Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 405  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2006 og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur skýrt fram stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Fram kemur hvernig ríkisstjórnin ætlar að afla tekna og hún leggur til hvernig þeim skuli ráðstafað á einstaka málaflokka og verkefni. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað í heild sinni kemur greinilega fram sá munur sem er á áherslum núverandi meiri hluta annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar.
    Íslenskt samfélag á að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sú að allir fái notið sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefnir þjóðinni í auðhyggjusamfélag þar sem skammtímaarður og peningalegur mælikvarði er lagður á allt og alla.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðum sé dreift með sanngjörnum hætti. Stefna núverandi ríkisstjórnar í skatta- og velferðarmálum hefur þveröfug áhrif.

Efnahagslegar forsendur fjárlaga.
    Með frumvarpi til fjárlaga fylgir greinargerð fjármálaráðuneytisins um þróun helstu stærða í þjóðarbúskapnum. Þær forsendur sem fjármálaráðuneytið lagði af stað með í frumvarpi til fjárlaga hafa breyst verulega hvað varðar gengisvísitöluna og áætlaðan viðskiptahalla. Gert var ráð fyrir að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 en hún er nú rétt rúmlega 100. Ljóst var að viðskiptahallinn yrði verulegur. Í skýrslu fjármálaráðuneytis um þjóðarbúskapinn í janúar sl. er áætlað að viðskiptahallinn verði 103 milljarðar kr. Í skýrslu frá október sl. er þessi áætlun komin í 128 milljarða kr. Þá má nefna að í hagspá Landsbankans frá því í september með yfirskriftinni „Ógnarjafnvægi efnahagsmála“ er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 132 milljarðar kr. Þá er ljóst að verðbólgan verður meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2005. Í áætlunum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að gengisvísitala verði um 114 sem allsendis er óvíst að náist og að viðskiptahallinn verði 12,2% af landsframleiðslu sem er ískyggilega hátt og efnahagssérfræðingar, m.a. Seðlabankans, hafa varað alvarlega við þessu. Útflutningsgreinarnar, sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, nýsköpunin og hátæknigreinarnar berjast nú við verstu hamfarir af mannavöldum sem er efnahagsstefna ríkisstjórnar, ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar og skattalækkanir til hátekjufólks og birtist í ofurgengi krónunnar, gífurlegri skuldasöfnun þjóðarbúsins og heimilanna og háum stýrivöxtum Seðlabankans. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram á þingi sem fyrsta mál sitt í haust þingsályktunartillögu um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og fylgir hún þessu nefndaráliti sem fylgiskjal.

Efnahagsskrifstofa Alþingis.
    Fjárlagafrumvarpið er lagt fram og unnið á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins og fellur að stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og mótast af væntingum hennar. Eins og hér hefur verið bent á hafa ýmsar grunntölur þeirra væntinga á undanförnum árum verið í takmörkuðum takti við raunveruleikann. Fjárlaganefnd hefur litla möguleika til að leita annarra viðhorfa eða meta öryggi efnahagsforsendna fjármálaráðuneytis.
    Aðstæður fjárlaganefndar til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhlið frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum. Æ erfiðara hefur reynst að fá nauðsynlegar upplýsingar úr ráðuneytum um stöðu stofnana og verkefna og forsendur að baki einstökum tillögum í frumvarpinu. Í ljósi þess hve erfitt hefur reynst að fá upplýsingar er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að styrkja stöðu þingsins og nefnda þess. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað lagt til á Alþingi stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins og verið þingmönnum og nefndum þingsins til ráðuneytis um mat og tillögugerð í þeim efnum.

Fjárlög og raunveruleikinn.
    Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar skal þegar Alþingi er saman komið leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir fjárhagsárið sem í hönd fer. Fjármálaráðherra leggur frumvarpið fram fyrir hönd framkvæmdarvaldsins á fyrsta degi þingsins að hausti. Eftir það er frumvarpið á ábyrgð þingsins og fer til fjárlaganefndar sem vinnur það áfram til 2. og 3. umræðu. Nefndin hefur því aðeins tæpa tvo mánuði til að fara yfir frumvarpið, forsendur tekna og gjalda og gera á því þær breytingar sem nefndin og Alþingi telja nauðsynlegar. Þegar tekið er mið af því hvernig samþykkt fjárlög hafa staðist á undanförnum árum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið með fjáraukalögum er ljóst að frávikin eru allt of mikil. Á síðustu fimm árum hafa gjöldin að meðaltali verið 10% umfram heimildir fjárlaga eða alls um 119 milljarðar kr. Á árinu 2004 voru tekjur 21 milljarður kr. umfram áætlanir fjárlaga og gjöldin 25 milljörðum kr. hærri en heimildir fjárlaga. Fjárlög gerðu þá ráð fyrir að tekjuafgangur yrði tæpir 7 milljarðar kr. en raunin varð 2 milljarðar kr.
    Ríkisendurskoðun hefur bent á það í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga að allt of margir fjárlagaliðir hafi safnað upp verulegum halla á undanförnum árum. 2. minni hluti leggur áherslu á mikilvægi þess að til fjárlagagerðarinnar sé vandað og framkvæmdarvaldið virði lögin og fari ekki fram úr fjárheimildum. Ef rekstrarforsendur breytast og framkvæmdarvaldið sér fram á að fjárheimildir dugi ekki fyrir rekstrinum, þá verður að tryggja að beiðnir um aukafjárveitingar séu lagðar fyrir Alþingi eins og lög kveða á um áður en til útgjalda er stofnað. Því skiptir máli að fjárlagagerðin sé vönduð og gjöld til einstakra stofnana og verkefna ákveðin í samræmi við það sem vænst er af viðkomandi stofnunum en ekki reynt að ljúka fjárlagagerðinni með einhverri ímyndaðri stöðu sem lítur vel út á pappírnum en reynist svo óraunhæf þegar til kastanna kemur og veldur stofnunum ómældum erfiðleikum í starfsemi sinni. Síðan er fyrirsjáanlegur fjárskortur dreginn að landi í fjáraukalögum. Slíkt eru óviðunandi vinnubrögð. Að mati 2. minni hluta er afar brýnt að bæta vinnubrögð við fjárlagagerðina.

Staða efnahagsmála.
Ruðningsáhrif stjóriðjustefnunnar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað bent á erfiða stöðu útflutningsgreina og ferðaþjónustunnar vegna allt of hás gengis krónar. Jafnframt blasir við að sívaxandi viðskiptahalli með tilheyrandi skuldasöfnun getur ekki gengið til lengdar. Á innan við ári hefur störfum í sjávarútvegi fækkað um fimm hundruð. Útflutnings- og samkeppnisiðnaðurinn bregst við með því að leggja niður starfsemi og flytja hana úr landi. Talsmenn atvinnulífsins vítt og breitt um landið, sem og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hafa ítrekað bent á þá hættu sem ruðningsáhrif stóriðjunnar mundu hafa á hagkerfið og aðrar atvinnugreinar í landinu. Samþjöppun í stóriðjuframkvæmdum mundi stefna efnahagslegum stöðugleika í voða. Ruðningsáhrifin koma nú fram í erfiðleikum í sjávarútvegi. Þá hefur ríkisstjórnin, þvert ofan í viðvaranir hagfræðinga, ýtt undir þensluna með skattkerfisbreytingum sem koma langbest við þá efnameiri og auka þannig misskiptinguna í þjóðfélaginu.

Skattamál.
Skatttekjur ríkisins fjármagnaðar með lánum – óreglulegar skatttekjur.
    Á síðustu tveimur árum hefur allt efnahagskerfið tekið miklum breytingum. Bankarnir keppa nú við Íbúðalánasjóð um lánveitingar vegna húsnæðis og vaxtakjör hafa batnað verulega, þó að enn vanti upp á að Íslendingar njóti sambærilegra kjara og bjóðast annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi breytta staða hefur orðið til þess að verulegur hluti af einkaneyslunni hefur verið fjármagnaður með lánum. Því er rétt að fá það fram hjá fjármálaráðherra hversu mikið hann áætli að skatttekjur ríkisins lækki þegar einkaneyslan verður einungis borin uppi af raunverulegum tekjum. Nauðsynlegt er að fá þær upplýsingar fram til þess að hægt sé að meta hversu háum tekjum af vöru og þjónustu sé hægt að gera ráð fyrir á komandi árum. Það má því segja að nokkrir milljarðar króna af veltisköttum áranna 2004 og 2005 hafi verið „óreglulegar skatttekjur“. Engu að síður var reksturinn nánast í járnum árið 2004 og áætlanir gera ekki ráð fyrir miklum afgangi fyrir árið 2005 ef hagnaður af símasölunni er ekki talinn með. Tekjur ríkissjóðs eru nú í auknum mæli tilkomnar vegna skatta á viðskiptahallann, þ.e. innflutninginn. Þetta eru þensluskattar. En með því að lækka tekjuskattinn fyrst og fremst hjá hátekjufólki er verið að rýra stórlega fastan tekjugrunn ríkissjóðs.

Breytingar á skattkerfinu – vaxandi misskipting.
    Við breytingar á skattkerfinu á síðasta þingi kom skýrt fram hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þar væri gengið fram algerlega andstætt áherslum vinstri-grænna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á öfluga samfélagsþjónustu sem fjármögnuð sé af þjóðinni sameiginlega, m.a. með sköttum en ekki notendagjöldum, hvort sem það eru skólagjöld, álögur á sjúklinga eða aðra sem þurfa á þjónustunni að halda. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hins vegar endurskoða skattkerfið, gera það réttlátara og markvissara og hefur flokkurinn lagt fram þingmál í þessum efnum sem fylgir álitinu sem fylgiskjal.
    Norðurlöndin koma vel út í öllum lífsgæðakönnunum. Þar hefur hið opinbera tryggt ákveðinn jöfnuð. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka sem vinnur leynt og ljóst að því að lækka skatta þeirra sem betur mega sín og hækkar beinar álögur á þá sem höllum fæti standa og umfram aðra eru háðir öflugri samfélagsþjónustu. Gini-stuðullinn svonefndi hefur verið notaður til að bera saman launamun eða tekjuskiptingu. Jöfnuður er hvergi í heiminum meiri en á Norðurlöndum, en þar hefur þó orðið ein snögg og hastarleg breyting á síðustu árum. Ísland siglir hratt í burtu frá hinum ríkjunum á Norðurlöndum. Hérlendis hefur misskipting eða ójöfnuður aukist gríðarlega síðustu ár. Danmörk er enn það land innan OECD þar sem jöfnuður er mestur. Gini-stuðullinn fyrir Danmörku er undir 25 en því lægri sem Gini-stuðullinn er, þeim mun jafnari er tekjuskiptingin. Í fjórða, fimmta og sjötta sæti, neðan frá talið, koma svo Svíþjóð, Noregur og Finnland með Gini-stuðul rúmlega 25. Frá árinu 1995 hefur Gini- stuðullinn fyrir Ísland hækkað úr 21 í 31. Núverandi ríkisstjórn hefur því tekist á ótrúlega skömmum tíma að stórauka misskiptinguna. Eftir síðustu skattkerfisbreytingu, sem samþykkt var á síðasta þingi, færumst við nú enn hraðar frá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þessari stefnu vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð snúa við.

Tekjuskattar – skattleysismörk hafa ekki fylgt hækkun verðlags og launa.
    Þegar lög um breytingar á skattkerfinu voru samþykkt á síðasta þingi benti Vinstri hreyfingin – grænt framboð á að breytingar á tekju- og eignarskatti kæmu langbest við þá efnameiri í þjóðfélaginu. Landssamband eldri borgara lagði fram á síðasta ári útreikning sem sýnir vel að skattbyrðin hefur aukist á þeim sem hafa lægstu samfélagslaunin. Meginástæða þessa er að skattleysismörkin hafa ekki fylgt þróun verðlags eða launa. Á árinu 1988 voru skattleysismörkin við rúmar 44 þús. kr. Ef skattleysismörkin hefðu þróast með sama hætti og hækkun vísitölu neysluverðs væru þau nú rúmlega 100 þús. kr. Skattleysismörkin voru 75 þús. kr. á árinu 2005 en verða 79 þús. kr. á árinu 2006. Ef skattleysismörkin hefðu fylgt hækkun neysluverðs væru ráðstöfunartekjur af fyrstu 100 þús. kr. tekjunum tæplega 8 þús. kr. hærri en þær eru nú. Ef skattleysismörkin hefðu fylgt hækkun launavísitölu frá 1989 væru þau nú við 133 þús. kr.. Þegar einungis er horft á árin 2005 og 2006 kemur í ljós að ríkisstjórnin festi hækkun persónuafsláttar árið 2006 við 2,5%, en vísitala neysluverðs hækkar líklega um rúm 4% á árinu. Ef persónuafsláttur hefði fylgt þeirri hækkun yrðu skattleysismörkin rúm 80 þús. kr. en ekki 79 þús. kr. Ríkisstjórnin er því í raun alltaf að færa skattleysismörkin neðar. Þessi framkvæmd kemur þeim sem minnst mega sín verst en lækkunin á skattprósentunni kemur þeim best sem hafa hæstu tekjurnar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að það sé lágmarkskrafa að skattleysismörk fylgi almennum verðlagsbreytingum.

Breyting á skattkerfinu – eigna- og fjármagnssköttum.
    Tekjumyndun í þjóðfélaginu hefur breyst gífurlega á síðustu árum. Sífellt fleiri Íslendingar hafa mjög háar tekjur af eignum sínum. Þær tekjur bera 10% skatt en skattprósentan á launatekjur er um 37%. Til þess að jafna og gera skattlagninguna réttlátari hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar hækki úr 10% í 18% eftir að 120 þús. kr. fjármagnstekjum er náð. Í fylgigögnum með frumvarpinu eru dæmi sem sýna að skattlagning fjármagnstekna er almennt lægri hér á landi en í flestum viðmiðunarlöndum okkar. Núverandi ríkisstjórn létti skattbyrðinni mest af stóreignamönnum þegar eignarskatturinn var afnuminn. 2. minni hluti leggur til að nú þegar stór hluti tekna í þjóðfélaginu skapast af eignum verði skattbyrði réttlátari með því að jafna betur skattana á milli tekna af launum og fjármagns- og arðgreiðslna. Frumvarpið fylgir áliti þessu sem fylgiskjal.

Gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins.
    Áherslur ríkisstjórnarinnar koma vel fram þegar aukning á útgjöldum einstakra ráðuneyta undanfarin ár er skoðuð. Hækkun á fjárlögum 2004 til frumvarpsins 2006 er rúm 14%. Hækkunin á fjárlagaliðum utanríkisráðuneytis er þó mest eða tæp 37%. Verulegur hluti aukningarinnar er vegna aukins framlags til þróunarmála og alþjóðlegs hjálparstarfs. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að framlög til þróunarhjálpar þurfi að auka en ríkisstjórnin hefur sett verulegar fjárhæðir undir þennan lið sem tengist aðstoð við friðargæslu sem reynist síðan í raun tengjast hernaði Bandaríkjamanna og NATO í Afganistan og Írak. Illu heilli studdu forustumenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins innrás Bandaríkjamanna í Írak og eru enn tengdir þeim hernaði og hörmungum sem dynja á íbúum hins stríðshrjáða lands. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mótmælt þátttöku Íslendinga í þessum hernaði .
    Þegar hefur verið gagnrýnt í umræðu um frumvarp til fjáraukalaga að skrifstofa utanríkisráðuneytis og kostnaður við sendiráðin skuli hafa farið verulega fram úr fjárheimildum á undanförnum árum.
    Sérstaka athygli vekur að í mörgum tilfellum virðast gilda önnur lögmál um aðhald og sparnað hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna en hjá undirstofnunum þeirra. Þar má nefna að þrátt fyrir að ákveðin verkefni verði færð frá aðalskrifstofum landbúnaðar- og samgönguráðuneyta með stofnun Landbúnaðarstofnunar og Ferðamálstofu kemur það aðeins að litlu leyti fram í breyttum fjárheimildum til þeirra sjálfra.

Menntamál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að undirstaða framfara í mörgum atvinnugreinum byggist á góðri háskólamenntun. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram frumvarp um að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum verði óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla. Mikilvægt er að tryggja sem best aðgengi að háskólanámi á Íslandi og að tryggt sé að staða Lánasjóðs íslenskra námsmanna sé þannig að sjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu.
    Menntamálaráðherra hefur tekið þá einhliða ákvörðun að Listdansskóli Íslands verði lagður niður. Þeirri ákvörðun má sjá stað í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem fjárheimildir skólans eru skornar niður um 25 millj. kr. frá fjárlögum síðasta árs. Með þessari aðgerð ræðst menntamálaráðherra sjálfur gegn því mikla starfi sem óeigingjarnir unnendur danslistarinnar hafa lagt af mörkum í rúm 50 ár. Ákvörðun ráðherrans var tekin án nokkurs samráðs við fagfólk í greininni, sem lýsir slíku skilningsleysi og vanþekkingu á eðli listdanskennslu að ekki er sæmandi ráðherra menntamála. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þessari ákvörðun og krefst þess að hún verði dregin til baka. Þá er lagt til að veitt verði 50 millj. kr. viðbótarfjárveiting til að tryggja áframhaldandi rekstur skólans.
    Framlög ríkisins til tónlistarkennslu í framhaldsskólum falla að óbreyttu niður um næstu áramót. Ábyrgð ríkisins og staða tónlistarnáms í skólakerfinu í heild sinni er fullkomlega í lausu lofti þrátt fyrir fyrirheit um annað. Er það harðlega gagnrýnt. Lagt er til að 40 millj. kr. verði varið til að standa að tónlistarnámi í framhaldsskólum á næsta ári með hliðstæðum hætti og var gert á þessu ári.
    Áfram er gert ráð fyrir að nám til stúdentspróf verði stytt í þrjú ár. Á það hefur verið bent, m.a. af mörgum framhaldsskólakennurum, að markmiðið með styttingu námsins sé sparnaður fyrir ríkissjóð á kostnað menntunarstigsins. Ætlunin er að færa hluta þess náms sem nú fer fram í framhaldsskólum niður í grunnskólann. Hvergi hefur komið fram að búið sé að semja við sveitarfélögin um að taka við því námi og axla þann kostnað sem í því felst. 2. minni hluti leggur því til að horfið sé frá styttingu náms til stúdentsprófs og þeim fjármunum, 90 millj. kr., sem til þess er ætlað verði varið til Listdansskólans og tónlistarnáms í framhaldsskólum.
    Varðandi stöðu menntamála og annarra verkefna á sviði menntamálaráðuneytis er vísað til meðfylgjandi álits 2. minni hluta menntamálanefndar.

Heilbrigðis- og tryggingamál, kjör og þjónusta við aldraða.
    Allt of margir fjárlagaliðir heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins hafa safnað halla á undanförnum árum. Samkvæmt ríkisreikningi var hallinn alls um 2,6 milljarðar kr. í árslok 2004. Þessi staða er óviðunandi og ekki er tekið á þessum vandamálum að neinu marki í fjárlagafrumvarpinu. Það er því ljóst að miðað við óbreytt rekstrarumfang verður reksturinn umfram heimildir á árinu 2006. Aðrir fjárlagaliðir eiga ónýttar fjárheimildir. Þegar staða ráðuneytisins er birt í einni tölu jafnast hallinn út fyrir ráðuneytið í heild sinni en það gefur ekki rétta mynd af stöðunni. Nauðsynlegt er að tekið sé á þessum málum við fjárlagagerðina.
    Ljóst er að veruleg fjárvöntun er hjá flestum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum í landinu.
    Nauðsynlegt er að gjörbreyta áherslum í almannatryggingakerfinu. Í stað þess að nota hugtökin „bætur“ og „bótaþegi“ um þá sem fá greiðslur úr almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum ber að tala um „laun“ og „launþega“ til að leggja áherslu á þann rétt sem hverjum einstaklingi ber til tekna, hvort sem um er að ræða atvinnutekjur eða samfélagslaun. Lífeyrir þarf að taka mið af framfærslukostnaði og hækka samkvæmt launavísitölu.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að auka þurfi framlög til aldraðra og tryggt verði að eldri borgarar þessa lands njóti mannsæmandi kjara og aðbúnaðar. Ríki og sveitarfélög þurfa að koma málum þannig fyrir að aldraðir geti notið heimaþjónustu sem lengst og einnig þarf að fjölga mjög hjúkrunarrýmum. Lagðar eru fram tillögur til að styrkja stöðu heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og til elli- og hjúkrunarheimila. Þá er lagt til að fallið sé frá skerðingu á Framkvæmdasjóði aldraðra og að fjármagn hans renni óskipt til stofnkostnaðar eins og ætlunin er. Vísað er til álita 2. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar og minni hluta félagsmálanefndar varðandi frekari áherslur í þessum efnum. Þessum málaflokki verða svo gerð ítarleg skil við 3. umræðu fjárlaga.

Málefni öryrkja.
    Í mars 2003 undirrituðu Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Samkomulag þetta var samþykkt í ríkisstjórninni. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu er gert ráð fyrir að þessar viðbótargreiðslur nemi rúmum 1 milljarði kr. Með samkomulaginu er komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en fram til þessa hefur eitt og sama almannatryggingakerfið gilt fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega. Þar náðist tímamótaáfangi í baráttu fyrir viðurkenningu á sérstöðu ungra öryrkja. Samkvæmt samkomulaginu hefur starfshópur unnið að tillögum að lagabreytingum og nánari útfærslu á framkvæmdinni. Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins í október sl. kom fram í máli formanns bandalagsins, sem jafnframt á sæti í umræddri nefnd, að um 1,5 milljarða kr. þurfi á fjárlögum næsta árs til að fullnusta þetta tímamótasamkomulag ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins.
    Flutt er tillaga um að staðið verði við samninginn við öryrkja frá 2003.

Hlúa að barnafjölskyldum – gjaldfrjáls leikskóli í áföngum.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar auknum framlögum til barnabóta í frumvarpinu. Til lengri tíma litið er það eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að foreldrum séu sköpuð skilyrði til samveru með börnum sínum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft forustu í umræðunni um gjaldfrjálsan leikskóla og þingflokkurinn hefur í tillögu til þingsályktunar lagt til að unnið verði að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum. Slíkt jafnar aðstöðu barnafjölskyldna og gefur þeim aukið tekju- og fjölskyldulegt svigrúm. Til þess að þetta verði mögulegt er lagt til að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með sérstakri fjárveitingu til að hrinda í framkvæmd fyrsta áfanga áætlunar um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir alla. Nánar er gerð grein fyrir þessu máli í meðfylgjandi þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um gjaldfrjálsan leikskóla.

Umhverfismál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að efla stofnanir á þessu sviði og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu.
    Lögð er áhersla á að auka fjárframlög til þjóðgarða og friðlýstra svæða og landvörslu. Vakin er athygli á að hvergi er ætlað fjármagn til náttúruverndaráætlunar, sem þó hefur verið samþykkt hér á Alþingi. Vísað er til álits 2. minni hluta umhverfisnefndar, frá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni.

Lokaorð.
    Allmargar beiðnir um upplýsingar um fjárlagavinnuna liggja óafgreiddar hjá ráðuneytum og á nefndin eftir að kalla fulltrúa nokkurra stofnana á sinn fund til að gefa skýringar áður en hægt er að ljúka fjárlagagerðinni.
    Flutningsmaður hefur ítrekað lagt til breytt vinnulag við gerð fjárlaga og sýnist það aldrei brýnna en nú. Nauðsynlegt er að fjárlaganefnd taki til efnislegrar umræðu stöðu fjárlaga og raunkostnaðar bæði á vor- og haustþingi. Það verklag sem nú viðgengst, að koma eftir á með óskir um samþykki á útgjöldum umfram heimildir, er ekki í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins.
    Áætlað er að tekjur ríkisins verði alls 334 milljarðar kr. á árinu 2006. Það er hækkun um rúma 24 milljarða kr. frá fjárlögum 2005, eða 8,6%.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 og tillögum sem liggja fyrir frá ríkisstjórninni og meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári nemi um 315 milljörðum kr. Samkvæmt því, er eins og áður, sagði gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs dragist saman frá yfirstandandi ári. Þó er ljóst að framlög til fjölmargra málaflokka eru óafgreidd og bíða þau úrvinnslu og afgreiðslu við 3. umræðu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfið og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Aðhaldsaðgerðir bitna mest á öldruðum, sjúklingum, öryrkjum og þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Breytingar á skattkerfinu hafa aukið misskiptingu verulega þar sem skattar þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hafa lækkað verulega.
    Fjölmargir málaflokkar fjárlaga bíða afgreiðslu við 3. umræðu. Nánar verður gerð grein fyrir afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til fjárlagafrumvarpsins þegar lokaútgáfa þess liggur fyrir við 3. umræðu.

Alþingi, 23. nóv. 2005.



Jón Bjarnason.




Fylgiskjal I.


Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.
(Þskj. 141, 141. mál.)


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,
Hlynur Hallsson, Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    Í stað „13,03%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 14,03%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta felur í sér þá einföldu breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að rýmka heimildir þeirra til álagningar útsvars um eitt prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Frumvarpið er flutt í beinum tengslum við þegar lögfest áform ríkisstjórnarinnar um að halda áfram lækkun tekjuskatts um sama hundraðshluta, þ.e. eitt prósentustig um næstu áramót. Samanlagt álagningarhlutfall tekjuskatts og hámarks útsvarsheimildar mun því haldast óbreytt nái frumvarpið fram að ganga og vera 37,78%. Hvergi yrði því um skattahækkun að ræða en lækkunin réðist af því í hve miklum mæli sveitarfélögin nýttu sér aukið svigrúm til útsvarshækkunar á móti lækkun á tekjuskatti til ríkissjóðs. Sams konar frumvarp var flutt á síðasta þingi (þskj. 194 á 131. löggjafarþingi) í tengslum við þá skattalækkun sem þá var framundan og tók gildi 1. janúar 2005. Það frumvarp náði ekki fram að ganga. Ekki er síður þörf nú en þá að gripið verði til róttækra aðgerða til að bæta óviðundi afkomu sveitarfélaganna. Engin varanleg úrlausn er fólgin í þeim takmörkuðu og tímabundnu aðgerðum sem niðurstaða síðustu endurskoðunarnefndar um tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, þá loksins hún leit dagsins ljós í marsmánuði 2005, felur í sér. Þær tillögur eru að mestu bundnar við ráðstafanir sem hanga á því að sveitarfélög sameinist og framlögin verði að stærstum hluta tímabundin.
    Það er skoðun flutningsmanna að ekki verði undan því vikist að grípa til ráðstafana til að bæta stöðu sveitarfélaganna. Afkoma þeirra, sem vissulega er mismunandi, er í það heila tekið óviðunandi og hefur verið svo lengi. Þannig hafa sveitarfélögin sem heild verið gerð upp með halla og safnað skuldum nokkurn veginn samfellt í einn og hálfan áratug. Teljist ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem vissulega má deila um, hlýtur því að vera nærtækast að færa þær tekjur a.m.k. að einhverjum hluta yfir til sveitarfélaganna. Á sveitarfélögunum standa miklar og vaxandi kröfur um þjónustu, þau hafa tekið við ýmsum nýjum verkefnum og fengið á herðar sínar nýjar skyldur, svo sem á sviði umhverfismála sem snerta eftirlit og leyfisveitingar svo dæmi sé tekið, sem ekki hafa fylgt auknir tekjumöguleikar. Í samskiptum við ríkisvaldið virðist sífellt sækja í það far að það halli á sveitarfélögin. Með yfirtöku kostnaðarsamra málaflokka hafa sveitarfélögin, hvað sem líður deilum um fullnægjandi tekjustofna á móti, óumdeilanlega fengið með í kaupunum miklar væntingar um úrbætur og aukin útgjöld, eins og sannast í tilviki grunnskólans. Í ýmsum samstarfsverkefnum hallar á sveitarfélögin með því að ríkið bindur kostnaðarþátttöku sína við framlög á fjárlögum sem oftar en ekki hrökkva hvergi nærri fyrir því kostnaðarhlutfalli sem ríkinu er að nafninu til ætlað að standa straum af. Dæmi um þetta eru húsaleigubætur og eyðing refa og minka. Svipaða sögu er einnig að segja af ákveðnum stofnkostnaðarverkefnum þar sem ætlunin er að ríki og sveitarfélög deili kostnaðinum. Óraunhæf kostnaðarviðmið eða norm valda því að ríkið leggur iðulega minna af mörkum hlutfallslega að lokum en ætlunin er, jafnvel samkvæmt lögbundnu kostnaðarhlutfalli. Loks er þess að geta að sveitarfélögin hafa orðið fyrir tekjutapi vegna ákvarðana um mál, óskyld þeim, svo sem um hagstæðara skattalegt umhverfi einkahlutafélaga sem leitt hefur til mikillar fjölgunar þeirra og tekjutaps sveitarfélaganna í formi minni útsvarstekna á móti sem talið er nema milljarði kr. eða liðlega það.
    Svigrúm sveitarfélaganna til sjálfstæðra ákvarðana í uppbyggingu og rekstri og til umbóta, t.d. í félags- og umhverfismálum eða til að hlúa að nýsköpun í almennu atvinnulífi, er afar takmarkað eins og að líkum lætur í ljósi bágrar fjárhagsstöðu þeirra upp til hópa. Tilvist sveitarfélaganna einkennist af varnarbaráttu og sóknarfæri verða fá. Slíkt er óviðunandi því auðvitað þurfa sveitarfélögin að geta þróað og byggt upp þjónustu sína og tekið skref fram á við til eflingar velferðarsamfélagsins sem þau leggja ekki síst grunn að. Sem dæmi um slík verkefni má nefna það baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leikskóladvöl verði gerð gjaldfrjáls með sérstöku samstarfsverkefni sveitarfélaganna og ríkisins, en flutningsmenn þessa frumvarps flytja jafnframt um það tillögu á yfirstandandi þingi. Sama gildir um möguleika þeirra til að bæta kjör starfsmanna sinna og koma til móts við kröfur um launahækkanir, þó réttmætar og nauðsynlegar séu til að sveitarfélögin geti verið samkeppnisfær um hæft starfsfólk. Sú spennitreyja sem sveitarfélögin eru í að þessu leyti kristallaðist í kennaradeilunni á síðasta ári. Alvarlegast er þó auðvitað að áframhaldandi fjárhagsvandi sveitarfélaganna grefur almennt séð undan þeirri mikilvægu nærþjónustu og þeim umhverfis- og velferðarverkefnum sem sveitarfélögin hafa með höndum. Þannig veikjast undirstöður velferðarsamfélagsins og sveitarstjórnir sjá sig jafnvel knúnar til óyndisúrræða eins og að selja eignir og láta af hendi aðstöðu sem þó er ómissandi fyrir undirstöðu samfélagsþjónustu á þeirra vegum.
    Tekjutap ríkissjóðs vegna áformaðrar eins prósentustigs lækkunar tekjuskatts verður væntanlega nálægt fimm og hálfum milljarði kr. brúttó en fjórum og hálfum milljörðum kr. nettó. Sé heimild sveitarfélaganna til hækkunar útsvars aukin að sama skapi og fari úr 13,03% í 14,03%, þá gæfi það sveitarfélögunum svigrúm af sömu stærðargráðu til að auka útsvarstekjur sínar, sbr. fylgiskjal I. Það ber þó að taka skýrt fram í þessu sambandi að ónotaðar eru hjá sveitarfélögunum heimildir til álagningar útsvars nálægt þrjú hundruð millj. kr. Er það talsverð breyting frá fyrra ári en þá námu ónýttar heimildir samtals yfir milljarði kr. Breytingin stafar af því að allmörg sveitarfélög hækkuðu útsvar sitt á árinu, flest með því að fara upp í þakið 13,03%. Óvíst er í hve ríkum mæli þau sveitarfélög sem eiga ónýttar heimildir fyrir mundu nýta sér aukið svigrúm. Einnig er ekki víst að öll sveitarfélög sem fullnýta heimildir sínar nú mundu nota sér aukið svigrúm til útsvarsinnheimtu, a.m.k. ekki þegar í stað. Hér ber einnig að leggja áherslu á mismunandi stöðu sveitarfélaganna, samspil eigin tekna þeirra og úthlutunar úr jöfnunarsjóði og fleira sem máli skiptir. Því fer fjarri að flutningsmenn telji þá ráðstöfun sem frumvarpið gengur út á einhverja allsherjarlausn. Æskilegast væri að breytingar af þessu tagi væru liður í heildarendurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem nauðsynlega þarf að fara fram og er forsenda þess að hægt sé í framhaldinu að ráðast í áfanga til eflingar sveitarstjórnarstiginu. Auknar heimildir til innheimtu útsvars væru þó skref í rétta átt fyrir sveitarfélögin. Þær mundu auka nokkuð svigrúm þeirra og sjálfstæði hvað varðar tekjuöflun og ef slíkri aðgerð yrði fylgt eftir með breytingum á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs, þannig að framlög sjóðsins nýtist til enn frekari tekjujöfnunar og jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaganna, þá gæti það orðið til umtalsverðra bóta. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að auðvitað nýtast sveitarfélögunum misvel eðli málsins samkvæmt heimildir til hækkunar útsvars. Útsvarið er eftir sem áður langstærsti einstaki tekjustofn sveitarfélaganna, og skilar yfir 60% af tekjum þeirra, þannig að eigi að gera umtalsverðar ráðstafanir til að auka tekjur þeirra er erfitt annað en útsvarið komi þar a.m.k. við sögu.




Fylgiskjal II.


Tillaga til þingsályktunar um samstarfsverkefni ríkis
og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla.

(Þskj. 26, 26. mál.)


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Hlynur Hallsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipi án tilnefningar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi hefur verið flutt á tveimur síðustu þingum, en varð í hvorugt skiptið útrædd. Tillagan er nú endurflutt óbreytt, en efni greinargerðarinnar er uppfært í samræmi við þróun þessara mála hjá sveitarfélögunum. Frá því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði baráttuna fyrir gjaldfrjálsum leikskóla að einu helsta baráttumáli sínu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hefur heilmikil þróun orðið í málefnum leikskóla. Þeim sveitarfélögum fjölgar ört sem þegar hafa tekið skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla og a.m.k. eitt dæmi er um sveitarfélag sem tekið hefur skrefið til fulls, þ.e. Súðavíkurhrepp. Til að afla upplýsinga um stöðu þessara mála hjá einstökum sveitarfélögum ákvað þingflokkur vinstri-grænna að skrifa öllum sveitarstjórnum í landinu bréf nú í haust, sjá fylgiskjal I, og eru þær upplýsingar sem borist hafa birtar með tillögunni sem fylgiskjal II. Rétt er að taka strax fram að þessar upplýsingar eru örugglega ekki tæmandi, en gefa þó nokkuð skýra mynd af því á hvaða hreyfingu málin eru.
    Félagsmálanefnd hefur haft efni tillögunnar til skoðunar undanfarna tvo vetur og í umsögnum sem nefndinni bárust um málið var yfirleitt tekið vel í meginefni tillögunnar. Eðlilega lögðu umsagnaraðilar á það áherslu að sveitarfélögin þyrftu að fá fullnægjandi tekjustofna til að takast á við verkefnið. Sú hefur að sjálfsögðu alltaf verið ætlun flutningsmanna, sbr. upphaflega greinargerð með tillögunni, á þskj. 4 í 4. máli 130. löggjafarþings, en ástæða er til að undirstrika mikilvægi þessa í ljósi bágrar afkomu sveitarfélaganna nú um stundir. Síðla árs 2004 tók Reykjavíkurborg fyrstu skrefin í átt til gjaldfrjáls leikskóla en frá 1. september 2004 hafa öll fimm ára börn átt kost á þriggja tíma leikskóladvöl á dag endurgjaldslaust (sjá fylgiskjal III, Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur).
    Nokkuð er um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsheitið leikskólakennari var tekið upp. Þegar af þeirri ástæðu leiðir að fá haldbær rök eru til þess að foreldrar greiði dýrum dómum fyrir skólahaldið sjálft, þ.e. leikskólamenntun, á fyrsta skólastiginu en hætti því svo skyndilega þegar börnin hafa náð grunnskólaaldri. Í leikskólastefnu Félags leikskólakennara er tiltekið að „leikskólinn eigi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og því skuli sveitarfélög vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á 6 tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds“. Að baki liggur það mat leikskólakennara að minnst sex klukkustundir á dag þurfi til að unnt sé að framfylgja ákvæðum aðalnámskrár leikskóla og sinna öllum námssviðum (hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu og samfélagi), þannig að þetta skarist og sé samofið leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikniþjálfun eins og vera ber.
    Niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn. Sú kjarabót mundi skila sér beint til fjölskyldna sem eru í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað. Um leið yrði tekið stórt skref í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er um að ræða yngstu foreldrana sem jafnframt eru að koma sér fyrir í lífinu og margir að koma út úr skólum með námslán á bakinu, eru að leysa húsnæðismál sín o.s.frv. Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar um og yfir 30 þús. kr. fyrir níu tíma á dag. Fjölskyldur með tvö börn á leikskóla borga yfirleitt um 50 þús. kr. á mánuði því að ekki er óalgengt að systkinaafsláttur sé 30–35% með öðru systkini. Dæmi eru um fjölskyldur sem borga upp undir 60 þús. kr. í leikskólagjöld á mánuði fyrir þrjú börn (systkinaafsláttur með þriðja barni 75%) og þarf slík fjölskylda um 100 þús. kr. viðbótartekjur á mánuði til að standa straum af útgjöldunum að teknu tilliti til skatta. Þess ber að geta að sérstakur afsláttur er yfirleitt veittur fyrir börn einstæðra foreldra og öryrkja og námsmenn greiða a.m.k. sums staðar nokkru lægra gjald. Í þessum efnum er þó talsverður munur milli sveitarfélaganna og þess eru jafnvel dæmi að lítill eða alls enginn greinarmunur sé gerður á gjöldum foreldra með tilliti til félagslegra aðstæðna. Til glöggvunar er gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur birt sem fylgiskjal með tillögu þessari en rétt er að hafa í huga það sem áður sagði um mismun milli sveitarfélaga.
    Ekki verður um það deilt að það er mikið jafnaðar og jafnréttismál í nútímasamfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags. Flutningsmenn tillögunnar líta á breytingar í þessa átt sem lið í því að gera samfélagið fjölskylduvænna og styrkja undirstöður velferðar í landinu. Sérstök ástæða er til að huga að stöðu fjölskyldna nýrra Íslendinga í þessu sambandi.
    Nefnd sú sem tillagan gerir ráð fyrir að verði skipuð þarf í starfi sínu að móta stefnu um hvernig réttindi foreldra til leikskóladvalar barna sinna, eða eftir atvikum annarrar sambærilegrar og viðurkenndrar dagvistunar ef um hana er að ræða, verða látin haldast í hendur við skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn. Ljóst er að það mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma að gera leikskólastigið í heild sinni gjaldfrjálst og gera ráðstafanir til að fullnægja eftirspurn í takt við réttindi foreldra og skyldur sveitarfélaga samkvæmt hinni nýju skipan. Því er eðlilegt að verkefnið verði unnið í áföngum, t.d. með því að gera síðasta árið fyrir grunnskóla gjaldfrítt fyrst. Einnig er eðlilegt að veita sveitarfélögunum ákveðinn aðlögunartíma, þeim sem þess þurfa með, þar til þeim verði skylt að anna eftirspurn að fullu. Síðan koll af kolli uns því takmarki er náð að allt leikskólastigið, og eftir atvikum önnur sambærileg og viðurkennd dagvistun, sé gjaldfrjálst.

Tekjustofnar og kostnaður.
    Ljóst er að niðurfelling leikskólagjalda kallar á endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður sveitarfélaganna vegna leikskóla nam um 11,8 milljörðum kr. á árinu 2004 en á móti komu tekjur vegna leikskólagjalda upp á 3,3 milljarða kr., eða rétt um 28%. Þess ber að geta að með breyttum reikningsskilaaðferðum þar sem húsnæðiskostnaður reiknast með hækka kostnaðartölur nokkuð miðað við árin fram til 2001.
    Ljóst er að sveitarfélögin í landinu eru ekki aflögufær eins og afkomu þeirra er háttað heldur þvert á móti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið talsmenn þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna og bæta fjárhag þeirra, t.d. með hlutdeild í fleiri og breiðari tekjustofnum en nú. Með auknu hlutverki á sviði velferðarmála og umhverfismála og sökum allrar þeirrar mikilvægu nærþjónustu sem sveitarfélögum er ætlað að inna af hendi er ljóst að barátta fyrir öflugu samábyrgu velferðarsamfélagi er um leið barátta fyrir því að sveitarfélögin hafi fjárhagslegt bolmagn og aðstöðu til að leysa hlutverk sitt vel af hendi. Af þeim sökum er gengið út frá því að tekjustofnar komi á móti þeim kostnaði sem sveitarfélögin bæta smátt og smátt á sig með niðurfellingu leikskólagjalda. Einnig gæti ríkið létt einhverjum verkefnum af sveitarfélögunum, t.d. greiðslu húsaleigubóta, en það er einmitt stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þær verði færðar til ríkisins og inn í skattkerfið. Því fylgdi sá kostur að hægt væri að taka upp samræmd húsnæðisframlög þar sem samræma mætti á einum stað innan skattkerfisins vaxtabætur annars vegar og stuðning við leigjendur eða húsaleigubætur hins vegar. Útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubóta urðu nálægt 980 millj. kr. árið 2002, 1.280 millj. kr. árið 2003, 1.460 millj. kr. árið 2004 og stefna í að verða um 1.600 millj. kr. á yfirstandandi ári samkvæmt endurskoðaðri áætlun. Ef ríkið tæki að fullu á sig kostnað vegna húsaleigubóta stæðu því eftir nálægt 1.700 millj. kr. sem bæta þyrfti sveitarfélögunum þegar leikskólagjöld hefðu verið felld niður í heild. Hver áfangi á leið til fulls gjaldfrelsis gæti þannig kostað einar 600–9.000 millj. kr. í aukin rekstrarútgjöld ef miðað er við að tekið yrði eitt ár í einu og fjöldi barna í leikskólum héldist svipaður. Með þessu er hins vegar ekki öll sagan sögð. Ljóst er að réttur til gjaldfrjálsrar leikskóladvalar og skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn þurfa að haldast í hendur. Verður því að gera ráð fyrir talsverðum stofnkostnaði til að anna aukinni aðsókn og samsvarandi auknum rekstrarkostnaði. Engin ástæða er til að draga dul á að um aukin útgjöld verður að ræða að því marki sem eftirspurn vex eftir leikskóladvöl samfara áföngum í átt til fulls gjaldfrelsis. Á móti kemur að um mikilsvert félagslegt og menntunarlegt framfaramál er að ræða. Ástæða er til að ætla að slíkum aðgerðum geti einnig fylgt þjóðhagslegt hagræði sem fram kæmi á öðrum sviðum, svo sem í aukinni framleiðni og samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Mest um vert er þó að þetta er réttlætismál sem jafnar lífskjör og framkallar breytingar í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er sem sagt á ferðinni aðgerð sem treystir undirstöður samábyrgs velferðarsamfélags í landinu og byggir það upp, en af slíku höfum við séð allt of lítið fjöldamörg undangengin ár. Hvað sem áformum um gjaldfrjálsan leikskóla líður hljóta tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að verða til skoðunar á næstunni, þó ekki væri nema vegna þess að skuldasöfnun og bág afkoma of margra sveitarfélaga er vandamál sem taka verður á.
    Þess ber að lokum að geta að bæði hérlendis og erlendis má finna dæmi um hreyfingu í þá átt að draga úr eða fella niður gjaldtöku í leikskólum. Þannig er kveðið á um breytingar í þá veru í málefnasamningi Reykjavíkurlistans, núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, og er fyrsti áfanginn í þá átt þegar kominn til framkvæmda eins og áður sagði. Í Svíþjóð var ókeypis leikskóladvöl, a.m.k. fyrir eldri leikskólabörn, eitt af baráttumálum vinstri flokkanna í síðustu kosningum og eru fyrstu áfangar breytinga í þá átt nú að koma til framkvæmda þar í landi.



Fylgiskjal III.


Tillögugrein tillögu til þingsályktunar um aðgerðir
til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

(Þskj. 5, 5. mál.)


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,
Hlynur Hallsson, Ögmundur Jónasson.


    Með hliðsjón af mikilvægi þess að:
     a.      verðbólga náist sem fyrst niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans,
     b.      stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur,
     c.      sjálfbær þróun verði leiðarljós í orku- og atvinnumálum og þróun þjóðlífsins almennt,
     d.      tryggja útflutnings- og samkeppnisgreinum viðunandi starfsskilyrði,
     e.      bæta skilyrði til nýsköpunar í atvinnulífinu og til uppbyggingar sprotafyrirtækja,
     f.      draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun,
     g.      viðhalda stöðugleika í fjármálakerfinu og halda aftur af skuldasöfnun heimilanna,
     h.      jafnvægi náist á nýjan leik í þjóðarbúskapnum almennt,
ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:
     1.      Gefa út formlega yfirlýsingu um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila stuðlað að né veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2012. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga.
     2.      Beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi.
     3.      Beina þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að íhuga vandlega að beita aukinni bindiskyldu hjá innlánsstofnunum, a.m.k. tímabundið, til að draga úr þenslu á peningamarkaði og huga að öðrum aðgerðum sem stutt geta viðleitni stjórnvalda til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.
     4.      Yfirfara aðferðir við mælingar á þróun verðlags og athuga sérstaklega hvernig vænlegast sé að meta húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs.
     5.      Tryggja aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að leggja fyrir Alþingi nú í haust árið 2005 tillögur um að falla frá eða fresta eftir atvikum a.m.k. hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar voru fram í tímann í desember 2004. Í staðinn komi aðgerðir til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins og barnafjölskyldna.
     6.      Efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja, og aldraðra, og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir þessar og þátttöku í að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.



Fylgiskjal IV.


Úr frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
nr. 90/2003, með síðari breytingum.

(Þskj. 31, 31. mál á 132. löggjafarþingi.)


Flm.: Ögmundur Jónasson, Hlynur Hallsson, Kolbrún Halldórsdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon.


1. gr.

    Í stað orðanna „10% af þeim tekjum“ í 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: 18% af þeim tekjum sem eru umfram 120.000 kr. á ári.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „10% af þessum tekjum“ í 3. mgr. kemur: 18% af þessum tekjum.
     b.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Skal hann vera 18% af þeim tekjum.
     c.      Í stað orðanna „10% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: 18% tekjuskatti af slíkum vöxtum að tekjuári loknu.
     d.      Í stað orðanna „10% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu“ í 5. málsl. 4. mgr. kemur: 18% tekjuskatti af slíkum tekjum að tekjuári loknu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006 og koma til framkvæmdar þá þegar vegna tekna á árinu 2006.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (7. mál) en var ekki afgreitt. Málið er nú flutt að nýju óbreytt að undanskildri dagsetningu á gildistöku. Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. Miðað við forsendur frumvarpsins má áætla að fjármagnstekjur ársins 2004 hefðu orðið rúmir 10 milljarðar kr. á rekstrargrunni í stað 7 milljarða kr., eða 3 milljörðum kr. hærri.
    Í frumvarpi til fjárlaga árið 2006 er gert ráð fyrir 12.300 millj. kr. fjármagnstekjuskatti á rekstrargrunni. Miðað við forsendur frumvarpsins yrðu tekjur af fjármagnsskatti rúmir 17 milljarðar kr., eða sem svarar aukningu upp á rúma 5 milljarða kr.
    Greinargerðin sem fylgdi frumvarpinu á 131. löggjafarþingi var að öðru leyti svohljóðandi:
    „Lagt er til að sett verði skattleysismörk við 120 þús. kr. fjármagnstekjur á ári hjá einstaklingum. Gera má ráð fyrir að við það verði rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.
    Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni, sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir.
    Vinnandi fólk greiðir af launum sínum rúm 38,5% að samanlögðum tekjuskatti og útsvari og allt að 45% að viðbættum hátekjuskatti. Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem þiggja hluta tekna sinna af hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur. Af þeim greiða þeir, eins og fyrr segir, aðeins 10% skatt.
    Flutningsmenn vilja að brugðist verði við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa. Þá mun sú lagabreyting sem hér er lögð til afla ríkissjóði aukinna tekna til að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu.
    […]“



Fylgiskjal V.


Álit



um 1. gr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2006, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er alltaf háð talsverðri óvissu enda byggist hún á spá um útlit og horfur á ókomnu ári. Þegar borinn er saman ríkisreikningur og fjárlög fyrir árið 2004 eru frávikin 20.410 millj. kr. eða 7,2% og á þessu ári stefnir í enn meiri frávik frá fjárlögum en áður. Gjaldahlið fjárlaga er vanáætluð ár eftir ár og ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að útgjaldaspáin byggist annaðhvort á óskhyggju og óraunsæi eða löngun til að fegra myndina við framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Þegar fjárlög eru borin saman við ríkisreikning á sl. fimm árum eða árin 2000–2004 kemur í ljós að útgjöld hafa samanlagt farið tæplega 120 milljarða kr. fram úr áætlun, eða sem nemur 24 milljörðum kr. að meðaltali árlega en það er að meðaltali 10% frávik frá fjárlögum.
    Við yfirferð á fjárlagafrumvarpinu í efnahags- og viðskiptanefnd hefur sú skoðun komið fram hjá greiningardeildum bankanna að myndast hafi tómarúm þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Greiningardeildirnar búi ekki yfir þjóðhagslíkönum og það geri þeim erfitt um vik. Allar sjálfstæðar spár séu því ákveðnum annmörkum háðar. Þetta dregur athyglina að því hversu háðir stjórnmálamenn og allir aðilar á markaði eru upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu sem hvorki getur talist sjálfstæður né óvilhallur aðili.
    Tekjuspá fyrir árið 2006 er háð meiri óvissu en oft áður. Árið 2005 var að mörgu leyti sérstakt í íslenskum efnahagsmálum. Það einkenndist af mikilli spennu og þenslu vegna stóriðjuframkvæmda, gríðarlegrar útlánaaukningar í bankakerfinu, mikillar hækkunar á fasteignaverði og verulegrar aukningar á einkaneyslu. Viðskiptahallinn varð meiri en hann hefur nokkurn tíma verið síðan mælingar hófust, sterk staða krónunnar er farin að hafa verulega neikvæð áhrif á útflutnings- og samkeppnisgreinar og verðbólguþrýstingur hefur aukist. Tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið meiri og sjaldan aukist eins mikið milli ára eins og milli áranna 2004 og 2005. Án eignasölu hafa þær aukist um 50 milljarða kr. Jafnvel má búast við að þessar tekjur eigi enn eftir að aukast þar sem fjármálaráðuneytið spáir því að einkaneysla árið 2005 verði 9,5% en flestir aðrir telja að hún verði nær 10,5%.
    Ljóst er að sú spenna sem nú ríkir verður ekki viðvarandi en mat fjármálaráðuneytis, Seðlabanka og greiningardeilda bankanna á því hvenær og hversu hratt muni hægja á vexti í hagkerfinu er nokkuð mismunandi. Þannig spáir fjámálaráðuneytið því að einkaneysla fari niður í 4,3% á næsta ári, Seðlabankinn spáir 8,2% einkaneyslu og greiningardeild Landsbankans 5,4%. Fjármálaráðuneytið spáir því að framleiðsluspenna verði tæp 2% á næsta ári en Seðlabankinn að hún verði tæp 5%. Þetta skiptir verulegu máli fyrir afkomu ríkissjóðs því hvert 1% í viðbótarvexti bætir afkomu ríkissjóðs um u.þ.b. 3,8 milljarða kr. Gangi spá Seðlabankans eftir verður afkoma ríkissjóðs 11,4 milljörðum kr. betri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Almennt má segja að flestir spái meiri spennu á næsta ári en fjármálaráðuneytið, að einkaneysla og samneysla verði meiri og þar af leiðandi aukist bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Samdráttar fari ekki að gæta svo einhverju nemi fyrr en á árinu 2007 þegar framkvæmdum við álver verður lokið.
    Á undanförnum tíu árum hafa tekjur ríkissjóðs aukist gríðarlega, sérstaklega hin síðari ár. Þessi tekjuaukning er að stórum hluta til tengd þeirri þenslu sem nú er í hagkerfinu og gengur eflaust til baka að talsverðu leyti þegar um hægist. Skattalækkanir munu enn draga úr tekjum ríkissjóðs þegar þær verða komnar að fullu til framkvæmda árið 2007. Spáð er að sama ár fari samdráttar að gæta í efnahagslífinu. Það er því áhyggjuefni hversu mjög útgjöld hafa aukist á undanförnum árum því þau sitja eftir þegar tekjur dragast saman. Ef ekkert verður að gert má því búast við að grípa þurfi til sársaukafulls niðurskurðar í opinberum útgjöldum þegar síst skyldi.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun fjármálaráðuneytis um afkomu ríkissjóðs er gert ráð fyrir að tekjuafgangur verði 1,6% af vergri landsframleiðslu. 2. minni hluti telur nauðsynlegt við núverandi aðstæður að hann aukist enn frekar og verði ekki undir 2%.
    Ljóst er af fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin ætlar sér ekkert hlutverk í hagstjórninni. Það er yfirlýst stefna hennar, sem kom bæði fram á síðasta aðalfundi Seðlabankans og í nýrri þjóðhagsáætlun, að ríkisfjármálin skipti engu máli sem sveiflujöfnunartæki. Þetta þýðir einfaldlega að ríkisstjórnin skilar auðu og leggur alla ábyrgðina á Seðlabankann og stjórn peningamála. Afleiðingin er vaxtahækkanir og styrking krónunnar sem er á góðri leið með að ganga af mörgum framleiðslufyrirtækjum dauðum, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en styður álit þetta.

Alþingi, 18. nóvember 2005.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
Jóhanna Sigurðardóttir,
Guðmundur Magnússon, með fyrirvara.




Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



Fjárlagafrumvarpið og raunveruleikinn.
    Áður en fjallað verður um þá hluta fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði nefndarinnar vill minni hlutinn koma á framfæri áhyggjum af því hversu illa gengur að standa við samþykkt fjárlög. Ljóst er að áætlanir ríkisstjórnarinnar um útgjöld stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins eru oft mjög vanmetnar miðað við raunveruleikann eins og hann birtist í ríkisreikningi.

Sérsveit lögreglunnar og embætti Ríkislögreglustjóra.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir mikilli hækkun fjárveitingar til sérsveitar Ríkislögreglustjóra sem nemur tæplega 100 millj. kr. Árið 2003 voru 18 manns í sérsveitinni en verða orðnir 52 árið 2006. Áætlað er að tveir sérsveitarbílar með fjórum sérsveitarmönnum verði ávallt á vakt. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir um 14 millj. kr. framlagi til kaupa á vopnum fyrir sérsveitina. Aukinn kostnaður við stækkun sérsveitarinnar undanfarin missiri er áætlaður um 250 millj. kr. á ári. Minni hlutinn telur að mun betur hefði þurft að meta þörfina fyrir fjölgun á sérsveitarmönnum.
    Embætti Ríkislögreglustjóra hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Útgjöld til embættisins hafa vaxið um 30% á tveimur árum. Minni hlutinn telur ástæðu til að huga að vaxandi umsvifum embættisins og ástæðum þeirra. Afar nauðsynlegt er að gera úttekt á embættinu og kostnaði við það, svo og að skilgreina verkefni stofnunarinnar. Skoða þarf skörun á verkefnum Ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar í Reykjavík.
    Minni hlutinn telur einnig þurfa að huga að stöðu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra í ljósi síendurtekinna áfellisdóma yfir embættinu. Íhuga þarf hvort deildin er í stakk búin að sinna veigamiklum málum.

Fangelsismál.
    Í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir um 6 millj. kr. viðbótarframlagi til fangelsismála. Það fé er ætlað til menntunar fangavarða og er það vel. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjármagni til að auka meðferðarúrræði fanga eða meta þörf þeirra fyrir meðferð eins og gert er ráð fyrir í nýsamþykktum lagabreytingum. Ljóst er að löngu er tímabært að fjölga meðferðarúrræðum í íslenskum fangelsum og taka þarf frá fjármagn til þess. Af fjárlagafrumvarpinu sést ekki að ný lög hafi tekið gildi með nýjum og mikilvægum áherslum í málefnum fanga. Er það mjög miður.
    Í frumvarpinu er ekki heldur gert ráð fyrir fjármagni í byggingu fangelsis á Hólmsheiði en í þó nokkurn tíma hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi. Ekki er heldur áætlað að loka hegningarhúsinu við Skólavörðustíg á næsta ári en það er löngu tímabært. Minni hlutinn hefði viljað sjá auknum fjármunum varið til endurbóta í fangelsismálum og telur nauðsynlegt að hefja framkvæmdir við nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, m.a. til þess að sem fyrst verði hægt að loka hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsinu í Kópavogi enda er það löngu tímabært. Að auki telur minni hlutinn að bæta þurfi aðstöðu á Litla-Hrauni og í fangelsinu á Akureyri til muna en ekki er gert ráð fyrir neinu fé til þess í fjárlagafrumvarpinu. Minni hlutinn hvetur einnig til þess að vandi kvenkyns fanga verði leystur.
    Minni hlutinn saknar einnig áætlunar um uppbyggingu fangelsa frá dómsmálaráðuneytinu, þannig að þeir sem við málaflokkinnn vinna geti gert áætlanir í samræmi við hana. Minni hlutinn skorar á dómsmálaráðherra að leggja fram áætlun í málaflokknum.
    
Gjafsókn vanmetin.
    Ljóst er að kostnaður við gjafsókn er stórlega vanmetinn í frumvarpinu. Samkvæmt ríkisreikningi árið 2004 fóru um 170 millj. kr. í opinbera réttaraðstoð en í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 er einungis gert ráð fyrir um 145 millj. kr. Minni hlutinn telur að réttur almennings til gjafsóknar eigi að vera fyllilega tryggður og harmar lagabreytingu sem var gerð í fyrra þar sem réttur til gjafsóknar í málum sem hafa almenna þýðingu var skertur.
    Minni hlutinn lýsir auk þess yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu dómstólanna þrátt fyrir viðbótarfjárveitingu. Sjálfstæði dómstóla er grundvallaratriði í réttarríki og forsenda þess er að þeir hafi viðunandi aðstöðu og nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem sífellt verður viðameira.

Mannréttindamál.
    Minni hlutinn ítrekar óánægju sína með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta að veita sérmerkta fjárhæð upp á 8 millj. kr. til Mannréttindaskrifstofu Íslands af fjárlagaliðum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Minni hlutinn telur að tryggja eigi Mannréttindaskrifstofu Íslands tekjur frá ríkissjóði með sama hætti og undanfarin ár enda hefur reynslan sýnt að full þörf er á starfsemi skrifstofunnar.

Umboðsmaður Alþingis.
    Minni hlutinn telur að almennt eigi frekara fjármagn að renna til embættis Umboðsmanns Alþingis. Einungis er gert ráð fyrir 1 millj. kr. til að efla frumkvæðisathuganir. Þar sem frumkvæðismál eru einungis um 1% af öllum málum embættisins er ljóst að frekari fjárveitingu þarf svo auka megi getuna til að ráðast í fleiri frumkvæðisathuganir.

    Að lokum vill minni hluti áskilja sér fullan rétt til að koma að fleiri athugasemdum við afgreiðslu fjárlaga auk breytingartillagna við einstaka liði þeirra
    Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. nóv. 2005.

Ágúst Ólafur Ágústsson,
Guðrún Ögmundsdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson,
Sigurjón Þórðarson.




Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Nefndin fékk á sinn fund Gísla Þór Magnússon og Auði Björgu Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Þorsteinn Gunnarsson og Úlfar Hauksson frá Háskólanum á Akureyri, Kristín Ingólfsdóttir frá Háskóla Íslands, Sigurður Sigursveinsson frá Félagi íslenskra framhaldsskóla, Bryndís Þráinsdóttir og Valgerður Guðjónsdóttir frá Kvasi, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, og Tinna Gunnlaugsdóttir, Gunnar Torfason og Tómas Zoëga frá Þjóðleikhúsinu.

Háskólinn á Akureyri.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 vantar um 130 millj. kr. upp á að Háskólinn á Akureyri fái þá fjármuni sem stjórnendur hans telja hann eiga rétt á. 2. minni hluti telur það mikið áhyggjuefni að ekki skuli komið til móts við háa húsaleigu sem krafist er fyrir nýja aðstöðu í Borgum, en hún er um 80 millj. kr. á ári og einungis 10 millj. kr. sparast á móti vegna niðurfallins rekstrarkostnaðar í Glerárgötu 36. Þá átelur 2. minni hluti fjárveitingarvaldið fyrir að Háskólinn á Akureyri skuli ekki fá þau rannsóknaframlög sem rannsóknasamningur við yfirvöld menntamála gerir ráð fyrir. U.þ.b. 60 millj. kr. skortir til að svo verði. Meðan álit þetta var í vinnslu bárust af því fréttir að háskólaráð Háskólans á Akureyri hefði samþykkt tillögur starfshóps um hagræðingu í starfseminni, sem felur m.a. í sér fækkun deilda. Aðgerðirnar kunna að ganga nokkuð nærri ákveðnum þáttum í starfsemi skólans, en þeim er ætlað að skila 50 millj. kr. sparnaði. Þótt það markmið náist standa samt a.m.k. 80 millj. kr. út af og telur 2. minni hluti nauðsynlegt að koma til móts við þær þarfir skólans. Tekið skal fram að hér er ekki gerð athugasemd við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins vegna samningstengdra launahækkana, þó rök séu fyrir því að ekki sé gert ráð fyrir nema hluta þeirra hækkana sem hafa orðið á árinu 2005.

Háskóli Íslands.
    Annar minni hluti tekur undir með stjórnendum Háskóla Íslands og fagnar þeirri hækkun sem lögð er til á framlagi til skólans, jafnvel þótt hún nægi ekki til að greitt verði með öllum nemendum sem stunda nám í skólanum. Til þess að svo megi verða vantar um 80 millj. kr. upp á. En viðleitnin er þó umtalsverð og skiptir sköpum um afkomu skólans. Það firrir stjórnvöld samt ekki ábyrgð á rannsóknasamningi þeim sem í gildi er. U.þ.b. 200 millj. kr. vantar upp á framlagið samkvæmt frumvarpinu til að við hann sé staðið. Það er mat 2. minni hluta að næsta skref í styrkingu skólans sé að styrkja hann sem rannsóknaháskóla á heimsmælikvarða. Til þess að hann geti staðið undir nafni þarf að fjölga doktorsnemum til muna. Um þessar mundir útskrifar skólinn 12 doktorsnema árlega en ef vel ætti að vera þyrftu þeir að vera 60. Háskóli Íslands fær talsvert minna opinbert fjármagn en skólar í nágrannalöndum okkar sem raunhæft er að við berum okkur saman við. Það er mat 2. minni hluta að gera þurfi raunhæfar áætlanir um fjölgun doktorsnema í 60 á næstu 5 árum.
    Líkt og fram kemur í úttekt Evrópusamtaka háskóla er Háskóli Íslands í fjárhagskreppu. Þetta er sama niðurstaða og í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands frá í apríl 2005. Háskóli Íslands fær næstlægst framlög allra sambærilegra skóla í Evrópu og enda þótt sýnd hafi verið ýtrasta ráðdeild í rekstri er staðan alvarleg. 2. minni hluti telur mjög brýnt að bregðast við þessu með verulega auknum framlögum. Að öðrum kosti er rekstur skólans í járnum og framtíð hans í óvissu.

Almennt um opinberu háskólana.
    Framtíðarfjármögnun opinberu háskólanna er í óvissu og samkeppnisstöðu þeirra innan lands og utan er ógnað vegna alvarlegs fjárskorts. Skólarnir hafa mætt skilningsleysi stjórnvalda sem þrjóskast hafa við að fjárfesta í þeim og hafa ekki mætt aukinni skólasókn með auknum framlögum. Skólarnir standa frammi fyrir vondum kostum og erfiðum: harkalegum niðurskurði og verulegum fjöldatakmörkunum. Nýjasta dæmið er Háskólinn á Akureyri sem orðið hefur að rifa seglin vegna fjárskorts og leggja niður tvær deilda sinna.
    Þá beitir Háskóli Íslands fjöldatakmörkunum og Kennaraháskóla Íslands er gert að vísa frá hundruðum nemenda ár hvert. Þannig má segja að fjárskortur opinberu háskólanna valdi því að þeir séu sveltir út á braut neyðarúrræða. Allt þetta er sýnu alvarlegra þegar skoðuð er ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að nemendur í opinberum háskólum skuli taka aukinn þátt í rekstri þeirra. Skilaboð flokks menntamálaráðherra til flokksforustunnar eru því þessi: Að taka skuli upp skólagjöld í opinberum háskólum til að mæta fjárhagsvanda þeirra. Háskólastigið allt býr við alltof lág fjárframlög og skortur á skýrri stefnumörkun bætir ekki stöðuna. Ef íslensk stjórnvöld legðu svipað hlutfall landsframleiðslu sinnar og aðrar Norðurlandaþjóðir til háskólastigsins væri árlegt framlag 4–8 milljörðum kr. hærra en það er nú. Norðurlandaþjóðirnar verja 35–80% hærra hlutfalli af landsframleiðslu til háskólastigsins en við gerum.

Framhaldsskólarnir.
    Enn kvarta stjórnendur framhaldsskólanna yfir því að reiknilíkanið sem menntamálaráðuneytið notar við að áætla fjárþörf skólanna sé gallað. Þar vanti enn á að tölur vegna lífeyrisskuldbindinga séu réttar. Einnig eru gerðar athugasemdir við lága áætlun vegna afskrifta á tækjum og eignum skólanna. Þessi skekkja leiðir það af sér að verknámsskólarnir þurfa að gera sér að góðu lélegan eða úr sér genginn búnað lengur en góðu hófi gegnir. 2. minni hluti hvetur til þess að áfram verði unnið að því að bæta reiknilíkanið og því sem upp á vantar verði kippt í liðinn hið snarasta. Loks vill 2. minni hluti taka undir kröfu stjórnenda framhaldsskólanna um að ljóst þurfi að vera við upphaf fjárlagaárs úr hvaða fjármunum skólanir hafi að spila, m.ö.o. að þörfin verði áætluð út frá hverjum og einum skóla en ekki safnað saman á safnliði sem úthlutað er af seint á árinu. Þetta fyrirkomulag er í alla staði óhagstætt, ekki síður fyrir stjórnvöld en fyrir skólana sjálfa. Það er mat 2. minni hluta að leita verði leiða til að breyta þessu fyrirkomulagi.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.
    Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 9,8 millj. kr. framlagi á hverja stöð, en það er 5 millj. kr. lægri upphæð en stöðvarnar áætla í grunnstarfsemi sína á næsta ári. Það er mat 2. minni hluta að gera þurfi átak í að efla starfsemi stöðvanna og koma henni á tryggan fjárhagsgrundvöll. Slíkt verður einungis gert með auknu framlagi, auk þess sem viðurkenna þarf fjárþörfina í sérverkefni eins og háskólanám. Munurinn á símenntunarmiðstöðvunum og háskólasetrunum á landsbyggðinni er lítill, en stöðvarnar skortir viðurkenningu stjórnvalda á því mikilvæga starfi sem þær sinna á háskólastigi.
    Setja verður löggjöf utan um fullorðinsfræðsluna í landinu og skaffa fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum sanngjarnt fjármagn þannig að þær geti sinnt hlutverki sínu, ekki síst þeim sem sinna háskólanemum með aðstöðu til fjarnáms en fyrir það fá þær ekkert greitt frá hinu opinbera. Það er þjónusta sem er metin á um 14 millj. kr. á ári hjá Fræðsluneti Suðurlands og Símenntunarmiðstöð Suðurnesja, svo dæmi séu tekin.

Þjóðleikhúsið.
    Annar minni hluti fagnar því að tekin hafi verið ákvörðun um endurbætur á ytra byrði Þjóðleikhússins, en tekur jafnframt undir með stjórnendum Þjóðleikhússins og mun leggja sitt af mörkum til að gerð verði áætlun um heildstæðar endurbætur á húsinu, tæknibúnaði þess og stækkun þess til austurs. Sú framkvæmd sem þörf er fyrir er afar fjárfrek, en hana mætti fjármagna og framkvæma á nokkuð löngum tíma eða 6–7 árum. 2. minni hluti telur að nauðsynlegt verði fyrir fjárveitingarvaldið að fara vel yfir þá þarfagreiningu sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin í apríl á næsta ári. 1999 var gerð skýrsla um lúkningu viðgerða við Þjóðleikhúsið og gerði hún ráð fyrir að 1.250 millj. kr. vantaði til þess að ljúka verkinu. Sú tala væri nær 2 milljarðar kr. framreiknuð til verðlags dagsins í dag. Inni í þeirri tölu er ekki kostnaður við viðbyggingu austan við húsið, en slík viðbygging væri að mati 2. minni hluta afar fýsileg. Það er mat 2. minni hluta að stjórnvöld eigi að vinna náið með stjórnendum hússins á næstu missirum svo húsið geti gengið í tímabæra endurnýjun lífdaganna.

Framsetning frumvarpsins.
    Annar minni hluti gerir við það athugasemdir hversu mikið talnaefni vantar í kafla menntamálaráðuneytisins í frumvarpi til fjárlaga 2006. Gerðar hafa verið breytingar, að því er virðist að kröfu fjármálaráðuneytisins, sem gera það að verkum að erfiðara verður um vik með allan samanburð milli einstakra skóla og milli ára. Þetta á við bæði um framhaldsskóla- og háskólastigið og gerir þeim sem starfa eftir frumvarpinu erfitt fyrir. Allt þetta talnaefni liggur fyrir og kom fram í máli fulltrúa menntamálaráðuneytisins sem komu á fund nefndarinnar að hver og einn geti nálgast þetta efni á heimasíðu ráðuneytisins. 2. minni hluti telur miður að þessar breytingar skuli hafa verið gerðar og telur þær tilefnislausar með öllu. Þess er farið á leit við fjármálaráðuneytið að þetta verði aftur fært til fyrri vegar.

Safnliðir.
    Fjárlaganefnd leitaði til nefndarinnar um skiptingu safnliða og leitaði formaður eftir samstarfi og samstöðu um afgreiðslu málsins við minni hlutann. Nefndarmenn hittu á fjórða tug umsækjenda um fjárstuðning og afgreiddu skiptinguna svo í sátt, þótt misjafnar meiningar séu í nefndinni um þetta fyrirkomulag. Þannig eru uppi þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að hemja þessa útdeilingu alþingismanna á opinberu fé til menningarverkefna, sérstaklega þegar þess er gætt að innan hins opinbera kerfis starfa ótal sjóðir sem hafa það verkefni að deila út fé til tengdra verkefna á faglegum nótum, þar sem í gildi eru úthlutunarreglur og sjóðstjórnir vega og meta umsóknirnar út frá faglegum mælikvörðum. Hér mætti nefna safnasjóð, tónlistarsjóð, kvikmyndasjóð, þýðingarsjóð og húsafriðunarsjóð auk samninga sem ráðuneyti menntamála hefur gert við ólíka landshluta. Einnig hefur það verið gagnrýnt að fyrst fyrirkomulagið er eins og það er nú skuli fjárlaganefnd þá ekki treysta menntamálanefnd fyrir allri úthlutun til menningarmála af safnliðum, en iðulega hækka safnliðirnir í meðförum fjárlaganefndar eftir að menntamálanefnd hefur skilað tillögum sínum. Þar með er fagnefndinni ekki treyst fyrir nema litlum hluta þeirra fjármuna sem á endanum er úthlutað á þennan hátt. Formaður menntamálanefndar hefur sýnt sjónarmiðum nefndarmanna skilning og gera má ráð fyrir því að nefndin vinni áfram með þessi álitamál í því augnamiði að færa þau til betri vegar.

Tvö ósamþykkt verkefni.
    Framlög í tengslum við styttingu námstíma til stúdentsprófs eru að mati 2. minni hluta afar óraunhæf. Þingið hefur ekki fjallað um málið og afar óljóst er á hvern hátt stjórnvöld hyggjast haga þeirri framkvæmd. Ekki er auðvelt að ráða í hugmyndir þær sem menntamálaráðherra hefur tæpt á í ræðum og í fjölmiðlum. Þó er ljóst að áætlanir um styttinguna standa á afar veikum grunni og eru illa ígrundaðar. Til marks um það er nálgunin sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu þar sem af þessu tilefni er gerð tillaga um 40 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárlagaliðnum 02-319 Framhaldsskólar, almennt.
    Annað atriði vill 2. minni hluti gera athugasemd við. Á málaskrá menntamálaráðherra er að sameina fimm stofnanir í eina, „Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun“, en því tengjast engar fjárveitingar og það þarfnast skýringa.

Framtíð listdanskennslu.
    Það er mat 2. minni hluta að sú ákvörðun menntamálaráðherra að leggja niður Listdansskóla Íslands og skera niður fjárveitingu til skólans, sé í hæsta máta ámælisverð. Hún kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, án alls samráðs við þá sem hlut eiga að máli. 2. minni hluti mótmælir þessar aðför að menntun listdansara í landinu.

    Einar Már Sigurðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 16. nóvember 2005.

Kolbrún Halldórsdóttir,
Einar Már Sigurðarson, með fyrirvara,
Björgvin G. Sigurðsson,
Mörður Árnason.




Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hlutinn getur ekki tekið undir álit meiri hlutans. Í kafla félagsmálaráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu eru stórir útgjaldaliðir verulega vanáætlaðir og stjórnarliðar verða sjálfir að bera ábyrgð á því. Að auki er mikil óvissa um verðlagsforsendur fjárlaga. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir 3,8% verðlagsbreytingum á næsta ári en ASÍ 4,4% sem hefði mikil áhrif á niðurstöðu fjárlaga. Minni hlutinn gerir líka alvarlegar athugasemdir við fjárhagsgrundvöll og framkvæmd fæðingarorlofslaga, en ljóst er að verið er að grafa undan þeim markmiðum sem sett voru með fæðingarorlofslögunum. Jafnfram eru gerðar athugasemdir við hvernig ýmsir veigamiklir þættir velferðarsamfélagsins eru hornreka hjá núverandi valdhöfum.
    Hér verða helstu gagnrýnisatriðin rakin:

Fæðingarorlofssjóður.
    Í áliti minni hluta félagsmálanefndar frá síðasta þingi um frumvarp til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var gagnrýnt að fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs væri verulega vanáætluð. Það hefur nú komið á daginn. Útgjöld sjóðsins voru áætluð 5.967 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár en minni hlutinn hélt því fram að ætla mætti að þau yrðu 6,2–6,4 milljarðar kr. Í áætlun sem nú hefur verið sett fram og ráðuneytið hefur kynnt félagsmálanefnd kemur fram að áætluð útgjöld þessa árs séu 6,7 milljarðar kr., þannig að í stefnir að þau hafi verið vanmetin um 700–800 millj. kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins verði 7.041 millj. kr. Tekjur sjóðsins af iðgjöldum eru áætlaðar 6.353 millj. kr. Samkvæmt útreikningum ráðuneytisins er áætlað að halli verði 688 millj. kr. og eigið fé í árslok verði neikvætt um 1.558 millj. kr. Í áætlunum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að í árslok 2006 muni Fæðingarorlofssjóður skulda ríkissjóði 1.500–1.600 millj. kr. Á þessum vanda sjóðsins er ekki tekið í fjárlagafrumvarpinu en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu koma áhrif breytinga sem urðu á lögunum 1. janúar 2005 ekki að fullu fram fyrr en á fyrri hluta næsta árs. Boðað er að þá verði forsendur fjármögnunar sjóðsins teknar til endurskoðunar. Hér er á ferðinni enn eitt dæmi um að ekkert er að marka forsendur fjárlaga, hvorki tekju- né gjaldahliðar.
    Opinberlega hefur komið fram mjög alvarleg gagnrýni á framkvæmd fæðingarorlofslaganna með breytingum sem gerðar voru 1. janúar 2005. Fulltrúar Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd gagnrýndu harðlega þær breytingar og töldu að þær mundu grafa undan fæðingarorlofslögunum. Það er nú allt að koma fram og fjöldi foreldra hefur fengið mun lægri greiðslur en þeir hefðu fengið áður. Breyttar viðmiðunarreglur um tekjur hafa lækkað fæðingarorlofsgreiðslurnar verulega, þannig að raungildi greiðslna sem áður var 80% af tekjum er nú komið niður í allt að 70% þar sem nú er ekki miðað við tekjur á því ári þegar barn fæðist. Ef ekkert verður að gert er ljóst að foreldrar munu í minna mæli nýta sér ákvæði fæðingarorlofslaganna því augljósir gallar á lögunum grafa undan þeim.
    Ástæða er til að minna á að fram hefur komið hjá ráðherra að fæðingarorlofsgreiðslurnar ættu að halda raungildi sínu og að hann mundi ef nauðsyn krefði beita ákvæðum fæðingarorlofslaga sem kveða á um að hámarks- og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa og verðlags. Samkvæmt því ákvæði er félagsmálaráðherra heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnar að hækka greiðslur. Minni hlutinn krefst þess að félagsmálaráðherra standi við yfirlýsingu sína og að tryggt verði að fæðingarorlofsgreiðslur rýrni ekki ekki eins og gerst hefur á þessu ári. Áætla má að ef greiðslurnar eiga að halda raungildi sínu þurfi að bæta a.m.k. 500 millj. kr. við sjóðinn.
    Minni hlutinn hefur einnig gagnrýnt að umönnunar- og lífeyrisgreiðslur falli niður við töku fæðingarorlofs, sem er afar ósanngjarnt og getur m.a. leitt til verulegs tekjutaps lífeyrisþega ef þeir taka fæðingarorlof. Þegar breytingar voru gerðar á fæðingarorlofslögunum fyrir um ári síðan kom fram hjá ráðherra að hann teldi rétt að endurskoða þetta. Við meðferð nefndarinnar á fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að ekki væru uppi áform um breytingar að svo stöddu. Minni hlutinn harmar mjög að ráðherrann ætli að þrjóskast við í þessu efni og hafa fæðingarorlofslögin áfram svona gölluð.
    Minni hlutinn lýsir fullri ábyrgð á hendur stjórnvöldum ef ekkert á að gera til að sníða augljósa galla af fæðingarorlofslögunum.

Ábyrgðasjóður launa.
    Minni hluti nefndarinnar varaði við því bæði á þessu ári og því síðasta að útgjöld Ábyrgðasjóðs launa væru vanáætluð verulega. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi sem er 0,04% af gjaldstofni. Benti minni hlutinn á það við síðustu fjárlagagerð að tvöfalda þyrfti ábyrgðargjaldið til að sjóðurinn gæti staðið undir skuldbindingum sínum og gert upp við ríkissjóð sem hann skuldaði þá meira en 600 millj. kr. Áætlað er að skuldin nemi 880 millj. kr. í lok þessa árs. Í gögnum sem félagsmálanefnd fékk frá ráðuneytinu að ósk minni hlutans kemur fram að hallinn á yfirstandandi ári sé 363 millj. kr. og eigið fé sé neikvætt í árslok um 882 millj. kr. Þar kemur einnig fram að verði ábyrgðargjaldið óbreytt séu horfur á að halli sjóðsins haldi áfram að aukast. Ráðuneytið áætlaði að hallinn yrði um 1,1 milljarður kr. í árslok 2006 og tæpir 2,2 milljarðar kr. í árslok 2011 miðað við óbreytt gjald. Minni hlutinn hélt því fram fyrir ári að í óefni stefndi með Ábyrgðasjóð launa að óbreyttu og ítrekar þá skoðun. Að sögn mun félagsmálaráðherra leggja fram frumvarp þar sem lagt verður til að gjaldið verði hækkað úr 0,04% í 0,1% af gjaldstofni og á það að gefa sjóðnum um 600 millj. kr. á ársgrundvelli eða milli 300–400 millj. kr. meiri tekjur. Þrátt fyrir þessa hækkun er ekki gert ráð fyrir að jafnvægi verði náð í rekstri sjóðsins fyrir en árið 2011.

Staða Vinnueftirlitsins.
    Ljóst er að útgjöld Vinnueftirlitsins eru verulega vanáætluð, en fram kom hjá ráðuneytinu að gert sé ráð fyrir nokkrum hallarekstri í lok þessa árs. Fjármögnun Vinnueftirlitsins var breytt á sl. ári. Áður hafði stofnunin haft tekjur af tryggingjargjaldi en á þessu ári og því næsta fær hún bein framlög af fjárlögum. Á yfirstandandi ári hefði hluti Vinnueftirlitsins af tryggingargjaldi skilað stofnuninni 260 millj. kr. en hún fékk aðeins 236,5 millj. kr. í sinn hlut á fjárlögum. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hún fái 234 millj. kr. en hluti hennar af tryggingargjaldi hefði verið 282 millj. kr. Á fundi félagsmálanefndar á sl. ári um frumvarp til fjárlaga fyrir þetta ár var upplýst að fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra hefðu sameiginlega ákveðið að við þessa breytingu yrðu fjárveitingar til Vinnueftirlitsins ekki skertar. Ljóst er að ráðherrarnir hafa ekki staðið við þetta loforð því samtals eru framlög til stofnunarinnar á þessu ári og því næsta skert um 72,5 millj. kr. miðað við það sem hún hefði fengið ef tekjustofninn hefði verið eins og árið 2004. Minni hlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið staðið við þetta loforð og minnir á hve mikilvægt er að efla og treysta starfsemi Vinnueftirlitsins vegna nýrra og aukinna verkefna og almennrar kröfu um aukið vinnuverndarstarf, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda. Stofnunin óskaði eftir um 115 millj. kr. hækkun fjárveitingar á fjárlögum fyrir árið 2006, m.a. vegna nýrra verkefna, en einungis var fallist á innan við 2 millj. kr. af þeirri beiðni í frumvarpinu.

Starfsmenntasjóður og atvinnumál kvenna.
    Á árinu 2005 var einungis varið 60 millj. kr. til starfsmenntasjóðs og hefur það framlag verið nánast óbreytt mörg undanfarin ár, þrátt fyrir sívaxandi þörf fyrir starfsþjálfun. Alls bárust starfsmenntasjóði 66 umsóknir um samtals 152 millj. kr. sem sýnir ljóslega þörfina sem mikilvægt er að uppfylla til að ófaglært fólk verði ekki undir á vinnumarkaðnum sem gerir sífellt meiri kröfur til menntunar og starfsþjálfunar. Þrátt fyrir þessa auknu þörf er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi til starfsmenntasjóðs á næsta ári. Ástæða er til að minna á að í áliti nefndar á vegum félagsmálaráðherra um stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði, sem skilaði niðurstöðu fyrir meira en ári síðan, var lögð áhersla á að gera þyrfti sérstakt átak til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði með framlagi til starfsmenntunar. Ljóst er að við það hefur ekki verið staðið.
    Á árinu 2005 bárust 146 umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna þar sem samtals var óskað eftir um 175 millj. kr., en til úthlutunar voru 25 millj. kr. Þessi fjárhæð hefur ekki breyst í mörg ár og telur minni hlutinn það óásættanlegt. Mikilvægt er að hækka fjárhæðina og stuðla þar með að auknu frumkvöðlastarfi meðal kvenna. Reynslan er mjög góð og mörgum konum hefur verið gert kleift að koma á fót atvinnurekstri. Það er hrein skammsýni hjá stjórnvöld að auka ekki framlag til þessa verkefnis sem fjölgar störfum og skilar auknum skatttekjum til samfélagsins.

Málefni barna.
    Frumvarpið felur í sér lækkun á heildarframlögum til málefna barna, sem endurspeglar vel forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Barnaverndarstofa gerði t.d. tillögur til ráðuneytisins um 48,5 millj. kr. viðbótarframlag, m.a. vegna nýrra verkefna, rannsókna og samstarfs við Neyðarlínu, en í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir 1 millj. kr. viðbótarframlagi til þeirra verkefna. Barnaverndarstofa telur að tilfinnanlega skorti viðhlítandi meðferðartilboð utan stofnana fyrir síbrotaunglinga, en sú meðferð beinist einkum að þeim sem stríða við andfélagslega hegðun og afbrotahneigð, en unglingar með langa sögu alvarlegra afbrota er sá hópur sem Barnaverndarstofa á erfiðast með að sinna. Minni hlutinn gagnrýnir að þessum málaflokki skuli ekki vera betur sinnt af stjórnvöldum sem sýnir ljóslega að allt tal stjórnarherranna um bætta stöðu fjölskyldunnar er ekki marktækt.
    Ástæða er líka til að nefna að tilvísunum til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins hefur fjölgað verulega, m.a. vegna einhverfu. Biðlistar hafa því lengst. 262 börn voru á biðlista í september 2004 en voru 325 nú í nóvember 2005. Aukning á mannafla stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum fyrir 2004 og 2005 svarar til tæplega fjögurra stöðugilda en þörf er fyrir tólf stöðugildi. Miðað við fjárlagafrumvarpið vantar enn fimm stöðugildi til að ná biðlistum niður. Mikilvægt er að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi viðunandi mannafla því afar mikilvægt er fyrir þroskamöguleika barna að aðstæður þeirra séu kannaðar eins fljótt og mögulegt er eftir að tilvísun hefur borist þannig að barnið fái frumgreiningu sem fyrst. Minni hlutinn leggur því áherslu á að málefnum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins þurfi að sinna betur en raun ber vitni.

Niðurstaða.
    Af framansögðu er ljóst að um verulegar vanáætlanir er að ræða í fjárlagakafla félagsmálaráðuneytisins, auk þess sem minni hlutinn gerir alvarlegar athugsemdir við hvernig ýmsir veigamiklir þættir velferðarsamfélagsins eru hornreka hjá núverandi valdhöfum. Þar er ekki síst vísað til þess hvernig verið er að grafa undir fæðingarorlofi og skerða það verulega miðað við upphafleg áform. Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á þessu til stjórnarflokkanna.

Alþingi, 16. nóvember 2005.

Jóhanna Sigurðardóttir,
Lúðvík Bergvinsson,
Valdimar L. Friðriksson.

Fylgiskjal IX.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Annar minni hluti vill taka fram að enn hafa nefndarmenn ekki fengið svör við öllum þeim spurningum sem lagðar voru fram við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Það er miður að vinnubrögð nefndarinnar séu með þeim hætti að í byrjun þings falli fundir ítrekað niður en síðan falli nefndin á tíma þegar loksins kemur að umfjöllun um fjárlagafrumvarpið sem hófst ekki fyrr en 4. nóvember sl. Jafnframt vill 2. minni hluti hvetja til nýrra vinnuaðferða við fjárlagagerðina og meðferð á umsóknum einstaklinga og stofnana um styrki til starfsemi sinnar. Það vinnulag sem nú er viðhaft með óskum um viðtöl er bæði gamaldags og úrelt.

Málefni aldraðra og heilabilaðra.
    Annar minni hluti vill minna á alvarlega stöðu aldraðra sem búa við það að kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra hefur minnkað þar sem skattleysismörk hafa hvorki fylgt verðlagsþróun né launahækkunum. Kjör þeirra lífeyrisþega sem minnst hafa, svo sem þeirra sem lifa á almannatryggingagreiðslum eingöngu, verður að bæta. Þriðji hver ellilífeyrisþegi lifir eingöngu á 110.000 kr. á mánuði eða minna.
    Annar minni hluti telur að stórátak þurfi til að bæta aðbúnað og aðstæður eldri borgara. Á fjórða hundrað einstaklinga er í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og þörfum þeirra þarf að mæta sem fyrst. Þá vill 2. minni hluti minna á brýna nauðsyn úrbóta í málum hjúkrunarsjúklinga undir 67 ára aldri, svo sem heilabilaðra, sem ekki fá hjúkrunarrými við hæfi.
    Annar minni hluti hvetur heilbrigðisráðuneytið til að endurskoða daggjaldakerfið þar sem rúmlega helmingur allra öldrunarstofnana í landinu er rekinn með halla. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að skoða þurfi betur kostnaðarforsendur daggjaldanna og að hið svokallaða RAI-mat sé ekki tengt við mönnunarforsendur og aðra þætti. Fulltrúar Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu sögðu á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar að þessar stofnanir væru búnar með kjötið og komnar að beini í sparnaði.
    Mikilvægt er að fjölgað verði valkostum og úrræðum fyrir aldraða, svo sem með aukinni heimilishjálp, dagvistun og hvíldarinnlögnum, svo að komast megi hjá innlögnum á hjúkrunarheimili eða dýrari vistun. Í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir um 20 millj. kr. til aukinnar heimahjúkrunar og það er ekki vísbending um að slík þjónusta sé í forgangi hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Rafræn sjúkraskrá og bensínstyrkur hreyfihamlaðra.
    Annar minni hluti telur löngu tímbært að tryggja nægjanlegt fjármagn í gerð rafrænnar sjúkraskrár. Ljóst er að rafræn sjúkraskrá er eitt mesta hagsmunamál sjúklinga og starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Hún stuðlar að öryggi og eykur upplýsingaflæði ásamt því að draga úr tvíverknaði og auka skilvirkni. Því er nauðsynlegt að strax verði gerð áætlun um verkefnið, bæði hvað varðar kostnað og tímaramma. 2. minni hluti saknar áætlunar um þetta þarfa mál.
    Annar minni hluti fagnar fyrirhuguðum áformum um að hætta við að skerða bensínstyrk hreyfihamlaðra en bendir á að enn hafa ekki fengist upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvar það hyggst mæta svokallaðri hagræðingarkröfu.

Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður.
    Annar minni hluti telur að efla eigi heilsugæsluna og telur hagkvæmast og skynsamlegast að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Svo að það megi verða þarf að gera átak í málefnum heilsugæslunnar og styrkja starfsemi hennar með fleiri starfsstéttum, svo sem félagsfræðingum, auka þverfaglega vinnu og forvarnastarf og sömuleiðis samvinnu heilsugæslu og annarra stofnana innan velferðarkerfisins. Mikilvægt er að unglingamóttökur fái aukið svigrúm, því þar sem það hefur verið, svo sem á Akureyri og Hafnarfirði, hefur starfsemin gengið afar vel og haft mikið forvarnagildi. En fjármagn þarf að fylgja slíkum nýmælum.
    Auk þess sem sálfræðingar og félagsráðgjafar þurfa að verða hluti af heilsugæslunni er mikilvægt að Tryggingastofnun semji við þessar stéttir um greiðsluþátttöku eins og heimild er fyrir í lögum. Slíkt gæti borgað sig á skömmum tíma, t.d. með minnkandi lyfjaneyslu, en þrátt fyrir lagaheimild og viðurkennda þörf hefur fé ekki fengist til þessa þáttar.
    Annar minni hluti minnir á að enn eru nokkur þúsund manns án heimilislæknis á höfuðborgarsvæðinu og brýnt er að leysa þann vanda.

Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Annar minni hluti hvetur til að skoðað verði vandlega hvort ekki eigi að stofna gjörgæsludeild eða hágæsludeild inni á Barnaspítala Hringsins. Komið hefur í ljós að vegalengdin á milli barnaspítalans og gjörgæsludeildar inni á Landspítala getur verið of löng í bráðatilvikum.
    Annar minni hluti hvetur til að svokallaður fráflæðisvandi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi verði leystur sem fyrst. Það er engin skynsemi í því að hafa allt að 100 manns á hátæknisjúkrahúsi sem væri betur sinnt á öðrum stofnunum og það væri mun ódýrara fyrir íslenska skattgreiðendur. Skurðaðgerðir eru ítrekað felldar niður vegna þess að sjúklingar sem eru útskriftarhæfir eiga ekki í önnur hús að venda.
    Annar minni hluti vill efla göngu- og dagdeildir Landspítalans og greina kostnað við kennslu heilbrigðisstétta inni á spítalanum þannig að öllum sé kunnugt um hversu stór hluti hann er af kostnaði við rekstur spítalans.

Önnur heilbrigðisþjónusta.
    Annar minni hluti leggur áherslu á að tryggja þurfi nægjanlegt fé á næsta ári í tæknifrjóvganir til að mæta þörf fyrir slíka þjónustu. Sömuleiðis eru vaxandi biðlistar á Reykjalundi eftir offituaðgerðum og við þeim þarf að bregðast. 2. minni hluti vill einnig ítreka mikilvægi öflugrar heilsugæslu úti á landi og telur að vel þurfi að standa að málefnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
    Annar minni hluti hvetur til þess að þjónustuþörf geðsjúkra verði mætt og að eftirfylgni verði fullnægjandi og minnir á að um 70–100 einstaklingar með geðrænan vanda eru taldir heimilislausir.
    Að lokum vill 2. minni hluti áskilja sér fullan rétt til að benda á fleiri atriði sem betur mættu fara þegar kemur að skiptingu opinbers fjár.

Alþingi, 14. nóv. 2005.

Ágúst Ólafur Ágústsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Guðrún Ögmundsdóttir,
Þuríður Backman.




Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Minni hlutinn gerir alvarlega athugasemd við vinnutilhögun umhverfisnefndar þetta árið. Það hefur verið til siðs að kalla forstöðumenn helstu stofnana umhverfisráðuneytisins fyrir nefndina til að svara spurningum um helstu verkefni stofnananna og fjárhagsstöðu þeirra. Á þeim fundi þegar fjárlagafrumvarpið var tekið til umfjöllunar óskaði minni hlutinn eftir því að forstöðumenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Landmælinga Íslands yrðu kallaðir fyrir nefndina. Við því var orðið, enda talið að frestur sá sem fjárlaganefnd gaf nefndinni til umfjöllunar um málið fengist framlengdur um einn dag. Þegar fundarboð barst til nefndarmanna seint 11. nóvember var ljóst að einungis forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands hefði verið boðaður á fund mánudagsmorguninn 14. nóvember og þá var ljóst að ekki ynnist tími til að óska skriflegra umsagna frá forstjórunum. Ekki bárust fullnægjandi svör frá formanni nefndarinnar við umkvörtunum minni hlutans. Af þessum sökum má ljóst vera að nefndarmenn höfðu ekki nauðsynlegar forsendur til að mynda sér skoðanir á helstu liðum fjárlagafrumvarpsins, svo sem venja hefur verið og hlýtur álit nefndarinnar því að vera nokkuð langt frá því sem verið gæti.
    Hvað varðar stöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands, þá kom fram í máli forstjóra hennar Jóns Gunnars Ottóssonar að í frumvarpinu væri loksins orðið við beiðni stofnunarinnar um lækkaða sértekjukröfu. Þannig væri hún færð niður um 25 millj. kr. í rúmlega 108 millj. kr. Það er þó 18 millj. kr. of há upphæð ef miðað er við áætlun stofnunarinnar. Það er mat minni hluta umhverfisnefndar að þurft hefði að stíga skrefið til fulls og lækka sértekjukröfuna niður í 90 millj. kr., enda má gera ráð fyrir að áætlanir stofnunarinnar séu nokkuð nákvæmar. Þá er forstjóri afar sáttur við framlag það er stofnunin fær samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005, en þar er gert ráð fyrir að 39 millj. kr. hali, sem stofnunin hefur safnað undanfarin ár, verði þurrkaður út. Minni hlutinn fagnar því að gripið skuli til þessara aðgerða, enda stofnunin búin að hagræða meira en góðu hófi gegnir í rekstri sínum, svo mikið hefur aðhaldið verið að það var farið að bitna á lögboðnum verkefnum stofnunarinnar. Minni hlutinn gerir við það athugasemd að stofnunin skuli ekki fá fjárveitingu til gerðar náttúrufarskorta, en í fyrra fékk hún 7,5 millj. kr. til verkefnisins. Tekur minni hlutinn undir kröfur meiri hlutans sem fram koma í áliti hans til fjárlaganefndar. Loks telur minni hlutinn ámælisvert að nefnd sem ætlað er að vinna að frumvarpi til nýrra laga um Náttúruminjasafn skuli ekki hafa komið saman í tvö ár og að ekki skuli gert ráð fyrir framlagi til endurnýjaðs Náttúruminjasafns í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið.
    Hvað varðar afgreiðslu safnliða vill minni hlutinn árétta það sjónarmið, sem hann gerði grein fyrir í áliti sínu til fjárlaganefndar á síðasta ári, þess efnis að hann telji rétt að koma styrkveitingum Alþingis í formlegan farveg í fagráðuneytunum, þar sem stofnaðir yrðu sjóðir með faglega yfirstjórn, sem auglýstu eftir styrkjum einu sinni til tvisvar á ári. Slíkir sjóðir störfuðu eftir ákveðnum reglum um úthlutanir og auglýsingar styrkja. Þannig yrði eftir föngum reynt að tryggja að öllum væri ljóst fyrirkomulag slíkra styrkveitinga og allir ættu því jafnan aðgang og jafna möguleika. Þá telur minni hlutinn einnig að koma þurfi fjárveitingum til frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar í fastari skorður en nú er. Hvatt er til þess að samstarf ráðuneytisins og samtaka af þessu tagi verði tekið til skoðunar og tryggt að með það fari samkvæmt ákvæðum og hugmyndafræði Árósasamningsins.
    Minni hlutinn telur mjög miður að ekki skuli hafa reynst mögulegt að skoða nánar fjárveitingar á sviði umhverfisráðuneytisins en hér er gert. Það sem upp á vantar verður að bíða munnlegrar greinargerðar við 2. og 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Alþingi, 14. nóvember 2005.

Kolbrún Halldórsdóttir.




Fylgiskjal XI.


Marinó G. Njálsson:

Til varnar Listdansskóla Íslands
(Morgunblaðið, 7. nóvember 2005.)


    Háttvirtur menntamálaráðherra þverskallast enn við varðandi málefni Listdansskóla Íslands. Það virðist ekki skipta ráðherrann neinu máli að allir sem hér á landi hafa faglega þekkingu á starfsemi skólans og listdansi segja skýrum rómi að hugmyndir ráðherrans og embættismanna í menntamálaráðuneytinu gangi ekki upp, þá skal samt veita listdanskennslu á Íslandi náðarhöggið.
    Einhvers staðar sá ég að ráðherrann vísar til þess að verið sé að breyta listnáminu yfir í það form sem það er á Norðurlöndum og sérstaklega í Svíþjóð. Ég held að hér sé um mikinn misskilning að ræða. Ég þekki aðeins til hvernig listdansnámi er fyrirkomið í Svíþjóð, þar sem dóttir mín er í framhaldsnámi í Konunglega sænska ballettskólanum. Skólanum er skipt í grunnskóladeild og framhaldsdeild og fara nemendur í gegnum inntökupróf til að komast að, hvort heldur er í grunnskóladeild eða framhaldsdeild. Grunnskóladeild skólans er á fjórum stöðum, þ.e. í Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö og Piteå. Á hverju ári sækja fleiri hundruð manns um að komast í framhaldsdeild, en inn eru teknir milli 50 og 60 nemendur, til helminga strákar og stelpur og á braut fyrir klassískan ballett og braut fyrir nútímadans. Þegar dóttir mín hóf nám í ágúst 2004, var hún eini nemandinn í sínum árgangi á klassísku braut skólans sem kom ekki úr einum af grunnskólum Konunglega sænska ballettskólans. Alls var 154 stúlkum boðið að koma í inntökupróf fyrir klassísku brautina og var meirihluti þeirra úr einkaskólum í Svíþjóð. Hvernig sem á því stóð, slapp engin stúlka af nemendum einkaskólanna í gegnum nálarauga inntökuprófsins. Ekki ein einasta. Þær sem komust inn voru 11 úr grunnskóladeild skólans í Stokkhólmi, 3 úr öðrum grunnskóladeildum skólans og síðast og ekki síst eini nemandinn úr Listdansskóla Íslands sem sótti um.
    Er það virkilega að við viljum kippa fótunum undan skóla sem við Íslendingar getum verið stoltir af og stenst alþjóðlegan samanburð. Teljum við okkur geta gert betur með því að dreifa námi grunnskólanemenda til misjafnlega staddra einkaskóla sem geta ekki gert sömu kröfur til nemenda sinna og Listdansskólinn gerir. Ef Svíar telja sig þurfa að halda úti grunnskóladeild, af hverju ættum við Íslendingar að geta gert hlutina öðru vísi? Miðað við það sem sagt er að ofan, þá er grunnskóladeildunum haldið úti til að tryggja að framhaldsdeild Konunglega sænska ballettskólans hafi úr nægum fjölda hæfra umsækjenda að velja.
    Til að bæta gráu ofan á svart, hefur því verið fleygt að danskennsla framhaldsdeildarinnar eigi að færast inn í nýtt íþróttahús MH. Ég vona að þetta sé rangt, enda væri sú leið álíka vitlaus og að sameina kennslu í frjálsum íþróttum, handbolta og knattspyrnu og gera öllum að stunda íþróttina á grasvelli. Ég sæi FH-inga fyrir mér leika handbolta á grasvellinum í Kaplakrika. Það að leggja niður grunnskólann er svipað og að leggja niður yngriflokkastarf íþróttafélaganna og láta skólunum það starf eftir. Síðan þegar grunnskóla væri lokið og ekki fyrr, gæfist áhugasömum tækifæri að sækjum um að komast t.d. í FH. (Ég vel náttúrulega FH vegna tengsla ráðherrans við félagið.) Er ég hræddur um að knattleikni Hafnfirðinga hefði eitthvað farið aftur, væri þessi háttur hafður á.
    Skora ég á háttvirtan ráðherra að hverfa frá ákvörðun sinni eða að minnsta kosti tryggja grunnskóladeild Listdansskóla Íslands sjálfstæða tilvist og varanlega starfsaðstöðu. Með ákvörðun sinni hefur ráðherrann vísað nemendum grunnskólans út á guð og gaddinn og kippt fótunum undan framhaldsnámi í listgreininni hér á landi. Ballettnám er ólíkt öðru listnámi og verður því ekki steypt í sama mót. Þetta er líkamlega og andlega krefjandi nám sem krefst bestu leiðsagnar hæfra kennara við bestu aðstæður. Til að ná árangri þurfa nemendur að byrja snemma og leggja hart að sér. Daglegar æfingar í nokkra tíma á dag eru lykillinn að árangri. Samfeldni náms er mikilvæg og samband verður að vera á milli kennara yngra stigs og eldra stigs. Ef grunnurinn er ekki réttur, verður ekki byggt ofan á hann.
    Ég vona að þessu slysi verði afstýrt, þó það væri ekki nema fyrir það, að ég á aðra dóttur sem mun hefja ballettnám eftir áramót og langar til að verða ballerína eins og stóra systir. Sé ég ekki, að ég geti látið drauma hennar ræst hér á landi, fái háttvirtur ráðherrann sínu framgengt.



Fylgiskjal XII.


Kolbrún Elfa Sigurðardóttir:

Ódýrar lausnir í menntamálum!
(Morgunblaðið, 8. nóvember 2005.)


    Enn líður að því að menntamálaráðherra leggi fram umdeilt frumvarp um styttingu náms til stúdentsprófs, í óþökk flestra er málið snertir. Nemendur framhaldsskóla efndu til mótmælafundar á Austurvelli á vordögum og stofnuðu Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema til þess að berjast gegn styttingunni, skólameistarar hafa lýst miklum efasemdum og skv. könnun Félags framhaldsskólakennara 2003 eru yfir 70% framhaldsskólakennara andvíg styttingu. Ástæða þessarar andstöðu er einföld: Stytting námstíma hefur augljóslega í för með sér skerðingu námsefnis, gengisfellingu stúdentsprófsins, minni þekkingu og lakari samkeppnishæfni íslenskra stúdenta.
    Hér skal ekki mörgum orðum eytt í slagorð og rökleysur ráðuneytismanna í heild. Megintilgangur breytinganna er ljós: Að draga úr fjárframlögum til framhaldsskólastigsins. Þetta kemur berlega fram í Skýrslu um styttingu náms til stúdentsprófs, útgefinni af menntamálaráðuneyti í ágúst 2003. Samkvæmt henni (bls. 38–39) er ávinningurinn helst þessi: Heildarsparnaður í húsnæðismálum verður 1,7 milljarður til lengri tíma litið, rekstrarkostnaður lækkar um 18% á ári, launakostnaður lækkar um 605 milljónir króna, kostnaður við nemanda á náttúrufræðibraut minnkar úr um 1,85 milljónum kr. í tæpar 1,4 milljónir kr., við nemanda á mála- og félagsfræðibraut úr 1,72 milljónum kr. í 1,36 milljónir kr. Þessar tölur endurspegla á nöturlegan hátt kjarnann í „menntastefnu“ núverandi ríkisstjórnar.
    Postular skerðingar boða að langur námstími eigi stóran þátt í því að nemendur hverfi frá námi og fullyrða að samanburðarþjóðir eigi ekki við þetta vandamál að stríða í sama mæli og að skerðing námstíma um eitt ár hljóti að draga úr brottfalli íslenskra nemenda á framhaldsskólastigi. Brottfall úr framhaldsskólanámi er vissulega til staðar á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands var heildarbrottfall 2002–2003 (kyn, aldur, kennsluform) minnst hjá konum sem stunduðu bóknám í dagskóla 11,2%, og mest 61,1% hjá körlum er stunduðu bóknám í fjarnámi. Árið 2003 var brottfall í Danmörku (eftir kyni og kennsluformi; www.uddannelsesstatistik.dk) minnst hjá konum af stærðfræðibraut menntaskóla 14,3%, en mest hjá körlum á „studenterkursus“ 58%. Athyglisvert er hve mikið brottfall er á síðastnefndu námsbrautinni en þar er um að ræða tveggja ára nám til stúdentsprófs fyrir 18 ára og eldri. Algengar brottfallstölur frá Danmörku eru 20–30%. Það verður ekki betur séð en að frændur vorir Danir glími við svipað vandamál og Íslendingar hvað brottfall varðar, þrátt fyrir að námstíminn sé þrjú ár. Ekki hvarflar að nokkrum manni þar í landi að lausn vandans felist í því að skera heilt ár af námstímanum. Danir gefa sér góðan tíma til náms. Aðeins 11% pilta og 20% stúlkna ljúka almennu stúdentsprófi 19 ára, mikill meirihluti danskra framhaldsskólanema útskrifast 20 ára (Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð, unnin fyrir menntamálaráðuneytið 2002, bls. 33).
    Fyrir brottfalli liggja ýmsar ástæður, sálfræðilegar jafnt sem félagslegar, en sá þáttur, sem mest áhrif hefur á námslengd og námsárangur íslenskra nemenda, er án efa vinna með skóla. Um 70% íslenskra nemenda vinna með skóla og fjárhagsvandræði eru gefin upp sem algeng orsök brottfalls. Ef litið er til samanburðarlandsins Danmerkur, kemur hins vegar í ljós að þar er hlúð vel að nemendum, þar fá framhaldsskólanemendur skólabækur ókeypis og óendurkræfa styrki til náms. Ekki er á döfinni að taka upp fjárstuðning við nemendur hérlendis og reyna á þann hátt að ráða bót á stórum hluta vandans.
    Mun stytting námstímans draga úr brottfalli og þar með skila tilætluðum árangri til sparnaðar í framhaldsskólakerfinu? Svarið er augljóslega nei. Námstíminn einn og sér skiptir litlu máli, eins og ráða má af samanburðinum við Danmörku, og íslenskir framhaldsskólanemendur breyta varla neyslumynstri sínu og steinhætta að vinna með námi. Á hinn bóginn kallar styttri námstími á auknar kröfur til nemenda um aga, sjálfstæð vinnubrögð og námsframvindu og hætt er við að fleiri nemendur en nú standist ekki þær kröfur. Stytting náms til stúdentsprófs mun því að öllum líkindum auka brottfall þeirra er standa höllum fæti í skólakerfinu auk þess að rýra menntun allra íslenskra nemenda. Er þetta það sem stjórnvöld, námsmenn og foreldrar íslenskra unglinga vilja?



Fylgiskjal XIII.


Jón Bjarnason:

Ísfirðingar fórnarlömb stóriðjustefnunnar
(Morgunblaðið, 1. september 2005.)


    Ruðningsáhrif stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar höggva stöðugt ný skörð í íslenskt atvinnulíf. Hvert iðnfyrirtækið á fætur öðru leggur upp laupana. Sprotafyrirtækin, nýsköpunin fær lítið svigrúm í háu raungengi krónunnar. Útflutningsgreinunum er fórnað en viðskiptahallinn vex. Fyrr í sumar var það Bílddælingur á Bíldudal, Særún á Blönduósi og fiskvinnslan Kolka á Hofsósi svo dæmi séu nefnd.
    Þessa vikuna eru það sushiverksmiðjan Sindraberg á Ísafirði og sjávarútvegsfyrirtækið Perlufiskur á Þingeyri sem lúta í gras.
    „Ruðningsáhrif stóriðjunnar geta líka verið af hinu góða,“ sagði iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Ætli að Vestfirðingar hrópi nú húrra fyrir stóriðjustefnu Framsóknarflokksins?

Innlendum iðnaði og nýsköpun fórnað.
    Í Bæjarins besta á Ísafirði er nýverið rakin stuttlega saga sushiverksmiðjunnar:
    „Með stofnun Sindrabergs ehf 1999 var gerð tilraun til merkilegrar nýsköpunar á Ísafirði.
    Strax í upphafi var eðlilega gert ráð fyrir tapi af framleiðslunni fyrstu misserin og það gekk eftir. Fyrirtækið vakti verðskuldaða athygli fyrir framleiðslu sína innanlands sem utan. Flestir hafa starfsmenn verið um 30, en fyrirtækið hefur verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi heimamanna. Mikill rekstrarbati á árinu 2004 gaf von um að ná mætti endum saman á árinu 2005. Þróun gengis íslensku krónunnar gerði það hinsvegar að verkum að þær vonir urðu að engu auk þess sem samkeppni jókst sem ekki var hægt að bregðast við m.a. vegna sterkrar stöðu krónunnar.“
    Sindraberg ehf., stolt Ísfirðinga, fellur nú fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.
    Skemmst er að minnast orða Jens Valdimarssonar framkvæmdastjóra Bílddælings í viðtali við BB 1. júní sl. er hann stóð frammi fyrir lokun eins stærsta fyrirtækis bæjarins: „Gengi krónunnar hefur styrkst mjög mikið að undanförnu vegna framkvæmda fyrir austan og það hefur veikt grundvöll fiskvinnslunnar. Það eru miklar væntingar bundnar stóriðju og það fundum við á dögunum þegar umræðan hófst um hugsanlega stóriðju á Suðurnesjum. Þá styrktist gengi krónunnar að nýju og því er sjávarútvegurinn og fólkið í sjávarbyggðunum að greiða herkostnaðinn af virkjunum og stóriðju eystra.“ Engin úrlausn hefur fengist enn á Bíldudal.

Fleiri sekir en Framsókn.
    Vissulega er það Framsóknarflokkurinn sem hefur gengið hvað harðast fram í stóriðjuæðinu og þvingaði risaálveri upp á Austfirðinga. Hin miklu umhverfisspjöll sem nú eru unnin á Kárahnjúkasvæðinu munu verða kennd Framsóknarflokknum um ókomin ár.
    En Sjálfstæðisflokkurinn ber fulla ábyrgð á öllum gjörðum Framsóknarflokksins í þessari ríkisstjórn.
    Við skulum líka minnast þess, að Samfylkingin studdi þessa hömlulausu stóriðjustefnu og herförina gegn náttúru Íslands við Kárahnjúka bæði á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur.
    Álverið á Reyðarfirði með Kárahnjúkavirkjun er ein stærsta ríkisstyrkta, sértæka „byggðaaðgerð“ Íslandssögunnar. Hún mun, eins og önnur orkufrek stóriðja, vissulega skapa aukin umsvif í allra nánasta umhverfi verksmiðjunnar, en skila litlu til þjóðarbúsins og önnur byggðarlög munu blæða eins og nú kemur sárlega á daginn.

Gengi krónunnar fylgir stóriðjustefnunni.
    Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan yrði 122–125. Það sem af er þessu ári er hún að meðaltali í 110 og stendur nú í 109. Í nýendurskoðaðri spá sinni gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir meðalgengisvístölu 119 sem sýnir í raun hversu lítið veruleikaskyn er þar á bæ. Meðalgengisvísitala ársins 2004 reyndist vera 121 en í forsendum fjárlaga þess árs var hún áætluð 132–135.
    Meðalgengi dollarans 2001 var 98 krónur, árið 2002 var hann á 92 kr., árið 2004 á 70 kr. og í ár er meðalgengi dollars 63 kr, það sem af er.
    Útflutningsvara sem gaf 1 milljón króna greidd með dollar árið 2001 gefur nú aðeins 643 þús kr. árið 2005.
    Það er því augljóst að útflutningsgreinar og nýsköpunarfyrirtæki geta ekki starfað í eðlilegri samkeppni við þessar aðstæður.
    Við þingmenn vinstri-grænna höfum ítrekað varað við þeim gríðarlegu ruðningsáhrifum sem stóriðjuframkvæmdirnar á suðvesturhorninu og fyrir austan hafa samanlagt á annað atvinnulíf í landinu.
    Að óbreyttri stefnu ríkisstjórnarinnar er lítil von á breytingu hér á næstu misserum.
    Og það eru íbúar staða eins og Ísafjarðar, Bíldudals, Þingeyrar og Blönduóss sem nú borga herkostnaðinn.



Fylgiskjal XIV.


Jón Bjarnason:

Þeir sem borga stóriðjutollinn.
(Morgunblaðið, 5. júní 2005.)


    Risavaxnar framkvæmdir á afmörkuðum stöðum á landinu tröllríða nú þjóðinni, keyra upp gengi krónunnar og skerða harkalega samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina. Stórfelldur innflutningur á ódýru erlendu vinnuafli þrýstir niður launum og starfskjörum sem almennt launafólk á Íslandi hefur náð með áratuga baráttu. Óhugnanlegur hagnaður banka, fjármálastofnana og einstakra manna í viðskiptaheiminum segja sína sögu um hvert þjóðarauðurinn fer.

Ætlar álæðið engan enda að taka?
    Ríkisstjórnin keyrði í gegn ein stærstu umhverfisspjöll í Norðurálfu með Kárahnjúkavirkjun. Orkan er seld til stóriðju á spottprís en almennir notendur látnir borga fórnarkostnaðinn. Fjárhagslegur ábati þjóðarinnar er talinn hverfandi því aðföng öll eru innflutt, virkjunin reist fyrir erlent lánsfé, rafmagnið selt á útsöluverði og meginþorri vinnuaflsins tímabundið erlent vinnuafl, sem fer með launin beint úr landi. Þeim fjölgar nú ört sem draga í efa að álversframkvæmdirnar á Austurlandi standi undir þeim væntingum sem heimamönnum var talin trú um.
    Margur hugði að nú yrði látið staðar numið eða hægt á stóriðjunni uns sæist fyrir endann á Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli. Aðrar atvinnugreinar voru beðnar um að sýna biðlund og þreyja óhagstætt gengi, erlenda skuldasöfnun og innflutning á ódýru vinnuafli. Meira að segja brýnar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, Norðurlandi og víðar voru skornar niður um milljarða króna og loforð svikin, allt til að halda niðri þenslu meðan stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan gengju yfir. En álæðið er algjört og engu eirt.
    Og nú er komið að íbúum Bíldudals að greiða stóriðjutollinn.

Nú skulu Bílddælingar borga.
    Alveg fram á síðustu ár hefur Bíldudalur skipað mikilvægan sess í útgerð og fiskvinnslu hér á landi. Gjöful fiskimið, atorkusamir sjómenn og vinnufúsar hendur í landi áttu drjúgan hlut að því að gera okkur að einni ríkustu þjóð heims. Ef rétt væri á málum haldið og forgangsréttur byggðanna að auðlindum sínum virtur, eiga Bílddælingar allan rétt á að fara áfram með stóran hlut í öflun þjóðartekna. Í stefnu Vinstri grænna er þess krafist að íbúar sjávarbyggðanna eigi forgangsrétt að fiskimiðunum meðfram ströndum landsins.
    Að leita fyllstu hagkvæmni í atvinnurekstri er sjálfsagt. En sú stefna sem krefst þess að heilu atvinnugreinunum sé „hagrætt í hel“ er miskunnarlaus gagnvart fólkinu og stórskaðleg þjóðinni er til lengri tíma er litið.
    Tilkynnt er lokun stærsta fyrirtækis Bíldudals og öllu starfsfólki er sagt upp, um 50 manns í tæplega 300 manna samfélagi.
    Í viðtali á Bæjarins Besta 1. júní sl. segir Jens Valdimarsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Bílddælings :
    „Gengi krónunnar hefur styrkst mjög mikið að undanförnu vegna framkvæmda fyrir austan og það hefur veikt grundvöll fiskvinnslunnar. Það eru miklar væntingar til stóriðju og það fundum við á dögunum þegar umræðan hófst um hugsanlega stóriðju á Suðurnesjum. Þá styrktist gengi krónunnar að nýju og því er sjávarútvegurinn og fólkið í sjávarbyggðunum að greiða herkostnaðinn af virkjunum og stóriðju eystra“.
    Og fórnirnar halda áfram.

Vinstri grænir krefjast breyttrar stefnu.
    Þingmenn Vinstri grænna lögðu fram á vordögum tillögur í 6 liðum sem bráðaaðgerð til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, atvinnulíf og búsetu um allt land: Númer eitt er „að ríkisstjórnin gefi nú þegar út yfirlýsingu um að hvorki verði af hálfu opinberra aðila veitt leyfi fyrir frekari stórvirkjunum né uppbyggingu meiri orkufrekrar stóriðju en þegar er í byggingu, a.m.k. til ársloka 2010. Áhersla verði þess í stað lögð á fjölbreytta smáa og meðalstóra iðnaðarkosti af viðráðanlegri stærð fyrir hagkerfið og aðstæður viðkomandi byggðarlaga“.
    Stóriðjustefnan keyrir upp gengið og ryður burt öðrum atvinnugreinum. Sprotafyrirtæki, nýsköpun og einstaklingsrekstur þola ekki þetta háa gengi sem haldið er uppi með erlendri skuldasöfnun og innfluttu vinnuafli á smánarkjörum.
    Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir að gengisvísitalan væri 122–125. Það sem af er þessu ári er hún 107–113. Í endurskoðaðri spá sinni nýverið gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir gengisvísitölu upp á 119 að meðaltali á þessu ári, en litlar líkur eru á að það náist.

Ætla sjálfstæðismenn endalaust að styðja álæði Framsóknar?
    Hvar er nú umhyggja Sjálfstæðisflokksins fyrir einstaklingsframtakinu og fjölbreyttri flóru atvinnulífsins? Er það vilji þeirra að heilu atvinnugreinarnar leggist af og annar hver Íslendingur vinni í útlendum álverum? Er þjóðin reiðubúin að færa ótakmarkaðar fórnir á náttúruperlum, atvinnulífi og búsetu fólks fyrir álæði Framsóknarflokksins? Ég held ekki.
    Sveitarstjórnir á Vestfjörðum, Norðurlandi og um allt land, svo og verkalýðsfélögin og samtök atvinnulífsins, ekki síst ferðaþjónustunnar, eiga að krefjast þess að stjórnvöld fresti nú þegar öllum áformum um frekari uppbyggingu stóriðju og stórvirkjana en gefi öðru atvinnulífi svigrúm og efnahagslífinu tækifæri að ná stöðugleika að nýju.