Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 659. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1003 —  659. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 61 26. maí 1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins.

2. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    II. kafli laganna fellur brott.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ákvæði II. kafla laganna skulu gilda áfram um tryggingar og ábyrgðir sem tryggingardeild útflutningslána hefur veitt á grundvelli ákvæða kaflans fyrir gildistöku laga þessara.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins þess efnis að Nýsköpunarsjóði verði ekki lengur skylt að starfrækja tryggingardeild útflutningslána og að ríkissjóður skuli ekki bera ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, en skv. 12. gr. laganna ábyrgist ríkissjóður skuldbindingar tryggingardeildar útflutningslána. Þó munu ákvæði frumvarpsins, ef það verður að lögum, ekki eiga við um tryggingar eða ábyrgðir sem veittar hafa verið af tryggingardeild útflutningslána í samræmi við II. kafla núgildandi laga.
    Breytingarnar eru lagðar til í ljósi þess að rekstur tryggingardeildarinnar hefur ekki gengið sem skyldi og afkoma deildarinnar hefur verið slæm. Þá hafa miklar ábyrgðir fallið á tryggingardeild útflutningslána á undanförnum missirum sem ríkissjóður hefur þurft að greiða. Því er ekki talið réttlætanlegt að viðhalda rekstri tryggingardeildarinnar.

II. Um tryggingardeild útflutningslána.
    Tryggingardeild útflutningslána var komið á fót með lögum nr. 60/1970, um tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Hlutverk tryggingardeildar útflutningslána skyldi annars vegar vera að tryggja lán er lánastofnanir veittu útflytjendum vöru eða þjónustu til þess að þeir gætu fjármagnað útflutningslán til handa erlendum kaupendum og hins vegar að tryggja kröfu útflytjenda á hendur erlendum kaupendum.
    Ýmsar ástæður urðu þess valdandi að umrætt fyrirkomulag reyndist ekki sem skyldi. Vegna þess að þörfin fyrir tryggingarþjónustu við útflutning var brýnust á sviði iðnaðar var talið eðlilegt að Iðnlánasjóður starfrækti tryggingardeild útflutningslána þar sem talið var að sjóðurinn hefði fulla burði til þess. Með lögum nr. 52/1986, um breyting á lögum nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, var því tryggingardeild útflutningslána komið á fót í svipaðri mynd og hún er í dag. Lög nr. 68/1967, um Iðnlánasjóð, voru síðan gefin út að nýju sem lög nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Í 2. mgr. 14. gr. þeirra laga var kveðið á um hlutverk tryggingardeildarinnar með eftirfarandi hætti:
     1.      Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum, sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
     2.      Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum eða þjónustu.
     3.      Að tryggja, þegar sérstaklega stendur á, samkeppnislán til innlendra aðila er kaupa vélar, tæki og aðrar fjárfestingarvörur sem framleiddar eru innan lands.
     4.      Að selja ábyrgðartryggingar fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis.
    Hlutverk tryggingardeildarinnar samkvæmt þessu ákvæði var sams konar og mælt var fyrir um í 2. gr. laga nr. 60/1970, þó þannig að útflutningur á þjónustu var gerður jafnrétthár og útflutningur á vöru.
    Með lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., var Iðnlánasjóður lagður niður ásamt Fiskveiðasjóði Íslands, Útflutningslánasjóði og Iðnþróunarsjóði, sbr. 19. gr. laganna. Skv. 3. gr. laganna runnu allar eignir, skuldir og skuldbindingar framangreindra sjóða inn í bankann sem stofnfé hans, að frátöldum þeim fjármunum sem ráðstafað var til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sbr. 7. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Var sjóðnum ætlað það hlutverk að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Að auki tók Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána hjá Iðnlánasjóði og tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð. Skv. 11. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð, er hlutverk tryggingardeildarinnar eftirfarandi:
     1.      Að taka að sér að tryggja lán er bankar eða aðrar lánastofnanir veita innlendum framleiðendum vöru eða þjónustu til fjármögnunar á útflutningslánum sem veitt eru eða útveguð erlendum kaupendum.
     2.      Að tryggja kröfur íslenskra útflytjenda á hendur erlendum kaupendum, enda hafi þær orðið til vegna útflutnings á íslenskum vörum og þjónustu.
     3.      Að selja ábyrgðir fyrir þjónustu sem íslenskir aðilar veita erlendis. Einnig að tryggja verkábyrgðir innlendra aðila vegna framkvæmda sem fara að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gera opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     4.      Að tryggja fjárfestingar innlendra fjárfesta erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu.
     5.      Að tryggja búnað sem innlendir aðilar flytja á erlenda grund í tengslum við verkefni þar vegna stjórnmálalegrar áhættu.
    Í meginatriðum er hlutverk tryggingardeildarinnar það sama og mælt var fyrir um í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð. Þó fólu 4. og 5. tölul. í sér nýmæli frá eldri lögum, auk þess sem felldur var brott 3. tölul. þeirra laga, varðandi tryggingar samkeppnislána til innlendra aðila.
    Tryggingardeildin tók við eignum og skuldbindingum tryggingardeildar útflutningslána við Iðnlánasjóð og var stofnfé deildarinnar ekki hluti af stofnfé sjóðsins. Hún tók hins vegar ekki við eignum og skuldum tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð þótt hún tæki við starfsemi hennar. Eignir og skuldbindingar þeirrar deildar féllu til Ríkisábyrgðasjóðs við brottfall laga um deildina.

III. Breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð.
    Á árinu 2002 kom í ljós að þær lagareglur sem giltu um tryggingardeild útflutningslána voru of þröngar. Það hafði m.a. leitt til þess að stjórnarnefnd tryggingardeildarinnar hafði séð sig knúna til að synja um veitingu trygginga og ábyrgða, jafnvel þótt ljóst væri að slíkt hefði stuðlað að íslenskum útflutningi á vörum eða þjónustu. Þá hafði komið í ljós að sambærilegar tryggingardeildir á Norðurlöndum bjuggu við rýmri lagareglur en sú íslenska.
    Viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 2002 nefnd til að vinna tillögur að frumvarpi til laga um breytingar á II. kafla laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, að því er varðaði hlutverk tryggingardeildar útflutningslána. Nefndin lauk störfum í október 2002 og var frumvarp til breytinga á lögunum lagt fyrir Alþingi í framhaldi af því. Frumvarpið miðaði að því að útvíkka starfsheimildir tryggingardeildar útflutningslána til þess að deildinni yrði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Frumvarpið var unnið í samræmi við þær samningsskuldbindingar íslenskra stjórnvalda sem koma fram í leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um skammtímaútflutningslánatryggingar. Frumvarpið var samþykkt í desember 2002.

IV. Samstarfsverkefni.
    Á árinu 2000 féll ábyrgð á tryggingardeild útflutningslána sem varð til þess að varasjóður deildarinnar varð að engu. Í kjölfarið fól ríkisstjórnin stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutningslána að gera úttekt á þörf fyrir áframhaldandi starfsemi deildarinnar og gera tillögur um framtíðarhlutverk hennar, fjármögnun og rekstrarform, ef niðurstaðan yrði sú að deildin mundi starfa áfram.
    Stjórnarnefndin skoðaði í kjölfarið ítarlega hvaða kostir væru í stöðunni. Niðurstaðan varð sú að þörf væri fyrir áframhaldandi starfsemi tryggingardeildar útflutningslána og að styrkja þyrfti starfsemi deildarinnar. Fyrri hluta árs 2002 var ákveðið að stofna til samstarfsverkefnis vegna tryggingardeildar útflutningslána til þriggja ára og var skrifað undir samstarfssamning um endurskipulagningu tryggingardeildarinnar. Þátttakendur í samstarfsverkefninu voru iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Samningur um samstarfsverkefnið tók gildi hinn 15. apríl 2002 og rennur út í apríl 2005. Í samstarfsverkefninu fólst að ráðist yrði í sérstakt kynningarstarf um starfrækslu tryggingardeildar útflutningslána, gerðir yrðu samningar við utanaðkomandi aðila um greiningu á umsóknum til tryggingardeildar útflutningslána og ráðinn yrði starfsmaður til að sinna málefnum deildarinnar eingöngu. Meðalkostnaður við samstarfsverkefnið var áætlaður 8 millj. kr. á ári. Þátttakendur samþykktu að leggja 2 millj. kr. hver á ári til samstarfsverkefnisins og fór lokagreiðsla framlaga fram 15. janúar 2005. Gert var ráð fyrir að stærsti kostnaðarliðurinn yrði vegna ráðningar starfsmanns. Samstarfsverkefnið miðaði að því að fá úr því skorið á þremur árum hvort mögulegt væri að skjóta nægilega traustum stoðum undir starfsemi tryggingardeildar útflutningslána.
    Í samstarfsverkefninu fólst einnig að komið yrði á fót verkefnastjórn sem skipuð yrði einum fulltrúa frá iðnaðarráðuneytinu, einum frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sameiginlega og einum frá Samtökum iðnaðarins, auk þess sem starfsmaður tryggingardeildarinnar mundi sitja fundi verkefnastjórnar. Gert var ráð fyrir að verkefnastjórnin gerði tillögur að markaðs- og fjárhagsáætlunum til stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána, ásamt tillögum að kynningarfundum um starfsemi tryggingardeildarinnar. Tillögur verkefnisstjórnar voru háðar samþykki stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána.

V. Endurmat á samstarfssamningi.
    Þegar samstarfssamningurinn vegna tryggingardeildar útflutningslána var undirritaður á vordögum 2002 var gert ráð fyrir að látið yrði á það reyna til þrautar í þrjú ár hvort hægt væri að starfrækja tryggingardeild á Íslandi með þeim hætti sem lýst hefur verið hér að framan. Nú er sá tími senn liðinn.
    Þrátt fyrir að haldnir hafi verið margir kynningarfundir um tryggingardeildina, hún kynnt í einstökum fyrirtækjum og athygli vakin á starfsemi hennar í fjölmiðlum hefur ekki verið mikill áhugi meðal útflutningsfyrirtækja á því að nýta sér þjónustu deildarinnar. Þannig bárust tryggingardeildinni sex formlegar umsóknir á árinu 2002, þar af var ein dregin til baka og fimm samþykktar. Á árinu 2003 bárust tryggingardeild útflutningslána níu umsóknir, tvær þeirra voru dregnar til baka, fjórum var hafnað og þrjár samþykktar. Á árinu 2004 bárust tryggingardeildinni fjórar umsóknir og voru þrjár þeirra samþykktar. Á árinu 2002 var ein ábyrgð gefin út, sex ábyrgðir voru gefnar út á árinu 2003 og þrjár á árinu 2004. Varð allnokkurt tap af fjárfestingarverkefnum deildarinnar á árunum 2000, 2001 og 2002 en smávægilegur hagnaður á árinu 2003. Tekjur tryggingardeildarinnar af þessum verkefnum hafa því verið litlar sem engar og ekki staðið undir starfsemi deildarinnar.
    Með vísan til framangreindrar umfjöllunar er ekki talið réttlætanlegt að viðhalda rekstri tryggingardeildar útflutningslána og er því frumvarp þetta lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um Nýsköpunarsjóð ber ríkissjóður ekki ábyrgð á skuldbindingum umfram það sem mælt er fyrir um í II. kafla laganna. II. kafli laganna fjallar um tryggingardeild útflutningslána og mælir m.a. fyrir um ábyrgð ríkissjóðs gagnvart skuldbindingum tryggingardeildarinnar. Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum tryggingardeildarinnar verið felld úr gildi og þar með að ríkissjóður beri framvegis enga ábyrgð á skuldbindingum Nýsköpunarsjóðs. Breytingin er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins þess efnis að II. kafli laganna um tryggingardeild útflutningslána verði felldur brott úr lögunum, en þar með fellur brott skylda Nýsköpunarsjóðs til að starfrækja slíka deild.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott. Breytingin er lögð til til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins, þess efnis að II. kafli laganna um tryggingardeild útflutningslána og skylda Nýsköpunarsjóðs til að starfrækja slíka deild falli brott.

Um 3. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum ber Nýsköpunarsjóði að starfrækja deild er nefnist tryggingardeild útflutningslána. Í greininni er lagt til að II. kafli laganna um tryggingardeild útflutningslána falli brott og þar með falli brott skylda Nýsköpunarsjóðs til að starfrækja sérstaka tryggingardeild útflutningslána.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að gildissvið ákvæða frumvarps þessa nái ekki yfir tryggingar eða ábyrgðir sem veittar hafa verið við gildistöku frumvarpsins, ef það verður að lögum, af tryggingardeild útflutningslána, í samræmi við ákvæði II. kafla núgildandi laga um Nýsköpunarsjóð. Með ákvæðinu er ætlunin að tryggja að þær tryggingar og ábyrgðir sem veittar hafa verið af tryggingardeild gjaldfalli ekki við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þannig verður breytingin á lögunum ekki afturvirk og tryggingar og ábyrgðir sem veittar hafa verið áður en ríkissjóður hættir að ábyrgjast viðkomandi skuldbindingar munu halda gildi sínu.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð
atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði ekki lengur skylt að starfrækja tryggingardeild útflutningslána. Frumvarpið hefur þó ekki áhrif á núverandi ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum sjóðsins vegna tryggingardeildar útflutningslána. Útistandandi kröfur hjá Ríkisábyrgðasjóði vegna tryggingardeildar útflutningslána eru nú um 45 m.kr. Þar að auki eru samtals tapaðar kröfur vegna tryggingardeildar útflutningslána undanfarin ár um 338 m.kr. Starfsemi deildarinnar hefur verið rekin með tapi og því gengið á eigið fé. Starfsemi deildarinnar hefur verið fjármögnuð af ríkissjóði ásamt samstarfssamningi sem veitti 8 m.kr. árlega til deildarinnar en rennur úr gildi í apríl 2005.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að Nýsköpunarsjóður standi undir kostnaði við lokauppgjör á starfsemi deildarinnar og því muni frumvarpið ekki hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.