Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.

Þskj. 906  —  620. mál.Frumvarp til laga

um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja að hér á landi sé notað mælifræðikerfi sem nýtur trausts jafnt innan lands sem utan.
    Lögin skulu stuðla að því að mælingar og mælifræðilegar niðurstöður séu réttar og nákvæmar og tryggi réttmæta og örugga viðskiptahætti, verndi hagsmuni neytenda, líf og heilsu borgaranna og stuðli auk þess að réttarvernd og umhverfisvernd.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um mælingar, mælitæki og mæligrunna, eftir því sem segir í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Þá taka lögin til löggiltra vigtarmanna.
    Lögin gilda ekki um mælingar og niðurstöður mælinga til einkanota.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér greinir:
     Alþjóðlega SI-einingakerfið: Samræmt einingakerfi sem Almenna þingið fyrir vog og mál (CGPM) hefur samþykkt og lagt til að verði notað. SI stendur fyrir „Système International“ og er alþjóðleg skammstöfun fyrir einingakerfið.
     Faggilding: Formleg staðfesting faggildingarsviðs á því að aðili hafi sýnt fram á hæfni til að vinna tiltekin samræmismatsverkefni.
     Faggilt kvörðunarþjónusta: Þjónusta einstaklings eða lögaðila sem tekur að sér kvörðun eftir faggiltri aðferð.
     Faggilt mælifræðistofa: Faggilt rannsóknastofa á sviði mælifræði sem hefur fengið viðurkenningu á gæðum, tæknilegri hæfni og sjálfstæði.
     Gerðarviðurkenning: Ákvörðun, byggð á matsskýrslu, um það að gerð mælitækis uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða og sé hæft til notkunar á lögmæltu sviði þannig að vænta megi að það veiti áreiðanlegar mæliniðurstöður um tiltekið tímabil.
     Kvörðun: Röð aðgerða sem ákvarða, við tiltekin skilyrði, sambandið milli gilda stærða sem mælitæki eða mælikerfi sýna eða gilda sem efnismát eða viðmiðunarefni standa fyrir, og samsvarandi gilda sem mæligrunnar hafa.
     Kvörðunarvottorð: Skjal þar sem niðurstöður kvörðunar eru skráðar í samræmi við nánari reglur sem gilda um útgáfu þeirra.
     Löggilding mælitækis: Aðgerð til að tryggja og staðfesta formlega að mælitæki fullnægi öllum kröfum laga og reglugerða. Löggilding fer fram með athugun, merkingu og/eða útgáfu vottorðs og er venjulega lokið með innsiglun á aðgengi stillinga.
     Löggilding vigtarmanns: Formleg staðfesting á að einstaklingur uppfylli skilyrði laga og reglna settra samkvæmt þeim um menntun og önnur skilyrði til að starfa sem vigtarmaður.
     Mælieining: Ákveðin stærð, skilgreind og viðtekin með samkomulagi, sem aðrar stærðir sömu gerðar eru bornar saman við til að tákna magn þeirra í samanburði við þá stærð.
     Mælifræðilegt eftirlit: Eftirlit með framleiðslu, innflutningi, uppsetningu, notkun, viðhaldi og viðgerð á mælitækjum, framkvæmt til að athuga hvort tækin séu notuð rétt eins og lög og reglugerðir um mælifræði segja, þ.m.t. hvort forpakkningar innihaldi leyfilega þyngd og hvort hún sé rétt mæld.
     Mæligrunnur: Efnismát, mælitæki, viðmiðunarefni eða mælikerfi sem ætlað er til að skilgreina, raungera, varðveita, birta eða endurgera mælieiningu eða eina eða fleiri stærðir sem hafa skal til viðmiðunar.
     Mæling: Aðgerð eða röð aðgerða sem framkvæmdar eru til að ákveða gildi stærðar sem er táknuð sem margfeldi tölu og mælieiningar.
     Mælitæki: Tæki sem ætlað er, eitt sér eða ásamt tilheyrandi og viðurkenndum viðbótartækjum, til að framkvæma mælingu.
     Rekjanleiki: Eiginleiki í niðurstöðu mælinga eða gildis á mæligrunni sem gerir unnt að tengja þau við tilteknar viðmiðanir, venjulega lands- eða alþjóðamæligrunna, með óslitinni röð samanburða sem hver fyrir sig hefur skilgreinda óvissu.
     Samræmismat: Staðfesting á því að tilgreindar kröfur sem eiga við um vörur, ferli, kerfi, einstakling eða aðila séu uppfylltar.
     Skoðun: Athugun á hönnun vöru, vöru, ferli eða uppsetningu búnaðar og ákvörðun á samræmi þess við tilgreindar kröfur, eða almennar kröfur og skal þá byggt á faglegum úrskurði.
     Undireining: Vélbúnaður sem er tilgreindur sem slíkur í tilskipunum, lögum eða reglum settum samkvæmt þeim, virkar sjálfstætt og myndar mælitæki ásamt öðrum undireiningum sem hann er samhæfður, eða mælitæki sem hann er samhæfður.
     Úrtaksskoðun: Skoðun einsleits safns mælitækja sem byggð er á niðurstöðum mats á tölfræðilega hæfilegum fjölda sýna völdum af handahófi úr tilgreindri lotu.
     Yfireftirlit: Eftirlit stjórnvalds með því að ákvæðum í lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim á sviði mælifræði sé fylgt í framkvæmd, yfirumsjón með eftirliti sem einkaaðilar framkvæma í umboði eftirlitsstjórnvalds, svo og taka stjórnvaldsákvarðana á grundvelli laga sem gilda um mælifræðilegt eftirlit.

4. gr.
Stjórnsýsla.

    Viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, en Neytendastofa fer í umboði ráðherra með framkvæmd laganna.
    Hlutverk Neytendastofu samkvæmt lögum þessum er:
     a.      að annast töku stjórnvaldsákvarðana og kveða upp stjórnvaldsúrskurði á grundvelli ákvæða þessara laga eða sérlaga sem henni hefur verið falið eftirlit með;
     b.      að veita stjórnvöldum og öðrum ráðgjöf um mælifræðileg málefni, veita umsagnir um mæligrunna og reglur stjórnvalda á sviði mælinga og lögmælifræði og stuðla að útbreiðslu þekkingar hér á landi á sviði mælifræði;
     c.      að vera stjórnvald á sviði mælifræði og annast rekstur þeirra mæligrunna sem stjórnvöld fela henni umsjón með skv. 7. gr., sbr. 6. gr., og veita kvörðunarþjónustu í samræmi við ákvæði VIII. kafla;
     d.      að hafa yfireftirlit með framkvæmd mælifræðilegs eftirlits samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim, m.a. annast samræmingu eftirlits og annast yfireftirlit með þeim eftirlitsverkefnum sem einkaaðilar framkvæma í umboði Neytendastofu;
     e.      að annast löggildingu vigtarmanna o.fl., sbr. ákvæði VII. kafla;
     f.      að vera í fyrirsvari fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi um mælifræðileg málefni;
     g.      að hafa samstarf við aðra aðila sem fást við verkefni á sviði mælifræði.

II. KAFLI
Mælieiningar og mæligrunnar.
5. gr.

    Á Íslandi skal nota alþjóðlega SI-einingakerfið.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðherra heimilað að notaðar séu mælieiningar utan alþjóðlega SI-einingakerfisins. Þær skulu þó ávallt hafa viðmiðun í alþjóðlega SI-einingakerfinu.

6. gr.

    Mælitæki sem notuð eru til lögboðinna mælinga og eftirlits og ákvörðunar stjórnvalda eða dómstóla á viðurlögum eða sá búnaður sem notaður er til löggildingar þessara mælitækja skal kvarðaður með rekjanlegum kvörðunum af faggiltum aðilum.
    Neytendastofa annast öflun og viðhald rekjanlegra mæligrunna vegna mælitækja og eftirlits skv. 1. mgr. eða hefur milligöngu um aðgang að slíkum mæligrunnum, hafi öðrum aðilum ekki verið falið það í sérlögum.
    Neytendastofa annast einnig öflun og viðhald rekjanlegra mæligrunna sem mikilvægir eru til þess að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir faggilta kvörðunarþjónustu, sbr. 2. mgr. 29. gr.

7. gr.

    Neytendastofa ákveður með hliðsjón af gildandi lögum á hverjum tíma, að fenginni umsögn fagráðs, og í samstarfi við hlutaðeigandi ráðuneyti fyrir hvaða mælifræðisvið halda skal rekjanlega mæligrunna og birtir upplýsingar um hvar þeir eru vistaðir.

III. KAFLI
Sala og markaðssetning mælitækja.
8. gr.
Kröfur um sölu og markaðssetningu mælitækja.

    Mælitæki sem eru seld og markaðssett á Íslandi, og undireiningar þeirra, skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru til þeirra í lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Framleiðendur, seljendur og dreifingaraðilar bera ábyrgð á að mælitæki sem þeir markaðssetja eða selja uppfylli ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim.

9. gr.
Merkingar mælitækja.

    Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að setja nánari reglur í samræmi við ákvæði laga eða alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að um merkingar mælitækja sem heimilt er að selja, markaðssetja og taka í fyrstu notkun hér á landi.

10. gr.
Samræmismat.

    Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið á um mat á samræmi við grunnkröfur til að sannreyna hvort mælitæki sem sett eru á markað uppfylli kröfur.
    Samræmismatinu skal lokið og það sannanlega skrásett áður en mælitæki er boðið til sölu eða tekið í notkun í fyrsta sinn.
    Neytendastofu er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá samræmismati, svo sem ef nota á vöruna á vörusýningum eða á vörukynningum.

11. gr.

    Samræmismat getur fallið úr gildi áður en gildistími þess rennur út þegar ljóst er að kröfur sem gerðar voru til tækisins og samræmismatið er byggt á eru ekki uppfylltar.
    Þegar samræmismat hefur verið fellt úr gildi skv. 1. mgr. er óheimilt að bjóða viðkomandi mælitæki til sölu eða selja það hér á landi að liðnum hæfilegum fresti.

IV. KAFLI
Notkun mælitækja.
12. gr.
Mælitæki í notkun.

    Eigandi mælitækis eða ábyrgðaraðili, ef það á við, ber ábyrgð á að mælitæki í notkun uppfylli ávallt reglur sem kveðið er á um í lögum og reglum settum samkvæmt þeim og er ábyrgur fyrir greiðslu eftirlitsgjalds í samræmi við ákvæði IX. kafla um eftirlitsgjald.

13. gr.
Sérkröfur um mælitæki til ákveðinna nota.

    Ráðherra getur kveðið á um það í reglugerð að mælitæki til ákveðinna nota skuli uppfylla ítarlegri kröfur en almennt eru gerðar til mælitækja og hvernig eftirliti með þeim skuli háttað. Neytendastofa setur reglur sem gilda skulu um slík mælitæki. Þá getur Neytendastofa sett reglur um nákvæmnisflokka mælitækja ef nauðsyn krefur.
    Mælitæki önnur en þau sem getið er um í 1. mgr. skulu eigi að síður uppfylla þær sérstöku kröfur sem gerðar eru til mælitækis sem er á sama stað, ef unnt er að nota þau í sama tilgangi.
    Neytendastofa skal birta á aðgengilegan hátt og uppfæra reglulega nánari upplýsingar um hvaða mælitæki eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum og reglum sem gilda hér á landi.

14. gr.
Staðfesting á að mælitæki í notkun uppfylli skilyrði laga og reglna.

    Staðfesta skal með löggildingu að mælitæki í notkun uppfylli kröfur eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerðum. Birta skal lista um þessa flokka mælitækja á aðgengilegan hátt.
    Eigandi mælitækja getur þó óskað samþykkis Neytendastofu fyrir því að gæðakerfi eða önnur tilhögun formlegs innra eftirlits verði tekin gild í stað löggildingar.
    Ráðherra getur sett reglur um notkun úrtaks við eftirlit með safni mælitækja. Skal þar byggt á stöðlum um úrtaksskoðanir og alþjóðlega viðurkenndum reglum um hvernig stöðlunum skuli beitt.
    Eftirlit með magni í forpakkaðri vöru fer fram á markaði með sýnatöku, hvort sem innlendir eða erlendir aðilar hafa pakkað vörunni í samræmi við ákvæði reglugerða um forpakkaðar vörur.
    Pökkunaraðilar sem pakka í samræmi við 2. mgr. 16. gr. skulu sæta reglubundnu eftirliti. Þeir skulu nota löggilt mælitæki við pökkunina eða við gæðatryggingu hennar.
    Í reglugerðum sem ráðherra setur skal kveðið nánar á um framkvæmd allra aðferða samkvæmt þessari grein.

V. KAFLI
Niðurstöður mælinga.
15. gr.
Tilgreining á niðurstöðum mælinga.

    Hvarvetna þar sem viðskipti fara fram að viðskiptavinum viðstöddum og notuð eru mælitæki sem lög þessi gilda um skal þannig um búið að viðskiptavinurinn sjái greinilega þegar mæling fer fram og geti lesið mæliniðurstöður fyrirhafnarlaust, sjá þó 16. gr.
    Þegar sjálfvirk mæling viðskipta sem lög þessi ná til fer fram skulu viðskipta- og eftirlitsaðilar hafa aðgang að mælingagögnum.

16. gr.
Magn forpakkaðrar vöru.

    Í reglugerð sem ráðherra setur skulu vera reglur um mesta leyfilega frávik þegar vara er seld eftir magni í samræmi við ákvæði tilskipana um forpakkaðar vörur.
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal nánar kveðið á um rétt og skyldur þeirra sem merkja forpakkaðar vörur með e-merki í samræmi við ákvæði tilskipana Evrópusambandsins, þ.m.t. reglur um viðurkenningu á kerfum sem framleiðandi notar við magnmælingar. Ráðherra getur í reglugerð einnig kveðið á um að vörur megi einungis selja í ákveðnum magnstærðum og magn skuli tilgreint á framleiðsluvöru.

VI. KAFLI
Framkvæmd eftirlits með mælitækjum.
17. gr.
Umboð til eftirlits.

    Neytendastofa fer með eftirlit samkvæmt lögum þessum. Stofnuninni er þó heimilt að fela öðrum að framkvæma eftirlitið með samningi. Skulu þeir aðilar vera óháðir eftirlitsskyldum aðilum og hafa sérþekkingu og hæfni á viðkomandi sviði.
    Ákvæði kaflans eiga jafnframt við um þá aðila sem Neytendastofa veitir umboð til eftirlits, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í umboði til viðkomandi aðila.

18. gr.
Gjaldskrá eftirlitsaðila.

    Gjaldskrá þeirra aðila sem Neytendastofa felur framkvæmd mælifræðilegs eftirlits skal vera opinber. Ráðherra er heimilt að setja gjaldskrá ef einungis einn aðili veitir þjónustu til löggildingar á viðkomandi mælitæki.

19. gr.
Óhindrað aðgengi.

    Neytendastofa skal hafa óhindraðan aðgang að öllum starfsstöðvum og innréttingum við framkvæmd eftirlits með ákvæðum þessara laga og reglna settum samkvæmt þeim.

20. gr.
Réttur til upplýsinga.

    Neytendastofa getur krafið þá aðila sem eru eftirlitsskyldir samkvæmt lögum þessum um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við framkvæmd eftirlits.
    Neytendastofa getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

21. gr.
Aðstoð við framkvæmd eftirlits.

    Framleiðendur, seljendur, dreifingaraðilar, eigendur og umsjónarmenn mælitækja sem lög þessi taka til og aðrir eftirlitsskyldir aðilar skulu auðvelda framkvæmd eftirlits samkvæmt þessum lögum og veita nauðsynlega aðstoð eftir því sem við getur átt.
    Eftirlitsskyldur aðili getur ekki krafið Neytendastofu um greiðslu vegna þess kostnaðar sem hann kann að verða fyrir við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögunum.
         

22. gr.
Þagnarskylda.

    Þeim sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara og þeim sem Neytendastofa hefur veitt umboð til að framkvæma eftirlit á grundvelli laganna er óheimilt að skýra frá atriðum sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

VII. KAFLI
Um löggilta vigtarmenn o.fl.
23. gr.
Skilyrði til löggildingar vigtarmanns o.fl.

    Löggiltir vigtarmenn geta þeir orðið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
     a.      eru búsettir hér á landi,
     b.      eru fullra tuttugu ára,
     c.      eru sjálfráða og fjárráða,
     d.      hafa sótt námskeið til löggildingar vigtarmanna og staðist próf.
    Vigtarmenn skulu hafa löggildingu Neytendastofu sem gefur út skírteini þeim til handa um að þeir megi taka að sér störf sem löggiltum vigtarmönnum eru einum falin samkvæmt ákvæðum í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim. Synja skal manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.
    Löggilding vigtarmanns gildir í tíu ár. Neytendastofa heldur skrá yfir löggilta vigtarmenn.
    Neytendastofu er heimilt að veita einstaklingi bráðabirgðalöggildingu til starfa að löggiltri vigtun að fenginni umsögn hlutaðeigandi stjórnvalda. Skilyrði fyrir undanþágu og bráðabirgðalöggildingu er að óframkvæmanlegt sé að fá löggiltan vigtarmann til starfans og brýna nauðsyn beri til að vigtun fari fram lögum samkvæmt. Það skilyrði skal sett að leyfishafi samkvæmt ákvæði þessu sæki fyrsta námskeið eftir að undanþága er veitt. Standist leyfishafi ekki próf fellur bráðabirgðalöggilding hans niður.
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal setja nánari reglur um námskeið, próf, endurnýjun réttinda, endurmenntunarnámskeið og starfshætti vigtarmanna.

24. gr.
Prófnefnd, námskeið og próf.

    Prófnefnd vigtarmanna hefur umsjón með prófi til löggildingar vigtarmanna. Ráðherra skipar þriggja manna prófnefnd til fimm ára í senn og skal Neytendastofa tilnefna einn fulltrúa, Fiskistofa einn en ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skulu próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Skal fjárhæðin taka mið af kostnaði af námskeiðum og framkvæmd prófsins. Í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum frá prófnefnd skal kveðið á um prófkröfur skv. d-lið 1. mgr. 23. gr. og önnur skilyrði eftir því sem við getur átt.
    Í reglum sem prófnefnd setur skal kveða nánar á um framkvæmd námskeiða, svo sem lágmarksárangur til að standast próf, lágmarksþátttakendafjölda á námskeiði og önnur atriði er varða framkvæmd eftir því sem við getur átt. Heimilt er að skipta réttindum til löggildingar vigtarmanna eftir eðli réttinda í samræmi við reglur prófnefndar um námskeið og próf samkvæmt ákvæði þessarar greinar. Þá getur prófnefnd skipað prófdómara til að endurskoða prófúrlausn próftaka óski hann eftir því.

25. gr.
Fullgild vottorð.

    Vottorð löggiltra vigtarmanna teljast vera fullgild ef í þeim koma fram eftirfarandi upplýsingar:
     a.      nafn verkbeiðanda, staður og dagsetning;
     b.      gildi töru;
     c.      þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið;
     d.      tilvísun til þeirrar vogar sem vigtað var á;
     e.      númer ökutækis, þegar það á við;
     f.      nafn löggilts vigtarmanns og undirritun hans, svo og nafn lögaðila sem hann starfar hjá, þegar það á við;
     g.      aðrar upplýsingar sem krafist er samkvæmt ákvæðum sérlaga og reglna settra samkvæmt þeim, eftir því sem við getur átt.

26. gr.
Um starfsskyldur vigtarmanns.

    Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar og í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim.
    Um starfshætti vigtarmanna gilda að öðru leyti ákvæði þessara laga og sérlaga eftir því sem við getur átt, og reglur settar samkvæmt þeim. Í erindisbréfi sem ráðherra setur skal að öðru leyti kveðið á um starfsskyldur vigtarmanna.

27. gr.
Um sönnunargildi vottorða löggilts vigtarmanns.

    Fullgilt vottorð löggilts vigtarmanns er sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið. Í stjórnvaldsfyrirmælum er unnt að tilgreina að ákveðin störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum.
    Neytendastofa setur nánari reglur að fenginni umsögn fagráðs, sbr. 35. gr., um almennt og sérstakt hæfi löggiltra vigtarmanna, þ.m.t. hvaða störf séu ósamrýmanleg störfum löggiltra vigtarmanna o.fl.

28. gr.
Svipting löggildingar o.fl.

    Brot á reglum um starfsskyldur vigtarmanns eru grundvöllur tafarlausrar sviptingar réttinda löggilts vigtarmanns. Hið sama á við um ásetningsbrot um fölsun vigtunarvottorða. Um málsmeðferð og úrskurð um sviptingu samkvæmt þessari grein skal farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Nú er einstaklingur sviptur réttindum löggilts vigtarmanns vegna brota er varða við XVII. kafla almennra hegningarlaga og getur hann þá eigi setið námskeið að nýju og tekið próf fyrr en að tveimur árum liðnum frá dagsetningu úrskurðar um sviptingu réttindanna nema mál hans sé látið niður falla af hálfu saksóknara eða máli hans lokið með sátt eða dómi. Leyfissviptingu má kæra til áfrýjunarnefndar neytendamála, sbr. lög nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda. Kærufrestur er 30 dagar og verður mál ekki borið undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.

VIII. KAFLI
Um faggilta kvörðunarþjónustu.
29. gr.

    Neytendastofa skal starfrækja faggilta mælifræðistofu svo að hægt sé að sinna lögbundnu eftirliti eða tryggja að öðrum kosti með samningi aðgang að rekjanlegum kvörðunum.
    Neytendastofu er einnig heimilt að starfrækja faggilta kvörðunarþjónustu fyrir atvinnulífið.

30. gr.

    Neytendastofa skal taka gjald fyrir þjónustu sem hún veitir samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
    Að fenginni tillögu Neytendastofu samþykkir og birtir ráðherra gjaldskrá fyrir kvörðunarþjónustu sem hún veitir í samræmi við ákvæði þessa kafla.
    Gjaldskrá samkvæmt þessari grein skal byggð á eftirfarandi kostnaðarliðum:
     a.      vinnutímagjaldi faggiltu mælifræðistofunnar;
     b.      efniskostnaði og öðrum útlögðum kostnaði, þegar það á við;
     c.      gjaldi vegna viðhalds faggildingar;
     d.      hlutdeild í venjulegum stjórnunarkostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, aðgangs, viðhalds og endurnýjunar mæligrunna og kvörðunarbúnaðar.

IX. KAFLI
Eftirlitsgjald.
31. gr.

Almennt um gjaldtöku.

    Vegna yfireftirlits Neytendastofu á sviði mælifræði skal leggja á eftirlitsgjald eftir því sem nánar er kveðið á um í þessum kafla.
    Fjárhæð eftirlitsgjalds skal standa undir rekstri og viðhaldi á mæligrunnum í eigu Neytendastofu, stjórnsýslukostnaði við yfireftirlit stofnunarinnar á sviði mælifræði, markaðseftirliti með mælitækjum og öðrum stjórnsýsluverkefnum sem henni eru falin samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
    Fyrir 1. mars ár hvert skal Neytendastofa gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit og annan stjórnsýslukostnað eftirlitsskyldra þátta samkvæmt lögum þessum. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta fjárhæð eftirlitsgjalds skal ráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi að fenginni umsögn fagráðs, sbr. 35. gr.

32. gr.
Álagningargrunnur fyrir eftirlitsgjald.

    Eftirlitsgjald skal lagt á eftirtalin eftirlitsskyld mælitæki:
     1.      Vatnsmæla.
     2.      Gasmæla.
     3.      Raforkumæla fyrir raunorku.
     4.      Varmaorkumæla.
     5.      Mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn.
     6.      Vogir.
     7.      Gjaldmæla leigubifreiða.
     8.      Mæliáhöld fyrir lengd og rúmmál.
     9.      Víddamælitæki.
     10.      Greiningartæki fyrir útblástursloft.
    Fjárhæð eftirlitsgjalds á eftirlitsskyld mælitæki samkvæmt þessari grein er 250 kr. á ári. Gjaldskyldu bera eigendur mælitækja, sbr. 12. gr.

33. gr.
Framkvæmd álagningar og innheimta.

    Árgjald fyrir eftirlitsskyld mælitæki skv. 2. og 5.–10. tölul. 1. mgr. 32. gr., svo og gjaldfallin og ógreidd árgjöld frá síðustu eftirlitsskoðun, skal aðili sem annast framkvæmd eftirlits með mælitækjum í notkun, sbr. 17. gr., innheimta þegar eftirlit fer fram með löggildingu mælitækis. Árgjald skal greiða fyrir hvert byrjað ár en hafi eigandi eða ábyrgðaraðili óskað eftir því að mælitæki skuli innsiglað fellur árgjald niður frá og með upphafi næsta árs á hlutaðeigandi löggildingartímabili mælitækisins. Um uppgjörstímabil og gjalddaga á eftirlitsgjöldum til Neytendastofu samkvæmt þessari málsgrein fer nánar eftir ákvæði 1. mgr. 34. gr.
    Árgjald fyrir eftirlitsskyld mælitæki skv. 1., 3. og 4. tölul. 1. mgr. 32. gr. skulu eigendur greiða til Neytendastofu.

34. gr.
Um skýrslu, gjalddaga, álag og dráttarvexti.

    Aðili sem annast framkvæmd eftirlits með mælitækjum í notkun og löggildingu þeirra í umboði Neytendastofu innheimtir gjaldfallin og ógreidd árgjöld skv. 1. mgr. 33. gr. þegar eftirlit fer fram. Innheimt árgjöld greiðast til Neytendastofu ársþriðjungslega þannig að gjalddagi á fyrsta ársþriðjungi er 1. maí, gjalddagi á öðrum ársþriðjungi er 1. september og gjalddagi þriðja ársþriðjungs er 1. febrúar.
    Gjalddagi eftirlitsgjalds skv. 1., 3. og 4. tölul. 32. gr. er 1. febrúar ár hvert.
    Sé eftirlitsgjald skv. 32. gr. ekki greitt innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða í ríkissjóð dráttarvexti í samræmi við vaxtalög, svo og innheimtukostnað.
    Gjaldskyldir aðilar skv. 32. gr. skulu við uppgjör á eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum þessum og eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila ótilkvaddir skýrslu í því formi sem Neytendastofa ákveður vegna mælitækja sem bera gjald á uppgjörstímabilinu.
    Áætla skal gjöld ef aðili skilar ekki skýrslu innan tilskilins tíma, sendir enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Tilkynna skal gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið, svo og gjalddaga. Sé gjald ekki greitt á tilskildum tíma skal gjaldskyldur aðili, sbr. 32. gr., sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á auk innheimtukostnaðar. Sama gildir ef skýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og gjald því áætlað nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga gjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Álag skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Heimilt er gjaldskyldum aðilum að bera ákvarðanir um áætlun gjalda og greiðslu álags undir áfrýjunarnefnd neytendamála og er kærufrestur 30 dagar. Kæra skal vera skrifleg.

X. KAFLI
Fagráð atvinnulífsins og Neytendastofu.
35. gr.

    Ráðherra skipar sex fulltrúa í fagráð sem sinna skal ráðgjöf fyrir atvinnulífið og Neytendastofu á sviði mælifræði. Hlutverk þess er að veita stjórnvöldum og atvinnulífi ráðgjöf um þróun og aðgerðir til að tryggja að hagnýtt sé alþjóðlegt og innlent samstarf sem miðar að því að greiða fyrir trausti og gagnkvæmum viðurkenningum í milliríkjaviðskiptum á sviði mælinga og mælifræði. Fagráð veitir umsagnir um drög að stjórnvaldsfyrirmælum þegar það á við, þ.m.t. um gjaldskrár Neytendastofu.
    Ráðherra skipar formann án tilnefningar en aðrir fulltrúar í fagráði skulu tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samorku, Neytendasamtökunum og einn fulltrúi sameiginlega af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva. Forstjóri og sérfræðingar Neytendastofu á sviði mælifræði sitja fundi ráðsins eftir því sem við á með málfrelsi og tillögurétt. Aðilar sem tilnefna í fagráð bera kostnað af þátttöku fulltrúa síns í fagráði og tryggja þekkingu og færni þeirra á sviði mælifræði.

XI. KAFLI
Réttarúrræði, viðurlög o.fl.
36. gr.
Krafa um nauðsynlegar úrbætur og bann við notkun.

    Við brot á ákvæðum laga þessara eða reglna settum samkvæmt þeim getur Neytendastofa krafist þess að eftirlitsskyldur aðili geri nauðsynlegar úrbætur innan ákveðins frests. Við veruleg brot er heimilt að leggja bann við frekari notkun eða starfsemi.
    Eftirlitsskyldur aðili ber allan kostnað sem hlýst af stöðvun starfsemi samkvæmt þessum lögum.

37. gr.
Bann við sölu og afturköllun.

    Þegar framleiðsluvörur og mælitæki uppfylla ekki skilyrði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim getur Neytendastofa bannað sölu þeirra.
    Neytendastofa getur einnig krafist þess að framleiðsluvörur og mælitæki sem dreift hefur verið til söluaðila skuli afturkallaðar. Afturköllun og sölubann er heimilt að leggja á einstakar tegundir framleiðsluvöru og mælitækja eða á framleiðslulotur, eftir því sem við getur átt.
    Um réttarúrræði Neytendastofu vegna brota á sviði lögmælifræði fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum IV. og V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við getur átt.

38. gr.
Um afturköllun á löggildingu og annarri viðurkenningu.

    Neytendastofa skal afturkalla löggildingu og aðra viðurkenningu sem hún veitir samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim þegar sá sem hlotið hefur löggildingu eða viðurkenningu, eða aðili sem starfar á hans vegum, brýtur ákvæði þessara laga eða reglna settra samkvæmt þeim.

39. gr.
Dagsektir.

    Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum og reglum settum samkvæmt þeim getur Neytendastofa ákveðið að sá sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Dagsektir geta numið frá 10–500 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.
    Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.

40. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga og fyrirtæki fyrir brot sem framin eru af ásetningi eða gáleysi gegn:
     a.      ákvæðum III. kafla, um sölu og markaðssetningu mælitækja, og reglum settum samkvæmt þeim;
     b.      ákvæðum IV. kafla, um notkun mælitækja, og reglum settum samkvæmt þeim, ef um ítrekuð brot er að ræða,
     c.      ákvæðum V. kafla, um niðurstöður mælinga, og reglum settum samkvæmt lögum sem gilda um það efni.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 10 millj. kr.
    Ákvarðanir Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir, sbr. 39. gr., og fjárhæð þeirra, eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála. Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför. Við aðför samkvæmt ákvörðunum Neytendastofu skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fer skv. 13. kafla aðfararlaga.
    Frestur til að greiða stjórnvaldssektir er fjórar vikur nema annað sé sérstaklega ákveðið í hlutaðeigandi lagaákvæðum eða reglum.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um fjárhæð og framkvæmd stjórnvaldssekta. Í reglugerðinni skal jafnframt kveðið á um vexti og kostnað ef stjórnvaldssekt er ekki greidd á eindaga svo og hver annar en sá sem stjórnvaldssekt er lögð á geti borið ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

41. gr.
Refsingar.

    Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur ákvæðum III. kafla, 12. og 13. gr. IV. kafla, V. kafla, 20. og 22. gr. VI. kafla, 25.–27. gr. VII. kafla og 32. og 33. gr. IX. kafla laga þessara, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim skal sæta fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
    Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
    Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
    Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

42. gr.

    Nú varðar meint lögbrot bæði stjórnvaldssektum skv. 40. gr. og refsingum skv. 41. gr. og metur Neytendastofa þá með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort mál skuli kært til lögreglu eða lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá Neytendastofu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Ákvæði IV. og VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Neytendastofu að kæra mál til lögreglu.

XII. KAFLI
Gildistaka.
43. gr.

    Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2005, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki, og með hliðsjón af tilskipun nr. 90/384/EBE um ósjálfvirkar vogir ásamt síðari breytingum og með hliðsjón af tilskipun nr. 71/316/EBE um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit ásamt síðari breytingum og þeim tilskipunum sem af henni eru leiddar. Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið nánar á um mælitæki og innleiðingu á viðaukum framantalinna tilskipana að fenginni umsögn Neytendastofu.

44. gr.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal innleiða nánari reglur um mælitækjaflokka sem taldir eru upp í tilskipun 2004/22/ESB, um mælitæki, sbr. 32. gr. laga þessara. Taki ráðherra ákvörðun við setningu reglugerðar skv. 1. málsl. um að setja ekki reglur um alla mælitækjaflokka sem taldir eru upp í tilskipuninni skal ákvörðunin rökstudd og send til Eftirlitsstofnunar EFTA. Hið sama gildir um mælitæki sem falla undir gildissvið tilskipunar 71/316/EBE.

45. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 30. apríl 2006. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. er heimilt að setja á markað og taka í fyrstu notkun hér á landi mælitæki sem uppfylla kröfur fyrir 30. október 2006 á meðan gerðarviðurkenning þess heldur gildi sínu, þó eigi lengur en til 30. október 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ákvæði um mælingar eru nú í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992. Fyrsta lagasetning um mál og vog hér á landi var í Jónsbók frá 1281, en árið 1907 var metramál löggilt hér á landi með lögum nr. 33/1907. Árið 1915 voru sett lög um löggilta vigtarmenn. Árið 1917 voru svo sett lög nr. 78/1917, um mælitæki og vogaráhöld, sem tóku gildi 1. janúar 1919. Í 2. gr. þeirra laga var ákvæði um að skylt væri að setja á stofn löggildingarstofu undir umsjón stjórnarráðsins sem skyldi m.a. sjá um „stimplun og löggilding mælitækja og vogaráhalda, einkasölu á stimpluðum og löggiltum mælitækjum og vogaráhöldum, verklegt eftirlit með mælitækjum og vogaráhöldum“. Löggildingarstofa, nú Neytendastofa, tók því til starfa í samræmi við ákvæði framangreindra laga 1. janúar 1919 og er ein af fyrstu stjórnsýslustofnunum sem stofnsettar voru eftir fullveldisstofnunina 1. desember 1918. Árið 1919 var svo birt fyrsta tilskipun Danakonungs um löggilt mælitæki og vogaráhöld. Árið 1925 var sett ný tilskipun konungs um mælitæki og vogaráhöld með vísan til laga nr. 13/1924, um mælitæki og vogaráhöld, og byggðist mælifræðilegt eftirlit hér á landi á henni og framangreindum lögum allt fram til gildistöku laga nr. 100/1992. Jafnframt voru á fyrstu áratugum síðustu aldar sett nokkur lög um sölu á eggjum, korni, kolum og síld eftir þyngd auk laga um að selja salt eftir vigt og um þyngd bakarabrauða. Árið 1949 voru sett lög um sölu á steinolíu, hráolíu, benzíni og smurningsolíu og var samkvæmt þeim skylt að selja slíkar vörur eftir löggiltri vigt eða mæli. Árið 1956 var t.d. sett reglugerð um löggildingu og eftirlit með olíu- og benzíndælum og árið 1980 var sett reglugerð um mælitæki og vogaráhöld með rafeindabúnaði en um nánari fróðleik varðandi sögu lögmælifræði hér á landi verður þó að vísa að öðru leyti til íslenskrar réttarsögu.
    Metrakerfinu var komið á í París 1799 með því að setja í geymslu tvo platínumæligrunna fyrir metrann og kílógrammið. Metrakerfið var undanfari alþjóðlega einingakerfisins – SI-kerfisins, en það stendur fyrir frönsku orðin Système International. Frá því að viðskipti tóku að þróast hefur mælifræði því gegnt lykilhlutverki í því að skapa traust í viðskiptum jafnt í innanlands- og milliríkjaviðskiptum. Viðskipti milli landa hafa stöðugt farið vaxandi, m.a. vegna ýmiss konar fjölþjóðlegra viðskiptasamninga, svo sem EES-samningsins, samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og GATT og GATS-samninganna o.fl. Í Evrópu nútímans er mælt og vegið fyrir verðmæti meira en 1% af landsframleiðslu (e. GDP) með efnahagslegum ávinningi 2–7% af landsframleiðslu. Mælifræði er því löngu orðin eðlilegur og nauðsynlegur hluti daglegs lífs.
    Í kjölfar þeirrar alþjóðavæðingar viðskipta, sem að framan er lýst, hefur þörf fyrir samstarf á sviði mælifræði og gagnkvæmar viðurkenningar farið vaxandi. Forsenda þess er að hér á landi séu virt grundvallaratriði alþjóðasamþykkta á sviði mælifræði, svo sem um mælitæki, mælingar o.fl. sem ætlað er að skapa traust í viðskiptum milli landa. Frumvarpi þessu er ætlað að mæta þessum þörfum.
    Frumvarpið er með nokkuð öðru sniði en gildandi lög um vog, mál og faggildingu. Helsta ástæða þess er að á vettvangi Evrópusambandsins hefur nýlega verið samþykkt tilskipun nr. 2004/22/EB, um mælitæki, og ber að innleiða ákvæði hennar í íslensk lög eigi síðar en 30. apríl 2006. Eitt meginmarkmið þeirrar tilskipunar er að afnema allar tæknilegar viðskiptahindranir á milli aðildarríkja á EES-svæðinu varðandi viðskipti með mælitæki. Það er gert með því að í reglum ESB eru skilgreindar þær grunnkröfur sem slík mælitæki þurfa að uppfylla. Það er svo á ábyrgð framleiðenda mælitækjanna að tryggja að þau mælitæki sem framleidd eru séu í samræmi við grunnkröfurnar. Til að tryggja samræmingu í eftirliti og samræmismati hefur ESB einnig sett ákvæði sem eiga að tryggja samræmdar kröfur að þessu leyti, sbr. ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu. CE-merkið og hið sérgreinda græna M-merki sem krafist er fyrir mælitæki sérstaklega eru því yfirlýsing framleiðanda um að mælitækið uppfylli grunnkröfur. Þær breytingar sem felast í framangreindri tilskipun ESB um framleiðslu og markaðssetningu mælitækja gera einnig kröfu til þess að aðildarríkjum á EES-svæðinu er gert skylt að taka upp markaðseftirlit með mælitækjum. Í því felst að eftirlitsstjórnvaldi á sviði mælifræði í hverju aðildarríki fyrir sig – en því hlutverki gegnir Neytendastofa á Íslandi – ber að hafa eftirlit hér landi með því að eingöngu séu markaðssett og seld mælitæki sem uppfylla þær grunnkröfur sem tilskipanir ESB kveða á um og jafnframt hafa verið innleiddar í íslenskan rétt í samræmi við ákvæði EES-samningsins.
    Við samningu þessa frumvarps var höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar 2004/22/EB. Í frumvarpinu er þar af leiðandi í fyrsta sinn fjallað um sölu og markaðssetningu mælitækja í III. kafla, sbr. ákvæði tilskipunarinnar, en ákvæði um þetta efni voru ekki í lögum nr. 100/1992.
    Í I. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildissvið, hlutverk og stjórnsýslu Neytendastofu og eru þau nákvæmari en sambærileg ákvæði í núgildandi lögum. Þá eru ýmsar skilgreiningar sem nú er að finna í frumvarpinu nýjar og nauðsynlegar m.a. vegna ákvæða Evrópuréttarins og væntanlegra reglugerða sem þarf að setja vegna ákvæða tilskipunarinnar á grundvelli þessa frumvarps.
    II. kafli fjallar um mælieiningar og mæligrunna og er hann að mörgu leyti sambærilegur gildandi ákvæðum í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, en ákvæði kaflans eru þó gerð fyllri en gert var við setningu núgildandi laga um sama efni.
    Í III. kafla eru sem fyrr segir ákvæði um sölu og markaðssetningu mælitækja sem byggjast á ákvæðum tilskipunarinnar og þeirri meginreglu hennar að ekki megi hindra viðskipti með mælitæki enda uppfylli þau grunnkröfur sem tilskipunin kveður á um.
    Í IV. kafla er fjallað um notkun mælitækja og auk þess staðfest sú meginregla sem nú er að finna í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að það er á ábyrgð eiganda mælitækis að þau mælitæki sem hann er að nota og eru eftirlitsskyld skuli færð til skoðunar eða reglubundinnar löggildingar. Auk þess er í frumvarpinu að finna nýmæli þar sem fjallað er um samræmismat með greinarbetri hætti en áður hefur verið gert í íslenskum lagareglum á sviði mælifræði. Það er m.a. nauðsynlegt vegna þess að í sífellt meira mæli er kveðið á um slíkar aðferðir í tilskipunum ESB og íslenskri löggjöf þar sem ákvæði Evrópuréttarins eru innleidd hér á landi.
    Í V. kafla er fjallað um niðurstöður mælinga og mikilvægi þess að viðskiptavinir sjái og geti lesið niðurstöður mælinga ef þeir eru viðstaddir vigtun. Í þessum kafla eru einnig ákvæði um merkingar sem skylt er að fara eftir ef framleiðendur forpakkaðrar vöru kjósa að notfæra sér þær aðferðir sem þar er kveðið á um. Þessar reglur gilda þegar neytendur eru ekki viðstaddir mælingu vörunnar.
    Í VI. kafla er fjallað um framkvæmd eftirlits. Ákvæði frumvarpsins eru ítarlegri en ákvæði gildandi laga sem m.a. er nauðsynlegt vegna þess að meiri reynsla hefur fengist af því að fela einkaaðilum á markaði framkvæmd eftirlits. Áfram er á því byggt að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlits í eins miklum mæli og unnt er.
    VII. kafli geymir ákvæði um löggilta vigtarmenn. Ákvæði hans hafa verið skýrð og gerð fyllri með tilliti til reynslu af framkvæmd laga nr. 100/1992.
    Í VIII. kafla eru ákvæði um faggilta kvörðunarþjónustu. Í núgildandi lögum, nr. 100/1992, er ekki að finna ákvæði um þetta efni en um langt árabil hefur Neytendastofa veitt þjónustu á þessu sviði.
    Ósennilegt er að einkafyrirtæki hasli sér völl á þessu sviði og veiti slíka þjónustu vegna smæðar markaðarins. Miðað við núverandi aðstæður á hinum íslenska markaði er eðlilegt að Neytendastofa hagnýti mæligrunna sína í þágu atvinnulífsins og veiti innlendum aðilum aðgang að mæligrunnum og kvörðunarþjónustu hér á landi. Hér er að sjálfsögðu miðað við að slíkur rekstur sé innan skynsamlegra hagkvæmnismarka og er æskilegt að Neytendastofa hafi ríkt samráð við aðila í atvinnulífi varðandi uppbyggingu á slíkri þjónustu hér á landi. Tilgangurinn er fyrst og fremst að mæta ákveðnum grunnþörfum atvinnulífsins. Eðlilegt er einnig að þeir sem notfæra sér kvörðunarþjónustu Neytendastofu og fá þar mælitæki sín kvörðuð greiði fyrir þá þjónustu sem veitt er. Neytendastofa skal því taka gjald fyrir þá þjónustu sem hún veitir samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Jafnframt er í frumvarpinu afmarkað með skýrum hætti hvaða kostnaðarliðir skulu vera grundvöllur fyrir gjaldskrá Neytendastofu vegna kvörðunarþjónustunnar.
    IX. kafli fjallar um eftirlitsgjald sem ætlað er að standa undir þeim stjórnsýslukostnaði sem fylgir framkvæmd ákvæða þessa frumvarps. Við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins hefur verið byggt á kostnaðargreiningu á því eftirliti sem nauðsynlegt er að starfrækja.
    X. kafli fjallar um fagráð atvinnulífsins og Neytendastofu en það er nýmæli. Það er staðreynd að málefni mælifræðinnar hafa verið lítt þekkt eða kynnt hér á landi. Alþjóðavæðing íslensks viðskiptalífs er þó orðin staðreynd og kröfur aukast sífellt varðandi gæði og eftirlit með framleiðslu fyrirtækja. Mikilvægt er því að tryggja samstarf milli Neytendastofu og ýmissa aðila í atvinnulífinu sem hafa verulega hagsmuni af því að þekkja og hagnýta sér mælifræði í starfsemi sinni og einnig er mikilvægt að hafa samstarf við fulltrúa neytenda. Fagráðið getur veitt mikilvæga leiðsögn og aðstoð varðandi nauðsynlega uppbyggingu á kvörðunarþjónustu sem það telur hagkvæmt að byggja upp hér á landi á hverjum tíma.
    XI. kafli frumvarpsins um viðurlög er nákvæmari en sambærileg ákvæði í núgildandi lögum, nr. 100/1992. Mælt er fyrir um víðtækar en jafnframt nauðsynlegar heimildir Neytendastofu til að gera kröfur um úrbætur, banna sölu framleiðsluvara og mælitækja og innkalla þau, afturkalla leyfi og viðurkenningar, leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir, þegar það á við. Sambærileg ákvæði eru einnig í lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Loks skal þess getið að í frumvarpi þessu eru ekki ákvæði um faggildingu eins og nú er að finna í 11.–13. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Um faggildingarstarfsemi vísast til frumvarps um faggildingu o.fl. sem lagt hefur verið fyrir Alþingi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Markmið þessa frumvarps er eins og segir í 1. mgr. að tryggt sé að hér á landi hafi mælifræðin þá umgjörð að hún njóti fullnægjandi trausts bæði á Íslandi og einnig alþjóðlega. Mælifræðikerfið er samsett úr fjölmörgum þáttum, svo sem réttri notkun á alþjóðlegum mælieiningum, það tryggir aðgengi að nauðsynlegum landsmæligrunnum fyrir þær mælieiningar sem íslenskt athafnalíf krefst á hverjum tíma þar sem rekjanleiki er tryggður á alþjóðlegan og viðurkenndan hátt. Lög og reglur sem á hverjum tíma gilda um mælingar og mælitæki eru einnig mikilvægur þáttur í mælifræðikerfinu.
    Í 2. mgr. segir að með frumvarpinu skuli stuðla að réttum og nákvæmum mælingum. Þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um hvort kröfur skuli gerðar til mælinga og mælitækja þarf að meta þjóðhagslega þýðingu þess að gerðar séu kröfur að þessu leyti. Í sumum tilvikum er þó ekki hægt að beita hagfræðilegum mælikvörðum þegar lög eða reglur gera kröfur varðandi mælingar og nákvæmni þeirra. Þetta á einkum við þegar reglur eru settar til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna, t.d. gagnvart mælingum sem geta verið grundvöllur refsinga, svo sem sekta eða jafnvel fangelsisdóma, eða þegar slíkar reglur eru settar til þess að vernda líf, heilsu og aðra sambærilega verndarhagsmuni sem erfitt er að leggja verðmat á.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um gildissvið laganna.
    Mælifræði er almennt greind í þrjú meginsvið, þ.e. vísindalega mælifræði, hagnýta mælifræði (einnig nefnd mælifræði iðnaðarins) og lögmælifræði. Gildissvið laga þessara tekur til ýmissa atriða á sviði mælifræði er varða tvö síðastnefndu svið hennar, þ.e. mælifræði iðnaðarins og lögmælifræði (e. industrial metrology og legal metrology).
    Hér á eftir er að finna nokkur atriði sem skýra nánar inntak og viðfangsefni mælifræði iðnaðarins annars vegar og lögmælifræðinnar hins vegar.
    Í iðnaði hefur hagnýt mælifræði mikil áhrif á vinnu og gæði framleiðslu. Fyrirtæki sem starfa við margs konar framleiðslu hafa brýna hagsmuni af því að geta sýnt fram á rekjanleika og nákvæmni þeirra mælinga sem notaðar eru í framleiðsluferli þeirra. Aukin áhersla á gæðastjórnun og sífellt vaxandi kröfur frá viðskiptaaðilum hafa á síðustu árum ýtt verulega undir þessa þróun. Þörf til þess að geta sýnt fram á rekjanleika mælinga er ekki einungis fyrir hendi hjá fyrirtækjunum heldur er sambærilega þörf einnig að finna hjá ýmsum opinberum aðilum sem reka rannsóknastofur eða sinna opinberu eftirliti.
    Annar meginþáttur í gildissviði frumvarpsins snýr að lögmælifræði. Lögmælifræði hefur að meginmarkmiði að framfylgja lögum og reglum settum samkvæmt þeim. Tilgangur laga og reglna sem eru mælifræðilegs eðlis er að tryggja réttmæta viðskiptahætti og vernda hinn almenna borgara gegn fölsun eða röngum mælingum í viðskiptum og setja almennar kröfur um öryggi neytenda, þ.m.t. réttaröryggi þeirra, svo og til verndar heilsu og umhverfi.
    Löggjafinn ákveður hvaða mælitæki skuli falla undir lagaskyldur um mælifræðilegt eftirlit. Þegar krafa er gerð að lögum um notkun slíkra mælitækja eru almenningi tryggðar mælingar sem eru ávallt réttar, óháð kunnáttu þess sem framkvæmir mælinguna hverju sinni á mælitækinu. Einnig á að vera unnt að treysta því að frávik fari aldrei út fyrir lögákveðin mörk á því tímabili sem löggilding tækisins er í gildi.
    Algengasta yfirlýsing framleiðenda um að mælitæki uppfylli allar kröfur er CE-merkið. Eftirlitsstjórnvöldum á sviði lögmælifræði, þ.e. Neytendastofu á Íslandi, er svo falið að hafa með höndum markaðseftirlit og grípa til aðgerða ef inn á markaðinn berast mælitæki sem ekki uppfylla kröfur laga og staðla um gerð og samræmi mælitækisins við grunnkröfur sem þar koma fram. Þessi aðferð kemur í veg fyrir að einstök ríki geti beitt tæknilegum viðskiptahindrunum og frjálst flæði á slíkum mælitækjum á EES-markaðinum er því tryggt með þessum hætti.
    Á grundvelli EES-samningsins hefur Ísland nú undirgengist skuldbindingar til þess að gera kröfur um CE-merkingar, samræmismat o.s.frv. á grundvelli ákvæða í tilskipunum ESB. Þetta nýja kerfi hefur því leyst af hólmi marga þá eftirlitsþætti sem Löggildingarstofa, nú Neytendastofa, hafði áður umsjón með. Samtímis hefur eftirlit þó ekki verið fellt niður heldur hefur það nú tekið ýmsum grundvallarbreytingum. Þessar breytingar sem hér hefur verið drepið á endurspeglast m.a. í ákvæðum þessa frumvarps.
    Eftirlit stjórnvalda tekur ekki aðeins til eftirlits með nýjum mælitækjum sem koma á markaðinn heldur er þeim einnig falið að hafa eftirlit með því að mælitæki sem eru í notkun haldi áfram að mæla rétt og réttar mælingar tækjanna séu staðfestar með svonefndri löggildingu. Almennt er það á ábyrgð eigenda mælitækja að tryggja að endurlöggilding fari fram og ekki séu notuð tæki þar sem löggilding er útrunnin. Á Íslandi hefur framkvæmd eftirlitsins verið falin einkareknum skoðunarstofum sem annast löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu.
    Af ákvæði 2. gr. er ljóst að gildissvið þessa frumvarps er rúmt og tekur það til allra aðstæðna sem hafa þýðingu fyrir mælingar og niðurstöður mælinga sem gerðar eru eða notaðar í íslenskri efnahagslögsögu. Jafnframt tekur frumvarp þetta til löggildingar vigtarmanna. Mælingar sem gerðar eru til „persónulegra nota“ falla þó utan gildissviðs frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í mælifræði og faggildingu eru notuð margvísleg sérfræðileg hugtök. Nauðsynlegt er að í frumvarpi þessu séu öll helstu hugtök á þessu sviði skilgreind. Skilgreiningarnar eru samhljóða skilgreiningum í skjölum alþjóðamælifræðistofnana þar sem þær eru til. Aðrar skilgreiningar eru í samræmi við viðurkennda notkun hliðstæðra hugtaka.
    Eftirfarandi athugasemdir eru til frekari skýringa á lagatextanum:
     Faggilding: Skilgreiningin styðst við ÍST EN ISO/IEC 17000: 2004.
    Faggilt kvörðunarþjónusta: Skilgreiningin er að mestu byggð á alþjóðlegri skilgreiningu en að nokkru leyti aðlöguð að notkun hugtaksins í þessu frumvarpi.
     Gerðarviðurkenning (e. type approval) er ákvörðun sem er réttarheimild og jafnframt vottun byggð á prófunarskýrslu.
     Löggilding mælitækis: Skilgreiningin er að nokkru leyti aðlöguð notkun þessa hugtaks í frumvarpinu.
     Löggilding vigtarmanns: Skilgreiningin er í samræmi við langa lagahefð um löggildingu vigtarmanna hér á landi.
     Samræmismat (e. conformity assessment): Skilgreining þessi er samhljóða sambærilegri skilgreiningu í frumvarpi til laga um faggildingu og styðst við ÍST EN ISO/IEC 17000: 2004.
     Skoðun (e. inspection): Skilgreiningin styðst við ÍST EN ISO/IEC 17000: 2004.
     Undireining (e. sub-assembly) er hér skilgreint með sama hætti og samsvarandi hugtak er þýtt í tilskipun 2004/22/EB, um mælitæki.
    Yfireftirlit: Hugtakið kemur einnig fram í öðrum lögum, t.d. lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Á undanförnum árum hefur faggiltum aðilum sem starfa í einkageiranum í sífellt meira mæli verið falin skoðun og nauðsynlegt eftirlit á ýmsum sviðum. Hins vegar er það í verkahring eftirlitsstjórnvaldsins að hafa yfireftirlit með þeim eftirlitsverkum sem unnin eru í umboði þess.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Neytendastofa heyrir undir viðskiptaráðherra sem jafnframt fer með yfirstjórn mála samkvæmt frumvarpinu. Neytendastofa annast dagleg störf og stjórnsýslu samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps í umboði ráðherra.
    Hlutverk Neytendastofu er einkum á sviði stjórnsýslu en í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar. Í a-lið segir að Neytendastofa annist töku stjórnvaldsákvarðana og kveði upp stjórnvaldsúrskurði á grundvelli ákvæða þessa frumvarps sem og sérlaga þar sem henni kann að vera falin framkvæmd og eftirlit. Skv. b-lið ákvæðisins skal Neytendastofa veita stjórnvöldum, og öðrum eftir því sem við getur átt, ráðgjöf um mælifræðileg málefni, veita umsagnir um mæligrunna og reglur stjórnvalda á sviði mælinga og lögmælifræði og stuðla að útbreiðslu þekkingar hér á landi á sviði mælifræði.
    Í c-lið kemur fram að eitt af meginhlutverkum Neytendastofu samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps er að vera stjórnvald á sviði mælifræði og gegna hlutverki sem mælifræðistofnun landsins og þar með að annast umsjón þeirra mæligrunna sem ákveðið er að hún skuli hafa umsjón með og nauðsynlegt er að séu tiltækir hér á landi vegna ákvæða laga eða þarfa atvinnulífsins og veita kvörðunarþjónustu, sbr. VIII. kafla. Af framangreindu leiðir að hjá stofnuninni er að finna sérhæft starfslið sem hefur sérþekkingu á mælifræðilegum málefnum sem mikilvægt er að önnur stjórnvöld, neytendur og atvinnulífið hafi greiðan aðgang að.
    Samkvæmt d-lið skal Neytendastofa einnig hafa yfireftirlit með framkvæmd mælifræðilegs eftirlits samkvæmt frumvarpinu og þeim reglum sem kunna að verða settar á grundvelli þess. Í því felst m.a. að annast samræmingu eftirlits og annast yfireftirlit með þeim eftirlitsverkefnum sem einkaaðilar framkvæma í umboði Neytendastofu. Á undanförnum árum hefur stefna stjórnvalda verið að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlitsverkefna í eins ríkum mæli og unnt er. Yfirleitt er þetta gert með því að krafist er faggildingar til þeirra eftirlitsstarfa sem þannig eru falin einkaaðilum en með faggildingu er tryggð hæfni þeirra einstaklinga eða fyrirtækja til þess að stunda þau eftirlitsstörf sem þeim eru falin hverju sinni. Neytendastofa hefur þannig frá árinu 1997 falið einkaaðila að annast löggildingar m.a. á vogum og bensíndælum í umboði hennar. Þrátt fyrir að einkaaðilum sé falin framkvæmdin þá hvílir ávallt á eftirlitsstjórnvaldinu sú skylda að annast yfireftirlit á því sviði sem þannig hefur verið framselt til einkaaðila, taka stjórnsýsluákvarðanir o.s.frv.
    Samkvæmt e-lið er það hlutverk Neytendastofu að annast löggildingu vigtarmanna eins og verið hefur, sbr. nánar um það í VII. kafla. Löggiltir vigtarmenn hafa um langt skeið gegnt þýðingarmiklu hlutverki ekki síst varðandi vigtun sjávarafla. Í þessu frumvarpi eru lagðar til miklar breytingar á þeim reglum sem gilda um löggildingu vigtarmanna, bæði til að gera störf þeirra sjálfstæðari og jafnframt er að finna ákvæði um fullgilt vottorð (25. gr.).
    Í f-lið er kveðið á um að Neytendastofa skuli vera í fyrirsvari fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi um mælifræðileg málefni. Mikilvægt hlutverk Neytendastofu er að tryggja að fullt traust sé til mælinga og mælitækja. Það verður ekki gert nema með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, t.d. í norrænu samstarfi, á vettvangi OIML (Alþjóða lögmælifræðistofnunin) og á vettvangi Evrópusambandsins.
    Loks ber Neytendastofu skv. g-lið að tryggja gott samstarf við alla þá aðila sem hér á landi fást við verkefni á sviði mælifræði. Mælifræðileg málefni eru um margt flókin en jafnframt mikilvæg fyrir samkeppnishæfni og réttaröryggi og því eðlilegt að kveðið sé á um það að stofnunin tryggi samstarf við þá sem þurfa á sérþekkingu hennar að halda þegar eftir því er leitað en einnig ekki síður t.d. með upplýsingaveitu um heimasíðu, fræðsluerindum, samstarfi við háskóla, o.s.frv.
    Af framansögðu er ljóst að hlutverk Neytendastofu á sviði mælifræði er margþætt. Frumvarp þetta skýrir betur en áður var gert það hlutverk.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að á Íslandi skuli notað alþjóðlega SI-einingakerfið eins og það er skilgreint af Almenna þinginu fyrir vog og mál (CGPM).
    Í 2. mgr. er tekið fram að viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða að notaðar séu mælieiningar sem eru utan alþjóðlega einingakerfisins. Til dæmis gæti það komið upp að á tilteknu sviði þyrfti að velja aðra mælieiningu en almennar reglur gera ráð fyrir. Hér er því gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að veita samþykki fyrir slíkri notkun á mælieiningum sem falla utan hins alþjóðlega kerfis.

Um 6. gr.

    Hér segir að Neytendastofa skuli halda mæligrunna. Hún er því í reynd mælifræðistofnun Íslands og m.a. ætlað að veita stjórnvöldum svo og öðrum sem til hennar leita ráðgjöf um mælifræðileg málefni.
    Í 1. mgr. er tekið fram að öll mælitæki sem notuð eru til lögboðinna mælinga og eftirlits og ákvörðunar stjórnvalda eða dómstóla á viðurlögum eða sá búnaður sem notaður er til löggildingar þessara mælitækja skuli kvarða með rekjanlegum kvörðunum af faggiltum aðilum.
    Í 2. mgr. segir að Neytendastofa skuli annast öflun og viðhald rekjanlegra mæligrunna vegna mælitækja skv. 1. mgr. en það geta verið mælingar sem varða réttaröryggi borgaranna og eru grundvöllur fyrir stjórnvaldssektum eða öðrum refsiviðurlögum sem dómstólar beita. Eigi hún ekki til slíka mæligrunna ber henni samkvæmt ákvæðinu að hafa milligöngu um að afla aðgangs að slíkum mæligrunnum hafi öðrum aðilum ekki verið falið það í sérlögum. Það getur hún t.d. gert með samningi við aðrar mælifræðistofnanir.
    Þessi málsgrein felur einnig í sér opnari heimild en áður var í lögum nr. 100/1992 um það hvert rekjanleikinn er sóttur en þar sagði í 4. gr.: „Landsmæligrunnarnir skulu vera grundvöllur allra annarra mæligrunna hér á landi og kvörðunarvottorða.“ Þessi heimild er eðlileg í dag þegar eitt viðurkennt mælifræðikerfi nær um allan heim. Þrátt fyrir það þarf eitt mælifræðistjórnvald að vera samræmingaraðili og fylgjast með að krafan um réttar og rekjanlegar mælingar sé uppfyllt við lögboðnar mælingar og eftirlit og gæta þannig hagsmuna borgaranna.
    Vegna lögboðins mælifræðilegs eftirlits eru til mæligrunnar fyrir eftirtalin fagsvið mælifræðinnar:
     a.      massa og tengdar stærðir;
     b.      rafmagn;
     c.      lengd;
     d.      tíma og tíðni;
     e.      rennsli og rúmmál.
    Auk þess er til mæligrunnur fyrir hitamælingar. Lögboðið eftirlit er einnig til með jónandi geislum, sbr. sérlög um Geislavarnir ríkisins en varðveisla og umsjón þess mæligrunnar er hjá því sérstjórnvaldi enda getur verið eðlilegt og hagkvæmt að fela öðrum sérstjórnvöldum umsjón og viðhald mæligrunna á slíkum sérsviðum. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir slíku.
    Stjórnvaldið verður ávallt að huga sérstaklega að því þegar ákvörðun er tekin um öflun og viðhald mæligrunna hvort nauðsynlegt og framkvæmanlegt er fyrir lítið ríki sem Ísland að hafa þá aðgengilega hér á landi.
    Neytendastofa sem gegnir hlutverki mælifræðistofnunar, sbr. 4. gr. frumvarpsins, mun því í reynd halda áfram að eiga og varðveita flesta þá mæligrunna sem hér er vísað til og stofnunin hefur eignast á undanförnum árum. Miklar kröfur eru gerðar til húsnæðis fyrir mælifræði og því er hagkvæmt að vista sem flesta grunna á einum stað en þannig fæst einnig ákveðin hagræðing við notkun þeirra.
    Samkvæmt 3. mgr. er Neytendastofu jafnframt heimilt að eiga og viðhalda öðrum rekjanlegum mæligrunnum en þeim sem beinlínis eru nauðsynlegir vegna lögboðins eftirlits, sbr. 1. og 2. mgr., enda sé um að ræða mæligrunna sem teljast mikilvægir til þess að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir faggilta kvörðunarþjónustu, sbr. 2. mgr. 29. gr.
    Vakin skal athygli á að atvinnulífinu er frjálst að eiga slík viðskipti þar sem það er hagkvæmast.

Um 7. gr.

    Í þessari grein segir að Neytendastofa ákveði með hliðsjón af gildandi lögum á hverjum tíma, að fenginni umsögn fagráðs, sbr. 35. gr., og í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti fyrir hvaða mælifræðisvið stofnunin telur rétt að halda rekjanlega mæligrunna hér á landi. Í þessu sambandi mun Neytendastofa að sjálfsögðu taka mið af þeim lögum sem gilda hér á landi hverju sinni og gera kröfu til þess að mælitæki séu löggilt eða á annan hátt tryggt að hafi vottorð um rekjanleika til viðhlítandi mæligrunna lögum samkvæmt. Jafnframt getur Neytendastofa mælt með því að gerðir verði samningar við erlend ríki sem geti tryggt rekjanleika.
    Neytendastofa birtir upplýsingar um hvar rekjanlegir mæligrunnar eru vistaðir en mögulegt er að það verði víðar en hjá Neytendastofu. Þannig geta þeir sem óska kvörðunarþjónustu séð á aðgengilegan hátt hvort hana er að finna hér á landi.

Um 8. gr.

    Ákvæði greinarinnar er almennt ákvæði um kröfur um sölu og markaðssetningu mælitækja. Tekur ákvæðið til allra mælitækja sem seld eru og markaðssett hér á landi óháð því hvort nánari kröfur eru gerðar til þeirra. Ákvæðið tekur bæði til sölu nýrra og notaðra mælitækja og á við þegar tæki eru tekin til fyrstu notkunar hér á landi.
    Í 1. mgr. er að finna ákvæði um viðskipti kaupanda og seljanda mælitækis sem fer í öllum meginatriðum eftir ákvæðum kauparéttarins, sbr. lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Þegar um er að ræða mælitæki nægir hins vegar ekki alltaf að sala og markaðssetning á mælitæki uppfylli eingöngu reglur kauparéttarins um hvaða eiginleika kaupandi má ætla að mælitækið hafi. Hér verður einnig að hafa í huga að eiginleikar mælitækisins skipta máli ef það á að skapa fullnægjandi traust til mælinga og mælitækja almennt eins og að er stefnt með ákvæðum þessa frumvarps, sbr. 1. gr., og reglna settra samkvæmt þeim. Á sviði Evrópuréttarins er einnig að finna ítarlegar reglur sem varða sölu og markaðssetningu mælitækja sem jafnframt verður að horfa til eftir því sem við getur átt, sbr. ákvæði í tilskipun 2004/22/EB svo og reglna, laga eða reglugerða sem settar eru með stoð í ákvæðum þeirrar tilskipunar, sbr. einnig tilskipun nr. 384/1990/EBE, um ósjálfvirkar vogir, og loks hina eldri mælitækjatilskipun, nr. 71/316/EBE, og sértilskipanir um mælitæki og forpakkaða vöru sem af henni eru leiddar.
    Reynist mælitæki ekki uppfylla þær kröfur sem kaupandi með réttu mátti ætla að notkun þess taki til og þann mælifræðilega tilgang sem það er keypt til telst tækið gallað í skilningi þessarar greinar svo og í almennum skilningi kauparéttarins og ákvæða laga um lausafjárkaup.
    Meginreglan er sú að ekki er talið að mælitæki þurfi að uppfylla ítarlegri kröfur nema að slíkar kröfur komi fram og liggi fyrir í reglugerðum og öðrum reglum stjórnvalda. Það er því á verk- og valdsviði stjórnvalda hverju sinni að ákveða hvort og hvenær rétt er að gera nánari og ítarlegri kröfur til mælitækja og er ákveðið með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Algengast er þó að slíkar reglur séu settar vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland er aðili að. Í reynd fer þetta mat því yfirleitt fram í samstarfi þjóða á alþjóðavettvangi, t.d. á vettvangi ESB eða OIML. Tilskipunin um mælitæki nr. 2004/22/EB er valfrjáls í þeim skilningi að hún er heildarsamræmd en þó er hverju aðildarríki heimilt að ákveða hvort setja eigi reglur um einhver þeirra tækja sem falla undir þá tilskipun. Vilji ráðherra setja reglur um viðkomandi mælitækjaflokk skal innleiða reglurnar sem eru í viðkomandi viðauka um slík mælitæki en sé ekki mælt fyrir um slíkar reglur skal tilkynna ESA ástæður þess.
    Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til þess þegar mælitæki er tekið til fyrstu notkunar hér landi án þess að það hafi átt sér stað eiginleg markaðssetning á tækinu, t.d. þegar tækið er keypt beint frá framleiðanda og sett upp á notkunarstað. Það er í samræmi við ákvæði í 6. gr. tilskipunar 2004/22/EB.
    Við nánari afmörkun og ákvörðun hverju sinni um hvort setja skuli nánari kröfur í reglugerð á grundvelli þessarar greinar verður einnig að líta til gildissviðs þessa frumvarps eins og það er nánar afmarkað í 2. gr.
    Nauðsynlegt er að árétta að nú þegar eru í gildi ýmiss konar reglur um gerð og markaðssetningu mælitækja. Rétt þykir því að gefa hér stutt yfirlit um gildandi reglur á þessu sviði.
    Þær reglugerðir er nú gilda hér á landi á grundvelli laga nr. 100/1992 eru eftirfarandi:
             Reglugerð nr. 139/1994, um rennslismæla fyrir kalt vatn.
    Reglugerð nr. 615/2000, um heitavatnsmæla.
    Reglugerð nr. 138/1994, um raforkumæla.
             Reglugerð nr. 612/2000, um breyting á reglugerð nr. 138 frá 28. febrúar 1994 um raforkumæla.
    Reglugerð nr. 140/1994, um rennslismæla fyrir vökva aðra en vatn.
    Reglugerð nr. 141/1994, um viðbótarbúnað með rennslismælum fyrir vökva aðra en vatn.
             Reglugerð nr. 142/1994, um mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn, sbr. reglugerð nr. 198/ 2003 um breytingu á reglugerð nr. 142/1994 um mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn.
    Reglugerð nr. 781/2002, um sjálfvirkar vogir.
    Reglugerð nr. 135/1994, um lengdarmælingar.
    Reglugerð nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit.
             Reglugerð nr. 130/1994, um gildistöku tiltekinna tilskipana Evrópubandalagsins um mælitæki.
    Reglugerð nr. 136/1994 um lóð frá 1 mg–50 kg í hærri nákvæmnisflokkum.
             Reglugerð nr. 137/1994 um 5–50 kg rétthyrningslaga lóð og 1–10 kg sívöl lóð í millinákvæmnisflokki.
    Reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir.
    Þegar kemur að nánari innleiðingu á hinni nýju tilskipun ESB nr. 2004/22/EB, um mælitæki, 1. nóvember 2006 er þess að vænta að nær allar framangreindar reglugerðir verði numdar úr gildi. Það á þó ekki við um reglugerð nr. 129/1994, um mælitæki og aðferðir við mælifræðilegt eftirlit, og reglugerð nr. 130/1994, um gildistöku tilskipana Evrópubandalagsins um mælitæki. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar og viðauka við hana verður þó áfram gerðar kröfur til mælitækja sem þar eru talin upp en um er að ræða að mestu leyti þau sömu mælitæki sem kveðið er á um í framangreindum reglugerðum. Til viðbótar er þó þar einnig að finna ákvæði er varða grunnkröfur og eftirlit til mælitækja í leigubifreiðum og munu þau tæki því væntanlega bætast við þegar innlend reglugerð verður sett sem miðar að því að setja í íslenskan rétt ákvæði framangreindrar tilskipunar ESB.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ábyrgðin á því að mælitæki sem hér á landi eru markaðssett uppfylli ákvæði laga hvílir á framleiðendum, seljendum og dreifingaraðilum. Skilgreining á framangreindum hugtökum er að finna í tilskipunum ESB svo og ýmsum lögum sem innleiða slíkar tilskipanir hér á landi. Í reynd tekur framleiðandi á sig ábyrgð á því að vörur sem hann framleiðir uppfylli grunnkröfur laga og reglna settra samkvæmt þeim. CE-merking hans er jafnframt staðfesting og yfirlýsing um að mælitækið uppfylli allar grunnkröfur tilskipana og reglna settra samkvæmt þeim. Kaupendur geta þó ávallt beint kröfum sínum til seljanda eða dreifingaraðila sem verður þá að gæta hagsmuna sinna gagnvart framleiðanda í samræmi við almennar reglur einkamálaréttarins.

Um 9. gr.

    Í gildandi lög, nr. 100/1992, skortir ákvæði sem kveða beinlínis á um heimildir stjórnvaldsins til að gera kröfu um merkingar mælitækja. Samkvæmt eldri löggjöf var ávallt við það miðað að þau tæki sem máli skiptu og féllu undir eftirlitssvið stjórnvalda skyldu hvert og eitt vera löggilt eða samþykkt fyrir fram af stjórnvaldinu til fyrstu notkunar.
    Eitt af lykilatriðum í myndun sameiginlegs innri markaðar í Evrópu var að afnema allar tæknilegar hindranir í viðskiptum á milli ríkja sem aðild eiga að þessum markaði. Í framkvæmd þýðir það að í stórauknum mæli taka framleiðendur vöru, þ.m.t. mælitækja, að sér að framleiða tæki sem uppfylla allar grunnkröfur tilskipana um mælitæki. Því til staðfestingar setja þeir á vöruna CE-merki og sérstakt grænt M-merki ef um mælitæki er að ræða. Með hliðsjón af framangreindri þróun er nú nauðsynlegt að skýr ákvæði séu í löggjöf um eftirlit með mælitækjum um merkingar. Í þessari grein er því veitt almenn heimild til að setja nánari reglur um merkingu mælitækja. Slíkt ákvæði er m.a. nauðsynlegt til þess að unnt sé að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt ákvæðum í EES-samningnum.
    Merkingar geta einnig haft áhrif á að skapa fullnægjandi traust til mælitækja. Til dæmis gæti verið raunhæft að gera kröfu um að mælitæki sem ekki má nota til ákveðinna mælinga eigi að merkja sérstaklega. Auk þess verður að huga að því hvort ástæða þykir til þess að setja reglur er sýni á skýran hátt að mælitæki sem ekki hafa enn fengið fyrstu löggildingu séu merkt á viðhlítandi hátt þannig að ljóst sé að þau uppfylli allar kröfur sem gerðar eru að þessu leyti samkvæmt kröfum tilskipana, laga og reglna settra samkvæmt þeim. Það er því mikilvægt að ákvæði um merkingar feli í sér almenna heimild til að setja reglur um merkingar mælitækja eins og hér er lagt til.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er að finna reglur um samræmismat (e. conformity assessment), sbr. skilgreiningu í 3. gr. frumvarpsins. Skal ráðherra samkvæmt ákvæðinu setja nánari reglur um samræmismat mælitækja og prófanir til að sýna fram á að kröfur skv. 1. mgr. 8. gr. séu uppfylltar. Það getur farið eftir gerð mælitækis hvaða aðferðum er unnt að beita við samræmismatið hverju sinni. Mismunandi aðferðir geta því gilt um mismunandi tegundir tækja. Í ýmsum tilvikum er yfirlýsing framleiðanda mælitækis fullnægjandi. Í öðrum tilvikum getur verið að reglur geri það að skyldu að þetta mat sé framkvæmt af óháðum þriðja aðila, t.d. með tæknilegu eftirliti eða gerðarviðurkenningu um að mælitækið uppfylli allar grunnkröfur þeirrar tilskipunar sem það fellur undir svo og laga og reglna sem innleiða slík ákvæði í rétt aðildarríkja á EES-svæðinu og megi því taka tækið til fyrstu notkunar og setja á hinn sameiginlega innri markað í Evrópu. Nánari ákvæði um samræmismat og hvernig það skuli fara fram er að finna í tilskipunum ESB. Samkvæmt slíkum ákvæðum er ætlast til þess að beitt sé einni eða fleiri af þeim aðferðareiningum sem er lýst í ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE, um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins, og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu. Neytendastofa, og önnur stjórnvöld ef það á við, mun því hafa að öllu leyti hliðsjón af ákvæðum í tilskipunum að þessu leyti þegar nánari reglur verða settar á grundvelli þessa ákvæðis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að samræmismati skuli lokið og það sannanlega skrásett áður en mælitæki er boðið til sölu, eða það tekið í fyrstu notkun.
    Í 3. mgr. er að finna undanþáguákvæði sem nauðsynlegt er að setja vegna undanþáguákvæðis um sama efni í 8. gr. (5) í tilskipun ESB nr. 2004/22/EB, um mælitæki. Neytendastofa getur þá sett skilyrði fyrir undanþágunni, svo sem að auðkenna beri tækið sérstaklega til þess að ekki sé hætta á að það fari í notkun án samræmismats, enda ber það þá hvorki CE- merkið né M-táknið sem mælitæki eiga að hafa þegar þau fara í notkun.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um gildistíma og niðurfellingu samræmismats fyrir mælitæki. Í tilskipunum ESB er ekki alltaf mælt fyrir með almennum hætti hversu lengi samræmismat skuli gilda. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að Neytendastofa eins og önnur sambærileg stjórnvöld á EES-svæðinu hafi heimild til að takmarka gildistíma vottorða þegar aðstæður krefjast þess. Vottorð um samræmismat eru gefin út af framleiðanda og tilkynntum aðila þegar aðferðareiningar (e. modules) fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins mæla svo fyrir um, sbr. ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE. Þegar framleiðandi gefur út slíkt vottorð nefnist það samræmisyfirlýsing en annars eru þessi vottorð nefnd EB-gerðarprófunarvottorð. Framangreind vottorð eru gefin út og byggjast á ákvæðum í ákvörðun ráðsins nr. 93/465/EBE, svo og á ákvæðum í tilskipun 2004/22/EB, um mælitæki, og viðaukum hennar svo og sértilskipunum sem gilda um ýmsar gerðir mælitækja, þegar það á við. Í framangreindum EB- gerðum er kveðið á um birtingarhátt eða öllu heldur gagnkvæma upplýsingagjöf um útgáfu vottorða um gerðarviðurkenningu. Vottorð um samræmismat fylgja hins vegar sérhverju mælitæki og er það á ábyrgð söluaðila og eiganda að geta sýnt eftirlitsstjórnvaldi vottorð um samræmismat fyrir hlutaðeigandi tæki.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að samræmismat geti fallið úr gildi áður en gildistími þess rennur út. Samræmismat getur þannig fallið úr gildi þegar ljóst er að þær kröfur sem gerðar voru til tækisins og samræmismatið er byggt á eru ekki uppfylltar eða þeim er áfátt. Neytendastofa getur einnig birt viðvaranir og tilkynningar um þessi efni á heimasíðu sinni. Jafnvel gæti verið nóg að senda ákveðnum markhópi slíka tilkynningu ef það er mat stjórnvaldsins að það sé fullnægjandi, t.d til framleiðanda eða dreifingaraðila, o.s.frv.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að þegar samræmismat hefur verið fellt úr gildi skv. 1. mgr. sé óheimilt að bjóða viðkomandi mælitæki til sölu eða selja það hér á landi að liðnum hæfilegum fresti. Í þeim tilvikum þar sem áframhaldandi sala á viðkomandi mælitækjum er talin geta haft víðtæk samfélagsleg áhrif getur viðskiptaráðuneytið að fenginni tillögu Neytendastofu ákveðið að samræmismatið skuli þegar falla úr gildi.

Um 12. gr.

    Í greininni er kveðið á um mælitæki í notkun og segir þar að eigandi mælitækis, eða ábyrgðaraðili ef það á við, beri ábyrgð á að mælitæki í notkun uppfylli ávallt þær reglur sem kveðið er á um í lögum og reglum settum samkvæmt þeim og sé einnig ábyrgur fyrir greiðslu eftirlitsgjalds skv. ákvæði IX. kafla um eftirlitsgjald.
    Meginregla samkvæmt framansögðu er að ábyrgð er hjá eiganda mælitækis en ýmis atvik eða aðstæður geta leitt til þess að í einstökum tilvikum hafi annar aðili í reynd tekið á sig framangreinda ábyrgð á mælitækinu. Þannig getur t.d. verslunarstjóri borið ábyrgð samkvæmt gæðareglum stórverslunar á því að hafa umsjón með endurlöggildingum á mælitækjum hennar. Auk þess getur mælitækið hafa verið keypt á rekstrarleigu eða með fjármögnunarsamningi. Í þeim tilvikum er það í reynd ekki fjármögnunarfyrirtækið sem kann að vera formlegur eigandi tækisins sem ber ábyrgð á því að endurlöggilding fari fram heldur leigutakinn sem jafnframt er rekstraraðili mælitækisins. Ákvæði greinarinnar miðar þannig að því að gera alveg skýrt hvaða aðilar bera ábyrgð á því að mælitæki í notkun uppfylli ávallt þær reglur sem lög og reglugerðir gera kröfu um á hverjum tíma.

Um 13. gr.

    Í III. kafla er að finna ákvæði um gerð mælitækja sem sett eru á markað . Til viðbótar við slík ákvæði getur verið nauðsynlegt að setja ýmiss konar nánari og ítarlegri kröfur um notkun mælitækja með sama hætti og gert er samkvæmt gildandi lögum til mælitækja og mælinga, einkum af tilliti til þeirra sem hafa hagsmuni af mælingum hverju sinni.
    Samkvæmt 1. mgr. getur ráðherra kveðið á um það í reglugerð að ákveðin mælitæki skuli við notkun uppfylla ítarlegri kröfur en almennt eru gerðar til mælitækja. Þá er Neytendastofu falið að setja reglur um þær kröfur sem gilda skulu fyrir slík mælitæki. Meginkrafa lögmælifræðinnar til mælitækja í notkun varðar jafnan mestu leyfilegu frávik frá réttu gildi og í tilskipunum um mælitæki eru þessar kröfur settar fram. Neytendastofa getur einnig sett reglur um notkunarsvið mælitækja, auk þess sem stofnunin getur kveðið á um hvaða kröfur skuli gerðar til notkunar, uppsetningar, viðhalds og umhverfis mælitækja og annars sem getur haft áhrif á niðurstöður mælinga.
    Í 5. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, er að finna lagaheimild varðandi hvaða mælitæki skuli vera eftirlitsskyld hér á landi. Á grundvelli greinarinnar hafa verið gefnar út eftirtaldar reglugerðir um löggildingar mælitækja:
     1.      Reglugerð nr. 604/2000, um löggildingu heitavatnsmæla.
     2.      Reglugerð nr. 329/2004, um löggildingu raforkumæla.
     3.      Reglugerð nr. 355/1997, um löggildingu rennslismæla fyrir vökva aðra en vatn.
     4.      Reglugerð nr. 794/2002, um löggildingu sjálfvirkra voga.
     5.      Reglugerð nr. 793/2002, um löggildingu ósjálfvirkra voga.
     6.      Reglugerð nr. 608/2000, um vínmál og löggildingu þeirra.
    Framangreind lagaheimild er allvíðtæk og í reynd hefur ákvæðið aðeins gilt um þau mælitæki þar sem nánari reglur hafa verið ákveðnar í reglugerð, sbr. framangreinda upptalningu.
    Á grundvelli þessarar greinar frumvarpsins er stjórnvaldinu ætlað að setja nánari reglur um mælitæki í notkun eins og hingað til hefur tíðkast. Til að tryggja nauðsynlegt traust til niðurstöðu mælinga getur Neytendastofa sett nánari almennari reglur eða sérstök fyrirmæli um kröfur til eiginleika mælitækja í notkun.
    Það getur stundum verið rétt að gerðar séu kröfur t.d. um uppsetningu og viðhald, notkun, aðstæður og framsetningu á niðurstöðu mælingar.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er að finna heimild til að setja reglur um nákvæmnisflokka mælitækja en þá er haft í huga að mælingar eru miskrefjandi fyrir mælitæki, svo sem vigtun á gulli. Þessi heimild er ekki samræmd innan ESB samkvæmt nýrri tilskipun um mælitæki.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að eftirlitsskyld mælitæki önnur en þau sem getið er um í 1. mgr. skuli eigi að síður uppfylla þær sérstöku kröfur sem gerðar eru til mælitækis sem er á sama stað, ef unnt er að nota mælitækin í sama tilgangi. Á þetta ákvæði getur reynt ef í sama húsrými eru tvö tæki sem nota á í mismunandi tilgangi. Til dæmis getur verið gerð krafa um að nota CE-merkta vog í nákvæmnisflokki III til að vigta fólk í heilsugæslu. Í sama húsrými er svo önnur vog sem ekki er ætluð til að nota við vigtun fólks heldur t.d. aðföng. Þá verður síðarnefnda vogin að uppfylla a.m.k. almennar kröfur til voga samkvæmt hlutaðeigandi reglugerð. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að farið sé á svig við gildandi reglur og reynt sé að villa um fyrir lögbundnu eftirliti með tækjunum eða á annan hátt að skapa vantraust til mælinga sem gerðar eru hjá hlutaðeigandi aðila og umráðamanni mælitækisins.
    Loks er kveðið á um það í 3. mgr. að Neytendastofa skuli birta á aðgengilegan hátt og uppfæra reglulega nánari upplýsingar um hvaða mælitæki eru eftirlitsskyld samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi. Það er í raun eðlileg krafa um upplýsingaskyldu stjórnvaldsins enda ekki gert ráð fyrir því eins og segir framar í athugasemdum við þessa grein að slíka upptalningu sé að finna í þessu ákvæði frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Hér er kveðið á um staðfestingu á að mælitæki uppfylli skilyrði laga og reglna og eru til þess þrjár aðferðir fyrir mælitæki og sérstakt ákvæði fyrir forpakkaða vöru. Meginreglan varðandi eftirlit með mælitækjum í notkun er að eigandi mælitækis sér um að það vinni rétt og uppfylli reglur og hann kaupir þjónustu frá viðhalds- og þjónustuaðilum sem og þeim sem hafa rétt til þess að staðfesta slíkt fyrir hönd stjórnvalda. Stjórnvaldið getur síðan komið hvenær sem er til þess að ganga úr skugga um að farið hafi verið að reglunum.
    Löggilding er upphaflega stjórnvaldsviðurkenning á mælitækinu. Þessi viðurkenning hefur yfirleitt haft takmarkaðan gildistíma og reglur yfirleitt mælt fyrir um að endurnýjun á viðurkenningunni skuli fara fram með reglubundnum hætti. Þessi aðgerð hefur verið nefnd endurlöggilding mælitækis. Þegar gert er við tæki er einnig skylt samkvæmt gildandi reglum að láta endurskoða mælitækið þar sem að löggildingin gildir ekki lengur þó að tímabil hennar sé ekki útrunnið. Á undanförnum árum hefur löggilding verið að víkja fyrir öðrum og nýrri aðferðum sem eiga að tryggja að allar kröfur tilskipana séu uppfylltar þannig að heimilt sé að bjóða mælitækið til sölu, markaðssetja það eða taka til fyrstu notkunar án þess að stjórnvöld þurfi að veita viðurkenningu eða löggildingu á sérhverju mælitæki. Þrátt fyrir þetta eru yfirleitt gerðar kröfur um að slík mælitæki haldi áfram að mæla rétt. Þess vegna er að finna í löggjöf flestra ríkja reglur sem mæla fyrir um að slíkt eftirlit sé haft með mælitækjum í notkun þar sem stjórnvöld telja ástæðu til að láta sérstakar kröfur gilda um mælitæki.
    Í 1. mgr. er kveðið á um þá aðferð við staðfestingu sem nær einvörðungu hefur verið notuð fram að þessu. Þetta er hin hefðbundna löggilding á hverju einstöku mælitæki. Til þess að eigendur geti vitað hvort mælitæki er löggildingarskylt er kveðið á um að listi yfir slíka flokka mælitækja verði birtur á aðgengilegan hátt a.m.k. á heimasíðu Neytendastofu.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að gæðakerfi eða önnur tilhögun innra eftirlits verði tekið gilt í stað löggildingar. Til þess þarf þó samþykki Neytendastofu enda má telja eðlilegt að umsækjandi leggi fram gögn um með hvaða hætti innra eftirlit fari fram, hvernig tækin verði merkt, hve oft verði fylgst með þeim o.fl. Þetta er gert til þess að koma til móts við aðila sem lagt hafa metnað og vinnu í að setja upp gæðakerfi sem oftar en ekki nær einnig til mælitækjanna og það væri því vantraust og sóun á verðmætum að krefjast löggildingar að auki.
    Í 3. mgr. er heimild til þess að setja reglugerð um notkun úrtaks við eftirlit með safni mælitækja. Þetta er einkum notað við veitumæla sem eru rennslismælar fyrir heitt og kalt vatn og raforkumælar. Væntanlega bætast varmaorkumælar í þennan hóp. Neytendastofa hefur þegar gert reglur um löggildingu og framlengingu á útivist mæla á grundvelli úrtaksprófana í samráði við Samorku og sparar það fyrirkomulag mikið fé. Þessar reglur skulu byggjast á stöðlum um úrtaksskoðanir og alþjóðlega viðurkenndum reglum um hvernig stöðlunum skuli beitt. Ekki hafa enn verið settar samhæfðar reglur um slíkar úrtaksskoðanir innan ESB en finna má góðar fyrirmyndir hjá nokkrum aðildarríkjanna og vinnuhópar samtaka um lögmælifræði eins og OIML eru að vinna að slíkum reglum.
    Í 4. mgr. er ákvæði um eftirlit með magni í forpakkningum á markaði. Það fer fram með sýnatöku, mælingum og tölfræðilegri úrvinnslu og er það í samræmi við tilskipanir ESB um sama efni sem þegar hafa verið innleiddar hér á landi með reglugerðum nr. 131/1994 og 133/1994.
    Í 5. mgr. er ákvæði um eftirlit með pökkunaraðilum sem einnig er í samræmi við tilskipanir ESB um sama efni en þar er þess einnig krafist að löggilt mælitæki séu notuð við pökkun eða gæðatryggingu hennar en sú gæðatrygging lýtur tölfræðilegum lögmálum.
    Í 6. mgr. er heimild fyrir ráðherra til þess að setja reglugerðir um framkvæmd þessara ólíku aðferða við eftirlit með mælitækjum og forpakkaðri vöru. Slíkar reglugerðir eru ekki byggðar á tilskipunum og eru ekki samhæfðar innan EES því að tilskipanir ná yfirleitt aðeins fram til þess tíma þegar vara er markaðssett en ná ekki til notkunar mælitækja.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um tilgreiningu á niðurstöðum mælinga og magn forpakkaðrar vöru. Áður en vikið er að sérstökum athugasemdum um efni 15. og 16. gr. þykir rétt að gefa örstutt yfirlit yfir hvaða reglur gilda um þetta efni og helstu ástæður þess að löggjafinn hefur sett reglur m.a. um tilgreiningu á niðurstöðum mælinga.
    Gildandi réttur.
    Í tengslum við EES-samninginn hafa verið felldar inn í íslenskan rétt þrjár ESB-tilskipanir um forpakkaðar vörur. Þær hafa verið innleiddar í íslenska rétt á grundvelli þeirra lagaheimilda sem nú er að finna í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, sbr. reglugerð nr. 131/1994, um tilgreint rúmmál tiltekins forpakkaðs vökva, reglugerð nr. 132/1994, um tilgreint magn og rými sem leyfilegt er fyrir forpakkaðar vörur, og reglugerð nr. 133/1994, um tilgreinda vigt eða rúmmál forpakkaðrar vöru, en síðastnefnda reglugerðin kveður meðal annarra atriða á um svonefndar e-merkingar á forpökkuðum vörum.
    Í reglugerð nr. 133/1994 er að finna ákvæði um hversu mikið frávik megi vera frá þeirri þyngd sem tilgreind er á pakkningunni og þeirri raunverulegu þyngd sem mælist að innihald hennar hafi svo að leyfilegt sé að merkja pakkninguna með litla bókstafnum e en þetta merki er eins konar stimpill (viðurkenning) stjórnvalda sem á að sanna og sýna hvert sé þyngdarinnihaldið í pakkningunni. Framleiðandi eða sá sem pakkar vörum ákveður sjálfur hvort hann vilji notfæra sér þessa aðferð og setja e-merki á pakkningarnar.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. er ákvæði sem er sambærilegt við ákvæði í 7. gr. gildandi laga, nr. 100/1992. Það er almenn og réttlát krafa að viðskiptamenn sem eru viðstaddir mælingu, t.d. við búðarkassa o.s.frv., geti greinilega séð þegar mæling fer fram og jafnframt lesið á auðveldan hátt mæliniðurstöðuna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um aðgang að gögnum vegna sjálfvirkra mælinga. Þessar aðstæður eru fyrir hendi í síauknum mæli vegna tækni- og tölvuvæðingar nútímasamfélags. Sjálfvirkar mælingar eru þá notaðar til þess að auka öryggi og spara launakostnað. Hér getur verið um að ræða vog fyrir ökutæki, fjarálestur af raforkumælum í heimahúsi, mæling skrefatalningar á símanotkun eða mæling á niðurhali gagna af netinu sem greitt er fyrir eftir magni svo að dæmi séu tekin. Í þessum tilvikum er neytandinn ekki vitni að mælingunni og þarf að geta fengið aðgang að gögnum um mælinguna og hið sama á við um eftirlitsaðilann.

Um 16. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimildir ráðherra til að setja nánari reglur um leyfilegt frávik, rétt og skyldur pökkunaraðila, magnstærðir og tilgreiningu á magni forpakkaðrar vöru sem leyfilegt er að selja.
    Æskilegt er að Neytendastofa kynni vel fyrir aðilum í atvinnulífinu, ekki síst íslenskum iðnfyrirtækjum sem forpakka vörum, hversu mikið hagræði kann að vera í því fólgið að fyrirtæki notfæri sér heimild til forpakkningar á vörum með tilheyrandi e-merkingu. Það getur stuðlað að betri nýtingu á framleiðsluvörunum og aukið framlegð hjá fyrirtækjum sem ekki notfæra sér slíka tækni og eru e.t.v. að yfirpakka í forpakkningar sínar til þess að tryggja sig gagnvart hugsanlegum skaðabótakröfum frá viðskiptavinum sínum.
    Í 1. mgr. er að finna heimild til að setja reglur um mesta leyfilega frávik þegar vara er seld eftir magni. Þetta er heimild fyrir innleiðingu tilskipana um forpakkaðar vörur en þær leyfa e-merkingu á pakkningum sem halda sig innan við tilgreind vikmörk frá meðalgildi sem er jafnt því magni sem á vöruna er prentað.
    Í 2. mgr. er heimild til að setja reglur um rétt og skyldur þeirra sem pakka slíkri vöru. Þessir pökkunaraðilar munu þurfa að sækja um viðurkenningu á pökkunarkerfi sínu til Neytendastofu og einnig vera háðir reglubundnu eftirliti, sbr. 5. mgr. 14. gr. Pökkunaraðilar sem ætla að e-merkja forpakkaðar vörur í samræmi við gildandi reglugerðir skulu sækja um leyfi til Neytendastofu. Neytendastofa annast árlegt eftirlit með pökkunaraðferðum og kannar jafnframt forpakkaða vöru á markaði. Loks er í málsgreininni heimilt að leyfa aðeins sérstakar magnstærðir en mikilvægi slíks ákvæðis hefur minnkað eftir að í öðrum lögum hefur verið gert skylt að merkja vörur með einingaverði.

Um 17. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að fela framkvæmd þessa eftirlits öðrum aðilum, t.d. einkaaðilum sem teljast hæfir til að annast slíkt eftirlit.
    Löggildingareftirlit hefur á seinni árum í auknum mæli snúist um að hafa eftirlit með því að eigendur og vörslumenn eftirlitsskyldra mælitækja sinni þeirri lagaskyldu sinni að láta endurlöggilda mælitækin með reglubundnu millibili í samræmi við reglur sem gilda um mælitæki hvert á sínu sviði.
    Eftirlit samkvæmt ákvæðum í hinu nýja frumvarpi hefur víðari merkingu en „löggilding“ eins og það hugtak var notað í eldri löggjöf og áður hefur verið rakið. Eftirlit samkvæmt þessum kafla nær bæði til löggildingar og annarra aðferða sem heimildir eru fyrir í 14. gr. sem staðfesta að mælitæki uppfylli kröfur eða að magn í forpakkningum sé rétt sem og til almenns eftirlits á að þetta hafi verið gert og að aðrar kröfur laga og reglna á sviði mælitækja og mælinga séu í raun uppfylltar. Auk þessa nær eftirlitið einnig til markaðseftirlits með nýjum mælitækjum, sbr. III. kafla þessa frumvarps.
    Þeir sem vilja starfa í umboði stjórnvalda verða að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur. Í fyrsta lagi verða þeir að hafa fullnægjandi sérþekkingu og hæfni til að geta framkvæmt eftirlitsverkefni sem þeim eru falin. Í framkvæmd er bæði rétt og eðlilegt að gerð sé krafa um að slíkir aðilar hafi hlotið faggildingu til sinna starfa að eftirliti. Ekki má heldur vera hætta á því að vegna hagsmunaárekstra séu störf þeirra dregin í efa. Þess vegna er það gert að skilyrði að þessir aðilar hafi sérþekkingu og séu óháðir í sínum störfum gagnvart þeim aðilum sem þeir hafa eftirlit með. Rétt er að undirstrika að það er aðeins framkvæmdin sjálf á eftirlitinu sem stjórnvöld geta falið öðrum. Ábyrgðin á því að eftirlit sé haft með lögum og reglum settum samkvæmt þeim mun alltaf vera hjá stjórnvaldinu. Í frumvarpinu og þessu ákvæði er hins vegar ekki að finna nákvæmar reglur eða lýsingu á því hvernig þetta eftirlit skuli framkvæmt. Hér verður það að vera háð mati stjórnvaldsins hvernig best og hagkvæmast er að framkvæma eftirlit.
    Eftirlit þýðir meðal annars að athugun er framkvæmd á aðstæðum sem fyrir fram er ljóst að falli undir gildissvið þessa frumvarps, t.d. á starfsstöð þar sem vitað er að mælingar eru framkvæmdar. Hlutverk eftirlitsins er þó einnig að kanna hvort í raun sé stunduð starfsemi þar sem framkvæmdir eru hlutir sem eiga að vera undir eftirliti samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er skýrt kveðið á um að stjórnvaldinu sé heimilt að fela öðrum aðila að framkvæma eftirlitið en þessi stefna hefur verið notuð á undanförnum árum, þ.e. að einkaaðilum sé falin framkvæmd eftirlits þegar það er unnt. Á grundvelli reglugerðar nr. 648/2000, um starfshætti þeirra sem annast löggildingar í umboði Löggildingarstofu, hefur Neytendastofa beitt þessari aðferð.
    Unnt er að fela bæði opinberum sem og einkaaðilum eftirlitsverkefni. Þegar slík verkefni eru falin öðrum aðilum verður að gera þá almennu kröfu að hlutaðeigandi hafi yfir að ráða nægilegri sérþekkingu og hæfni á viðkomandi sviði. Auk þess er gerð sú krafa að slíkir aðilar séu óháðir í sínum störfum. Ekki eru settar nánari reglur um þetta en til hliðsjónar má t.d. hafa þá staðla sem gilda fyrir skoðunarstofur. Á grundvelli þessa ákvæðis getur Neytendastofa sett nánari reglur og skilyrði fyrir því að öðrum aðilum sé falið að framkvæma eftirlit í umboði hennar en slíkt skilyrði getur verið faggilding eftirlitsaðila. Reynsla undangenginna ára hefur þó sýnt að ekki er alltaf hægt að gera slíka kröfu því að stofnkostnaður vegna faggildingar er oft mikill. Þetta hefur verið að breytast og mikilvægt er að áfram sé unnið að því markmiði að allir aðilar sem taka að sér slík störf hafi hlotið faggildingu til sinna starfa. Það tryggir einnig öryggi og áreiðanleika í framkvæmd eftirlits sem þannig er falin aðilum á einkamarkaði.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ákvæði þessa kafla um framkvæmd eftirlits og yfireftirlit Neytendastofu eigi jafnframt við þá sem fengið hafa umboð hennar til að starfa að eftirliti. Það þýðir m.a. að slíkir aðilar eiga rétt á óhindruðu aðgengi að öllum starfsstöðvum, rétt til upplýsinga og annarrar aðstoðar við framkvæmd eftirlitsins frá eftirlitsskyldum aðila. Í ákvæðinu er þó jafnframt tekið fram að Neytendastofa getur takmarkað slíkan rétt þeirra sem starfa í hennar umboði, t.d. gæti það átt við ef umboðsaðilinn er að framkvæma sérhæft verkefni þar sem ljóst er að hann þarf ekki öll þau réttindi sem kveðið er á um í þessum kafla.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um að gjaldskrá þeirra aðila sem Neytendastofa felur framkvæmd mælifræðilegs eftirlits skuli vera opinber. Eigendur mælitækja sem eru löggildingarskyld geta ekki valið hvort þeir njóti þjónustu þeirra aðila sem framkvæma mælifræðilegt eftirlit samkvæmt þessari grein heldur ber þeim lagaskylda til að löggilda mælitæki þegar lög og reglur stjórnvalda mæla fyrir um það. Eðlilegt er því að þeir einkaaðilar sem taka að sér framkvæmd löggildingar og veita þessa þjónustu birti opinberlega gjaldskrá sína þar sem verð á löggildingu mælitækja kemur skýrt fram. Í ákvæðinu er tekið fram að ef einungis einn aðili er á hlutaðeigandi markaði sé ráðherra heimilt að setja gjaldskrá varðandi þá þjónustu sem hér um ræðir. Þetta ákvæði getur veitt nauðsynlegt aðhald við verðlagningu á þeirri þjónustu sem hér um ræðir ef engin samkeppni er varðandi löggildingu mælitækjanna. Þegar ekki ríkir samkeppni á tilteknum markaði á sviði þjónustu sem stjórnvöld gera kröfu til að sé sinnt í þágu almennings og viðskiptalífsins, eins og t.d. á við um ákvæði þessa frumvarps, þá er þetta ákvæði aðhald fyrir slíka aðila um að hafa sanngjarna og eðlilega gjaldskrá enda er hagsmunaaðilum sem verða fyrir eftirliti frjálst að leggja inn ábendingar og kvartanir til stjórnvaldsins ef þeir telja ástæðu til. Mikilvægt er einnig að gegnsæi ríki varðandi greiðslur sem slík fyrirtæki krefjast þegar þau eru að framkvæma þjónustu í þágu opinbers eftirlits hér á landi.

Um 19. gr.

    Hér er kveðið á um að Neytendastofa skuli hafa óhindraðan aðgang að öllum starfsstöðvum og innréttingum vegna framkvæmdar á eftirliti með ákvæðum frumvarpsins og reglum sem settar verða á grundvelli þess, verði það að lögum. Þessi aðgangur er ekki takmarkaður við staði sem fyrir fram er vitað að skuli sæta eftirliti og getur aðili því ekki neitað um aðgang á þeim forsendum að þar séu engin eftirlitsskyld tæki ef eftirlitsaðilinn telur líkur á að þar fari hugsanlega fram starfsemi sem líta þurfi nánar á. Þetta gætu m.a. verið skrifstofur, starfsemi sem snertir mælingar eða geymslurými þar sem vera kynnu hlutar mælitækja. Ekki er heldur takmarkaður sá tími sem velja má til eftirlits, en almennt skal þó gætt meðalhófs eins og stjórnsýslulög mæla fyrir um.

Um 20. gr.

    Í greininni er fjallað um rétt eftirlitsstjórnvalda til upplýsinga. Skv. 1. mgr. getur Neytendastofa krafið eftirlitsskylda aðila um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við framkvæmd eftirlits. Þetta nær bæði til skriflegra og munnlegra upplýsinga, að skoða skjöl og fá menn í viðtal. Stjórnvaldið metur hve ítarlegar upplýsingarnar þurfa að vera. Meta skal þörfina og beitingu þessarar heimildar með hliðsjón af meðalhófs- og jafnræðisreglum stjórnsýslulaga. Upplýsingar skulu gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Það eru að sjálfsögðu takmörk fyrir því hvað eðlilegt er að krefjast mikillar fyrirhafnar af aðilum sem eiga ekki beina aðild að tilteknu máli og skal hér gætt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Neytendastofa geti í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

Um 21. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu framleiðenda, seljenda, dreifingaraðila, eigenda og umsjónarmanna mælitækja til að aðstoða við framkvæmd eftirlits. Í ýmsum tilvikum getur þurft að flytja til eða veita aðra aðstoð til að komast að mælitækjum sem eru til athugunar vegna eftirlits samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps eða reglna settra samkvæmt þeim. Þrátt fyrir að eftirlitsskyldir aðilar kunni að hafa kostnað af slíkum aðgerðum geta þeir ekki krafið Neytendastofu eða þann aðila sem annast eftirlit í umboði hennar um greiðslu kostnaðar sem hann kann að verða fyrir vegna framkvæmdar eftirlitsins. Til að komast hjá óþarfa kostnaði og umstangi er því mikilvægt að eftirlitsskyldir aðilar tryggi ávallt sem best aðgengi að þeim mælitækjum sem eru undir eftirliti samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps.

Um 22. gr.

    Á eftirlitsstjórnvöldum hvílir almennt þagnarskylda og svo gildir einnig samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Jafnframt tekur hún til þeirra aðila sem annast framkvæmd eftirlits í umboði þeirra, svo sem Neytendastofu.
    Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Um 23. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um skilyrði þess að einstaklingar geti hlotið löggildingu sem vigtarmenn. Ákvæði 1. mgr. eru efnislega óbreytt frá gildandi lögum um þetta efni, sbr. lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
    Í 2. mgr. segir að vigtarmenn skuli hafa löggildingu Neytendastofu sem gefur út skírteini þeim til handa þegar þeir hafa lokið námskeiði og staðist prófkröfur í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Í gildandi rétti eru ákvæði sem gera kröfu um að vigtun skuli framkvæmd einungis af löggiltum vigtarmönnum varðandi vigtun sjávarafla og innvigtun sláturafurða. Ekkert er því til fyrirstöðu að stuðst verði við sambærilegt fyrirkomulag á öðrum sviðum stjórnsýslunnar ef stjórnvöld telja þörf á því að byggja upp traust á vigtun á öðrum sviðum atvinnulífsins en hingað til hefur verið gert. Synja skal manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.
    Í 3. mgr. segir að löggilding vigtarmanns gildi í tíu ár en samkvæmt gildandi lögum er tímabil þetta 5 ár. Að þeim tíma liðnum þurfa vigtarmenn að sækja námskeið til endurnýjunar réttinda sinna. Við gerð frumvarpsins komu fram óskir hagsmunaaðila í atvinnulífinu um lengingu gildistímans.
    Í 4. mgr. er að finna nýmæli í lögum sem hefur þó verið tíðkað í framkvæmd um langt skeið. Á ýmsum smærri stöðum getur reynst erfitt að fá til starfa menn sem þegar hafa aflað sér löggildingar til að starfa að vigtun. Námskeið eru auk þess aðeins haldin tvisvar til þrisvar á ári eftir þörfum og að lágmarksfjöldi þátttakenda sé tryggður. Brýna nauðsyn getur borið til að einhver aðili á staðnum fái útgefna sér til handa bráðabirgðalöggildingu vegna vigtunar t.d. á sjávarafla sem skylt er að fela löggiltum vigtarmanni. Óhjákvæmilegt er því að í frumvarpinu sé að finna heimild til þess að bregðast við slíkum aðstæðum. Í þessari málsgrein er því að finna slíka undanþáguheimild svo og skilyrði sem setja skal þegar undanþága er veitt. Jafnframt er þess krafist að slíkar undanþágur séu aðeins veittar að fenginni umsögn þess sérstjórnvalds sem vigtun heyrir undir, t.d. mun því Fiskistofa veita umsögn um slíka umsókn ef um er að ræða vigtun sjávarafla, o.s.frv.
    Loks er í 5. mgr. kveðið á um að ráðherra skuli setja nánari reglur um endurnýjun réttinda og starfshætti vigtarmanna.

Um 24. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að prófnefnd vigtarmanna skuli hafa umsjón með prófi til löggildingar vigtarmanna. Lagt er til að í prófnefnd eigi þrír menn sæti og skal ráðherra skipa hana til 5 ára í senn. Einn skal tilnefndur af Neytendastofu og annar af Fiskistofu, sem er það sérstjórnvald sem mestra hagsmuna hefur að gæta varðandi menntun og löggildingu vigtarmanna eins og nú er. Formaður er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Samkvæmt gildandi lögum hefur öll framkvæmd þessara mála verið á hendi Neytendastofu. Það samræmist vart nútímakröfum til stjórnsýsluréttar að sami aðili skuli ákveða kröfur, annast námskeið, halda próf og veita löggildingu til starfa. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir öðru en að sú sérhæfða þekking til kennslu á námskeiðum verði áfram sótt til sérfræðinga á þessu sviði hjá Neytendastofu svo og til Fiskistofu eftir því sem við getur átt. Það mun verða hlutverk prófnefndar að skilgreina kröfur og skipuleggja framkvæmd námskeiðanna. Hún ákveður því og gerir tillögu um allar nánari reglur um prófkröfur, framkvæmd prófa og önnur skilyrði sem geta verið nauðsynleg vegna námskeiðs og prófa til löggildingar vigtarmanna. Prófnefnd ber einnig að taka tillit til þess að gætt sé ýtrustu hagkvæmnissjónarmiða varðandi framkvæmd og skipulagningu námskeiða. Gert er ráð fyrir því að ráðherra heimili að tekið sé gjald fyrir slík námskeið og próf. Gjald þetta skal miðast við þann kostnað sem af námskeiðum og framkvæmd prófraunar hlýst, svo sem greiðslu kennslulauna, kostnað vegna námsgagna, húsnæðis- og stjórnunarkostnað, sem og annan útlagðan kostnað vegna námskeiðanna.
    Í 2. mgr. segir að á grundvelli þess ramma sem ákveðinn er í reglugerð, sbr. 1. mgr., skuli einnig setja nánari reglur um útfærslu og framkvæmd námskeiða, t.d. hvort ákveðinn lágmarksfjölda þurfi til þess að unnt sé að halda námskeið, reglur um hvaða lágmarksárangri þátttakendur verða að ná í prófum til löggildingar og önnur atriði sem varða fyrirkomulag og framkvæmd námskeiða og prófa. Í ákvæðinu er prófnefnd einnig veitt heimild til þess að skipta upp námskeiði og eftirfarandi prófi til löggildingar vigtarmanna í tvo hluta, þ.e. A- og B-hluta. Á undanförnum árum hefur slík skipting tíðkast í framkvæmd án þess þó að í gildandi lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, sé gert ráð fyrir slíkri tvískiptingu. Ástæða þess er sú að algengast er að þeir sem afla sér löggildingar til réttinda vigtarmanns starfi að vigtun sjávarafla. Í þeim tilvikum verða nemendur á námskeiðum að kynna sér ítarlega allar þær reglur og reglugerðir sem gilda um vigtun sjávarafla hér á landi. Nokkur eftirspurn, þó ekki mikil, hefur verið eftir því að aðrir sem fást við vigtun á vörum til neytenda, t.d. vigtarmenn hjá sandsölufyrirtækjum o.fl., hafi aflað sér réttinda sem löggiltir vigtarmenn. Þessir einstaklingar hafa hvorki þurft að fara yfir það námsefni né að taka próf í þeim þáttum námskeiðsins sem snýr að reglum og lögum sem gilda um vigtun sjávarfangs. Rétt þykir að frumvarp þetta geri áfram ráð fyrir því að unnt sé að skipuleggja námskeið og próf með þessum hætti en jafnframt er nauðsynlegt að slíkt fyrirkomulag eigi sér stoð í lögum sem um þetta réttindanám gilda. Hér er því lagt til að það sé á valdi og verksviði prófnefndar að útfæra þetta nánar í námskeiðslýsingum þar sem gert er ráð fyrir að réttindum verði skipt í A- hluta réttindi sem veiti full réttindi og þ.m.t. rétt til að vigta sjávarafla og hins vegar B-hluta réttindi sem þá munu ekki veita viðkomandi rétt til vigtunar sjávarafla nema hann bæti við sig þekkingu sem felst í þátttöku og prófi í A-hluta námskeiða sem prófnefnd skipuleggur og hefur umsjón með. Af framangreindu leiðir að Neytendastofa heldur svo skrá yfir alla þá sem fá löggildingu samkvæmt þeim reglum sem settar eru á grundvelli þessa ákvæðis, sbr. 23. gr.
    Í 2. mgr. er loks kveðið á um heimild að skipa prófdómara til að endurskoða úrlausnir próftaka óski hann eftir því. Þetta ákvæði er sett til að tryggja nemendum möguleika á fá óháða endurskoðun á prófúrlausn sinni ef ástæða þykir.

Um 25. gr.

    Í gildandi lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, og einnig í frumvarpi þessu, sbr. 27. gr., er kveðið á um sönnunargildi vottorða sem löggiltir vigtarmenn gefa út og staðfesta. Í gildandi rétti eru þó engin ákvæði sem kveða á um hvaða upplýsingar framangreind vottorð skuli innihalda að lágmarki. Í þessari grein er að finna nýmæli sem bætir úr því. Ljóst er af gildandi lögum að rétt útgefin vottorð eiga að vera sönnun um „þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið“. Undantekningarlaust innihalda vottorð sem gefin eru út hér á landi slíkar upplýsingar. Nauðsynlegt er þó að tryggja betur en nú er gert í lögum sönnunargildi þessara vottorða og tryggja að ákveðið samræmi sé í öllum útgefnum vottorðum á því hvaða lágmarksupplýsingar eigi að koma þar fram. Af þeirri ástæðu er nú lagt til að í kafla frumvarpsins um löggilta vigtarmenn komi ákvæði um þetta efni. Í þessu ákvæði er því gerð krafa um að í vottorðum komi fram nafn verkbeiðanda, dagsetning, staður, gildi töru, tilvísun til vogar sem notuð er, númer ökutækis þegar það á við svo og nafn löggilts vigtarmanns og undirritun hans svo og nafn þess lögaðila sem hann starfar hjá þegar það á við. Í því sambandi gildir einu hvort viðkomandi vigtarmaður er starfsmaður lögaðila eða tekur að sér vigtun sem verktaki enda eru mikilvægir hagsmunir því tengdir að þeir sem aðild eiga að viðskiptunum geti kynnt sér hvort viðkomandi vigtarmaður starfar alfarið sjálfstætt að vigtun sem hann vottar. Loks er tekið fram að einnig skuli koma fram aðrar upplýsingar í vottorði löggilts vigtarmanns ef þess er krafist samkvæmt ákvæðum sérlaga eða reglna settra samkvæmt þeim. Dæmi um slíkar reglur er að finna í reglugerð nr. 522/1998, um vigtun sjávarafla, og ber þá við vigtun á slíkum vörutegundum að taka tillit til þeirra sérkrafna sem hlutaðeigandi stjórnvöld gera hverju sinni.
    Varðandi vigtun löggiltra vigtarmanna í umboði vinnuveitanda síns og sjónarmiða í því sambandi vísast að öðru leyti til ákvæða í 2. mgr. 27. gr. og umsagnar um þá grein frumvarpsins. Við undirbúning frumvarpsins óskaði Fiskistofa jafnframt eftir því að gerð yrði sú krafa að í vigtarvottorði kæmi fram gildi töru þegar það á við. Orðið tara hefur velþekkta merkingu og í reynd hefur þetta ákvæði þau áhrif að ef vigtun fer fram á farmi sem er á flutningstæki þá ber að skrá þyngd flutningstækisins. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 26. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um starfsskyldur löggiltra vigtarmanna. Starf þetta er mikilvægt trúnaðarstarf gagnvart kaupendum og seljendum þeirrar vöru sem þeir vigta hverju sinni og ekki síður gagnvart stjórnvöldum þegar um er að ræða vigtun sem þýðingu hefur einnig að lögum og reglum settum samkvæmt þeim. Í 1. mgr. kemur fram að löggiltur vigtarmaður skuli bera ábyrgð á vigtun sem hann vottar „í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni“. Hér er því gerð sú krafa að starfshættir vigtarmanns fylgi svonefndum „bonus pater familias“ mælikvarða, þ.e. þeim mælikvarða sem almennt er notaður í skaðabótarétti þegar verið er að meta hvort einstaklingur hefur innt af hendi starfsskyldur sínar. Við mat á því hvort uppfyllt eru skilyrði þau sem hér er að finna bæri því að kanna hvort við vigtun hafi að öllu leyti verið framfylgt þeim reglum og starfsaðferðum sem „góður og gegn vigtarmaður“ mundi gera miðað við aðstæður hverju sinni. Komi í ljós að hann hafi brotið gegn framangreindum viðurkenndum starfsaðferðum, t.d. með því að vera fjarstaddur vigtun þar sem hann átti að vera viðstaddur, þá er það skýlaust brot á starfsskyldum. Í þeim tilvikum þegar vigtun fer fram með sjálfvirkum hætti eru skyldur hans m.a. að tryggja að búnaðurinn starfi allur rétt, stillingar og gagnasöfnun fari rétt fram o.s.frv. Það er því augljóst að framangreindur mælikvarði – eins og í skaðabótarétti – tekur mið af kringumstæðum hverju sinni og vigtarmenn fá fræðslu um á námskeiðum til löggildingar og öflunar starfsréttinda sinna. Ákvæði þetta er því vísiregla þar sem vísað er til þess að löggiltur vigtarmaður skal framkvæma störf sín í samræmi við viðurkennda og góða starfshætti. Auk þess verður að taka tillit til þess hvort sérreglur gilda um vigtun eða ekki, sbr. til að mynda ítarlegar reglur sem hér á landi gilda varðandi vigtun sjávarafla. Vigtarmaður skal því vera viðstaddur vigtun þegar það á við en í því felst að í samræmi við góða starfshætti hefur hann umsjón með þeim mælingum sem fram fara á hans ábyrgð og honum ber að votta með undirritun sinni á vigtarvottorð. Öll framangreind atriði verður einmitt í samræmi við framangreinda meginreglu um góðar starfsvenjur vigtarmanna að taka til athugunar og mats þegar meta skal hvort vigtarmaður teljist hafa brotið reglur um góða starfshætti samkvæmt ákvæðinu. Það er því á verksviði Neytendastofu og eftir atvikum í samráði við sérstjórnvöld, t.d. Fiskistofu, að meta hvort slík brot hafi verið framin og taka ákvörðun um hvort brot sé það alvarlegt að það varði sviptingu starfsréttinda og löggildingarinnar, sbr. 28. gr. Þess má geta að við undirbúning þessa frumvarps hefur talsverð umræða farið fram um hvort ekki sé hægt vegna t.d. nýrrar tækni o.fl. að falla frá kröfu um að vigtarmenn skuli vera viðstaddir þá vigtun sem þeir votta. Eftir ítarlega skoðun er það sameiginleg niðurstaða Neytendastofu og Fiskistofu, sem er það sérstjórnvald sem gætir mikilvægra hagsmuna vegna vigtunar sjávarafla, að ekki sé unnt að falla frá slíkum kröfum. Framangreind krafa getur þó til dæmis leyft að vigtarmaður gæti talist vera viðstaddur ef hann fylgist með vigtun sem fram fer í gegnum sjónvarps- eða tölvuskjá. Hins vegar, ef slík tækni verður til að unnt sé að tryggja vigtun með sama hætti og gert er með því að áskilja að vigtarmaður sé viðstaddur vigtun, þá munu atvinnulífið og stjórnvöld taka upp slíkt kerfi sem þá mundi jafnframt gera vottun vigtarmanns óþarfa. Eins og málum er nú háttað er þó ekki þekkt neitt slíkt kerfi og auk þess er það ákvörðun sérstjórnvalda hverju sinni hvort þau vilja styðjast við það fyrirkomulag sem felst í því að fela löggiltum vigtarmönnum að tryggja sönnun fyrir því sem vegið er hverju sinni. Telji þau að þeim markmiðum verði náð með öðrum hætti er þeim að fullu frjálst að taka upp hvert það kerfi sem þau telja að sé fullnægjandi að þessu leyti. Þegar og ef það gerist mun það að sjálfsögðu leysa af hólmi mannshöndina og þar með gera störf löggiltra vigtarmanna óþörf. Þar til slíku tæknistigi verður náð er þó talið nauðsynlegt að tryggja áfram það eftirlit sem löggiltum vigtarmönnum er falið með vigtun sem jafnframt krefst almennt að þeir séu viðstaddir til þess að geta með fullnægjandi hætti vottað það sem krafist er af þeim hverju sinni.
    Í 2. mgr. er vísað til sérlaga og einnig er þar kveðið á um erindisbréf er ráðherra setur um starfsskyldur löggiltra vigtarmanna. Í sérlögum og reglugerðum er oft að finna ítarlegar reglur um starfsskyldur vigtarmanna sem þeim ber að fara eftir við framkvæmd starfa sinna. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki frekari skýringa.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að fullgilt vottorð löggilts vigtarmanns sé sönnun um þyngd þess sem vegið er og hvað var vegið. Þetta ákvæði er breytt frá gildandi lögum, nr. 100/1992, en nú er kveðið á um að vottorð skuli vera fullgilt, sbr. 25. gr., um innihald þess og dregið er úr staðhæfingunni um að vottorðið sé full sönnun enda er það jafnan á valdi dómara að kveða upp úr um slíkt.
    Í 1. mgr. er einnig að finna heimild til að stjórnsýslufyrirmæli tilgreini hvaða störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum. Hér er ekki vísað til ráðherra sérstaklega enda geta hin ýmsu ráðuneyti ákveðið að nýta sér það traust sem bera má til löggiltra vigtarmanna og fullgildra vottorða sem þeir gefa út. Í stjórnsýslunni í dag er að finna ákvæði um slíkar reglur sem settar eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, sbr. reglugerð um vigtun sjávarafla. Sambærilegar reglur eru einnig um vigtun sláturfénaðar.
    Í 2. mgr. er tekið fram að Neytendastofa skuli að fenginni umsögn fagráðs setja nánari reglur um almennt og sérstakt hæfi löggiltra vigtarmanna. Þótt löggiltir vigtarmenn séu sýslunarmenn hafa þeir ekki á hendi lögbundna stjórnsýslu á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Þegar af þeirri ástæðu gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki um störf þeirra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá telst útgáfa vottorðs um hlutlæga mælingu ekki stjórnvaldsákvörðun sem tekin er í skjóli framkvæmdarvalds. Eðli starfa löggiltra vigtarmanna er á hinn bóginn um sumt líkt lögbókandagerð þar sem um er að ræða staðfestingu sýslunarmanns á niðurstöðu hlutlægrar mælingar á þyngd þess sem vegið var og tilgreiningu á því sem vegið var. Öllum má þó vera ljóst að mikilvægt er að löggiltir vigtarmenn séu sjálfstæðir og óháðir í sínum störfum svo sem gildir til dæmis um vigtarmenn á hafnarvogum og fiskmörkuðum. Nauðsynlegt er að slíkt fyrirkomulag styrkist þannig að í framtíðinni verði löggiltir vigtarmenn ekki starfsmenn þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af niðurstöðu vigtunar. Auk þess er æskilegt að til verði sjálfstæð fyrirtæki sem sjá um vigtunina og eru óháð bæði seljanda og kaupanda varðandi niðurstöður vigtunarinnar sem fram fer hverju sinni. Varðandi hæfi vigtarmanna hefur Fiskistofa lagt mikla áherslu á að hafnarvigtarmenn séu ávallt hlutlausir aðilar og hafi engin tengsl við aðila í sjávarútvegi sem eru til þess fallin að draga megi hlutleysi þeirra í efa. Þannig hefur Fiskistofa túlkað það svo að hafnarvigtarmenn geti ekki jafnframt starfað hjá fiskvinnslu, útgerð eða fiskmarkaði. Þá er tilefni til að benda á að fiskmarkaðir á Íslandi eru ekki í öllum tilvikum jafnhlutlausir og ætla má í fyrstu þar sem í einhverjum tilvikum eru það sömu aðilar sem stýra fiskmarkaði (stjórnarmenn/framkvæmdastjóri) og fiskvinnslu eða útgerð. Af þessum sökum er talið rétt að fela Neytendastofu að setja reglur um almennt og sérstakt hæfi vigtarmanna þar sem m.a. verði tiltekið hvaða störf séu ósamrýmanleg störfum löggiltra vigtarmanna.

Um 28. gr.

    Í þessu ákvæði er að finna reglur um sviptingu löggildingar löggilts vigtarmanns. Með hliðsjón af því um hversu mikilvægt trúnaðarstarf er að ræða er nauðsynlegt að hafa í lögum skýr ákvæði um hvernig með skuli farið ef einstaklingar sem hafa réttindi sem löggiltir vigtarmenn hafa brotið reglur sem um þessa starfsemi gilda.
    Enda þótt hér sé veitt heimild til tafarlausrar sviptingar er hún ekki fortakslaus, enda skal gætt meðalhófs og annarra meginreglna stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. Ef um er að ræða alvarleg ásetningsbrot sem varða við ákvæði XVII. kafla almennra hegningarlaga um skjalafals og önnur brot er varða sýnileg sönnunargögn ber Neytendastofu að vísa slíkum málum áfram til lögreglu til frekari rannsóknar og meðferðar. Rétt þykir því að taka fram í þessu ákvæði að það þykir ekki við hæfi að einstaklingur sem er í þeirri stöðu að mál hans eru í rannsókn hjá lögreglu eða til meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara geti samtímis setið námskeið til að afla sér réttinda að nýju. Hér er því kveðið á um að ef svo háttar til þá geti viðkomandi einstaklingur ekki skráð sig á námskeið og tekið próf að nýju fyrr en að tveimur árum liðnum frá dagsetningu úrskurðar um sviptingu réttinda hans sem löggilts vigtarmanns nema því aðeins að mál hans sé látið niður falla innan þess frests eða sakamáli á hendur honum ljúki með dómi eða dómsátt. Með hliðsjón af þeim refsiramma sem almennt er í XVII. kafla almennra hegningarlaga þykir hæfilegt að miða við að einstaklingur geti ekki sótt slíkt námskeið í tvö ár. Ef dómur gengi í slíku máli og viðkomandi yrði jafnframt beittur refsingu skv. 68. gr. almennra hegningarlaga gæti slíkur einstaklingur í sjálfu sér sótt námskeið og tekið próf að nýju en skv. 2. mgr. 23. gr. bæri að synja um löggildingu hans til starfsréttinda. Ákvörðun um leyfissviptingu er stjórnvaldsákvörðun sem jafnframt er rétt að unnt sé að kæra til æðra stjórnvalds. Í lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, er kveðið á um að unnt sé að skjóta þeim málum er lög ákveða til áfrýjunarnefndar neytendamála. Slíkar heimildir er nú þegar að finna m.a. í lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, og lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Það er því í samræmi við framangreind lög að hafa kæruleið í málum er varða sviptingu starfsréttinda samkvæmt þessari grein til áfrýjunarnefndar neytendamála en ekki beint til viðskiptaráðuneytisins.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringa.

Um 29. gr.

    Neytendastofa er mælifræðistofnun Íslands og af þeirri ástæðu eru í eigu hennar ýmsir mæligrunnar eins og rakið hefur verið m.a. í athugasemdum við 4. og 6. gr. Þessir mæligrunnar eru mikilvægir fyrir stjórnvöld sem setja reglur um ýmis mælifræðileg efni og eftirlit sem unnið er samkvæmt þessum reglum. Hins vegar er ljóst að ýmis hagnýt not má einnig hafa af þessum mæligrunnum fyrir ýmsa aðra aðila sem þurfa á því að halda að fá mælitæki sín kvörðuð. Þetta gildir um aðila í viðskiptalífinu, rannsóknastofnanir o.fl. Á Íslandi er markaðurinn enn sem komið er afar lítill fyrir slík þjónustufyrirtæki og kostnaður talsverður fyrir þau að koma sér upp slíkum mæligrunnum. Það er því eðlilegt og hagkvæmt að framangreindir aðilar geti keypt aðgang að mæligrunnum Neytendastofu þegar þeir þurfa á því að halda í stað þess að senda mælitæki sín til útlanda til kvörðunar. Í mörgum tilvikum er einnig ekki unnt að senda mælitæki til útlanda til kvörðunar en það á t.d. við um viðkvæmar vogir o.fl. Hér er því kveðið á um að Neytendastofu sé heimilt að veita slíka kvörðunarþjónustu. Komi einkaaðilar á þennan markað sem hér er um rætt gilda almennar reglur samkeppnisréttarins, m.a. um fjárhagslegan aðskilnað.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringa.

Um 30. gr.

    Í greininni er Neytendastofu veitt heimild til að taka gjald fyrir faggilta kvörðunarþjónustu sem hún veitir, sbr. ákvæði þessa frumvarps. Slíkt þjónustugjald skal aðeins standa undir þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirrar kvörðunarþjónustu sem veitt er viðskiptamanni hverju sinni. Gjaldskrá fyrir kvörðunarþjónustu skal byggð þannig upp samkvæmt ákvæði þessarar greinar að hún sé samsett úr þeim kostnaðarliðum sem taldir eru upp í ákvæðinu. Af framansögðu er því ljóst að gjald fyrir þjónustu sem veitt er vegna kvörðunar á einstökum mælitækjum fyrir viðskiptamenn kvörðunarþjónustunnar skal við það miðað að það standi undir kostnaði við þjónustuna, sbr. upptalninguna í ákvæðinu, en ekki er að því stefnt að hagnaður sé af veittri þjónustu umfram þær heimildir sem hér er að finna. Það er einnig eðlilegt enda ekki að því stefnt að þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar verði rekinn með hagnaði heldur er hér fyrst og fremst um að ræða þjónustu við atvinnulífið í landinu og þá sem þurfa að hafa aðgang að kvörðunarþjónustu hér á landi og munu sækja hana til Neytendastofu. Viðskiptaráðherra staðfestir og birtir gjaldskrá samkvæmt þessu ákvæði.

Um 31. gr.

    Neytendastofa varðveitir og hefur umsjón með ýmsum mæligrunnum sem íslensk stjórnvöld og athafnalíf gera kröfu til á hverjum tíma. Jafnframt hefur hún mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Nær öll starfsemi Neytendastofu eru því margvísleg stjórnsýsluverkefni sem ríkissjóður verður að standa straum af kostnaði við annaðhvort með beinum framlögum úr ríkissjóði eða með því að Alþingi ákveði að marka sérstakar tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af eftirlitsstarfsemi hennar.
    Á undanförnum árum hefur verið mótuð sú stefna af hálfu ríkisstjórnar og löggjafans að eftirlitsskyldir aðilar skuli standa undir þeim stjórnsýslu- og eftirlitskostnaði sem hlýst af eftirliti með hlutaðeigandi atvinnugrein. Jafnframt er nú gerð krafa um að slík gjaldtaka skuli ákveðin í lögum en áður var algengt að hún væri ákveðin í reglugerðum sem ráðherrar hver á sínu málefnasviði skyldu gefa út til að standa straum af kostnaði sem hlýst af eftirlitinu. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá árinu 1995 er bent á að framangreind aðferð fullnægi ekki ákvæðum í stjórnarskrá lýðveldisins og í henni felist of víðtækt framsal á skattlagningarvaldi frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Ákvæðum í þessari grein svo og í þessum kafla í heild er ætlað að koma til móts við framangreind sjónarmið og jafnframt að tryggja tekjuöflun til að standa undir þeim stjórnsýslukostnaði sem hlýst af lögum sem Alþingi samþykkir um eftirlit með mælitækjum og þeim stjórnsýslukostnaði sem af lögum leiðir.
    Til að standa straum af kostnaði sem hlýst af eftirliti á sviði mælifræði er hér lagt til að eftirlitsgjald skuli lagt á þá aðila sem falla undir mælifræðilegt eftirlit hér á landi með sama hætti og gildir um aðrar atvinnugreinar. Áríðandi er að jafnræði ríki milli atvinnugreina að þessu leyti og það er einnig fallið til þess að gegnsæi aukist varðandi þann kostnað sem er af eftirliti með hlutaðeigandi atvinnugrein eða þáttum atvinnulífsins.
    Neytendastofa stefnir að því að framkvæmd markaðseftirlits verði falin faggiltum skoðunarstofum með svipuðum hætti og nú þegar er gert vegna markaðseftirlits með rafföngum og öðrum almennum vörum sem stofnunin ber ábyrgð á samkvæmt lögum nr. 146/1996 og lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Framkvæmd eftirlits með mælitækjum í notkun hefur einnig verið falin faggiltum skoðunarstofum um alllangt skeið, sbr. t.d. að Frumherji hf. annast allar endurlöggildingar t.d. á vogum og dælum í umboði Neytendastofu, o.s.frv. Áfram verður því byggt á þessum grunni enda almenn reynsla góð og þessi aðferð stuðlar jafnframt að aukinni hagkvæmni við eftirlitsstarfsemi ríkisins og málsmeðferð verður traustari við það að sami aðili annast ekki rannsókn á vettvangi og tekur nauðsynlegar stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli rannsóknarinnar sem gerð hefur verið. Í þessari grein er tekið fram að eftirlitsgjald það sem hér er kveðið á um skal standa undir stjórnsýslukostnaði sem hlýst af eftirlitsstarfsemi Neytendastofu á sviði mælifræði samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og reglna settra samkvæmt þeim. Í því felst nánar að gjald þetta skal m.a. standa undir venjulegum stjórnsýslukostnaði við rekstur eftirlitsins, svo sem launum, húsnæði og öðrum breytilegum kostnaði sem af því leiðir. Jafnframt stendur gjald þetta undir rekstri og viðhaldi á þeim mæligrunnum sem stofnuninni ber í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma að tryggja aðgang að, m.a. vegna nauðsynlegs lögmælifræðilegs eftirlits hér á landi. Nú þegar eru í eigu stofnunarinnar mæligrunnar sem nauðsynlegir eru t.d. vegna lögmælifræðilegs eftirlits með vogum, bensíndælum o.s.frv. og tekur ákvæði þetta því m.a. til reksturs og viðhalds á slíkum mæligrunnum. Í samræmi við ákvæði þeirrar nýju tilskipunar sem með ákvæðum þessa lagafrumvarps verður innleidd hér á landi, svo og öðrum reglum sem Ísland er skuldbundið að framfylgja í samræmi við ákvæði EES-samningsins, ber öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að tryggja framkvæmd markaðseftirlits innan lögsögu ríkisins. Í því felst nánar að Neytendastofu ber að gera áætlanir og tryggja að hér á landi sé skoðað með kerfisbundnum hætti hvort öll mælitæki uppfylli á hverjum tíma allar kröfur sem gerðar eru til slíkra tækja samkvæmt ákvæðum Evrópuréttarins. Í því felst að skoða þarf hvort formlegar merkingar á mælitækjum eru í lagi og að þau beri CE-merki eða hið græna M-merki eins og skylt er samkvæmt reglum Evrópuréttarins. Framangreind skylda tekur einnig til þess að eftirlitsstjórnvöld skulu taka þátt í samstarfi annarra eftirlitsaðila á sviði mælifræði og ef upplýsingar berast um að ólögleg mælitæki hafi fundist í öðru EES-ríki ber Neytendastofu að kanna hvort slík tæki séu á boðstólum hér á landi og ef svo er að afturkalla, setja á sölubann eða beita öðrum þeim stjórnsýsluúrræðum sem nauðsynleg eru hverju sinni. Þess má geta að við framkvæmd markaðseftirlits er fyrirhugað að nota þá aðferð sem á undanförnum árum hefur verið notuð hjá Neytendastofu, þ.e. að fela faggiltum skoðunarstofum framkvæmd eftirlitsins í eins miklum mæli og unnt er. Það hefur verið gert með góðum árangri vegna lögbundins markaðseftirlits með rafföngum, leikföngum og fleiri vörutegundum sem falla undir eftirlitssvið Neytendastofu. Í því sambandi er því nauðsynlegt að á hverjum tíma hafi stofnunin fjármuni til ráðstöfunar í slíka verksamninga um framkvæmd eftirlits á markaði en um leið má geta þess að samtímis næst aukið hagræði í rekstri á eftirlitinu með því að ekki þarf að ráða sérstaka starfsmenn til þess að annast eftirlitið.
    Loks er í þessari grein tekið fram að fyrir 1. mars ár hvert skal Neytendastofa gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs en undirbúningur fjárlaga hefst í janúar ár hvert og ber stofnunum að skila ráðuneytinu fyrstu tillögum vegna gerðar fjárlaga eigi síðar en í mars ár hvert. Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Við gerð skýrslunnar skal jafnframt líta til þróunar starfseminnar miðað við þrjú undangengin ár og þannig skal metið eins heildstætt og unnt er með hvaða hætti þróun á nauðsynlegu eftirliti samkvæmt ákvæðum frumvarpsins hefur gengið, svo og kostnaður sem því fylgir. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til þess að breyta fjárhæð eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi. Jafnframt er tekið fram að viðskiptaráðherra skuli leita umsagnar hjá fagráði, sbr. 35. gr., áður en slíkt frumvarp er lagt fram. Það tryggir að eftirlitsskyldir aðilar eða fulltrúar þeirra geta fengið upplýsingar og komið að ákvörðunum um fjárhæð eftirlitsgjalds samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Kostnaðargreining á eftirliti með framangreindum hætti veitir mikilvægt aðhald varðandi þróun eftirlitsgjaldsins og er jafnframt mikilvægur þáttur árangursstjórnunarsamninga í ríkisrekstrinum.

Um 32. gr.

    Í þessari grein er að finna upptalningu á þeim mælitækjum sem eru eftirlitsskyld samkvæmt gildandi lögum, nr. 100/1992, svo og þeim mælitækjum sem munu falla undir eftirlit samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB um mælitæki. Gjald samkvæmt þessari grein mun skila alls um 55 millj. kr. Sú gjaldheimta sem hér er lögð til mun samkvæmt kostnaðargreiningu ráðuneytisins og Neytendastofu standa undir núverandi starfsemi á sviði yfireftirlits með lögmælifræði, markaðseftirliti með mælitækjum, rekstri mæligrunna og þeim verkefnum sem þessari deild Neytendastofu er ætlað að sinna samkvæmt núgildandi lögum og reglugerðum, sem og ákvæðum þessa frumvarps.
    Í 1.–10. tölul. 1. mgr. eru talin upp þau mælitæki sem falla undir gildissvið tilskipunar nr. 2004/22/EB, um mælitæki, og eru álagningargrunnur að eftirlitsgjaldi samkvæmt frumvarpinu. Þess má geta að áætlaður heildarfjöldi eftirlitsskyldra mælitækja hér á landi samkvæmt þessari grein er um 215 þúsund tæki. Á undanförnum árum hafa eingöngu verið greidd sambærileg gjöld af löggildingu voga, rennslismæla fyrir olíur og bensín og hefur sá aðili sem annast löggildingar í umboði Neytendastofu innheimt framangreind gjöld á vogum og bensíndælum. Þrátt fyrir að nokkur ár séu liðin frá því að önnur mælitæki sem eru talin upp í þessari grein hafi orðið eftirlitsskyld hafa eigendur þessara mælitækja ekki enn þurft að greiða eftirlitsgjald með sama hætti og þeir sem hafa átt vogir og bensíndælur. Í ljósi almennrar jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins er eðlilegt að öll eftirlitsskyld mælitæki beri slíkt gjald. Það er einnig mikilsvert út frá almennum samkeppnisreglum að allar atvinnugreinar sem eiga að bera slíkan kostnað geri það lögum samkvæmt. Samtímis því að nú bera öll eftirlitsskyld mælitæki slíkt gjald og gjaldstofninn breikkar þá er unnt að lækka verulega þetta gjald á hvert hlutaðeigandi mælitæki. Hér nægir því að gjald þetta sé 250 kr. á ári. Í samræmi við ákvæði 31. gr. skal metið ár hvert á grundvelli þeirrar skýrslu sem Neytendastofa skal skila viðskiptaráðherra hvort ástæða sé til að ráðherra leggi fram frumvarp í því skyni að breyta framangreindri fjárhæð eftirlitsgjaldsins. Það er á ábyrgð eigenda mælitækja að sjá til þess að þau mælitæki sem lög og reglur gera eftirlitsskyld og hér eru talin upp séu færð til eftirlits og löggilding þeirra fari fram í samræmi við reglur sem gilda um hlutaðeigandi mælitæki. Það eftirlit framkvæma faggiltar prófunarstofur á kostnað eigenda tækjanna þegar um er að ræða mælitæki sem talin eru upp 2. og 5.–10. tölul. 1. mgr. Gjald það sem hér er lagt til leggst svo á þjónustugjald þessara faggiltu aðila með sama hætti og hingað til hefur verið gert þegar löggilding voga og bensíndæla hefur verið gerð nema að gjald þetta verður mun lægra en hingað til hefur tíðkast enda fleiri sem bera gjaldið. Hér eftir sem hingað til verður það því á ábyrgð þeirra aðila sem annast löggildingu þeirra mælitækja sem hér eru nefnd að innheimta það árgjald sem hér er kveðið á um þegar þeir veita þjónustu sína og endurlöggilda mælitækin.
    Skilagreinar um innheimtu gjaldsins skulu sendar Neytendastofu í samræmi við þær reglur sem hér eru lagðar til, sbr. og 34. gr. Það stuðlar að því að eftirlitsstjórnvaldinu berist upplýsingar um ástandið á markaðnum og hvort eigendur mælitækja sinni því að færa mælitæki sín til eftirlits eins og lög og reglugerðir gera kröfur til.

Um 33. gr.

    Innheimta eftirlitsgjalds fer fram með tvennum hætti.
    Í 1. mgr. er ákvæði um árgjald sem eftirlitsaðili innheimtir þegar eftirlit fer fram, oftast með löggildingu, sbr. þó aðrar aðferðir skv. 14. gr. Þetta á við mælitækin skv. 2. og 5.–10. tölul. 32. gr. Árgjald skal greiða fyrir hvert byrjað ár þannig að oft kann að verða innheimt fyrir fleiri en eitt ár í einu fyrir einstök mælitæki.
    Í 2. mgr. er ákvæði um árgjald sem eigendur veitumæla skv. 1., 3. og 4. tölul. 32. gr. greiða til Neytendastofu en þetta eru fáir stórir aðilar eins og Frumherji og einstakar veitustofnanir.

Um 34. gr.

    Af ákvæði 1. mgr. 33. gr. leiðir að það eru löggildingaraðilar sem innheimta árgjald þegar þeir annast löggildingu mælitækis að beiðni eiganda þess eða ábyrgðaraðila.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu löggildingaraðilar sem starfa samkvæmt framansögðu að löggildingu mælitækja í umboði stjórnvalda gera skil á eftirlitsgjaldinu til stjórnvaldsins. Hér er lagt til að skil verði gerð ársþriðjungslega, sbr. nánar ákvæði þessarar greinar um gjalddaga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að gjalddagi á gjaldi skv. 2. mgr. 33. gr. skuli vera 1. febrúar ár hvert.
    Greinin kveður auk þess á um útfyllingu skýrslna sem eftirlitsskyldum aðilum er gert að fylla út og senda til stjórnvaldsins í því skyni að tryggja trausta framkvæmd á innheimtum í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Jafnframt er nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um uppgjörstímabil og gjalddaga á eftirlitsgjaldi sem greitt er samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Hin faggilta skoðunarstofa mun innheimta gjald það sem hér er lagt til að verði innheimt af eigendum mælitækja þegar endurlöggilding tækis á sér stað. Faggiltum skoðunar- og prófunarstofum ber að gera upp slíka innheimtu með reglulegu millibili, sbr. nánar ákvæði í þessari grein. Gjald sem fellur á eigendur mælitækja skv. 2. mgr. 33. gr. ber þessum aðilum hins vegar að greiða og gera upp einu sinni á ári, þ.e. 1. febrúar ár hvert. Í þessari grein eru einnig nánari ákvæði um að heimilt sé að leggja á álag ef vanskil verða á gjaldi eða nauðsynlegum skýrslum. Heimilt er þó að kæra slíkar ákvarðanir Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Um 35. gr.

    Hér er kveðið á um að ráðherra skipi sex fulltrúa í fagráð sem starfa skal að faglegri ráðgjöf á sviði mælifræði. Hlutverk fagráðsins er veita Neytendastofu, stjórnvöldum og atvinnulífi ráðgjöf sem miðar að því að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífs og tryggja að hagnýtt sé alþjóðlegt samstarf sem miðar að því að greiða fyrir trausti og gagnkvæmum viðurkenningum í milliríkjaviðskiptum á sviði mælinga og mælifræði.
    Mikilvægt er við skipun fagráðs að þess sé gætt að þar sé fyrir hendi breið þekking á hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt þannig að unnt sé að tryggja vöxt og góð starfsskilyrði í atvinnulífinu sem taki mið af tæknilegri þróun og öðrum kröfum sem alþjóðlegt viðskiptaumhverfi gerir kröfur til. Þetta er gert með því að efla samskipti milli helstu hagsmunaaðila og stjórnvalda með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Viðskiptaráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Aðrir aðilar sem tilnefna einn fulltrúa hver eru Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök verslunar og þjónustu, Neytendasamtökin, en Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva tilnefna einn fulltrúa sameiginlega. Sérfræðingar Neytendastofu á sviði mælifræði ásamt forstjóra þegar það á við sitja fundi fagráðsins með fullt málfrelsi og tillögurétt. Formaður fagráðsins skipuleggur og boðar til funda með hliðsjón af þeim starfsreglum sem fagráðið setur sér. Þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í fagráð bera kostnað hver af sínum fulltrúa.

Um 36. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. kemur fram að Neytendastofu er heimilt að krefjast úrbóta af eftirlitsskyldum aðila þegar ljóst er að ákvæðum þessa frumvarps er ekki framfylgt. Úrbætur geta t.d. falist í því að koma aftur á lögmætu ástandi, t.d. með því að gera við mælitæki, gera viðeigandi ráðstafanir vegna merkinga, eða hvernig mæliniðurstöður séu tilgreindar. Í ákvæðinu er ætlast til að settur sé ákveðinn frestur til þess að verða við þeim tilmælum sem ákvæði þetta tekur til. Hversu langur frestur er veittur verður mælifræðilega stjórnvaldið að meta með hliðsjón af atvikum hverju sinni. Ef ekki er orðið við tilmælum innan þess frests sem stjórnvaldið ákveður er unnt að beita ákvæðum um dagsektir, sbr. nánar ákvæði 39. gr.
    Ef brotið telst verulegt er yfirleitt ekki unnt að fara fram á að gerðar séu úrbætur, sbr. 1. málsl., og ber því að leggja þegar bann við frekari notkun eða starfsemi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að allur kostnaður sem kann að hljótast af stöðvun starfsemi vegna tilmæla stjórnvaldsins samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps fellur að öllu leyti á hinn eftirlitsskylda aðila.

Um 37. gr.

    Hér er kveðið á um úrræði Neytendastofu til að leggja bann við sölu og afturkalla vöru af markaði. Á Neytendastofu hvílir samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps sú skylda að annast markaðseftirlit í samræmi við ákvæði frumvarpsins og í samræmi við reglur sem gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum, er að finna almenna heimild í 4. mgr. 1. gr. til eftirlitsstjórnvalda sem annast markaðseftirlit samkvæmt sérlögum að beita ákvæðum IV. og V. kafla laga nr. 134/1995 ef þess gerist þörf. Ákvæði þeirra laga koma því til viðbótar og jafnframt til fyllingar á ákvæðum þessa frumvarps um réttarúrræði Neytendastofu.

Um 38. gr.

    Hér er kveðið á um afturköllun á löggildingu og öðrum viðurkenningum. Eins og áður hefur komið fram er að finna heimild í frumvarpi þessu til Neytendastofu að veita viðurkenningu á kerfum sem eiga að tryggja að ákvæðum frumvarpsins eða reglum settum samkvæmt þeim sé fullnægt. Í því sambandi má nefna að í 16. gr. er að finna ákvæði sem eru grundvöllur fyrir innleiðingu á tilskipunum ESB um forpakkaðar vörur og svonefndar e-merkingar ef kerfi framleiðandans uppfyllir þær kröfur sem slíkar reglur setja að þessu leyti. Í 2. mgr. 16. gr. kemur fram að setja skuli nánari reglur um hvernig fullnægjandi samræmi verði tryggt þegar framleiðandi vill notfæra sér slíkar reglur. Brjóti aðili slíkar reglur er Neytendastofu heimilt að afturkalla slíka viðurkenningu.

Um 39. gr.

    Með dagsektum er átt við févíti sem er sekt til að knýja fram efndir. Greiða skal tiltekna fjárhæð fyrir hvern dag sem líður án þess að tiltekinni skuldbindingu sé fullnægt. Dagsektir eru ekki refsing heldur óbein þvingunaraðferð.
    Ákvörðun um dagsektir ber að tilkynna á sannanlegan hátt, t.d. með ábyrgðarbréfi eða staðfestu símskeyti.
    Unnt er að skjóta ákvörðun Neytendastofu um dagsektir til áfrýjunarnefndar neytendamála. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndarinnar falla ekki dagsektir á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Loks verður ákvörðun Neytendastofu um dagsektir ekki borin undir dómstóla fyrr en kæruleið samkvæmt lögunum er tæmd og úrskurður árýjunarnefndar liggur fyrir.

Um 40. gr.

    Í ákvæðinu felst að Neytendastofu verður veitt heimild til þess að leggja á stjórnvaldssektir ef eftirlitsskyldur aðili brýtur gegn lögunum, reglum settum samkvæmt þeim eða öðrum sérstökum fyrirmælum Neytendastofu sem hún kann að setja og birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Meginreglan á að verða sú að stjórnvaldssektir verði lagðar á ef umrædd brot eiga sér stað. Brot sem geta varðað stjórnvaldssektum verður að tilgreina með skýrum hætti í reglugerðum sem settar verða á grundvelli ákvæða í III. –V. kafla frumvarpsins. Stuðlar þetta að því að markmið laganna nái fram að ganga því að stjórnvaldssektum samkvæmt lögunum er ætlað með almennum og sérstökum varnaðaráhrifum að vinna gegn því að eftirlitsskyldir aðilar brjóti lögin. Hafa verður þó í huga 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um meðalhóf og ekki beita hærri sektum en nauðsynlegt þykir í hverju tilviki. Meginsjónarmiðið mun því verða að Neytendastofa beiti ekki stjórnvaldssektum nema brot sé verulegt, sbr. að öðru leyti almennar reglur stjórnsýsluréttarins svo og þau ákvæði sem gilda munu samkvæmt reglugerðum sem ráðherra setur um framkvæmd frumvarpsins.
    Stjórnvaldssektir geta numið allt að 10 millj. kr., sem er sama fjárhæð og tilgreind er í lögum nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir og fjárhæð þeirra eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála. Málskot til nefndarinnar frestar aðför samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Í 4.–5. mgr. er að finna ákvæði um greiðslufrest á stjórnvaldssektum og jafnframt heimild til ráðherra að setja nánari reglur um vexti og kostnað af slíkri sekt ef hún er ekki greidd á eindaga.

Um 41. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um viðurlög við brotum gegn þeim ákvæðum frumvarpsins sem talin eru upp í greininni svo og reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Skv. 1. mgr. er meginreglan að brot varði fésektum. Brot geta þó varðað allt að sex mánaða fangelsi ef sakir eru miklar. Þá er jafnframt heimilt að dæma sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
    Ekki er hér vikið frá þeirri meginreglu að refsa eigi fyrir brot sem unnið er af ásetningi eða gáleysi, nema annars sé sérstaklega getið. Hér er verið að undirstrika að refsað sé fyrir bæði saknæmisformin. Það er gert ex tuto eða til öryggis þannig að ljóst sé að gáleysi sé einnig refsivert. Nauðsynlegt þótti að mæla fyrir um þetta í lagatextanum sjálfum en láta ekki nægja gagnályktunina um sérrefsilög í 18. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sökum þess að margir ólöglærðir munu þurfa að fara eftir hinum nýju lögum. Þetta er sú lagatæknilega aðferð sem notuð hefur verið við þetta og löggjafinn hefur tekið afstöðu til þess hvaða saknæmisform á að vera um að ræða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að refsivert sé að gefa aðilum sem annast framkvæmd laganna ranga skýrslu en sambærilegt ákvæði er t.d. í 25. gr. laga nr. 57/2005 sem Neytendastofu hefur verið falin framkvæmd á.
    Í 3. mgr. er heimilað að sektir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins séu gerðar bæði lögaðilum og einstaklingum. Má ákvarða lögaðila sekt án tillits til þess hvort sök sé sönnuð á starfsmann lögaðilans. Einnig er heimilt að gera lögaðila sekt og sviptingu starfsréttinda ef starfsmaður hans hefur framið brot, ef brotið er drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Þá er mælt fyrir um að lögaðili beri ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota gegn lögunum sem tengd eru starfi hans hjá lögaðilanum. Tilgangur refsiábyrgðar lögaðila er að skapa aðhald í rekstri og auka líkur á að gerðar séu viðhlítandi aðgerðir til að koma í veg fyrir tjón. Málsgreinin er samhljóða sambærilegu ákvæði í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Loks er kveðið á um það í 4. mgr. að dæma megi sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli sem rís vegna brota á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Um 42. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru byggð á því viðhorfi að ekki verði bæði lögð á stjórnvaldssekt og dæmd refsing fyrir sama lögbrotið heldur verði önnur hvor leiðin valin. Þannig á ekki að koma til þess að mál verði rannsakað á sama tíma bæði hjá Neytendastofu og lögreglu. Samkvæmt ákvæðinu fellur það í hlut Neytendastofu að meta hvort ljúka beri máli með stjórnvaldssektum eða kæra það til lögreglu. Slíkt mat ræðst þá m.a. af alvarleika brots, hvort um ítrekað brot er að ræða o.fl. Við slíka framkvæmd verða stjórnvöld eins og ávallt að gæta samræmis og jafnréttis í lagaframkvæmd, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.
    Ákvæði 2. mgr. hafa þá þýðingu að ekki er litið á ákvörðun Neytendastofu um að kæra mál til lögreglu sem stjórnvaldsákvörðun. Af þeim sökum þarf ekki að gera hinum grunaða sérstaklega viðvart um þann möguleika að mál verði kært til lögreglu og veita honum aðgang að gögnum og færi á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Að öðrum kosti er hætta á að rannsókn lögreglu verði spillt. Þá er einnig tekið fram í ákvæðinu að ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvörðun Neytendastofu að kæra mál til lögreglu. Af þeim sökum er ekki hægt að kæra slíka ákvörðun Neytendastofu til viðskiptaráðherra til endurskoðunar.

Um 43. gr.

    Ákvæði þessa frumvarps skapar lagagrundvöll fyrir innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 2004/22/ESB, um mælitæki, sem og annarra gildandi tilskipana um mælitæki. Á grundvelli frumvarpsins þarf að setja reglugerðir þar sem nánar verða útfærðar ýmsar reglur tilskipananna varðandi mælitæki. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 44. gr.

    Í þessari grein er að finna almenna og hefðbundna heimild til ráðherra að setja nauðsynlegar reglugerðir vegna framkvæmdar laganna. Varðandi 2. mgr. er einn meigintilgangur frumvarpsins að tryggja fullnægjandi lagagrundvöll fyrir innleiðingu ákvæði tilskipunar 2004/22/EB, um mælitæki, í íslenskan rétt. Í 1. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um gildissvið hennar og hvaða mælitækjaflokka hún tekur til, sbr. jafnframt upptalningu á þeim í 32. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar kemur fram að aðildarríkin skuli ákveða sjálf hvort þau setji nánari reglur um notkun þessara tækja. Í 2. mgr. sömu greinar er hins vegar gerð sú krafa að ef aðildarríkin af einhverjum ástæðum sjá ekki ástæðu til þess setja nánari reglur um einhver þau mælitæki sem falla undir gildissvið hennar beri þeim að rökstyðja þá ákvörðun og senda upplýsingar um það til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ákvæði þessarar greinar er því innleiðing á framangreindri skyldu, þ.e. að ráðherra skuli rökstyðja og tilkynna um slíkar ákvarðanir til Eftirlitsstofnunar EFTA. Tilskipun nr. 2004/22/EB fellir í reynd úr gildi ýmis ákvæði í tilskipun 71/316/EBE en þó ekki öll ákvæði hennar. Af þeirri ástæðu verður hér einnig að vísa til þeirrar tilskipunar og þar með þeirra mælitækja sem falla undir gildissvið hennar.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringar.

Um 45. gr.

    Frumvarp þetta leysir af hólmi eldri löggjöf á sviði mælifræði sem hefur verið grundvöllur m.a. að innleiðingu eldri ESB-tilskipana. Það frumvarp sem hér liggur nú fyrir er jafnframt innleiðing á ákvæðum tilskipunar 2004/22/EB, um mælitæki. Samkvæmt ákvæði 24. gr. tilskipunarinnar ber aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu að hafa innleitt ákvæði hennar í landsrétt eigi síðar en 30. apríl 2006. Hér er því lagt til að gildistaka sé miðuð við framangreinda dagsetningu. Þegar eftir gildistöku laganna þarf að hefja undirbúning að gerð nauðsynlegra reglugerða sem eiga samkvæmt framangreindu ákvæði tilskipunarinnar að taka gildi eigi síðar en 30. október 2006. Með lögfestingu þess falla því úr gildi lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vegna bráðabirgðaákvæðis í 23. gr. tilskipunar nr. 2004/22/EB, um mælitæki, þarf að hafa í íslenskum lögum bráðabirgðaákvæði um gildistíma gerðarviðurkenninga.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

    Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja að á Íslandi hafi mælifræðin þá umgjörð að hún njóti trausts jafnt hér á landi sem á alþjóðlegum vettvangi. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar 2004/22/ESB. Í frumvarpinu er m.a. fjallað um sölu og markaðssetningu mælitækja, gildissvið og hlutverk stjórnsýslu, mælieiningar, mæligrunna, niðurstöður mælinga og framkvæmd eftirlits. Með frumvarpinu verður breyting á fjármögnun Neytendastofu þannig að greiðsla úr ríkissjóði lækkar en innheimtar ríkistekjur aukast. Tekjur ríkissjóðs munu aukast um 71,6 m.kr. með gjaldskrá eftirlitsaðila.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.