Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 904  —  605. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004, um breytingar á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta framangreinda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
    Innleiðing þessarar ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðunin var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu meðan leitað er samþykkis Alþingis til að staðfesta hana. Í athugasemdum hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins, sem og efni ákvörðunarinnar.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
    Tilskipunin er liður í aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá 11. maí 1999 um þróun fjármálaþjónustu og fjármagnsmarkaða innan Evrópusambandsins. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins og efla þannig frelsi í þjónustu og fjármagnsflutningum á sameiginlega markaðnum fyrir fjármálaþjónustu. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur í bandalagsrétti um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (e. financial collateral arrangements). Slíkar ráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu og framsal verðbréfa og reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Tilskipuninni er ætlað að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum fyrir skilvirkri nýtingu fjárhagslegra tryggingarráðstafana á opnum og sameiginlegum fjármálamarkaði í Evrópu. Slíkar hindranir felast einkum í óþarflega íþyngjandi kröfum í landsrétti aðildarríkjanna um form, efni og fullnustu slíkra samninga og í ósamræmi í landsrétti einstakra ríkja á þessu sviði.
    Aðild að samningum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem falla undir tilskipunina er bundin við tilteknar stofnanir á fjármálamarkaði, þ.m.t. opinbera lánasjóði, alþjóðlega fjárfestingar- og þróunarbanka, seðlabanka, fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög, verðbréfasjóði, milligönguaðila, uppgjörsaðila og greiðslujöfnunarstöðvar. Dæmi um viðskipti þessara stofnana sem fela í sér fjárhagslegar tryggingarráðstafanir eru lánveitingar seðlabanka til fjármálafyrirtækja sem tryggðar eru með veðréttindum, endurhverf verðbréfakaup gagnvart seðlabanka og uppgjörstryggingar fjármálafyrirtækja í greiðslu- og uppgjörskerfum. Auk framangreindra stofnana geta aðrir lögaðilar, t.d. hlutafélög, samvinnufélög og sameignarfélög, orðið aðilar að slíkum samningum ef mótaðilinn er stofnun sem talin er upp hér að framan. Aðildarríkin geta þó í löggjöf sinni takmarkað aðildarhæfið við framangreindar stofnanir.
    Mismunandi kröfur einstakra ríkja um form samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir hafa staðið í vegi fyrir skilvirkri nýtingu slíkra ráðstafana milli landa og þannig hindrað samþættingu fjármagnsmarkaða innan ESB. Í stað þess að kveða á um samræmingu formkrafna var farin sú leið í tilskipuninni að draga úr slíkum kröfum og treysta þannig gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkjanna á gildi slíkra samninga.
    Tilskipunin veitir aðilum að samningum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir heimild til víðtæks samningsfrelsis um aðferðir við fullnustu samningsskuldbindinga, sbr. 4. gr. tilskipunarinnar. Aðildarríkjunum er gert að viðurkenna rétt tryggingarhafa til að nýta veðsetta fjárhagslega tryggingu ef aðilar samningsins hafa á annað borð samið um slíkan rétt, sbr. 5. gr. tilskipunarinnar. Tilskipunin kveður á um að réttarreglur um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir skuli gilda bæði um veðsetningu og framsal beins eignarréttar, sbr. 6. gr. Í 7. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum gert að veita ákvæðum um heimild til skuldajöfnuðar til uppgjörs réttarvernd. Réttarverndin nær til efnda ákvæðanna þótt kveðinn hafi verið upp úrskurður um heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða gjaldþrotaskipta á búi samningsaðila. Í 8. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum gert að veita samningum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sérstaka réttarvernd í gjaldþrotarétti. Sérreglan kveður á um þær aðstæður þegar gerður er samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun, eða trygging samkvæmt slíkum samningi er látin í té, sama dag og kveðinn er upp úrskurður um heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða gjaldþrotaskipta á búi samningsaðila. Hafi ráðstöfunin verið gerð áður en úrskurðurinn var kveðinn upp skal hún halda gildi sínu og vera bindandi gagnvart þriðja manni. Hafi ráðstöfunin hins vegar verið gerð eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp skal hún halda gildi sínu og vera bindandi gagnvart þriðja manni hafi tryggingarhafi hvorki vitað né mátt vita um uppkvaðningu úrskurðarins. Í 9. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um þá reglu að um tiltekin atriði varðandi veðréttindi yfir rafbréfum skuli fara eftir lögum þess ríkis þar sem reikningur vegna þeirra er færður.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 106/2004

frá 9. júlí 2004

um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 154/2003 frá 7. nóvember 2003 ( 1 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir 3. lið (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001) í XII. viðauka við samninginn:

„4.         32002 L 0047: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (Stjtíð. EB L 168, 27.6.2002, bls. 43).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2002/47/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 10. júlí 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 9. júlí 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2002/47/EB
frá 6. júní 2002
um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/ EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf ( 5 ) var áfangi í því að koma upp traustum lagaramma fyrir greiðsluuppgjörskerfi og uppgjörskerfi fyrir verðbréf. Með framkvæmd þessarar tilskipunar hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess að takmarka kerfistengda áhættu, sem fylgir slíkum kerfum og stafar af ólíkum áhrifum margra lögsagnarumdæma, og ávinninginn af sameiginlegum reglum um tryggingu sem slík kerfi bjóða upp á.
2)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og ráðsins frá 11. maí 1999, sem ber heitið „Að setja ramma um starfsemi fjármálamarkaða: aðgerðaáætlun“, skuldbatt framkvæmdastjórnin sig, að höfðu samráði við sérfræðinga í markaðsmálum og innlend yfirvöld, til að vinna að frekari tillögum um lagasetningu um tryggingar og hvatti til meiri framþróunar á sviði trygginga, umfram tilskipun 98/26/EB.
3)          Setja skal Bandalagsreglur um tryggingar í formi verðbréfa og reiðufjár, bæði með tilliti til veðsamninga og samninga um framsal á eignarrétti, þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup. Þetta mun stuðla að samþættingu og kostnaðarhagkvæmni á fjármálamarkaðnum og auka stöðugleika fjármálakerfisins í Bandalaginu og efla þannig frelsi til að veita þjónustu og frjálsa fjármagnsflutninga í fjármálaþjónustu á innri markaðnum. Í þessari tilskipun er einkum fjallað um tvíhliða samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
4)          Þessi tilskipun er tekin upp í evrópskan lagaramma sem samanstendur einkum af fyrrgreindri tilskipun 98/26/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana ( 6 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB frá 19. mars 2001 um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga ( 7 ) og reglugerð ráðsins (EB) nr. 1346/2000 frá 29. maí 2000 um gjaldþrotaskipti ( 8 ). Þessi tilskipun er í samræmi við almenn atriði þessara fyrri löggerninga og er ekki í andstöðu við þau. Þessi tilskipun er í reynd til fyllingar þeim löggerningum sem fyrir eru með því að hún tekur til fleiri viðfangsefna og fjallar ítarlegar um einstök mál sem þegar er fjallað um í þeim löggerningum.
5)          Aðildarríkin skulu, til að bæta réttaröryggi að því er varðar samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, tryggja að tiltekin ákvæði gjaldþrotalaga taki ekki til slíkra samninga, einkum samninga sem gætu hindrað skilvirka innlausn fjárhagslegra trygginga eða vefengt lögmæti þeirra aðferða sem nú eru notaðar, s.s. skuldajöfnun til uppgjörs, framlagning viðbótartrygginga og staðgöngutrygginga.
6)          Í þessari tilskipun er ekki fjallað um réttindi sem einstaklingur kann að hafa með tilliti til eigna sem eru settar sem fjárhagsleg trygging og verða til með öðrum hætti en samkvæmt skilmálum samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun og með öðrum hætti en á grundvelli lagaákvæðis eða réttarreglu vegna upphafs eða framhalds slitameðferðar eða endurskipulagningarráðstafana, s.s. skaðabætur vegna yfirsjónar, skekkju eða vanhæfis.
7)          Meginreglan í tilskipun 98/26/EB, þar sem lögin, sem eiga við um rafrænt eignarskráð verðbréf (rafbréf) sem eru lögð fram sem trygging, eru lög lögsagnarumdæmisins þar sem viðkomandi skrá, reikningur eða miðlægt vörslukerfi er geymt, skal rýmkuð í því skyni að skapa réttaröryggi að því er varðar notkun slíkra verðbréfa sem haldið er vegna sambands yfir landamæri og eru notuð sem fjárhagsleg trygging innan gildissviðs þessarar tilskipunar.
8)          Öll aðildarríkin viðurkenna nú regluna lex rei sitae, en samkvæmt henni eru lög landsins þar sem fjárhagsleg trygging er staðsett þau lög sem fylgja skal þegar ákvarðað er hvort samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun hefur öðlast gildi og njóti þar með réttarverndar gagnvart þriðju aðilum. Vörslustaður rafbréfa, sem eru sett sem fjárhagsleg trygging og eru í vörslu eins eða fleiri milliliða, skal ákvarðaður án þess að það hafi áhrif á beitingu þessarar tilskipunar varðandi verðbréf sem eru í beinni vörslu aðila. Ef tryggingarhafinn hefur gert lögmætan og haldgóðan samning um tryggingarráðstöfun, í samræmi við gildandi lög þess lands þar sem viðkomandi reikningur er skráður, skal lögmæti hans gagnvart öðru tilkalli til eignarréttar eða annarri hlutdeild í sömu eign og fullnustuhæfi tryggingarinnar einungis ráðast af lögum þess lands, og er með þeim hætti komið í veg fyrir réttaróvissu vegna annarrar, ófyrirséðrar löggjafar.
9)          Í því skyni að takmarka stjórnsýsluálag á aðila, sem nota fjárhagslegar tryggingar innan gildissviðs þessarar tilskipunar, skal eina krafan, sem heimilt er að gera um gildi fjárhagslegra trygginga að landslögum, vera að tryggingin skuli afhent, framseld, vera í vörslu, skráð eða með öðrum hætti komið í hendur eða undir yfirráð tryggingarhafa eða aðila sem er í fyrirsvari fyrir hann, sem útilokar þó ekki tryggingaraðferðir sem veita tryggingarveitanda heimild til að skipta út tryggingu eða draga umframtryggingu til baka.
10)          Af sömu ástæðum skal gerð, lögmæti, gildi, fullnustuhæfi eða gildi samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun sem sönnunargagns eða framlagning fjárhagslegrar tryggingar á grundvelli slíks samnings ekki bundin formlegri framkvæmd, s.s. að samið verði skjal í sérstöku formi eða með sérstökum hætti, vistun fari fram hjá opinberri stofnun eða opinberum aðila eða skráning gerð í opinber gögn, auglýsing birt í dagblaði eða tímariti, í opinberri skrá eða útgáfu eða á einhvern annan hátt, tilkynning send til opinbers starfsmanns eða lögð fram gögn á tilteknu formi til vitnis um dagsetningu á framkvæmd skjals eða gernings, fjárhæð viðkomandi fjárskuldbindinga eða öðrum málum. Þessi tilskipun verður þó að mynda jafnvægi milli skilvirkni markaðarins og öryggis þeirra sem eru aðilar að samningnum og þriðju aðila þannig að komist verði m.a. hjá hættu á svikum. Þessu jafnvægi er náð ef gildissvið þessarar tilskipunar nær aðeins til þeirra samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir þar sem kveðið er á um einhvers konar eignarsviptingu, þ.e. framlagningu fjárhagslegrar tryggingar, og þegar unnt er að færa sönnur á framlagningu þeirra skriflega eða á varanlegum miðli og tryggja þannig að unnt sé að rekja trygginguna. Í þessari tilskipun skulu aðgerðir, sem kveðið er á um í lögum aðildarríkis að séu skilyrði fyrir því að framselja eða stofna tryggingarréttindi í fjármálagerningum, öðrum en rafbréfum, s.s. framsal handhafabréfa eða skráning í verðbréfaskrá þegar um er að ræða skráð verðbréf, ekki teljast formlegar framkvæmdir.
11)          Enn fremur skal þessi tilskipun einungis vernda samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem hægt er að færa sönnur á. Slík sönnunargögn geta verið veitt skriflega eða með öðrum hætti sem unnt er að framfylgja samkvæmt lögum sem gilda um samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun.
12)          Einfölduð notkun á fjárhagslegum tryggingum, sem næst með takmörkunum á stjórnsýsluálagi, eykur skilvirkni í starfsemi Seðlabanka Evrópu og seðlabanka aðildarríkja, sem taka þátt í Efnahags- og myntbandalaginu, yfir landamæri, sem er nauðsynleg vegna framkvæmdar sameiginlegrar stefnu í peningamálum. Jafnframt leiðir sú takmarkaða vernd, sem samningar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir njóta gegn tilteknum ákvæðum gjaldþrotalaga, til frekari stuðnings við sameiginlega peningamálastefnu í víðari skilningi, þar sem þátttakendur í peningamarkaðnum jafna, sín á milli, heildarfjárhæð lausafjár á markaðnum með viðskiptum yfir landamæri gegn tryggingu.
13)          Með þessari tilskipun er leitast við að vernda lögmæti samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem byggjast á framsali á fullum eignarrétti yfir fjárhagslegu tryggingunni, t.d. með því að útiloka að litið sé á slíka samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir (þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup) sem veðsamninga.
14)          Fullnustuhæfi tvíhliða skuldajöfnunar til uppgjörs skal vera verndað, ekki einungis sem fullnustuleið gagnvart samningum um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu, þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup, heldur, í almennari skilningi, þegar skuldajöfnun til uppgjörs er hluti af samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun. Traustar áhættustjórnunaraðferðir, sem eru almennt notaðar á fjármálamarkaði, skulu njóta verndar með því að þátttakendum sé gert kleift að stjórna og draga úr lánaáhættu, sem stafar af alls kyns fjármálaviðskiptum á jöfnuðum grunni, þegar lánaáhættan er reiknuð með því að sameina áætlað núvirði áhættu vegna allra útistandandi viðskipta við mótaðila, jafna út gagnkvæma liði til að fá fram eina heildarfjárhæð sem er borin saman við núvirði tryggingarinnar.
15)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á takmarkanir eða kröfur í landslögum um það hvenær fram skuli fara skuldajöfnun eða nettun í tengslum við kröfur og skyldur, t.d. um að kröfurnar og skyldurnar skuli vera gagnkvæmar eða að þeim hafi verið lokið áður en tryggingarhafinn vissi eða hefði mátt vita að slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir séu hafnar hjá tryggingarveitanda (eða um bindandi lagagerninga sem leiða til þess að slíks).
16)          Þær traustu markaðsvenjur sem eftirlitsyfirvöld styðja, en samkvæmt þeim nota þátttakendur í fjármálamarkaðnum samninga um fjárhagslegar ráðstafanir um viðbótartryggingar til að stjórna og takmarka lánaáhættu sína hver gagnvart öðrum og reikna gildandi markaðsvirði lánaáhættunnar og verðgildi fjárhagslegu tryggingarinnar og fara fram á, til samræmis við það, viðbótartryggingu eða skil á umframfjárhæð fjárhagslegrar tryggingar, skulu vera verndaðar gegn sérreglum um hlutlægar ógildingarástæður. Hið sama á við um möguleikann á að skipta út eignum, sem eru settar sem fjárhagsleg trygging, með öðrum eignum sem hafa sama verðgildi. Tilgangurinn er einungis að tryggja að ekki sé hægt að vefengja framlagningu fjárhagslegrar viðbótar- eða staðgöngutryggingar einvörðungu á þeim grundvelli að viðkomandi fjárskuldbindingar hafi verið fyrir hendi áður en fjárhagslega tryggingin var lögð fram eða að fjárhagslega tryggingin hafi verið lögð fram á tilteknu tímabili. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að unnt sé, samkvæmt landslögum, að vefengja samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun eða framlagningu fjárhagslegrar tryggingar í tengslum við upphaflega tryggingu, viðbótartryggingu eða staðgöngutryggingu, t.d. þegar tilgangurinn með framlagningu hefur verið að rýra stöðu annarra lánardrottna (þetta tekur m.a. til málaferla vegna svika eða svipaðra sérreglna um hlutlægar ógildingarástæður sem kunna að gilda á tilteknu tímabili).
17)          Í þessari tilskipun er kveðið á um hraðar og óformbundnar fullnustuleiðir til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika og takmarka smitáhrif þegar um er að ræða vanskil aðila að samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun. Með tilskipuninni er þó náð jafnvægi milli síðastnefndu markmiðanna og verndunar tryggingarveitanda og þriðju aðila en í henni er ótvírætt staðfest að aðildarríkin geti áfram haft í landslögum eftirlit dómstóla með innlausn eða mati á fjárhagslegri tryggingu og útreikningi á viðkomandi fjárskuldbindingum eftir á ( a posteriori), eða sett það í lög síðar. Með slíku eftirliti skal dómsmálayfirvöldum gert kleift að sannreyna að innlausn eða mat hafi farið fram samkvæmt sanngjörnum viðskiptaháttum.
18)          Unnt skal vera að leggja fram tryggingu í reiðufé bæði vegna samninga um framsal á eignarrétti og samninga um veðsetningu sem eru verndaðir með samþykki á nettun eða veðsetningu tryggingar í reiðufé. Með reiðufé er einungis átt við fé sem er sýnt sem inneign á reikningi eða sambærilegar kröfur um endurgreiðslu á fé (s.s. innlán á peningamarkað), og eru peningaseðlar þannig ótvírætt útilokaðir.
19)          Í þessari tilskipun er kveðið á um notkunarrétt þegar um er að ræða samninga um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu sem auka lausafé á fjármálamarkaðnum með endurnotkun „veðsettra“ verðbréfa. Þessi notkunarréttur skal þó ekki hafa áhrif á ákvæði í landslögum um aðgreiningu á eignum og ósanngjarna meðferð á lánardrottnum.
20)          Þessi tilskipun er með fyrirvara um beitingu og áhrif samningsskilmála fjármálagerninga, sem eru settir sem fjárhagsleg trygging, s.s. réttindi og skyldur og önnur skilyrði sem er að finna í útgáfuskilmálunum og öll önnur réttindi og skyldur og önnur skilyrði sem gilda milli útgefanda og handhafa slíkra gerninga.
21)          Þessi gerð er í samræmi við grundvallarréttindin og fylgir þeim meginreglum sem einkum er mælt fyrir um í sáttmála Evrópusambandsins um þau.
22)          Þar sem aðildarríkin geta ekki með fullnægjandi hætti náð því markmiði sem fyrirhuguð aðgerð felur í sér, þ.e. að setja lágmarksreglur um notkun fjárhagslegra trygginga, og auðveldara er að ná markmiðinu á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðin er umfangsmikil og hefur víðtæk áhrif, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og segir í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Inntak og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun er mælt fyrir um Bandalagsreglur um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, sem fullnægja kröfunum í 2. og 5. mgr., og um fjárhagslegar tryggingar í samræmi við skilyrðin í 4. og 5. mgr.
2.     Tryggingarhafinn og tryggingarveitandinn verða, hvor um sig, að falla í einn af eftirfarandi flokkum:
a)    opinbert yfirvald (að undanskildum fyrirtækjum sem hið opinbera er í ábyrgð fyrir nema þau falli undir b- til e-lið), þ.m.t.:
    i)    opinberir aðilar í aðildarríkjum sem bera ábyrgð á eða hafa afskipti af stjórnun á skuldum hins opinbera og
    ii)    opinberir aðilar í aðildarríkjum sem hafa heimild til að færa reikningshald fyrir viðskiptavini,
b)    seðlabanki, Seðlabanki Evrópu, Alþjóðagreiðslubankinn, fjölþjóðlegur þróunarbanki, eins og hann er skilgreindur í 19. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Fjárfestingabanki Evrópu,
c)    fjármálastofnun sem sætir varfærniseftirliti, þar á meðal:
    i)    lánastofnun, eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB, þ.m.t. þær stofnanir sem eru tilgreindar í 3. mgr. 2. gr. þeirrar tilskipunar,
    ii)    fjárfestingarfyrirtæki, eins og það er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 2 ),
    iii)    fjármálastofnun, eins og hún er skilgreind í 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12/EB,
    iv)    vátryggingafélag, eins og það er skilgreint í a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar, ( 3 ) og líftryggingafélag eins og það er skilgreint í a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/96/EBE frá 10. nóvember 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar á sviði líftrygginga ( 1 ),
    v)    fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eins og það er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum ( 2 ),
    vi)    rekstrarfélag eins og það er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. a í tilskipun 85/611/EBE,
d)    milligönguaðili, uppgjörsaðili eða greiðslujöfnunarstöð, eins og skilgreint er í sömu röð í c-, d- og e-lið 2. gr. tilskipunar 98/26/EB, þ.m.t. svipaðar stofnanir, sem eru eftirlitsskyldar samkvæmt landslögum, sem stunda viðskipti á mörkuðum með framvirka, staðlaða samninga, valréttarbréf og afleiður, að því marki sem er ekki fjallað um í þeirri tilskipun, og lögaðili, sem kemur fram sem vörsluaðili eða í umboði eins eða fleiri aðila, sem eru t.d. handhafar skuldabréfa eða verðbréfa í öðru formi til tryggingar skuldum, eða stofnunar eins og skilgreint er í a- til d-lið,
e)    lögaðili, þ.m.t. óskráð fyrirtæki og sameignarfélög, að því tilskildu að hinn aðilinn sé stofnun eins og skilgreint er í a- til d-lið.
3.     Aðildarríki geta ákveðið að samningar um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir séu ekki innan gildissviðs tilskipunarinnar ef einn af aðilunum er lögaðili sem um getur í e-lið 2. mgr.
Ef aðildarríkin notfæra sér þennan möguleika skulu þau tilkynna það framkvæmdastjórninni sem skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um það.
4.     a)    Fjárhagslega tryggingin, sem á að veita, verður að vera í reiðufé eða fjármálagerningar.
    b)    Aðildarríki geta ákveðið að fjárhagsleg trygging í eigin hlutabréfum tryggingarveitandans, hlutabréfum í eignatengdum fyrirtækjum í skilningi sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 3 ) og hlutabréfum í fyrirtækjum sem miðast eingöngu við eign á framleiðslutækjum, sem hafa úrslitaþýðingu fyrir fyrirtæki tryggingarveitanda, eða eign fasteigna, sé ekki innan gildissviðs þessarar tilskipunar.
5.     Þessi tilskipun gildir um fjárhagslega tryggingu þegar hún hefur verið veitt og ef unnt er að færa sönnur á hana skriflega.
Í sönnunarfærslu fyrir fjárhagslegri tryggingu skal vera unnt að auðkenna fjárhagslegu trygginguna sem hún tekur til. Í því skyni er nægilegt að færa sönnur á að trygging í formi rafbréfa hafi verið eignfærð á viðkomandi reikning eða sé innstæða á honum og að trygging í formi reiðufjár hafi verið eignfærð á tilgreindan reikning eða sé innistæða á honum.
Þessi tilskipun gildir um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir ef færðar eru sönnur á þá með skriflegum eða með öðrum hætti sem er sambærilegur í lagalegu tilliti.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun“: samningur um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu eða samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu hvort sem hann fellur undir rammasamning eða almenna skilmála,
b)    „samningur um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu“: samningur, þ.m.t. endurhverf verðbréfakaup, þar sem tryggingarveitandi framselur fullan eignarrétt yfir fjárhagslegri tryggingu til tryggingarhafa til að tryggja, eða ná fram með öðrum hætti, efndum á viðkomandi fjárskuldbindingum,
c)    „samningur um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu“: samningur þar sem tryggingarveitandi leggur fram fjárhagslega tryggingu sem veð í þágu, eða á nafn, tryggingarhafans, og eignarréttur yfir fjárhagslegu tryggingunni helst að fullu hjá tryggingarveitanda þegar veðréttur er stofnaður,
d)    „reiðufé“: fé sem er eignfært á reikning í hvaða gjaldmiðli sem er eða svipaðar kröfur um endurgreiðslu fjár, s.s. innlán á peningamarkaði,
e)    „fjármálagerningar“: hlutabréf í félögum og önnur verðbréf, sem jafngilda hlutabréfum í félögum, og skuldabréf og skuldagerningar í öðru formi, ef unnt er að versla með þau á fjármagnsmarkaði, og önnur verðbréf, sem venja er að höndla með og veita rétt til kaupa á slíkum hlutabréfum, skuldabréfum eða öðrum verðbréfum, með áskrift, kaupum eða skiptum, eða bréf sem eru gerð upp í reiðufé (að undanskildum greiðsluskjölum), þ.m.t. einingar í fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, peningamarkaðsgerningar og kröfur í tengslum við eða réttindi í eða viðkomandi einhverju af framangreindu,
f)    „viðkomandi fjárskuldbindingar“: skuldbindingar sem eru tryggðar með samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun og veita rétt til greiðslu í reiðufé og/eða afhendingar á fjármálagerningum.
    Viðkomandi fjárskuldbindingar geta verið eða falið í sér:
    i)    núverandi eða í framtíð, raunverulegar eða skilyrtar eða væntanlegar skuldbindingar (þ.m.t. slíkar skuldbindingar sem rekja má til rammasamnings eða svipaðs samnings),
    ii)    skuldbindingar sem annar en tryggingarhafinn hefur gagnvart tryggingarveitanda eða
    iii)    skuldbindingar í tilteknum flokki eða af þeim toga sem verða til öðru hverju,
g)    „trygging í formi rafbréfa“: fjárhagsleg trygging samkvæmt samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun og er eignarréttur yfir henni sannreyndur með færslum í skrá eða á reikningi sem er færður af eða fyrir millilið,
h)    „viðkomandi reikningur“: í tengslum við tryggingu í formi rafbréfa, sem fellur undir samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun, skráin eða reikningurinn – sem tryggingarhafinn getur fært – sem færslurnar eru færðar í, en trygging í formi rafbréfa er látin tryggingarhafanum í té samkvæmt henni eða honum,
i)    „sambærileg trygging“:
    i)    í tengslum við reiðufé: greiðsla sömu fjárhæðar og í sama gjaldmiðli,
    ii)    í tengslum við fjármálagerninga: fjármálagerningar sama útgefanda eða skuldara, sem eru hluti af sömu útgáfu eða flokki, á sama nafnvirði og í sama gjaldmiðli og með sömu lýsingu, eða aðrar eignir ef í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun er kveðið á um framsal þessara annarra eigna í kjölfar atburðar sem tengist eða hefur áhrif á fjármálagerninga sem lagðir eru fram sem fjárhagsleg trygging,
j)    „slitameðferð“: sameiginleg málsmeðferð sem felur í sér innlausn eigna og skiptingu afrakstursins milli lánardrottna, hluthafa eða félaga, eftir því sem við á, og felur í sér hvers konar íhlutun stjórnvalda eða dómsmálayfirvalda, þ.m.t. þau tilvik þegar sameiginlegri málsmeðferð lýkur með nauðasamningi eða annarri hliðstæðri ráðstöfun, hvort sem hún er vegna gjaldþrots, að eigin frumkvæði eða lögboðin,
k)    „endurskipulagningarráðstafanir“: ráðstafanir sem fela í sér hvers kyns íhlutun af hálfu stjórnvalda eða dómsmálayfirvalda í þeim tilgangi að viðhalda fjárhagsstöðu eða koma henni í eðlilegt horf og hafa áhrif á fyrirliggjandi réttindi þriðju aðila, þ.m.t., en þó ekki eingöngu, ráðstafanir sem fela í sér greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum,
l)    „grundvöllur fullnustu“: vanskil eða sambærilegur atburður, sem aðilar hafa komið sér saman um að verði til þess, samkvæmt skilmálum í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun eða vegna beitingar lagaákvæðis, að tryggingarhafinn eigi rétt á að innleysa eða taka til eignar fjárhagslega tryggingu eða að ákvæði um skuldajöfnun til uppgjörs taki gildi,
m)    „notkunarréttur“: sá réttur sem tryggingarhafi hefur til að nota og ráðstafa fjárhagslegri tryggingu, sem er lögð fram samkvæmt samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu, sem eigandi hennar, í samræmi við skilmála samningsins um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu,
n)    „ákvæði um skuldajöfnun til uppgjörs“: ákvæði í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun eða í samningi sem fjárhagsleg tryggingarráðstöfun er hluti af eða, ef ekki er um slíkt ákvæði að ræða, lagaákvæði sem felur í sér, þegar grundvöllur er fyrir fullnustu, með skuldajöfnun, nettun eða öðrum hætti:
    i)    að skuldbindingum samningsaðila er flýtt þannig að þær falla þegar í stað í gjalddaga og eru tilgreindar sem skuldbinding um að greiða fjárhæð sem svarar til áætlaðs núvirðis skuldbindinganna eða er sagt upp og í stað þeirra kemur skuldbinding um að greiða slíka fjárhæð og/eða
    ii)    að reiknað er út hvað hvorum aðila um sig ber að greiða vegna slíkra skuldbindinga og skal nettófjárhæð, sem svarar til mismunarins, falla á þann aðila sem skuldar meira.
2.     Þegar vísað er til þess að fjárhagsleg trygging sé „lögð fram“ í þessari tilskipun eða til „framlagningar“ fjárhagslegrar tryggingar er átt við að fjárhagsleg trygging sé afhent, framseld, í vörslu, skráð eða að henni sé með öðrum hætti komið í hendur eða undir yfirráð tryggingarhafa eða aðila sem er í fyrirsvari fyrir hann. Hvers kyns réttur tryggingarveitanda til að skipta út fjárhagslegri tryggingu eða draga umframtryggingu til baka hefur ekki áhrif á fjárhagslega tryggingu sem tryggingarhafi hefur fengið samkvæmt þessari tilskipun.
3.     Orðið „skriflegur“ í þessari tilskipun felur í sér skráningu á rafræna miðla og hvers kyns aðra varanlega miðla.

3. gr.
Formkröfur

1.     Aðildarríki skulu ekki krefjast þess að gerð, lögmæti, gildi, fullnustuhæfi eða gildi samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun sem sönnunargagns eða framlagning fjárhagslegar tryggingar, samkvæmt samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun, sé háð skilyrðum um formlega framkvæmd.
2.     Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á beitingu þessarar tilskipunar að því er varðar fjárhagslega tryggingu fyrr en tryggingin hefur verið lögð fram og unnt er að sýna fram á það skriflega og þegar unnt er að sýna fram á samning um fjárhagslega tryggingarráðstöfun skriflega eða með öðrum hætti sem er sambærilegur í lagalegu tilliti.

4. gr.
Fullnusta samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að þegar grundvöllur er fyrir fullnustu geti tryggingarhafi innleyst fjárhagslegar tryggingar sem eru lagðar fram samkvæmt og með fyrirvara um samþykkta skilmála í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu á eftirfarandi hátt:
a)    fjármálagerninga með sölu eða töku þeirra til eignar og með því að jafna verðgildi þeirra á móti, eða til að standa skil á, viðkomandi fjárskuldbindingum,
b)    reiðufé með því að jafna fjárhæðina á móti, eða til að standa skil á, viðkomandi fjárskuldbindingum.
2.     Aðeins er unnt að taka fjárhagslega tryggingu til eignar ef:
a)    aðilar hafa komið sér saman um það í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu og
b)    aðilar hafa náð samkomulagi um mat á fjármálagerningnum í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu.
3.     Aðildarríki, sem hafa ekki heimilað töku fjárhagslegrar tryggingar til eignar 27. júní 2002, eru ekki skuldbundin til að viðurkenna hana.
Ef aðildarríkin notfæra sér þennan möguleika skulu þau tilkynna það framkvæmdastjórninni sem síðan skal tilkynna hinum aðildarríkjunum um það.
4.     Þegar fjárhagsleg trygging er innleyst með þeim aðferðum sem um getur í 1. mgr. skal, með hliðsjón af þeim skilmálum sem eru tilgreindir í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu, ekki gera kröfu um:
a)    að hafa þurfi fyrirvara á fyrirætlun um innlausn,
b)    að samþykkja þurfi skilmála innlausnarinnar fyrir dómi, opinberum starfsmanni eða öðrum aðila,
c)    að innlausnin fari fram með opinberu uppboði eða einhverjum öðrum tilskildum hætti eða
d)    að frekari frestur þurfi að hafa liðið.
5.     Aðildarríki skulu tryggja að samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun geti tekið gildi í samræmi við skilmála hans þrátt fyrir að slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir tryggingarveitanda eða tryggingarhafa hefjist eða sé fram haldið.
6.     Þessi grein og 5., 6. og 7. gr. eru með fyrirvara um kröfur samkvæmt landslögum þess efnis að innlausnin eða matið á fjárhagslegri tryggingu og útreikningur á viðkomandi fjárskuldbindingum verði að fara fram í samræmi við góða viðskiptahætti.

5. gr.
Réttur til að nota fjárhagslegar tryggingar samkvæmt samningum um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að tryggingarhafinn hafi afnotarétt af fjárhagslegri tryggingu sem er lögð fram samkvæmt samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu ef og að því marki sem ákvæði eru um það í samningnum.
2.     Ef tryggingarhafi nýtir sér notkunarrétt skuldbindur hann sig þar með til að framselja sambærilega tryggingu í stað upphaflegu fjárhagslegu tryggingarinnar eigi síðar en á gjalddaga viðkomandi fjárskuldbindingar sem er tryggð með samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu.
Að öðrum kosti skal tryggingarhafinn á gjalddaga viðkomandi fjárskuldbindinga annaðhvort framselja sambærilega tryggingu eða, ef og að því marki sem kveðið er á um í samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu, jafna verðgildi sambærilegu tryggingarinnar á móti viðkomandi fjárskuldbindingu eða standa skil á henni.
3.     Sambærilega tryggingin, sem er framseld til að standa skil á skuldbindingu eins og lýst er í fyrstu undirgrein 2. mgr., skal falla undir ákvæði sama samnings um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu og upphaflega fjárhagslega tryggingin og skal farið með hana eins og hún hafi verið lögð fram samkvæmt samningnum um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu á sama tíma og upphaflega fjárhagslega tryggingin var fyrst lögð fram.
4.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að nýting tryggingarhafa á fjárhagslegri tryggingu samkvæmt þessari grein ógildi ekki eða geri ófullnustuhæfan rétt hans samkvæmt samningi um veðsetningu á fjárhagslegri tryggingu í tengslum við fjárhagslegu trygginguna sem tryggingarhafi framselur til að standa skil á skuldbindingu, eins og lýst er í fyrstu undirgrein 2. mgr.
5.     Ef grundvöllur er fyrir fullnustu áður en skuldbinding, sem lýst er í fyrstu undirgrein 2. mgr., hefur verið efnd getur skuldbindingin fallið undir ákvæði um skuldajöfnun til uppgjörs.

6. gr.
Viðurkenning á samningi um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að samningur um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu geti tekið gildi í samræmi við skilmála hans.
2.     Ef grundvöllur er fyrir fullnustu áður en skuldbinding tryggingarhafa um að framselja sambærilega tryggingu samkvæmt samningi um framsal eignarréttar yfir fjárhagslegri tryggingu hefur verið efnd getur skuldbindingin heyrt undir ákvæði um skuldajöfnun til uppgjörs.

7. gr.
Viðurkenning á ákvæðum um skuldajöfnun til uppgjörs

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að ákvæði um skuldajöfnun til uppgjörs geti tekið gildi í samræmi við skilmála þess:
a)    þrátt fyrir að slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir, að því er varðar tryggingarveitanda og/eða tryggingarhafa, séu hafnar eða sé fram haldið og/eða
b)    þrátt fyrir meint framsal, réttarfarslegt löghald eða annað löghald eða aðra lúkningu slíkra réttinda eða að því er varðar slík réttindi.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að beiting ákvæðis um skuldajöfnun til uppgjörs heyri ekki undir neina af þeim kröfum sem um getur í 4. mgr. 4. gr., nema aðilar semji um annað.

8. gr.
Tilvik þegar tiltekin gjaldþrotaákvæði gilda ekki

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að ekki sé unnt að lýsa því yfir að samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun, sem og framlagning fjárhagslegrar tryggingar samkvæmt slíkum samningi, skuli ógildur eða ómerkur eða hnekkt af þeirri ástæðu einni að hann hafi orðið til eða að fjárhagsleg trygging lögð fram:
a)    sama dag og slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir hófust eða var fram haldið, en áður en fyrirmæli voru gefin eða úrskurður kveðinn upp um það upphaf eða
b)    innan tiltekins tíma fyrir upphaf slíkrar meðferðar eða ráðstafana og skilgreind með vísun til þess eða til þeirra fyrirmæla eða úrskurðar sem er kveðinn upp eða til annarrar aðgerðar eða annars atburðar meðan á slíkri meðferð eða ráðstöfunum stendur.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að fyrirliggjandi samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun eða viðkomandi fjárskuldbinding eða fjárhagsleg trygging, sem hefur verið lögð fram sama dag og en þó eftir að slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir hófust, sé fullnustuhæf samkvæmt lögum og bindandi gagnvart þriðja aðila ef tryggingarhafi getur sannað að honum hafi ekki verið kunnugt um, né mátt vera kunnugt um, að slík meðferð eða ráðstafanir væru hafnar.
3.     Þegar í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun felst:
a)    skuldbinding um að leggja fram fjárhagslega tryggingu eða fjárhagslega viðbótartryggingu til að taka mið af breytingum á verðgildi fjárhagslegu tryggingarinnar eða fjárhæð viðkomandi fjárskuldbindinga eða
b)    réttur til að draga til baka fjárhagslega tryggingu með því að leggja fram, með staðgöngu eða skiptum, fjárhagslega tryggingu sem hefur nánast sama verðgildi,
skulu aðildarríki sjá til þess að ekki sé litið svo á að með því að leggja fram fjárhagslega tryggingu, fjárhagslega viðbótartryggingu eða fjárhagslega staðgöngu- eða skiptitryggingu, samkvæmt slíkri skuldbindingu eða rétti, að hún sé ógild eða numin úr gildi af þeirri ástæðu einni að:
i)    slík framlagning hafi farið fram á sama degi og slitameðferð eða endurskipulagningarráðstafanir hófust, en áður en fyrirmælin voru gefin eða úrskurðurinn kveðinn upp um það upphaf, eða tilteknum tíma fyrir og hún skilgreind með vísun til upphafs slitameðferðar eða endurskipulagningarráðstafana eða til hvers kyns fyrirmæla eða úrskurðar sem er kveðinn upp eða til annarrar aðgerðar eða annars atburðar meðan á slíkri meðferð eða ráðstöfunum stendur og/eða
ii)    stofnað hafi verið til viðkomandi fjárskuldbindingar fyrir þann dag sem fjárhagslega tryggingin, fjárhagslega viðbótartryggingin eða fjárhagslega staðgöngu- eða skiptitryggingin var lögð fram.
4.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á almenn ákvæði innlendra gjaldþrotalaga að því er varðar ógildingu viðskipta sem eru gerð á tilteknu tímabili sem um getur í b-lið 1. mgr. og i-lið 3. mgr., samanber þó 1., 2. og 3. mgr.

9. gr.
Lagaskil

1.     Öll álitamál, sem snerta einhver þau mál sem eru tilgreind í 2. mgr. og koma upp í tengslum við tryggingar í formi rafbréfa, skulu falla undir lög þess lands þar sem viðkomandi reikningur er geymdur. Vísun í lög lands telst vera vísun í landslög, án tillits til þeirra reglna sem kveða á um að vísað skuli til laga annars lands þegar skorið er úr um viðkomandi álitamál.
2.     Málin, sem um getur í 1. mgr., eru:
a)    lagalegt eðli og eignarréttarleg áhrif tryggingar í formi rafbréfa,
b)    kröfurnar um gildi samnings um fjárhagslega tryggingarráðstöfun í tengslum við rafbréf og framlagning tryggingar í formi rafbréfa samkvæmt slíkum samningi og almennar kröfur um hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til að slíkur samningur og framlagning tryggingar gildi gagnvart þriðja aðila,
c)    hvort eignarréttur aðila eða tilkall til slíkrar tryggingar í formi rafbréfa er léttvægara eða víki fyrir eignarrétti eða tilkalli annars aðila eða hvort kaup hafi farið fram í góðri trú,
d)    þær aðgerðir sem krafist er til að innleysa tryggingu í formi rafbréfa í kjölfar þess að grundvöllur myndast fyrir fullnustu.

10. gr.
Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar

Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 27. desember 2006, einkum um beitingu 3. mgr. 1. gr., 3. mgr. 4. gr. og 5. gr. ásamt meðfylgjandi tillögum um endurskoðun tilskipunarinnar eftir því sem við á.

11. gr.
Framkvæmd.

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. desember 2003. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

12. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

13. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 6. júní 2002.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX A. M. BIRULÉS Y BERTRÁN
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 41, 12.2.2004, bls. 47 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 7, 12.2.2004, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 168, 27.6.2002, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 180 E, 26.6.2001, bls. 312.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 196, 12.7.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 48, 21.2.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 13. desember 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 5. mars 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 15. maí 2002.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 45.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 125, 5.5.2001, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 110, 20.4.2001, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 160, 30.6.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 360, 9.12.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB (Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 35).
Neðanmálsgrein: 17
(3)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).