Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 619. máls.

Þskj. 905  —  619. mál.Frumvarp til laga

um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti (samningur Evrópuráðsins um tölvubrot).

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.
1. gr.

    Við II. kafla A laganna bætist ný grein, 19. gr. d, svohljóðandi:
    Ef skilyrðum ákvæða þessa kafla er fullnægt er heimilt að láta lögaðila sæta refsiábyrgð fyrir brot á lögum þessum.

2. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 210. gr. laganna, með áorðnum breytingum, orðast svo: Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.

3. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 257. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, orðast svo: Sömu refsingu varðar að senda, breyta, bæta við, þurrka út eða eyðileggja með öðrum hætti án heimildar gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

4. gr.

    Við b-lið 2. mgr. 87. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til aðgerða skv. b-lið 86. gr. er þó nægilegt að brot geti að lögum varðað tveggja ára fangelsi.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 87. gr. a, svohljóðandi:
    1. Í þágu rannsóknar máls þar sem rafræn gögn geta haft sönnunargildi er lögreglu heimilt að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti.
    2. Fyrirmæli lögreglu skv. 1. mgr. geta eingöngu tekið til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Þar skal koma fram hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi. Fyrirmælin skulu ekki ná til annarra gagna en nauðsynleg eru fyrir rannsóknina, auk þess sem varðveisluskyldu skal markaður svo skammur tími sem unnt er og ekki lengri en 90 dagar.

III. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 81 26. mars 2003.
6. gr.

    Við 47. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þeim sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet er skylt að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild.
    Starfsmenn fjarskiptafyrirtækis bera þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til skv. 6. mgr.

7. gr.

    Í stað orðanna „fangelsi allt að sex mánuðum“ í 1. mgr. 74. gr. laganna kemur: fangelsi allt að tveimur árum.

IV. KAFLI

Gildistaka.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í refsiréttarnefnd og réttarfarsnefnd að tilhlutan dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðuneytið hafði samráð við samgönguráðuneytið vegna breytinga á lögum um fjarskipti.
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar til að íslenska ríkið geti uppfyllt skuldbindingar sínar á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot (eftirleiðis nefndur „samningurinn“) sem Ísland undirritaði hinn 23. nóvember 2001 (e. Convention on Cybercrime). Jafnframt því sem þetta frumvarp er flutt er borin fram af utanríkisráðherra tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda framangreindan alþjóðasamning.
    Með bréfi, dags. 1. mars 2004, óskaði dómsmálaráðuneytið eftir því að refsiréttarnefnd veitti álit sitt á því hvaða lagabreytinga á sviði refsiréttar væri til þörf til að fullgilda mætti samninginn. Af því tilefni skilaði nefndin álitsgerð til dómsmálaráðherra, dags. 20. janúar 2005, en þar hafði nefndin m.a. hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á danskri refsilöggjöf af sama tilefni. Í framhaldi af því óskaði dómsmálaráðherra eftir því að refsiréttarnefnd útfærði tillögur sínar í frumvarpsform. Þá óskaði dómsmálaráðuneytið eftir því með bréfi, dags. 4. mars 2005, að réttarfarsnefnd legði mat á hvort þörf væri á lagabreytingum á sviði réttarfars í tilefni af fullgildingu samningsins. Lagði réttarfarsnefnd fram tillögur sínar af því tilefni með bréfi til ráðuneytisins, dags. 26. október 2005, en þær tillögur eru einnig nánar útfærðar í þessu frumvarpi, eins og nánar verður rakið í 4. kafla hér síðar.
    Í 2. kafla er að finna yfirlit yfir efni samningsins og helstu markmið hans. Þá verður í 3. kafla lýst með almennum hætti þeim lagabreytingum sem mælt er fyrir um í 1.–3. gr. frumvarpsins og niðurstöðum athugunar á því hvernig íslensk refsilöggjöf fullnægir að öðru leyti efnisákvæðum samningsins á sviði refsiréttar. Í 4. kafla er síðan fjallað um sama efni að því er varðar réttarfarsákvæði samningsins og lýst þeim sjónarmiðum sem búa að baki 4.–7. gr. frumvarpsins.

2. Yfirlit yfir efni samningsins.
2.1 Inngangur.

    Sú bylting sem hefur átt sér stað á sviði upplýsingatækni hefur haft gríðarleg áhrif á samfélög manna og mun sú þróun halda áfram um ófyrirsjáanlega framtíð. Þessi bylting á sviði upplýsingatækni hefur einkum haft áhrif á þróun fjarskiptatækni. Þau form og þær tegundir upplýsinga sem hægt er að senda manna á milli í gegnum fjarskiptakerfi hafa aukist verulega með tilkomu texta-, mynd- og hljóðsendinga í gegnum tölvur. Samskipti manna fara nú t.d. í verulega auknum mæli fram með tölvupóstsendingum og í gegnum netið. Þessi auðveldi aðgangur og leit að upplýsingum í tölvukerfum, auk fjölda möguleika til að senda upplýsingar og dreifa þeim án þess að fjarlægðir hafi áhrif, hefur leitt til gríðarlegrar aukningar á magni fáanlegra upplýsinga og aukinnar þekkingar sem slíkar upplýsingar leiða af sér. Samfara jákvæðum áhrifum þessarar þróunar á efnahagslíf og samfélög manna hefur hún einnig leitt til nýrra tegunda afbrota auk hefðbundinna afbrota þar sem ný tækni er notuð við framningu brots. Afleiðingar refsiverðrar háttsemi á þessu sviði geta verið geigvænlegar vegna mikilvægis tölvukerfa í daglegu lífi manna og sökum þess að háttsemi af þessu tagi verður ekki takmörkuð landfræðilega. Hér má nefna nýleg dæmi um dreifingu tölvuvírusa í gegnum tölvukerfi sem hafa leitt til tjóns í tölvukerfum um allan heim.
    Innleiðing tæknilegra ráðstafana til varnar tölvukerfum verður að eiga sér stað samfara breytingum í löggjöf sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir og hafa varnaðaráhrif gagnvart háttsemi sem hefur þann tilgang að hafa neikvæð áhrif á rekstur tölvukerfa eða valda tjóni. Samningur Evrópuráðsins um tölvubrot er dæmi um viðleitni ríkja í þessu efni hvað varðar samræmingu refsilöggjafar á þessu sviði.
    Í formála samningsins er rakið að aðildarríkin telji það forgangsmál að leitast sé við að móta sameiginlega stefnu við mótun refsilöggjafar sem hafi það að markmiði að veita borgurunum refsivernd gegn ólögmætri háttsemi sem drýgð er með notkun upplýsingatækni, þ.e. alnetsins, með því að setja viðeigandi löggjöf og auka alþjóðlega samvinnu á þessu sviði. Markmið samningsins eru þannig í fyrsta lagi að samræma almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á sviði tölvubrota, í öðru lagi að innleiða nauðsynlegar réttarfarsreglur svo hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti og í þriðja lagi að setja á laggirnar skilvirkt og fljótvirk kerfi alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði.

2.2 Efnisákvæði samningsins.
    Evrópuráðssamningurinn um tölvubrot er 48 greinar og skiptist hann í fjóra kafla, sjá fylgiskjal I. Fyrsti kafli fjallar um skilgreiningar hugtaka. Annar kafli fjallar um þær ráðstafanir sem samningurinn gerir ráð fyrir að verði gerðar í landsrétti aðildarríkja. Fyrsti þáttur annars kafla fjallar um efnisreglur refsiréttar. Fyrsti hluti fyrsta þáttar annars kafla beinist að afbrotum er tengjast leynd sem hvílir yfir tölvugögnum og -kerfum, heildarvirkni þeirra og aðgengi að þeim. Ákvæði 2. gr. fjallar um ólöglegan aðgang að tölvukerfi, ákvæði 3. gr. um ólöglega hlerun, ákvæði 4. gr. um gagnaröskun, ákvæði 5. gr. um kerfisröskun og 6. gr. fjallar um misnotkun búnaðar.
    Annar hluti fyrsta þáttar annars kafla fjallar um afbrot tengd tölvum. Ákvæði 7. gr. beinist að fölsun tengd tölvum og 8. gr. fjallar um svik tengd tölvum. Þriðji hluti fyrsta þáttar annars kafla fjallar um afbrot er varða innihald, einkum barnaklám, sbr. ákvæði 9. gr. Fjórði hluti fyrsta þáttar annars kafla fjallar um afbrot tengd höfundarétti og skyldum réttindum, sbr. ákvæði 10. gr. samningsins. Fimmti hluti fyrsta þáttar annars kafla fjallar um aðrar tegundir refsiábyrgðar og viðurlög. Ákvæði 11. gr. beinist að tilraun og hlutdeild, ákvæði 12. gr. fjallar um refsiábyrgð lögaðila og 13. gr. um viðurlög og aðrar ráðstafanir.
    Annar þáttur annars kafla fjallar um réttarfarsreglur, sbr. ákvæði 14.–21. gr. samningsins. Þriðji þáttur annars kafla fjallar um refsilögsögureglur, sbr. ákvæði 22. gr. samningsins. Þriðji kafli fjallar um alþjóðlega samvinnu. Fyrsti hluti fyrsta þáttar þriðja kafla hefur að geyma almennar reglur um alþjóðlega samvinnu, sbr. 23. gr. Annar hluti fyrsta þáttar þriðja kafla fjallar um meginreglur um framsal, sbr. 24. gr. Þriðji hluti fyrsta þáttar þriðja kafla fjallar um almennar reglur um gagnkvæma aðstoð, sbr. 25. gr. Ákvæði 26. gr. fjallar síðan um upplýsingagjöf að eigin frumkvæði. Fjórði hluti fyrsta þáttar þriðja kafla fjallar um málsmeðferðarreglur er lúta að beiðnum um gagnkvæma aðstoð, sbr. 27.–28. gr. samningsins. Annar þáttur þriðja kafla hefur að geyma ýmis sérákvæði, sbr. 29.–35. gr. samningsins.
    Fjórði kafli hefur að geyma lokaákvæði, sbr. 36.–48. gr.

3. Ákvæði 2.–13. gr. samningsins.
3.1 Inngangur.

    Í köflum 3.2–3.13 verður lýst niðurstöðum athugunar á því hvaða breytingar á íslenskum lögum eru nauðsynlegar í tilefni af þeim skuldbindingum sem leiðir af 2.–13. gr. samningsins. Þá verður í köflum 3.14–3.16 vikið sérstaklega að ákvæðum þriðja þáttar annars kafla um refsilögsögu, ákvæði fyrsta hluta þriðja kafla um alþjóðlega samvinnu og ákvæði annars hluta fyrsta þáttar þriðja kafla um framsal.
    Í meðfylgjandi köflum eru viðeigandi ákvæði Evrópuráðssamningsins um tölvubrot ekki tekin orðrétt upp heldur vísast um það efni til fylgiskjals I með frumvarpinu þar sem er að finna samninginn í íslenska þýðingu sem lögð hefur verið til grundvallar við samningu frumvarpsins.

3.2 Ákvæði 2. gr. um ólöglegan aðgang.
    Ákvæði 1. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 30/1998, er svohljóðandi í heild sinni: „Ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sömu refsingu skal sá sæta sem á ólögmætan hátt verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi.“ Með vísan til síðari málsliðar 1. mgr. 228. gr. verður að telja að ekki sé þörf á sérstökum lagabreytingum í tilefni af þeim skuldbindingum sem leiðir af 2. gr. samningsins.

3.3 Ákvæði 3. gr. um ólöglega hlerun.
    Telja verður að í ljósi síðari málsliðar 1. mgr. 228. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 30/1998, sé ekki þörf sérstakra lagabreytinga í tilefni af þeim skuldbindingum sem leiðir af 3. gr. samningsins.

3.4 Ákvæði 4. gr. um gagnaröskun.
    Ákvæði 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, er svohljóðandi í heild sinni: „Hver, sem ónýtir eða skemmir eigur annars manns eða sviptir hann þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu varðar að breyta, bæta við, þurrka út eða eyðileggja með öðrum hætti án heimildar gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu.“ Í ljósi tilvitnaðs síðari málsliðar 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga er ekki þörf á sérstökum lagabreytingum í tilefni af þeim skuldbindingum sem leiðir af 4. gr. samningsins. Áréttað er að síðari málsliður 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga er sérákvæði sniðið að spjöllum á tölvutækum gögnum.

3.5 Ákvæði 5. gr. um kerfisröskun.
    Í ljósi síðari málsliðar 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, verður að telja að ekki sé þörf á sérstökum lagabreytingum í tilefni af þeim skuldbindingum sem leiðir af 5. gr. samningsins, a.m.k. hvað varðar síðari hluta verknaðarlýsingar síðarnefnda ákvæðisins, þ.e. að skaða, eyða, spilla, breyta eða stöðva tölvugögn og hindra þannig að tölvukerfið virki. Gera þarf hins vegar þær breytingar á ofangreindu hegningarlagaákvæði sem greinir í 3. gr. frumvarpsins vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af fyrri hluta 5. gr. samningsins, sjá nánar sérstakar athugasemdir við þá frumvarpsgrein.

3.6 Ákvæði 6. gr. um misnotkun búnaðar.
    Með vísan til ákvæða 20. og 22. gr. almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild er ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af 1. mgr. 6. gr. samningsins.

3.7 Ákvæði 7. gr. um fölsun tengd tölvum.
    Ákvæði 2. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 30/1998, er svohljóðandi: „Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“ Með vísan til þessa ákvæðis er ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af 7. gr. samningsins.

3.8 Ákvæði 8. gr. um svik tengd tölvum.
    Ákvæði 249. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 30/1998, er svohljóðandi: „Ef maður á ólögmætan hátt breytir, bætir við eða eyðileggur tölvuvélbúnað, eða gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi, eða hefur með öðrum hætti gert ráðstafanir sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu tölvuvinnslu, varðar það fangelsi allt að 6 árum.“ Með vísan til þessa ákvæðis er ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af 8. gr. samningsins.

3.9 Ákvæði 9. gr. um afbrot er varða barnaklám.
    Í ljósi ákvæðis 2. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga er ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af a-, b-, c- og e-liðum 1. mgr. 9. gr. samningsins. Tekið skal fram að í 4. mgr. 210. gr. er talað um ljósmyndir, kvikmyndir eða „sambærilega hluti“. Skilja verður hið tilvitnaða orðalag á þá leið að innan verknaðarlýsingar ákvæðisins falli myndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt sem fluttar eru inn í gegnum tölvukerfi eða eru í vörslum geranda með því að vera t.d. vistaðar á hörðum diskum tölvu eða á geisladiskum, sbr. til hliðsjónar Hrd. 22. janúar 2004 í máli nr. 273/2003.
    Samkvæmt d-lið 1. mgr. 9. gr. samningsins skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir í löggjöf til að gera það refsinæmt að afla sér eða öðrum (e. procure) barnaklám í gegnum tölvukerfi. Af þessu tilefni er með 2. gr. frumvarpsins lagt til að bætt sé við orðunum „að afla sér eða öðrum“ við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga til að taka af allan vafa um að framangreind lýsing d-liðar 1. mgr. 9. gr. samningsins verði talin refsinæm hér á landi við fullgildingu samningsins.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. 9. gr. samningsins skal hugtakið barnaklám taka til klámfengins efnis sem sýnir ólögráða barn í kynferðislegum athöfnum. Skv. 3. mgr. 9. gr. skal hugtakið ólögráða barn taka til allra einstaklinga undir 18 ára aldri. Þó getur samningsaðili ákveðið að miða við lægra aldursmark, þó ekki lægra en 16 ár.
    Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi er varð að lögum nr. 126/1996, sem lögfesti núgildandi 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. síðari breytingar, er rakið að í frumvarpstextanum sé talað um börn án þess að aldur þeirra sé tilgreindur. Er hins vegar vísað til þess að samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, sé með börnum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs og er loks tekið fram að í frumvarpinu sé „miðað við sömu aldursmörk“. Samkvæmt þessu verður að telja að það hafi verið lagt til grundvallar við samþykkt frumvarps er varð að lögum nr. 126/1996 að skýra hafi hátt hugtakið barn í 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga til samræmis við þágildandi ákvæði barnaverndarlaga, nr. 58/1992, um hugtakið barn. Bent er á að samkvæmt upphafsmálslið 1. mgr. 3. gr. núgildandi barnaverndarlaga hefur verið gerð sú breyting að hugtakið barn tekur nú til einstaklinga yngri en 18 ára. Er það í samræmi við þá löggjafarstefnu sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, en samkvæmt því ákvæði verða menn lögráða 18 ára. Í ljósi þessa verður að skýra 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga til samræmis við framangreind ákvæði gildandi barnaverndarlaga og lögræðislaga á þá leið að hugtakið barn í merkingu hegningarlagaákvæðisins teljist þeir einstaklingar sem eru undir 18 ára. Í ljósi þessa fullnægir 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga þeim kröfum sem fram koma í a-lið 2. mgr. og 3. mgr. 9. gr. samningsins.
    Í b-lið 2. mgr. 9. gr. samningsins er gert ráð fyrir að barnaklám taki til þess þegar klámfengið efni sýnir einstakling, sem lítur út fyrir að vera ólögráða barn, í kynferðislegum athöfnum (e. a person appearing to be a minor engaged in sexually explicit conduct). Í c-lið sömu málsgreinar er síðan gert ráð fyrir að barnaklám taki til þess þegar klámfengið efni sýnir raunsannar myndir sem tákna ólögráða barn í kynferðislegum athöfnum (e. realistic images representing a minor engaged in sexually explicit conduct). Skv. 4. mgr. 9. gr. geta samningsaðilar áskilið sér rétt til þess að beita ekki, að hluta eða í heild, m.a. b- og c-liðum 2. mgr. 9. gr.
    Af þessu tilefni er bent á að í frumvarpi því er varð að lögum nr. 126/1996, sem lögfesti barnaklámsákvæði 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, var rakið að markmið þess að gera vörslu efnis með barnaklámi refsiverða væri að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Þá væri bann við því að hafa slíkt efni í vörslu sinni talið geta dregið úr eða jafnvel fyrirbyggt kynferðislega misnotkun barna í tengslum við gerð slíks efnis. Þá er rakið í frumvarpinu að þegar efni með barnaklámi er framleitt eru jafnframt framin alvarleg refsiverð brot gegn börnunum. Með því að banna vörslu á efni með barnaklámi væri mótuð skýr afstaða gegn kynferðislegri misnotkun á börnum, jafnframt því sem það gæti stuðlað að því að bæta réttarstöðu barna. Loks var tekið fram að ef ríki heims gerðu vörslu á efni með barnaklámi refsiverða væri það til þess fallið að takmarka eftirspurn eftir slíku efni og þar með kynferðislega misnotkun barna í tengslum við framleiðslu þess.
    Ljóst er að sú efnisafmörkun á hugtakinu barnaklámi sem fram kemur í b- og c-liðum 2. mgr. 9. gr. samningsins gerir ekki ráð fyrir því að börn séu beinlínis þátttakendur í þeim kynferðislegu athöfnum sem fram fara. Raunar gerir c-liður 2. mgr. 9. gr. ráð fyrir því að þær myndir sem þar er lýst geti verið að öllu leyti tilbúnar, t.d. í tölvu eða með öðrum hætti. Í ljósi þeirrar löggjafarstefnu sem var mótuð með lögum nr. 126/1996 um að refsinæmi barnakláms lúti beinlínis að refsivernd barna sem eiginlegra brotaþola standa ekki fullnægjandi lagarök til þess að rýmka hugtakið barnaklám með þeim hætti sem b- og c-liður 2. mgr. 9. gr. samningsins gerir ráð fyrir. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að íslenska ríkið nýti sér heimild 4. mgr. 9. gr. samningsins og áskilji sér rétt til þess að beita ekki b- og c-liðum 2. mgr. 9. gr. í heild.

3.10 Ákvæði 10. gr. um afbrot tengd höfundarétti og skyldum réttindum.
    Samkvæmt 10. gr. samningsins ber samningsaðilum að lögfesta í refsilöggjöf sinni ákvæði sem lýsi háttsemi sem felur í sér brot á höfundarétti og grannréttindum refsiverða, að því gefnu að slík brot séu framin af ásetningi, í viðskiptalegu umfangi og með því að nota tölvukerfi. Sæmdarréttur, sem er hluti af höfundarétti, fellur þó ekki undir 10. gr. Sama gildir um einkaleyfi og vörumerkjaréttindi. Fram kemur í 10. gr. og skýringum með henni að miða skuli við lagalega skilgreiningu hvers ríkis á höfundarétti og grannréttindum sem þó skal byggjast á tilteknum alþjóðasamningum sem viðkomandi ríki kann að hafa gerst aðili að. Hafi tiltekið ríki ekki gengist undir skuldbindingar eins eða fleiri þessara samninga þarf skilgreiningin ekki að taka mið af viðkomandi samningum. Um er að ræða eftirfarandi samninga:
     1.      Bernarsáttmálinn (Paris Act of 24 July 1971 of the Bern Convention for the Protection of Literary and Artistic Works).
     2.      TRIPS-samningurinn (Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights).
     3.      Rómarsáttmálinn (International Convention for the Protection of Performers, Producers of Phonograms and Broadcasting Organisations – Rome Convention).
     4.      WCT-samningurinn (World Intellectual Property Organisation (WIPO) Copyright Treaty).
     5.      WPPT-samningurinn. (World Intellectual Property Organisation (WIPO) Performances and Phonograms Treaty).
    Ísland hefur gengist undir skuldbindingar þriggja fyrstu samninganna (Bernarsáttmálans, TRIPS-samningsins og Rómarsáttmálans) og telja íslensk stjórnvöld að gerðar hafi verið nauðsynlegar breytingar á lögum til að uppfylla þær skuldbindingar. Nær þetta m.a. til skilgreiningar á höfundarétti og grannréttindum. Ísland hefur hins vegar ekki gengist undir skuldbindingar WCT- og WPPT-samninganna. Þar er kveðið á um nýjar skilgreiningar á einkarétti höfunda, flytjenda og framleiðenda til að miðla efni sínu til almennings, þ.m.t. að gera verk sín aðgengileg á þeim stað og tíma er fólk sjálft kýs. Innleiðing ákvæða þessara samninga er samræmd innan EES með tilskipun 2001/29/EB um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu. Sameiginlega EES-nefndin tók tilskipunina upp í EES-samninginn í júlí 2004 og var EES/EFTA-ríkjunum veittur sex mánaða frestur til innleiðingar tilskipunarinnar í landslög. Hinn 10. desember 2004 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, sjá þskj. 644, 438. mál. Hinn 20. október 2005 mælti menntamálaráðherra síðan fyrir frumvarpi til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum, en megintilefni þess er setning áðurnefndrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, sjá þskj. 222, 222. mál.
    Samkvæmt 54. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, varða tiltekin brot á lögunum sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Sé brot framið á vegum félags eða annars fyrirtækis má dæma fésekt á hendur því. Talið er að refsiákvæði höfundalaga taki til brota á höfundarétti og grannréttindum, eins og þessi réttindi eru skilgreind í Bernarsáttmálanum, TRIPS-samningnum og Rómarsáttmálanum. Refsiákvæðin ná hins vegar ekki til viðbótarskilgreininga á þessum réttindum í WCT- og WPPT-samningunum. Ákvæði 54. gr. höfundalaga nær m.a. til háttsemi sem framin eru í viðskiptalegu umfangi (e. commercial scale) og með því að nota tölvukerfi (e. by means of a computer system).
    Það verður ekki talið fela í sér brot á 10. gr. Evrópuráðssamningsins að Ísland hefur ekki gengist undir skuldbindingar WCT- og WPPT-samninganna. Þegar það hefur verið gert, þ.e. þegar þær skuldbindingar hafa vaknað, felur 10. gr. hins vegar í sér skyldu til að lögfesta refsiákvæði sem nær til skilgreiningar á réttindum samkvæmt þessum samningum. Í ljósi framangreinds verður að telja að með vísan til 54. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum, sé ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af 10. gr. samningsins.

3.11 Ákvæði 11. gr. um tilraunar- og hlutdeildarábyrgð.
    Með vísan til ákvæða 20. og 22. gr. almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild er ekki þörf sérstakra lagabreytinga vegna þeirra skuldbindinga sem leiðir af 11. gr. samningsins.

3.12 Ákvæði 12. gr. um refsiábyrgð lögaðila.
    Ákvæði 12. gr. samningsins leggur þá skyldu á herðar aðildarríkja að gera það kleift að gera lögaðila refsiábyrga fyrir þau brot sem gerð eru refsinæm í samræmi við ákvæði samningsins. Í II. kafla A almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 140/1998, er ekki að finna almenna refsiheimild sem kveður á um að heimilt sé að gera lögaðila refsiábyrga fyrir brot á ákvæðum laganna. Ákvæði II. kafla A hafa raunar ekki að geyma neinar sjálfstæðar refsiheimildir heldur kveða þau á um skilyrði fyrir refsiábyrgð lögaðila, hverjir geti sætt henni og hvaða viðurlög komi þar til greina. Brot á almennum hegningarlögum getur þannig ekki sjálfkrafa leitt til þess að heimilt sé að gera lögaðila refsiábyrga sé skilyrðum II. kafla A að öðru leyti fullnægt, sbr. þó lög nr. 144/1998, um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, með síðari breytingum. Þar sem ákvæði 2.–9. gr. samningsins beinast öll að athöfnum sem eru þegar eða verða gerðar refsinæmar á grundvelli hegningarlaga er í frumvarpinu lagt til í 1. gr. að lögfest verði nýtt ákvæði í almenn hegningarlög sem veiti almenna heimild til að leggja refsiábyrgð á lögaðila fyrir brot á ákvæðum þeirra laga. Hér vísast að öðru leyti til sérstakra athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

3.13 Ákvæði 13. gr. um viðurlög og ráðstafanir.
    Þar sem verknaðir þeir sem lýst er í 2.–9. gr. samningsins eru eða verða gerðir refsinæmir á grundvelli almennra hegningarlaga er ljóst að almenn ákvæði laganna um refsingar, sbr. 31. gr. almennra hegningarlaga, og refsikennd viðurlög, sbr. VII. kafla sömu laga, munu taka til þeirra. Fullnægir það ótvírætt þeim áskilnaði er fram kemur í 13. gr. samningsins.

3.14 Ákvæði þriðja þáttar annars kafla um refsilögsögu.
    Skuldbindingar sem leiðir af 22. gr. samningsins er fullnægt með ákvæðum 4. og 5. gr. almennra hegningarlaga. Í 2. mgr. 22. gr. samningsins er gert ráð fyrir því að aðildarríki geti áskilið sér rétt til þess að beita ekki almennt eða í sérstökum tilvikum þeim refsilögsögureglum sem fram koma í b–d-liðum í 1. mgr. sömu greinar. Ekki er talin ástæða til að gera það hér á landi.

3.15 Ákvæði fyrsta hluta fyrsta þáttar þriðja kafla um alþjóðlega samvinnu.
    Ákvæði þessa kafla (23. gr.) kveða ekki í sjálfu sér á um neinar skyldur sem kalla á lagabreytingar að landsrétti.

3.16 Ákvæði annars hluta fyrsta þáttar þriðja kafla um framsal.
    Ákvæði 24. gr. samningsins fjalla um skyldur aðildarríkja með tilliti til framsals þegar um verknað er að ræða sem telst refsinæmur samkvæmt ákvæðum 2.–11. gr. samningsins. Skv. a-lið 1. mgr. 24. gr. gildir greinin aðeins um þau tilvik þar sem refsing fyrir viðkomandi verknað, bæði í framsals- og móttökuríki, er fangelsi með hámarkslengd a.m.k. eitt ár eða harðari refsing, sjá þó undantekningu í b-lið 1. mgr. 24. gr. Skv. 5. mgr. 24. gr. skal framsal vera háð þeim skilyrðum sem fram koma í löggjöf framsalsríkis eða viðeigandi alþjóðasamningum um framsal, þar á meðal um þau skilyrði sem kunna að leiða til höfnunar framsals af hálfu framsalsríkis. Ákvæði 6. mgr. 24. gr. fjallar síðan um þau tilvik þar sem framsalsbeiðni er hafnað alfarið á grundvelli þjóðernis þess manns sem beiðnin beinist að og kveður á um tiltekna athafnaskyldu framsalsríkis í slíkum tilvikum að kröfu þess ríkis sem óskar framsals, en um það er fjallað hér síðar.
    Um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum gilda lög nr. 13/1984 með síðari breytingum. Þá gilda sérlög nr. 7/1962 um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni aðeins heimilt þegar verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Þá er heimilt að semja við önnur ríki um framsal vegna verknaðar sem samkvæmt íslenskum lögum getur varðað fangelsi í styttri tíma, sbr. síðari málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, sbr. 172. gr. laga nr. 82/1998. Af orðalagi a-liðar 1. mgr. 24. gr. samningsins og skýringum við greinina verður ekki dregin önnur ályktun en að fyrirkomulag 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 fullnægi þeim kröfum sem ákvæði samningsins gera að þessu leyti. Samningurinn áskilur þannig ekki að öll brot að landsrétti sem samningurinn fjallar um geti orðið grundvöllur að framsali heldur aðeins þau brot sem varða a.m.k. eins árs fangelsi eða harðari refsingu. Ljóst er að þegar brot þau samkvæmt almennum hegningarlögum, sem talin eru nægur grundvöllur í ljósi þeirra skuldbindinga sem leiðir af efnisákvæðum samningsins, varða refsingu sem er meiri en 1 árs fangelsi þá er heimilt, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1987, að framselja viðkomandi sakborning til aðildarríkis að beiðni þess.
    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1984 má ekki framselja íslenska ríkisborgara. Það athugast hins vegar að heimilt er að íslenskum lögum að framselja íslenskan ríkisborgara til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2. gr. laga nr. 7/1962. Í 6. mgr. 24. gr. samningsins er ekki áskilið að framsal ríkisborgara framsalsríkis fari fram, að því gefnu að ríki það sem óskar eftir framsali geti krafist að framsalsríki geri ráðstafanir til þess að sakborningur sæti rannsókn og saksókn innan framsalsríkisins og veiti í framhaldinu upplýsingar um lyktir málsins. Ber framsalsríkinu þá að annast rannsókn og saksókn málsins með sama hætti og í öðrum sambærilegum tilvikum. Bann 2. gr. laga nr. 13/1984 við framsali íslenskra ríkisborgara samrýmist þannig ákvæðum samningsins enda verður að gera ráð fyrir að innlend réttarfarslög fullnægi að öðru leyti þeim áskilnaði sem fram kemur í 6. mgr. 24. gr. samningsins.

4. Réttarfarsákvæði í öðrum þætti samningsins, greinar 14.–21.
    Í öðrum þætti samningsins, nánar tiltekið í 14.–21. gr., er að finna ákvæði um réttarfar. Til að samningurinn verði fullgiltur af Íslands hálfu er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, sem mælt er fyrir um í 4.–7. gr. frumvarpsins, til að tryggja samræmi milli laga og þessa þáttar samningsins. Þau ákvæði samningsins sem hér reynir einkum á eru 16. og 17. gr. um svokallaða flýtivarðveislu tölvugagna og gagna um tölvusamskipti. Að öðru leyti verður talið að lög á sviði réttarfars fullnægi ákvæðum samningsins.
    Hér á eftir verður lýst nánar þeim breytingum sem lagðar eru til í því skyni að tryggja samræmi milli laga og samningsins. Varðandi hugtök vísast til 1. gr. samningsins, en þar er m.a. að finna skilgreiningar á hugtökunum tölvugögn og samskiptagögn.
    Samningur Evrópuráðsins um tölvubrot gerir ráð fyrir nýju úrræði við rannsókn sakamála vegna brota sem framin eru með atbeina upplýsingatækni. Tekur þetta úrræði mið af hættu á því að spillt verði eða breytt tölvugögnum sem hafa að geyma sönnun fyrir broti. Í samræmi við þetta er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að bætt verði nýju ákvæði við lög um meðferð opinberra mála, sem verði 87. gr. a, með heimild fyrir lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, að leggja fyrir þann sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet að varðveita þegar í stað tölvugögn, þar með talin gögn um tölvusamskipti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þetta nær aðeins til fyrirmæla um að varðveita gögnin og er miðað við að lögregla geti gefið slík fyrirmæli án undanfarandi dómsúrskurðar. Á grundvelli þessarar heimildar verða gögn því ekki afhent en til þess þarf úrskurð dómara eftir almennum reglum, sbr. 86. og 87. gr. laganna. Hvernig gögn verða varðveitt ræðst af atvikum hverju sinni en það má gera með því að búa svo um hnútana að ekki sé unnt að hrófla við gögnum eða með því að afrita þau.
    Þá er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að tekið verði fram í 2. mgr. 87. gr. a laga um meðferð opinberra mála að fyrirmæli lögreglu um varðveislu tölvugagna og gagna um tölvusamskipti geti eingöngu náð til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Þetta ákvæði tekur mið af 2. mgr. 16. gr. samningsins en þar er gert ráð fyrir því að fyrirmæli um varðveislu nái til gagna sem þegar eru í umráðum viðkomandi. Þannig væri ekki hægt að gefa fyrirmæli um varðveislu gagna sem ekki eru enn fyrir hendi, eins og seinni tíma tölvupóst. Einnig ber í fyrirmælum lögreglu að tilgreina hvaða gögn eigi að varðveita og hve lengi. Skulu fyrirmælin ekki ná til annarra gagna en nauðsynleg eru fyrir rannsóknina, auk þess sem varðveisluskyldu skal markaður svo skammur tími sem unnt er og ekki lengri en 90 dagar. Þetta ákvæði tekur jafnframt mið af umræddri grein samningsins sem gerir ráð fyrir að skylda til varðveislu geti ekki varað í lengri tíma. Innan þessa frests verður því lögregla að afla heimildar með dómsúrskurði til að fá gögn afhent.
    Samkvæmt b-lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála er heimilt í þágu rannsóknar sakamáls að fá upplýsingar hjá yfirvöldum um fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki. Þetta er þó bundið því að aflað sé dómsúrskurðar skv. 87. gr. laganna. Skv. b-lið 2. mgr. þeirrar greinar verður almennt ekki gripið til slíkrar aðgerðar nema rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum 8 ára fangelsi. Í 17. gr. samningsins er gert ráð fyrir greiðri heimild til afhendingar samskiptagagna. Til að tryggja þetta er lagt til í 4. gr. frumvarpsins að refsimörk til afhendingar gagna skv. b-lið 86. gr. verði tveggja ára fangelsi og að málslið þess efnis verði bætt við b-lið 2. mgr. 87. gr. laganna.
    Til að tryggja að fyrirmælum lögreglu verði fylgt eru sem fyrr greinir lagðar til viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti. Þær breytingar felast í því að með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að tveimur nýjum málsgreinum verði bætt við 47. gr. laganna og komi í IX. kafla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs, þar sem beinlínis verði kveðið á um skyldu þess sem rekur fjarskiptaþjónustu eða fjarskiptanet til að verða við tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, enda styðjist þau tilmæli við dómsúrskurð eða lagaheimild. Rétt þykir að binda þetta ekki við skyldu til varðveislu gagna heldur verði þetta almennt og taki því einnig til annarra rannsóknarúrræða, þar á meðal hlerunar. Þá er lagt til að starfsmenn fjarskiptafyrirtækis beri þagnarskyldu um þær aðgerðir sem gripið er til við rannsókn máls. Er rétt að kveða beinlínis á um þetta í lögum eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 16. gr. samningsins.
    Til samræmis við 4. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að refsimörk til afhendingar gagna skv. b-lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála verði tveggja ára fangelsi og að málslið þess efnis verði bætt við b-lið 2. mgr. 87. gr. þeirra laga, er loks lagt til í 7. gr. frumvarpsins að refsingar vegna brota almennt á fjarskiptalögum geti varðað fangelsi allt að tveimur árum í stað sex mánaða eins og gert er ráð fyrir í núgildandi 74. gr. fjarskiptalaga. Verður sá refsirammi talinn heppilegur með hliðsjón af þeim hagsmunum sem eru í húfi þegar ákvæði fjarskiptalaga eru brotin og með tilliti til þess að í lögum er algengt að refsingar fyrir brot á þeim séu bundnar við sektir eða allt að tveggja ára fangelsi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði 12. gr. samningsins leggur þá skyldu á herðar aðildarríkja að gera það kleift að gera lögaðila refsiábyrga fyrir þau brot sem gerð eru refsinæm í samræmi við ákvæði samningsins. Þar sem ákvæði 2.–9. gr. samningsins beinast öll að athöfnum sem eru þegar eða verða gerðar refsinæmar á grundvelli almennra hegningarlaga er í þessari grein lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði í II. kafla A almennra hegningarlaga, 19. gr. d, sem veiti heimild til að leggja refsiábyrgð á lögaðila fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga. Lagt er til að refsiheimild 19. gr. d muni almennt eiga við þegar um er að ræða brot í starfsemi lögaðila sem falla að efni til undir almenn hegningarlög, sbr. þó lög nr. 144/1998, um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka, með síðari breytingum. Ljóst er að meta verður hverju sinni hvort brot, sem lýst er í lögunum, sé af því tagi að refsiábyrgð lögaðila komi til greina. Áhersla er lögð á það að ávallt er áskilið að efnisskilyrði hinna almennu ákvæða II. kafla A um refsiábyrgð lögaðila séu uppfyllt til þess að hægt verði að beita hinni nýju refsiheimild sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins, sjá til hliðsjónar 3. gr. laga nr. 144/1998.

Um 2. gr.


    Samkvæmt d-lið 1. mgr. 9. gr. samningsins skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir í löggjöf til að gera það refsinæmt að afla sér eða öðrum (e. procure) barnaklám í gegnum tölvukerfi. Af þessu tilefni er með 2. gr. frumvarpsins lagt til að orðunum „að afla sér eða öðrum“ sé bætt við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga til að taka af allan vafa um að framangreind lýsing d-liðar 1. mgr. 9. gr. samningsins verði talin refsinæm hér á landi við fullgildingu samningsins. Hér vísast að öðru leyti til kafla 3.9 í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 3. gr.


    Um fyrri hluta 5. gr. samningsins verður að hafa í huga að sérákvæði síðari málslið 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, gerir það refsinæmt að „bæta við“ eða að eyðileggja með „öðrum hætti“ gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu. Orðalagið „bæta við“ getur náð til þess verknaðar sem greinir í 5. gr. samningsins um „inputting … computer data“. Meiri vafi leikur hins vegar á því hvort verknaðurinn „að senda“ (e. transmitting) geti fallið undir verknaðarlýsingu hegningarlagaákvæðisins. Ræðst það af því hvort slíkur verknaður verði talinn falla undir aðrar tegundir eyðileggingar, sbr. orðalagið „með öðrum hætti“. Til að taka af allan vafa í þessu efni er nauðsynlegt að bæta við síðari málslið 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1998, orðunum „að senda“ þannig að ákvæðið taki til þess verknaðarþáttar 5. gr. samningsins sem endurspeglast í orðunum „transmitting“.

Um 4.–7. gr.


    Hér vísast til umfjöllunar í 4. kafla í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

8. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
um tölvubrot.


Búdapest 23. 11. 2001.


Formálsorð.


    Aðildarríki Evrópuráðsins og önnur ríki sem undirrita samning þennan,

    sem hafa í huga að markmið Evrópuráðsins er að efla einingu meðal aðildarríkjanna,

    sem viðurkenna gildi þess að stuðla að samvinnu við hin ríkin sem eiga aðild að samningi þessum,

    sem álíta það forgangsatriði að fylgja sameiginlegri stefnu á sviði refsiréttar er miði að því að vernda þjóðfélagið gegn tölvubrotum, meðal annars með því að setja viðeigandi lög og stuðla að samvinnu þjóða í milli,

    sem gera sér grein fyrir þeim grundvallarbreytingum sem orðið hafa af völdum tölvuvæðingar, samleitni og samfelldrar útbreiðslu tölvuneta um heim allan,

    sem eru uggandi yfir því að hætta er á að tölvunet og rafrænar upplýsingar séu einnig notuð til þess að fremja refsilagabrot og að unnt sé að geyma og flytja sönnunargögn, sem tengjast slíkum brotum, í og um fyrrnefnd net,

    sem átta sig á nauðsyn þess að ríki og atvinnugreinar innan einkageirans vinni saman að því að koma í veg fyrir tölvubrot og á nauðsyn þess að vernda lögmæta hagsmuni sem tengjast notkun og þróun upplýsingatækni,

    sem eru þeirrar trúar að aukin, hraðvirk og árangursrík samvinna þjóða í milli á sviði sakamála sé forsenda þess að baráttan gegn tölvubrotum skili tilætluðum árangri,

    sem álíta að samningur þessi sé nauðsynlegur til þess að koma í veg fyrir aðgerðir, sem miða að því að rjúfa leynd sem hvílir yfir tölvukerfum, tölvunetum og tölvugögnum og er jafnframt beint gegn heildarvirkni þeirra og aðgengi að þeim, og að koma í veg fyrir misnotkun slíkra kerfa, neta og gagna með því að kveða á um að slík háttsemi varði við lög með þeim hætti sem er lýst í samningi þessum og með því að samþykkja nægar heimildir til þess að hefja árangursríka baráttu gegn slíkum refsilagabrotum með því að greiða fyrir því að unnt sé að koma upp um þau, rannsaka þau og sækja menn til sakar fyrir þau, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, og með því að búa í haginn fyrir fljótvirka og trausta samvinnu þjóða í milli,

    sem eru minnug þess að nauðsynlegt er að tryggja að eðlilegt jafnvægi ríki milli þeirra samfélagslegu hagsmuna að lögum sé framfylgt og þess að grundvallarmannréttindi, eins og þau eru bundin í mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950, Alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1966 um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og öðrum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem í gildi eru og árétta rétt allra manna til þess að hafa skoðanir sínar í friði, séu virt og réttur til tjáningarfrelsis, t.d. frelsis til þess að leita eftir, taka við og láta í té hvers kyns upplýsingar og hugmyndir án tillits til landamæra, og enn fremur réttur til þess að friðhelgi einkalífs manna sé virt,

    sem eru og minnug verndar persónuupplýsinga eins og hún er veitt, til dæmis með samningi Evrópuráðsins frá 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga,

    sem hafa í huga samning Sameinuðu þjóðanna frá 1989 um réttindi barnsins og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1999 um barnavinnu í sinni verstu mynd,

    sem hafa hliðsjón af gildandi samningum Evrópuráðsins um samvinnu á sviði sakamála og sambærilegum alþjóðasamningum, sem eru í gildi milli aðildarríkja Evrópuráðsins og annarra ríkja, og sem leggja áherslu á að samningur þessi er hugsaður sem viðbót við þá samninga með það að markmiði að gera rannsókn og málarekstur vegna refsilagabrota, sem tengjast tölvukerfum og -gögnum, skilvirkari og að gera kleift að safna sönnunargögnum í rafrænni mynd sem tengjast refsilagabrotum,

    sem fagna nýjungum, sem auka enn frekar skilning þjóða í milli á því og samvinnu um það að berjast gegn tölvubrotum, meðal annars aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Evrópusambandsins og átta helstu iðnríkja heims,

    sem minnast tilmæla nr. R (85) 10 um beitingu Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum með tilliti til réttarbeiðna um heimild til þess að hlera fjarskipti, tilmæla nr. R (88) 2 um stuld á sviði höfundarréttar og skyldra réttinda, tilmæla nr. R (87) 15 um að koma skipulagi á notkun persónuupplýsinga hjá lögregluembættum, tilmæla nr. R (95) 4 um vernd persónuupplýsinga innan fjarskiptaþjónustugeirans, einkum með tilliti til símaþjónustu, ásamt tilmælum nr. R (89) 9 um brot sem tengjast tölvum, þar sem settar eru fram viðmiðunarreglur fyrir innlenda löggjafa um skilgreiningu tiltekinna tölvubrota, og tilmæla nr. R (95) 13 um viðfangsefni á sviði refsiréttarreglna í sakamálum sem tengjast upplýsingatækni,

    sem hafa hliðsjón af ályktun nr. 1, sem evrópskir dómsmálaráðherrar samþykktu á 21. fundi sínum (í Prag í júní 1997), þar sem þeim tilmælum var beint til ráðherranefndarinnar að styrkja starfsemi Evrópunefndarinnar um afbrotamálefni (CDPC) á sviði tölvubrota, í því skyni að samræma betur ákvæði hegningarlaga hinna ýmsu ríkja og gera kleift að beita skilvirkum rannsóknaraðferðum, þegar um slík brot er að ræða, og af ályktun nr. 3, sem var samþykkt á 23. fundi evrópskra dómsmálaráðherra (í London í júní 2000), þar sem aðilar að samningaviðræðum voru hvattir til þess að leggja sig fram um að finna viðeigandi lausnir til þess að sem flestum ríkjum verði gert kleift að gerast aðilar að samningnum og viðurkennd var nauðsyn þess að koma á hrað- og skilvirku fyrirkomulagi alþjóðlegrar samvinnu þar sem tilhlýðilegt tillit er tekið til sérþarfa vegna baráttunnar gegn tölvubrotum,

    sem hafa einnig hliðsjón af aðgerðaáætluninni sem þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnaleiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins samþykktu í tilefni af öðrum fundi sínum (í Strassborg 10. til 11. október 1997) og ætlað var að finna sameiginleg andsvör við þróun hinnar nýju upplýsingatækni er byggi á viðmiðunarreglum og gildum Evrópuráðsins,

    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. kafli – Notkun hugtaka.


1. gr.

Skilgreiningar.

    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
    a)    „tölvukerfi“ merkir tæki eða samsafn innbyrðis tengdra eða skyldra tækja þar sem eitt þeirra eða fleiri framkvæma sjálfvirka gagnavinnslu eftir forriti;
    b)    „tölvugögn“ merkir framsetningu staðreynda, upplýsinga eða hugtaka í þeirri mynd að henti vinnslu í tölvukerfi; um ræðir meðal annars forrit sem gerir að verkum að tölvukerfi getur framkvæmt aðgerð;
    c)     „þjónustuveitandi“ merkir:
              i)    opinberan aðila eða einkaaðila sem gerir þeim, er notfæra sér þjónustu hans, kleift að eiga samskipti með því að nýta til þess tölvukerfi; og
              ii)    annan þann aðila sem vinnur eða geymir tölvugögn fyrir hönd slíkrar samskiptaþjónustu eða notenda slíkrar þjónustu;
    d)    „samskiptagögn“ merkir tölvugögn sem tengjast boðum um tölvukerfi og eru afurð tölvukerfis, sem myndaði hlekk í keðju boða, og sem gefa til kynna hvar boðin eru upprunnin, hver ákvörðunarstaður þeirra er, leið þeirra, hvenær þau eru send og hvaða dag, umtak og tímalengd þeirra eða hvers kyns þjónusta liggur þeim til grundvallar.

II. kafli – Ráðstafanir sem ber að gera innanlands.


1. þáttur – Efnisreglur refsiréttar.


1. hluti – Brot er tengjast leynd sem hvílir yfir tölvugögnum og -kerfum,
heildarvirkni þeirra og aðgengi að þeim.

2. gr.

Ólöglegur aðgangur.


    Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert þá háttsemi, að fara inn í tölvukerfi, sem heild eða hluta þess, án aðgangsréttar, refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða. Aðili getur tilskilið að brotið sé framið með því að ganga í berhögg við öryggisráðstafanir, í því skyni að komast yfir tölvugögn eða í öðrum óheiðarlegum tilgangi eða í tengslum við tölvukerfi sem er tengt öðru tölvukerfi.

3. gr.

Ólögleg hlerun.


    Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert hlerun óopinberra sendinga tölvugagna, án réttar og með tæknilegum aðferðum, til, frá eða innan tölvukerfis, meðal annars rafsegulgeislunar frá tölvukerfi sem flytur slík tölvugögn, refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða. Aðili getur tilskilið að brotið sé framið í óheiðarlegum tilgangi eða í tengslum við tölvukerfi sem er tengt öðru tölvukerfi.

4. gr.

Gagnaröskun.


    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert þá háttsemi að eyðileggja tölvugögn, eyða þeim eða spilla eða breyta eða stöðva þau án réttar refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða.
    2. Aðili getur áskilið sér rétt til þess að tilskilja að sú háttsemi, sem lýst er í 1. mgr., leiði til alvarlegs tjóns.

5. gr.

Kerfisröskun.


    Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert þá háttsemi að hindra að ráði að tölvukerfi virki, með því að skjóta inn tölvugögnum, senda þau eða skaða, eyða þeim, spilla eða breyta eða stöðva þau án réttar, refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða.

6. gr.

Misnotkun búnaðar.


    1.     Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert eftirfarandi háttsemi refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða og hún er höfð uppi án réttar:
    a)    að framleiða, selja, afla til notkunar, flytja inn, dreifa eða gera aðgengilegan:
             i)    búnað, þar með talið tölvuforrit, sem er fyrst og fremst hannaður eða breytt til þeirra nota að fremja eitthvert þeirra brota sem gerð eru refsinæm í samræmi við ákvæði 2. til 5. gr.;
              ii)    lykilorð, aðgangskóða eða lík gögn sem hægt er að nota til þess að fara inn í tölvukerfi sem heild eða hluta þess;
              til nota í því skyni að fremja eitthvert þeirra brota sem gerð eru refsinæm í 2. til 5. gr.;
    b)    að hafa í fórum sínum eitthvað það, er um getur í i- eða ii-lið a-liðar hér að framan, til nota í því skyni að fremja eitthvert þeirra brota sem gerð eru refsinæm í 2. til 5. gr. Aðili getur tilskilið í lögum að viðkomandi þurfi að hafa nokkur slík atriði í fórum sínum til þess að viðkomandi geti sætt refsiábyrgð.
    2.     Eigi ber að túlka ákvæði greinar þessarar þannig að refsiábyrgð sé lýst á hendur viðkomandi fyrir að framleiða, selja, afla til notkunar, flytja inn, dreifa eða gera með öðrum hætti aðgengilegt eða hafa í fórum sínum eitthvað það, sem um getur í 1. mgr. greinar þessarar, í öðrum tilgangi en þeim að fremja brot, sem gert er refsinæmt í samræmi við ákvæði 2. til 5. gr. samnings þessa, til dæmis til lögmætrar prófunar á tölvukerfi eða í því skyni að vernda það.
    3.     Hver aðili getur áskilið sér rétt til þess að beita ekki ákvæðum 1. mgr. greinar þessarar að því tilskildu að slíkur fyrirvari taki ekki til þess að selja, dreifa eða gera með öðrum hætti aðgengilegt eitthvað það sem um getur í ii-lið a-liðar 1. mgr.

2. hluti – Afbrot tengd tölvum.


7. gr.

Fölsun tengd tölvum.


    Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert þá háttsemi refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða og hún er höfð uppi án réttar, að skjóta inn tölvugögnum, breyta þeim eða eyða eða stöðva þau með þeim afleiðingum að um svikin gögn verði að ræða og til þess sé ætlast að þau séu talin þjóna löglegum tilgangi eða séu nýtt í slíkum tilgangi, eins og um gild gögn sé að ræða, án tilliti til þess hvort gögnin séu beinlínis læsileg eða skiljanleg. Aðili getur tilskilið að til þess að viðkomandi geti sætt refsiábyrgð þurfi áform að vera uppi um svik eða önnur álíka óheiðarleg áform.

8. gr.

Svik tengd tölvum

    Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert eftirfarandi háttsemi refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða og hún er höfð uppi án réttar:
    a)    að skjóta inn tölvugögnum, breyta þeim eða eyða eða stöðva þau;
    b)    að trufla virkni tölvukerfis;
í þeim sviksamlega eða óheiðarlega tilgangi að verða sér eða öðrum úti um efnahagslegan ávinning án réttar.

3. hluti – Brot er varða innihald.


9. gr.

Brot er varða barnaklám.


    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta gert eftirfarandi háttsemi refsinæma samkvæmt landslögum sínum þegar um ásetning er að ræða og hún er höfð uppi án réttar:
    a)    að framleiða barnaklám í því skyni að dreifa því um tölvukerfi;
    b)    að bjóða fram barnaklám eða gera það aðgengilegt um tölvukerfi;
    c)    að dreifa barnaklámi eða senda það um tölvukerfi;
    d)    að útvega sér eða öðrum barnaklám um tölvukerfi;
    e)    að hafa í fórum sínum barnaklám í tölvukerfi eða vörslumiðli tölvugagna.
    2. Í „barnaklámi“ felst, að því er varðar 1. mgr. hér að framan, klámefni sem sýnir:
    a)     ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;
    b)    manneskju sem virðist vera ólögráða barn og hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;
    c)    raunsannar myndir sem tákna ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;
    3. Hugtakið „ólögráða barn“, tekur, að því er varðar 2. mgr. hér að framan, til allra manna undir 18 ára aldri. Aðili getur engu að síður tilskilið lægra aldursmark, þó ekki lægra en 16 ár.
    4. Hver aðili getur áskilið sér rétt til þess að beita ekki ákvæðum d- og e-liðar 1. mgr. og b- og c-liðar 2. mgr. í heild eða að hluta.

4. hluti – Afbrot tengd höfundarrétti og skyldum réttindum.


10. gr.

Afbrot tengd höfundarrétti og skyldum réttindum.


    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta lýst þá háttsemi refsilagabrot samkvæmt landslögum sínum að brjóta á rétti höfundar, eins og það er skilgreint í lögum þess aðila í samræmi við skuldbindingar sem hann hefur undirgengist til samræmis við Parísargerninginn frá 24. júlí 1971, sem á rót sína að rekja til Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum, við samninginn um hugverkarétt í viðskiptum og samning Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarrétt, að undanskildum siðferðilegum réttindum, sem slíkir samningar veita, þegar slík háttsemi er höfð uppi af ásettu ráði, að umfangi eins og í viðskiptum og með því að notast við tölvukerfi.
    2. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta lýst þá háttsemi refsilagabrot samkvæmt landslögum sínum að sniðganga skyld réttindi, eins og það er skilgreint í lögum þess aðila í samræmi við skuldbindingar sem hann hefur undirgengist samkvæmt Alþjóðasamningnum um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana, sem var gerður í Róm (Rómarsamningnum), samningnum um hugverkarétt í viðskiptum og samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar um flutning og hljóðrit, að undanskildum siðferðilegum réttindum sem slíkir samningar veita, þegar slík háttsemi er höfð uppi af ásettu ráði, að umfangi eins og í viðskiptum og með því að notast við tölvukerfi.
    3. Aðili getur áskilið sér rétt til þess að láta menn ekki sæta refsiábyrgð skv. 1. og 2. mgr. greinar þessarar þegar tilefnið er smávægilegt, að því tilskildu að önnur áhrifarík úrræði séu tiltæk og að slíkur fyrirvari víki ekki frá alþjóðlegum skuldbindingum aðilans sem eru settar fram í þeim alþjóðlegu gerningum sem um getur í 1. og 2. mgr. greinar þessarar.

5. hluti – Aðrar tegundir refsiábyrgðar og viðurlög.


11. gr.

Að gera tilraun til brots og að aðstoða við það eða hvetja til þess.


    1.     Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta lýst þá háttsemi refsilagabrot samkvæmt landslögum sínum, þegar um ásetning er að ræða, að aðstoða við eða hvetja til þess að eitthvert þeirra brota, sem gerð eru refsinæm skv. 2. til 10. gr. samnings þessa, séu framin og tilgangurinn sé að það verði gert.
    2.     Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta lýst þá háttsemi refsilagabrot samkvæmt landslögum sínum, þegar um ásetning er að ræða, að gera tilraun til þess að fremja eitthvert þeirra brota, sem gerð eru refsinæm skv. 3. til 5. gr., 7. og 8. gr. og a- og c-lið 1. mgr. 9. gr. samnings þessa.
    3.     Hver aðili getur áskilið sér rétt til þess að beita ekki ákvæðum 2. mgr. greinar þessarar í heild eða að hluta.

12. gr.

Refsiábyrgð lögaðila.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja að unnt sé að lýsa ábyrgð á hendur lögaðila fyrir refsilagabrot sem gert er refsinæmt í samræmi við ákvæði samnings þessa og er framið honum til hagsbóta af einstaklingi sem annaðhvort aðhefst einn eða sem hluti af einingu innan lögaðilans og gegnir forustuhlutverki innan lögaðilans sem er grundvallað á:
    a)     heimild til að koma fram fyrir hönd lögaðilans;
    b)     valdi til að taka ákvörðun fyrir hönd lögaðilans;
    c)     valdi til að fara með stjórn mála innan lögaðilans.
    2. Auk þeirra tilvika, sem þegar er kveðið á um í 1. mgr., skal hver aðili gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að lýsa refsiábyrgð á hendur lögaðila hafi skortur á eftirliti eða stjórnun af hálfu einstaklings, sem um getur í 1. mgr., gert einstaklingi, sem aðhefst í umboði fyrrnefnds lögaðila, kleift að fremja refsilagabrot, sem gert er refsinæmt í samræmi við samning þennan, lögaðilanum til hagsbóta.
    3. Ábyrgð lögaðila getur, með fyrirvara um ákvæði meginreglna landslaga aðilans, lotið að refsi- eða einkamálarétti eða verið stjórnsýslulegs eðlis.
    4. Slík ábyrgð hefur engin áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem hafa framið brotið.

13. gr.

Viðurlög og ráðstafanir.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja að viðurlög við þeim refsilagabrotum, sem gerð eru refsinæm í samræmi við 2. til 11. gr., séu áhrifarík, letjandi og samsvari þeim og geti meðal annars leitt til frelsissviptingar.

    2. Hver aðili skal sjá til þess að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við ákvæði 12. gr., þoli áhrifaríka, hæfilega og letjandi refsingu samkvæmt hegningarlögum eða sæti annars konar viðurlögum eða ráðstöfunum, þar með talið sektum.

2. þáttur – Réttarfarsreglur.


1. hluti – Almenn ákvæði.


14. gr.

Gildissvið málsmeðferðarákvæða.
    

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, í því skyni að innleiða þær heimildir og þá málsmeðferð sem kveðið er á um í þætti þessum í tengslum við tiltekna rannsókn eða málarekstur vegna refsilagabrots.
    2. Hver aðili skal beita þeim heimildum og málsmeðferð, sem um getur í 1. mgr., nema kveðið sé sérstaklega á um annað í 21. gr.:
    a)     gagnvart refsilagabrotum sem gerð eru refsinæm skv. 2. til 11. gr. samnings þessa;
    b)     gagnvart öðrum refsilagabrotum sem eru framin með því að nota tölvukerfi; og
    c)     við söfnun sönnunargagna í rafrænni mynd sem tengjast refsilagabroti.
    3.    a)    Hver aðili getur áskilið sér rétt til þess að beita þeim ráðstöfunum, sem um getur í 20. gr., aðeins gagnvart brotum eða brotaflokkum, sem eru tilgreindir í fyrirvaranum, að því tilskildu að víðtæki slíkra brota eða brotaflokka sé ekki takmarkaðra en víðtæki þeirra brota sem það beitir þeim ráðstöfunum gagnvart sem um getur í 21. gr. Hver aðili skal kanna þann kost að takmarka slíkan fyrirvara til þess að unnt sé að beita þeim ráðstöfunum, sem um getur í 20. gr., á sem víðtækastan hátt.
              b)    Geti aðili, sakir takmarkana í gildandi löggjöf sinni þegar samningur þessi er samþykktur, ekki beitt þeim ráðstöfunum, sem um getur í 20. og 21. gr., gagnvart boðum sem eru send innan tölvukerfis þjónustuveitanda:
                i)        sem er starfrækt í þágu lokaðs notendahóps; og
                 ii)    sem nýtir ekki almenn boðskiptanet og er ekki tengt öðru tölvukerfi í eigu almennings eða í einkaeign;
                 getur hann áskilið sér rétt til þess að beita þessum ráðstöfunum ekki gagnvart slíkum boðum. Hver aðili skal kanna þann kost að takmarka slíkan fyrirvara til þess að unnt sé að beita þeim ráðstöfunum, sem um getur í 20. og 21. gr., á sem víðtækastan hátt.

15. gr.

Skilyrði og vernd.

    1. Hver aðili skal tryggja að innleiðing, framkvæmd og beiting þeirra heimilda og málsmeðferðar, sem kveðið er á um í þessum þætti, séu háð skilyrðum og vernd sem landslög hans kveða á um sem jafnframt skulu kveða á um fullnægjandi verndun mannréttinda og mannfrelsis, meðal annars réttinda sem leiðir af skuldbindingum sem hann hefur undirgengist samkvæmt sáttmála Evrópuráðsins frá 1950 um verndun mannréttinda og mannfrelsis, alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og öðrum gildum alþjóðagerningum á sviði mannréttinda, og hafa að geyma meðalhófsregluna.
    2. Í fyrrnefndum skilyrðum og vernd skulu felast meðal annars, eftir því sem við á og að teknu tilliti til eðlis þeirra heimilda og málsmeðferðar er um ræðir, eftirlit af hálfu réttarkerfisins eða annars konar óháð eftirlit, ástæður er réttlæta beitingu þeirra og takmarkanir á gildissviði og gildistíma umræddrar heimildar eða málsmeðferðar.
    3. Aðili skal kanna áhrif heimilda og málsmeðferðar, er um getur í þessum þætti, á réttindi, ábyrgð og lögmæta hagsmuni þriðju aðila að því leyti sem það samræmist almannahagsmunum, einkum öruggri réttarvörslu.

2. hluti – Flýtivarðveisla geymdra tölvugagna.


16. gr.

Flýtivarðveislu geymdra tölvugagna.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að gera lögbærum yfirvöldum sínum kleift að gefa fyrirmæli um eða koma því með svipuðum hætti í kring að sérstök tölvugögn, þar með talin samskiptagögn, sem hafa verið geymd í tölvukerfi, verði varðveitt umsvifalaust, einkum ef ástæða er til að ætla að sérstök hætta sé á að tölvugögnin týnist eða að þeim verði breytt.
    2. Aðili skal, í þeim tilvikum þegar hann hrindir ákvæðum 1. mgr. í framkvæmd með því að gefa persónu fyrirmæli um að varðveita tiltekin geymd tölvugögn sem hann hefur í fórum sínum eða umráð yfir, setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að skylda umrædda persónu til þess að varðveita og viðhalda heilleika fyrrnefndra tölvugagna eins lengi og nauðsyn krefur, eða í allt að 90 daga hið lengsta, í því skyni að gera lögbærum yfirvöldum kleift að leita eftir því að fá þau afhent. Aðili getur tilskilið að slík fyrirmæli verði endurnýjuð síðar.
    3. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að skylda gæsluaðila tölvugagnanna eða aðra persónu, sem er ætlað það hlutverk að varðveita þau, til þess að halda framkvæmd slíkrar meðferðar leyndri eins lengi og landslög aðilans mæla fyrir um það.
    4. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.

17. gr.

Varðveislu samskiptagagna og afhendingu þeirra að hluta flýtt.
    

    1. Hver aðili skal, vegna samskiptagagna sem varðveita á skv. 16. gr., setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja:
    a)    að slík flýtivarðveisla samskiptagagna fari fram án tillits til þess hvort einn eða fleiri þjónustuveitendur komu að sendingu umræddra boða; og
    b)    að samskiptagögn í nægilega miklum mæli séu afhent lögbæru yfirvaldi aðilans eða persónu, sem það tilnefnir, í flýti til þess að gera aðilanum kleift að bera kennsl á viðkomandi þjónustuveitendur og átta sig á þeirri leið sem boðin voru send eftir.
    2. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.

3. hluti – Fyrirmæli um framlagningu.


18. gr.

Fyrirmæli um framlagningu.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til þess að fyrirskipa:
    a)    persónu á landsvæði sínu að leggja fram tilgreind tölvugögn sem hún hefur í fórum sínum eða umráð yfir og eru geymd í tölvukerfi eða vörslumiðli tölvugagna; og
    b)    þjónustuveitanda, sem býður fram þjónustu sína á landsvæði aðilans að leggja fram gögn sem veita upplýsingar um áskrifendur og varða slíka þjónustu og fyrrnefndur þjónustuveitandi hefur í fórum sínum eða umráð yfir.
    2. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.
    3. Að því er grein þessa varðar merkir „upplýsingar um fasta kaupendur“ hverjar þær upplýsingar sem er haldið til haga í formi tölvugagna eða einhverri annarri mynd og þjónustuveitandi hefur í fórum sínum og varða fasta kaupendur þjónustu hans, aðrar en gögn um samskipti eða innihald, og unnt er að nota til þess að fá vitneskju um:
    a)    gerð þeirrar boðskiptaþjónustu sem er notuð, hvaða tækniráðstafanir eru gerðar vegna hennar og á hvaða tímabili þjónustan er veitt;
    b)    hver fastur kaupandi er, hvert póstfang hans er eða heimilisfang, símanúmer og önnur númer, sem gera kleift að komast í samband við hann, og um reikningagerð og greiðslur, vitneskju sem er byggð á þjónustusamningi eða -fyrirkomulagi;
    c)    allt annað er lýtur að því hvar búnaður til boðskipta er upp settur, það er vitneskju sem er byggð á þjónustusamningi eða -fyrirkomulagi.

4. hluti – Leit í geymdum tölvugögnum og haldlagning þeirra.


19. gr.

Leit í geymdum tölvugögnum og haldlagning þeirra.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til þess að gera leit í eða fara með álíka hætti inn í:
    a)    tölvukerfi eða hluta þess og ganga að tölvugögnum sem þar eru geymd; og
    b)    vörslumiðil tölvugagna sem tölvugögn geta verið geymd í;
    á landsvæði sínu.
    2. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja, geri yfirvöld þeirra leit í eða fari með líkum hætti inn í tiltekið tölvukerfi eða hluta þess samkvæmt ákvæðum a-liðar 1. mgr. og hafi ástæðu til að ætla að þau gögn, sem leitað er eftir, séu geymd í öðru tölvukerfi eða hluta þess á landsvæði hans og að slík gögn sé unnt að nálgast á löglegan hátt í upphaflega kerfinu eða að þau séu tæk fyrir það, að slík yfirvöld séu í stakk búin til þess að færa í flýti út leit til hins kerfisins eða fara með svipuðum hætti inn í það.
    3. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til að leggja hald á eða komast með svipuðum hætti yfir tölvugögn sem gengið er að samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. Í þessum ráðstöfunum skulu felast heimildir til að:
    a)    leggja hald á eða komast með svipuðum hætti yfir tölvukerfi eða hluta þess eða vörslumiðil tölvugagna;
    b)    afrita fyrrnefnd tölvugögn og varðveita slíkt afrit;
    c)     viðhalda heilleika viðkomandi tölvugagna sem eru geymd: og
    d)    gera tölvugögnin í því tölvukerfi, sem farið hefur verið inn í, óaðgengileg eða fjarlægja þau.
    4. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til að fyrirskipa hverri þeirri persónu, sem býr yfir þekkingu á því hvernig tölvukerfið virkar eða ráðstöfunum sem er beitt til þess að vernda tölvugögnin sem þar eru, að láta í té, eftir því sem eðlilegt má teljast, nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að grípa til þeirra ráðstafana sem um getur í 1. og 2. mgr.
    5. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.

5. hluti – Söfnun tölvugagna miðað við rauntíma.


20. gr.

Söfnun samskiptagagna miðað við rauntíma.


    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til þess að:
    a)     safna eða skrá á landsvæði sínu og með tæknilegum aðferðum; og
    b)     knýja þjónustuveitanda, eins og tæknigeta hans leyfir á hverjum sinni, til þess að:
            i)     safna eða skrá á landsvæði fyrrnefnds aðila og með tæknilegum aðferðum; eða
            ii)     vinna með og aðstoða viðkomandi lögbær yfirvöld við að safna eða skrá;
            samskiptagögn, miðað við rauntíma, sem tengjast tilteknum boðum á landsvæði hans sem eru send um tölvukerfi.
    2. Geti aðili ekki samþykkt þær ráðstafanir, er um getur í a-lið 1. mgr., vegna viðtekinna meginreglna innlends réttarkerfis síns getur hann þess í stað sett lagaákvæði og samþykkt aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja að fram fari söfnun eða skráning samskiptagagna, sem tengjast tilteknum boðum á landsvæði hans, miðað við rauntíma, með því að beita tæknilegum aðferðum á því landsvæði.
    3. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, í því skyni að skylda þjónustuveitanda til þess að halda því leyndu þegar heimild, sem kveðið er á um í grein þessari, er nýtt og upplýsingum þar að lútandi.
    4. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.

21. gr.

Hlerun gagna um innihald.

    1. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur og í tengslum við víðtæki alvarlegra brota sem skilgreint verður samkvæmt landslögum, til þess að geta veitt lögbærum yfirvöldum sínum heimild til þess að:
    a)    safna eða skrá á landsvæði sínu og með tæknilegum aðferðum; og
    b)     knýja þjónustuveitanda, eins og tæknigeta hans leyfir á hverjum tíma, til þess að:
            i)     safna eða skrá á landsvæði fyrrnefnds aðila og með tæknilegum aðferðum; eða
            ii)     vinna með og aðstoða viðkomandi lögbær yfirvöld við að safna eða skrá;
            gögn um innihald, miðað við rauntíma, er varða tiltekin boð á landsvæði sínu sem send eru um tölvukerfi.
    2. Geti aðili ekki samþykkt þær ráðstafanir, er um getur í a-lið 1. mgr., vegna viðtekinna meginreglna innlends réttarkerfis síns getur hann þess í stað sett lagaákvæði og samþykkt aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að tryggja að fram fari söfnun eða skráning gagna um innihald, miðað við rauntíma, er varða tiltekin boð á landsvæði hans þar sem tæknilegum aðferðum er beitt á því landsvæði.
    3. Hver aðili skal setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, í því skyni að skylda þjónustuveitanda til þess að halda því leyndu þegar heimild, sem kveðið er á um í grein þessari, er nýtt og upplýsingum þar að lútandi.
    4. Þær heimildir og málsmeðferð, sem um getur í grein þessari, eru með fyrirvara um ákvæði 14. og 15. gr.

3. þáttur – Refsilögsögureglur.


22. gr.

Refsilögsögureglur.

    1. Hver aðili skal samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að hann geti aflað sér lögsögu í málum er varða háttsemi, sem gerð er refsinæm í samræmi við ákvæði 2. til 11. gr. samnings þessa, þegar brotið er framið:
    a)     á landsvæði hans; eða
    b)     um borð í skipi sem siglir undir fána fyrrnefnds aðila; eða
    c)     um borð í loftfari sem er skráð samkvæmt lögum fyrrnefnds aðila; eða
    d)    af einum ríkisborgara hans sé brotið refsinæmt samkvæmt hegningarlögum þar sem það var framið eða sé það framið utan landsvæðis sem lögsaga einhvers ríkis nær til.
    2. Hver aðili getur áskilið sér rétt til þess að beita ekki þeim reglum um lögsögu, sem mælt er fyrir um í b- til d-lið 1. mgr. greinar þessarar, eða hluta þeirra, eða gera það aðeins í sérstöku tilvikum eða við sérstök skilyrði.
    3.     Hver aðili skal samþykkja ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að hann geti aflað sér lögsögu vegna þeirra brota, sem um getur í 1. mgr. 24. gr. samnings þessa, þegar meintur brotamaður er staddur á landsvæði viðkomandi aðila og sá framselur hann ekki öðrum aðila, á grundvelli þjóðernis hans einvörðungu, að framkominni framsalsbeiðni.
    4. Samningur þessi útilokar ekki refsilögsögu sem er beitt í samræmi við landslög.
    5. Geri fleiri en einn aðili kröfu um að meint brot, sem gert er refsinæmt í samræmi við ákvæði samnings þessa, beri undir lögsögu sína skulu hlutaðeigandi aðilar ráðgast sín á milli, þar sem það á við, í því skyni að ákveða í lögsögu hvers sé heppilegast að mál sé höfðað.

III. kafli – Alþjóðleg samvinna.


1. þáttur – Meginreglur almenns eðlis.


1. hluti – Meginreglur almenns eðlis um alþjóðlega samvinnu.


23. gr.

Meginreglur almenns eðlis um alþjóðlega samvinnu.
    

    Aðilarnir skulu vinna saman, í samræmi við ákvæði þessa kafla og með því að beita viðeigandi alþjóðlegum gerningum um alþjóðlega samvinnu í afbrotamálum, tilhögun sem samkomulag er um á grundvelli samhljóða eða gagnkvæmrar löggjafar og innlendum lögum, og eftir því sem við verður komið, að rannsókn eða málarekstri vegna refsilagabrota sem tengjast tölvukerfum og -gögnum eða vinna saman að söfnun sönnunargagna í rafrænni mynd viðvíkjandi refsilagabroti.

2. hluti – Meginreglur um framsal.


24. gr.

Framsal.

    1.    a)    Ákvæði greinar þessarar gilda um framsal milli aðila vegna brota, sem gerð eru refsinæm í samræmi við ákvæði 2. til 11. gr. þessa samnings, að því tilskildu að þau séu refsinæm samkvæmt lögum beggja hlutaðeigandi aðila og við þeim liggi frelsissvipting í að minnsta kosti eitt ár hið mesta eða þyngri refsing.
            b)    Standi til að leggja á öðruvísi lágmarksrefsingu samkvæmt tilhögun, sem samkomulag er um á grundvelli samhljóða eða gagnkvæmrar löggjafar eða á grundvelli framsalssamnings, til dæmis Evrópusamnings um framsal sakamanna (ETS nr. 24), sem í gildi er milli tveggja aðila eða fleiri, skal sú lágmarksrefsing, sem mælt er fyrir um í slíkri tilhögun eða samningi, gilda.
    2. Líta ber þannig á að brot, sem er lýst í 1. mgr. greinar þessarar, séu brot sem geta leitt til framsals í skilningi framsalssamninga sem eru í gildi milli aðila eða þeirra á meðal. Aðilar skuldbinda sig til þess að telja fyrrnefnd brot meðal framsalsbrota í hverjum þeim framsalssamningi sem kann að verða gerður milli þeirra.
    3. Taki aðili, sem gerir það að skilyrði fyrir framsali að í gildi sé samningur þar um, við framsalsbeiðni frá öðrum aðila, sem það hefur ekki framsalssamning við, getur hann litið á samning þennan sem lagalegan grundvöll að framsali með tilliti til brots sem um getur í 1. mgr. greinar þessarar.
    4. Aðilar, sem gera það ekki að skilyrði fyrir framsali að í gildi sé samningur þar um, skulu samþykkja, með gagnkvæmum hætti, að brot, sem um getur í 1. mgr. greinar þessarar, séu framsalsbrot.
    5. Framsal skal háð þeim skilyrðum, sem landslög þess aðila, sem framsalsbeiðni er beint til, kveða á um eða gildandi framsalssamningar, meðal annars ástæðum þess að aðilinn, sem beiðni er beint til, geti synjað um framsal.
    6. Sé synjað um framsal vegna refsilagabrots, sem um getur í 1. mgr. greinar þessarar, einungis á grundvelli ríkisfangs þess manns sem óskast framseldur eða vegna þess að aðilinn, sem beiðni er beint til, telur sig hafa lögsögu í málinu skal aðilinn, sem beiðni er beint til, leggja málið fyrir lögbær yfirvöld sín til saksóknar að beiðni þess aðila sem framsals beiðist og tilkynna honum um endanlega niðurstöðu þess þegar þar að kemur. Skulu þau yfirvöld taka ákvörðun sína og haga rannsókn sinni og málarekstri með sama hætti og þegar um ræðir önnur sambærileg brot samkvæmt landslögum þess aðila.
    7.    a)    Hver aðili skal, samtímis því að hann afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, skýra aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins frá nafni og aðsetri hvers þess yfirvalds sem sér um að senda framsalsbeiðni eða beiðni um handtöku og gæslu, ef samningur er ekki fyrir hendi, eða taka við slíkum beiðnum.
             b)    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal stofna og uppfæra reglulega skrá um yfirvöld sem aðilarnir tilnefna í þeim tilgangi er fyrr greinir. Hver aðili skal sjá til þess að þær upplýsingar, sem skráin geymir, séu ávallt réttar.

3. hluti – Meginreglur almenns eðlis um gagnkvæma aðstoð.


25. gr.

Meginreglur almenns eðlis um gagnkvæma aðstoð.


    1. Aðilar skulu veita hver öðrum alla þá aðstoð, sem við verður komið, við rannsókn eða málarekstur vegna refsilagabrota sem tengjast tölvukerfum og -gögnum eða við söfnun sönnunargagna í rafrænni mynd viðvíkjandi refsilagabroti.
    2. Hver aðili skal og setja lagaákvæði og samþykkja aðrar ráðstafanir, eftir því sem nauðsyn krefur, til þess að geta framkvæmt þær skuldbindingar sem eru settar fram í 27. til 35. gr.
    3. Hver aðili getur, ef brýnar ástæður eru til, sent beiðni um gagnkvæma aðstoð eða orðsendingu þar að lútandi eftir hraðvirkum boðleiðum, meðal annars í formi símbréfs eða tölvupósts, eftir því sem slíkar boðleiðir eru nægilega öruggar og unnt er að færa sönnur á uppruna slíkra beiðna eða orðsendinga með viðunandi hætti (meðal annars má nota dulkóðun sé slíkt nauðsynlegt) og að formleg staðfesting sé send síðar geri aðilinn, sem beiðni er beint til, kröfu þar um. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal fallast á beiðni, sem er send eftir slíkum hraðvirkum boðleiðum, og bregðast við henni.
    4. Gagnkvæm aðstoð skal, nema ákvæði greina þessa kafla mæli sérstaklega fyrir um annað, háð þeim skilyrðum sem landslög þess aðila, sem beiðni er beint til, kveða á um eða gildandi samningar um gagnkvæma aðstoð, meðal annars ástæðum þess að aðilinn, sem beiðni er beint til, geti hafnað því að eiga samvinnu við viðkomandi. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal ekki nýta sér þann rétt að synja um gagnkvæma aðstoð vegna þeirra brota, sem um getur í 2. til 11. gr., á þeirri forsendu einni að beiðnin varði brot sem sé talið til skattalagabrota.
    5. Í þeim tilvikum þegar aðila, sem beiðni er beint til, er heimilt, í samræmi við ákvæði þessa kafla, að gera það að skilyrði fyrir gagnkvæmri aðstoð að um tvöfalt refsinæmi sé að ræða hjá báðum aðilum skal líta svo á að því skilyrði sé fullnægt, óháð því hvort landslög hans mæla svo fyrir að brotið skuli falla undir sama brotaflokk og hjá aðilanum, sem leggur fram beiðni, eða lýsa því með sama orðalagi og hann gerir, ef sú háttsemi, sem liggur broti því til grundvallar, sem aðstoðar er leitað vegna, er hegningarlagabrot samkvæmt löggjöf fyrrnefnda aðilans.

26. gr.

Upplýsingagjöf að eigin frumkvæði.

    1. Aðili getur, eftir því sem landslög hans heimila og óumbeðið, sent öðrum aðila upplýsingar, sem hefur verið aflað með eigin rannsóknum, álíti hann að afhending slíkra upplýsinga geti gagnast þeim aðila, sem við þeim tekur, til að hefja eða framkvæma rannsókn eða reka mál vegna refsilagabrota, sem gerð eru refsinæm samkvæmt samningi þessum, eða geti leitt til þess að sá aðili leggi fram beiðni um samstarf samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
    2. Aðilinn, sem lætur slíkar upplýsingar í té, getur, áður en til þess kemur, óskað þess að þeim verði haldið leyndum eða þær notaðar samkvæmt settum skilyrðum. Geti aðilinn, er við upplýsingunum tekur, ekki orðið við slíkri beiðni skal hann tilkynna það þeim aðila, er lætur þær í té, sem ákveður hvort afhenda skuli upplýsingarnar þrátt fyrir það. Þiggi móttökuaðilinn upplýsingarnar með settum skilyrðum skal hann uppfylla þau.

4. hluti – Málsmeðferðarreglur er lúta að beiðnum um gagnkvæma aðstoð þegar gildandi alþjóðasamningar þar um eru ekki fyrir hendi.

27. gr.

Málsmeðferðarreglur er lúta að beiðnum um gagnkvæma aðstoð þegar gildandi alþjóðasamningar þar um eru ekki fyrir hendi.

    1. Sé enginn samningur um eða ekkert fyrirkomulag á gagnkvæmri aðstoðar á grundvelli samhljóða eða gagnkvæmrar löggjafar, sem gildir milli þess aðila sem leggur fram beiðni og þess er beiðni er beint til, fyrir hendi gilda ákvæði 2. til 9. mgr. greinar þessarar. Ákvæði greinar þessarar gilda ekki sé slíkur samningur, fyrirkomulag eða löggjöf fyrir hendi nema hlutaðeigandi aðilar sammælist um að beita einhverjum eða öllum þeim ákvæðum greinar þessarar sem eftir standa í stað slíkra samninga, fyrirkomulags eða löggjafar.
    2.    a)    Hver aðili skal tilnefna umsjónarstjórnvald, eitt eða fleiri, sem skal bera ábyrgð á því að senda beiðnir um gagnkvæma aðstoð og svara þeim, að framfylgja slíkum beiðnum eða framsenda þær yfirvöldum sem eru til þess bær að framfylgja þeim.
              b)    Umsjónarstjórnvöld skulu eiga bein samskipti sín á milli.
              c)    Hver aðili skal, samtímis því að hann afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, skýra aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins frá nafni og aðsetri þeirra stjórnvalda sem eru tilnefnd í samræmi við málsgrein þessa.
              d)    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal stofna og uppfæra reglulega skrá um umsjónarstjórnvöld sem aðilarnir tilnefna í þeim tilgangi er fyrr greinir. Hver aðili skal sjá til þess að þær upplýsingar, sem skráin geymir, séu ávallt réttar.
    3. Framfylgja ber beiðnum um gagnkvæma aðstoð, sem eru lagðar fram samkvæmt grein þessari, í samræmi við þá málsmeðferð sem aðilinn, sem leggur fram beiðni, tilgreinir nema slík málsmeðferð samræmist ekki lögum aðilans sem beiðni er beint til.
    4. Aðilinn, sem beiðni er beint til, getur, auk þeirra ástæðna fyrir synjun sem tiltækar eru skv. 4. mgr. 25. gr., synjað um aðstoð:
    a)    varði beiðnin brot sem aðilinn, sem beiðni er beint til, telur af pólitískum toga eða brot sem tengist broti af pólitískum toga; eða
    b)    álíti hann að framkvæmd beiðninnar muni að líkindum skerða fullveldi hans eða skaða öryggi, allsherjarreglu eða aðra grundvallarhagsmuni hans.
    5. Aðilinn, sem beiðni er beint til, getur frestað aðgerðum til framkvæmdar beiðni ef slíkar aðgerðir myndu skaða rannsókn eða málarekstur vegna refsilagabrots sem yfirvöld hans stjórna.
    6. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal, áður en hann synjar um eða frestar aðstoð og þar sem það á við og eftir að hafa ráðfært sig við aðilann sem leggur fram beiðni, kanna þann kost hvort unnt sé að verða við beiðninni að hluta eða samkvæmt þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg.
    7. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal tilkynna aðilanum, sem leggur fram beiðni, um árangur af framkvæmd aðstoðarbeiðninnar án tafar. Sé beiðni synjað eða henni frestað skal tilgreina ástæður slíkrar synjunar eða frestunar. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal og upplýsa aðilann, sem leggur fram beiðni, um ástæður þess að ekki er unnt að framfylgja beiðninni eða ástæður þess að líklegt sé að framkvæmd hennar dragist verulega á langinn.
    8. Aðilinn, sem leggur fram beiðni, getur krafist þess að aðilinn, sem beiðni er beint til, haldi beiðni, sem lögð er fram samkvæmt þessum kafla, leyndri og efni hennar að öðru leyti en því sem nauðsynlegt er til þess að unnt sé að framfylgja henni. Geti aðilinn, sem beiðni er beint til, ekki orðið við beiðni um þagnarskyldu skal hann tilkynna það aðilanum, sem leggur fram beiðni, sem ákveður þá hvort framfylgja skuli beiðninni þrátt fyrir það.
    9.    a)    Í bráðatilvikum geta dómsmálayfirvöld þess aðila, sem leggur fram beiðni, sent beiðnir um gagnkvæma aðstoð eða orðsendingar þar að lútandi milliliðalaust til sambærilegra yfirvalda aðilans sem beiðni er beint til. Í slíkum tilvikum skal jafnframt senda umsjónarstjórnvaldi aðilans, sem beiðni er beint til, afrit fyrir milligöngu umsjónarstjórnvalds aðilans er leggur fram beiðni.
             b)    Heimilt er að senda beiðnir eða orðsendingar samkvæmt málsgrein þessari fyrir milligöngu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (Interpol).
             c)    Sé beiðni lögð fram skv. a-lið og sé viðkomandi yfirvald ekki til þess bært að fjalla um hana skal það vísa beiðninni til lögbærs innlends yfirvalds og tilkynna það aðilanum, sem lagði beiðnina fram, milliliðalaust.
              d)    Lögbær yfirvöld aðilans, sem leggur fram beiðni, geta sent aðilanum, sem beiðni er beint til, beiðnir eða orðsendingar samkvæmt málsgrein þessari milliliðalaust hafi slíkar beiðnir eða orðsendingar ekki í för með sér þvingunaraðgerðir.
              e)    Hverjum aðila er heimilt, við undirritun eða þegar hann afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, að upplýsa aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að í þágu skilvirkni beri að beina beiðnum samkvæmt málsgrein þessari til umsjónarstjórnvalds síns.

28. gr.

Þagnarskylda og takmörkun á notkun.

    1. Séu engir samningar um eða fyrirkomulag á gagnkvæmri aðstoðar á grundvelli samhljóða eða gagnkvæmrar löggjafar, sem gildir milli þess aðila sem leggur fram beiðni og þess er beiðni er beint til, fyrir hendi gilda ákvæði greinar þessarar. Ákvæði greinar þessarar gilda ekki, sé slíkur samningur, fyrirkomulag eða löggjöf fyrir hendi, nema hlutaðeigandi aðilar sammælist um að beita einhverjum eða öllum þeim ákvæðum greinar þessarar sem eftir standa í stað slíkra samninga, fyrirkomulags eða löggjafar.
    2. Aðilinn, sem beiðni er beint til, getur gert það að hann láti í té upplýsingar eða efni sem svar við beiðni háð því skilyrði að slíkum upplýsingum eða efni:
    a)    sé haldið leyndu í þeim tilvikum þar sem ekki yrði unnt að verða við beiðni um gagnkvæma aðstoð nema að uppfylltu slíku skilyrði; eða
    b)    að slíkar upplýsingar eða efni sé ekki notað í tengslum við aðra rannsókn eða annan málarekstur en um getur í beiðninni.
    3. Geti aðilinn, sem leggur fram beiðni, ekki uppfyllt skilyrði, sem um getur í 2. mgr., skal hann tilkynna það gagnaðila sem ákveður þá hvort láta skuli upplýsingarnar í té þrátt fyrir það. Samþykki aðilinn, sem leggur fram beiðni, skilyrðið skal hann bundinn af því.
    4. Hver aðili, sem lætur í té upplýsingar eða efni háð skilyrði sem um getur í 2. mgr., getur krafið gagnaðilann um skýringar, með tilliti til fyrrnefnds skilyrðis, á notkun slíkra upplýsinga eða efnis.

2. þáttur – Sérákvæði.


1. hluti – Gagnkvæm aðstoð er lýtur að bráðabirgðaráðstöfunum.


29. gr.

Flýtivarðveisla geymdra tölvugagna.

    1. Aðili getur beðið annan aðila að gefa fyrirmæli um, eða fá með öðrum hætti framgengt, flýtivarðveislu gagna sem eru geymd með því að nota til þess tölvukerfi og staðsett eru á landsvæði þess síðarnefnda og aðilinn, sem leggur fram beiðni, hyggst senda beiðni vegna um gagnkvæma aðstoð er tekur til leitar eða álíka aðgangs, haldlagningar eða álíka öflunar eða afhendingar fyrrnefndra gagna.
    2. Tilgreina ber eftirfarandi í beiðni um varðveislu sem lögð er fram skv. 1. mgr.:
    a)    hvert það yfirvald er sem varðveislu óskar;
    b)    brotið sem rannsókn eða meðferð sakamáls beinist að jafnframt því að leggja fram stutta samantekt um staðreyndir því viðkomandi;
    c)    þau geymdu tölvugögn sem varðveita á og með hvaða hætti þau tengjast brotinu;
    d)    allar tiltækar upplýsingar sem gera kleift að bera kennsl á gæsluaðila hinna geymdu gagna eða hvar tölvukerfið er að finna;
    e)    hvers vegna nauðsynlegt er að varðveisla fari fram; og
    f)    að viðkomandi aðili hyggist senda beiðni um gagnkvæma aðstoð er tekur til leitar eða álíka aðgangs, haldlagningar eða álíka öflunar eða afhendingar fyrrnefndra gagna.
    3. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal, eftir viðtöku beiðni frá öðrum aðila, gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að varðveita í flýti hin tilgreindu gögn í samræmi við landslög sín. Eigi skal, að því er það varðar að bregðast við beiðni, gera það að skilyrði fyrir slíkri varðveislu að um tvöfalt refsinæmi sé að ræða.
    4. Aðili, sem gerir tvöfalt refsinæmi að skilyrði fyrir því að hann bregðist við beiðni um gagnkvæma aðstoð er tekur til leitar eða álíka aðgangs, haldlagningar eða álíka öflunar eða afhendingar fyrrnefndra gagna, getur, er um ræðir önnur brot en þau sem gerð eru refsinæm í samræmi við ákvæði 2. til 11. gr. samnings þessa, áskilið sér rétt til þess að hafna beiðni um varðveislu samkvæmt grein þessari í þeim tilvikum er hann hefur ástæðu til þess að ætla að eigi verði hægt að uppfylla skilyrðið um tvöfalt refsinæmi þegar til afhendingar kemur.
    5. Ennfremur er því aðeins heimilt að hafna beiðni um varðveislu:
    a)    að beiðnin varði brot sem aðilinn, sem beiðni er beint til, telji af pólitískum toga eða brot sem tengist broti af pólitískum toga; eða
    b)    að aðilinn, sem beiðni er beint til, álíti að framkvæmd beiðninnar muni að líkindum skerða fullveldi hans eða skaða öryggi, allsherjarreglu eða aðra grundvallarhagsmuni hans.
    6. Telji aðilinn, sem beiðni er beint til, að varðveisla muni ekki leiða til þess að gögnin verði tiltæk síðar meir eða muni tefla í hættu þeirri leynd sem hvílir yfir rannsókn aðilans, sem leggur fram beiðni, eða spilla rannsókn hans með öðrum hætti skal hann tilkynna aðilanum, sem leggur fram beiðni, um það án tafar sem aftur skal ákveða hvort framfylgja skuli beiðninni engu að síður.
    7. Varðveisla, sem kemur til framkvæmda í framhaldi af þess konar beiðni, er um getur í 1. mgr., skal vara eigi skemur en 60 daga til þess að gera aðilanum, sem leggur fram beiðni, kleift að senda beiðni um leit eða álíka aðgang, haldlagningu eða álíka öflun eða afhendingu fyrrnefndra gagna Gögn skal varðveita áfram eftir að slíkri beiðni er veitt viðtaka uns ákvörðun liggur fyrir henni viðvíkjandi.

30. gr.

Flýtiafhending varðveittra samskiptagagna.

    1. Komist aðilinn, sem beiðni er beint til, að því við framkvæmd beiðni, sem lögð er fram skv. 29. gr. og varðar varðveislu samskiptagagna viðvíkjandi tilteknum boðum, að þjónustuveitandi í öðru ríki hafi átt aðild að boðsendingu skal fyrrnefndur aðili afhenda aðilanum, sem leggur fram beiðni, í flýti samskiptagögn í nægilega miklum mæli til þess að unnt sé að bera kennsl á þjónustuveitandann og átta sig á þeirri leið sem boðin voru send eftir.
    2. Því aðeins er heimilt er að synja um afhendingu samskiptagagna skv. 1. mgr:
    a)    varði beiðnin brot sem aðilinn, sem beiðni er beint til, telur af pólitískum toga eða brot sem tengist broti af pólitískum toga; eða
    b)    álíti aðilinn, sem beiðni er beint til, að framkvæmd beiðninnar muni að líkindum skerða fullveldi hans eða skaða öryggi, allsherjarreglu eða aðra grundvallarhagsmuni hans;

2. hluti – Gagnkvæm aðstoð er lýtur að rannsóknarheimild.


31. gr.

Gagnkvæm aðstoð er lýtur að aðgangi að geymdum tölvugögnum.

    1. Aðili getur beðið annan aðila um að gera leit í eða ganga með svipuðum hætti að, leggja hald á eða komast með svipuðum hætti yfir og afhenda gögn sem eru geymd með því að nota til þess tölvukerfi sem er staðsett á landsvæði aðilans, sem beiðni er beint til, þar með talin gögn sem hafa verið varðveitt skv. 29. gr.
    2. Aðilinn, sem beiðni er beint til, skal bregðast við beiðninni með því að beita alþjóðlegum gerningum, tilhögun og lögum, sem um getur í 23. gr., og í samræmi við önnur viðeigandi ákvæði þessa kafla.
    3. Beiðnin skal hljóta flýtimeðferð:
    a)    sé ástæða til að ætla að sérstök hætta sé á að viðkomandi gögn týnist eða að þeim verði breytt; eða
    b)    sé með öðrum hætti kveðið á um það í þeim gerningum, tilhögun og lögum, sem um getur í 2. mgr., að samstarfi skuli flýtt.

32. gr.

Aðgangur yfir landamæri að geymdum tölvugögnum með samþykki
eða þegar þau eru öllum aðgengileg.

    Aðila er heimilt, án þess að fá til þess leyfi annars aðila:
    a)    að ganga að geymdum tölvugögnum, sem eru öllum aðgengileg (opinberum heimildum), án tillits til þess hvar gögnin eru landfræðilega staðsett; eða
    b)    að ganga að eða taka við, um tölvukerfi á landsvæði sínu, geymdum tölvugögnum, sem staðsett eru hjá öðrum aðila, fái aðilinn löglegt og frjálst samþykki fyrir því frá þeirri persónu sem hefur umboð lögum samkvæmt til þess að afhenda aðilanum gögnin um tölvukerfið.

33. gr.

Gagnkvæm aðstoð viðvíkjandi söfnun samskiptagagna miðað við rauntíma.

    1. Aðilarnir skulu veita hver öðrum gagnkvæma aðstoð með tilliti til söfnunar samskiptagagna miðað við rauntíma, það er gagna sem tengjast tilteknum boðum á landsvæði þeirra sem eru send um tölvukerfi. Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. fer aðstoð fram í samræmi við þau skilyrði og verklagsreglur sem landslög kveða á um
    2. Hver aðili skal láta fyrrnefnda aðstoð í té, að minnsta kosti er um ræðir refsilagabrot þar sem söfnun samskiptagagna miðað við rauntíma yrði auðfengin í svipuðu máli innanlands.

34. gr.

Gagnkvæm aðstoð er lýtur að hlerun gagna um innihald.


    Aðilarnir skulu veita hver öðrum gagnkvæma aðstoð með tilliti til söfnunar eða skráningar gagna um innihald, miðað við rauntíma, er varða tiltekin boð, sem send eru um tölvukerfi, að því marki sem gildandi samningar þeirra og landslög heimila.

3. hluti – Netkerfi opið allan sólarhringinn sjö daga vikunnar.


35. gr.

Netkerfi opið allan sólarhringinn sjö daga vikunnar.

    1. Hver aðili skal tilnefna tengilið sem er til taks allan sólarhringinn sjö daga vikunnar til að tryggt sé að veita megi tafarlausa aðstoð í tengslum við rannsókn eða málarekstur vegna refsilagabrota sem tengjast tölvukerfum og -gögnum eða við söfnun sönnunargagna í rafrænni mynd viðvíkjandi refsilagabroti. Slík aðstoð skal meðal annars fólgin í því að greiða fyrir því eða, heimili landslög og innlendar lögvenjur slíkt, koma því í verk með beinum hætti:
    a)    að veitt sé tæknileg ráðgjöf;
    b)     að gögn séu varðveitt skv. 29. og 30. gr.; og
    c)    að sönnunargögnum sé safnað, upplýsingar lagalegs eðlis séu veittar og að upplýst sé hvar grunaðir haldi sig.
    2.    a)    Tengiliður aðila skal vera fær um að eiga samskipti við tengilið annars aðila með hraðvirkum hætti.
              b)    Sé tengiliður, sem aðili tilnefnir, ekki deild yfirvalds eða yfirvalda fyrrnefnds aðila, sem annast alþjóðlega og gagnkvæma aðstoð eða framsal, skal tengiliðurinn tryggja að hann geti tengst slíku yfirvaldi eða yfirvöldum skipulega með hraðvirkum hætti.
    3. Hver aðili skal sjá til þess að þjálfað og vel búið starfslið sé til taks í því skyni að auðvelda rekstur netkerfisins.

IV. kafli – Lokaákvæði.


36. gr.

Undirritun og gildistaka.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins og ríki sem eru ekki aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð hans.
    2. Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.
    3. Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fimm ríki, þar með talin að minnsta kosti þrjú aðildarríki Evrópuráðsins, hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af samningnum í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr.
    4. Samningur þessi öðlast gildi gagnvart hverju undirritunarríki, sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af honum, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er það lýsir sig samþykkt því að vera bundið af samningnum í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr.

37. gr.

Aðild að samningnum.

    1. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur ráðherranefnd Evrópuráðsins, að höfðu samráði við samningsríkin og að fengnu samhljóða samþykki þeirra, boðið hverju því ríki, sem ekki á aðild að Evrópuráðinu og ekki hefur tekið þátt í gerð hans, að gerast aðili að samningi þessum. Ákvörðunin skal tekin með þeim meirihluta sem er tilskilinn í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða atkvæðum fulltrúa þeirra samningsríkja sem eiga rétt til setu í ráðherranefndinni.
    2. Samningur þessi öðlast gildi, gagnvart hverju því ríki sem gerist aðili að honum skv. 1. mgr. hér að framan, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er skjal þess um aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

38. gr.

Landsvæði þar sem samningurinn gildir.

    1. Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, að tilgreina það eða þau landsvæði þar sem samningur þessi skal gilda.
    2. Hvert ríki getur hvenær sem er síðar útvíkkað, með yfirlýsingu sem er send aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, gildissvið samnings þessa til þess að það megi ná til hvers annars landsvæðis sem er tilgreint í yfirlýsingunni. Samningurinn öðlast gildi, að því er slíkt landsvæði varðar, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri yfirlýsingu.
    3. Heimilt er að afturkalla hverja þá yfirlýsingu, sem er gefin samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum og varðar hvert það landsvæði sem þar er tilgreint, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn tekur við slíkri tilkynningu.

39. gr.

Áhrif samningsins.


    1. Markmiðið með samningi þessum er að hann komi sem viðbót við gildandi fjöl- eða tvíhliða samninga eða tilhögun milli aðilanna, þar með talin ákvæði:
    –        Evrópusamnings um framsal sakamanna sem var lagður fram til undirritunar í París 13. desember 1957 (ETS nr. 24);
    –        Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum sem var lagður fram til undirritunar í Strassborg 20. apríl 1959 (ETS nr. 30);
    –        viðbótarbókunar við Evrópusamning um gagnkvæma aðstoð í sakamálum sem var lögð fram til undirritunar í Strassborg 17. mars 1978 (ETS nr. 99).
    2. Hafi tveir eða fleiri aðilar þegar gert með sér samkomulag eða samning um málefni, sem fjallað er um í samningi þessum, eða hafi þeir skipað samskiptum sínum viðvíkjandi slíkum málefnum með öðrum hætti, eða geri þeir það á komandi tímum, ber þeim og réttur til að framkvæma samkomulagið eða samninginn, eða koma skipulagi á fyrrnefnd samskipti samkvæmt því. Skipi aðilar samskiptum sínum viðvíkjandi málefnum, sem samningur þessi fjallar um, hins vegar með öðrum hætti en þar er tilskilið skulu þeir gera það með þeim hætti að samræmist markmiðum og meginreglum samningsins.
    3. Ekkert í samningi þessum hefur áhrif á önnur réttindi, hömlur, skuldbindingar og ábyrgð aðila.

40. gr.

Yfirlýsingar.

    Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að lýsa því yfir, með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, að það nýti sér þann kost að gera kröfu um viðbótaratriði samanber ákvæði 2. og 3. gr., b-liðar 1. mgr. 6. gr., 7. gr., 3. mgr. 9. gr. og e- liðar 9. mgr. 27. gr.

41. gr.

Ákvæði um sambandsríki.

    1. Sambandsríki er heimilt að áskilja sér rétt til þess að undirgangast skuldbindingar skv. II. kafla samnings þessa í samræmi við grundvallarreglur sínar um tengsl milli ríkisstjórnar sambandsríkisins og ríkja sem mynda það eða annarra svipaðra eininga, er lúta lögsögu þess, að því tilskildu að því sé eigi að síður kleift að eiga aðild að samvinnu skv. III. kafla.
    2. Sambandsríki er óheimilt, er það gerir fyrirvara skv. 1. mgr., að beita skilmálum slíks fyrirvara í því skyni að standa ekki við þær skuldbindingar sínar, að öllu eða verulegu leyti, að kveða á um ráðstafanir sem settar eru fram í II. kafla. Almennt skal það mæla fyrir um umfangsmikla og raunverulega getu til þess að framfylgja lögum með tilliti til fyrrnefndra ráðstafana.
    3. Að því er varðar þau ákvæði samnings þessa, sem hvað beitingu varðar heyra undir lögsögu ríkja sem mynda sambandsríki eða annarra svipaðra eininga er lúta lögsögu sambandsríkis en eru ekki skuldbundin samkvæmt stjórnskipun sambandsríkisins til þess að gera ráðstafanir á sviði löggjafar, skal ríkisstjórn sambandsríkisins vekja athygli lögbærra yfirvalda slíkra ríkja á fyrrnefndum ákvæðum og lýsa jákvæðum sjónarmiðum sínum gagnvart þeim, jafnframt því að hvetja þau til þess að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

42. gr.

Fyrirvarar.

    Hverju ríki er heimilt, við undirritun eða þegar skjal þess um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að lýsa því yfir, með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, að það nýti sér þann kost að gera fyrirvara, einn eða fleiri, samanber ákvæði 2. mgr. 4. gr., 3. mgr. 6. gr., 4. mgr. 9. gr., 3. mgr. 10. gr., 3. mgr. 11. gr., 3. mgr. 14. gr., 2. mgr. 22. gr., 4. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 41. gr. Óheimilt er að gera aðra fyrirvara.

43. gr.

Staða og afturköllun fyrirvara.

    1. Aðili, sem hefur gert fyrirvara í samræmi við 42. gr., getur hvenær sem er afturkallað hann, að hluta eða öllu leyti, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Fyrirvarinn tekur gildi þann dag er aðalframkvæmdastjóranum berst tilkynningin í hendur. Komi fram í tilkynningunni að afturköllun fyrirvarans skuli taka gildi á ákveðnum degi, sem þar er tilgreindur, og renni sá dagur upp eftir þann dag er aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku skal afturköllunin taka gildi seinni daginn.
    2. Aðili, sem gert hefur fyrirvara eins og um getur í 42. gr., skal afturkalla fyrirvarann, að hluta eða öllu leyti, eins fljótt og aðstæður leyfa.
    3. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins getur grennslast reglulega fyrir um líkur þess, hjá aðilum sem gert hafa einn fyrirvara eða fleiri eins og um getur í 42. gr., að fyrirvarinn eða fyrirvararnir verði afturkallaðir.

44. gr.

Breytingar.

    1. Hver aðili getur lagt fram tillögur til breytingar á samningi þessum og skal aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins senda þær aðildarríkjum Evrópuráðsins, ríkjum, sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð samnings þessa, og hverju því ríki sem hefur gerst aðili að samningi þessum eða verið boðin aðild að honum samkvæmt ákvæðum 37. gr.
    2. Hverja breytingartillögu aðila skal senda Evrópunefnd um afbrotamálefni (CDPC) og skal hún leggja álit sitt á þeirri breytingu, sem tillaga er gerð um, fyrir ráðherranefndina.
    3. Ráðherranefndin skal fjalla um breytingartillöguna og álit það sem Evrópunefnd um afbrotamálefni (CDPC) hefur lagt fram og getur ráðherranefndin samþykkt breytinguna að höfðu samráði við þau aðildarríki samnings þessa sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu.
    4. Texti hverrar breytingar, sem ráðherranefndin samþykkir skv. 3. mgr. þessarar greinar, skal framsendur aðilum til staðfestingar.
    5. Hver sú breyting, sem samþykkt er skv. 3. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að allir aðilar hafa skýrt aðalframkvæmdastjóranum frá því að þeir staðfesti hana.

45. gr.

Lausn deilumála.


    1. Skýra ber Evrópunefndinni um afbrotamálefni (CDPC) reglulega frá því með hvaða hætti samningur þessi er túlkaður og kemur til framkvæmda.
    2. Komi upp deila milli aðila um túlkun eða framkvæmd samnings þessa skulu þeir leitast við að leysa hana með samningaviðræðum eða öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali, til dæmis með því að leggja deiluna fyrir Evrópunefnd um afbrotamálefni (CDPC), leggja hana í gerð, en ákvörðun gerðardóms skal vera bindandi fyrir aðila, eða fyrir Alþjóðadómstólinn, eftir því sem hlutaðeigandi aðilar verða ásáttir um.

46. gr.

Samráð aðila.

    1. Aðilarnir skulu, eftir því sem við á, hafa reglulega samráð sín á milli í því skyni að greiða fyrir:
    a)    því að samningur þessi sé notaður og honum beitt með skilvirkum hætti, meðal annars að unnt sé að átta sig á vandkvæðum í þeim efnum, og greiða fyrir áhrifum hverrar yfirlýsingar, sem gefin er út, eða fyrirvara, sem gerður er, samkvæmt samningi þessum
    b)    gagnkvæmri miðlun upplýsinga um mikilsvarðandi þróun á sviði laga, stefnumála eða tækni er varðar tölvubrot og söfnun sönnunargagna í rafrænni mynd;
    c)    umfjöllun um hugsanlega viðbót við eða breytingu á samningi þessum.
    2. Skýra ber Evrópunefndinni um afbrotamálefni (CDPC) reglulega frá niðurstöðum samráðs sem um getur í 1. mgr.
    3. Evrópunefndin um afbrotamálefni (CDPC) skal, eftir því sem við á, greiða fyrir því samráði, sem um getur í 1. mgr., og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að aðstoða aðilana í þeirri viðleitni þeirra að samþykkja viðbætur við samninginn eða gera á honum breytingar. Evrópunefndin um afbrotamálefni (CDPC) skal, eigi síðar en þremur árum eftir að samningur þessi öðlast gildi og í samvinnu við aðilana, stjórna endurskoðun á öllum ákvæðum samningsins og gera tillögur um viðeigandi breytingar ef nauðsyn krefur.
    4. Aðilarnir skulu bera kostnað, sem stofnað er til í tengslum við beitingu ákvæða 1. mgr., með þeim hætti sem þau munu ákveða, nema Evrópuráðið beri þann kostnað.
    5. Skrifstofa Evrópuráðsins skal aðstoða aðilana við að skila hlutverkum sínum samkvæmt ákvæðum greinar þessarar.

47. gr.

Uppsögn.

    1. Hver aðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
    2. Uppsögnin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.

48. gr.

Tilkynningar.


    Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins, ríkjum, sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð samnings þessa, og hverju því ríki, sem hefur gerst aðili að samningi þessum eða verið boðin aðild að honum, um:
    a)    hverja undirritun;
    b)    afhendingu hvers skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild;
    c)    hvern gildistökudag samnings þessa skv. 36. og 37. gr.;
    d)    hverja yfirlýsingu skv. 40. gr. eða hvern fyrirvara sem er gerður í samræmi við ákvæði 42. gr.;
    e)    hvern annan gerning, tilkynningu eða orðsendingu er varðar samning þennan.
    Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
    Gjört í Búdapest 23. nóvember 2001 í einu eintaki á ensku og einu eintaki á frönsku, sem verða afhent til vörslu í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textarnir jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda hverju aðildarríki Evrópuráðsins, þeim ríkjum, sem eru ekki aðilar að Evrópuráðinu en hafa tekið þátt í gerð samnings þessa, og hverju ríki, sem boðið er að gerast aðili að honum, staðfest endurrit.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum
nr. 19/1940, lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og lögum
nr. 81/2003, um fjarskipti (samingur Evrópuráðsins um tölvubrot).

    Í frumvarpi þessu er kveðið á um lagabreytingar til að íslenska ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001. Frumvarpið miðar að því að samræma almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á svið tölvubrota. Jafnframt eru í frumvarpinu innleiddar réttarfarsreglur svo hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð verði það að lögum.