launahækkana.
    Með vísan til framangreinds er með frumvarpi þessu lagt til að eftirleiðis verði sjóðurinn aðeins opinn hjúkrunarfræðingum sem starfa á vegum opinberra stofnana, þ.e. hjá stofnunum sem eru alfarið í eigu ríkis eða sveitarfélaga, með örfáum undantekningum. Áfram gilda þau skilyrði að viðkomandi sjóðfélagi starfi við hjúkrun, hafi greitt iðgjald til sjóðsins við árslok 2004 og sé ráðinn með föst mánaðarlaun.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er ákvæði sem er nýtt í lögum sjóðsins og verður það 5. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt því skal stjórn lífeyrissjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun, sem iðgjöld sjóðfélaga eru greidd af, ef sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þessi viðmiðunarlaun skulu vera ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.
    Launagreiðendur sem fengið hafa heimild til að greiða iðgjald til sjóðsins fyrir starfsmenn sína greiða í vissum tilvikum laun sem ekki eru í samræmi við laun ríkisstarfsmanna. Þessir launagreiðendur hafa nánast haft sjálfdæmi um það hvaða viðmiðunarlaun það eru sem iðgjald er greitt af, svo fremi þau séu kölluð dagvinnulaun. Með þessu hefur skapast ákveðið misræmi eins og áður er bent á. Jafnframt getur með þessu skapast mikið misræmi milli innborgaðra iðgjalda hjá tilteknum sjóðfélaga og þess lífeyrisréttar sem hann ávinnur sér þar sem lífeyrisgreiðslur eru eingöngu miðaðar við síðasta starf viðkomandi.

Um 2. gr.

    Til að taka af öll tvímæli um skilyrði til aðildar að sjóðnum er með frumvarpi þessu lögð til breyting á 1. og 2. mgr. 17. gr. gildandi laga. Samkvæmt frumvarpinu skulu hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og áttu aðild að sjóðnum við árslok 2004, eiga rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun. Sama gildir um hjúkrunarfræðinga sem starfa við hjúkrun á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisyfirvöldum og rekin er sem sjálfseignarstofnun eða alfarið á vegum styrktar- eða líknarfélaga.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að aðrir launagreiðendur en um er getið í 1. mgr, og sem fengið höfðu heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, hafi heimild til að greiða fyrir þá starfsmenn sína sem þeir greiddu fyrir í árslok 2004 og þá hjúkrunarfræðinga sem heimild hafa til aðildar að sjóðnum og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og greitt hafa í samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004.
    Þá er í 3. mgr. greinarinnar lagt til að stjórn sjóðsins geti samþykkt aðild að sjóðnum fyrir þá hjúkrunarfræðinga, sem aðild áttu að sjóðnum í árslok 2004 og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og höfðu greitt a.m.k. samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004, enda starfi þeir hjá heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni. Í því tilviki er það gert að skilyrði að viðkomandi launagreiðandi geri upp lífeyrisskuldbindingarnar árlega.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. geta sjóðfélagar í þar tilgreindum tilvikum valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 5. mgr. 7. gr. og 1. eða 2. mgr. 13. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 8. gr. laganna. Þegar sjóðfélagi nýtir sér val samkvæmt þessari reglu og lífeyrir hans á samkvæmt því að taka breytingum sem verða á launum sem greidd eru fyrir viðmiðunarstarfið er nýja ákvæðinu ætlað að taka af tvímæli um að ekki er heimilt að sækja lífeyrisviðmið til starfs sem launað er með þeim hætti að stjórninni bæri að ákveða viðmiðunarlaun sem sjóðnum væru greidd iðgjöld af fyrir starfið skv. 5. mgr. 7. gr. laganna.
    Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa í þeim efnum að ekki sé lagaheimild til að miða lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við laun fyrir starf sem ekki er heimilt að greiða iðgjöld af til sjóðsins. Vilji sjóðfélagi sem á val skv. 1. mgr. 21. gr. nýta sér valið og starfið er ekki tækt til viðmiðunar á greiðslu lífeyris úr sjóðnum skal stjórn sjóðsins ákveða honum viðmiðunarlaun sem lífeyrisgreiðslur taka mið af og skulu þau þá ákveðin með sama hætti og þegar um er að ræða iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og laun fyrir það starf eru ekki samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 5. mgr. 7. gr. Ef viðmiðunarstarfinu gegnir aðili sem greiðir iðgjöld í sjóðinn og stjórn sjóðsins hefur ákveðið þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af, sbr. 5. mgr. 7. gr., skal nota sama viðmið til greiðslu á lífeyri til þess sem hefur það starf til viðmiðunar á greiðslu lífeyris. Þegar ekki liggur fyrir ákvörðun skv. 5. mgr. 7. gr. um greiðslu iðgjalda til sjóðsins þarf stjórnin að taka sjálfstæða ákvörðun um viðmiðunarlaun sem greiða ber lífeyri af.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 2/1997,
um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

         Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um aðildarskilyrði að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga verði breytt á þá leið að frá og með 1. janúar 2005 geti launagreiðendur, sem ekki eru að fullu í eigu ríkis eða sveitarfélags og höfðu ekki fengið heimild til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína fyrir árslok 2004, ekki óskað eftir því að greiða iðgjöld til sjóðsins fyrir starfsmenn sína. Þetta felur t.d. í sér að hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá einkareknum hjúkrunarheimilum og læknastofum munu ekki fá aðild að sjóðnum, enda óeðlilegt að ríkissjóður taki almennt á sig bakábyrgð á lífeyrisskuldbindingum gagnvart öðrum en opinberum aðilum. Með frumvarpinu er kveðið skýrar á um að lífeyrissjóðurinn taki ekki á sig nýjar skuldbindingar með bakábyrgð ríkissjóðs fyrir aðra en opinbera aðila en ekki er unnt að segja fyrir um í hvaða mæli annars mundi reyna á slíka ábyrgð. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um að stjórn sjóðsins geti ákveðið viðmiðunarlaun fyrir greiðslu lífeyris í þeim tilvikum þegar laun sjóðfélaga eru ekki samkvæmt kjörum opinberra starfsmanna. Þannig verði komið í veg fyrir að lífeyrir sjóðfélaga hjá einkaaðilum verði í misræmi við lífeyri þeirra sem starfa hjá opinberum aðilum.