Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 544. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 823  —  544. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2004.

Samantekt um störf Íslandsdeildar ÖSE-þingsins.
    Fulltrúar Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu alla helstu fundi þingmannasamkundunnar á árinu. Pétur H. Blöndal, formaður, og Jóhanna Sigurðardóttir sóttu vetrarfundina í Vínarborg í febrúarmánuði, auk ritara, og fullskipuð sendinefnd tók virkan þátt í ársfundinum sem haldinn var í Edinborg að þessu sinni. Þá sótti formaður Íslandsdeildar aukastjórnarnefndarfund þingsins á eynni Ródos ásamt ritara. Íslandsdeildin var að venju afar virk í störfum sínum á árinu og ber þar helst að nefna frumkvæði formanns deildarinnar að stofnun sérstakrar nefndar ÖSE-þingsins sem hefði eftirlit með fjármálum ÖSE. Frumkvæði Péturs H. Blöndal var einróma samþykkt á ársfundi þingsins í Edinborg og var nefndin skipuð á haustmánuðum í umboði forseta ÖSE-þingsins. Eru miklar vonir bundnar við að með störfum nefndarinnar hljóti þjóðkjörnir þingmenn sem á ÖSE-þinginu sitja aukið hlutverk við að hafa eftirlit með hvernig skattfé þjóðanna er varið.
    Skýran greinarmun verður að gera á Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu annars vegar og ÖSE-þinginu hins vegar. ÖSE er alþjóðastofnun sem starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975 og er ætlað að stuðla að friðar- og öryggissamvinnu aðildarríkjanna 55. Líkt og gildir um aðrar alþjóða- og milliríkjastofnanir fer starfsemi ÖSE fram í umboði stjórnvalda aðildarríkjanna. ÖSE-þingið starfar á hinn bóginn í umboði þjóðþinga aðildarríkjanna og er þingmannasamkunda rúmlega 300 þjóðkjörinna þingmanna. Jafnvel þótt samskipti ÖSE-þingsins við ÖSE séu mikil eru formlegu tengslin lítil en hafa þó farið vaxandi. ÖSE-þingið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1992 er fyrsti ársfundurinn fór fram í Búkarest. Á þeim fundi var ákveðið að stofna skrifstofu ÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn. Samskipti ÖSE og ÖSE-þingsins eru helst í því formi að helstu forsvarsmenn ÖSE ávarpa þingfundi og nefndarfundi og svara spurningum þingmanna. Þá eru ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins lagðar fyrir stofnunina og þeim svarað af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þá er vonast til að með stofnun sérnefndar um fjármál ÖSE muni eftirlitshlutverk ÖSE-þingsins aukast.

Inngangur.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) eiga 55 ríki Evrópu og Norður- Ameríku. Stofnunin, sem er stærsta svæðisbundna alþjóðastofnun heims sem starfar eingöngu að öryggismálum, starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Þingmannasamkunda ÖSE (ÖSE-þingið) starfar til hliðar við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og er skipuð þjóðkjörnum þingmönnum aðildarríkjanna. Starf stofnunarinnar á öryggismálasviðinu er mjög víðfeðmt og tekur til flestra þátta í samfélagsgerð þeirra ríkja eða svæða sem sjónum er beint að. Dæmi um þetta er starfsemi ÖSE á sviði afvopnunarmála, fyrirbyggjandi erindrekstur, traustvekjandi aðgerðir og sáttaumleitanir, kosningaeftirlit og efling mannréttinda, lýðræðisþróunar og hagræns öryggis og umhverfisöryggis. Meginstef starfs stofnunarinnar er náin samvinna jafnbærra aðila og bera vinnureglur og verklag stofnunarinnar með sér að ríkin sem þar starfa saman standa jafnfætis. Höfuðstöðvar ÖSE eru í Vínarborg. Ákvarðanataka stofnunarinnar fer að megninu til fram innan fastaráðsins sem fundar vikulega og í sitja fastafulltrúar aðildarríkja ÖSE. Þá eru einnig vikulegir fundir hjá öryggissamstarfsvettvangi ÖSE (Forum for Security Co-operation) og eru þar sérstaklega rædd þau ríki eða svæði þar sem ófriðlega horfir. Æðsta ákvörðunarvald ÖSE eru leiðtogafundir en þess á milli fundar ráðherraráðið, vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er í raun yfirheiti yfir alla þær ákvarðanir og starfsemi sem aðildarríkin hafa komið sér saman um að framfylgja. Til að tryggja skilvirka starfsemi hefur stofnunin komið á fót nokkrum embættum og undirstofnunum. Fyrst og fremst má þar telja skrifstofu formennskuríkis ÖSE en formennskan skiptist milli aðildarríkjanna og stendur í eitt ár í senn. Formennskuríkið ber höfuðábyrgð á framkvæmd ákvarðana stofnunarinnar og samhæfingu starfseminnar. Árið 2004 fóru Búlgarar með formennskuna í ráðherraráði ÖSE. Slóvenar tóku við áramótin 2004–5. Þá ber að telja skrifstofu höfuðstöðvanna í Vínarborg sem framkvæmdastjóri ÖSE veitir forstöðu. Meginverkefni höfuðstöðvanna er að styðja við vettvangsstarf ÖSE og samskipti við aðrar alþjóðastofnanir og ríki. Skrifstofa lýðræðismála og mannréttinda er í Varsjá og fellur til að mynda allt kosningaeftirlit ÖSE undir væng hennar. Þá má nefna skrifstofu sérlegs fulltrúa ÖSE fyrir minnihlutahópa sem er í Haag og skrifstofu sérlegs fulltrúa stofnunarinnar í frelsi fjölmiðla sem er í Vínarborg. Þá hefur ÖSE sett á fót sérstakan sátta- og gerðardómstól sem úrskurðar í deilumálum aðildarríkja sem eru einnig aðilar að sátta- og gerðarsáttmála ÖSE. Dómstóllinn hefur aðsetur í Genf. Þá eru einnig sérstakir fulltrúar ÖSE sem sjá um að framfylgja tilgreindum afvopnunarákvæðum Dayton-friðarsamninganna í Bosníu og Hersegóvínu. Og síðast en ekki síst má nefna skrifstofu ÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn.
    Einn mikilvægasti og mest sýnilegi hluti starfsemi ÖSE á sér stað hjá vettvangsskrifstofum stofnunarinnar og hefur hann náð að skila afar miklum árangri, ekki síst á síðustu fimm árum. Fulltrúar ÖSE sem starfa á vettvangsskrifstofum stofnunarinnar starfa náið með valdhöfum í þeim ríkjum eða héröðum þar sem starfið fer fram og liðsinna við að efla innviði lýðræðis og mannréttinda auk annarra þátta. Vettvangsstarfið er einkar viðamikið og alls eru um 3.000 manns alla jafna að slíkum störfum á hverjum tíma. Þess ber að geta að aðeins fáir þessara fulltrúa eru kostaðir af ÖSE, langflestir eru útsendir starfsmenn aðildarríkjanna sem starfa í nafni ÖSE. Vettvangsskrifstofur ÖSE eru alls 18 talsins. Sex þeirra eru í Suðaustur- Evrópu (Albaníu, Bosníu-Hersegóvínu, Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi, Kosovo-héraði og í Skopje, höfuðborg Makedóníu), þrjár í Austur-Evrópu (Hvíta-Rússlandi, Moldóvu og Úkraínu), fjórar í Kákasus (Aserbaídsjan, Georgíu og Armeníu) og fimm í Mið-Asíu (Kasakstan, Úsbekistan, Kirgistan, Tadsjikistan og Túrkmenistan). Undanfarin ár hefur ÖSE einsett sér að styrkja vettvangsstörf stofnunarinnar og er það í takt við áherslur þær sem komið hafa ítrekað fram hjá þingmannasamkundu ÖSE.
    Alls hljóðaði heildarfjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2004 upp á rúmar 180 millj. evra, um 15 milljarða kr., og var það um 1% aukning frá árinu á undan. Á reikningsárinu 2003 fór langstærstur hluti þess fjármagns í rekstur og starfsemi stóru vettvangsskrifstofanna, eða um 127 millj. evra, en rekstur höfuðstöðvanna hljóðaði upp á um 24 millj. evra. Fjárhagsáætlun stofnunarinnar fór stighækkandi árin 1993–2000 og náði hámarki það ár enda var umfangsmikilli uppbyggingar- og þróunarstarfsemi hrint í framkvæmd í Suðaustur-Evrópu á seinni hluta tíunda áratugarins í kjölfar Bosníu-stríðsins og ekki síst átakanna í Kosovo- héraði árið 1999. Fjárhagur ÖSE er fjármagnaður með föstu framlagi aðildarríkjanna sem ákveðið hefur verið samkvæmt almennum stöðlum. Framlag Íslands er 0,19% af heildarfjárhagsáætlun. ÖSE-þingið er eðli málsins samkvæmt mun minna í sniðum en stofnunin sjálf og er rekstrarkostnaður hennar greiddur með fastaframlögum þjóðþinga aðildarríkjanna, eða af utanríkisráðuneytum þar sem því er að skipta. Heildarfjárhagsáætlun ÖSE-þingsins fyrir árið 2004 var rúmar 2 millj. evra eða um 165 millj. kr. og greiddi Alþingi 0,19% þess.
    Átökin á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar urðu til þess að ÖSE hlaut viðamikið hlutverk við uppbyggingarstarf. Vegur og virðing stofnunarinnar jókst í kjölfarið og umsvifin jukust í hlutfalli við það. Á síðustu árum hefur ÖSE lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að slökkva þá ófriðarelda sem blossað hafa upp á svæðinu og samfara því og breyttri stöðu í alþjóðamálum hafa sjónir stofnunarinnar beinst í auknum mæli í austurveg. Kákasuslýðveldin og Mið-Asíuríkin hafa notið samstarfsins við ÖSE í ríkum mæli á síðustu árum og missirum og er ljóst að mun meiri pólitísk vigt hefur verið lögð í að aðstoða ríkin á þessum landsvæðum. Þrátt fyrir það hefur ÖSE enn ríkar skuldbindingar í suðausturhluta Evrópu er því enn svo að á síðustu árum hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu, friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði, uppbyggingarverkefni í Serbíu og Svartfjallalandi, auk þróunarverkefna í öðrum ríkjum á svæðinu, verið langveigamestu verkefni ÖSE. Á þessum stöðum hefur stofnuninni verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðla og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE á árinu, þ.m.t. forsetakosningarnar í Úkraínu og farsæl niðurstaða þeirra. Alþjóðleg barátta gegn hryðjuverkastarfsemi hefur mótað nokkuð starf ÖSE á undanförnum árum enda fer mikilvæg alþjóðasamvinna á sviði t.a.m. löggæslumála fram undir væng stofnunarinnar. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli. Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem sett hafa sér sömu markmið. ÖSE hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og nýtist það starf einkar vel í baráttunni gegn hryðjuverkum, mansali og þjóðernisofstæki.
    ÖSE-þingið hefur að mörgu leyti endurspeglað starf stofnunarinnar með nefndastarfi sínu sem helgast af hinum þremur víddum ÖSE, þ.e. stjórnmálum og öryggismálum, efnahags- og umhverfismálum og lýðræðis- og mannréttindamálum. Að auki er þingið mikill aflvaki fyrir áherslubreytingar á starfi ÖSE og veitir einnig stofnuninni óformlegan pólitískan stuðning. Fulltrúar ÖSE-þingsins sem eru þjóðkjörnir fulltrúar þjóðþinganna hafa verið ötulir talsmenn starfsemi stofnunarinnar heima fyrir og hefur sá stuðningur verið stofnuninni mikilvægur. Aukins skilnings hefur gætt á störfum þingsins á undanförnum árum og er nú svo komið að þingmannasamkundan á afar farsælt samstarf við ÖSE en á það þótti skorta fyrir nokkrum árum. Ályktanir ÖSE-þingsins rata inn á borð ráðherraráðsins og fastaráðsins og hljóta þar umfjöllun. Ljóst þykir að þátttaka ÖSE-þingsins í yfirgripsmikilli starfsemi ÖSE er mikill akkur fyrir stofnunina. Þá tekur ÖSE-þingið afar virkan þátt í grasrótarstarfi stofnunarinnar, ekki síst með kosningaeftirlitsstörfum þingmanna sem sæti eiga á þinginu. Auk hefðbundinna nefndastarfa ÖSE-þingsins eru starfræktir ýmsar sérnefndir sem ræða og eru ráðgefandi í tilteknum málefnum, svo sem um stöðu mála í Moldóvu, stjórnmálaástandið í Úkraínu, jafnréttismál ÖSE og fjármál ÖSE, svo fá dæmi eru nefnd. Oftar en ekki hefur starf sérnefnda þessara skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru Pétur H. Blöndal, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokksins, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokksins, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2003 var þannig:

1. nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal.
Til vara: Guðlaugur Þór Þórðarson.
2. nefnd um efnahagsmál, vísindamál,
tæknimál og umhverfismál:
Dagný Jónsdóttir.
Til vara: Hjálmar Árnason.
3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Jóhanna Sigurðardóttir.
Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.

Starfsemi á árinu 2004.
a. Fundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 19.–20. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til fundar í Vínarborg. Var þetta í þriðja sinn sem efnt var til svonefndra vetrarfunda ÖSE-þingsins, með þátttöku allra fulltrúa ÖSE-þingsins sem heimangengt áttu, eftir ákvörðun stjórnarnefndar þar að lútandi í febrúar árið 2001. Var fundurinn sóttur af fulltrúum 50 landsdeilda ÖSE-þingsins, auk ýmissa samstarfsaðila, og sem fyrr var meginmarkmiðið að gefa fulltrúum ÖSE-þingsins sem sæti ættu í málefnanefndum þingsins færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal og Jóhanna Sigurðardóttur, auk Belindu Theriault, starfandi ritara Íslandsdeildar.
    Fundur stjórnarnefndarinnar var haldinn 19. febrúar. Bruce George, forseti ÖSE-þingsins, lagði í inngangsorðum sínum áherslu á það að framkvæmdarvaldið yrði að hlusta á uppbyggilega gagnrýni frá þingmönnum og viðurkenna þannig mikilvægi lýðræðislegs aðhalds að starfsemi ÖSE. Hann vildi að litið yrði á ÖSE-þingið sem áreiðanlegan samstarfsaðila sem legði sitt af mörkum til að ná markmiðum ÖSE. Hann sagði samskipti framkvæmdarvalds og þingmannasamkundu hafa batnað stórlega á síðustu árum og ekki væri lengur ástæða til að hafa áhyggjur af því samstarfi. Frekar þyrfti að huga að samstarfinu innan ÖSE. Þar gengi ákvarðanataka í mikilvægum málum vægast sagt hægt, sérstaklega hvað varðar endurskipulagningu starfseminnar. Illa gengi að ná samstöðu um ráðningu í yfirmannastöður innan stofnunarinnar og væru því mikilvægar stöður ómannaðar langtímum saman. Þá ræddi forsetinn um komandi ÖSE-þing í Edinborg í júlí en þar yrði rætt sérstaklega um hvernig bregðast ætti við nýjum hættum á sviði öryggismála.
    Á fundi stjórnarnefndar voru gerðar smávægilegar breytingar á starfsreglum ÖSE- þingsins, farið yfir skýrslu gjaldkera og rætt um fundi þá sem fram undan væru. Þá var farið yfir skýrslur um kosningaeftirlit síðustu mánaða. Þær fjölluðu um eftirlit með forsetakosningum í Aserbaídsjan og Georgíu og þingkosningum í Georgíu, Rússlandi og Serbíu og Svartfjallalandi og kom fram margvísleg gagnrýni á framkvæmd þessara kosninga þó að jafnframt hafi verið tekið fram það sem jákvætt var. Fengu fulltrúar þessara ríkja tækifæri til að tjá sig um niðurstöður og tillögur kosningaeftirlitsmanna. Skýrsla vinnuhóps um málefni Hvíta-Rússlands skilaði skýrslu um ferð sína til Hvíta-Rússlands í lok síðasta árs, en valdníðsla er enn landlæg þar í landi. Þingkosningar voru fyrirhugaðar haustið 2004 og mundi framtíð landsins ráðast af framkvæmd og úrslitum þeirra.
    Þá var á fundi stjórnarnefndarinnar rætt um hvernig bæta mætti starf ÖSE-þingsins og var áhersla lögð á að ályktanir þyrftu að vera markvissari og tengja þyrfti þær betur við starf undirstofnana ÖSE. Velja ætti einstök mál til að fylgja eftir. Jafnframt þyrfti hver landsdeild að vinna vel á heimavelli og eiga samskipti við sinn utanríkisráðherra um málefni ÖSE og tryggja að skoðanir hennar komist áfram til viðkomandi fastafulltrúa hjá ÖSE. Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildar, kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál og minnti á bréf sem hann hefði nýverið sent forseta ÖSE-þingsins um fjárhagsáætlun ÖSE. Þingið hefur á undanförnum tveimur árum gefið álit sitt á fjárhagsáætlun ÖSE og fagnaði Pétur þeirri þróun. Hann taldi hins vegar að sú vinna sem færi fram á vegum þingsins væri ekki nógu markviss og metnaðarfull. Fjárhagsáætlunin væri stefnumarkandi plagg og öflugt lýðræðislegt eftirlit þjóðþinganna því nauðsynlegt. Pétur lagði til að vinnuhópur yrði settur á laggirnar til að skoða sérstaklega fjárhagsáætlun ÖSE og leggja fram tillögur. Forsetinn sagði fjárhagsáætlun ÖSE mjög torskilið plagg upp á 1.300–1.600 síður. Einungis fáar landsdeildir tækju þátt í umræðunni. Hann viðurkenndi að þingið þyrfti að taka betur á þessu máli og fagnaði því að Íslandsdeildin ætlaði að leggja nokkuð af mörkum til þessarar vinnu. Formaður hollensku landsdeildarinnar tók undir með Pétri og upplýsti að hann hefði sent bréf til forsetans um sama mál fyrir nokkru. Hann furðaði sig á því að forsetinn hefði ekki svarað tillögu Péturs efnislega, þ.e. hvort setja ætti af stað vinnuhóp til að fjalla um fjárhagsáætlun ÖSE. Svör forsetans voru áfram frekar loðin en hann sagðist ætla að skoða málið og fá Hollendinga, Íslendinga og aðra áhugasama til að mynda hóp.
    Á sameiginlegum fundi allra málefnanefnda voru tvö megindagskrárefni: viðræður við formann ráðherraráðs ÖSE og veiting blaðamannaverðlauna. Formaður ráðherraráðs ÖSE, utanríkisráðherra Búlgaríu, hélt framsöguerindi og svaraði spurningum fundarmanna. Hann lagði áherslu á að ekki ætti að setja ný stefnumið fram í hvert skipti sem skipt væri um formennskuland, heldur ætti að framkvæma fyrri ákvarðanir. Því ætluðu Búlgarar að einbeita sér að því að framkvæma þau stefnumál sem tekin hafði verði ákvörðun um í Maastricht í formennskutíð Hollendinga. Öryggismál og stöðugleiki á 21. öld, sérstaklega stefna til að mæta hryðjuverkaógn, stefna í efnahagsmálum og stefna gegn mansali væru meðal áhersluatriða. Hann sagði að vinna þyrfti að praktískum lausnum á margvíslegum vandamálum, svo sem hvað snertir öryggi í flughöfnum, aðgerðir til að koma í veg fyrir fölsun ferðaskilríkja o.s.frv. Þá væri nauðsynlegt að samhæfa starfsemi ÖSE og starfsemi annarra alþjóðastofnana, t.d. NATO, Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna. Þá væri vægi menntunar sem liðar í átakavörnum að aukast og jafnframt væri mikilvægt að vinna áfram að því að bæta stjórnsýslu og lýðræðisþróun í mörgum ÖSE-ríkjum. Innri endurskoðun á störfum ÖSE væri brýn, sérstaklega þyrfti að athuga hvernig bæta mætti ákvarðanatökuferlið og gera stofnunina sveigjanlegri. Samstöðureglan gerði t.d. ýmsa ákvarðanatöku mjög erfiða. Formaður ráðherraráðsins ræddi að lokum um mikilvægt starf ÖSE á vettvangi og fór yfir stöðu mála á ýmsum svæðum, m.a. í Mið-Asíu og Suðaustur-Evrópu. Hann lagði áherslu á samstarf við ÖSE-þingið og ræddi sérstaklega mikilvægt hlutverk þess við kosningaeftirlit. Blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins voru veitt á vetrarfundinum. Verðlaunin hlaut að þessu sinni Nefnd til varnar blaðamönnum, sem eru alþjóðasamtök sem vinna í þágu frjálsrar fjölmiðlunar.
    Allar þrjár málefnanefndir ÖSE-þingsins héldu fundi í tengslum við vetrarfundinn. Á fundi 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál hélt utanríkisráðherra Andorra framsöguerindi. Formaður fastaráðs ÖSE, Ivo Petrov, sendiherra Búlgaríu, fjallaði um starf fastaráðsins fram undan, en unnið verður að því að fylgja eftir ákvörðunum Maastricht-fundar ráðherraráðsins. Hann rakti fundi og verkefnavinnu fram undan. Yfirmaður sendinefndar ÖSE í Moldóvu, sendiherrann William Hill, fór yfir starf sendinefndarinnar, en unnið er mikilvægt starf við að eyða rússneskum vopnum og skotfærum í landinu sem er mikið verk. Vonast var til að verkinu lyki á næstu sex mánuðum. Háttsettur ráðgjafi í löggæslumálum hjá ÖSE, Richard Monk, ræddi málefni lögreglusveita. Sagði hann spillingu vera helsta vandamálið í tengslum við þjálfun lögreglusveita í fyrrverandi einræðisríkjum. Ekki væri nóg að halda tæknileg námskeið, heldur þyrfti að breyta löggæslumenningu í viðkomandi ríkjum. Lögreglumenn væru oft á mjög lágum launum og teldu sig þurfa að ná endum saman með því að þiggja mútur. Sums staðar væru lögregluembætti til sölu. Breyting á viðhorfum lögreglumanna væri langtímaverkefni því að það tæki mörg ár eða jafnvel kynslóð til að ná fram raunverulegum breytingum. T.d. skorti oft það grundvallarviðhorf að hlutverk lögreglunnar væri að vernda borgarana en ekki ríkið. Jafnframt færi mikið fé til spillis þegar vestræn ríki legðu peninga í átak til að byggja upp lögreglusveitir í þessum ríkjum. Lögreglan á viðkomandi stað skorti oft grundvallarkunnáttu til að rannsaka glæpi og alla innviði vantaði. Vestræn ríki legðu oft til dýran tækjabúnað sem ekki væri grundvöllur til að nota. Háttsettir lögregluforingjar væru sendir til Vesturlanda á námskeið þar sem lögð væri áherslu á dýra tækni þegar þá skorti kannski skrifborð og blýanta heima fyrir. Monk sagði að geta til upplýsingagreiningar væri forsenda þess að hægt væri að búa til svæðisbundið samstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Hann sagði frá því að ÖSE væri núna með lögregluverkefni í Kirgistan. Þetta væri 18 mánaða áætlun, en 5–10 ára áætlun þyrfti til að ná raunverulegum árangri. Þá væri verið að búa til áætlun fyrir Kákasussvæðið. Hann bað þingmenn að styðja þetta starf með tvennum hætti. Það þyrfti mjög færa sérfræðinga á sviði lögreglumála í þessi verkefni sem hefðu þekkingu á alþjóðastarfi, en framboð væri of lítið eins og sakir standa. Þingmenn gætu skoðað hvernig mætti mynda hóp í sínu landi sem gæti verið til taks í slík verkefni. Síðan væri fjármögnun verkefna eilífur höfuðverkur. Þessi verkefni væru fjármögnuð með frjálsum framlögum aðildarríkjanna, ekki af fjárhagsáætlun ÖSE. Enn þyrfti hálfa milljón evra til að klára verkefnið í Kirgistan og jafnframt þyrfti að fá yfir milljón evrur vegna verkefnis sem er verið að undirbúa fyrir Armeníu og Aserbaídsjan. Á meðan ykist máttur skipulagðrar glæpastarfsemi.
    Í 2. nefnd um efnahags-, vísinda- og tækni- og umhverfismál var fjallað um efnahagsástandið í Georgíu og jafnframt um starfsemi ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála og tóku sérfræðingar frá ÖSE þátt í umræðum. Fund 3. nefndar um lýðræði og mannréttindamál ávörpuðu þeir Rolf Ekeus, sérlegur erindreki ÖSE í réttindum minnihlutahópa (HCNM), og forstöðumaður Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR), sendiherrann Christian Strohal. Jafnframt hélt Jutta Wolke, starfandi fulltrúi ÖSE á sviði eftirlits með frelsi fjölmiðla (RFOM), erindi.
    Í óformlegum samræðum við fulltrúa á vetrarfundinum kom fram að ýmsir eru farnir að hugsa sér til hreyfings hvað varðar framboð til formanns ÖSE-þingsins, en kosið verður á ÖSE-þinginu í júlí. Meðal hugsanlegra frambjóðenda eru Frakki, Þjóðverji, Bandaríkjamaður og Finni. Þetta er þó allt á frumstigi enn þá og vel hugsanlegt að aðrir blandi sér í slaginn.

b. 13. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Dagana 5.–9. júlí var tólfti ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Edinborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Meginþema Edinborgarfundarins var samstarf og bandamenn: viðbrögð við nýjum ógnum. Tóku skýrslur og ályktanir málefnanefndanna þriggja mið af þessu þema og var þar rætt um víðtækt samstarfsnet Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og hvernig það nýtist í baráttunni gegn þeim vám sem standa aðildarríkjunum fyrir þrifum, svo sem alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, mansal, peningaþvætti og vopnasmygl. Yfir þrjú hundruð fulltrúar 55 aðildarríkja ÖSE-þingsins sátu setningarfund ársfundarins og hlýddu á setningarávarp Bruce George, fráfarandi forseta ÖSE-þingsins. Auk þess ávörpuðu eftirfarandi tignargestir þingfundinn: Peter Hain, leiðtogi Verkamannaflokksins í breska þinginu, Solomon Passy, utanríkisráðherra Búlgaríu og formaður ráðherraráðs ÖSE, Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, Gabriel Romanus, forseti Norðurlandaráðs, og Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE. Fyrsti formlegi liður ársfundarins var fundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins sem skipuð er formönnum allra landsdeilda auk formanna og annarra embættismanna málefnanefndanna. Á fundinum voru teknar fyrir áfangaskýrslur sérnefnda ÖSE-þingsins og skýrslur frá fundum og ráðstefnum sem efnt hafði verið til á árinu á vegum ÖSE-þingsins. Var fundarmönnum m.a. sagt frá árangri ráðstefnu um Miðjarðarhafssvæðið og trúfrelsi sem var í Rómaborg haustið 2003, auk þess sem fjallað var um kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins. Þá var stuttlega rætt um ráðstefnur og fundi þá sem fram undan væru. Að því loknu héldu gjaldkeri þingsins og framkvæmdastjórinn framsögur. Kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri þingsins, sagði að samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG væru sjóðir ÖSE-þingsins vel stæðir og lagði hann fram fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2004–2005 sem var samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir 4% hækkun frá síðasta ári. Þá sagði Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, stuttlega frá helstu breytingum á störfum skrifstofu ÖSE-þingsins og verkefnum þess. Sagði hann að umsvif skrifstofunnar og verkefni hennar hefðu aukist afar mikið á undanförnum árum en þrátt fyrir það væri starfsmannafjöldinn svipaður og áður hefði verið og útgjöldin einnig. Á fundinum voru einnig teknar fyrir breytingar á þingsköpum ÖSE-þingsins sem fjölluðu um hlutverk stjórnarnefndarinnar í vísun viðbótarályktana til nefnda. Var breytingartillögunni, sem lögð var fram í nafni forseta þingsins, ætlað að einfalda ferlið og formfesta þær venjur sem skapast hefðu. Var tillagan hins vegar felld á grundvelli samstöðureglunnar, þar sem fulltrúar Frakklands, Ítalíu og Úkraínu voru henni andvígir. Fyrir ársfundinn í Edinborg höfðu verið lagðar fram 13 viðbótarályktunartillögur frá landsdeildum og var þeim vísað til viðeigandi málefnanefnda í lok fundarins.
    Á opnunarfundi ÖSE-þingsins hlýddu fulltrúar á ávörp forseta þingsins og tignargesta. Í ávarpi sínu sagðist Bruce George, fráfarandi forseti þingsins, hafa leitast við, undanfarin tvö ár, að koma því til leiðar að ÖSE ætti erindi í þeim fjölmörgu brýnu úrlausnarmálum sem aðildarríkin glímdu við nú um stundir. Til þess yrði stofnunin einnig að horfa inn á við og líta á það sem betur mætti fara í starfsemi hennar. Evrópskar milliríkjastofnanir kepptu á nokkurs konar samkeppnisvettvangi þar sem hver og ein þeirra stefndi að auknum hlut í fjárveitingum aðildarríkjanna. Eitt þeirra atriða sem stæði starfsemi ÖSE fyrir þrifum og kæmi í veg fyrir skilvirkni hennar væri samstöðureglan svonefnda. Sagðist hann hafa komið þeirri hugmynd sinni á framfæri að ÖSE ætti að gera ákvarðanatökuferli sitt sveigjanlegra og beita mismunandi reglum á mismunandi úrlausnarefni og ferli líkt og ÖSE-þingið gerði, en þar er á stundum beitt samstöðureglu, afbrigði af samstöðureglu (samstaða mínus eitt ríki), einföldum meiri hluta, og meiri hluta að 2/ 3. Þá sagðist George fylgjandi hugmyndum formanns ráðherraráðsins um úrbætur á starfsemi ÖSE og enn fremur að gera ætti embætti framkvæmdastjórans mun pólitískara í eðli sínu, meira í ætt við embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Þá rakti forsetinn helstu pólitísku stefnumið ÖSE-þingsins, þ.m.t. samstarf við Evrópuráðið, NATO og svæðisbundnar stofnanir, störf sérnefnda þingsins og samstarfið við vettvangsskrifstofur ÖSE. Peter Hain, leiðtogi Verkamannaflokksins í breska þinginu, sagði í ávarpi sínu að ÖSE væri stofnun sem væri betur til þess fallin en aðrar stofnanir að glíma við mörg þeirra erfiðu úrlausnarefna sem ÖSE-ríkin ættu sameiginleg. Með það fyrir augum sagði Hain að ÖSE yrði að einbeita sér að því að auka vegferð lýðræðisins og aðstoða nýfrjáls ríki í þeirri þróun. Í því tilliti væri hlutverk ÖSE-þingsins ærið. Þá sagði hann að ÖSE ætti að styrkja starf sitt er miðaði að verndun mannréttinda. Í þriðja lagi sagði hann að efnahagslegar framfarir væru undirstaða lýðræðis- og réttarfarsumbóta og því ætti ÖSE að halda áfram stuðningi sínum við hagkerfi ríkjanna í austri. Að lokum ítrekaði Hain að baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi væri góður staður fundinn á vettvangi ÖSE. Því næst tók utanríkisráðherra Búlgaríu, sem fer með formennsku í ráðherraráði ÖSE, Solomon Passy, til máls og skýrði þingmönnum frá starfi ráðherraráðsins á undanförnum mánuðum. Lagði hann í upphafi út frá því að ÖSE-þingið hefði styrkt stöðu sína mjög á síðustu árum og væri mikils metinn bandamaður stofnunarinnar í helstu verkefnum hennar. Aukin samskipti við þingið væri ofarlega á markmiðslista ráðherraráðsins þetta árið. Þá ræddi hann um starf ÖSE á vettvangi og hve mikilvægu hlutverki það hefði að gegna á ófriðarsvæðum og í nýfrjálsu ríkjunum og nefndi dæmi því til stuðnings. Hvað ráðherraráðið varðaði sagði Passy að nokkurt ráðleysi ríkti þar og sagði að ekki mætti bíða með að hrinda umfangsmiklum úrbótum í framkvæmd. Afar mikilvægt væri að færa ÖSE nær umbjóðendum sínum. Skrifræði hefði vikið fyrir mannlegum þáttum á undanförnum árum og skýrrar pólitískrar sýnar væri þörf. Nefndi hann sem dæmi að um helmingur útgjalda stofnunarinnar á vettvangi væri enn í Suðaustur-Evrópu. Aftur á móti hefði starfsemin í Mið-Asíu aðeins um 6% fjármagnsins til umráða og starfsemin á Kákasussvæðinu 15%. Í ljósi samtímaógna væru slíkar ráðstafanir út í hött. Þá tók hann undir með Bruce George og sagði að mikilvægt væri að framkvæmdastjórinn fengi aukið pólitískt hlutverk. Vonaðist hann til þess að umfangsmikilli umbótaáætlun yrði hrundið í framkvæmd eftir ráðherrafundinn sem haldinn yrði í Sofíu í desember. Bað hann enn fremur um stuðning ÖSE- þingsins við þær umbætur. Að lokinni framsögu Solomons Passys héldu Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, og Gabriel Romanus, forseti Norðurlandaráðs, ræður. Síðastur flutti Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, ræðu sína. Þar sagði hann frá þeim breytingum sem ráðist hefði verið í til að bæta starfsemi ÖSE og laga hana að breyttum aðstæðum og kröfum. Sagði hann að sjóðskerfi stofnunarinnar hefði verið breytt með það fyrir augum að auka gagnsæi og skilvirkni og að störf stofnunarinnar endurspegli betur þær pólitísku ákvarðanir sem liggi til grundvallar. Þá sagði hann að það ylli sér verulegum áhyggjum hve fáar konur væri við stjórnvölinn í vettvangsskrifstofum ÖSE og í aðalskrifstofunni í Vínarborg og sagði að stofnunin yrði að gera bragarbót á því. Þá fagnaði hann yfirlýstum vilja formanns ráðherraráðsins til að auka pólitísk ítök framkvæmdastjóraembættisins. Að lokum þakkaði framkvæmdastjórinn Bruce George fyrir störf sín og sagði að það væri honum að þakka að samskipti stofnunarinnar og þingsins hefðu aldrei verið með betra móti.
    Á fundi 1. nefndar (nefndar um stjórnmál og öryggismál) var tekin fyrir skýrsla kanadíska þingmannsins Cliffords Lincolns sem bar yfirskrift meginþema fundarins. Umræðurnar í nefndinni snerust um fjölmörg málefni sem tæpt var á í skýrslunni, m.a. baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, útbreiðslu gereyðingarvopna ýmiss konar, landamæravörslu, löggæslumál, nauðsyn úrbóta á starfsemi ÖSE, jafnréttisáætlun ÖSE og nauðsyn þess að fækka útsendum starfsmönnum á vegum ÖSE. Í ályktun meginskýrslu 1. nefndar var hryðjuverkastarfsemi í hvers kyns mynd fordæmd harðlega og greint frá meginhlutverki þjóðþinga aðildarríkjanna við að berjast gegn þeirri vá. ÖSE-þinginu var gefið ákveðið hlutverk og mælst til þess að kraftar þess yrðu nýttir til samhæfingar löggjafar og annars þess er til þjóðþinganna tekur. Þá voru aðildarríki ÖSE hvött til þess að endurskoða afstöðu sína til samstöðureglunnar og þá sérstaklega hvött til þess að hætt yrði að beita samstöðureglunni í málefnum er tengdust stjórnun stofnunarinnar og ákvarðanir í starfsmannahaldi. Í ályktuninni var farsælu vettvangsstarfi ÖSE fagnað og hvatt til þess að fjármagn og mannafli verði færður á þau svæði þar sem nauðsyn væri brýnust. Á fundinum voru tekin fyrir fern viðbótarályktunardrög og samþykkt og vísað til meðferðar þingfundar. Ályktanirnar sem samþykktar voru fjölluðu um: heildarbann gegn notkun jarðsprengna, pólitískt ástand í Úkraínu, stöðu mála í Moldóvu, og vernd helgra staða í Jerúsalem. Ætlunin var að fjalla um ályktun um Hvíta-Rússland en hún var dregin til baka og þess í stað samþykkt yfirlýsing. Þá ræddi nefndin um hið eldfima ástand sem skapast hefði í Suður-Ossetíu. Í lok fundarins var kosið í embætti nefndarinnar. Kosningarnar fóru þannig að sænski þingmaðurinn Göran Lennmarker var endurkjörinn formaður, Mónakóbúinn Jean-Charles Gardetto var kjörinn varaformaður og belgíski þingmaðurinn Pieter De Crem var kjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 2. nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda og umhverfismál) var tekin fyrir skýrsla rússneska þingmannsins Leoníds Ivantsjenkós sem einnig fjallaði um meginþema fundarins. Efnistökin voru þó önnur en í 1. nefnd og var megininntakið það að aðildarríkjum ÖSE stafaði hætta af umhverfismengun sem víða mætti finna. Brýndi skýrslan fyrir aðildarríkjum að efla umhverfisvernd og þá ekki síður að standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem þau hefðu undirgengist í þessum málum, þ.m.t. Kyoto-bókunina. Þá var hvatt til frekara samstarfs ríkja í milli og lögð áhersla á að forvarnir í umhverfismálum og úrlausn brýnna mála væru hreint öryggismál og þyrfti því að setja í forgang. Þá var enn fremur hvatt til aukins samstarfs við svæðisbundin samtök og ríkjasambönd á borð við Eystrasaltsráðið, Svartahafsráðið og Samveldi sjálfstæðra ríkja. Nefndin tók tvenn viðbótarályktunardrög til meðferðar. Annars vegar ályktun um Kosovo-hérað, sem lögð var fram af Ítalska þingmanninum, Giovanni Kessler. Hins vegar var um að ræða ályktun um efnahagslegt samstarf við ríki Miðjarðarhafsins, sem Kanadamaðurinn Jerry Grafstein lagði fram. Báðar voru samþykktar og vísað til þingfundar. Í lok fundarins var kosið í trúnaðarstörf nefndarinnar og fór kosningin þannig að Bandaríkjamaðurinn Benjamin Cardin var endurkjörinn formaður, portúgalski þingmaðurinn Maria Santos varaformaður og Rússinn Leoníd Ivantsjenkó var endurkjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 3. nefnd (nefnd um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál) var tekin fyrir skýrsla hollenska þingmannsins Nebahat Albayrak sem, eins og hinar meginskýrslur fastanefndanna, bar titil meginþema fundarins en fjallaði að megninu til um tvennt: annars vegar um minnihlutahópa og hins vegar um mansal. Í skýrslunni var bent á að aðstaða minnihlutahópa væri víða mjög bág í aðildarríkjunum og að brýnna úrbóta væri þörf. Voru ríkin hvött til að hrinda áætlunum í framkvæmd sem miðuðu að betri samloðun slíkra hópa í þjóðfélag ríkjanna. Rolf Ekeus, sérlegur fulltrúi ÖSE í málefnum minnihlutahópa, hélt einnig framsögu á fundinum. Í líflegum umræðum um mansal tók Helga Konrad, sérlegur fulltrúi ÖSE í þeim málaflokki, þátt. Meginefni ályktunarinnar kvað á um að aðildarríkjunum bæri að samhæfa betur lagaramma sína hvað mansal varðaði og að ÖSE hlyti aukið hlutverk í fyrirbyggjandi aðgerðum. Nefndin ræddi enn fremur sérstaka viðbótarályktun sem fjallaði um mansal. Auk hennar tók nefndin fern viðbótarályktunardrög til meðferðar og fjölluðu þau um: baráttuna gegn kynþáttahatri, baráttu gegn pyndingum, meðferð minnihlutahópa, og loks um alvarleg mannréttindabrot í Líbýu. Voru öll drögin samþykkt og vísað til þingfundar. Í lok fundar var kosið í trúnaðarembætti nefndarinnar. Þýski þingmaðurinn Claudia Nolte var kjörinn í embætti formanns og sænski þingmaðurinn Cecilia Wigström í embætti varaformanns. Þá var belgíski þingmaðurinn Anne-Marie Lizin kjörinn sem skýrsluhöfundur.
    Efnt var til þingfundar miðvikudaginn 9. júlí. Meðal dagskrárliða var skýrsla gjaldkera
þingsins, kanadíska þingmannsins Jerry Grafstein, og skýrsla framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, Spencer Oliver. Þá var efnt til almennra umræðna um skýrslur og ályktunardrög málefnanefndanna. Í umræðum kom fram að ÖSE væri einstök stofnun með einstaka eiginleika. Þá var bent á mikilvægi ÖSE-þingsins sem væri einu alþjóðaþingmannasamtökin sem í sætu fulltrúar þriggja heimsálfa sem ættu hagsmuna að gæta í friðsamlegri og stöðugri Evrópu. Væri ÖSE-þingið því í kjöraðstöðu til að ræða þau mál sem mest brynni á, í og við jaðra ÖSE-svæðisins. Þá beindust umræður nokkuð að starfsemi og skipulagi ÖSE og umbótum þeim sem framkvæmdastjórinn hefði beitt sér fyrir. Nokkrir bentu á nauðsyn þess að ÖSE einbeitti sér í auknum mæli að málefnum sem sneru að ÖSE-svæðinu í heild sinni, þ.e. vandamálum líkt og mansali, í stað ofuráherslunnar á starfsemi ÖSE innan nýfrjálsra ríkja. Þá voru ályktanir málefnanefnda og viðbótarályktanir samþykktar. Ályktanirnar voru steyptar saman í skjal sem nefnist Rotterdam-yfirlýsing ÖSE-þingsins. Þá hlýddu þingmenn á ávörp Bruce Georges, forseta ÖSE-þingsins, Inge Lönning, forseta Norðurlandaráðs, og Geertje Lycklama a Nijeholt, formanns hollensku sendinefndarinnar. Í lok fundarins var kjörið í trúnaðarembætti þingsins. Bruce George var endurkjörinn forseti. Í kosningum til embætta varaforseta voru sex í kjöri. Flest atkvæði hlutu Georgíuþingmaðurinn Nino Bujanadze, tyrkneski þingmaðurinn Nevzat Yaltcintas og sænski þingmaðurinn Tone Tingsgård. Voru þau öll kjörin til þriggja ára. Þá var ítalski þingmaðurinn Giovanni Kessler kjörinn í embætti varaforseta til eins árs. Þá var Jerry Grafstein endurkjörinn til tveggja ára í embætti gjaldkera.
    Auk funda í málefnanefndum og þingfundar voru haldnir sérlegir fundir til hliðar við þinghaldið. Efnt var til fundar um málefni Miðjarðarhafsins auk þess sem sérnefnd ÖSE- þingsins um gagnsæi og góð vinnubrögð og nefnd um málefni Abkasíu funduðu. Þá var efnt til málþings um ástand mála í Moldóvu og Hvíta-Rússlandi. Að venju var efnt til sérlegs kvennafundar ÖSE-þingsins í boði hollensku sendinefndarinnar. Þess má geta að íslenska sendinefndin var hin eina á ÖSE-þinginu í Rotterdam sem var aðeins skipuð konum.

c. Aukastjórnarnefndarfundur.
    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins kom saman til fundar á eynni Ródos 30. september í tengslum við ráðstefnu um málefni Miðjarðarhafsins og ráðstefnu um mansal sem haldnar voru á vegum gríska þingsins dagana 29. september–2. október. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Pétur H. Blöndal formaður, auk Andra Lútherssonar ritara. Meginefni ráðstefnanna var annars vegar samskipti ÖSE-þingsins við Miðjarðarhafsríkin en nokkuð hefur verið unnið að því að efla þau, ekki síst í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum. Hins vegar var rætt með heildrænum hætti um baráttuna gegn mansali í Evrópu og sérfræðingar frá ýmsum alþjóðastofnunum og frjálsum félagasamtökum fengnir til að leggja fram álit sitt á árangri af því starfi og benda á færar leiðir.
    Fundirnir hófust miðvikudaginn 29. október með ráðstefnu um mansal í Evrópu. Í fyrsta hluta ráðstefnunnar ávarpaði nýkjörinn forseti ÖSE-þingsins, Alcee Hastings, fundargesti og sagði í ræðu sinni að hundruð þúsunda manna á ÖSE-svæðinu yrðu fyrir beinum eða óbeinum áhrifum mansals um þessar mundir og að á örskömmum tíma hafi mansal og tengd glæpastarfsemi orðið að stóriðnaði. Skipaði mansal þriðja sætið hvað stærð og umfang skipulegrar glæpastarfsemi varðaði, á eftir eiturlyfjasmygli og vopnasmygli. Sagði Hastings að aðgerðaáætlun ÖSE væri skýr í þessum málum og væri þar sjónum aðallega beint að rótum vandans, fátækt og fáfræði. Í ræðu hans kom jafnframt fram að engar auðveldar lausnir væru til á þessum vanda en samt sem áður væri rík þörf á skjótum viðbrögðum. Væri það ekki síst í verkahring löggjafans að sporna við þessum vanda. Eftir ræðu forsetans tók Anna Benaki, forseti gríska þingsins, til máls og lagði á það áherslu að mansal og tengd glæpastarfsemi vægi að rótum og stöðugleika lýðræðislegra samfélaga. Menn yrðu að huga að versnandi lífskjörum víða um heim sem væru uppspretta og forsenda þess að fólk, oftast nær ungar stúlkur, væru hnepptar í ánauð og seldar hæstbjóðanda. Bæri Vesturlöndum siðferðisleg skylda til að gera sitt ýtrasta til að leysa úr þessum vanda og þyrftu ríki að leggjast á eitt að samhæfa aðgerðir sínar. Eftir ræðu Benaki tók formaður grísku landsdeildarinnar, Panos Kammenos, til máls. Í máli hans kom fram nokkur óánægja með að ríki og alþjóðastofnanir einblíndu um of á afleidd vandamál mansals en litu fram hjá rótum vandans og þeirra hryllilegu brota á almennum lýðréttindum sem fram færu. Sagði hann að full ástæða væri til að setja baráttuna gegn mansali á oddinn í alþjóðasamskiptum um þessar mundir. Þetta mál mætti ekki týnast í t.a.m. umræðunni um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi. Aðrir sem héldu framsögur á fundinum voru Aristóteles Pavlidis, aðstoðarinnanríkisráðherra Grikklands, sem lagði á það áherslu að mansal væri ein helsta öryggisógn við evrópsk ríki, og Helga Konrad, sérlegur fulltrúi ÖSE í málefnum mansals, sem ræddi um lagalegar og félagslegar hliðar mansals og með hvaða hætti ÖSE-ríkin gætu komið til móts við fórnarlömb þessarar glæpastarfsemi. Í öðrum hluta ráðstefnunnar var sjónum beint að viðbrögðum og áætlunum alþjóðastofnana til að stemma stigu við mansali. Fyrra ávarpið flutti Daniel Esdras, formaður sendinefndar Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar (IOM) í Grikklandi. Hann sagði frá þeim aðgerðum sem stofnunin hefði ráðist í til lausnar þessum vanda í suðausturhluta Evrópu. Þá tók til máls Marjan Wijers, formaður sérfræðinganefndar Evrópusambandsins um mansal. Hún rakti niðurstöður rannsókna nefndarinnar sem starfrækt hefur verið síðan í september 2003. Í framsögunni gagnrýndi hún nokkuð tvískinnung þann sem ríkti meðal margra aðildarríkja og lyti að stefnu ríkja í flóttamannamálum sem hefði áhrif á fórnarlömb mansals. Þá ítrekaði hún að menn yrðu ekki aðeins að ræða vanda þeirra sem skilgreindust sem bein fórnarlömb mansals heldur ekki síður aðstæður þeirra þjóðfélagshópa sem glæpahringir herjuðu á. Í þriðja hluta ráðstefnunnar var rætt um alþjóðlega stefnumótun á þessu sviði og voru tveir framsögumenn fengnir til að lýsa skoðunum sínum á því hvar úrbóta væri helst þörf. Annars vegar hlýddu fundargestir á áhugaverðan fyrirlestur Kristinu Kangaspunta, sérfræðings Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn mansali, sem dró upp dökka mynd af aðstæðum þess unga fólks sem yrði glæpahringum að bráð. Til hliðar við fyrirlesturinn sýndi Kangaspunta valin atriði úr kvikmyndinni Lilja 4ever. Hins vegar flutti Marcin Swiecicki, yfirmaður efnahags- og umhverfisdeildar ÖSE, fyrirlestur og beindi þar sjónum sínum að hagrænum þáttum mansals. Í fjórða og síðasta hluta ráðstefnunnar var fjallað um einstök landsvæði og áhrif mansals á þau. Fyrst ræddi Arta Dade, formaður albönsku landsdeildarinnar, um áhrif og útbreiðslu mansals í Albaníu, bæði sem upprunalands og, til skamms tíma, lands þar sem ungar stúlkur ættaðar í Austur-Evrópu og Kákasus væru geymdar um stund og svo sendar áfram til Vestur-Evrópu. Sagði hún að umfangsmikil áætlun albanskra stjórnvalda til að sporna gegn ólöglegum innflutningi fólks hefði borið árangur og síðan 2002 gæti landið ekki skilgreinst lengur sem „áningarstaður“ fyrir fórnarlömb mansals. Þá tók til máls Panayiotis Roumeliotis, prófessor í alþjóðasamskiptum og fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Grikklands, sem fjallaði um stefnu ESB í mansalsmálum í Suður-Evrópu. Næstur í röðinni var Bandaríkjamaðurinn Bonnie Miller, geðlæknir sem um árabil hefur starfrækt miðstöðvar fyrir fórnarlömb mansals á Balkanskaga. Miller sagði frá reynslu sinni og þeim vandamálum sem brýnast væri að leysa. Síðust á mælendaskrá var Rússinn Elena Mizulina, fyrrum formaður rússnesku landsdeildarinnar og núverandi fulltrúi Dúmunnar í stjórnlagadómstól Rússlands, sem ræddi um mansal og stöðu þeirra mála í Rússlandi.
    Stjórnarnefndin kom saman til fundar 30. september. Fyrstur tók til máls forseti þingsins, Alcee Hastings, sem ræddi um helstu áfanga í starfsemi þingsins frá ársfundinum í Edinborg. Þá ræddi hann um samskipti ÖSE í Vínarborg og þingsins og sagði frá skipan þriggja sérlegra fulltrúa forsetans í málefnum Ngarno-Karabak (Svíinn Göran Lennmarker), í jafnréttismálum (Svíinn Tone Tingsgård) og baráttunni gegn mansali (Bandaríkjamaðurinn Chris Smith). Þá sagði hann frá því að hollenski þingmaðurinn Nebahat Albayrak hefði verið skipaður formaður sérstakrar nefndar er fjallaði um fjármál ÖSE, og stofnað hafði verið til að frumkvæði Péturs H. Blöndals, formanns íslensku landsdeildarinnar. Því næst tóku til máls Panos Kammenos, formaður grísku landsdeildarinnar, kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri þingsins, sem ræddi um fjármál þess, og framkvæmdastjórinn Spencer Oliver. Í máli Olivers kom m.a. fram að aðgangur sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins hjá ÖSE í Vínarborg að fundum ráðherraráðsins og undirnefnda þess væri ekki eins mikill og æskilegt væri og sagði að úr því yrði að bæta sem fyrst. Það sama kom fram hjá Andreas Nothelle, fulltrúa ÖSE-þingsins í Vínarborg, sem ítrekaði mikilvægi þess að fulltrúi þingsins gæti setið alla fundi stofnunarinnar. Því næst tók til máls Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, en þetta var í annað sinn sem hann mætti til haustfundar ÖSE-þingsins gagngert til að kynna formönnum landsdeilda fjárhagsáætlun ÖSE á sama tíma og fastanefndirnar í Vínarborg fengu þær í hendur. Í ávarpi Kubis kom fram að talsverðar endurbætur hefðu farið fram á stöðlum og vinnuferli tengdu fjárhagsáætluninni og komið þannig til móts við kröfur um aukið gagnsæi. Þá bæri nú sjóðsstjórum að gera efnislega grein fyrir áætlunum sínum. Sagði Kubis að heildarfjárhagsáætlunin væri um 1% lægri en árið á undan og að á heildina litið kæmi í henni fram nokkur tilfærsla fjármagns frá vettvangsskrifstofum ÖSE til höfuðstöðvanna í Vínarborg og enn fremur frá suðausturhluta Evrópu til Kákasus-svæðisins og Mið-Asíuríkjanna. Þá ræddi framkvæmdastjórinn nokkuð um yfirlýstan hug formennskuríkis ÖSE til endurskipulagningar og kerfisbreytinga innan stofnunarinnar og sagðist vera að fylgja þeim markmiðum eftir með skipulegum hætti. Breytingar væru þannig ráðgerðar á eðli og hlutverki formennskuríkisins, framkvæmdastjórans, og stöðu þingsins innan ÖSE. Í umræðum sem á eftir fylgdu var mikið rætt um málefni fjárhagsáætlunar ÖSE og framkvæmdastjórinn inntur svara við spurningum um gagnsæi og skilvirkni stofnunarinnar. Var sérstaklega spurt um m.a. reiknilíkan útgjalda, möguleikann á utanaðkomandi endurskoðun ársreikninga og möguleika á því að svipta þau ríki sem ekki greiða árgjöld sín atkvæðisrétti sínum. Pétur H. Blöndal ávarpaði framkvæmdastjórann á fundinum og lýsti yfir áhyggjum sínum af því að fjárhagsáætlun ÖSE, sem næmi milljónum evra hvert ár, sætti ekki viðeigandi endurskoðun og eftirliti og væru framlög aðildarríkjanna því í raun fé án hirðis. Þetta vekti upp ýmsar siðferðislegar spurningar sem fulltrúum ÖSE-þingsins, þjóðkjörnum þingmönnum aðildarríkjanna 55 og málsvörum skattgreiðenda bæri að taka á. Rakti hann aðdraganda þess að þingið samþykkti stofnun sérstaks vinnuhóps um fjármál ÖSE. Þá sagði Pétur brýnt að einfalda fjárhagsáætlunina og vonaðist eftir farsælu samstarfi við höfuðstöðvarnar í Vínarborg í því samhengi. Sagðist hann vonast til að vinnuhópurinn skilaði af sér tillögum um betri nýtingu á fé skattborgaranna fyrir vetrarfundinn í Vín á næsta ári. Þá spurði hann Kubis sérstaklega um samanburð á eftirliti með fjárhagsáætlun ÖSE og Evrópuráðsins í Strassborg og einnig um framlög til einstakra verkefna sem ekki væru tilgreind í fjárhagsáætluninni. Í svörum Kubis kom fram að hann fagnaði stofnun vinnuhóps þingsins um fjárhagsáætlun ÖSE og tók undir með hve mikilvægt það væri að þingið gæfi álit sitt á skjalinu. Þá sagðist hann telja að stofnunin notfærði sér nýjustu og bestu fáanlegu aðferðir við áætlunarferlið og fjárhagsstjórn. Vildi framkvæmdastjórinn ekki kannast við að utanaðkomandi endurskoðun skorti og benti á að ÖSE hefði síðan 1999 greitt fyrir utanaðkomandi endurskoðunarþjónustu. Jafnframt því hefði hann mælst til þess að ráðherraráðið setti á stofn endurskoðunarnefnd sem rýndi í vinnubrögð innri endurskoðenda ÖSE. Að lokum sagði framkvæmdastjórinn að þau ríki sem ættu vangoldin gjöld hefðu enn fullan atkvæðisrétt og að engin breyting yrði gerð á því. Minnti hann á að í mörgum þessara ríkja hefðu skuldir safnast upp á sama tíma og stríðsátök hefðu verið.
    Lokadag haustfundanna, 1. október, var haldin ráðstefna um málefni Miðjarðarhafsins, líkt og á fyrri haustfundum. Í fyrstu lotu ráðstefnunnar var umræðuefnið öryggi og stöðugleiki við Miðjarðarhaf og voru framsögumenn Alcee Hastings, forseti ÖSE-þingsins, Yannis Valinakis, aðstoðarutanríkisráðherra Grikklands, Bruce George, fyrrum forseti ÖSE-þingsins, og Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE. Í annarri lotu var fjallað um hryðjuverkastarfsemi og harðlínuöfl við Miðjarðarhafið. Frummælendur voru: Panos Kammenos, formaður grísku landsdeildarinnar, Adrian Severin, fyrrum forseti ÖSE-þingsins, Athanassios Dokos, forstöðumaður grísku alþjóðamálastofnunarinnar, Mary Bossi, prófessor í alþjóðasamskiptum, og Sotiris Roussos, lektor í alþjóðasamskiptum. Í þriðju og síðustu lotu ráðstefnunnar var sjónum beint að viðskiptum og efnahagslífi í Miðjarðarhafsríkjum og voru frummælendur þrír: Jerry Grafstein, gjaldkeri ÖSE-þingsins, Janez Lenarcic, formaður tengslahóps ÖSE við Miðjarðarhafið og fastafulltrúi Slóveníu við ÖSE, og Charalambos Tsardanides, forstöðumaður grískrar stofnunar um alþjóðleg efnahagsmál. Eftir ávörp frummælenda voru frjálsar umræður.

Alþingi, 3. febr. 2005.



Pétur H. Blöndal,


form.


Dagný Jónsdóttir,


varaform.


Jóhanna Sigurðardóttir.





Fylgiskjal I.

Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er því ætlað að:
     1.      meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr ágreiningi,
     4.      stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að þau ríki sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglur ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Þá er gert ráð fyrir að málefnanefndir komi saman í Vínarborg ár hvert og hlýði þar á framlag embættismanna ÖSE. Auk þingfunda er miðað við að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál á afmörkuðu sviði. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (3. nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Samkvæmt þingsköpum ÖSE-þingsins skal þingið og framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skulu teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri samstöðureglu (consensus rule) sem gildir á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins lýtur svokallaðri consensus minus two reglu sem felur í sér að þrjú eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan.



Fylgiskjal II.

Skipan ÖSE-þingsins.


Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A. Bandaríkin 17 17
B. Rússland 15 15
C. Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland 13 52
D. Kanada og Spánn 10 20
E. Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland 8 48
F. Rúmenía 7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan 6 78
H. Búlgaría og Lúxemborg 5 10
I. Júgóslavía og Slóvakía 4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldóva, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía 3 54
K. Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó 2 8
Samtals 317

Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.