Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 806. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Nr. 20/131.

Þskj. 1485  —  806. mál.


Þingsályktun

um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.
    Faghópur á vegum forsætisráðuneytis verði settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.
    Við mat á afleiðingum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn.
    Við greiningu á orsökum verði horft vítt, svo sem á áhrif mataræðis og lífsstíls nútímafjölskyldna, áherslur á hreyfingu í starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Enn fremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnaráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða.
    Við skipun faghópsins verði haft í huga hve víðtækt verkefnið er og leitast við að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta svo og fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem hefur veigamiklu lögbundnu hlutverki að gegna á þessu sviði.
    Í starfi faghópsins verði haft til hliðsjónar markmið 11 í gildandi heilbrigðisáætlun, næringarráðleggingar manneldisráðs og samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar: „Global strategy on diet, physical activity and health“.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.