Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 946  —  434. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/2004 og 103/2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Þóri Skarphéðinsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/2004 frá 23. apríl 2004 og 103/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik), reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2273/2003 frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar undanþágur fyrir endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga, tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar skilgreiningu og birtingu á innherjaupplýsingum og skilgreiningu á markaðsmisnotkun og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/125/EB frá 22. desember 2003 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar óhlutdræga kynningu ráðlegginga um fjárfestingu og birtingu upplýsinga um hagsmunaárekstra.
    Tilskipunin miðar að því að samræma reglur er lúta að innri markaði á sviði fjármála í Evrópu og styrkja tiltrú fjárfesta á verðbréfamörkuðum, m.a. með því að mæla fyrir um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Ítarlegri reglur munu tryggja meira samræmi milli markaða og umgjörðin á íslenskum fjármálamarkaði verður styrkt til muna og m.a. er gert ráð fyrir að heimildir eftirlitsaðila til að birta upplýsingar verði rýmkaðar. Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur viðskiptaráðherra lagt fram lagafrumvarp þess efnis á Alþingi (þskj. 767, 503. mál) og er það til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. mars 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Birgir Ármannsson.



Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.