Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
Þskj. 470  —  388. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með þjónusturými er í lögum þessum átt við öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þ.m.t. áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf. Sama er um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum.
     b.      2. og 5. mgr. falla brott.
     c.      6. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um reykingar á gististöðum og um framkvæmd banns við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra.

3. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 2. mgr. 9. gr. skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi hans sjá til þess að hann njóti þess réttar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. og 3. gr. koma til framkvæmda 1. júní 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson, óskaði á árinu 2004 eftir tillögum frá tóbaksvarnaráði og Lýðheilsustöð um endurskoðun þeirra ákvæða tóbaksvarnalaga sem heimila reykingar á afmörkuðum svæðum veitinga- og skemmtistaða. Þessar tillögur hafa nú borist og er þar lagt til að reykingar í þjónusturými á veitinga- og skemmtistöðum verði bannaðar með öllu. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram og samið er af starfsmönnum ráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og tóbaksvarnaráðs er því lagt til að fyrrgreint ákvæði laga um tóbaksvarnir verði afnumið og reykingar í þjónusturými veitinga- og skemmtistaða verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007. Með þeirri frestun á framkvæmd laganna verði rekstraraðilum gefinn kostur á aðlögunartíma.

Markmið frumvarpsins.
    Meginmarkmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna með vísan til gildandi vinnuverndarlaga og tóbaksvarnalaga og vernd almennings með vísan til hratt vaxandi fjölda vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum. Þegar þetta meginmarkmið er uppfyllt má búast við ýmiss konar öðrum ávinningi af reykbanninu, bæði fyrir samfélag og einstaklinga.
    
Forsaga.
    Í áranna rás hafa íslensk stjórnvöld verið í fararbroddi í heiminum í lagasetningu og forvörnum á sviði tóbaksvarna og mörg lönd litið hingað til lands þegar marka á stefnu í tóbaksvörnum.
    Lög um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, tóku gildi 1. janúar 1985 og hafa breyst nokkuð á þeim tíma sem liðinn er. Í 1. gr. núgildandi tóbaksvarnalaga, nr. 6/2002, er lögð áhersla á að draga skuli úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og hlífa fólki við áhrifum tóbaksreyks. Einnig segir þar að virða beri rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
    Frá 1985 hefur þrisvar verið hert á ákvæðum tóbaksvarnalaga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk þurfi að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum. Í 9. gr. laganna, eins og þau eru nú, er kveðið á um að reykingar séu óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka en leyfa megi þær með ákveðnum skilyrðum á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Í ljósi nýrrar þekkingar um skaðsemi óbeinna reykinga væri afnám undanþágu 9. gr. tóbaksvarnalaga (sbr. 2. mgr.) eðlileg framvinda.
    Árið 1980 samþykkti Alþingi lög um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum. Markmið vinnuverndarlaga, nr. 46/1980, er að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu og í samræmi við ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins. Í ákvæði 65. gr. laganna kemur fram að atvinnurekanda ber að grípa til nauðsynlegra forvarna til að koma í veg fyrir mengun á vinnustað eða, sé þess ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt. Miðað við núverandi undanþágu, sem veitinga- og skemmtistaðir hafa frá 9. gr. tóbaksvarnalaga, nýtur starfsfólk þessara staða ekki þeirra réttinda sem vinnuverndarlögum er ætlað að tryggja því jafnt og öðru vinnandi fólki.
    Árið 1999 samþykkti Alþingi með öllum greiddum atkvæðum heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Er henni ætlað að marka stefnu í heilbrigðismálum fram til ársins 2010. Eitt af markmiðum áætlunarinnar er að koma reykingum Íslendinga á aldrinum 18–69 ára niður fyrir 15% (eru nú tæplega 20%) og reykingum ungmenna 14–17 ára undir 5% (eru nú 7,7%).
    16. júní 2003 skrifuðu Íslendingar undir rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um tóbaksvarnir og voru þeir meðal fyrstu þjóða sem það gerðu. Í 8. grein samningsins er staðfest að aðilar viðurkenni að vísindaleg gögn hafi með óyggjandi hætti sýnt að óbeinar reykingar valdi dauða, sjúkdómum og fötlun og þeir skuldbindi sig til þess hver og einn að samþykkja og framkvæma lög og aðrar ráðstafanir til verndar gegn óbeinum reykingum á vinnustöðum innan húss, í almenningsfarartækjum, á stöðum sem ætlaðir eru fyrir almenning innan húss og, eftir því sem við á, á öðrum stöðum fyrir almenning.
    Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar, sem haldinn var í apríl 2005, samþykkti að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að allir veitinga- og skemmtistaðir yrðu reyklausir frá og með 1. júní 2007. Með þessari ályktun lýsa Samtök ferðaþjónustunnar yfir áhuga sínum á að stuðla að bættu vinnuumhverfi fyrir starfsfólk sitt, í samvinnu við stjórnvöld.
    Í ljósi vinnuverndarlaga, tóbaksvarnalöggjafar, heilbrigðisáætlunar til ársins 2010, þess að Ísland hefur fullgilt rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir og síðast en ekki síst í ljósi stuðnings veitingaiðnaðarins við lagasetningu um reyklausa veitinga- og skemmtistaði er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut sem þau hafa markað og tryggi öllum reyklaust vinnuumhverfi, þar með talið starfsfólki á veitinga- og skemmtistöðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 9. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, var kveðið á um bann við reykingum í „þeim hluta af húsnæði stofnana, fyrirtækja og annarra þar sem almenningur leitar aðgangs í sambandi við afgreiðslu eða þjónustu sem þessir aðilar veita“. Ákvæðið var síðar skýrt nánar á dreifispjaldi um takmarkanir reykinga á vinnustöðum. Voru þar m.a. nefnd helstu dæmi um hvað teldist til þess hluta húsnæðis þar sem ekki mætti reykja. Fyrrgreindu orðalagi í 1. mgr. 9. gr. var ekki breytt með breytingalögum nr. 101/1996 en í breytingalögum nr. 95/2001 er í þessu sambandi talað um „þjónusturými“, án skýringa. Lagt er til að úr þessu verði bætt með því að skilgreina þetta hugtak í lögum um tóbaksvarnir.

Um 2. gr.


     Um a-lið. Breytingin á 1. mgr. 9. gr. laganna felst í viðbótarákvæði um að við tiltekin skilyrði skuli farið með þjónustusvæði utan húss með sama hætti og þjónusturými innanhúss að því er varðar bann við reykingum. Er þá einkum litið til svæða í tengslum við kaffihús og aðra matsölustaði. Reglan sem hér er sett fram er hin sama og í írsku lögunum sem sagt er frá í almennum athugasemdum hér að framan.
     Um b-lið. Lagt er til að 2. mgr. 9. gr. laganna verði felld brott og er sú breyting megintilgangur frumvarpsins, þ.e. afnám undanþágu frá reykingabanni sem veitinga- og skemmtistöðum er veitt í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 6/2002. Núgildandi ákvæði laganna um reykingar á veitinga- og skemmtistöðum voru sett með lögum nr. 95/2001. Með þeim var gengið lengra en áður í viðleitni til að vernda fólk fyrir tóbaksreyk á þessum stöðum. Um rök fyrir því að ganga enn lengra og banna reykingar þar alfarið í öllu þjónusturými er vísað til almennra athugasemda.
    Lagt er til að 5. mgr. 9. gr. laganna verði felld brott og tengist sú breyting því að þjónusturými á veitinga- og skemmtistöðum verða með öllu reyklaus, sbr. umfjöllun hér að framan, og því ekki ástæða til að kveða framvegis sérstaklega á um skyldu stjórnenda veitingastaða til að vernda starfsfólkið gegn tóbaksreyk.
     Um c-lið. Breytingin samkvæmt þessum lið tengist einnig breytingunni skv. b-lið með hliðsjón af því að ekki er að sinni hróflað við ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 6/2002 um heimild til reykinga í tilteknum gistiherbergjum á gististöðum. Að því er varðar veitinga- og skemmtistaði er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að stuðla að því að banni við reykingum verði framfylgt með setningu reglugerðar um framkvæmd bannsins í samráði við aðra ráðherra.

Um 3. gr.


    Breytingin á 1. mgr. 12. gr. laganna er eðlileg afleiðing breytingar skv. b-lið 2. gr. frumvarpsins, sbr. einnig það sem áður segir um gististaði.

Um 4. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að veitinga- og skemmtistaðir hafi tíma til að undirbúa starfsemi sína og laga hana að áformuðum breytingum til 1. júní 2007, en þá eigi staðirnir að vera orðnir reyklausir.



Fylgiskjal I.


GREINARGERÐ LÝÐHEILSUSTÖÐVAR



Óbeinar reykingar og afleiðingar þeirra.
    Í tóbaksreyk eru nokkur þúsund efni og efnasambönd. Uppruni þeirra er margvíslegur. Nefna má efni úr tóbaksjurtinni sjálfri, efni notuð við ræktun hennar (t.d. skordýraeitursleifar), efni notuð við vinnslu plöntunnar (t.d. klórsambönd) og efni notuð til að auka fíknaráhrif nikótíns (t.d. ammoníak). Fjölmörg þessara efna og efnasambanda eru hættuleg heilsu manna, þar á meðal eru tugir krabbameinsvaldandi efna.
    Þegar sígaretta eða annað tóbak brennur verða til tvær tegundir reyks, annars vegar reykurinn sem reykingamenn sjúga að sér, kallað meginreykur (main stream smoke), og hins vegar reykurinn sem myndast þegar tóbakið brennur sjálft, hliðarreykur (side stream smoke). Reykurinn, sem reykingamenn sjúga að sér, verður til við tiltölulega fullkominn bruna (800– 900 *C) og inniheldur minna af skaðlegum efnum fyrir vikið. Reykurinn, sem myndast þegar tóbakið brennur sjálft, myndast hins vegar við ófullkominn bruna (ca. 600 *C) og inniheldur því meira af skaðlegum efnum 1 . Meiri hluti hverrar sígarettu (og annars tóbaks) brennur upp án sogs og myndar hættulegri reykinn (hliðarreykinn). Reykmengun, sem myndast þar sem reykt er innan húss, t.d. á veitinga- og skemmtistöðum, verður því að stærri hluta til úr hinum hættulegri hliðarreyk.
    Óbeinar reykingar (passive smoking, involuntary smoking) er það þegar einstaklingur andar að sér lofti sem mengað er tóbaksreyk. Sá sem verður fyrir óbeinum reykingum andar að sér sömu efnum og sá sem reykir.
    Rúm hálf öld er síðan fyrstu sannanir um heilsuskaðleg áhrif reykinga komu fram og hefur það margoft verið staðfest síðan. Áratugir eru liðnir síðan menn gerðu sér grein fyrir því að reykingar þungaðra kvenna hafa skaðleg áhrif á fóstur. Styttra er síðan vísbendingar komu fram um heilsuskaða hjá þeim sem ekki reykja sjálfir en búa við tóbaksreykmengað andrúmsloft á heimili eða í vinnu.
    Á undanförum árum hefur komið fram fjöldi rannsókna sem sýna að slíkar „óbeinar“ reykingar eru skaðlegar heilsunni og geta auk ýmiss konar óþæginda og vanlíðunar valdið mörgum sömu sjúkdómum og hljótast af því að reykja. Taflan hér á eftir sýnir heilsufarslegar afleiðingar óbeinna reykinga.

Þekktar afleiðingar óbeinna reykinga.
Fullorðnir:
    Lungnakrabbamein.
    Hjarta- og æðasjúkdómar.
    Brjóstverkir og fleiri einkenni hjartasjúkdóma versna.
    Astmaköst hjá þeim sem hafa astma.
    Berkjubólga versnar.
    Heilablóðfall.
    Fósturvöxtur minni en ella (lítil fæðingarþyngd).
    Fæðing fyrir tímann.
Börn:
    Vöggudauði.
    Eyrnabólgur.
    Sýkingar í öndunarfærum.
    Astmaköst hjá þeim sem hafa astma.
    Þróun astma hjá einkennalausum.
Aðrar afleiðingar óbeinna reykinga:
    Öndunarerfiðleikar.
    Ógleði.
    Óþægindi í öndunarfærum.
    Höfuðverkur.
    Hósti.
    Óþægindi í augum.
Taflan er fengin hjá breska læknafélaginu (British Medical Association, 2002 2 ).

    Óþægindi í augum, nefi og öndunarfærum eru vel staðfestar afleiðingar óbeinna reykinga. Rannsóknir hafa til að mynda sýnt að fólk sem vinnur í reykmettuðu umhverfi kvartar yfir slíkum óþægindum 3 , 4 . Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að óbeinar reykingar hafa þau áhrif að lungnavirkni fólks sem er reglulega í slíku umhverfi minnkar 5 , 6 , 7 og að tengsl eru við ýmis öndunarfæravandamál, svo sem andnauð, þyngsli fyrir brjósti og lungnaþembu 8 , 9 . Enn fremur hefur verið sýnt fram á að þeir sem verða fyrir tóbaksreyk heima eða í vinnunni séu í 40–60% meiri hættu á að fá astma en þeir sem ekki verða fyrir tóbaksreyk 10 . Fólk, sem er með astma, fær ekki aðeins alvarlegri astmaköst ef það verður fyrir tóbaksreyk heldur líður því almennt verr og þarf oftar að leggjast inn á sjúkrahús 11 .
    International Agency for Research on Cancer (IARC) skoðaði nýlega allar stærri rannsóknir þar sem könnuð höfðu verið tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Þessi sérfræðingahópur kemst að þeirri niðurstöðu að óbeinar reykingar geti aukið hættu á lungnakrabbameini um 20–30% 12 . Tengsl eru milli þess magns reyks sem einstaklingur verður fyrir og hættu á lungnakrabbameini, rétt eins og hjá reykingamönnum. Einnig benda rannsóknarniðurstöður til þess að óbeinar reykingar geti aukið hættuna á legháls- 13 , 14 og brjóstakrabbameini 15 , 16 þrátt fyrir að orsakasamband hafi ekki verið staðfest eins og með lungnakrabbamein.
    Margar rannsóknir hafa sýnt að óbeinar reykingar auka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum hjá þeim sem búa við reykingar heima og/eða í vinnunni. Þessar rannsóknir benda til þess að ef einstaklingur, sem reykir ekki, á maka sem reykir eða vinnur í reykmettuðu umhverfi eykst hættan á að hann fái hjartaáfall um 25–30% 17 , 18 , 19 , 20 . Í nýlegri 20 ára framskyggnri rannsókn ( prospective study) þar sem mælt var magn cotinine (niðurbrotsefni nikótíns) í blóði, í stað þess að nota sjálfsmat, kom í ljós að áhrif óbeinna reykinga á hjarta- og æðasjúkdóma hafa hugsanlega verið vanmetin í fyrri rannsóknum. Samkvæmt þessari nýju rannsókn auka óbeinar reykingar hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum um 45–57% 21 . Þegar rannsóknir eru teknar saman kemur í ljós að áhrif óbeinna reykinga eru allt að því jafnmikil og þess að reykja sjálfur (80–90%) og aðeins þarf lítið magn reyks til að hafa áhrif á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, svo sem storknun blóðs, myndun blóðtappa og hörðnun kransæða 22 .
    Nokkuð er um að rannsóknir sýni tengsl milli óbeinna reykinga og heilablóðfalls. Í ljós hefur komið að fólk, sem verður reglulega fyrir óbeinum reykingum, er í allt að því tvöfalt meiri hættu á að fá heilablóðfall en þeir sem ekki verða fyrir óbeinum reykingum 23 , 24 .
    Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir óbeinum reykingum. Tóbaksreykur minnkar lungnavirkni þeirra og þau verða viðkvæmari fyrir sýkingum, svo sem lungnabólgu, berkjubólgu og eyrnabólgu. Einnig valda þær einkennum eins og hósta og blístri í öndunarfærum. Óbeinar reykingar hafa jafnframt verið tengdar minni vexti lungna og auknum líkum á að þróa með sér astma, sem og auknum fjölda og alvarleika astmakasta 25 , 26 . Í Bretlandi er áætlað að um 17.000 börn undir fimm ára aldri séu lögð inn á sjúkrahús á ári hverju vegna heilsubrests sem rekja má til óbeinna reykinga 27 .
    Ófædd börn verða fyrir óbeinum reykingum ef móðirin reykir á meðgöngu eða ef þá er reykt í kringum hana. Flestum er ljóst að reykingar móður á meðgöngu geta verið mjög skaðlegar fóstri en einnig benda nýlegar rannsóknir til þess að reykingar í umhverfi þungaðrar konu geti haft áhrif á fóstur. Lítil fæðingarþyngd 28 , 29 og fyrirburafæðingar 30 eru algengari ef móðirin hefur orðið fyrir óbeinum reykingum á meðgöngu og hættan á minni fæðingarþyngd eykst eftir því sem óbeinu reykingarnar eru meiri og tíðari 31 .

Heilsuvernd starfsmanna.
    Margir starfsmenn veitinga- og skemmtistaða verða fyrir miklum áhrifum af óbeinum reykingum. Þetta er ein fárra stétta sem ekki fær vernd skv. 9. gr. tóbaksvarnalaga og 1. gr. vinnuverndarlaga, nr. 46/1980. Þetta starfsfólk býr margt við það í vinnu sinni að anda að sér reykmenguðu lofti þótt sannað sé að það valdi bæði óþægindum, sjúkdómum og dauðsföllum. Til eru margar rannsóknir sem benda til þess að óbeinar reykingar á vinnustöðum séu skaðlegar heilsu fólks. Rannsóknarmenn hafa til að mynda sýnt fram á að fólk, sem vinnur á vínveitingabar en reykir ekki sé með svipaða þéttni nikótíns í blóði og fólk sem reykir daglega 32 .
    Þegar skoðaðar eru rannsóknir, þar sem könnuð hafa verið tengsl lungnakrabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma og þess að vinna í umhverfi þar sem reykt er, kemur í ljós að áhætta starfsfólks eykst við að vinna í slíku umhverfi. Fólk, sem vinnur í reykmettuðu umhverfi, er t.d. í allt að 50% meiri hættu á að fá lungnakrabbamein 33 , 34 , 35 og rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum benda til 20% meiri hættu 36 , 37 . Í nýlegri bandarískri rannsókn voru skoðuð áætluð dauðsföll vegna óbeinna reykinga í vinnu og þar kom í ljós að áætlað er að 2.000– 3.000 manns deyi á ári hverju úr hjartasjúkdómum vegna óbeinna reykinga í vinnu 38 . Einnig hefur nýleg rannsókn frá Nýja-Sjálandi (3,8 milljónir íbúa) sýnt að hægt er að fækka dauðsföllum um 300 á ári ef óbeinar reykingar eru takmarkaðar 39 .
    Nýlega gerðu Svíar, Finnar og Eistar sameiginlega rannsókn þar sem komu fram tengsl milli óbeinna reykinga og margra einkenna, svo sem langvinns hósta, blísturs í öndunarfærum, óeðlilegrar slímmyndunar og mæði. Einnig fundu þeir sterk tengsl milli magns tóbaksreyks, sem fólk verður fyrir, og óþæginda í öndunarfærum og að óbeinar reykingar í vinnu eru hættulegri en óbeinar reykingar á heimili 40 . Nærtækasta skýringin á þessu er að í vinnu reykja fleiri í einu rými og að tillitssemi er sennilega meiri á heimili. Fleiri rannsóknir hafa sýnt hið sama 41 , 42 , 43 . Þessar niðurstöður benda til þess að sérstaklega mikilvægt sé að veita starfsfólki vernd fyrir tóbaksreyk í vinnunni.
    Tilgangur lagasetningar um reyklausa veitinga- og skemmtistaði er fyrst og fremst að bæta vinnuumhverfi þeirra sem þar vinna og draga þannig úr áhættu starfsmanna. Rannsóknir á heilsu og vellíðan starfsmanna fyrir og eftir að slík lög hafa tekið gildi sýna að slíkar aðgerðir skila tilskildum árangri. Í rannsókn, sem gerð var í Kaliforníu, kom fram að þjónustufólk kvartaði undan óþægindum í öndunarfærum, svo sem hósta, mæði, blístri í öndunarfærum og óþægindum í augum, nefi og hálsi fyrir lagasetninguna. Einum mánuði eftir lögin tóku gildi höfðu einkenni í öndunarfærum minnkað um 60% og óþægindi um 80%. Lungnavirkni hafði einnig aukist nokkuð 44 . Einnig sýnir norsk rannsókn sem gerð var fyrir og eftir að sambærileg lög tóku gildi að gæði lofts sem fólkið vann í batnaði til muna. Enn fremur sögðust færri starfsmenn finna fyrir almennum heilsufarsvandamálum, svo sem höfuðverk, ertingu í augum og þurrki í hálsi, og færri fundu fyrir óþægindum í öndunarfærum 45 . Þessar rannsóknarniðurstöður sýna að það að útiloka óbeinar reykingar úr umhverfi starfsmanna hefur mjög fljótt jákvæð áhrif á vellíðan þeirra. Rannsóknarniðurstöður um neikvæð langtímaáhrif óbeinna reykinga benda til þess að lagasetning hafi ekki síður mjög jákvæð áhrif á heilsu fólks til lengri tíma og fækki ótímabærum dauðsföllum.
    Enda þótt margt starfsfólk veitinga- og skemmtistaða sé í hættu vegna óbeinna reykinga eru sumir hópar viðkvæmari en aðrir. Eins og minnst var á hér að framan hefur verið sýnt fram á skaðleg áhrif óbeinna reykinga á fóstur þungaðra kvenna og meiri einkenni meðal astmasjúklinga. Í ljósi þessa eru þungaðar konur og fólk með öndunarfæravandamál eins og astma í aukinni áhættu. Starfsmenn, sem reykja sjálfir, verða einnig fyrir skaðlegum áhrifum af völdum óbeinna reykinga á vinnustað sínu í viðbót við eigin reykingar.
    Heilsuspillandi áhrif tóbaksreyks á fólk í þjónustustörfum virðast nokkuð óyggjandi en spyrja mætti af hverju núgildandi löggjöf um reyklaus svæði og loftræstingar eru ekki fullnægjandi til að vernda starfsfólk og af hverju sé þörf á að afnema þá undanþágu sem nú er í tóbaksvarnalögum fyrir veitinga- og skemmtistaði. Nokkrar ástæður liggja þar að baki:

1. Starfsfólk fær ekki þá heilsuvernd sem það á rétt á.
    Þrátt fyrir að skipt sé í reyksvæði og reyklaus svæði á veitinga- og skemmtistöðum og farið sé fullkomlega að lögum og reglum þarf starfsfólk engu síður að sinna starfi sínu á reyksvæðum. Með því að hafa reyksvæði og reyklaus svæði en ekki reyklausa staði er þessi hópur því áfram undanskilinn þeirri vinnuvernd sem 1. gr. vinnuverndarlaga, nr. 46/1980, er greinilega ætlað að tryggja öllu vinnandi fólki.

2. Reykur berst milli reyksvæða og reyklausra svæða.
    Nokkrar erlendar mælingar sýna að þrátt fyrir að reyklaus svæði séu notuð eins og til er ætlast duga þau hvorki til að vernda gesti né starfsfólk. Ástralskir heilsugæslulæknar gerðu nýlega athugun á 17 veitingastöðum og börum sem allir voru með reyklaus svæði og reyksvæði. Mældu þeir nikótín og önnur efni úr tóbaksreyk í andrúmslofti á báðum þessum svæðum og komust að þeirri niðurstöðu að reyklausu svæðin veittu litla vernd gegn óbeinum reykingum. Reykmengunin mældist þar í besta falli helmingi minni en á reyksvæðunum 46 . Norðmenn hafa gert nokkrar svipaðar mælingar og í ljós hefur komið að þótt hlutfall efna úr tóbaksreyk sé eitthvað lægra á reyklausum svæðum en reyksvæðum séu efnin jafnan langt yfir hættumörkum 47 .

3. Reglur um reyklaus svæði og loftræstingu virðast ekki vera virtar.     
    Sumarið 2002 var gerð ítarleg vettvangskönnun á 40 veitingastöðum í Reykjavík þar sem leyft var að reykja. Kom í ljós að á öllum nema einum vantaði meira eða minna á að settum skilyrðum væri fullnægt. Á flestum þessum stöðum var að vísu við lýði skipting í reyklaus svæði og reyksvæði en aðeins á um helmingi staðanna voru reyklausu svæðin álíka stór eða stærri en reyksvæðin (reiknað út frá borðafjölda). Á þremur stöðum voru reykingar leyfðar í öllu þjónusturýminu. Loftræsting var í flestum tilvikum annaðhvort engin sýnileg eða lítt eða ekki virk og á þeim stöðum þar sem ástandið var þó skást að þessu leyti nægði loftræstingin aðeins á einum stað (tveir alveg aðskildir salir) til að reykurinn mengaði ekki merkjanlega andrúmsloftið á reyklausu svæðunum. Athyglisvert er að í ljós kom að aðeins 8% gesta reyktu en 92% gerðu það ekki 48 .

4. Loftræstibúnaður ræður ekki við tóbaksreykjarmengun.
    Erlendir sérfræðingar hafa komist að því að engin loftræstikerfi séu nógu öflug til hreinsa loftið nægilega til að vernda starfsfólk. Til þess þarf loftræstikerfi almennt að vera um 20 þúsund sinnum áhrifaríkara 49 .

Aðrir kostir reyklausra veitingahúsa.
1. Vernd gesta gegn óbeinum reykingum.
    Þótt meginmarkmiðið lagasetningar um reyklaus veitingahús sé að hlífa starfsfólki við óbeinum reykingum vinnst það einnig að allir gestir veitinga- og skemmtistaða fá sömu vernd. Augljóst má vera hve mikilvægt það er, ekki síst fyrir ákveðna hópa, svo sem þungaðar konur, börn og fólk með öndunarfærasjúkdóma eða hjartasjúkdóma.

2. Minnkun heildarreykinga.
    Reynslan sýnir að lagasetning um reyklausa vinnustaði, þ.m.t. veitinga- og skemmtistaði, dragi úr heildarreykingum í samfélaginu. Í Kaliforníu, þar sem slík lagasetning hefur gilt síðan 1998, drógust reykingar saman eftir lagasetninguna og nú reykja 16,4% þar en 33% í Kentucky þar sem slík lög eru ekki í gildi 50 . Í mati, sem Írar gerðu stuttu eftir að slík lög tóku gildi hjá þeim, kom einnig fram að 20% reykingamanna slepptu alveg að reykja þegar þeir fóru út á veitinga- eða skemmtistaði og bendir það til minnkunar í heildarreykingum 51 .
    Þrátt fyrir að tiltölulega stutt sé síðan löggjöf um þessi efni tók gildi bæði í Noregi og Írlandi benda tölur til þess að fleiri hafi reynt að hætta að reykja þar eftir að nýju lögin tóku gildi og að sala á sígarettum hafi dregist saman. Í Noregi hefur ekki dregið marktækt úr tíðni reykinga en mun fleiri hafa reynt að hætta eftir lagasetningu en áður og sala á sígarettum hefur minnkað 52 . Sama ár og lög um reyklausa vinnustaði tóku gildi á Írlandi (árið 2004) bárust einnig fréttir af því að sala á tóbaki hefði dregist saman. Í september 2004 tilkynnti Gallaher Group, sem er með um helmingsmarkaðshlutdeild í sígarettusölu á Írlandi, að sala á sígarettum frá fyrirtækinu hefði minnkað um 7,5% og fyrirtækið seldi 260 milljón færri sígarettur frá janúar til júní 2004 en næstu sex mánuði á undan 53 . Í byrjun nóvember bárust svo fréttir frá næststærsta tóbakssala Íra um að sala þeirra hefði minnkað um 10% árið 2004 og að fyrirtækið byggist við að selja 200 milljón færri sígarettur árið 2004 en árið 2003 54 . Þessar tölur benda til þess að reyklausir veitingastaðir hafi áhrif á heildarreykingar þjóðarinnar.
    Á skemmtistöðum er nokkuð um að ungt fólk reyki. Við slíkar aðstæður er sú hætta vel þekkt að fólk, sem áður hefur ekki reykt, byrji að prófa það („fikta“). Þetta getur verið upphafið að daglegum reykingum. Við lagasetningu má búast við að dragi úr þessari hættu en einnig má búast við að samkvæmisreykingar minnki.
    Reyklaust umhverfi er einnig mikilvægur stuðningur við þá sem hætta að reykja. Kanadískir rannsóknarmenn spurðu 191 fyrrverandi reykingamann um hvað hefði orðið til þess að þeir hættu. Um 39% sögðu ástæðuna vera lagasetningu sem bannaði reykingar á öllum opinberum stöðum. Einnig kom í ljós að reykingamenn, sem reyndu að hætta, voru þrisvar sinnum líklegri til að ná því markmiði þar sem lög voru í gildi en þar sem ekki voru slík lög 55 .

3. Minni kostnaður.
    Sé litið til kostnaðar við rekstur veitinga- og skemmtistaða sést að ýmis ávinningur fylgir því að þeir séu reyklausir. Nægir að nefna minni eldhættu og minni viðhaldsþörf vegna skemmda á húsbúnaði og óþrifa. Einnig hafa óbeinar reykingar aðrar afleiðingar fyrir starfsfólk, vinnuveitendur og heilbrigðiskerfið. Óbeinar reykingar hafa verið tengdar við fjarvistir frá vinnu, fjölda heimsókna til lækna og notkun lyfja hjá körlum 56 . Hagfræðistofnun HÍ mat framleiðslutap vegna óbeinna reykinga á Íslandi árið 2000 upp á 448 milljónir 57 . Athuga ber að aðeins var tekið mið af hjartasjúkdómum og lungnakrabbameini en fjarvistir frá vinnu o.fl. voru ekki teknar þar inn í. Ætla má að talan mundi hækka ef það væri gert.

4. Minnkun eldhættu.
    Búast má við að brunahætta á veitingastöðum minnki við að gera þá reyklausa þar sem bruni af völdum tóbaksreykinga er ein af þremur algengustu orsökum bruna á Íslandi. Þegar tölur Brunamálastofnunar frá árunum 1995–2003 eru skoðaðar kemur í ljós að um 3% bruna á Íslandi eru af völdum reykinga (þ.e. brunar sem eru það stórir að þeir eru tilkynntir til lögreglu) 58 . Þetta eru um 30 brunar á ári sem telst 68 milljónir í eignatap á verðlagi ársins 2003 samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar HÍ 59 .

Viðhorf viðskiptavina veitinga- og skemmtistaða.
    Gallup gerði tvívegis viðhorfsrannsókn (2002 og 2004) þar sem skoðuð voru viðhorf fullorðinna til reykinga á veitinga- og kaffihúsum og árið 2004 var spurt hvort fólk mundi fara sjaldnar, jafnoft eða oftar á þessa staði ef þeir væru alveg reyklausir. Í báðum rannsóknunum kom fram að rúmlega 60% svarenda voru andvíg reykingum á veitinga- og kaffihúsum og í maí 2004 sögðust 85,8% svarenda mundu fara jafnoft eða oftar á veitingastaði eða kaffihús ef þessir staðir yrðu reyklausir. Aðeins 14,1% töldu sig mundu fara sjaldnar. Athygli vekur að 52,8% fólks, sem reykir, sögðust mundu fara jafnoft eða oftar á kaffihús og veitingastaði ef þeir yrðu reyklausir. Þessar niðurstöður benda til þess að meiri hluti fullorðinna sé hlynntur algjörlega reyklausum veitinga- og kaffihúsum 60 , 61 .

Áhrif reykbanns á rekstur veitingahúsa.
    Í þeim löndum þar sem lög um reyklausa veitinga- og skemmtistaði hafa tekið gildi, hafa áhyggjur víða vaknað meðal veitingamanna. Þeir hafa jafnan áhyggjur af því að tap verði á rekstri, að þeir verði að segja upp fólki og jafnvel að fyrirtækið beri sig ekki ef staðurinn verður reyklaus. Fjárhagsleg áhrif reykingabanns á veitinga- og skemmtistöðum hafa verið skoðuð mjög víða og ekki finnast nokkur áreiðanleg gögn sem styðja þessar áhyggjur veitingamanna 62 .
    Árið 1997 var gerð rannsókn í Bandaríkjunum þar sem bornar voru saman borgir sem annars vegar leyfðu reykingar á veitinga- og skemmtistöðum og hins vegar borgir sem leyfðu það ekki. Niðurstaða þessarar rannsóknar var að enginn munur var á hlutfallslegri sölu drykkja og matar í þeim borgum sem bornar voru saman 63 . Þessar niðurstöður studdu margar fyrri rannsóknir sem höfðu sýnt slíkt hið sama. Í annarri rannsókn, sem gerð var í Texas 2002, voru bornar saman sölutölur 12 ár aftur í tímann (fyrir lagasetningu) og ári eftir lagasetningu og komust menn að því að enginn munur var á sölu drykkjar og matar á þessum tíma 64 . Niðurstöður þessara tveggja rannsókna hafa verið staðfestar í samantekt 97 rannsókna þar sem fram kemur að engar áreiðanlegar heimildir eru fyrir því að bann við reykingum á þessum stöðum hafi neikvæð fjárhagsleg áhrif heldur fundust ýmist engin áhrif eða jákvæð áhrif á sölu og fjölda starfa í atvinnugreininni 65 .

Reynsla annarra þjóða.
    Með aukinni þekkingu á þeim afleiðingum sem óbeinar reykingar geta haft á heilsu hafa mörg lönd á undanförnum árum hert tóbakslöggjöf sína til verndar landsmönnum.
    Þróun til reykleysis á veitingastöðum á sér hvað lengsta sögu í Bandaríkjunum og náði þar fyrst til einstakra borga og sýslna en síðan heilla ríkja. Kaliforníuríki bannaði fyrst reykingar í veitingastöðum árið 1994 en fjórum árum síðar var lagasetningin færð út og látin ná yfir hvers kyns veitinga- og skemmtistaði. Kannanir hafa sýnt mikinn og vaxandi stuðning við lagasetninguna, einnig meðal reykingamanna 66 . Eins og áður hefur verið bent á hafa sömuleiðis komið fram eindregin jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan starfsmanna 67 .
    Fordæmi Kaliforníumanna hefur víða verið fylgt þar vestra og þróunin ekki síst markast af því að æ fleiri ríki og borgir fella bann við reykingum á veitingastöðum inn í heildarlöggjöf um reyklausa vinnustaði („smokefree workplace legislation“) þar sem engir vinnustaðir eru undanskildir. Í New York-borg tóku slík lög t.d. gildi í mars 2003 en reykingar höfðu þá verið bannaðar á matsölustöðum þar um átta ára skeið. Þrátt fyrir hrakspár andstæðinga virðist hin víðtæka löggjöf yfirleitt ekki hafa bitnað á veitingahúsarekstri eða ferðaþjónustu í New York-borg 68 . Fyrsta árið eftir að lögin tóku gildi fjölgaði störfum í greininni, velta veitinga- og skemmtistaða jókst og veitingaleyfum fjölgaði. Langflestir New York-búar studdu lagasetninguna og 97% veitinga- og skemmtistaða virða lögin 69 .
    Svipuð þróun og í Bandaríkjunum á sér nú stað í Kanada. Þar hafa fimm af fylkjunum níu þegar sett sér lög um reyklausa vinnustaði og tvö eru að vinna í því.
    Nýja Sjáland hefur gengið skrefinu lengra og bannar reykingar á veitinga- og skemmtistöðum sínum um allt land.
    Árið 2004 bönnuðu Írar og Norðmenn og Möltubúar reykingar á öllum veitinga- og skemmtistöðum í sínum löndum. Í janúar fylgdu Ítalir í kjölfarið. Í öllum þessum löndum hefur framkvæmd laganna gengið mjög vel.
    Tóbaksvarnaráð Írlands (Office of Tobacco Control) mat árangurinn á Írlandi rúmum mánuði eftir að lögin tóku gildi og bar saman við tölur frá því mánuði fyrir gildistöku laganna. Í þessu mati kom fram 97% hlýðni við bannið, 71% þeirra sem spurðir voru höfðu farið á bar síðastliðinn hálfan mánuð en 68% fyrir gildistöku (aukningin var meðal þeirra sem ekki reyktu en þeir sem reyktu fóru jafnoft og áður). Um 92% sögðust fara jafnoft eða oftar á veitingastaði og 20% reykingamanna sögðust sleppa því að reykja þegar þeir færu út 70 .
    Norðmenn gerðu könnun á stuðningi við löggjöfina bæði í maí 2004 (fyrir gildistöku laga) og í október 2004. Í maí studdu 54% Norðmanna löggjöfina en í október hafði stuðningur aukist upp í 62% 71 . Einnig hafði lagasetningin haft jákvæð, almenn áhrif á heilsu starfsfólks. Samtímis var starfsfólk spurt um hlýðni við lagasetningu og kom í ljós að um 90% fólks fór að lögum eftir lagasetningu um algjört bann en aðeins um 51% þegar veitingastöðum var skipt í reyk- og reyklaus svæði 72 .
    Í júní síðastliðnum (2005) gengu í gildi lög í Svíþjóð um að banna reykingar í öllum húsakynnum þar sem matur og drykkur er framreiddur, hvort heldur er á matsölustöðum, kaffihúsum, krám, börum eða skemmtistöðum. Svíar völdu að fara aðra leið en Norðmenn og Írar og leyfa reykingar í sérstökum reykherbergjum þar sem hvorki má framreiða né neyta matar eða drykkjar 73 . Innleiðing þessara laga gengur vel.
    Í fleiri löndum eru vinnuverndarlög sem þessi að taka gildi á landsvísu eða í einstökum fylkjum. Þar má nefna Ástralíu og Skotland. Skotland er fyrsti hluti Bretlands sem samþykkir löggjöf um reyklausa vinnustaði en þar sagði mikill meiri hluti þingmanna (97 á móti 17) já við lögunum. Lögin munu taka gildi 26. mars 2006. Í Ástralíu hafa lögin verið samþykkt en taka gildi á mismunandi tíma eftir fylkjum 74 .
    Dæmin hér á undan sýna að víða hefur svipuð löggjöf og lögð er til hér á landi þegar tekið gildi og í ýmsum löndum stendur yfir umræða um slíka lagasetningu. Í fylgiskjali I má sjá lista yfir stöðu lagasetninga um reyklausa veitinga- og skemmtistaði víða um heim.



Fylgiskjal II.


Staða reyklausra veitinga- og skemmtistaða víða um heim.


    Í eftirfarandi lista má sjá stöðu lagasetningar um reyklausa veitinga- og skemmtistaði víða um heim. Athuga skal að þessi listi er frá apríl 2005 og er ekki tæmandi.

EVRÓPA
England:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum. Í umræðu að gera staði sem selja mat reyklausa árið 2008.
Frakkland:
    Reyklaus svæði á veitingastöðum og börum.
Grikkland:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Írland:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Ítalía:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir (leyfa reykherbergi sem verða að vera alveg lokuð frá öðru svæði og með sér loftræstingu).
Malta:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Noregur:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Rússland:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Skotland:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með apríl 2006.
Serbía:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Spánn:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum. Umræða um heildarlöggjöf um reyklausa vinnustaði áætluð 2005.
Svartfjallaland:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Svíþjóð:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir (leyfð eru reykherbergi þar sem ekki er nein þjónusta).
Tékkland:
    Neðri deild þingsins samþykkti frumvarp um reyklausa veitinga- og skemmtistaði (leyfa reykherbergi). Tekur gildi 2006.
Wales:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum. Í umræðu að gera staði sem selja mat reyklausa árið 2008.
Þýskaland:
    Reykingar eru takmarkaðar á veitinga- og skemmtistöðum.

KANADA
British Columbia:
    Veitingastaðir og barir eru með reykherbergi.
Manitoba (Winnipeg):
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
New Brunswick:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Nunavut:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Northwest Territories:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Nova Scotia:
    Engin takmörkun á reykingum (frumvarp um heildarlöggjöf um reyklausa vinnustaði verður lagt fram haustið 2005).
Ontario:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir frá og með maí 2006.
Saskatchewan:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Quebec:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.

MIÐ- OG SUÐUR-AMERÍKA
Brasilía:
    Veitingastaðir og barir hafa reyklaus svæði.
Kostaríka:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
Gvatemala:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
Mexíkó:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
Perú:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
    
AFRÍKA
Kenýa:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
Nígería:
    Engin takmörkun á reykingum á veitinga- og skemmtistöðum.
Suður-Afríka:
    Veitingastaðir og barir eru með reyklaus, loftræst svæði.
Úganda:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Tansanína
    Veitingastaðir hafa reyklaus svæði.

MIÐAUSTURLÖND
Egyptaland:
    Reykingar eru ekki leyfðar á lokuðum almenningsstöðum.
Íran:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir (sem og svæði með þaki) skulu nú vera reyklausir.
Ísrael:
    Matsalur veitingastaða skal vera reyklaus. Barir hafa reyklaus svæði.

SUÐUR-ASÍA
Bangladess:
    Flestir opinberir staðir eru reyklausir. Umræða um að gera veitingastaði reyklausa.
Bútan:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Indland:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Maldíveyjar:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir á nokkrum eyjum sem tilheyra Maldíveyjum skulu nú vera reyklausir. Allir loftkældir veitingastaðir skulu vera reyklausir.

AUSTUR-ASÍA OG VESTUR-KYRRAHAF
Fijieyjar:
    Reyklaus svæði á veitingastöðum. Engin takmörkun á börum.
Filippseyjar:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Hong Kong:
    Lagasetning um reyklausa veitinga- og skemmtistaði er fyrirhuguð. Áætlað að lögin taki gildi í október 2006.
Indónesía:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Japan:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Kína:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.
Nýja-Sjáland:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu nú vera reyklausir.
Singapúr:
    Allir veitingastaðir með loftkælingu skulu nú vera reyklausir. Yfirvöld eru að íhuga að láta lögin einnig ná til klúbba.
Tævan:
    Reyklaus svæði á veitingastöðum. Engin takmörkun á börum.
Tæland:
    75% veitingastaða skulu vera reyklaus. Engin takmörkun á börum.
Víetnam:
    Engin takmörkun reykinga á veitinga- og skemmtistöðum.

ÁSTRALÍA          
Sidney:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með desember 2006.
New South Wales:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með júní 2007.
Queensland:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með júní 2007.
Viktoría:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með júní 2007.
Suður-Ástralía:
    Allir veitinga- og skemmtistaðir skulu vera reyklausir frá og með janúar 2006.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

    Megintilgangur frumvarpsins er að afnema undanþágur sem nú eru í 2. mgr. 9. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2003, frá ákvæði 1. mgr. sömu greinar um bann við tóbaksreykingum.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.
Neðanmálsgrein: 1
    1          Claxton, L.D., Morin, R.S., et al. (1989). A genotoxic assessment of environmental tobacco smoke using bacterial bioassays. Mutation Research, 222, 81–99.
Neðanmálsgrein: 2
    2      British Medical Association (2002). Toward smoke-free public places. London: BMA.
Neðanmálsgrein: 3
    3      Eisner, M.D., Smith, A.K., & Blanc, P.D. (1998). Bartenders respiratory health after establishment of smoke-free bars and taverns. Journal of American Medical Association, 280, 1909–1914.
Neðanmálsgrein: 4
    4      Directorate for Health and Social affairs. (2005). Norway's ban on smoking in bars and restaurants – A review of the first year. Oslo: SHDIR.
Neðanmálsgrein: 5
    5      Chen, R., Tunstall-Pedoe, H., & Tavendale, R. (2001). Environmental tobacco smoke and lung function in employees who never smoked: the Scottish MONICA study. Occupational and Environmental Medicine, 58, 563–568.
Neðanmálsgrein: 6
    6      Carey, I.M., Cook, D.G., & Strachan, D.P. (1999). The effect of environmental tobacco smoke exposure on lung function in longitudinal study of British adults. Epidemiology, 10(3), 319–326.    
Neðanmálsgrein: 7
    7      Masjedi, M.R., Kazemi, H., & Johnson, D.C. (1990). Effect of passive smoking on the pulmonary function of adults. Thorax, 45, 27–31.
Neðanmálsgrein: 8
    8      Janson, C., Chinn, S., Jarvis, D., Zock, J.P., Torén, K., & Burney, P. (2001). Effect of passive smoking on respiratory symptoms, bronchial responsiveness, lung function, and total serum IgE in the European Community Respiratory Health Survey: a cross-sectional study. Lancet, 358, 2103–2108.
Neðanmálsgrein: 9
    9      Vineis, P., Airoldi, L., Veglia, P., Olgiati, L., Pastorelli, R., Autrup, H., Dunning, A., Garte, S., Gormally, E., Hainaut, P., Malaveille, C., Matullo, G., Peluso, M., Overvad, K., Tjonneland, A., Clavel- Chapelon, F., Boeing, H., Krogh, V., Palli, D., Panico, S., Tumino, R., Bueno-De-Mesquita, B., Peeters, P., Berglund, G., Hallmans, G., Saracci, R., & Riboli, E. (2005). Environmental tobacco smoke and risk of respiratory cancer and chronic obstructive pulmonary disease in former smokers and never smokers in the EPIC prospective study. British Medical Journal, 330(7486), 277–281.
Neðanmálsgrein: 10
    10      Coultas, D.B. (1998). Health effects of passive smoking. 8. Passive smoking and risk of adult asthma and COPD: An update. Thorax, 53, 381–387.
Neðanmálsgrein: 11
    11      Ulrich, C.S., & Lange, P. (2001). Cigarette smoking and asthma. Monaldi Archive of Chest Disease, 56, 349–353.
Neðanmálsgrein: 12
    12      WHO International Agency for Research on Cancer (2004). Monograph on the evaluation of carcinogenic risks to humans, Volume 83: Tobacco smoke and involuntary smoking. Lyons: WHO IARC.
Neðanmálsgrein: 13
    13      Tay, S.K., og Tay, K.J. (2004). Passive cigarette smoking is a risk factor in cervical neoplasia. Gynecologic Oncology, 93(1), 116–20.
Neðanmálsgrein: 14
    14      Trimble, C.L., Genkinger, J.M., Burke, A.E., Hoffman, S.C., Helzlsouer, K.J., Diener-West, M., Comstock, G.W., & Albert, A.J. (2005). Active and passive cigarette smoking and the risk of cervical neoplasia. Obstetrics & Gynecology, 105(1), 174–181.
Neðanmálsgrein: 15
    15      Johnson, K.C., Hu, J., Mao, Y., & The Canadian Cancer Registries Epiemiology Research Group. (2000). Passive and active smoking and breast cancer risk in Canada, 1994–1997. Cancer Causes and Control, 11, 211–221.
Neðanmálsgrein: 16
    16      Johnson, K.C. (2005). Accumulating evidence on passive and active smoking and breast cancer risk. International Journal of Cancer, 117(4), 619–628.
Neðanmálsgrein: 17
    17      Glantz, S.A., & Parmley, W.W. (1995). Passive smoking and heart disease. Mechanisms and risk. Journal of American Medical Association, 273, 1047–1053.
Neðanmálsgrein: 18
    18      He, J., Vupputuri, S., Allen, K., Prerost, M., Hughes, J., & Whelton, P. (1999). Passive smoking and the risk of coronary heart disease – a meta-analysis of epidemiologic studies. New England Journal of Medicine, 340, 920–926.
Neðanmálsgrein: 19
    19      Law, M.R., Morris, J.K., og Wald, N.J. (1997). Environmental tobacco smoke and ischaemic heart disease: an evaluation of the evidence. British Medical Journal, 315, 973–9.
Neðanmálsgrein: 20
    20      Rosenlund, M., Berglind, N., Gustavsson, A., Reuterwall, C., Hallqvist, J., Nyberg, F., & Pershagen, G. (2001). Environmental tobacco smoke and myocardial infarction among never-smokers in the Stockholm Heart Epidemiology Program (SHEEP). Epidemiology, 12, 558–564.
Neðanmálsgrein: 21
    21      Whincup, P.H., Gilg, J.A., Emberson, J.R., Jarvis, M.J., Feyerabend, C., Bryant, A., Walker, M., & Cook, D.G. (2004). Passive smoking and risk of coronary heart disease and stroke: prospective study with cotinine measurement. British Medical Journal, 329, 200–205.
Neðanmálsgrein: 22
    22      Barnoya, J., & Glantz, S.A. (2005). Cardiovascular Effects of Secondhand Smoke: Nearly as large as smoking. Circulation, 111, 2684–2698.
Neðanmálsgrein: 23
    23      Bonita, R., Duncan, J., et al. (1999). Passive smoking as well as active smoking increases the risk of acute stroke. Tobacco Control, 8, 156–160.
Neðanmálsgrein: 24
    24      You, R.X., et al. (1999). Ischemic stroke risk and passive exposure to spouses' cigarette smoking. American Journal of Public Health, 89, 572–5.
Neðanmálsgrein: 25
    25      World Health Organisation (1999). International consultation on environmental tobacco smoke and child health: consultation report. Geneva: WHO.
Neðanmálsgrein: 26
    26      DiFranza, J.R., Aligne, A., Weitzman, M. (2004). Prenatal and Postnatal Environmental Tobacco Smoke Exposure and Children's Health. Pediatrics, 113, 1007–1015.
Neðanmálsgrein: 27
    27      Royal College of Physicians of London. (1992). Smoking and the young. London, RCP.
Neðanmálsgrein: 28
    28      Misra, D.P., og Nguyen, R.H. (1999). Environmental tobacco smoke and low birth weight: a hazard in the workplace? Environmental Health Perspective, 107, 897–90.
Neðanmálsgrein: 29
    29      Hruba, D., og Kachlik, P. (2000). Influence of maternal active and passive smoking during pregnancy on birthweight in newborns. Central European Journal of Public Health, 8, 249–52.
Neðanmálsgrein: 30
    30      Windham, G.C., Hopkins, B., Fenster, L., og Swan, S.H. (2000). Pre-natal active or passive tobacco smoke exposure and the risk of pre-term delivery or low birth weight. Epidemiology, 11, 427–33.
Neðanmálsgrein: 31
    31      Hruba, D. og Kachlik, P. (2000). Influence of maternal active and passive smoking during pregnancy on birthweight in newborns. Central European Journal of Public Health, 8, 249–52.
Neðanmálsgrein: 32
    32      Al-Delaimy, W., Fraser, T., & Woodward, A. (2001). Nicotine in hair of bar and restaurant workers. New Zealand Medical Journal, 114, 80–83.
Neðanmálsgrein: 33
    33      Brown, K.G. (1999). Lung cancer and environmental tobacco smoke: occupational risk to nonsmokers. Environmental Health Perspective, 107 (supplement 6), 885–890.
Neðanmálsgrein: 34
    34      Reynolds, P. (1999). Epidemiologic evidence for workplace ETS as a risk factor for lung cancer among nonsmokers: specific risk estimates. Environmental Health Perspective, 107 (supplement 6), 865–872).
Neðanmálsgrein: 35
    35      Siegel, M. (1993). Involuntary smoking in the restaurant workplace. A review of employees exposure and health effects. Journal of the American Medical Association, 270, 490–493.
Neðanmálsgrein: 36
    36      Kawachi, I., Colditz, G.A., Speizer, F.E., Manson, J.E., Stampfer, M.J., Willett, W.C., & Hennekens, C.H. (1997). Circulation, 95(10), 2374–9.
Neðanmálsgrein: 37
    37      Steenland, K. (1999). Risk assessmen for heart disease and workplace ETS exposure among nonsmokers. Environmental Health Perspectives, 107( supplement 6), 859–63.
Neðanmálsgrein: 38
    38      Steenland, K., Burnett, C., Lalich, N., Ward, E., & Hurrell, J. (2003). Dying for work: The magnitude of US mortality from selected causes of death associated with occupation. American Journal of Industrial Medicine, 43(5), 461–482.
Neðanmálsgrein: 39
    39      Woodward, A., og Laugesen, M. (2001). How many deaths are caused by second-hand cigarette smoke? Tobacco Control, 10, 283–388.
Neðanmálsgrein: 40
    40      Larsson, M.L., Loit, H.M., Meren, M., Pölluste, J., Magnusson, A., Larsson, K., & Lundback, B. (2003). Passive smoking and respiratory symptoms in the FinEsS Study. European Respiratory Journal, 21, 672–676.
Neðanmálsgrein: 41
    41      Jansson, C., Chinn, S., Jarvis, D., Zock, JP., Torén, K., & Burney, P. (2001). Effects of passive smoking on respiratory symptoms, bronchial responsiveness, lung function and total IgE in the European Community Respiratory Health Survey: a cross-sectional study. Lancet, 2103–2109.
Neðanmálsgrein: 42
    42      Leuenberger, P., Schwartz, J., Ackermann-Liebrich, U., et al. (1994). Passive smoking exposure in adults and chronic respiratory symptoms (SAPALDIA study). American Journal of Respiratory Critical Care Medicine, 150, 1222–1228.
Neðanmálsgrein: 43
    43      White, J.R., Froeb, H.F., & Kulik, J.A. (1991). Respiratory illness in non-smokers chronically exposed to tobacco smoke in the work place. Chest, 100(1), 39–43.
Neðanmálsgrein: 44
    44      Eisner, M.D., Smith, A.K., & Blanc, P.D. (1998). Bartenders respiratory health after establishment of smoke-free bars and taverns. Journal of American Medical Association, 280, 1909–1914.
Neðanmálsgrein: 45
    45      Directorate for Health and Social affairs. (2005). Norway's ban on smoking in bars and restaurants – A review of the first year. Oslo: SHDIR.
Neðanmálsgrein: 46
    46      Cains, T., Cannata, S., Poulos, R., Ferson, M.J., og Stewart, B.W. (2004). Designated „no smoking“ areas provide from partial to no protection from environmental tobacco smoke. Tobacco control, 13, 17–22.
Neðanmálsgrein: 47
    47      Ministry of Health (2002). Proposition to the Odelsting: Smoke-Free Food and Drink Establishments. Oslo: Ministry of Health.
Neðanmálsgrein: 48
    48      Tóbaksvarnanefnd (2002). Vettvangskönnun á 40 veitingastöðum í Reykjavík. Reykjavík: Tóbaksvarnanefnd.
Neðanmálsgrein: 49
    49      Repace, J. (2000). Can ventilation control secondhand smoke in the hospitality industry? California Department of Health Services.
Neðanmálsgrein: 50
    50      Balluz, L., Ahluwalia, I.B., Murphy, W., Mokdad, A., Giles, W., og Harris, V.B. (2004). Surveillance for certain health behaviors among selected local areas – United States, Behavioral Risk Factor Surveillance System, 2002. MMWR Surveillence Summary, 53(5), 1–100.
Neðanmálsgrein: 51
    51      Office of Tobacco Control (2004). Smoke-Free Workplace Legislation Implementation: Progress Report, May 2004. Office of Tobacco Control.
Neðanmálsgrein: 52
    52      Lund, M., Lund, K.E., Rise, J., Aarø, L.E., Hetland, J. (2005). Smoke-Free bars and restaurants in Norway. Oslo/Bergen: SIRUS/HEMIL.
Neðanmálsgrein: 53
    53      Halm, J. (2004). Cigarette sales in Ireland fall. Birt: 10. september 2004. www.bbc.co.uk/ worldservice/learningenglish/newsenglish/witn/2004/09/040910 smoking ban.shtml. Skoðað: 15. nóvember 2004.
Neðanmálsgrein: 54
    54      The Irish Examiner. (2004). Smoking Ban hits cigarette sales. Birt: 9. nóvember 2004. www.examiner.ie/registration/login_and_reg.asp?page . Skoðað: 15. nóvember 2004.
Neðanmálsgrein: 55
    55      Hammond, D., McDonald, P.W., Fong, G.T., Brown, K.S., og Cameron, R. (2004). The impact of cigarette warning labels and smoke-free bylaws on smoking cessation. Canadian Journal of Public Health, 95(3), 201–204.
Neðanmálsgrein: 56
    56      McGhee, S.M., et al. (2000). Passive smoking at work: the short-term cost. Journal of Epidemiology and Community Health, 54, 673–676.
Neðanmálsgrein: 57
    57      Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2003). Kostnaður vegan reykinga á Íslandi árið 2000. Reykjavík: Hagfræðistofnun.
Neðanmálsgrein: 58
    58      Guðmundur Gunnarsson. (2004). Brunar af völdum tóbaks 1995–2004. Reykjavík: Brunamálastofnun.
Neðanmálsgrein: 59
    59      Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2003). Kostnaður vegan reykinga á Íslandi árið 2000. Reykjavík: Hagfræðistofnun.
Neðanmálsgrein: 60
    60      IMG Gallup (2002). Tóbaksvarnaráð: Viðhorf til reykinga mars 2002. Reykjavík: Gallup.
Neðanmálsgrein: 61
    61      Gallup (2004). Tóbaksvarnaráð: Viðhorf til reykinga maí 2004. Reykjavík: Gallup.
Neðanmálsgrein: 62
    62      Scollo, M., Lal, A., Hyland, A., og Glantz, S. (2003). Review of the quality of studies on the economic effects of smoke-free policies on the hospitality industry. Tobacco Control, 12, 13–20.
Neðanmálsgrein: 63
    63      Glantz, S.A., og Smith, L.R.A. (1997). The effect of ordinances requiring smoke-free restaurants and bars on revenues: a follow up. American Journal of Public Health, 87(10), 1687–1693.
Neðanmálsgrein: 64
    64      Hang, P., De, A.K., og McCrucker, M.E. (2004). Impact of smoking ban in restaurant and bar revenues-El Paso, Texas, 2002. Morbidity and Mortality Weekly Report, 53(7), 150–152.
Neðanmálsgrein: 65
    65      Scollo, M., Lal, A., Hyland, A., og Glantz, S. (2003). Review of the quality of studies on the economic effects of smoke-free policies on the hospitality industry. Tobacco Control, 12, 13–20.
Neðanmálsgrein: 66
    66      Tang, H., Cowling, D.W., Lloyd, J.C., Rogers, T., Koumjian, K.L., Stevens, C.M., Bal, D.G. (2003). Changes of Attitudes and Patronage Behaviors in Response to a Smoke-Free Bar Law. American Journal of Public Health, 93, 611–617.
Neðanmálsgrein: 67
    67      Eisner, M.D., Smith, A.K., & Blanc, P.D. (1998). Bartenders´respiratory health after establishment of smoke-free bars and taverns. Journal of American Medical Association, 280, 1909–1914.
Neðanmálsgrein: 68
    68      Hyland, A., & Tuk, J. (2001). Restaurant employment boom in New York City. Tobacco Control, 10, 199–200.
Neðanmálsgrein: 69
    69      NYC Department of Finance, NYC Department of Health & Mental Hygiene, NYC Department of Small Business Services, NYC Economic Development Corporation. (2004). The State of Smoke-Free New York City: A One-Year Review. New York.
Neðanmálsgrein: 70
    70      Office of Tobacco Control (2004). Smoke-Free Workplace Legislation Implementation: Progress Report, May 2004. Office of Tobacco Control.
Neðanmálsgrein: 71
    71      Sosial- og helsedirektoratet. (2004). Enda flere er positive til røykfrie serveringssteder. Ósló: Social- og helsedirektoratet.
Neðanmálsgrein: 72
    72      Lund, M., Lund, K.E., Rise, J., Aarø, L.E., Hetland, J. (2005). Smoke-Free bars and restaurants in Norway. Oslo/Bergen: SIRUS/HEMIL.
Neðanmálsgrein: 73
    73      Persson, G., & Johansson, M. (2003). Regeringens proposition: Rökfria serveringsmiljöer. Stockholm.
Neðanmálsgrein: 74
    74      ANRF (2005). Smokefree status of restaurants and bars around the world. California: ANRF.