Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1032  —  678. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ferðamál.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2006–2015 í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka:
     1.      Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
     2.      Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.
     3.      Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.
     4.      Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.
    Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum:
     1.      Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.
     2.      Ísland verði í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.
     3.      Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.
     4.      Ábyrgð ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu verði aukin í umhverfismálum.
    Til að ná markmiðum í ferðamálum verði m.a. beitt eftirfarandi aðgerðum:

Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.
     1.      Opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu verði sambærileg við gjöld í samkeppnislöndum.
     2.      Leitast verði við að fé til sameiginlegrar markaðssetningar verði tryggt til lengri tíma.
     3.      Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.
     4.      Opinberir aðilar stundi ekki atvinnustarfsemi í samkeppni við einkarekin ferðaþjónustufyrirtæki.
     5.      Opinbert eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum verði lágmarkað og einfaldað og eftirlit á vegum einstakra aðila sameinað þar sem hægt er.

Kynningarmál.
     1.      Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:
                  a.      einstaka og fjölbreytta náttúru,
                  b.      umhverfisvernd,
                  c.      menninguna og þjóðina,
                  d.      fagmennsku,
                  e.      gæði og öryggi,
                  f.      heilsu og hreinleika,
                  g.      gestrisni,
                  h.      myndræn auðkenni (lógó),
                  i.      slagorð.
     2.      Megináhersla í öllum kynningarmálum verði áfram á Ísland, Norður-Ameríku, Bretland, norræn lönd og meginland Evrópu.
     3.      Aðgengi einkaaðila að opinberum framlögum til kynningar- og markaðsmála verði háð eigin framlögum þeirra til vel skilgreindra og vænlegra verkefna.
     4.      Samræmis verði gætt í allri kynningu á landinu í heild, sem og í aðlögun kynningarefnis og skilaboða fyrir einstaka markhópa eða markaðssvæði.
     5.      Aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku (þ.e. sameiginleg kynning vöru og þjónustu) verði notuð við aðkomu opinberra aðila að kynningu Íslands á öðrum markaðssvæðum.

Nýsköpun og þróun.
    Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Menntun.
     1.      Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.
     2.      Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.
     3.      Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi, þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.
     4.      Tryggt verði aðgengi að háhraðaneti við fjarnám.

Rannsóknir.
     1.      Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.
     2.      Hlúð verði að hvers kyns grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.

Grunngerð.
     1.      Umferðarmiðstöðvar verði nýttar til að tengja og samræma allar tegundir almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn.
     2.      Upplýsingar um löggæslu, heilsugæslu, almenningssamgöngur og almannavarnir verði aðgengilegar, á erlendum tungumálum auk íslensku.
     3.      Við gerð almannavarnaáætlana sé tryggt að upplýsingar um hættuástand og viðbrögð nái til fólks á ferð um landið.
     4.      Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og verði á erlendum tungumálum auk íslensku.
     5.      Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.
     6.      Skilgreindar verði lágmarkskröfur til upplýsingamiðstöðva sem lúta opinberu eftirliti.
     7.      Upplýsingamiðstöðvar sem lúta opinberu eftirliti verði auðkenndar sérstaklega.

Fjölþjóðasamstarf.
     1.      Alþjóðlegt samstarf beinist sérstaklega að vest-norræna svæðinu, öðrum norrænum löndum, meginlandi Evrópu og OECD-löndum.
     2.      Áfram verði haldið sérstöku samstarfi við önnur norræn lönd.
     3.      Kynning og aðstoð verði veitt við aðgang að fjármagni erlendis til verkefna í ferðaþjónustu.
     4.      Samstarf við erlenda ferðaþjónustuaðila verði aukið og því viðhaldið.
     5.      Þátttaka í fjölþjóðlegu tengslaneti verði aukin og því haldið við.

Gæða- og öryggismál.
     1.      Rekstrarleyfi verði höfð sýnileg, bæði á íslensku og fleiri tungumálum og útlit þeirra verði samræmt.
     2.      Áfram verði unnið að eflingu flokkunarkerfis gististaða og það kynnt frekar fyrir rekstraraðilum og neytendum.
     3.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi ráðstefnuaðstöðu.
     4.      Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi fólksflutningabifreiða.
     5.      Ferðamönnum sem ferðast um Ísland verði gert ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum og þeim beri að fylgja leiðbeiningum sem þeir fá eða eru settar fram á viðkomustöðum þeirra.

Umhverfismál.
     1.      Ferðamönnum verði gerð betur grein fyrir ábyrgð sinni varðandi verndun umhverfisins.
     2.      Skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga sú til þingsályktunar um ferðamál sem hér er flutt er samin af stýrihópi sem samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, skipaði haustið 2003 til að vinna að gerð ferðamálaáætlunar fyrir Ísland fyrir tímabilið 2006–2015. Magnús Oddsson ferðamálastjóri var skipaður formaður stýrihópsins. Aðrir í hópnum voru Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti. Með stýrihópnum starfaði Jón Gunnar Borgþórsson, verkefnisstjóri, frá áramótum 2003–2004.
    Stýrihópnum bar einnig að hafa samráð við sérstakan vettvang hagsmunaaðila og leita þar m.a. sjónarmiða og tillagna um það sem betur mátti fara. Tilnefningar til þessa vettvangs voru eftirfarandi:
    Frá Ferðamálasamtökum Íslands:
          Ásbjörn Björgvinsson, FSNA,
          Hildur Jónsdóttir, FSH,
          Hjörtur Árnason, FSVL,
          Jóhanna G. Jónasdóttir, FSVF,
          Kristján Pálsson, FSS.
    Frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF):
          Anna G. Sverrisdóttir, Bláa lóninu ehf.,
          Áslaug Alfreðsdóttir, Hótel Ísafirði,
          Matthías Kjartansson, Ráðstefnum og fundum ehf.,
          Steinn Logi Björnsson, Icelandair,
          Sævar Skaptason, Ferðaþjónustu bænda hf.
    Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
          Garðar Vilhjálmsson, Reykjanesbæ,
          Gunnar Sigurðsson, Akranesi,
          Sigrún B. Jakobsdóttir, Akureyri,
          Steinunn Kolbeinsdóttir, Hvolhreppi,
          Svanhildur Konráðsdóttir, Reykjavík.
    Frá stjórnmálaflokkum á þingi:
          Ásta R. Jóhannesdóttir, Samfylkingu,
          Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki,
          Jóhanna B. Magnúsdóttir, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði,
          Kjartan Már Kjartansson, Framsóknarflokki,
          Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum.
    Í skipunarbréfi stýrihópsins er miðað við að: „... áætlunin geri tillögur um úrbætur á sem flestum sviðum íslenskrar ferðaþjónustu og geri tillögur um ráðstöfun fjárveitinga samkvæmt áætluninni og eftir ákvörðun fjárlaga hverju sinni ... [og] skili tillögu sinni að nýrri ferðamálaáætlun eigi síðar en 1. september 2004 en stefnt er að því að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi næsta haust [2004] í formi þingsályktunar.“
    Í greinargerð með skipunarbréfinu kom jafnframt fram að hópnum væri ætlað að móta skýra áætlun um þau skref sem hann teldi nauðsynlegt að taka svo vöxtur ferðaþjónustunnar verði í samræmi við væntingar, m.a. varðandi atvinnusköpun, gjaldeyristekjur og arðsemi.
    Við vinnslu áætlunarinnar var byggt að miklu leyti á skýrslum, úttektum og greinargerðum sem gerðar hafa verið á vegum ráðuneytisins og annarra aðila. Þá var og rætt við marga aðila sem vinna að ferðamálum og tengdri starfsemi.
    Sett var upp vefsvæði fyrir verkefnið í því augnamiði að auðvelda samskipti, gera grunngögn aðgengileg á einum stað og gera vinnuna við áætlunina gagnsærri. Haldin voru málþing með aðilum hagsmunavettvangsins um starf stýrihópsins. Skil tillögunnar til ráðherra voru í lok ágúst 2004 eins og ráð hafði verið fyrir gert.
    Þetta er í fyrsta sinn sem þessi háttur er hafður á, en fyrirmyndin er m.a. ný samgönguáætlun þar sem allir þræðir samgöngunetsins koma saman í einni heildaráætlun.
    Áætluninni er ætlað að setja fram forgangsröðun og stefnumótun fyrir málaflokkinn í heild, hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla og meiri áherslu á samstarf og samspil milli aðila ferðaþjónustu á landinu, stofnana samgönguráðuneytisins, ráðuneytisins sjálfs og annarra ráðuneyta. Í framhaldi af samþykkt áætlunarinnar mun samgönguráðherra láta vinna aðgerða- og framkvæmdaáætlun.
    Árið 1996 kom út stefnumótun samgönguráðuneytisins í ferðamálum til ársins 2005 en á þessu tímabili hefur átt sér stað mikil þróun í greininni og í raun talsvert meiri en ráð var fyrir gert í stefnumótuninni. Fyrirtæki hafa sameinast, önnur hætt rekstri og ný verið stofnuð og hagsmunasamtök ferðaþjónustufyrirtækja stofnuð (SAF). Breytingar hafa átt sér stað á sviði farþegaflugs, bæði innan lands og til og frá landinu. Reiknað er með frekari breytingum þar og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Stóraukin notkun internetsins, breytingar í fjarskiptatækni og þróun kauphegðunar ferðamanna kalla á breytingar á þeim innviðum sem ferðaþjónustufyrirtæki treysta á.
    Umhverfismál hafa öðlast hærri sess í allri umræðu um ferðamál, enda hefur mikil þróun átt sér stað og mikil vinna verið lögð í þann málaflokk innan ferðaþjónustunnar og utan. Hið sama má segja um gæðamál. Einnig á þetta við um menntamálin, en þar er talin nauðsynleg frekari samræming á námsframboði. Þá þurfi að skilgreina betur menntunarþörfina, samstarf opinberra- og einkaaðila og hlutverk stjórnvalda í fjármögnun, uppbyggingu og vöruþróunarverkefnum.
    Þá hefur aukning orðið á framlögum hins opinbera til íslenskrar ferðaþjónustu og nýrra leiða verið leitað til að hámarka árangur greinarinnar.
    Einstökum aðgerðum í markaðsmálum hefur verið ýtt úr vör á ýmsum markaðssvæðum sem virðast hafa skilað umtalsverðum árangri, sbr. að ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fjölgaði um 69% tímabilið 1995–2004 en sambærileg aukning í heiminum öllum var um 24% samkvæmt WTO (World Tourism Organization).
    Samgönguráðherra hefur látið vinna eftirfarandi skýrslur um stöðu og möguleika ferðaþjónustunnar á ýmsum sviðum og eru þær, auk samgönguáætlunar 2003–2014, grunngögn þessarar ferðamálaáætlunar:
          Íslensk ferðaþjónusta: Framtíðarsýn,
          Auðlindin Ísland,
          Menningartengd ferðaþjónusta,
          Heilsutengd ferðaþjónusta
.
    Með hnitmiðuðu markaðs- og kynningarstarfi hefur undanfarin ár tekist að skapa meiri aukningu í ferðamannastraumi til landsins en í nágrannalöndunum.
    Nú er litið svo á að nægilegur undirbúningur hafi átt sér stað til þess að hægt sé að gera áætlun um það sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd og þau skref sem nauðsynlega þarf að taka á næstu árum og áratug svo vöxtur ferðaþjónustunnar verði í samræmi við væntingar um m.a. atvinnusköpun, gjaldeyristekjur og arðsemi.
    Það er viðfangsefni þessarar áætlunar að takast á við það verkefni.

Uppbygging áætlunarinnar.
    Áætlunin og sú vinna sem að henni snýr skiptast í þrjá þætti. Umfangsmikil skýrslugerð hefur átt sér stað undanfarin ár þar sem tekið hefur verið á allflestum þáttum ferðaþjónustunnar. Þessi skýrslugerð er grunnurinn að áætluninni og er gerð grein fyrir honum í fylgiskjali, þ.e. stöðumati greinarinnar, líklegri framtíðarþróun og þýðingu hennar fyrir íslenskt þjóðfélag.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir markmiðum innan einstakra málaflokka og stefnumið mótuð fyrir framkvæmd þeirra.
    Með því að skilgreina með þessum hætti markmið komandi áratugar, þær leiðir sem ætlað er að fara og fyrirhugaðar aðgerðir, ætti að nást betri samhæfing hjá þeim sem að ferðaþjónustu koma. Í stuttu máli sagt, að auka skilvirkni á grundvelli agaðra vinnubragða sem sátt er um.
    Vinnu sem þessari lýkur aldrei. Aðstæður breytast, og sveigjanleiki og viðbragðsflýtir eru nauðsynlegir til að bregðast við óvæntum atburðum. Gæði í ferðaþjónustu snúast um að uppfylla væntingar ferðamannsins og skapa upplifun sem hann er ánægður með. Upplifun sem ferðaþjónustan og reyndar þjóðin öll getur verið stolt af.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Yfirlit áætlunar.

    Í samræmi við framantalið verði lögð áhersla á eftirfarandi:

Rekstrarumhverfi.
Markmið.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru sett fram eftirfarandi markmið:
          Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við skilyrði í samkeppnislöndunum.
          Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein og skapi þannig fleiri örugg og vel launuð störf.
    Auk þessa er í áætluninni gert ráð fyrir að:
          kerfi opinberra leyfisveitinga og eftirlits verði einfalt og skilvirkt,
          fyrirtæki í ferðaþjónustu njóti sams konar rekstrarskilyrða og önnur gjaldeyrisskapandi fyrirtæki á Íslandi.

Leiðir.
          Skattlagning verði endurskoðuð.
          Í nýrri lagasetningu vegna ferðaþjónustu verði leyfisveitingar til ferðaskrifstofa gerðar einfaldari og skilvirkari.
          Opinber gjöld vegna aðfanga og búnaðar til ferðaþjónustu verði sambærileg og í samkeppnislöndum okkar.
          Leitast verði við að fé til sameiginlegrar markaðssetningar verði tryggt til lengri tíma.
          Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.
          Opinberir aðilar stundi ekki atvinnustarfsemi í samkeppni við einkarekin ferðaþjónustufyrirtæki.
          Opinbert eftirlit verði lágmarkað og einfaldað og eftirlit á vegum hinna ýmsu aðila sameinað þar sem hægt er.

Kynningarmál.
Markmið.
          Íslandi sé komið á framfæri sem heild með almennri kynningu bæði innan lands og erlendis.
          Í allri kynningu sé lögð áhersla á að dreifa umferð/álagi yfir tíma og á svæði.
          Samstarf hagsmunaaðila í ferðaþjónustu styrki innviði greinarinnar og efli markaðssetningu landsins sem heildar.
          Opinberir fjármunir verði nýttir að stærstum hluta til samstarfsverkefna í kynningarmálum.
          Fyrir liggi rannsóknir og áætlanir um aðkomu opinberra aðila að kynningarmálum á tilgreindum mörkuðum.
          Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein og skapi þannig fleiri örugg og vel launuð störf.
          Ferðamenn skynji að ferðalög til landsins séu áhættu- og fyrirhafnarlítil.

Leiðir.
          Áfram verði unnið að uppbyggingu ímyndar Íslands og hún varin með því að leggja áherslu á eftirfarandi þætti í kynningarstarfi ferðaþjónustunnar:
               *      einstaka og fjölbreytta náttúru,
               *      umhverfisvernd,
               *      menningu/þjóðina,
               *      fagmennsku,
               *      gæði/öryggi,
               *      heilsu og hreinleika,
               *      gestrisni,
               *      myndræn einkenni (lógó),
               *      slagorð.
          Megináhersla í öllum kynningarmálum verði áfram á Ísland, Norður-Ameríku, Bretland, önnur norræn lönd og meginland Evrópu.
          Aðgengi einkaaðila að opinberum framlögum til kynningar- og markaðsmála verði háð eigin framlögum þeirra til vel skilgreindra og vænlegra verkefna.
          Samræmis verði gætt í allri kynningu á landinu í heild, sem og í aðlögun kynningarefnis og skilaboða fyrir einstaka markhópa eða markaðssvæði.
          Aðferðafræðin sem notuð hefur verið við „Iceland Naturally“ í Norður-Ameríku (þ.e. sameiginleg kynning vöru og þjónustu) verði notuð við aðkomu opinberra aðila að kynningu Íslands á öðrum markaðssvæðum.

Nýsköpun og þróun.
Markmið.
          Nýsköpun og þróun í greininni auki arðsemi allt árið með bættri nýtingu fjárfestinga.
          Áhrif nýsköpunar á vöxt íslenskrar ferðaþjónustu verði rannsökuð.
          Sífelld endurnýjun og endurmat ferðaþjónustunnar eigi sér stað.
          Vöru- og þjónustuþróunarferlar verði mótaðir til hagnýtingar fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki.

Leiðir.
          Stjórnvöld taki virkan þátt í nýsköpunar- og vöruþróunarstarfi ferðaþjónustunnar, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Menntun.
Markmið.
          Menntun taki mið af og þróist í samræmi við síbreytilegar þarfir ferðaþjónustunnar.
          Allt nám á lægri skólastigum opni möguleika til frekara framhaldsnáms.
          Fjarnám verði í boði þar sem við á.
          Dregið verði úr misræmi námskostnaðar í „réttindanámi“.
          Menntunarframboð stjórnvalda taki mið af þarfagreiningu á hverjum tíma.
          Gæði menntunar skal tryggja með sérhæfingu menntastofnana þar sem við á.

Leiðir.
          Aukið tillit verði tekið til kostnaðar fyrirtækja í tengslum við starfsnám.
          Námsbrautir framhaldsskóla og sérskóla tengist svo sem kostur er þannig að ekki myndist blindgötur eða óþörf skörun námsbrauta og skólastiga.
          Háskólanám í ferðamálum byggist í vaxandi mæli á þeim grunni sem lagður er á framhaldsskólastigi, þannig að við inntöku nemenda verði tekið tillit til menntunar og/eða reynslu á sviði ferðamála.
          Tryggt verði aðgengi að hröðu fjarskiptaneti við fjarnám.

Rannsóknir.
Markmið.
          Rannsóknir í ferðaþjónustu verði í samræmi við þarfir greinarinnar og styðji við framkvæmd ferðamálaáætlunar.
          Unnið verði úr rannsóknum og niðurstöðum þeirra og þær túlkaðar á hagnýtan hátt þannig að þær nýtist greininni sem best.
          Þjóðhagsleg áhrif ferðaþjónustunnar verði skilgreind.

Leiðir.
          Hluta þeirra fjármuna er nýsköpunar- og þróunarsjóður ferðamála fær til ráðstöfunar skal varið til rannsókna í ferðamálum.
          Starfrækt verði gagnamiðstöð er vinni að söfnun, úrvinnslu og túlkun gagna til hagnýtingar fyrir bæði opinbera aðila og einkaaðila innan greinarinnar.
          Hlúð verði að hvers kyns grunnransóknum og hagnýtum rannsóknum í ferðamálafræði.

Grunngerð.
Markmið.
          Traust grunngerð samfélagsins styðji við ferðaþjónustu.
          Ferðamenn greini yfirburðarþjónustu, öryggi og alþjóðlegan brag í grunngerð samfélagsins.
          Fyrirkomulag upplýsingagjafar til ferðamanna sé skilvirkt og aðgengi að upplýsingum gott.
          Uppbygging samskipta- og fjarskiptakerfis landsins taki m.a. mið af þörfum ferðaþjónustunnar.
          Áhersla verði lögð á að almenningssamgöngur um landið myndi heildstætt net.

Leiðir.
          Umferðarmiðstöðvar verði nýttar til tengingar og samræmingar allra tegunda almenningssamgangna og bættrar þjónustu við ferðamenn.
          Upplýsingar um löggæslu, heilsugæslu, almenningssamgöngur og almannavarnir verði aðgengilegar á erlendum tungumálum auk íslensku.
          Við gerð almannavarnaáætlana sé tryggt að upplýsingar um hættuástand og viðbrögð nái til fólks á ferð um landið.
          Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og verði á erlendum tungumálum auk íslensku.
          Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.
          Skilgreindar verði lágmarkskröfur til upplýsingamiðstöðva sem lúta opinberu eftirliti.
          Upplýsingamiðstöðvar sem lúta opinberu eftirliti verði auðkenndar sérstaklega.

Fjölþjóðasamstarf.
Markmið.
          Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði ferðamála í eftirfarandi augnamiði:
          *      að hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu í öðrum löndum sé gætt,
          *      að viðhalda og auka aðgang að upplýsingum um ferðamál, þróun þeirra og stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi á því sviði,
          *      að skapa aðgengi íslenskra ferðaþjónustuaðila að fjölþjóðlegum verkefnum,
          *      að koma sjónarmiðum íslenskrar ferðaþjónustu á framfæri erlendis.

Leiðir.
          Alþjóðlegt samstarf beinist sérstaklega að vest-norræna svæðinu, öðrum norrænum ríkjum, meginlandi Evrópu og OECD-löndum.
          Áfram verði haldið sérstöku samstarfi við önnur norræn lönd.
          Kynning og aðstoð verði veitt vegna aðgangs að fjármagni erlendis til verkefna í ferðaþjónustu.
          Samstarf við erlenda ferðaþjónustuaðila verði aukið og því viðhaldið.
          Þátttaka í fjölþjóðlegu tengslaneti verði aukin og því haldið við.

Gæða- og öryggismál.
Markmið.
          Þjónusta á Íslandi uppfylli eða sé umfram væntingar ferðamanna um gæði og öryggi.
          Gestir til landsins verði fljótir að átta sig á þeim þáttum grunnskipulags þjóðfélagsins sem að þeim snúa.
          Nauðsynlegt eftirlit með flokkun og vottun sé til staðar og skilvirkni sé gætt.
          Virkt ferli sé til staðar til að sækja umsagnir/kvartanir og vinna úr þeim.
          Afþreyingarfyrirtæki hafi tilskilin leyfi.
          Neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um forsendur flokkunarkerfa ferðaþjónustufyrirtækja.
          Nauðsynlegar upplýsingar fyrir ferðamenn, m.a. um veður og ástand vega, séu aðgengilegar, auðskildar og í samræmi við árstíð.
          Tryggður verði gagnagrunnur upplýsinga um ferðaþjónustu fyrir neytendur.
          Ferðamönnum sem ferðast um Ísland sé ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum á ferð um landið.
          Til sé áætlun um hvernig nýta skuli fjölmiðla við að koma upplýsingum til ferðamanna í neyðartilfellum, svo sem við náttúruhamfarir.

Leiðir.
          Rekstrarleyfi verði sýnileg, bæði á íslensku og fleiri tungumálum og útlit þeirra verði samræmt.
          Áfram verði unnið að eflingu flokkunarkerfis gististaða og það kynnt frekar fyrir rekstraraðilum og neytendum.
          Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi ráðstefnuaðstöðu.
          Unnið verði að því að koma á flokkunarkerfi fólksflutningabifreiða.
          Ferðamönnum sem ferðast um Ísland verði gert ljóst að þeir beri fulla ábyrgð á eigin gjörðum og þeim beri að fylgja leiðbeiningum sem þeir fá eða eru fram settar á viðkomustöðum þeirra.

Umhverfismál.
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:
          Að unnið skuli að því að Ísland haldi stöðu sinni sem forystuþjóð í umhverfismálum.
          Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.
          Unnið verði að því að auka ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í ferðaþjónustu í umhverfismálum.

Markmið.
          Náttúra Íslands verði varðveitt, enda einn mikilvægasti þátturinn í ímynd landsins.
          Ferðamenn dreifist um landið til að minnka álag á einstaka staði (sbr. Kynningarmál).
          Vitund fólks, fyrirtækja og stofnana um þýðingu umhverfisverndar aukist.

Leiðir.
          Ferðamönnum verði gerð betur grein fyrir ábyrgð sinni varðandi verndun umhverfisins.
          Skilgreindum „seglum“ til að dreifa álagi á landið verði fjölgað (sjá Nýsköpun og þróun) og þeir gerðir aðgengilegir árið um kring.