Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1209  —  678. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um ferðamál.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Helgu Haraldsdóttur frá samgönguráðuneyti, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Birnu G. Bjarnleifsdóttur leiðsögumann, Pétur Rafnsson Ferðamálasamtökum Íslands, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Trausta Fannar Valsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Gunnarsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Hauk Suska Garðarsson frá Félagi ferðamálafulltrúa á Íslandi. Skriflegar umsagnir komu frá fleiri aðilum og voru þær allar jákvæðar í garð málsins.
    Í tillögunni er sett fram áætlun í ferðamálum á tímabilinu 2006–2015. Tillagan er unnin fyrir ráðherra af stýrihópi sem hann skipaði haustið 2003 og sem aftur hafði samráð við vettvang hagsmunaaðila þar sem þátt tóku fulltrúar fjölmarga aðila sem starfa í ferðaþjónustu eða í tengslum við hana víðs vegar um landið, auk fulltrúa stjórnmálaflokka.
    Tillagan skiptist annars vegar í inngangskafla þar sem sett eru fram meginmarkmið hennar og hins vegar í kafla með nánari skilgreiningu á markmiðum um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, kynningarmál, nýsköpun og þróun, menntun, rannsóknir, grunngerð, fjölþjóðastarf, gæða- og öryggismál og umhverfismál. Nefndin leggur til að kaflar tillögunnar, að inngangskafla undanskildum, verði númeraðir með rómverskum tölum.
    Við yfirferð málsins voru nefndinni kynntar nokkrar grunnskýrslur sem unnar hafa verið á síðustu árum á vegum samgönguráðuneytis og mynda grunn að þessari áætlun. Nefndin telur mikilvægt að haft verði í huga við alla meðferð þessa máls hvaða grunn þessar skýrslur mynda í málinu. Skýrslurnar eru:
– Íslensk ferðaþjónusta: Framtíðarsýn,
– Auðlindin Ísland,
– Menningartengd ferðaþjónusta,
– Heilsutengd ferðaþjónusta.
    Nefndin telur mikilvægt að Alþingi samþykki áætlun í ferðamálum þar sem slíkt skapar öryggi fyrir þessa mikilvægu og ört vaxandi atvinnugrein. Undir það tóku allir sem komu á fund nefndarinnar. Nefndin telur rökrétt að þessari tillögu verði fylgt eftir með framkvæmdaáætlun þar sem m.a. komi fram tímaáætlun og kostnaður við einstaka liði.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að nefndarmenn töldu einn mikilvægan þátt vanta í tillöguna en það er styrking byggða. Efling ferðaþjónustunnar er takmörkum háð ef ekki dafnar byggð um allt land. Jafnframt er ferðaþjónustan ein þeirra greina sem mikið getur lagt til styrkingar búsetu um allt land. Nefndin leggur til breytingu í þessu tilliti.
    Þá leggur nefndin til að orðalagi í 4. tölul. kaflans um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar verði breytt þannig að ljóst sé að ekki er verið að mæla gegn því að opinberir aðilar komi að ferðamálastarfsemi heldur einungis lögð áhersla á að þess sé gætt að réttmætri samkeppni á markaði verði ekki raskað.
    Loks leggur nefndin til að orðalagi 4. tölul. kaflans um grunngerð verði breytt þannig að ljóst sé að ekki sé stefnt að því að hafa öll umferðarmerki á mörgum tungumálum heldur aðeins þau sem óskiljanleg eru útlendingum. Markmiði um að umferðarmerki séu auðskiljanleg fyrir útlendinga verður best náð með því að fylgja alþjóðlegum stöðlum þar sem það er hægt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


       1.      1. tölul. 1. mgr. orðist svo: Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
       2.      4. tölul. í kaflanum Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar orðist svo: Opinberir aðilar raski ekki samkeppnisstöðu einkarekinnar ferðaþjónustu.
       3.      4. tölul. í kaflanum Grunngerð orðist svo: Merkingar í samgöngukerfinu verði bættar og þess gætt að þær séu auðskiljanlegar fyrir erlenda ferðamenn.
       4.      Kaflar í tillögunni að undanskildum inngangskafla verði númeraðir.

    Björgvin G. Sigurðsson og Bryndís Hlöðversdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 25. apríl 2005.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Guðjón Hjörleifsson.



Guðjón A. Kristjánsson.


Kristján L. Möller.


Magnús Stefánsson.