Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.

Þskj. 236  —  236. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 46/1980,
um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „reglugerð dómsmálaráðuneytisins“ í 1. tölul. kemur: lög og reglugerðir sem fjalla.
     b.      2. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     7.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi á viku að yfirvinnu meðtalinni ekki vera umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili fram til 31. júlí 2007. Á tímabilinu 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2009 skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi skv. 1. málsl. ekki vera umfram 56 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Vinnuveitandi skal hafa samráð við fulltrúa starfsmanna með góðum fyrirvara með það í huga að ná samkomulagi, þar sem því verður við komið, um tilhögun vinnutíma á aðlögunartímabilinu. Hlutaðeigandi samtökum aðila vinnumarkaðarins er jafnframt heimilt að gera með sér samkomulag um tilhögun vinnutíma lækna í starfsnámi á aðlögunartímabilinu. Að öðru leyti gildir 55. gr. laganna um lækna í starfsnámi.
     8.      Reglur þær sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setti fyrir gildistöku laga nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skulu halda gildi sínu þar til nýjar reglur eru settar af félagsmálaráðherra að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

3. gr.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun nr. 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, sem vísað er til í 32. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 45/2004, sbr. einnig tilskipun nr. 2000/34/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 93/
104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Þær felast meðal annars í innleiðingu á efni tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2003/88/EB, frá 4. nóvember 2003, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma (hér eftir nefnd vinnutímatilskipunin) að því er varðar vinnutíma lækna í starfsnámi, sbr. einnig tilskipun nr. 2000/34/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.
    Ákveðnar starfsstéttir voru undanþegnar gildissviði tilskipunar nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, en 22. júní 2000 gaf Evrópubandalagið út tilskipun nr. 2000/34/EB um breytingu á eldri tilskipun þar sem þær starfsstéttir sem áður voru utan gildissviðsins voru felldar undir það. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti 31. maí 2002 að fella þá tilskipun undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 58/2002. Skv. 2. gr. tilskipunarinnar bar aðildarríkjunum að innleiða efni hennar eigi síðar en 1. ágúst 2003 að undanskildum ákvæðum er fjalla um vinnutíma lækna í starfsnámi sem innleiða bar ári síðar. Hefur efni tilskipunar þessarar verið innleitt inn í íslenskan rétt með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum nr. 31/2003, um breytingu á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna, og reglugerð nr. 136/1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, sbr. umferðarlög, nr. 50/1987. Enn fremur hefur efni hennar verið nánar útfært í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Með vinnutímatilskipuninni frá árinu 2003 var efni framangreindra tilskipana sameinað í eina tilskipun. Hún var felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 23. apríl 2004 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði nefnd er var falið að fjalla um hugtakið „læknir í starfsnámi“. Nefndin skilaði áliti sínu til ráðherra en nefndin reyndist ekki vera einróma í niðurstöðu sinni. Eftir að hafa ígrundað niðurstöður nefndarinnar hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að hin faglega skilgreining á hugtakinu er eftirfarandi:
    „Læknar í starfsnámi eru:
     a.      Læknakandídatar sem hafa lokið læknaprófi en eru ekki komnir með lækningaleyfi og starfa í kandídatsstöðu sem er viðurkennd til öflunar lækningaleyfis.
     b.      Læknar sem starfa í stöðum sem auglýstar eru sérstaklega sem námsstöður vegna sérnáms og uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 305/1997, um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa.“
    Læknar í starfsnámi eru undanskildir meginefni IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem fjallar um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma, en meginreglan um daglega lágmarkshvíld og vikulegan frídag sem tengist daglegum hvíldartíma hefur gilt um vinnutíma þeirra, sbr. 2. tölul. 52. gr. a laganna. Er því lagt til með frumvarpi þessu að aðrar meginreglur vinnutímatilskipunarinnar, svo sem um hlé á vinnu, hámarksvinnutíma á viku og vinnutíma næturvinnustarfsmanna, gildi einnig um vinnutíma lækna í starfsnámi. Að því er varðar lækna í starfsnámi er aðildarríkjum engu síður veittur sérstakur aðlögunartími þannig að heimilt er að innleiða meginreglu vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda vikulegan hámarksvinnutíma í þrepum á allt að átta árum samkvæmt sérstökum skilyrðum og er veitt tiltekið svigrúm með tilliti til viðmiðunartíma vikulegs hámarksvinnutíma, sbr. 5. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Er lagt til í frumvarpi þessu að meginreglan um vikulegan hámarksvinnutíma verði innleidd hér á landi í þrepum á fimm árum. Önnur ákvæði laganna um vinnutíma koma að fullu til framkvæmda við gildistöku laganna verði frumvarpið samþykkt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 1. tölul. 52. gr. a laganna sem eru til samræmis við lög nr. 132/2003, um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum, þar sem málaflokkurinn var færður frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Enn fremur þykir eðlilegra að vísa jafnframt til þeirra laga sem reglugerðir um þetta efni eiga sér lagastoð í.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að IX. kafli um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma gildi einnig um vinnutíma lækna í starfsnámi, sbr. þó bráðabirgðaákvæði. Er því lagt til að 2. tölul. 52. gr. a laganna falli brott.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að sá aðlögunartími sem veittur er samkvæmt vinnutímatilskipuninni verði nýttur að því er varðar vikulegan hámarksvinnutíma fram til 31. júlí 2009. Þó er lagt til að sömu reglur gildi um viðmiðunartímabilið eins og um aðrar starfsgreinar sem lögin taka til. Þannig er gert ráð fyrir að miðað verði við fjögurra mánaða tímabil þegar reiknaður er út vikulegur hámarksvinnutími lækna í starfsnámi á aðlögunartímabilinu. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að reikna hámarksvinnutíma þeirra út frá viðmiðunartímabili sem má vera allt að sex mánuðir komist hlutaðeigandi samtök aðila vinnumarkaðarins að samkomulagi um það efni. Jafnframt er gert ráð fyrir að samtökum aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að ákveða með samningum að hámarksvinnutími lækna í starfsnámi skuli reiknaður út frá viðmiðunartímabili sem er allt að 12 mánuðir, að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 55. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að vinnuveitandi hafi samráð við fulltrúa starfsmanna með góðum fyrirvara með það í huga að ná samkomulagi, þar sem því verður við komið, um tilhögun vinnutíma á aðlögunartímabilinu. Slíkt samkomulag getur tekið til meðalfjölda vinnustunda á viku á tímabilinu eða ráðstafana til að fækka vinnustundum á viku í 48 klukkustundir í lok tímabilsins, sbr. 5. mgr. 17. gr. vinnutímatilskipunarinnar. Þá er hlutaðeigandi samtökum aðila vinnumarkaðarins jafnframt heimilt að gera með sér samkomulag um tilhögun vinnutíma lækna í starfsnámi á aðlögunartímabilinu innan ramma ákvæðis þessa.
    Með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, var félagsmálaráðherra falið að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Áður hafði stjórn Vinnueftirlits ríkisins sett reglurnar sem félagsmálaráðherra síðan staðfesti. Nokkur óvissa hefur orðið um gildi þeirra reglugerða sem settar voru fyrir gildistöku laga nr. 68/2003 og þykir því ástæða til að taka af allan vafa um að þær reglur sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setti fyrir gildistöku laganna haldi gildi sínu þar til nýjar reglur eru settar af félagsmálaráðherra að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.

Um 3. og 4. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980,
um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

    Með frumvarpinu er innleitt efni tilskipunar nr. 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma lækna í starfsnámi, sbr. einnig tilskipun nr. 2000/34/EB. Með tilskipuninni eru felldar úr gildi undanþágur ákveðinna starfsstétta er varða skipulag vinnutíma. Efni eldri tilskipunar nr. 2000/34/EB hefur verið innleitt með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, auk annarra lagaákvæða, en læknar í starfsnámi voru undanskildir meginefni IX. kafla laganna, sbr. 2. tölul. 52. gr. a. Frumvarpið sem hér um ræðir gerir ráð fyrir að þær undanþágur verði felldar niður og að meginreglur vinnutímatilskipunarinnar gildi einnig um vinnutíma lækna í starfsnámi. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að hámarksvinnutími lækna í starfsnámi verði í samræmi við almennar reglur frá miðju ári 2009 en breytist í áföngum þannig að vikulegar vinnustundir verði ekki umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili fram til 31. júlí 2007 og lækki eftir það um 2 klukkustundir fram til júlíloka 2009.
    Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð þar sem lögleiðing þess hefur í för með sér breytingu á skipulagi vinnu lækna í starfsnámi innan stærstu sjúkrahúsanna. Þá er óvíst hversu marga lækna þarf að ráða þegar lögin eru komin til framkvæmda að fullu, þar sem hvorki liggur fyrir hver verður þróun innan tiltekinna sérgreina né hvaða möguleikar eru á að breyta starfsskipulagi með kjarasamningum. Að óbreyttu er ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að stöðum unglækna við sjúkrahúsin fjölgi um 10 ár hvert næstu ár vegna innleiðingar tilskipunarinnar og verði um 160 til 170 í lok árs 2008. Árleg aukning útgjalda ríkissjóðs næmi þá um 35 m.kr. Þá er ekki tekið tillit til breytinga sem gætu orðið á starfsskipulagi með kjarasamningum til lækkunar á framangreindum útgjöldum, svo sem breytinga á vaktakerfi.