Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1031  —  456. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um öryggismál og aðbúnað á Kárahnjúkasvæðinu.

     1.      Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar í aðbúnaði starfsmanna og öryggismálum á Kárahnjúkasvæðinu á sl. ári og hafa verið veittar einhverjar undanþágur frá lögum og reglum sem gilda um aðbúnað og heilbrigðis- og öryggismál?
    Vinnueftirlit ríkisins starfar samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Verklegar framkvæmdir heyra undir eftirlit stofnunarinnar, þar með talin bygging Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmdin er mjög umfangsmikil og hefur kallað á verulegt vinnuframlag af hálfu Vinnueftirlitsins.
    Eftirlit með framkvæmdinni er að stærstum hluta til á hendi starfsmanna umdæmisskrifstofu stofnunarinnar á Egilsstöðum, en jafnframt hefur komið til aðstoð frá starfsmönnum stofnunarinnar á Akureyri, Suðurnesjum og aðalskrifstofunni í Reykjavík. Fyrri hluta árs 2004 var ákveðið að auka reglubundið eftirlit og eru nú að jafnaði 1–2 eftirlitsmenn á staðnum einn dag í viku. Auk þess er fjölmörgum verkefnum sem tengjast Kárahnjúkasvæðinu sinnt jafnóðum með öðrum hætti.
    Eftirlit Vinnueftirlits ríkisins lýtur að aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnusvæðunum, þar á meðal áhættumati atvinnurekanda og framkvæmd þess, forvörnum, öryggi vinnuvéla sem notaðar eru og réttindum stjórnenda þeirra, geymslu og meðferð sprengiefna, o.fl. Starfsmenn Vinnueftirlitsins funda með öryggistrúnaðarmönnum, félagslegum trúnaðarmönnum, stjórnendum viðkomandi verktaka, eftirlitsaðilum verkkaupa og öryggisráði Kárahnjúkasvæðisins til að fara yfir stöðu mála og fylgja þeim eftir. Á þennan hátt leitast Vinnueftirlitið við að fá sem gleggst yfirlit yfir stöðu mála á svæðinu í heild og stuðla að því að innra eftirlit aðila sé sem virkast.
    Við eftirlit stofnunarinnar hafa verið gerðar alls 113 eftirlitsskýrslur með um 273 fyrirmælum og ábendingum um úrbætur varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnusvæðum við Kárahnúkavirkjun. Því til viðbótar eru athugasemdir sem lúta að vinnuvélum og tækjum. Vinnueftirlitið hefur ekki veitt undanþágur frá gildandi lögum, reglum og reglugerðum sem stofnunin starfar eftir.
    Við framkvæmdir af þessu tagi skiptir höfuðmáli að af hálfu verkkaupa og verktaka sé öflugt innra eftirlit með öryggismálum frá degi til dags og að starfsmenn kjósi öryggistrúnaðarmenn sem einnig fylgist grannt með framvindu mála. Eftirlit verkkaupa á svæðinu er umfangsmikið og starfa við það 25–30 starfsmenn. Þar af eru þrír í fullu starfi við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi. Verktakar á svæðinu eru einnig með starfsmenn á sínum snærum við slíkt eftirlit og á það t.d. við um fyrirtækin Impregilo SpA., Fosskraft hf., Arnarfell hf. og Suðurverk. Er um að ræða 1–3 starfsmenn í hverju tilviki. Alls munu því vera á vegum verkkaupa og verktaka á annan tug starfsmanna við innra eftirlit á þessu sviði.
    Öryggistrúnaðarmenn ber að kjósa úr röðum starfsmanna í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Nokkuð vantar upp á að fjöldi þeirra geti talist fullnægjandi miðað við umfang starfseminnar. Vinnueftirlitið hefur hvatt til þess að þeim verði fjölgað og m.a. boðið upp á námskeið fyrir þessa aðila.
    Fleiri opinberir aðilar hafa eftirlit með framkvæmdinni. Brunavarnir á Héraði hafa eftirlit með brunavörnum á svæðinu og Heilbrigðiseftirlit Austurlands með starfsmannabúðum (svefnskálum og mötuneytum) og umhverfismálum. Samstarf hefur verið milli Vinnueftirlitsins og þessara aðila.

     2.      Eru aðbúnaður starfsmanna, öryggismál og eftirlit á Kárahnjúkasvæðinu í fullkomnu samræmi við lög og reglur sem um þau mál gilda? Ef ekki, hvað er ábótavant í þeim málum?
    Vinnueftirlit ríkisins telur sér ekki fært að fullyrða að aðbúnaður, öryggismál og eftirlit á Kárahnjúkasvæðinu sé í fullkomnu samræmi við lög og reglur sem um það gilda, ekki frekar en unnt er að fullyrða slíkt um aðrar verklegar framkvæmdir á hverjum tíma. Verkefnið er viðamikið, framkvæmdin flókin, aðstæður síbreytilegar, veðurfar erfitt og verkefnið í eðli sínu hættulegt. Stofnunin leitast hins vegar við að tryggja að lögum og reglum sem hún hefur eftirlit með sé framfylgt á Kárahnjúkasvæðinu, sem og öðrum vinnusvæðum á landinu. Óhætt mun að fullyrða að sérstök áhersla hafi verið lögð á eftirlit á Kárahnjúkasvæðinu. Jafnframt er eftirlit af hálfu verkkaupa og verktaka til þess fallið að tryggja að framkvæmdin sé á hverjum tíma samkvæmt gildandi lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
    Á framkvæmdatímanum er sífellt verið að vinna að lausn mála, m.a. í samræmi við fyrirmæli Vinnueftirlitsins. Upp getur komið ágreiningur milli aðila um hvernig beri að túlka lög og reglur og hvað teljist fullnægjandi. Á árinu 2004 má til dæmis nefna atriði eins og kröfur til réttinda erlendra stjórnenda vinnuvéla og öryggiskröfur við jarðgangagerð.
    Áhöld hafa verið um það hvort vinnufyrirkomulag fyrirtækja á svæðinu brjóti í bága við vinnutímaákvæði laga nr. 46/1980, eins og þeim var breytt með lögum nr. 68/2003. Vinnueftirlitið hefur verið með þau mál til skoðunar en upplýsingaöflun stendur enn yfir.

     3.      Hvaða athugasemdir sem lúta að öryggi og aðbúnaði á Kárahnjúkasvæðinu hafa komið fram frá lögbundnum eftirlitsaðilum eða trúnaðarmönnum á svæðinu og hefur þeim í einu og öllu verið framfylgt?

    Varðandi það sem heyrir undir verksvið Vinnueftirlits ríkisins kemur fram í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar að frá upphafi framkvæmda á Kárahnjúkasvæðinu hafa verið sett fram alls um 273 fyrirmæli og ábendingar. Í einu tilfelli var vinna bönnuð þar til úrbætur höfðu farið fram á tilteknu vinnusvæði í kjölfar banaslyss sem varð þar í mars 2004. Úrbætur hafa verið gerðar varðandi flest fyrirmæli en útistandandi munu vera samtals um 27 fyrirmæli í heild, þ.e. á öllum vinnusvæðum Kárahnjúka hjá þeim verktökum sem þar starfa. Fyrirmælin hafa beinst að 20 vinnusvæðum. Í nokkrum tilvikum er frestur ekki útrunninn en í öðrum tilvikum er unnið að úrbótum og mun Vinnueftirlitið fylgja þeim málum eftir.
    Öryggistrúnaðarmenn og félagslegir trúnaðarmenn hafa komið fram með ýmsar ábendingar um úrbætur og komið þeim á framfæri við verkkaupa, verktaka og eftirlitsmenn Vinnueftirlits ríkisins. Hafa þær verið teknar til skoðunar jafnóðum og þeim fylgt eftir þegar þörf hefur verið talin á.

     4.      Hefur verið fylgt öryggisráðstöfunum í samræmi við nýtt áhættumat sem vinna átti á sl. ári?
    Samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. lög nr. 68/2003, er fyrirtækjum skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði sem byggð er á áhættumati. Hliðstæð sérákvæði um verklegar framkvæmdur eru einnig í reglum nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafnir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannavirkjagerð, með síðari breytingum. Við alla verkþætti virkjunarframkvæmdanna er unnið eftir öryggis- og heilbrigðisáætlunum sem verktakarnir hafa sett á grundvelli áhættumats. Þessi gögn eru lögð fyrir eftirlitsaðila verkkaupa til samþykktar. Samþykki Vinnueftirlits ríkisins er ekki tilskilið samkvæmt lögum, en stofnunin hefur innan ramma eftirlits síns farið yfir þessi gögn. Að mati Vinnueftirlitsins hafa þau ekki þótt fullnægjandi um öll atriði og hefur stofnunin farið fram á að þau atriði verði skoðuð sérstaklega.
    Vinnueftirlitið hefur lagt á það áherslu að áhættumat verktaka sé í stöðugri endurskoðun eftir því sem verkinu miðar áfram og aðstæður breytast.