Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1130  —  438. mál.


    

Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti, Ásmund Jónsson frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Sverri Jakobsson og Jón Yngva Jóhannsson frá Hagþenki, Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Knút Bruun frá Myndstefi og Halldór Þ. Birgisson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og Fjölís.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 110/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Í tilskipuninni er m.a. kveðið á um að höfundum og rétthöfum svokallaðra skyldra réttinda, þ.e. listflytjendum, framleiðendum hljóðrita, kvikmyndaframleiðendum og útvarpsfyrirtækjum, skuli tryggður einkaréttur til hvers konar eftirgerðar verka sinna og nánar tiltekins efnis. Einkaréttur höfunda mun þannig einnig ná til afrita í rafrænu formi. Þá mun höfundum einnig tryggður einkaréttur til hvers konar miðlunar og dreifingar með sölu eða á annan hátt til almennings. Rétthöfum skyldra réttinda, svo sem listflytjendum, framleiðendum og útvarpsfyrirtækjum, skal tryggður einkaréttur til að gera nánar tiltekið efni sitt aðgengilegt almenningi. Þá er gert ráð fyrir að styrkja almennt lögvernd þeirra réttinda sem höfundar og rétthafar skyldra réttinda njóta og taka m.a. á brotum sem felast í að farið sé fram hjá afritunarvörnum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og verður frumvarp þess efnis lagt fram á Alþingi fljótlega.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.


Alþingi, 6. apríl 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Siv Friðleifsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.